Ég staldraði dágóða stund við þetta verk í Louvre-safninu í París í sumar.

Sumar myndir draga mann ósjálfrátt að sér. Það er eitthvað við myndina hér að ofan. Hún kallar, talar með einhverjum hætti og maður sest niður og horfir á hana. Talar kannski í huganum við hana. Jafnvel án þess að vita það.

Þessi mynd er í þeim flokki. Persónur hennar eru kunnar í veraldarsögunni – og ekki síst trúarsögunni. Guðsmóðirin og Pétur postuli.

Það er sem dregin sé upp hversdagsleg og mannleg mynd úr veruleikanum. Hún á að tala. Enginn annar.

María er að sjálfsögðu íklædd bláu svo sem hefðin segir til um (en blár var dýrastur lita á sinni tíð), með dýrðarljóma sem er þó í daufara lagi svona eins og tilefninu hæfir. Það er eins og listamaðurinn hafi haldið ögn aftur af sér og ekki viljað setja fullan þrótt í dýrðarljómann til þess að þunglyndislegur svipur myndarinnar missti ekki afl sitt. María horfir niður fyrir sig á vinnulúnar hendur sínar og það er sem allur máttur sé henni þorrinn og von úti. Úr þreytulegum svip hennar má lesa uppgjöf og örvæntingu. Hvítur klúturinn í höndum hennar kallast á við klút Péturs postula sem þerrar tár af hvarmi. Jarðlitur kyrtill hans eykur á dapran svip hans og sársauka. Veðurbitið andlit hans og stæltur háls, sterkbyggðar hendur, segja að hann sé karl í krapinu og hann eigi ekki að gráta. Samt grætur hann. Vegna þess að hann er manneskja. En blámi himins í klæðum Maríu guðsmóður leiðir hugann í hæðir.

Listamaðurinn leikur af fingrum fram sjónarspil ljóss og skugga í anda barokklistarinnar. Laðar áhorfandann inn í djúp myndarinnar og um stund finnst honum hann vera þátttakandi í atburðinum – að minnsta kosti áhorfandi í fremsta sæti.

Engin furða þótt tilfinningar streymi fram á léreftinu og umvefji áhorfandann

Þessi mynd er einstök í sinni röð.

Pétur, kletturinn grætur frammi fyrir María guðsmóðir. Þung hafa sporin hans verið til hennar og hann er fullur eftirsjár. Iðrunartárin streyma.

Vonbrigði hennar leyna sér ekki. Eflaust hefur María fellt tár þegar Pétur sagði henni frá afneitun sinni. Þó tár þeirra hafi verið jafnsölt þá er munur á því sem kallar fram hryggð og votan hvarm. María horfir á eftir syni sínum í dauðann; kærleikur og sorg móðurinnar kallar fram tárin. Pétur horfist í augu við svik sín við meistarann frá Nasaret – og eftirsjá hans kallar fram beisk tár. Hann var sá sem meistarinn treysti best.

Öll þekkjum við klassískar krossfestingarmyndir þar sem fólk stendur við kross Jesú Krists og horfir upp hann. Sumir gráta og aðra byrgja auglit sitt yfirkomnir af sorg. En þetta listaverk dregur fram hið persónulega – gefur tveimur lykilpersónum trúarsögunnar tóm til að syrgja án þess að vera stödd í opinberu rými sem nú heitir svo.

Þetta er óvenjuleg mynd og þó hún eigi rætur í Biblíunni þá er hvergi að finna frásögn af því að þessar tvær manneskjur hafi setið saman dagstund og íhugað harm sinn. En þó það sé ekki skráð gætu þau hafa átt þá stund. Sú hugsun fór að minnsta kosti um huga listamannsins. Hann bregður sér frá um hríð úr eigin holdi í hlutverk guðspjallamannsins og bætir við textann.

Listamaðurinn tekur frumkvæðið eins og sannir listamenn gera. Setur á svið það sem hugsanlega átti sér stað og ef ekki þá er atburðurinn þarna á léreftinu. Hann er til. Hann gefur líka áhorfandanum rými til að setjast niður í kyrrð með þeim Maríu guðsmóður og Pétri postula til þess að skoða huga sinn. Spyrja um trúmennsku og heiðarleika andspænis mannlegum veikleika: að bjarga eigin skinni þegar gefur á bátinn.

Sorgin er mannleg tilfinning. Hún kallar á samtal og návist. Eins og hjá Maríu guðsmóður og Pétri postula.

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Ég staldraði dágóða stund við þetta verk í Louvre-safninu í París í sumar.

Sumar myndir draga mann ósjálfrátt að sér. Það er eitthvað við myndina hér að ofan. Hún kallar, talar með einhverjum hætti og maður sest niður og horfir á hana. Talar kannski í huganum við hana. Jafnvel án þess að vita það.

Þessi mynd er í þeim flokki. Persónur hennar eru kunnar í veraldarsögunni – og ekki síst trúarsögunni. Guðsmóðirin og Pétur postuli.

Það er sem dregin sé upp hversdagsleg og mannleg mynd úr veruleikanum. Hún á að tala. Enginn annar.

María er að sjálfsögðu íklædd bláu svo sem hefðin segir til um (en blár var dýrastur lita á sinni tíð), með dýrðarljóma sem er þó í daufara lagi svona eins og tilefninu hæfir. Það er eins og listamaðurinn hafi haldið ögn aftur af sér og ekki viljað setja fullan þrótt í dýrðarljómann til þess að þunglyndislegur svipur myndarinnar missti ekki afl sitt. María horfir niður fyrir sig á vinnulúnar hendur sínar og það er sem allur máttur sé henni þorrinn og von úti. Úr þreytulegum svip hennar má lesa uppgjöf og örvæntingu. Hvítur klúturinn í höndum hennar kallast á við klút Péturs postula sem þerrar tár af hvarmi. Jarðlitur kyrtill hans eykur á dapran svip hans og sársauka. Veðurbitið andlit hans og stæltur háls, sterkbyggðar hendur, segja að hann sé karl í krapinu og hann eigi ekki að gráta. Samt grætur hann. Vegna þess að hann er manneskja. En blámi himins í klæðum Maríu guðsmóður leiðir hugann í hæðir.

Listamaðurinn leikur af fingrum fram sjónarspil ljóss og skugga í anda barokklistarinnar. Laðar áhorfandann inn í djúp myndarinnar og um stund finnst honum hann vera þátttakandi í atburðinum – að minnsta kosti áhorfandi í fremsta sæti.

Engin furða þótt tilfinningar streymi fram á léreftinu og umvefji áhorfandann

Þessi mynd er einstök í sinni röð.

Pétur, kletturinn grætur frammi fyrir María guðsmóðir. Þung hafa sporin hans verið til hennar og hann er fullur eftirsjár. Iðrunartárin streyma.

Vonbrigði hennar leyna sér ekki. Eflaust hefur María fellt tár þegar Pétur sagði henni frá afneitun sinni. Þó tár þeirra hafi verið jafnsölt þá er munur á því sem kallar fram hryggð og votan hvarm. María horfir á eftir syni sínum í dauðann; kærleikur og sorg móðurinnar kallar fram tárin. Pétur horfist í augu við svik sín við meistarann frá Nasaret – og eftirsjá hans kallar fram beisk tár. Hann var sá sem meistarinn treysti best.

Öll þekkjum við klassískar krossfestingarmyndir þar sem fólk stendur við kross Jesú Krists og horfir upp hann. Sumir gráta og aðra byrgja auglit sitt yfirkomnir af sorg. En þetta listaverk dregur fram hið persónulega – gefur tveimur lykilpersónum trúarsögunnar tóm til að syrgja án þess að vera stödd í opinberu rými sem nú heitir svo.

Þetta er óvenjuleg mynd og þó hún eigi rætur í Biblíunni þá er hvergi að finna frásögn af því að þessar tvær manneskjur hafi setið saman dagstund og íhugað harm sinn. En þó það sé ekki skráð gætu þau hafa átt þá stund. Sú hugsun fór að minnsta kosti um huga listamannsins. Hann bregður sér frá um hríð úr eigin holdi í hlutverk guðspjallamannsins og bætir við textann.

Listamaðurinn tekur frumkvæðið eins og sannir listamenn gera. Setur á svið það sem hugsanlega átti sér stað og ef ekki þá er atburðurinn þarna á léreftinu. Hann er til. Hann gefur líka áhorfandanum rými til að setjast niður í kyrrð með þeim Maríu guðsmóður og Pétri postula til þess að skoða huga sinn. Spyrja um trúmennsku og heiðarleika andspænis mannlegum veikleika: að bjarga eigin skinni þegar gefur á bátinn.

Sorgin er mannleg tilfinning. Hún kallar á samtal og návist. Eins og hjá Maríu guðsmóður og Pétri postula.

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir