Stundum kemur það fyrir í fjölmiðlaumræðu um stríðið í Úkraínu að innrásarliðið sé eins og englar vítis. Skyldi engan undra miðað við grimmilega framgöngu innrásarliðs Rússa á vígvellinum.

En þjáning stríðs og böl verður aldrei sögð né sýnd í fjölmiðlum eins og hún er í raun og veru heima í hlaðinu hjá fórnarlömbum þess. Þar er víti þjáninganna. Og kannski nær samlíkingin við víti að segja frá stríðshryllingnum þó í litlu sé. Fjölmiðlar varpa til okkur myndbrotum af viðurstyggð eyðileggingarinnar í borgum og bæjum á stríðshrjáðum svæðum þar sem örvæntingarfullt fólk gengur um rústirnar.

Stríðstól og annað sem tilheyrir hernaði er enda oft kallað vítisvélar.

Helvíti er mynd sem oft hefur verið brugðið oft upp í myndlist og bókmenntum. Staður hinna fordæmdu þar sem illskan ein ríkir. Maðurinn gengur stundum til liðs við þessa illsku undir ýmsum formerkjum. Á öllum tímum. Sennilega er ástæða þess ein þversögn af mörgum í hugarheimi mannsins því hann er ekki með öllu ókunnugur hinu góða.

Listamenn miðalda gerðu fjölmörg listaverk þar sem stef Opinberunarbókar Jóhannesar voru í fyrirrúmi. Ein frásögn Opinberunarbókarinnar segir frá átökum á himninum.

Þá hófst stríð á himni: Mikael og englar hans fóru að berjast við drekann. Drekinn og englar hans börðust á móti en fengu eigi staðist og héldust heldur ekki lengur við á himni. Og drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi sem heitir djöfull og Satan og afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina og englum hans var varpað niður með honum. (12.7-9)

„Þá hófst stríð á himni,“ segir þar sisona. Það minnir á látlausa fyrirsögn í sögubók eða millifyrirsögn í dagblaði. Mikael, erkiengill, og hans englar, berjast við ógn. Við erum vanari blíðlegum og sællegum englum og syngjandi sveitum þeirra fremur en englum með brugðna branda. En þarna voru þeir sem sé í fremstu víglínu og börðust knálega við uppreisnarenglana og hröktu á brott. Satan og liðsveit hans steypt niður. Á jörðina.

Þokkalegt.

Spænski barokklistamaðurinn Eugenio Cajés (1575-1634) gerði þetta athyglisverða listaverk sem fylgir þessum pistli – það er frá árinu 1505. Efst í verkinu er tákn hins heilaga anda, dúfan, líka síðar friðartákn og þá með olíuviðargrein í goggi sínum. Það er sjálfur erkiengillinn Mikael sem er í aðalhlutverki í myndinni. Steypir niður til Heljar þeim englum sem gerðu uppreisn gegn almættinu. Í hrapinu fá þeir kunnugleg auðkenni sín, hala, horn og klær, og önnur illskutákn – þessa mynd festu listamenn endurreisnarinnar í sessi.

Augljóst er í efri hluta verksins að mikið er um að vera. Úr sumum andlitum skín fjörleg eftirvænting meðan dimmur svipur er yfir öðrum eða jafnvel undrunarsvipur. Vængmikli englar horfa til þess er gengur út úr myndinni með rómverskan hjálm á höfði og sverð í hendi. Hann er klæddur brjóstbrynju og úr vængbörðum hans flæðir einhvers konar klæði, rauðleitt. Brynjan nær niður á hvelfdan magann. Sú iðjuleysislega vömb segir kannski ekki mikið um afl hans sem herengils í liði himinsins en er fremur merki um eilíf góðæri í efri byggðum. Úr svip hans má lesa yfirvegun og óttalausa einbeitni – jafnvel eins og verkið sé býsna létt og unnið áreynslulaust sem hvert annað nauðsynjaverk. Hann er umlukinn birtu og mýkt himins í bláum og dulúðgum skýjatröfum. Þó um stund virðist uppnám vera í hugum englanna og spenna þá er annað að segja um flokk þeirra sem eru að hrapa ofan.

Kvalræðissvipurinn leynir sér ekki á verunum í neðri hluta myndarinnar. Engin þeirra hefur neitt fast undir hópum. Þær hrapa. Veina og emja. Það er eldur og eimyrja sem bíður þeirra. Djöflar umvafðir vítislogum, með horn og hala með svip illsku og losta. Höggorminum er haldið á lofti eins og sigurtákni hins illa. Englar hafa tekið umskiptum og eru nú drýslar. Ekki furða þótt spurt hafi verið í mannkynsssögunni hvort menn geti umbreyst með sama hætti og englar himinsins. Tilefnin hafa verið mörg.

Hér sýnir listamaðurinn spænski færni sína með samspili ljóss og myrkurs (chiaroscuro-tækni) sem hann lærði af þeim ítölsku. Sú tækni sló í gegn á 17. öld hjá málurum og voru sumir færari en aðrir í þessum tæknibrögðum þar sem þrívíddaráhrif voru kölluð fram með mismiklu ljósmagni.

Þó englar séu í trúarbókmenntum andlegar verur þá hefur mannshugurinn teflt þeim fram í líki manna, karla og kvenna. Og meira að segja sett á það mannsins mark sem nafli heitir. En auðvitað eru englar ekki með nafla frekar en Adam og Eva. Hvað um það.

Listaverk eins og það verk sem nefnt er hér getur hugsanlega talað sterkar til okkar um ógnir stríðs og þjáningar heldur en venjubundin myndskot fjölmiðla sem margur segist verða smám saman ónæmur fyrir. Sérstaklega þegar átök dragast á langinn og verða „hversdagsleg“ í huga þeirra sem fjarri eru vettvangi enda þótt svo gildi aldrei um þau sem eru stödd í ógn stríðsins. Stríð mega ekki gleymast, allra síst árásarstríð eins og rússneski björninn heyir í Úkraínu.

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Stundum kemur það fyrir í fjölmiðlaumræðu um stríðið í Úkraínu að innrásarliðið sé eins og englar vítis. Skyldi engan undra miðað við grimmilega framgöngu innrásarliðs Rússa á vígvellinum.

En þjáning stríðs og böl verður aldrei sögð né sýnd í fjölmiðlum eins og hún er í raun og veru heima í hlaðinu hjá fórnarlömbum þess. Þar er víti þjáninganna. Og kannski nær samlíkingin við víti að segja frá stríðshryllingnum þó í litlu sé. Fjölmiðlar varpa til okkur myndbrotum af viðurstyggð eyðileggingarinnar í borgum og bæjum á stríðshrjáðum svæðum þar sem örvæntingarfullt fólk gengur um rústirnar.

Stríðstól og annað sem tilheyrir hernaði er enda oft kallað vítisvélar.

Helvíti er mynd sem oft hefur verið brugðið oft upp í myndlist og bókmenntum. Staður hinna fordæmdu þar sem illskan ein ríkir. Maðurinn gengur stundum til liðs við þessa illsku undir ýmsum formerkjum. Á öllum tímum. Sennilega er ástæða þess ein þversögn af mörgum í hugarheimi mannsins því hann er ekki með öllu ókunnugur hinu góða.

Listamenn miðalda gerðu fjölmörg listaverk þar sem stef Opinberunarbókar Jóhannesar voru í fyrirrúmi. Ein frásögn Opinberunarbókarinnar segir frá átökum á himninum.

Þá hófst stríð á himni: Mikael og englar hans fóru að berjast við drekann. Drekinn og englar hans börðust á móti en fengu eigi staðist og héldust heldur ekki lengur við á himni. Og drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi sem heitir djöfull og Satan og afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina og englum hans var varpað niður með honum. (12.7-9)

„Þá hófst stríð á himni,“ segir þar sisona. Það minnir á látlausa fyrirsögn í sögubók eða millifyrirsögn í dagblaði. Mikael, erkiengill, og hans englar, berjast við ógn. Við erum vanari blíðlegum og sællegum englum og syngjandi sveitum þeirra fremur en englum með brugðna branda. En þarna voru þeir sem sé í fremstu víglínu og börðust knálega við uppreisnarenglana og hröktu á brott. Satan og liðsveit hans steypt niður. Á jörðina.

Þokkalegt.

Spænski barokklistamaðurinn Eugenio Cajés (1575-1634) gerði þetta athyglisverða listaverk sem fylgir þessum pistli – það er frá árinu 1505. Efst í verkinu er tákn hins heilaga anda, dúfan, líka síðar friðartákn og þá með olíuviðargrein í goggi sínum. Það er sjálfur erkiengillinn Mikael sem er í aðalhlutverki í myndinni. Steypir niður til Heljar þeim englum sem gerðu uppreisn gegn almættinu. Í hrapinu fá þeir kunnugleg auðkenni sín, hala, horn og klær, og önnur illskutákn – þessa mynd festu listamenn endurreisnarinnar í sessi.

Augljóst er í efri hluta verksins að mikið er um að vera. Úr sumum andlitum skín fjörleg eftirvænting meðan dimmur svipur er yfir öðrum eða jafnvel undrunarsvipur. Vængmikli englar horfa til þess er gengur út úr myndinni með rómverskan hjálm á höfði og sverð í hendi. Hann er klæddur brjóstbrynju og úr vængbörðum hans flæðir einhvers konar klæði, rauðleitt. Brynjan nær niður á hvelfdan magann. Sú iðjuleysislega vömb segir kannski ekki mikið um afl hans sem herengils í liði himinsins en er fremur merki um eilíf góðæri í efri byggðum. Úr svip hans má lesa yfirvegun og óttalausa einbeitni – jafnvel eins og verkið sé býsna létt og unnið áreynslulaust sem hvert annað nauðsynjaverk. Hann er umlukinn birtu og mýkt himins í bláum og dulúðgum skýjatröfum. Þó um stund virðist uppnám vera í hugum englanna og spenna þá er annað að segja um flokk þeirra sem eru að hrapa ofan.

Kvalræðissvipurinn leynir sér ekki á verunum í neðri hluta myndarinnar. Engin þeirra hefur neitt fast undir hópum. Þær hrapa. Veina og emja. Það er eldur og eimyrja sem bíður þeirra. Djöflar umvafðir vítislogum, með horn og hala með svip illsku og losta. Höggorminum er haldið á lofti eins og sigurtákni hins illa. Englar hafa tekið umskiptum og eru nú drýslar. Ekki furða þótt spurt hafi verið í mannkynsssögunni hvort menn geti umbreyst með sama hætti og englar himinsins. Tilefnin hafa verið mörg.

Hér sýnir listamaðurinn spænski færni sína með samspili ljóss og myrkurs (chiaroscuro-tækni) sem hann lærði af þeim ítölsku. Sú tækni sló í gegn á 17. öld hjá málurum og voru sumir færari en aðrir í þessum tæknibrögðum þar sem þrívíddaráhrif voru kölluð fram með mismiklu ljósmagni.

Þó englar séu í trúarbókmenntum andlegar verur þá hefur mannshugurinn teflt þeim fram í líki manna, karla og kvenna. Og meira að segja sett á það mannsins mark sem nafli heitir. En auðvitað eru englar ekki með nafla frekar en Adam og Eva. Hvað um það.

Listaverk eins og það verk sem nefnt er hér getur hugsanlega talað sterkar til okkar um ógnir stríðs og þjáningar heldur en venjubundin myndskot fjölmiðla sem margur segist verða smám saman ónæmur fyrir. Sérstaklega þegar átök dragast á langinn og verða „hversdagsleg“ í huga þeirra sem fjarri eru vettvangi enda þótt svo gildi aldrei um þau sem eru stödd í ógn stríðsins. Stríð mega ekki gleymast, allra síst árásarstríð eins og rússneski björninn heyir í Úkraínu.

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir