Það er alltaf forvitnilegt að lesa ljóð eftir nýja höfunda sem svo að segja koma upp úr kviku samfélagsins – úr djúpi þjóðarinnar. Ótrúlegur fjöldi fólks fæst við skáldskap af ýmsu tagi og kannski er það landanum í blóð borið að setja hugsanir sínar og vangaveltur í skáldleg orð. Sumt kemur aldrei fyrir annarra augu en annað er gefið út eða lesið í góðra vina hópi. Þetta er leið til að tjá sig og ekki einu sinni víst að fólk vilji gefa sér skáldanafn. Það er aðeins að koma hugsunum sínum á framfæri í orðum. Koma lífi sínu í orð, skynjun sinni á heiminum, sjálfu sér og öðru fólki. Skynjun sinni á lífsundrinu og ráðgátum þess. Lífsverundinni.
Grætur Guð? spyr skáldkonan Hjördís Björg Kristinsdóttir í ljóðabók sinni sem kom út nýlega. Sannarlega athyglisverður titill á ljóðabók og sennilega spurning sem margur hefur lagt fram í einrúmi og hljóði. Líka upphátt. Sumir hafa svarað henni játandi enda sé samlíðunin með mannkyni aldrei fjarri almættinu eins og kristin trú leitist við að boða.
Skáldkonan svarar ekki spurningunni en hún orðar þetta svo:
Grár morgunn úti
regndropar á rúðunni
er Guð að gráta?sólin brýst nú fram
fegurð jarðar stórkostleg
njótum alls þessasléttur fjörður sést
spegla fagran fjallahring
tær er sú fegurð (bls. 15)
Ljóð tala með sérstökum hætti til lesenda sinna. Hver túlkar auðvitað með sínum hætti og lætur orðin renna um huga sinna. Stundum kveikja þau ljóðræna hugsun lesandans eða vökva einhverjar andans jurtir sem blunda í höfðinu á honum. Ljóðin er gott að lesa aftur og aftur því að mörg hver dýpka við sílestur. Í einhverjum tilvikum þarf að fá fjarlægð á ljóðin og þau virðast framandi og jafnvel ókunnug í fyrstu. Ljóðin eru þá bara geymd þar til síðar þegar lesandi verður móttækilegur fyrir boðskap orðanna og fögnuð.
Kirkjublaðið.is hefur fjallað nokkrum sinnum um ljóðabækur og hvatt til að þeim verði meiri gaumur gefinn í öllu kirkjustarfi. Ljóð eru mjög heppileg leið til að ná til fólks í kirkjustarfinu. Kirkjublaðið.is hlakkar til þess að sjá með haustinu hvort einhverjir söfnuðir hafi tekið undir hvatningu í þá veru að nota þetta listræna og mennska form til að efla starf sitt og boðun í sem fjölbreytilegustu formi.
Þessi ljóð Hjördísa Bjargar eru sett fram í japanska hækuforminu. Þau eru eins og formið styður tær og afdráttarlaus. Snarpur texti og boðskapur hreinn og ljóðrænn.
Dæmi:
Þegar það rignir
horfðu eftir regnboga
það er litadýrðþegar það er dimmt
horfðu eftir stjörnunum
þær vísa veginn (bls. 13).
Skáldkonan lítur um farinn veg til ömmu sinnar og afa. Þau skildu eftir fjársjóð sem henni er hugleikinn og hún reynir að koma áleiðis í ljóðum sínum. Um lífsspeki ömmu sinnar segir hún:
Trúðu á Guð, hann
verndar alla og allt líf
barnið mitt blíða…
sálma, vísur, ljóð
allt þetta kenndir þú mér
ég man það svo vel….
elsku amma mín
ég hugsa svo oft til þín
ef ég verð döpur (bls. 40-43)
Lífsspeki afans er kannski með öðrum hætti. Þar er ekki vitnað beint til trúar heldur skynsemi:
þannig væri allt
líf háð sólargangi og
einnig okkar líflíf mitt er bundið
af gangi sólar, er það
nokkuð undarlegt?allt væri háð því
að sólin réði degi
og nóttin kæmiþannig væri tryggt
að lífið héldi áfram
sínu jafnvægi(bls. 45, 47)
Og móðirin er líka að sjálfsögðu ofarlega í huga skáldkonunnar:
Ástkær móðir gaf
barni sínu fjársjóð þann
sem lengi lifir (bls. 26)
Og í lokin er hér kröftug mynd, Sólarlag:
Svo blóðrauður og
fagur ert þú, himinn, allt
fyllist lotningu (bls. 18).
Hjördís Björg Kristinsdóttir á sálm í nýju sálmabókinni sem heitir Þung er mín sorg og sár.
Kirkjublaðið.is mælir endregið með þessari fallegu ljóðabók. Skáldkonan er frá Djúpavogi og að sjálfsögðu prýðir mynd af Búlandstindi á kápunni sem hún málaði. Henni er margt til lista lagt. Ljóðin renna um hugann og þau kalla á endurtekinn lestur. Mörgum hversdagslegum myndum er varpað upp en þó er einhver hátíðarbragur á þeim og kannski er það hógærð og auðmýkt skáldkonunnar sem leggur þá þræði til ljóðmyndanna. Skínandi hugnæm ljóðabók.
Nánari upplýsingar um skáldkonuna má finna hér.
Hjördís Björg Kristinsdóttir, Grætur Guð? – Hækur – Útgefandi Bókaútgáfan Sæmundur, 2024. Kápumynd er eftir höfund en myndskreytingar eftir Yoko. Aðalsteinn Svanur Sigfússon sá um umbrot og kápu. Bókin er 54 bls.
Það er alltaf forvitnilegt að lesa ljóð eftir nýja höfunda sem svo að segja koma upp úr kviku samfélagsins – úr djúpi þjóðarinnar. Ótrúlegur fjöldi fólks fæst við skáldskap af ýmsu tagi og kannski er það landanum í blóð borið að setja hugsanir sínar og vangaveltur í skáldleg orð. Sumt kemur aldrei fyrir annarra augu en annað er gefið út eða lesið í góðra vina hópi. Þetta er leið til að tjá sig og ekki einu sinni víst að fólk vilji gefa sér skáldanafn. Það er aðeins að koma hugsunum sínum á framfæri í orðum. Koma lífi sínu í orð, skynjun sinni á heiminum, sjálfu sér og öðru fólki. Skynjun sinni á lífsundrinu og ráðgátum þess. Lífsverundinni.
Grætur Guð? spyr skáldkonan Hjördís Björg Kristinsdóttir í ljóðabók sinni sem kom út nýlega. Sannarlega athyglisverður titill á ljóðabók og sennilega spurning sem margur hefur lagt fram í einrúmi og hljóði. Líka upphátt. Sumir hafa svarað henni játandi enda sé samlíðunin með mannkyni aldrei fjarri almættinu eins og kristin trú leitist við að boða.
Skáldkonan svarar ekki spurningunni en hún orðar þetta svo:
Grár morgunn úti
regndropar á rúðunni
er Guð að gráta?sólin brýst nú fram
fegurð jarðar stórkostleg
njótum alls þessasléttur fjörður sést
spegla fagran fjallahring
tær er sú fegurð (bls. 15)
Ljóð tala með sérstökum hætti til lesenda sinna. Hver túlkar auðvitað með sínum hætti og lætur orðin renna um huga sinna. Stundum kveikja þau ljóðræna hugsun lesandans eða vökva einhverjar andans jurtir sem blunda í höfðinu á honum. Ljóðin er gott að lesa aftur og aftur því að mörg hver dýpka við sílestur. Í einhverjum tilvikum þarf að fá fjarlægð á ljóðin og þau virðast framandi og jafnvel ókunnug í fyrstu. Ljóðin eru þá bara geymd þar til síðar þegar lesandi verður móttækilegur fyrir boðskap orðanna og fögnuð.
Kirkjublaðið.is hefur fjallað nokkrum sinnum um ljóðabækur og hvatt til að þeim verði meiri gaumur gefinn í öllu kirkjustarfi. Ljóð eru mjög heppileg leið til að ná til fólks í kirkjustarfinu. Kirkjublaðið.is hlakkar til þess að sjá með haustinu hvort einhverjir söfnuðir hafi tekið undir hvatningu í þá veru að nota þetta listræna og mennska form til að efla starf sitt og boðun í sem fjölbreytilegustu formi.
Þessi ljóð Hjördísa Bjargar eru sett fram í japanska hækuforminu. Þau eru eins og formið styður tær og afdráttarlaus. Snarpur texti og boðskapur hreinn og ljóðrænn.
Dæmi:
Þegar það rignir
horfðu eftir regnboga
það er litadýrðþegar það er dimmt
horfðu eftir stjörnunum
þær vísa veginn (bls. 13).
Skáldkonan lítur um farinn veg til ömmu sinnar og afa. Þau skildu eftir fjársjóð sem henni er hugleikinn og hún reynir að koma áleiðis í ljóðum sínum. Um lífsspeki ömmu sinnar segir hún:
Trúðu á Guð, hann
verndar alla og allt líf
barnið mitt blíða…
sálma, vísur, ljóð
allt þetta kenndir þú mér
ég man það svo vel….
elsku amma mín
ég hugsa svo oft til þín
ef ég verð döpur (bls. 40-43)
Lífsspeki afans er kannski með öðrum hætti. Þar er ekki vitnað beint til trúar heldur skynsemi:
þannig væri allt
líf háð sólargangi og
einnig okkar líflíf mitt er bundið
af gangi sólar, er það
nokkuð undarlegt?allt væri háð því
að sólin réði degi
og nóttin kæmiþannig væri tryggt
að lífið héldi áfram
sínu jafnvægi(bls. 45, 47)
Og móðirin er líka að sjálfsögðu ofarlega í huga skáldkonunnar:
Ástkær móðir gaf
barni sínu fjársjóð þann
sem lengi lifir (bls. 26)
Og í lokin er hér kröftug mynd, Sólarlag:
Svo blóðrauður og
fagur ert þú, himinn, allt
fyllist lotningu (bls. 18).
Hjördís Björg Kristinsdóttir á sálm í nýju sálmabókinni sem heitir Þung er mín sorg og sár.
Kirkjublaðið.is mælir endregið með þessari fallegu ljóðabók. Skáldkonan er frá Djúpavogi og að sjálfsögðu prýðir mynd af Búlandstindi á kápunni sem hún málaði. Henni er margt til lista lagt. Ljóðin renna um hugann og þau kalla á endurtekinn lestur. Mörgum hversdagslegum myndum er varpað upp en þó er einhver hátíðarbragur á þeim og kannski er það hógærð og auðmýkt skáldkonunnar sem leggur þá þræði til ljóðmyndanna. Skínandi hugnæm ljóðabók.
Nánari upplýsingar um skáldkonuna má finna hér.
Hjördís Björg Kristinsdóttir, Grætur Guð? – Hækur – Útgefandi Bókaútgáfan Sæmundur, 2024. Kápumynd er eftir höfund en myndskreytingar eftir Yoko. Aðalsteinn Svanur Sigfússon sá um umbrot og kápu. Bókin er 54 bls.