Víða leynast margar athyglisverðar sögur sem eru sennilega sjaldnast lesnar. Sumar sögur eru meira að segja aldrei lesnar. Aðrar eru lesnar og gleymast kannski seint meðan aðrar gleymast fljótt.

Það er ekki skortur á lesefni í henni veröld; fremur er skortur á lesendum. Svo er að skilja að ískyggilega stór hluti æskulýðsins sé torlæs þrátt fyrir langa skólasetu. Menntaspekingar landsins eru nær skák og mát þegar þeir ræða ástæður þessa. En það er önnur saga, kannski ólæsileg?

En aftur að sögu sem er sjaldan lesin. Eða aldrei. Undirritaður datt um eina slíka sem hann hafði aldrei lesið enda þótt hann vissi svo sem að hún væri til og kannaðist við heiti hennar. Saga úr Biblíunni. Ein af þeim sem gera Biblíuna frá því herrans ári 2007 bæði digrari að umfangi og hvað sagnasjóð snertir: í huldubókabálki Biblíunnar; kallast þar apókrýfar bækur. Og ekki er annað hægt að segja en að sagan sú sé mannbætandi eftir lesturinn. Lengi er hægt að bæta mannskepnuna eins og kunnugt er. Bókin er hvatning til að lifa sómasamlegu lífi og auðsýna náunganum kærleika. Sígild hvatning og sennilega aldrei jafn brýn eins og nú um stundir.

Tóbítsbók heitir hún

Og hvað varð til þess að draga hana fram í dagsljósið? Ekki er hún í Bókatíðindum né heldur hefur verið hlaupið yfir hana í Kiljunni. Þó er þetta saga sem segir frá manneskjum, örlögum, glæpum og góðverkum. Yfirnáttúrulegum atburðum og göldrum. Kannski ekki einnota spennutryllir nýrra og nýrra metsöluhöfunda. Ekki beint nýútkomin heldur frá 2. öld f. Kr.

Það var listaverk frá 15. öld sem vakti athygli undirritaðs á sögunni. Og kannski eitt atriði sérstaklega. Hundurinn á myndinni ku vera af hendi meistara Leonardo Da Vinci (1452-1519) og sé það rétt þá er það elsta varðveitta verk hans í listasögunni. Þannig má segja að hundurinn hafi þefað uppi bókina fyrir undiritaðan lesanda. Sannar það að vegir guðs eru órannsakanlegir.

Skoðum listaverkið fyrst og síðan bókina.

Verkið er altaristafla sem sem heitir Tóbías og engillinn og var máluð á árunum 1470-1475 í vinnustofu ítalska endurreisnarlistamannsins Andrea del Verrocchio (1435-1485) í Flórens. Á þessum tíma höfðu listamenn í fremstu röð vinnustofur og þó verkin væru eignuð þeim komu ýmsir sem  voru við nám hjá þeim og í vinnu að gerð þeirra.

Hvað sjáum við í þessu glæsilega endurreisnarverki?

Tóbítsbók gefur tóninn:

Þeir lögðu af stað, drengurinn og engillinn, og hundurinn fór á eftir Tóbíasi og elti þá. Þeir ferðuðust saman og við sólsetur fyrsta kvöldið áðu þeir við Tígrisfljót. (Tóbítsbók 6.2).

Lítum aðeins nánar á þessa mynd.

Tóbías og engillinn – myndin er stærri sem aðalmynd með umfjölluninni

Augljóst er að þarna er engill á ferð, ögn niðurleitur. Hann er með kröftuga vængi þar sem svartur litur og rauður eru mest áberandi. Geislabaugur yfir gullnum síðfléttuðum kolli engilsins sem er léttstígur eins og ballerína íklæddur nettum bandaskóm. Klæðaburður er 15. aldar og ermar gullísaumaðar eða munsturofnar festar með bindingum við treyjuna. Skikkja bleik og blá, tekin saman í hálsmáli með svörtum spotta. Rafael heldur á einhvers konar dósum úr gulli sem líklega geyma það lyf sem ætlað var til að smyrja í augu hins blinda Tóbíts en sagan segir frá því hvernig það var fengið. Hreyfingin er góð í myndinni og Tóbías fylgir englinum, spengilegur, ákveðinn á svip, fagureygður og lokkaprúður. Svo er að sjá sem hann sé að grípa um hönd Rafaels erkiengils til halds og trausts. Tóbías er búinn ríkmannlega í anda endurreisnar en litklæði voru ekki á allra færi; innri skyrta með bindingum við skrautermar og meðalhár línkragi, skikkjan flaksast tígurlega, prjónaðar eða saumaðar upphosur, mittistreyja bylgjast frá brjósthæð niður á mið læri og er með gráum skinnskúfum og skrautofnum linda. Og fótabúnaður úr skinni. Tóbías heldur á fiski í vinstri hönd en fiskurinn er svo sem flestum er kunnugt tákn Krists. Í baksýn er kastali í dalverpi og Tígrisfljótið sem rennur fagurlega.

Einstaklega létt yfirbragð yfir hundinum – myndhluti – skjáskot

Ekki má gleyma hvutta sem gengur við hægri hlið engilsins. Sá hundur hefur vakið mikla athygli því hann kemur aldeilis óvænt inn í söguna og án nokkurra skýringa. Sumir hafa spurt hvort hann gæti líka verið engill – að minnsta kosti bænasvar fyrir Tóbít í 5.17. Þegar hann er skoðaður í nærmynd kemur í ljós að hann er svo að segja í tveimur víddum. Annars vegar þessa heims og hins vega annars heims. Hundar hafa reyndar ekki gott orðspor í Biblíunni. Þeir voru ekki gæludýr á þessum tíma heldur hræætur. En hróður þeirra jókst í kristninni og þar eru þeir tákn tryggðar og árvekni.

Myndefnið hefur vissulega hreinar og klárar trúarlegar skírskotanir þegar engill er í forgrunni og ekki neinn hversdagslegur engill:

„Ég er Rafael, einn englanna sjö sem standa til þjónustu reiðubúnir frammi fyrir dýrð Drottins.“ (Tóbítsbók 12.15).

Nafnið Tóbías þýðir Guð er góður og var mjög vinsælt meðal kristinna manna og gyðinga.

En um hvað er sagan?

Faðir Tóbíasar blindast og frásögnin af því er sérstök. Það er faðirinn, Tóbít, sem hefur orðið:

Um nóttina baðaði ég mig, fór út í garð og lagðist til svefns undir garðveggnum. Sakir þess að heitt var hafði ég ekkert á höfðinu. Ég vissi ekki að spörvar höfðust við í veggnum fyrir ofan mig og volgt drit þeirra féll í augu mér og myndaði hvíta himnu. Ég leitaði hjálpar af læknum en því fleiri smyrsli sem þeir báru á augun þeim mun meira spillti himnan sjóninni uns ég varð alblindur. Í fjögur ár var ég með öllu sjónlaus og allir landar mínir fundu sárt til með mér. (Tóbítsbók 2.9-10).

Örorka hans hefur eins og gefur að skilja áhrif á fjárhag heimilisins. Kona hans gerist vefari eins og þær hafa margar gert á liðnum öldum. Eitt atvik í heimilishaldi þeirra dregur fram ráðvendni Tóbíts en það er þá grunur vaknar hjá honum um að konan hafi tekið kiðling nokkurn ófrjálsri hendi til heimilisbrúks hjá þeim. Tóbít biður hana að skila honum aftur þaðan sem hann kom og „hann roðnaði af reiði vegna þess sem hún hafði gert.“ Hann var sárhryggur vegna þessa og grét. En hún hæðist að honum. (Tóbítsbók 2.14). Köld eru kvennaráð? Eða hvað? Hugrenningatengsl frá Tóbítssögu og til Njálssögu þar sem konur koma við sögu. Hallgerður sendir þrælinn Melkólf til að stela smjöri og ostum í Kirkjubæ. Bar hún það á borð fyrir kappann Gunnar sem grunaði hana um græsku eins og Tóbít gamli sína konu. Hann laust Hallgerði við þetta tækifæri frægasta kinnhest Íslandssögunnar. (48. kafli Njálssögu).

Tóbías fer í ferðalag að beiðni föður síns til að reka erindi hans. Með honum slæst í för engill í mannsgervi sem áður er getið og skiptir það að sjálfsögðu sköpum fyrir framvindu sögunnar. Enginn engill situr aðgerðalaus og utan gátta. Englar eru beinir þátttakendur í lífi mannfólksins.

Eins og á öðrum ferðalögum gerist margt. Tóbías kynnist konuefni sínu og var hún andsetin. Þá var nú ekki ónýtt að hafa erkiengilinn með í för sem rak hinn illa anda úr konuefninu. Það er reyndar dálítill ævintýrablær yfir allri frásögninni sem gerir hana skemmtilega fyrir vikið. Kannski er hún eina ævintýrið í Biblíunni?

Tóbías fékk ráð frá föður sínum áður en hann hélt í ferðalagið. Þau ráð eru enn í fullu gildi og kannski ekki síst á aðventunni:

Minnstu Drottins alla ævidaga þína, barnið mitt. Varastu að syndga og breyta gegn boðum Drottins. Iðkaðu réttlæti alla ævi þína og gakktu eigi á vegum ranglætis. Þeim farnast vel í öllum verkum sínum sem eru heiðarlegir. Öllum, sem iðka réttlæti, skalt þú gefa ölmusur af eigum þínum og ekki horfa á eftir þeim með eftirsjá. Snú þú aldrei baki við fátækum svo að Guð snúi ekki baki við þér. Gefðu eins og efni þín leyfa, barnið mitt. Ef þú átt mikið þá skalt þú nota það til þess að hjálpa öðrum. Eigir þú lítið skaltu samt miðla öðrum af því. (Tóbítsbók 4.-5-8)

Þegar Tóbías kom úr ferðalaginu fór hann að ráðum Rafaels erkiengils hvernig lækna skyldi föður sinn og gekk það eftir. Um leið og faðirinn sá son sinn sagði hann:

Ég sé þig barn, augasteinninn minn. (Tóbítsbók 11.14).

Svona í lokin. Kannski eru það hugrenningatengsl. Fyrir margt löngu á upphafsdögum sjónvarps á Íslandi var þátturinn Dýrlingurinn (The Saint) afar vinsæll en aðalpersónuna, Dýrlinginn, lék breski leikarinn Roger Moore (1927-2017). Upphafsstef þáttarins var fjörlegt og fylgdi mynd með sem var þessi hér að ofan.

Hálsmálið – myndhluti – skjáskot

Þegar öllu er á botninn hvolft er myndin ekki svo ólík þeirri mynd sem svart hálsmálsbandið á kyrtli Rafaels erkiengils dregur fram í verki endurreisnarmálarans og sjá má í þessu skjáskoti. Stellingin er reyndar önnur en týpan er sú hin sama. Ekki satt?

Hér má lesa Tóbítsbók.

Góða skemmtun!

 

 

 

 

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Víða leynast margar athyglisverðar sögur sem eru sennilega sjaldnast lesnar. Sumar sögur eru meira að segja aldrei lesnar. Aðrar eru lesnar og gleymast kannski seint meðan aðrar gleymast fljótt.

Það er ekki skortur á lesefni í henni veröld; fremur er skortur á lesendum. Svo er að skilja að ískyggilega stór hluti æskulýðsins sé torlæs þrátt fyrir langa skólasetu. Menntaspekingar landsins eru nær skák og mát þegar þeir ræða ástæður þessa. En það er önnur saga, kannski ólæsileg?

En aftur að sögu sem er sjaldan lesin. Eða aldrei. Undirritaður datt um eina slíka sem hann hafði aldrei lesið enda þótt hann vissi svo sem að hún væri til og kannaðist við heiti hennar. Saga úr Biblíunni. Ein af þeim sem gera Biblíuna frá því herrans ári 2007 bæði digrari að umfangi og hvað sagnasjóð snertir: í huldubókabálki Biblíunnar; kallast þar apókrýfar bækur. Og ekki er annað hægt að segja en að sagan sú sé mannbætandi eftir lesturinn. Lengi er hægt að bæta mannskepnuna eins og kunnugt er. Bókin er hvatning til að lifa sómasamlegu lífi og auðsýna náunganum kærleika. Sígild hvatning og sennilega aldrei jafn brýn eins og nú um stundir.

Tóbítsbók heitir hún

Og hvað varð til þess að draga hana fram í dagsljósið? Ekki er hún í Bókatíðindum né heldur hefur verið hlaupið yfir hana í Kiljunni. Þó er þetta saga sem segir frá manneskjum, örlögum, glæpum og góðverkum. Yfirnáttúrulegum atburðum og göldrum. Kannski ekki einnota spennutryllir nýrra og nýrra metsöluhöfunda. Ekki beint nýútkomin heldur frá 2. öld f. Kr.

Það var listaverk frá 15. öld sem vakti athygli undirritaðs á sögunni. Og kannski eitt atriði sérstaklega. Hundurinn á myndinni ku vera af hendi meistara Leonardo Da Vinci (1452-1519) og sé það rétt þá er það elsta varðveitta verk hans í listasögunni. Þannig má segja að hundurinn hafi þefað uppi bókina fyrir undiritaðan lesanda. Sannar það að vegir guðs eru órannsakanlegir.

Skoðum listaverkið fyrst og síðan bókina.

Verkið er altaristafla sem sem heitir Tóbías og engillinn og var máluð á árunum 1470-1475 í vinnustofu ítalska endurreisnarlistamannsins Andrea del Verrocchio (1435-1485) í Flórens. Á þessum tíma höfðu listamenn í fremstu röð vinnustofur og þó verkin væru eignuð þeim komu ýmsir sem  voru við nám hjá þeim og í vinnu að gerð þeirra.

Hvað sjáum við í þessu glæsilega endurreisnarverki?

Tóbítsbók gefur tóninn:

Þeir lögðu af stað, drengurinn og engillinn, og hundurinn fór á eftir Tóbíasi og elti þá. Þeir ferðuðust saman og við sólsetur fyrsta kvöldið áðu þeir við Tígrisfljót. (Tóbítsbók 6.2).

Lítum aðeins nánar á þessa mynd.

Tóbías og engillinn – myndin er stærri sem aðalmynd með umfjölluninni

Augljóst er að þarna er engill á ferð, ögn niðurleitur. Hann er með kröftuga vængi þar sem svartur litur og rauður eru mest áberandi. Geislabaugur yfir gullnum síðfléttuðum kolli engilsins sem er léttstígur eins og ballerína íklæddur nettum bandaskóm. Klæðaburður er 15. aldar og ermar gullísaumaðar eða munsturofnar festar með bindingum við treyjuna. Skikkja bleik og blá, tekin saman í hálsmáli með svörtum spotta. Rafael heldur á einhvers konar dósum úr gulli sem líklega geyma það lyf sem ætlað var til að smyrja í augu hins blinda Tóbíts en sagan segir frá því hvernig það var fengið. Hreyfingin er góð í myndinni og Tóbías fylgir englinum, spengilegur, ákveðinn á svip, fagureygður og lokkaprúður. Svo er að sjá sem hann sé að grípa um hönd Rafaels erkiengils til halds og trausts. Tóbías er búinn ríkmannlega í anda endurreisnar en litklæði voru ekki á allra færi; innri skyrta með bindingum við skrautermar og meðalhár línkragi, skikkjan flaksast tígurlega, prjónaðar eða saumaðar upphosur, mittistreyja bylgjast frá brjósthæð niður á mið læri og er með gráum skinnskúfum og skrautofnum linda. Og fótabúnaður úr skinni. Tóbías heldur á fiski í vinstri hönd en fiskurinn er svo sem flestum er kunnugt tákn Krists. Í baksýn er kastali í dalverpi og Tígrisfljótið sem rennur fagurlega.

Einstaklega létt yfirbragð yfir hundinum – myndhluti – skjáskot

Ekki má gleyma hvutta sem gengur við hægri hlið engilsins. Sá hundur hefur vakið mikla athygli því hann kemur aldeilis óvænt inn í söguna og án nokkurra skýringa. Sumir hafa spurt hvort hann gæti líka verið engill – að minnsta kosti bænasvar fyrir Tóbít í 5.17. Þegar hann er skoðaður í nærmynd kemur í ljós að hann er svo að segja í tveimur víddum. Annars vegar þessa heims og hins vega annars heims. Hundar hafa reyndar ekki gott orðspor í Biblíunni. Þeir voru ekki gæludýr á þessum tíma heldur hræætur. En hróður þeirra jókst í kristninni og þar eru þeir tákn tryggðar og árvekni.

Myndefnið hefur vissulega hreinar og klárar trúarlegar skírskotanir þegar engill er í forgrunni og ekki neinn hversdagslegur engill:

„Ég er Rafael, einn englanna sjö sem standa til þjónustu reiðubúnir frammi fyrir dýrð Drottins.“ (Tóbítsbók 12.15).

Nafnið Tóbías þýðir Guð er góður og var mjög vinsælt meðal kristinna manna og gyðinga.

En um hvað er sagan?

Faðir Tóbíasar blindast og frásögnin af því er sérstök. Það er faðirinn, Tóbít, sem hefur orðið:

Um nóttina baðaði ég mig, fór út í garð og lagðist til svefns undir garðveggnum. Sakir þess að heitt var hafði ég ekkert á höfðinu. Ég vissi ekki að spörvar höfðust við í veggnum fyrir ofan mig og volgt drit þeirra féll í augu mér og myndaði hvíta himnu. Ég leitaði hjálpar af læknum en því fleiri smyrsli sem þeir báru á augun þeim mun meira spillti himnan sjóninni uns ég varð alblindur. Í fjögur ár var ég með öllu sjónlaus og allir landar mínir fundu sárt til með mér. (Tóbítsbók 2.9-10).

Örorka hans hefur eins og gefur að skilja áhrif á fjárhag heimilisins. Kona hans gerist vefari eins og þær hafa margar gert á liðnum öldum. Eitt atvik í heimilishaldi þeirra dregur fram ráðvendni Tóbíts en það er þá grunur vaknar hjá honum um að konan hafi tekið kiðling nokkurn ófrjálsri hendi til heimilisbrúks hjá þeim. Tóbít biður hana að skila honum aftur þaðan sem hann kom og „hann roðnaði af reiði vegna þess sem hún hafði gert.“ Hann var sárhryggur vegna þessa og grét. En hún hæðist að honum. (Tóbítsbók 2.14). Köld eru kvennaráð? Eða hvað? Hugrenningatengsl frá Tóbítssögu og til Njálssögu þar sem konur koma við sögu. Hallgerður sendir þrælinn Melkólf til að stela smjöri og ostum í Kirkjubæ. Bar hún það á borð fyrir kappann Gunnar sem grunaði hana um græsku eins og Tóbít gamli sína konu. Hann laust Hallgerði við þetta tækifæri frægasta kinnhest Íslandssögunnar. (48. kafli Njálssögu).

Tóbías fer í ferðalag að beiðni föður síns til að reka erindi hans. Með honum slæst í för engill í mannsgervi sem áður er getið og skiptir það að sjálfsögðu sköpum fyrir framvindu sögunnar. Enginn engill situr aðgerðalaus og utan gátta. Englar eru beinir þátttakendur í lífi mannfólksins.

Eins og á öðrum ferðalögum gerist margt. Tóbías kynnist konuefni sínu og var hún andsetin. Þá var nú ekki ónýtt að hafa erkiengilinn með í för sem rak hinn illa anda úr konuefninu. Það er reyndar dálítill ævintýrablær yfir allri frásögninni sem gerir hana skemmtilega fyrir vikið. Kannski er hún eina ævintýrið í Biblíunni?

Tóbías fékk ráð frá föður sínum áður en hann hélt í ferðalagið. Þau ráð eru enn í fullu gildi og kannski ekki síst á aðventunni:

Minnstu Drottins alla ævidaga þína, barnið mitt. Varastu að syndga og breyta gegn boðum Drottins. Iðkaðu réttlæti alla ævi þína og gakktu eigi á vegum ranglætis. Þeim farnast vel í öllum verkum sínum sem eru heiðarlegir. Öllum, sem iðka réttlæti, skalt þú gefa ölmusur af eigum þínum og ekki horfa á eftir þeim með eftirsjá. Snú þú aldrei baki við fátækum svo að Guð snúi ekki baki við þér. Gefðu eins og efni þín leyfa, barnið mitt. Ef þú átt mikið þá skalt þú nota það til þess að hjálpa öðrum. Eigir þú lítið skaltu samt miðla öðrum af því. (Tóbítsbók 4.-5-8)

Þegar Tóbías kom úr ferðalaginu fór hann að ráðum Rafaels erkiengils hvernig lækna skyldi föður sinn og gekk það eftir. Um leið og faðirinn sá son sinn sagði hann:

Ég sé þig barn, augasteinninn minn. (Tóbítsbók 11.14).

Svona í lokin. Kannski eru það hugrenningatengsl. Fyrir margt löngu á upphafsdögum sjónvarps á Íslandi var þátturinn Dýrlingurinn (The Saint) afar vinsæll en aðalpersónuna, Dýrlinginn, lék breski leikarinn Roger Moore (1927-2017). Upphafsstef þáttarins var fjörlegt og fylgdi mynd með sem var þessi hér að ofan.

Hálsmálið – myndhluti – skjáskot

Þegar öllu er á botninn hvolft er myndin ekki svo ólík þeirri mynd sem svart hálsmálsbandið á kyrtli Rafaels erkiengils dregur fram í verki endurreisnarmálarans og sjá má í þessu skjáskoti. Stellingin er reyndar önnur en týpan er sú hin sama. Ekki satt?

Hér má lesa Tóbítsbók.

Góða skemmtun!

 

 

 

 

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir