Í þessari grein verður listaverkið Piss Christ frá 1987 eftir Andres Serrano (f. 1950) tekið til athugunar. Fyrst verður vikið ögn að listamanninum og verkum hans. Þá verður listaverkinu lýst í nokkrum orðum og listfræðilegt samhengi þess athugað. Rætt verður um krosstáknið og í þessu tilviki sérstaklega um róðukross (lat. cruci fixus) kristninnar í trúarlegu og listfræðilegu samhengi; þýðingu þessa tákns fyrir kristið fólk. Þá verður reynt að flokka verkið í listfræðilegu tilliti. Guðlastshugtakið verður skilgreint og athugað hvort það nái til þessa verks eins og það stendur sjálft sem og með skýringum listamannsins sjálfs að viðbættri stöðu verksins í listaverkaröð hans. Einnig verður rætt um mikilvægi líkamans og sjálfsmyndar listamannsins og tengsla hans við verkið sem og tilvísun þess til andlegra þanka kristninnar. Þá niðurstaða.

Listamaðurinn

Andres Serrano er ljósmyndari, fæddur og uppalinn í Brooklyn-hverfinu í New York. Hann kemur frá rómversk-kaþólskri lágstéttarfjölskyldu af hondúrskum uppruna í föðurætt og afrísk-kúbönskum í móður, einkasonur þeirra.[1]

Hann kynntist því strax sem barn hvað það var að vera utangarðs í samfélaginu og gekk sjálfala og lærði að bjarga sér í stórborginni. Serrano ánetjaðist fíkniefnum um tíma og á ýmsu gekk í lífi hans. Rómversk-kaþólska kirkjan hefur verið efniviður hans í ljósmyndun og hefur hann margt að athuga við kirkjuna og afstöðu hennar til ýmissa minnihlutahópa í samfélaginu. Sjálfur hefur hann sagt að margar ljósmynda hans sýni andlegt stríð sitt við sitthvað úr rómversk-kaþólskri æsku og leitist hann við að átta sig á sambandi sínu við guð. Hann hefur ekki fordæmt kirkjuna eða trúna og segir reyndar sjálfur að hann hafi ekkert á móti því að vera kallaður kristinn maður.[2]

Serrano hefur tekið margar myndaraðir af því sem telst alla jafna vera óhugnanlegt (þ. unheimlich). Dæmi um það eru illa farin lík í líkhúsum, líf utangarðsfólks, og meðlimir í Ku-klux-klan hreyfingunni.[3]

Ljósmyndir Serrano eru því fyrst og fremst af fólki. Hann beinir sjónum sínum að líkömum þeirra og kjörum.

Sjálfsmynd (e. identity) listamannsins tengist umræddu verki. Serrano segist hafa verið tíður gestur á Metrópólitan-safninu og drukkið í sig hinar trúarlegu myndir frá endurreisnartímanum. Þar hafi hann tólf ára gamall ákveðið með sjálfum sér að verða listamaður. En hann heltist úr skóla þremur árum síðar og fór í óreglu. Serrano hefur tekið svo til orða að hann dragist að hlutum sem almennt eru ekki taldir til fyrirmyndar enda hafi hann fráleitt sjálfur verið til fyrirmyndar; sjálfur var hann um hríð hálfgerður utanveltuflækingur á jaðri samfélagsins. Kann að vera að hann sjái í Jesú utangarðsmann.[4] Þá hefur verið vakin athygli á þeirri bylgju sem fór yfir Bandaríkin á níunda áratugnum og snerist um heimildir vinnuveitenda til að taka þvagprufur af starfsfólki svo hægt væri að ganga úr skugga um hvort það hefði neytt vímuefna. Þetta hafi beint sjónum listamannsins sem sjálfur var í óreglu að þvagi sem efniviði sem yfirvöld voru einlægt að rýna í.[5]

Listaverkið

Listaverkið er unnið 1987. Það sýnir gullinn róðukross í örlítilli móðu og loftbólur í kring.

Verkið Piss Christ er að heildarumfangi 152 x 102 cm og minnir um margt á altaristöflu. Frá verkinu stafar veik gullin birta og er sem hún freyði ögn, minnir á „stjörnuljóma frá helgu ljósi“.[6] Aðalhluti listaverksins er ljósmynd af 33 sm háum róðukrossi úr tré og plasti. Myndin af róðukrossinum er í plexiglerhylki (ramma), 46 x 31 cm að stærð, og inniheldur 16 lítra af þvagi listamannsins sem hann safnaði á nokkrum vikum. Þvagið sem efniviður gerir verkið sérstakt enda líkamsvessi sem fólk lætur frá sér alla jafna í einrúmi. Fyrr á öldum gerði fólk reyndar minna veður út af þvaglátum í opnum rýmum heldur en nú á dögum; hafði meira umburðarlyndi gagnvart þeim.[7]

Verkið olli þó nokkrum usla þegar það var sýnt. Það var einkum íhaldssamt fólk í Bandaríkjunum og hægri sinnað sem snerist gegn verki Serranos. Hópur eins og Siðferðilegi meirihlutinn (e. Moral majority) lét mjög að sér kveða sem og fjöldi kristinna safnaða.[8] Hér er ekki tóm til að kafa ofan í kristinn trúarskilning Bandaríkjamanna. Hins vegar má fullyrða að heittrúað fólk sem er meðal annars í svokölluðum evangelískum söfnuðum þar í landi sé flest bókstafstrúar. Jafnframt er bandarískt trúarlíf mjög fjölbreytilegt.[9]

Listfræðilegt samhengi

Listaverkið var fyrst sýnt á sýningu í Stux Gallery í New York 1987. Þessi sýning fór til tíu borga frá Los Angeles til Pittsburgh og verk Serranos vakti ekki hneykslan á þeirri ferð. Fremur var dáðst að verkinu og blæbrigðum hins gullna litar. Það var ekki fyrr en verkið var sýnt í The Virginia Mouseum of Fine Art í Richmond að kurr reis.[10]

Serrano hefur gert fleiri verk í svipaðri dýfingarröð (e. immersions series) og Piss Christ. Þar má nefna Female Bust frá 1988 og Piss Discus frá sama ári, báðar umflotnar þvagi hans. Madonna and the child II, White Christ, umflotin mjólk og vatni, báðar frá 1989. Black Christ umflotinn vatni, St. Michael´s Blood, umflotin þvagi, og Black Supper III, umflotin vatni, og Rape of the Sabine Women I, þvagi og blóði, allar frá 1990.[11]

Róðukrossinn, eða krossfesting meistarans frá Nasaret, er myndefni í ógrynni listaverka allt frá endurreisnartíma og til þessa dags.

List sem vekur hroll og viðbjóð (e. abject art) er ætlað að ýta við áhorfendum og láta þá sjá eitthvað í nýju ljósi. Þar kemur líkaminn gjarnan við sögu.[12] Þessi listastefna var nokkuð algeng á níunda áratug síðustu aldar [13] og má í því sambandi einnig geta um hrellilist (e. shock-art).[14]

Verk Serranos, Piss Christ, vekur blendnar tilfinningar hjá fólki þegar það veit hvað það er sem gefur hinn gullna blæ á verkið. Verkið fellur að þeim flokki sem vekur hroll og viðbjóð (e. abject art) hjá sumum áhorfendum.

Ef staðsetja skal Serrano og þetta tiltekna verk hans innan listasögulegs samhengis koma ýmsar listastefnur til greina. Líkamsvessar eru nánast abstrakt í samhengi sínu í verkum hans. Þvagið myndar ýmsa liti og myndir. Í flokk trúarlegrar listar getur verkið fallið. Spyrja má líka hvort það flokkist sem listlíki (e. kitsch) – efniviður verksins er ódýr tré- og plast-róðukross.[15] Og ekki er þvagið dýrt. Eða má flokka verkið innan súrrealismans, í anda Man Rays, en hann var fyrsti súrrealíski ljósmyndarinn?[16] Þá hafa nokkrir viljað setja Piss Christ á stall með barokkverkum.[17] Eða þá sem pop-abstrakt verk.[18] Enn aðrir hafa flokkað það sem íkón sem gengur gegn hinu hefðbundna eins og verk Marchel Duchamps á sínum tíma, Móna Lísa með skegg. Markmið slíkra verka sé að svipta viðfangsefni listaverksins dulúð. Og enn aðrir telja verkið vera innan listahefðarinnar sem syngur dýrðaróð til gróteskunnar í anda kappanna Caravaggio, Goya og El Greco. Svo eru þau sem líta á verk Serranos sem kyrralífsmynd.[19]

Krosstáknið

Krossinn hefur verið tákn kristinna manna allt frá 2. öld og þá sem signing og blessun. Smíðaðir krossar sem trúartákn komu ekki fram fyrr en á 4. öld. Krossinn er útbreiddasta og æðsta tákn kristinnar trúar.[20]

Sem tákn kristinnar trúar og kristni hefur krossinn iðulega verið misnotaður til að beita valdi og reynslan sýnir að mati ýmissa guðfræðinga að „kross Krists getur orðið kúgunartæki í stað þess að vera tákn vonar andspænis illsku.“ Þess vegna verði að taka þá gagnrýni alvarlega sem bendir á annars vegar vafasamar athafnir og hins vegar umdeildar í skjóli krossins.[21] Engu að síður er krossinn enn órjúfanlegur hluti af sjálfsmynd kirkjunnar, algengasta og mikilvægasta tákn kristinna manna.

Í augum margra kristinna manna er krossinn heilagur. Rómversk-kaþólskir hafa um hönd sérstakar athafnir þar sem krossinn er tilbeðinn.[22]

Krossinn segir með beinum og óbeinum hætti sögu ákveðins líkama innan ramma kristinnar trúar. Þessi líkami var húðstrýktur, festur á kross og spjóti stungið í síðu hans.[23]

Túlkun á listaverkinu

1. Guðfræðileg

Róðukrossinn er krosstákn þar sem þjáning Krists er í fyrirrúmi. Krossinn er ólíkur til dæmis þeim krossi sem kallaður er Christus Victor og sýnir líkneski af Kristi en bil er á milli hans og krosstrésins sem á að sýna að hann sé upprisinn. Latneski krossinn er algengastur, hreinn og beinn, enginn líkami á honum. Einnig sigurtákn. Samkvæmt klassískri guðfræði var dauði Krists á krossi fórnardauði, hann galt með lífi sínu fyrir gjörðir mannkyns frá upphafi vega – og frelsaði það; það er fagnaðarerindið – og kenningar um þennan þátt kallast friðþægingarkenningar.[24]

Þá getur krossinn staðið sem almennt tákn fyrir kristna trú, kenningu, siði og hefðir.

Í þessu sambandi er nauðsynlegt að geta þeirrar kenningar kristinnar trúar að Jesús Kristur hafi verið „bæði Guð og maður jafnt“ og „…sannur Guð og sannur maður…“.[25] Hvað felur það í sér í þessu tilviki? Má líta svo á að verk Serranos, Piss Christ, sé í raun og veru í kórréttu samhengi við kenningu kristninnar um að Guð hafi gerst maður? Svo spyr bókmennta- og listfræðingurinn Richard Rambuss. Hann bendir á að mynd Serranos sýni afdráttarlaust að líkami Jesú hafi verið raunverulegur líkami. Hér sameinist hið andlega og líkamlega.[26] Listaverkið sé því ekki af hendi höfundar vanvirða við trúarlega siði og lærdóma. Hins vegar sé annað mál hvað viðtakendum verksins sýnist.

Hér má benda á það sem oft er rætt um innan hugvísinda en það er höfundurinn og verk hans. Þar er iðulega vitnað til Roland Barthes og „dauða höfundarins“ um leið og verkið er farið úr höndum hans í hendur lesanda/listneytanda.[27]

2. Listfræðileg
Listamenn hafa notað líkamann svo öldum skiptir til að koma list á framfæri. Húðflúr er ævafornt dæmi um það.[28] Munur er á líkama og þeim vessum og úrgangi sem hann lætur frá sér fara. Líkaminn starfar svo að hann lætur frá sér ýmis efni og ef svo færi ekki þá sýkist hann. Krossfestingarmyndir eiga sér langa sögu í listasögunni.

Fleiri listamenn hafa gert listaverk þar sem þeir notast við vessa líkamans. Þar má nefna Jackson Pollock, Robert Smithson og Andy Warhol.[29] Þá má nefna Ítalann Piero Manzoni sem sagðist hafa látið eigin saur í níu niðursuðudósir og er hver dós (30 g), nú feykidýrar.[30] Einnig Marc Quinn sem notar til dæmis blóð sitt og franska listakonan Orlan sem notar meðal annars hluta af eigin holdi.[31] James Luna notaði líkama sinn sem listsýningargrip til þess að árétta það í listfræðilegu samhengi að hann væri Indíáni.[32]

Efniviður listaverksins og túlkun á notkun hans

Þvaglát tilheyra hinu persónulega sviði hvers einstaklings. Þvagið hefur almennt verið talið til þeirra vessa líkamans sem tilheyra ekki hinu almenna rými enda um að ræða efni sem líkaminn losar sig við, úrgangsefni. Alla jafna er það ekki innan almenns velsæmis að losa þvag hér og þar (sums staðar eru viðurlög við því) ólíkt því að fólk sér í gegnum fingur sér með svitalykt af fólki.

Þvagið sem umflýtur umrætt listaverk Serranos er notað í listrænum tilgangi. Það er efni sem listamaðurinn hefur valið til að hafa áhrif á ljósmynd sína sakir þess litar sem það gefur. Enda þótt bent hafi verið á að önnur efni eins og hunang gefi svipaða áferð, þá er og önnur dýpri merking í vali listamannsins á þvaginu. Þar leikur á tveimur skautum eins og sagt er. Það má túlka verkið svo að því  mætist hinn jarðneski maður, Serrano, fyrir tilstilli þvagsins, og Kristur hinn krossfesti. Tveir líkamar, annar jarðneskur og hinn andlegur. Þessi mannlegi vessi verður nokkurs konar farvegur tengsla.

Ógerlegt er að sjá í verkinu sjálfu hvaða vökvi er notaður en listamaðurinn tók meðvitaða ákvörðun um nafn verksins. Með nafngiftinni hefur hann vakið spennu milli myndefnis og efniviðar. Myndin er trúarleg íkónagrafía en efnið sem umlykur hana er afstrakt tákn fyrir líkamlega vessa. Í verkinu mætist hið trúarlega og veraldlega.[33] Túlka má vessana sem merki um mennsku í návist hins heilaga.

Guðlastshugtakið

Þegar leita skal að skilgreiningu á hugtakinu guðlast koma ýmsar leiðir til greina. Á að skilgreina hugtakið með þröngum (lesist: ströngum) hætti eða opnum (lesist: frjálslyndum)?

Hvenær er réttmætt að skerða tjáningarfrelsi fólks vegna ummæla um það sem öðrum kann að finnast heilagt? Skilgreiningar á guðlasti voru almennt þrengri og harðari hér fyrrum. Gamlar skilgreiningar á guðlasti renna sitt skeið á enda og löggjöfin verður einfaldari.[34] Listamenn nútímans hafa miklu meira svigrúm til tjáningar en forverar þeirra.[35]

Samkvæmt Móselögum var það dauðasök að guðlasta – grýting.[36] Í Nýja testamentinu er haft eftir Jesú frá Nasaret að þau sem lastmæli gegn heilögum anda fái ekki fyrirgefningu heldur séu sek um „eilífa synd.“[37] Sjálfur var hann ásakaður fyrir að lastmæla, guðlasta.[38]

Hér verður stuðst við almenna skilgreiningu á hugtakinu guðlast: smána trúartilfinningu fólks. Réttur fólks til að afneita Guði eða að halda fram sínum eigin kenningum um hann eða trúfélags þess sem það tilheyrir, telst ekki vera guðlast. Víða um heim liggur dauðarefsing við guðlasti. Í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna er guðlast refsivert.[39]

Álitamálið sem er hér til umræðu, þ. e. hvort umrætt listaverk sé guðlast eða ekki, snýst um vægi þess sjónarhóls sem staðið er á hverju sinni.

Listamaðurinn sökkur mynd af Jesú Kristi í eigið þvag. Ekki til að vanvirða þessa sögulegu persónu heldur til að kalla fram sérstakan blæ eða jafnvel ljóma á mynd hans. Enginn hefur neitt við myndina að athuga meðan ekki er vitað með hvaða hætti þessi gullni blær er til kominn. Um leið og það er ljóst kann einhverjum að þykja þetta frumlegt, fallegt og athyglisvert; öðrum bregður hugsanlega illilega í brún og túlka verkið sem vanvirðu, guðlast, vegna þess að þetta tiltekna efni, þvag, hefur ákveðið sögulegt orðspor sem er að það sé hvort tveggja ógeðfellt og óhreint. Það sé efni sem skilur sig frá líkamanum á hverjum degi og hver og einn verður að lifa með. Hins vegar er játning kristinna manna sú að Guð hafi axlað byrðar holdsins, orðið maður, verið Guð og maður, í þessum tiltekna sögulega manni, Jesú frá Nasaret. Hafi hann verið mennskur sem og guðlegur, fylgir sitthvað mennskunni sem fólki þykir almennt ekki beint kræsilegt þó lífsnauðsynlegt sé eins og losun úrgangsefna frá líkamanum.

Hverju svarar listamaðurinn sjálfur? Serrano segist hafa notað þvagið til þess að gera Krist mannlegri, tengja hann við göfugmennsku og sorg. Hann hafi búið til íkónagrafískt portrett sem snýst um hið flókna kyngervi mannsins og manneskjuna í umbúðum holdsins.[40]

Líkaminn, hinn andlegi veruleiki og hinn veraldlegi

Líkami Krists var snemma settur í guðfræðilegt samhengi eins og fram kemur meðal annars í altarissakramentinu (kvöldmáltíðinni).[41] Hann var líka settur fram sem myndhvörf fyrir hinn kristna söfnuð – væri kirkjan.[42] Líkami hans hefur ætíð skipað háan sess meðal kristinna manna og ein hátíð hinnar rómversk-kaþólsku kirkju er hátíð líkama og blóðs Krists eða svokallaður dýridagur. Á þeim degi eru farnar helgigöngur með altarissakramentið (líkama og blóð að skilningi kaþólskra.)[43]

Trúarbrögð og þar með talin þau kristnu hafa reynt að stjórna líkömum fólks með ýmsum reglum um hvað sé hreint og hvað óhreint. Þetta á einkum við náin samskipti kynjanna og stöðu þeirra í samfélaginu, hvaða dýr séu hæf til neyslu, hreinsanir sem tengjast líkamanum o. fl.[44]

Kirkjuvald hefur alltaf talið sig hafa sitthvað um líkamann og andann að segja.

„Líkami heitir einn, inn óæðsti hlutur mannsins og inn ysti. En sá heitir önd, er bæði er innri og æðri. En sá heitir andi, er miklu er æðstur og göfgastur og innstur.“[45]

Í Nýja testamentinu er sagt að líkami mannsins sé musteri Guðs.[46] Með þeim orðum er maðurinn hvattur til ákveðinnar umgengni við líkama sinn og sjálfan sig á þeim forsendum að hann sé guðlegrar ættar.

Maðurinn er andleg vera í líkama. Þess vegna hafa mörg trúarbrögð reynt að ná tangarhaldi á manninum, þ. e. líkama hans, í gegnum ýmsa siði – og svo hefur verið frá fornri tíð. Nefna má föstur, sérstakt mataræði, líkamssjálfspíslir og skírlífi sem dæmi. Þá hafa trúarbrögð talið sérstaka þörf á margvíslegum reglum um konur, hegðun þeirra og líkama. Þetta á einkum við um ýmsa kristna söfnuði og íslam sem vísa þá til bókstafsins í trúarritum sínum.[47] En það eru ekki bara trúarbrögð sem vilja eitthvað um líkamann véla heldur einnig ýmis kerfi samfélagsins; veraldlega valdið smýgur um samfélagið „á sviði einstaklinganna, líkamanna…“ – þar er hið smásæja vald að störfum sem er hluti af þekkingarvaldi.[48] Þetta vald ber líka með sér siðferðisvald, t. d. í lagasetningum.

Niðurstaða

Þegar allt framansagt er haft í huga er niðurstaðan sú að verkið Piss Christ kann að vera guðlast í augum sumra en annarra ekki. Hér veltur eins og svo oft áður á því hver trúar- og hugmyndafræðileg afstaða viðtakandans er. Frá hvaða sjónarhóli verkið er metið. Túlkun á listaverkum getur verið ólík og strangt til tekið er engin ein réttari en önnur. Þar kemur til frelsi listneytandans, áhorfandans. Verkið, túlkunin er í hans höndum. Vissulega kann einhver að segja honum hver sé merking einhvers tiltekins verks en þegar öllu er á botninn hvolft þá er það túlkun hans sem segir honum hver merking þess sé. Sú túlkun getur verið tilfinningalegs eðlis eða rökstudd með einum eða öðrum hætti.

Tilvísanir 

[1] Wood, „Art or blasphemi?“, 1214.

[2] Hobbs, „Andres Serrano: Body Politic,“ 17,18.

[3] Hobbs, 100-135.

[4] Hobbs, 17.

[5] Hobbs, 29.

[6] Wood, „Art or blasphemi?“, 1214.

[7] Smith, „Evacuation, repair and beautification – dirt and the body,“ 13.

[8] Nakajima, „Contemporary Art and Censorship: The Australian Museum Context,“ 137.

[9] Fox, Jesus in America, history, 384, 405-407.

[10] Shine, „Taboo Icons – The Bodily Photography of Andres Serrano,“ 27.

[11] Hobbs, 33-35.

[12] Robertson og McDaniel, Themes of contemporary art – visual art after 1980, 106.

[13] Robertson og McDaniel, 180.

[14] Rambuss, „Sacred Subjects and the Aversive Metaphysical Conceit: Crashaw, Serrano, Offili,“ 11.

[15] Rambuss, „Sacred Subjects and the Aversive Metaphysical Conceit: Crashaw, Serrano, Offili,“ 9.  Og: Shine, „Taboo Icons – The Bodily Photography of Andres Serrano,“ 34.

[16] Dempsey, Modern art, 83-84.

[17] Shine, „Taboo Icons – The Bodily Photography of Andres Serrano,“ 27.

[18] Rambuss, „Sacred Subjects and the Aversive Metaphysical Conceit: Crashaw, Serrano, Offili,“ 7.

[19] Richards, „Taking the piss: From Serrano to Surfwear,“ 34 og 37.

[20] Sigurður Pálsson, Saga og efni messunnar, 280.

[21] Arnfríður Guðmundsdóttir, „Kúgunartæki eða tákn um von? Um túlkun og hlutverk krossins í kristinni trúarhefð,“ 133-134.

[22] Hobbs, 33-39.

[23] Biblían 2007, Jóhannesarguðspjall 19.1 (húðstrýktur), Markúsarguðspjall 15. 24 (krossfestur), Jóhannesarguðspjall 19.34 (spjóti stungið í síðu hans).

[24] Einar Sigurbjörnsson, Credo, kristin trúfræði, 264-265, 276-278.

[25] Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar, 155 og 176.

[26] Rambuss, „Sacred Subjects and the Aversive Metaphysical Conceit: Crashaw, Serrano, Offili,“ 12.

[27] Barthes, „Dauði höfundarins,“ 176: Höfundur: „…er hugsaður sem fortíð sinnar eigin bókar: bók og höfundur standa sjálfkrafa á einfaldri línu sem skiptist í fyrir og eftir.“

[28] Thomas, Cole, Douglas, Tattoo – Bodies, Art and Exchange in the Pacific and the West, 14, 33.

[29] Hobbs, 29.

[30] Miodownik„Is modern art sh!t?“, 6. – Manzoni er talinn vera einn af frumkvöðlum listastefnunnar arte povera (list snauðra) sem gengur meðal annar út á það að nota verðlaus efni við listsköpun: The Concise Oxford Dictionary of Art and Artistst, 285, 19.

[31] Oetti, „The Artist´s Body in the Age of Genomic Reproduction,“ 48-49.

[32] Robertson og McDaniel, 53-54.

[33] Shine, „Taboo Icons – The Bodily Photography of Andres Serrano,“ 31, 32.

[34] Bjarni Sigurðsson, „Frá goðgá til guðlasts,“ 2-3.

[35] Nakajima, „Contemporary Art and Censorship: The Australian Museum Context,“, 130.

[36] Biblían 2007, 3. Mósebók 24.10-23.

[37] Biblían 2007, Markúsarguðspjall 3.28-29: „Sannlega segi ég ykkur: Allt verður mannanna börnum fyrirgefið, allar syndir þeirra og lastmælin, hve mjög sem þau kunna að lastmæla, en sá sem lastmælir gegn heilögum anda fær eigi fyrirgefningu um aldur, hann er sekur um eilífa synd.“

[38] Biblían 2007, Markúsarguðspjall 3.7; Matteusarguðspjall 9.3; 26.65.

[39] The New Encylopædia Britannica, „blasphemi.“

[40]Nakajima, „Contemporary Art and Censorship: The Australian Museum Context,“ 133, 136.

[41]Biblían, 2007, „Því að ég hef meðtekið frá Drottni það sem ég hef kennt ykkur: Nóttina, sem Drottinn Jesús var svikinn, tók hann brauð, gerði þakkir, braut það og sagði: „Þetta er líkami minn. Gjörið þetta í mína minningu.“ Sömuleiðis tók hann og bikarinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: „Þessi bikar er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði. Gjörið þetta, svo oft sem þér drekkið, í mína minningu.“ “

[42] Til dæmis í bréfi Páls til Efesusmanna, 1.23: „En kirkjan er líkami hans og fyllist af honum sem sjálfur fyllir allt í öllu.“ – „Eins erum við, þótt mörg séum, einn líkami í Kristi en hvert um sig annars limir.“ Bréf Páls til Rómverja, 12.5. Og: „Enginn hefur nokkru sinni hatað eigið hold heldur elur hann það og annast eins og Kristur kirkjuna því við erum limir á líkama hans.“ Bréf Páls til Efesusmanna, 5.29-30. – Biblían 2007.

[43] Broomé, Kaþólskur siður, kirkjan, kenningin, köllunin, 67.

[44] Nelson, Embodiment – an approach to sexuality and christian theology, 22-24

[45] Íslensk hómilíubók, fornar stólræður, 174.

[46] Fyrra bréf Pál til Korintumanna 3. 16-17: „Vitið þið eigi að þið eruð musteri Guðs og að andi Guðs býr í ykkur? Ef nokkur eyðir musteri Guðs mun Guð eyða honum því að musteri Guðs er heilagt og þið eruð það musteri.“ – Biblían 2007.

[47] DeMello, Body studies – an introduction, 236.

[48] Focault, „Líkami hinna dæmdu,“ 124-125.

Heimildir

Arnfríður Guðmundsdóttir, „Kúgunartæki eða tákn um von? Um túlkun og hlutverk krossins í kristinni trúarhefð,“ Studia Theologica Islandica, Ritröð Guðfræðistofnunar – Tileinkuð dr. Birni Björnssyni, sjötugum, 24, 2007: 133-134.

Barthes, Roland, „Dauði höfundarins.“ Þýð. Kristín Birgisdóttir og Kristín Viðarsdóttir, í Spor í bókmenntafræði 20. aldar. Ritstj. Garðar Baldvinsson, Kristín Birgisdóttir, Kristín Viðarsdóttir. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 1991: 173-181.

Bjarni Sigurðsson, „Frá goðgá til guðlasts,“ Erindi og greinar, 12, ritstj. Páll Sigurðsson. Reykjavík: Félag áhugamanna um réttarsögu, 1984.

Broomé, Catharina, Kaþólskur siður, kirkjan, kenningin, köllunin, ísl. þýð. Torfi Ólafsson. Reykjavík: Þorlákssjóður, 1995.

DeMello, Margo, Body studies – an introduction, London: Routledge, 2014.

Einar Sigurbjörnsson, Credo, kristin trúfræði. Reykjavík: Háskólaútgáfan/Guðfræðistofnun: 1989.

Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar, Reykjavík: Skálholtsútgáfan: 1991.

Focault, Michel, „Líkami hinna dæmdu.“ Þýð. Björn Þorsteinsson, í Alsæi, vald og þekking. Úrval greina og bókakafla. Ritstj. Garðar Baldvinsson. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2005:124-125.

Fox, Richard Wightman, Jesus in America, history, New York: HarperCollins Publishers, 2004.

Íslensk hómilíubók, fornar stólræður, Sigurbjörn Einarsson, Guðrún Kvaran, Gunnlaugur Ingólfsson, rituðu inngang. Reykjavík: Hið ísl. bókmenntafélag, 1993.

McDaniel, Craig, og Robertson, Jean,Themes of contemporary art – visual art after 1980, New York: Oxford University Press, 2022.

Makiko, Nakajima, „Contemporary Art and Censorship: The Australian Museum Context,“ The International Journal of the Inclusive Museum, vol. 3, nr. 4, (2011): 130.

Miodownik, Mark, „Is modern art sh!t?“, Materials today, vol., 10, nr. 6, (2007): 6.

Hobbs, Robert, „Andres Serrano: Body Politics.“ Í Andres Serrano, works 1983-1993, ritstj. Patrick Murphy, 17-43. Philadelphia: Institute of Conpemproary Art University of Pennsylvania, 1994.

Nelson, James B., Embodiment – an approach to sexuality and christian theology, London: SPCK, 1978.

Nicholas Thomas, Anna Cole og Bronwen Douglas, ritstj., Tattoo – Bodies, Art and Exchange in the Pacific and the West, ritstj, London: Reaktion books, 2005.

Oetti, Barbara Ursula, „The Artist´s Body in the Age of Genomic Reproduction,“ Living Matter: The Preservation of Biological Meterials in Contempory Art, (ekkert), (2022): 48-49.

Rambuss, Richard, „Sacred Subjects and the Aversive Metaphysical Conceit: Crashaw, Serrano, Offili,“ ELH, vol. 71, nr. 2 (2004): 7, 9, 11, 12. Sótt: 6. febrúar 2024.

Richards, Morgan, „Taking the piss: From Serrano to Surfwear.“ Media International Australia, vol. 92, ágúst (1999), 34, 37.

Shine, Tyler, „Taboo Icons – The Bodily Photography of Andres Serrano,“ Contemporaneity: Historical Presence in Visual Culture, vol. 4, nr. 1 (2015): 27.

Smith, Virginia, „Evacuation, repair and beautification – dirt and the body.“ 1. kafli í The Filthy Reality of Everyday Life DIRT. London: Profile Books, 2011.

Sigurður Pálsson, Saga og efni messunnar. Reykjavík: Þjóðsaga,1981.

The Concise Oxford Dictionary of Art and Artistst, ritstj. Ian Chilvers, New York: Oxford University Press, 1990.

The New Encylopædia Britannica, vol. 2, Micropædia, 15. útg. Chicago: Enclyclopædia Britannica, Inc., 1985.

Wood, Catherine, „Art or blasphemi?“, The Lancet, vol., 357, (2001): 1214.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Í þessari grein verður listaverkið Piss Christ frá 1987 eftir Andres Serrano (f. 1950) tekið til athugunar. Fyrst verður vikið ögn að listamanninum og verkum hans. Þá verður listaverkinu lýst í nokkrum orðum og listfræðilegt samhengi þess athugað. Rætt verður um krosstáknið og í þessu tilviki sérstaklega um róðukross (lat. cruci fixus) kristninnar í trúarlegu og listfræðilegu samhengi; þýðingu þessa tákns fyrir kristið fólk. Þá verður reynt að flokka verkið í listfræðilegu tilliti. Guðlastshugtakið verður skilgreint og athugað hvort það nái til þessa verks eins og það stendur sjálft sem og með skýringum listamannsins sjálfs að viðbættri stöðu verksins í listaverkaröð hans. Einnig verður rætt um mikilvægi líkamans og sjálfsmyndar listamannsins og tengsla hans við verkið sem og tilvísun þess til andlegra þanka kristninnar. Þá niðurstaða.

Listamaðurinn

Andres Serrano er ljósmyndari, fæddur og uppalinn í Brooklyn-hverfinu í New York. Hann kemur frá rómversk-kaþólskri lágstéttarfjölskyldu af hondúrskum uppruna í föðurætt og afrísk-kúbönskum í móður, einkasonur þeirra.[1]

Hann kynntist því strax sem barn hvað það var að vera utangarðs í samfélaginu og gekk sjálfala og lærði að bjarga sér í stórborginni. Serrano ánetjaðist fíkniefnum um tíma og á ýmsu gekk í lífi hans. Rómversk-kaþólska kirkjan hefur verið efniviður hans í ljósmyndun og hefur hann margt að athuga við kirkjuna og afstöðu hennar til ýmissa minnihlutahópa í samfélaginu. Sjálfur hefur hann sagt að margar ljósmynda hans sýni andlegt stríð sitt við sitthvað úr rómversk-kaþólskri æsku og leitist hann við að átta sig á sambandi sínu við guð. Hann hefur ekki fordæmt kirkjuna eða trúna og segir reyndar sjálfur að hann hafi ekkert á móti því að vera kallaður kristinn maður.[2]

Serrano hefur tekið margar myndaraðir af því sem telst alla jafna vera óhugnanlegt (þ. unheimlich). Dæmi um það eru illa farin lík í líkhúsum, líf utangarðsfólks, og meðlimir í Ku-klux-klan hreyfingunni.[3]

Ljósmyndir Serrano eru því fyrst og fremst af fólki. Hann beinir sjónum sínum að líkömum þeirra og kjörum.

Sjálfsmynd (e. identity) listamannsins tengist umræddu verki. Serrano segist hafa verið tíður gestur á Metrópólitan-safninu og drukkið í sig hinar trúarlegu myndir frá endurreisnartímanum. Þar hafi hann tólf ára gamall ákveðið með sjálfum sér að verða listamaður. En hann heltist úr skóla þremur árum síðar og fór í óreglu. Serrano hefur tekið svo til orða að hann dragist að hlutum sem almennt eru ekki taldir til fyrirmyndar enda hafi hann fráleitt sjálfur verið til fyrirmyndar; sjálfur var hann um hríð hálfgerður utanveltuflækingur á jaðri samfélagsins. Kann að vera að hann sjái í Jesú utangarðsmann.[4] Þá hefur verið vakin athygli á þeirri bylgju sem fór yfir Bandaríkin á níunda áratugnum og snerist um heimildir vinnuveitenda til að taka þvagprufur af starfsfólki svo hægt væri að ganga úr skugga um hvort það hefði neytt vímuefna. Þetta hafi beint sjónum listamannsins sem sjálfur var í óreglu að þvagi sem efniviði sem yfirvöld voru einlægt að rýna í.[5]

Listaverkið

Listaverkið er unnið 1987. Það sýnir gullinn róðukross í örlítilli móðu og loftbólur í kring.

Verkið Piss Christ er að heildarumfangi 152 x 102 cm og minnir um margt á altaristöflu. Frá verkinu stafar veik gullin birta og er sem hún freyði ögn, minnir á „stjörnuljóma frá helgu ljósi“.[6] Aðalhluti listaverksins er ljósmynd af 33 sm háum róðukrossi úr tré og plasti. Myndin af róðukrossinum er í plexiglerhylki (ramma), 46 x 31 cm að stærð, og inniheldur 16 lítra af þvagi listamannsins sem hann safnaði á nokkrum vikum. Þvagið sem efniviður gerir verkið sérstakt enda líkamsvessi sem fólk lætur frá sér alla jafna í einrúmi. Fyrr á öldum gerði fólk reyndar minna veður út af þvaglátum í opnum rýmum heldur en nú á dögum; hafði meira umburðarlyndi gagnvart þeim.[7]

Verkið olli þó nokkrum usla þegar það var sýnt. Það var einkum íhaldssamt fólk í Bandaríkjunum og hægri sinnað sem snerist gegn verki Serranos. Hópur eins og Siðferðilegi meirihlutinn (e. Moral majority) lét mjög að sér kveða sem og fjöldi kristinna safnaða.[8] Hér er ekki tóm til að kafa ofan í kristinn trúarskilning Bandaríkjamanna. Hins vegar má fullyrða að heittrúað fólk sem er meðal annars í svokölluðum evangelískum söfnuðum þar í landi sé flest bókstafstrúar. Jafnframt er bandarískt trúarlíf mjög fjölbreytilegt.[9]

Listfræðilegt samhengi

Listaverkið var fyrst sýnt á sýningu í Stux Gallery í New York 1987. Þessi sýning fór til tíu borga frá Los Angeles til Pittsburgh og verk Serranos vakti ekki hneykslan á þeirri ferð. Fremur var dáðst að verkinu og blæbrigðum hins gullna litar. Það var ekki fyrr en verkið var sýnt í The Virginia Mouseum of Fine Art í Richmond að kurr reis.[10]

Serrano hefur gert fleiri verk í svipaðri dýfingarröð (e. immersions series) og Piss Christ. Þar má nefna Female Bust frá 1988 og Piss Discus frá sama ári, báðar umflotnar þvagi hans. Madonna and the child II, White Christ, umflotin mjólk og vatni, báðar frá 1989. Black Christ umflotinn vatni, St. Michael´s Blood, umflotin þvagi, og Black Supper III, umflotin vatni, og Rape of the Sabine Women I, þvagi og blóði, allar frá 1990.[11]

Róðukrossinn, eða krossfesting meistarans frá Nasaret, er myndefni í ógrynni listaverka allt frá endurreisnartíma og til þessa dags.

List sem vekur hroll og viðbjóð (e. abject art) er ætlað að ýta við áhorfendum og láta þá sjá eitthvað í nýju ljósi. Þar kemur líkaminn gjarnan við sögu.[12] Þessi listastefna var nokkuð algeng á níunda áratug síðustu aldar [13] og má í því sambandi einnig geta um hrellilist (e. shock-art).[14]

Verk Serranos, Piss Christ, vekur blendnar tilfinningar hjá fólki þegar það veit hvað það er sem gefur hinn gullna blæ á verkið. Verkið fellur að þeim flokki sem vekur hroll og viðbjóð (e. abject art) hjá sumum áhorfendum.

Ef staðsetja skal Serrano og þetta tiltekna verk hans innan listasögulegs samhengis koma ýmsar listastefnur til greina. Líkamsvessar eru nánast abstrakt í samhengi sínu í verkum hans. Þvagið myndar ýmsa liti og myndir. Í flokk trúarlegrar listar getur verkið fallið. Spyrja má líka hvort það flokkist sem listlíki (e. kitsch) – efniviður verksins er ódýr tré- og plast-róðukross.[15] Og ekki er þvagið dýrt. Eða má flokka verkið innan súrrealismans, í anda Man Rays, en hann var fyrsti súrrealíski ljósmyndarinn?[16] Þá hafa nokkrir viljað setja Piss Christ á stall með barokkverkum.[17] Eða þá sem pop-abstrakt verk.[18] Enn aðrir hafa flokkað það sem íkón sem gengur gegn hinu hefðbundna eins og verk Marchel Duchamps á sínum tíma, Móna Lísa með skegg. Markmið slíkra verka sé að svipta viðfangsefni listaverksins dulúð. Og enn aðrir telja verkið vera innan listahefðarinnar sem syngur dýrðaróð til gróteskunnar í anda kappanna Caravaggio, Goya og El Greco. Svo eru þau sem líta á verk Serranos sem kyrralífsmynd.[19]

Krosstáknið

Krossinn hefur verið tákn kristinna manna allt frá 2. öld og þá sem signing og blessun. Smíðaðir krossar sem trúartákn komu ekki fram fyrr en á 4. öld. Krossinn er útbreiddasta og æðsta tákn kristinnar trúar.[20]

Sem tákn kristinnar trúar og kristni hefur krossinn iðulega verið misnotaður til að beita valdi og reynslan sýnir að mati ýmissa guðfræðinga að „kross Krists getur orðið kúgunartæki í stað þess að vera tákn vonar andspænis illsku.“ Þess vegna verði að taka þá gagnrýni alvarlega sem bendir á annars vegar vafasamar athafnir og hins vegar umdeildar í skjóli krossins.[21] Engu að síður er krossinn enn órjúfanlegur hluti af sjálfsmynd kirkjunnar, algengasta og mikilvægasta tákn kristinna manna.

Í augum margra kristinna manna er krossinn heilagur. Rómversk-kaþólskir hafa um hönd sérstakar athafnir þar sem krossinn er tilbeðinn.[22]

Krossinn segir með beinum og óbeinum hætti sögu ákveðins líkama innan ramma kristinnar trúar. Þessi líkami var húðstrýktur, festur á kross og spjóti stungið í síðu hans.[23]

Túlkun á listaverkinu

1. Guðfræðileg

Róðukrossinn er krosstákn þar sem þjáning Krists er í fyrirrúmi. Krossinn er ólíkur til dæmis þeim krossi sem kallaður er Christus Victor og sýnir líkneski af Kristi en bil er á milli hans og krosstrésins sem á að sýna að hann sé upprisinn. Latneski krossinn er algengastur, hreinn og beinn, enginn líkami á honum. Einnig sigurtákn. Samkvæmt klassískri guðfræði var dauði Krists á krossi fórnardauði, hann galt með lífi sínu fyrir gjörðir mannkyns frá upphafi vega – og frelsaði það; það er fagnaðarerindið – og kenningar um þennan þátt kallast friðþægingarkenningar.[24]

Þá getur krossinn staðið sem almennt tákn fyrir kristna trú, kenningu, siði og hefðir.

Í þessu sambandi er nauðsynlegt að geta þeirrar kenningar kristinnar trúar að Jesús Kristur hafi verið „bæði Guð og maður jafnt“ og „…sannur Guð og sannur maður…“.[25] Hvað felur það í sér í þessu tilviki? Má líta svo á að verk Serranos, Piss Christ, sé í raun og veru í kórréttu samhengi við kenningu kristninnar um að Guð hafi gerst maður? Svo spyr bókmennta- og listfræðingurinn Richard Rambuss. Hann bendir á að mynd Serranos sýni afdráttarlaust að líkami Jesú hafi verið raunverulegur líkami. Hér sameinist hið andlega og líkamlega.[26] Listaverkið sé því ekki af hendi höfundar vanvirða við trúarlega siði og lærdóma. Hins vegar sé annað mál hvað viðtakendum verksins sýnist.

Hér má benda á það sem oft er rætt um innan hugvísinda en það er höfundurinn og verk hans. Þar er iðulega vitnað til Roland Barthes og „dauða höfundarins“ um leið og verkið er farið úr höndum hans í hendur lesanda/listneytanda.[27]

2. Listfræðileg
Listamenn hafa notað líkamann svo öldum skiptir til að koma list á framfæri. Húðflúr er ævafornt dæmi um það.[28] Munur er á líkama og þeim vessum og úrgangi sem hann lætur frá sér fara. Líkaminn starfar svo að hann lætur frá sér ýmis efni og ef svo færi ekki þá sýkist hann. Krossfestingarmyndir eiga sér langa sögu í listasögunni.

Fleiri listamenn hafa gert listaverk þar sem þeir notast við vessa líkamans. Þar má nefna Jackson Pollock, Robert Smithson og Andy Warhol.[29] Þá má nefna Ítalann Piero Manzoni sem sagðist hafa látið eigin saur í níu niðursuðudósir og er hver dós (30 g), nú feykidýrar.[30] Einnig Marc Quinn sem notar til dæmis blóð sitt og franska listakonan Orlan sem notar meðal annars hluta af eigin holdi.[31] James Luna notaði líkama sinn sem listsýningargrip til þess að árétta það í listfræðilegu samhengi að hann væri Indíáni.[32]

Efniviður listaverksins og túlkun á notkun hans

Þvaglát tilheyra hinu persónulega sviði hvers einstaklings. Þvagið hefur almennt verið talið til þeirra vessa líkamans sem tilheyra ekki hinu almenna rými enda um að ræða efni sem líkaminn losar sig við, úrgangsefni. Alla jafna er það ekki innan almenns velsæmis að losa þvag hér og þar (sums staðar eru viðurlög við því) ólíkt því að fólk sér í gegnum fingur sér með svitalykt af fólki.

Þvagið sem umflýtur umrætt listaverk Serranos er notað í listrænum tilgangi. Það er efni sem listamaðurinn hefur valið til að hafa áhrif á ljósmynd sína sakir þess litar sem það gefur. Enda þótt bent hafi verið á að önnur efni eins og hunang gefi svipaða áferð, þá er og önnur dýpri merking í vali listamannsins á þvaginu. Þar leikur á tveimur skautum eins og sagt er. Það má túlka verkið svo að því  mætist hinn jarðneski maður, Serrano, fyrir tilstilli þvagsins, og Kristur hinn krossfesti. Tveir líkamar, annar jarðneskur og hinn andlegur. Þessi mannlegi vessi verður nokkurs konar farvegur tengsla.

Ógerlegt er að sjá í verkinu sjálfu hvaða vökvi er notaður en listamaðurinn tók meðvitaða ákvörðun um nafn verksins. Með nafngiftinni hefur hann vakið spennu milli myndefnis og efniviðar. Myndin er trúarleg íkónagrafía en efnið sem umlykur hana er afstrakt tákn fyrir líkamlega vessa. Í verkinu mætist hið trúarlega og veraldlega.[33] Túlka má vessana sem merki um mennsku í návist hins heilaga.

Guðlastshugtakið

Þegar leita skal að skilgreiningu á hugtakinu guðlast koma ýmsar leiðir til greina. Á að skilgreina hugtakið með þröngum (lesist: ströngum) hætti eða opnum (lesist: frjálslyndum)?

Hvenær er réttmætt að skerða tjáningarfrelsi fólks vegna ummæla um það sem öðrum kann að finnast heilagt? Skilgreiningar á guðlasti voru almennt þrengri og harðari hér fyrrum. Gamlar skilgreiningar á guðlasti renna sitt skeið á enda og löggjöfin verður einfaldari.[34] Listamenn nútímans hafa miklu meira svigrúm til tjáningar en forverar þeirra.[35]

Samkvæmt Móselögum var það dauðasök að guðlasta – grýting.[36] Í Nýja testamentinu er haft eftir Jesú frá Nasaret að þau sem lastmæli gegn heilögum anda fái ekki fyrirgefningu heldur séu sek um „eilífa synd.“[37] Sjálfur var hann ásakaður fyrir að lastmæla, guðlasta.[38]

Hér verður stuðst við almenna skilgreiningu á hugtakinu guðlast: smána trúartilfinningu fólks. Réttur fólks til að afneita Guði eða að halda fram sínum eigin kenningum um hann eða trúfélags þess sem það tilheyrir, telst ekki vera guðlast. Víða um heim liggur dauðarefsing við guðlasti. Í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna er guðlast refsivert.[39]

Álitamálið sem er hér til umræðu, þ. e. hvort umrætt listaverk sé guðlast eða ekki, snýst um vægi þess sjónarhóls sem staðið er á hverju sinni.

Listamaðurinn sökkur mynd af Jesú Kristi í eigið þvag. Ekki til að vanvirða þessa sögulegu persónu heldur til að kalla fram sérstakan blæ eða jafnvel ljóma á mynd hans. Enginn hefur neitt við myndina að athuga meðan ekki er vitað með hvaða hætti þessi gullni blær er til kominn. Um leið og það er ljóst kann einhverjum að þykja þetta frumlegt, fallegt og athyglisvert; öðrum bregður hugsanlega illilega í brún og túlka verkið sem vanvirðu, guðlast, vegna þess að þetta tiltekna efni, þvag, hefur ákveðið sögulegt orðspor sem er að það sé hvort tveggja ógeðfellt og óhreint. Það sé efni sem skilur sig frá líkamanum á hverjum degi og hver og einn verður að lifa með. Hins vegar er játning kristinna manna sú að Guð hafi axlað byrðar holdsins, orðið maður, verið Guð og maður, í þessum tiltekna sögulega manni, Jesú frá Nasaret. Hafi hann verið mennskur sem og guðlegur, fylgir sitthvað mennskunni sem fólki þykir almennt ekki beint kræsilegt þó lífsnauðsynlegt sé eins og losun úrgangsefna frá líkamanum.

Hverju svarar listamaðurinn sjálfur? Serrano segist hafa notað þvagið til þess að gera Krist mannlegri, tengja hann við göfugmennsku og sorg. Hann hafi búið til íkónagrafískt portrett sem snýst um hið flókna kyngervi mannsins og manneskjuna í umbúðum holdsins.[40]

Líkaminn, hinn andlegi veruleiki og hinn veraldlegi

Líkami Krists var snemma settur í guðfræðilegt samhengi eins og fram kemur meðal annars í altarissakramentinu (kvöldmáltíðinni).[41] Hann var líka settur fram sem myndhvörf fyrir hinn kristna söfnuð – væri kirkjan.[42] Líkami hans hefur ætíð skipað háan sess meðal kristinna manna og ein hátíð hinnar rómversk-kaþólsku kirkju er hátíð líkama og blóðs Krists eða svokallaður dýridagur. Á þeim degi eru farnar helgigöngur með altarissakramentið (líkama og blóð að skilningi kaþólskra.)[43]

Trúarbrögð og þar með talin þau kristnu hafa reynt að stjórna líkömum fólks með ýmsum reglum um hvað sé hreint og hvað óhreint. Þetta á einkum við náin samskipti kynjanna og stöðu þeirra í samfélaginu, hvaða dýr séu hæf til neyslu, hreinsanir sem tengjast líkamanum o. fl.[44]

Kirkjuvald hefur alltaf talið sig hafa sitthvað um líkamann og andann að segja.

„Líkami heitir einn, inn óæðsti hlutur mannsins og inn ysti. En sá heitir önd, er bæði er innri og æðri. En sá heitir andi, er miklu er æðstur og göfgastur og innstur.“[45]

Í Nýja testamentinu er sagt að líkami mannsins sé musteri Guðs.[46] Með þeim orðum er maðurinn hvattur til ákveðinnar umgengni við líkama sinn og sjálfan sig á þeim forsendum að hann sé guðlegrar ættar.

Maðurinn er andleg vera í líkama. Þess vegna hafa mörg trúarbrögð reynt að ná tangarhaldi á manninum, þ. e. líkama hans, í gegnum ýmsa siði – og svo hefur verið frá fornri tíð. Nefna má föstur, sérstakt mataræði, líkamssjálfspíslir og skírlífi sem dæmi. Þá hafa trúarbrögð talið sérstaka þörf á margvíslegum reglum um konur, hegðun þeirra og líkama. Þetta á einkum við um ýmsa kristna söfnuði og íslam sem vísa þá til bókstafsins í trúarritum sínum.[47] En það eru ekki bara trúarbrögð sem vilja eitthvað um líkamann véla heldur einnig ýmis kerfi samfélagsins; veraldlega valdið smýgur um samfélagið „á sviði einstaklinganna, líkamanna…“ – þar er hið smásæja vald að störfum sem er hluti af þekkingarvaldi.[48] Þetta vald ber líka með sér siðferðisvald, t. d. í lagasetningum.

Niðurstaða

Þegar allt framansagt er haft í huga er niðurstaðan sú að verkið Piss Christ kann að vera guðlast í augum sumra en annarra ekki. Hér veltur eins og svo oft áður á því hver trúar- og hugmyndafræðileg afstaða viðtakandans er. Frá hvaða sjónarhóli verkið er metið. Túlkun á listaverkum getur verið ólík og strangt til tekið er engin ein réttari en önnur. Þar kemur til frelsi listneytandans, áhorfandans. Verkið, túlkunin er í hans höndum. Vissulega kann einhver að segja honum hver sé merking einhvers tiltekins verks en þegar öllu er á botninn hvolft þá er það túlkun hans sem segir honum hver merking þess sé. Sú túlkun getur verið tilfinningalegs eðlis eða rökstudd með einum eða öðrum hætti.

Tilvísanir 

[1] Wood, „Art or blasphemi?“, 1214.

[2] Hobbs, „Andres Serrano: Body Politic,“ 17,18.

[3] Hobbs, 100-135.

[4] Hobbs, 17.

[5] Hobbs, 29.

[6] Wood, „Art or blasphemi?“, 1214.

[7] Smith, „Evacuation, repair and beautification – dirt and the body,“ 13.

[8] Nakajima, „Contemporary Art and Censorship: The Australian Museum Context,“ 137.

[9] Fox, Jesus in America, history, 384, 405-407.

[10] Shine, „Taboo Icons – The Bodily Photography of Andres Serrano,“ 27.

[11] Hobbs, 33-35.

[12] Robertson og McDaniel, Themes of contemporary art – visual art after 1980, 106.

[13] Robertson og McDaniel, 180.

[14] Rambuss, „Sacred Subjects and the Aversive Metaphysical Conceit: Crashaw, Serrano, Offili,“ 11.

[15] Rambuss, „Sacred Subjects and the Aversive Metaphysical Conceit: Crashaw, Serrano, Offili,“ 9.  Og: Shine, „Taboo Icons – The Bodily Photography of Andres Serrano,“ 34.

[16] Dempsey, Modern art, 83-84.

[17] Shine, „Taboo Icons – The Bodily Photography of Andres Serrano,“ 27.

[18] Rambuss, „Sacred Subjects and the Aversive Metaphysical Conceit: Crashaw, Serrano, Offili,“ 7.

[19] Richards, „Taking the piss: From Serrano to Surfwear,“ 34 og 37.

[20] Sigurður Pálsson, Saga og efni messunnar, 280.

[21] Arnfríður Guðmundsdóttir, „Kúgunartæki eða tákn um von? Um túlkun og hlutverk krossins í kristinni trúarhefð,“ 133-134.

[22] Hobbs, 33-39.

[23] Biblían 2007, Jóhannesarguðspjall 19.1 (húðstrýktur), Markúsarguðspjall 15. 24 (krossfestur), Jóhannesarguðspjall 19.34 (spjóti stungið í síðu hans).

[24] Einar Sigurbjörnsson, Credo, kristin trúfræði, 264-265, 276-278.

[25] Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar, 155 og 176.

[26] Rambuss, „Sacred Subjects and the Aversive Metaphysical Conceit: Crashaw, Serrano, Offili,“ 12.

[27] Barthes, „Dauði höfundarins,“ 176: Höfundur: „…er hugsaður sem fortíð sinnar eigin bókar: bók og höfundur standa sjálfkrafa á einfaldri línu sem skiptist í fyrir og eftir.“

[28] Thomas, Cole, Douglas, Tattoo – Bodies, Art and Exchange in the Pacific and the West, 14, 33.

[29] Hobbs, 29.

[30] Miodownik„Is modern art sh!t?“, 6. – Manzoni er talinn vera einn af frumkvöðlum listastefnunnar arte povera (list snauðra) sem gengur meðal annar út á það að nota verðlaus efni við listsköpun: The Concise Oxford Dictionary of Art and Artistst, 285, 19.

[31] Oetti, „The Artist´s Body in the Age of Genomic Reproduction,“ 48-49.

[32] Robertson og McDaniel, 53-54.

[33] Shine, „Taboo Icons – The Bodily Photography of Andres Serrano,“ 31, 32.

[34] Bjarni Sigurðsson, „Frá goðgá til guðlasts,“ 2-3.

[35] Nakajima, „Contemporary Art and Censorship: The Australian Museum Context,“, 130.

[36] Biblían 2007, 3. Mósebók 24.10-23.

[37] Biblían 2007, Markúsarguðspjall 3.28-29: „Sannlega segi ég ykkur: Allt verður mannanna börnum fyrirgefið, allar syndir þeirra og lastmælin, hve mjög sem þau kunna að lastmæla, en sá sem lastmælir gegn heilögum anda fær eigi fyrirgefningu um aldur, hann er sekur um eilífa synd.“

[38] Biblían 2007, Markúsarguðspjall 3.7; Matteusarguðspjall 9.3; 26.65.

[39] The New Encylopædia Britannica, „blasphemi.“

[40]Nakajima, „Contemporary Art and Censorship: The Australian Museum Context,“ 133, 136.

[41]Biblían, 2007, „Því að ég hef meðtekið frá Drottni það sem ég hef kennt ykkur: Nóttina, sem Drottinn Jesús var svikinn, tók hann brauð, gerði þakkir, braut það og sagði: „Þetta er líkami minn. Gjörið þetta í mína minningu.“ Sömuleiðis tók hann og bikarinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: „Þessi bikar er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði. Gjörið þetta, svo oft sem þér drekkið, í mína minningu.“ “

[42] Til dæmis í bréfi Páls til Efesusmanna, 1.23: „En kirkjan er líkami hans og fyllist af honum sem sjálfur fyllir allt í öllu.“ – „Eins erum við, þótt mörg séum, einn líkami í Kristi en hvert um sig annars limir.“ Bréf Páls til Rómverja, 12.5. Og: „Enginn hefur nokkru sinni hatað eigið hold heldur elur hann það og annast eins og Kristur kirkjuna því við erum limir á líkama hans.“ Bréf Páls til Efesusmanna, 5.29-30. – Biblían 2007.

[43] Broomé, Kaþólskur siður, kirkjan, kenningin, köllunin, 67.

[44] Nelson, Embodiment – an approach to sexuality and christian theology, 22-24

[45] Íslensk hómilíubók, fornar stólræður, 174.

[46] Fyrra bréf Pál til Korintumanna 3. 16-17: „Vitið þið eigi að þið eruð musteri Guðs og að andi Guðs býr í ykkur? Ef nokkur eyðir musteri Guðs mun Guð eyða honum því að musteri Guðs er heilagt og þið eruð það musteri.“ – Biblían 2007.

[47] DeMello, Body studies – an introduction, 236.

[48] Focault, „Líkami hinna dæmdu,“ 124-125.

Heimildir

Arnfríður Guðmundsdóttir, „Kúgunartæki eða tákn um von? Um túlkun og hlutverk krossins í kristinni trúarhefð,“ Studia Theologica Islandica, Ritröð Guðfræðistofnunar – Tileinkuð dr. Birni Björnssyni, sjötugum, 24, 2007: 133-134.

Barthes, Roland, „Dauði höfundarins.“ Þýð. Kristín Birgisdóttir og Kristín Viðarsdóttir, í Spor í bókmenntafræði 20. aldar. Ritstj. Garðar Baldvinsson, Kristín Birgisdóttir, Kristín Viðarsdóttir. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 1991: 173-181.

Bjarni Sigurðsson, „Frá goðgá til guðlasts,“ Erindi og greinar, 12, ritstj. Páll Sigurðsson. Reykjavík: Félag áhugamanna um réttarsögu, 1984.

Broomé, Catharina, Kaþólskur siður, kirkjan, kenningin, köllunin, ísl. þýð. Torfi Ólafsson. Reykjavík: Þorlákssjóður, 1995.

DeMello, Margo, Body studies – an introduction, London: Routledge, 2014.

Einar Sigurbjörnsson, Credo, kristin trúfræði. Reykjavík: Háskólaútgáfan/Guðfræðistofnun: 1989.

Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar, Reykjavík: Skálholtsútgáfan: 1991.

Focault, Michel, „Líkami hinna dæmdu.“ Þýð. Björn Þorsteinsson, í Alsæi, vald og þekking. Úrval greina og bókakafla. Ritstj. Garðar Baldvinsson. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2005:124-125.

Fox, Richard Wightman, Jesus in America, history, New York: HarperCollins Publishers, 2004.

Íslensk hómilíubók, fornar stólræður, Sigurbjörn Einarsson, Guðrún Kvaran, Gunnlaugur Ingólfsson, rituðu inngang. Reykjavík: Hið ísl. bókmenntafélag, 1993.

McDaniel, Craig, og Robertson, Jean,Themes of contemporary art – visual art after 1980, New York: Oxford University Press, 2022.

Makiko, Nakajima, „Contemporary Art and Censorship: The Australian Museum Context,“ The International Journal of the Inclusive Museum, vol. 3, nr. 4, (2011): 130.

Miodownik, Mark, „Is modern art sh!t?“, Materials today, vol., 10, nr. 6, (2007): 6.

Hobbs, Robert, „Andres Serrano: Body Politics.“ Í Andres Serrano, works 1983-1993, ritstj. Patrick Murphy, 17-43. Philadelphia: Institute of Conpemproary Art University of Pennsylvania, 1994.

Nelson, James B., Embodiment – an approach to sexuality and christian theology, London: SPCK, 1978.

Nicholas Thomas, Anna Cole og Bronwen Douglas, ritstj., Tattoo – Bodies, Art and Exchange in the Pacific and the West, ritstj, London: Reaktion books, 2005.

Oetti, Barbara Ursula, „The Artist´s Body in the Age of Genomic Reproduction,“ Living Matter: The Preservation of Biological Meterials in Contempory Art, (ekkert), (2022): 48-49.

Rambuss, Richard, „Sacred Subjects and the Aversive Metaphysical Conceit: Crashaw, Serrano, Offili,“ ELH, vol. 71, nr. 2 (2004): 7, 9, 11, 12. Sótt: 6. febrúar 2024.

Richards, Morgan, „Taking the piss: From Serrano to Surfwear.“ Media International Australia, vol. 92, ágúst (1999), 34, 37.

Shine, Tyler, „Taboo Icons – The Bodily Photography of Andres Serrano,“ Contemporaneity: Historical Presence in Visual Culture, vol. 4, nr. 1 (2015): 27.

Smith, Virginia, „Evacuation, repair and beautification – dirt and the body.“ 1. kafli í The Filthy Reality of Everyday Life DIRT. London: Profile Books, 2011.

Sigurður Pálsson, Saga og efni messunnar. Reykjavík: Þjóðsaga,1981.

The Concise Oxford Dictionary of Art and Artistst, ritstj. Ian Chilvers, New York: Oxford University Press, 1990.

The New Encylopædia Britannica, vol. 2, Micropædia, 15. útg. Chicago: Enclyclopædia Britannica, Inc., 1985.

Wood, Catherine, „Art or blasphemi?“, The Lancet, vol., 357, (2001): 1214.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir