Staðir í lífi okkar mannanna skipta miklu máli. Sérstaklega þeir staðir sem við ölumst upp á – staðir sem við höfum kallað bernskuslóðir og æskustöðvar. Kannski eru þau orð ekki notuð mikið nú á dögum. Þú elst upp í Breiðholtinu, Hlíðunum, Árbænum o.s.frv. Eða einfaldlega í póstnúmerum eins og 111, 105, 110.

Heimaslóðir okkar eru hluti af okkur sjálfum. Kærir staðir sem við göngum daglega um. Í nágrenni heimaslóðanna eru oft góðar gönguleiðir og sum hverfi eru skipulögð með slíku almenningsrými til að auka lífsgæði borgaranna. Þessar leiðir verða oft hluti af manneskjunum og alltaf er eitthvað nýtt að sjá og heyra.

Í minninu geymum við þá staði sem við ólumst upp á. Götur, hús og fólk. Lærum að þekkja göturnar áður en nöfnin koma. Eins og fuglarnir sem fljúga um loftin himinblá. Áhyggjulausir þó þeir eigi langt flug fram undan – og jafnvel skammt. Og börnin sem hafa ekki hugmynd um hvað bíður þeirra. Hverfið sem þau alast upp í þessa stundina getur horfið og þau leidd inn í annað. Önnur börn alast upp alltaf í sama hverfinu og flytja jafnvel aldrei úr því.

Gangan er temað í listaverkum sem gleðja augað á Kirkjutorgi Neskirkju. Hún er bæði til ánægju og heilsubótar. Ekki síður kannski til umhugsunar um göngu lífsins. Allar þær götur og alla þá slóða sem við förum um á ævi okkar hvort heldur hún er löng eða skömm. Á göngunni getum við íhugað tilvistarlegar og guðfræðilegar spurningar eins og þá einu og stóru: Hvert er lífinu heitið? Í hvers fótspor er farsælt að ganga? Hvernig hristi ég af mér hlekki daganna?

Listaverk Rúnars Reynissonar, guðfræðings og starfsmanns Neskirkju, draga fram staði sem hann hefur gengið um í nágrenni þeirra hverfa í Reykjavík sem hann hefur búið í. Heimaslóðirnar eru dregnar upp í hnit og þau máluð á veggina á Kirkjutorgi í allbreiðum línum og ýmsum litum. Hugmyndin er frumleg og snjöll, afar umhugsunarverð. Nútímaverk í mínimalískum stíl þar sem hugmyndin að verkinu ræður línum og formi. Segja má að listamaður og formið renni þarna saman í eitt og það er ekki ónýtt fyrir listamanninn.

Síðan verður málað yfir verkin þegar sýningu er lokið en verkin verða áfram til í hnitunum. Það er táknrænt á sinn hátt. Minnið er á sínum stað þó snjói yfir allt. Allt hverfur í djúpið, heimaslóðir, gönguleiðir, götur og stræti, sund og skot, fólk og atburðir. Eitthvað af því kann reyndar að varðveitast í minni annarra, næstu kynslóðar, ef við höfum gefið okkur tíma til að segja frá því. Sumir segja sögu sína og rekja sín ævihnit. Svo koma aðrar kynslóðir og spyrja um gömlu göturnar og fara þær – og finna hvíld hugar og sálar.

Þess má geta að Rúnar var með athyglisverða listsýningu á sama stað á fimm hundruð ára afmæli siðbótarinnar árið 2017 þar sem kirkjuhurðir voru temað. Það voru ljósmyndir af 95 kirkjuhurðum víðs vegar að – fjöldi hurðanna vísaði til mótmælagreina Marteins Lúthers hinn 31. október 1517.

Kirkjublaðið.is óskar Rúnari til hamingju með þessa fallegu og eftirtektarverðu sýningu. Einnig til hamingju með 60 ára afmæli hans en sýningin er sett upp í tilefni þess.

Kirkjur og safnaðarheimili eru margar upplagðir sýningarsalir. Kirkjutorg í Neskirkju er dæmi um vel heppnað fjölnotarými. Myndir njóta sín vel á stórum flötum og þar er hátt til lofts og dagsbirta góð. Nefna má aðrar kirkjur sem hafa verið með listsýningar eins og Seltjarnarneskirkju, Grensáskirkju og Háteigskirkju. Fjöldi kirkna og safnaðarheimila hefur ágæta sýningaraðstöðu og ætti að gefa sóknarbörnum sem fást við listsköpun tækifæri til sýningarhalds.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Staðir í lífi okkar mannanna skipta miklu máli. Sérstaklega þeir staðir sem við ölumst upp á – staðir sem við höfum kallað bernskuslóðir og æskustöðvar. Kannski eru þau orð ekki notuð mikið nú á dögum. Þú elst upp í Breiðholtinu, Hlíðunum, Árbænum o.s.frv. Eða einfaldlega í póstnúmerum eins og 111, 105, 110.

Heimaslóðir okkar eru hluti af okkur sjálfum. Kærir staðir sem við göngum daglega um. Í nágrenni heimaslóðanna eru oft góðar gönguleiðir og sum hverfi eru skipulögð með slíku almenningsrými til að auka lífsgæði borgaranna. Þessar leiðir verða oft hluti af manneskjunum og alltaf er eitthvað nýtt að sjá og heyra.

Í minninu geymum við þá staði sem við ólumst upp á. Götur, hús og fólk. Lærum að þekkja göturnar áður en nöfnin koma. Eins og fuglarnir sem fljúga um loftin himinblá. Áhyggjulausir þó þeir eigi langt flug fram undan – og jafnvel skammt. Og börnin sem hafa ekki hugmynd um hvað bíður þeirra. Hverfið sem þau alast upp í þessa stundina getur horfið og þau leidd inn í annað. Önnur börn alast upp alltaf í sama hverfinu og flytja jafnvel aldrei úr því.

Gangan er temað í listaverkum sem gleðja augað á Kirkjutorgi Neskirkju. Hún er bæði til ánægju og heilsubótar. Ekki síður kannski til umhugsunar um göngu lífsins. Allar þær götur og alla þá slóða sem við förum um á ævi okkar hvort heldur hún er löng eða skömm. Á göngunni getum við íhugað tilvistarlegar og guðfræðilegar spurningar eins og þá einu og stóru: Hvert er lífinu heitið? Í hvers fótspor er farsælt að ganga? Hvernig hristi ég af mér hlekki daganna?

Listaverk Rúnars Reynissonar, guðfræðings og starfsmanns Neskirkju, draga fram staði sem hann hefur gengið um í nágrenni þeirra hverfa í Reykjavík sem hann hefur búið í. Heimaslóðirnar eru dregnar upp í hnit og þau máluð á veggina á Kirkjutorgi í allbreiðum línum og ýmsum litum. Hugmyndin er frumleg og snjöll, afar umhugsunarverð. Nútímaverk í mínimalískum stíl þar sem hugmyndin að verkinu ræður línum og formi. Segja má að listamaður og formið renni þarna saman í eitt og það er ekki ónýtt fyrir listamanninn.

Síðan verður málað yfir verkin þegar sýningu er lokið en verkin verða áfram til í hnitunum. Það er táknrænt á sinn hátt. Minnið er á sínum stað þó snjói yfir allt. Allt hverfur í djúpið, heimaslóðir, gönguleiðir, götur og stræti, sund og skot, fólk og atburðir. Eitthvað af því kann reyndar að varðveitast í minni annarra, næstu kynslóðar, ef við höfum gefið okkur tíma til að segja frá því. Sumir segja sögu sína og rekja sín ævihnit. Svo koma aðrar kynslóðir og spyrja um gömlu göturnar og fara þær – og finna hvíld hugar og sálar.

Þess má geta að Rúnar var með athyglisverða listsýningu á sama stað á fimm hundruð ára afmæli siðbótarinnar árið 2017 þar sem kirkjuhurðir voru temað. Það voru ljósmyndir af 95 kirkjuhurðum víðs vegar að – fjöldi hurðanna vísaði til mótmælagreina Marteins Lúthers hinn 31. október 1517.

Kirkjublaðið.is óskar Rúnari til hamingju með þessa fallegu og eftirtektarverðu sýningu. Einnig til hamingju með 60 ára afmæli hans en sýningin er sett upp í tilefni þess.

Kirkjur og safnaðarheimili eru margar upplagðir sýningarsalir. Kirkjutorg í Neskirkju er dæmi um vel heppnað fjölnotarými. Myndir njóta sín vel á stórum flötum og þar er hátt til lofts og dagsbirta góð. Nefna má aðrar kirkjur sem hafa verið með listsýningar eins og Seltjarnarneskirkju, Grensáskirkju og Háteigskirkju. Fjöldi kirkna og safnaðarheimila hefur ágæta sýningaraðstöðu og ætti að gefa sóknarbörnum sem fást við listsköpun tækifæri til sýningarhalds.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir