Við Gestaglugga Kirkjublaðsins.is sest Lilja Árnadóttir (f. 1954).
Lilja lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1974 og síðar fil. kand.-prófi frá Háskólanum í Lundi í þjóðhátta og fornleifafræði með listfræði sem aukagrein. Hóf störf í Þjóðminjasafni Íslands snemma árs 1978. Sinnti margvíslegum verkum við safnið til starfsloka 2020. Vann við skráningu gripa, sýningargerð, annaðist húsasafn Þjóðminjasafnsins, var um tíma safnstjóri en seinustu árin var hún sviðstjóri munasafns Þjóðminjasafnsins.
Viðamestu verkefnin voru gerð grunnsýningarinnar Þjóð verður til Menning og samfélag í 1200 ár. Hún hefur skrifað greinar um menningarsöguleg málefni sem birst hafa í tímaritum og sýningarritum Þjóðminjasafnsins. Eftir hana eru greinar um gripi í 39 friðuðum kirkjum í ritröðinni Kirkjur Íslands. Ritstýrði bók Elsu E. Guðjónsson Með verkum handanna sem Þjóðminjasafn Íslands gaf út árið 2023.
Lilja birti athyglisverða grein í Árbók hins íslenzka fornleifafélags árið 1982. Nú hefur Lilja yfirfarið greinina og endurskoðað og óskaði Kirkjublaðið.is eftir því að fá að birta hana til að vekja athygli á efni hennar sem er afar fróðlegt fyrir öll þau sem unna kirkjumenningu og íslenskum kirkjum.
Altaristöflur skipa veglegan sess meðal kirkjugripa. Um aldir hefur fólki fundist næsta tómlegt í kirkjum ef ekki hefur verið fyrir hendi altaristafla eða annar hliðstæður búnaður, og leitast var við að útvega altaristöflur í guðshús, ef nokkur tök voru á. Sama gilti um altaristöflur og aðra hluti, að þær voru gerðar í takt við aldaranda og strauma á hverjum tíma.[1]
Í grein þessari verður leitast við eftir föngum að rekja tildrög að komu altaristaflna dansks málara hingað til lands í lok nítjándu aldar og upphafi hinnar tuttugustu, jafnframt því sem reynt verður að gera listamanninum nokkur skil. Áður en kemur að þeim þætti má geta þess, að myndefni altarisumbúnaða var margbrotið í kaþólskum sið. Mikið var af líkingum og táknum, sem listfræðingar fyrr og síðar hafa glímt við að útskýra og túlka. Svipaða sögu er að segja af kirkjulist frá siðaskiptum og fram að 1800, að hún hefur fengið allmikla umfjöllun fræðimanna.[2] Hefur norski listfræðingurinn Sigrid Christie bent á, að á því tímabili hafi engar gagngerar breytingar átt sér stað í kirkjulist í Noregi[3], þó að form altaristaflna breyttist. Svipaðar niðurstöður liggja fyrir frá Danmörku[4] og því er unnt að áætla, að þessu sé líkt farið á Íslandi. Algengustu myndefni á altaristöflum frá áður nefndu skeiði eru upprisan, krossfestingin og kvöldmáltíðin.[5]
Þegar fram á nítjándu öld kom urðu viðfangsefnin fjölbreyttari,[6] jafnframt því sem þau urðu einföld hvað form og innihald snerti, þótt oft hafi atburðir sem myndirnar sýna verið óútskýranlegir. Með sígildu myndefni, s.s. kvöldmáltíðinni, varð algengt að mála atburði úr Nýja testamentinu, þ.e. frásagnir guðspjallamannanna af lífi og starfi Krists,[7] og þegar leið fram yfir miðja öld urðu myndir úr dæmisögum og af kraftaverkum Krists hins vegar í meirihluta.[8]
En um altaristöflur nítjándu aldar gildir ekki það sama og um þær sem eldri eru. Tiltölulega lítið hefur verið tekið á kristilegu málverki í þeim ritum, sem annars fjalla um myndlist næst liðinnar aldar[9] þrátt fyrir að einmitt þá væri mikið málað af altaristöflum í kirkjur. Í Danmörku voru þá allmargir listamenn, sem höfðu af því atvinnu að mála altaristöflur samhliða annarri listsköpun eins og að mála landslagsmyndir, sögumálverk og mannamyndir. Voru það t.d. C.W. Eckersberg, J.L. Lund, A. Dorph og A. Lund. [10] Vinsældir þeirra áttu sinn þátt í því að þeir máluðu sömu mynd fyrir margar kirkjur og gæti það atriði hafa stuðlað að því að halda verði niðri.[11] Einnig voru til menn, sem einvörðungu kopíeruðu frummyndir annarra.[12] Flestir þessara listamanna hlutu einhverja menntun við listaháskóla, enda var það skylt hverjum þeim er útvega átti altaristöflu í Danmörku að leita ráða hjá Listaháskólanum í Kaupmannahöfn.[13]
Sé ferðast milli kirkna á Íslandi er áberandi hversu víða er að finna töflur frá nítjándu öld. Ástæður til þess, að altaristöflur voru endurnýjaðar þá eru vafalítið margar og oft samofnar. Í því sambandi má nefna, að um þetta leyti voru kirkjur víða gagngert lagfærðar eða hreinlega byggðar nýjar. Eftir slíkar framkvæmdir kom oft upp þörf í sóknum að fá nýja hluti í stað hinna gömlu, sem afar oft þóttu óhæfa lélegir eða svo gamlir og jafnvel verðmætir að þeir þóttu betur komnir á safni. Einmitt þá var Forngripasafnið á bernskuskeiði, en starfsmenn þess höfðu ötullega safnað fornum gripum og reynt að útvega nýja í staðinn ef þess þurfti. Hefur slíkt átt þátt í því að kynna fólki nýja strauma. Skoðun manna var orðin sú, að myndir ættu að vera auðskildar og því áttu hinar nýju altaristöflur erindi til fólks. Nefna má einnig, að oft virðist sem fólk óskaði eftir að fá hluti sem líktust því sem það hafði séð e.t.v. við nágrannakirkjuna eða jafnvel í bókum. Ekki þarf það að koma neinum á óvart, að meirihluti hinna nýju altaristaflna er eftir danska málara þar sem fáir Íslendingar áttu þess kost að stunda myndlist á þeim tíma.
Atvikin hafa hagað því þannig, að í ekki færri en tuttugu og fjórum kirkjum á Íslandi hafa verið til með vissu altaristöflur eftir danska málarann Anker Lund. Málari þessi, sem hét fullu nafni Niels Anker Lund, var fæddur í Kaupmannahöfn 24. febrúar 1840. Stundaði hann nám við Listaháskólann þar frá 1858-1866 þegar hann útskrifaðist sem málari. Hann lést árið 1922. Einna þekktastur varð hann fyrir leirmunaskreytingar sínar með forngrískum fyrirmyndum, sem hann vann fyrir leirkeraverksmiðju P. Ibsens en einnig málaði hann sögumálverk.[14] Hann málaði altaristöflur sínar af atburðum úr lífi og starfi Krists, atburðum og frásögnum Nýja testamentisins, sem fólk þekkti og trúði á og skírskotuðu til trúarinnar á einfaldan hátt, en það var raunar líkt og margir aðrir málarar eftir miðja nítjándu öld og fram á þá tuttugustu. Eitthvað fékkst hann við að kopíera frummyndir annarra[15] m.a. eftir altaristöflum C. Blochs. Myndir sínar auðkenndi hann annað hvort Anker Lund eða A. Lund og með ártali.
Anker Lund tilheyrði þeim hópi listamanna í Danmörku, sem ekki náði sérlegri frægð, þannig að mikið hafi verið um hann fjallað eftir á. En frá tveimur síðustu tugum nítjándu aldar eru um fjörutíu altaristöflur eftir hann í Danmörku og eru ekki fleiri töflur eftir annan málara á því tímabili þar í landi.[16] Fjöldi altaristaflna eftir hann ber vott um vinsældir hans og er greinilegt af því íslenska efni, sem ég hef farið í gegnum, að þegar myndir hans komu fyrst hingað þóttu þær einkar góðar.
Svo skemmtilega vill til, að nokkuð er vitað um tildrög þess, er altaristafla eftir Anker Lund kom fyrst til Íslands. Árið 1890 skrifaði Sigurður Vigfússon, þáverandi forstöðumaður Forngripasafnsins, grein í Fjallkonuna sem ætlað var að vera eins konar orðsending eða leiðbeining til þeirra, sem útvega þurftu altaristöflu. Þar segir hann frá því, að hann hafi sumarið 1886 á yfirreið sinni um Vesturland komið í Ögur. Þar í kirkjunni var þá allnokkuð af gömlum gripum og dýrmætum, þar á meðal var altaristafla frá miðöldum af flæmskum uppruna, „lítt hæf fyrir elli sakir.“[17] Sú er nú á Þjóðminjasafni nr. 3435, daglega nefnd Ögurbrík. Varð það að samkomulagi milli Sigurðar og Jakobs Rósinkarssonar bónda og kirkjuhaldara í Ögri, að hinn fyrrnefndi útvegaði kirkjunni nýja altaristöflu í stað hinna fornu gripa, er skyldu renna til Forngripasafnsins og lögðu stiftsyfirvöld blessun sína yfir það. Fram kemur í máli Sigurðar, að ekki gekk of vel að finna málara, sem bæði málaði það vel að öllum líkaði og væri sanngjarn og viðráðanlegur hvað verð snerti. Leitaði Sigurður fyrir sér bæði utan lands og innan. Það var ekki fyrr en Steingrímur Thorsteinsson skáld og rektor fór utan til Danmerkur sumarið 1888 að honum tókst fyrir beiðni Sigurðar að hafa uppi á málara, sem honum leist vel til verksins, en sjálfur hafði Steingrímur „gott auga fyrir myndlist.“[18] Sigurður samdi sjálfur við málarann um gerð myndarinnar, enda kemur fram í bréfum frá sr. Sigurði Stefánssyni í Vigur til Forngripasafnsins, að nafni hans Vigfússon var tengiliður við málarann og að heimamenn fyrir vestan hafa haft ákveðnar skoðanir á því hvernig taflan skyldi vera. Umrædd tafla sýnir upprisu Krists og kostaði hún 250 krónur, sem var viðráðanlegt verð. Af lestri greinar Sigurðar Vigfússonar má ráða, að þeir sem fyrstir sáu upprisumynd Ögurkirkju hér á landi líkaði hún svo vel, að þeir hafa óhikað getað mælt frekar með listamanninum. Þar á meðal var biskupinn Hallgrímur Sveinsson, sá embættismaður, sem ekki hvað síst hefur verið til ráðgjafar við val og útvegun nýrra kirkjugripa. Átti það drjúgan þátt í því, að töflur eftir Anker Lund eru jafn margar hér á landi og raun ber vitni. Af fjölda þeirra er vart annað að ráða en samband hans við Íslendinga hafi verið með ágætum.
Hér fer á eftir skrá um altaristöflur, sem örugglega eru eftir Lund. Hún byggir á kirknaskrá Matthíasar Þórðarsonar þjóðminjavarðar, sem hann gerði á árunum fyrir 1920 þegar hann ferðaðist um landið þvert og endilangt. Verið gæti, að til væru fleiri töflur eftir hann hér á landi og þá án merkingar listamannsins, því fyrir kemur að Matthías hefur skrifað „nýlegt málverk“ eða eitthvað á þá leið. Þyrfti í slíkum tilfellum að athuga nánar hvort unnt væri að skera úr um hvort Lund kynni að vera höfundur einhverrar þeirra. Af neðangreindum töflum er aðeins ein ómerkt, í Marteinstungukirkju, en af samanburði við töfluna í Odda leynir sér ekki hver höfundur hennar er.
Í upptalningunni hér á eftir verður farið sólarsinnis um landið og byrjað á Setbergi.
- Í Setbergskirkju í Grundarfirði er altaristafla með mynd af upprisu Krists máluð 1892. Einmitt það sama ár var byggð ný kirkja á Setbergi. Það er svo ekki fyrr en 1899, sem nýrrar töflu er getið í kirkjunni. Það ár vísiteraði Sigurður Gunnarsson prófastur og lét þess getið, að keypt hefði verið tafla fyrir 250 krónur. Tveir þriðju verðsins voru greiddir af kirkjufé, en þriðjungur af samskotafé barna og kvenna með forgöngu sóknarprestsins.[19]
- Í Staðarfellskirkju á Fellsströnd er upprisumynd máluð 1892? Það ár fóru bréf á milli forstöðumanns Forngripasafns og manna fyrir vestan, þeirra sr. Kjartans Helgasonar í Hvammi og Hallgríms Jónssonar á Staðarfelli þar sem fram kemur að Sigurður Vigfússon hefur fallist á, að útvega nýja töflu gegn gömlum munum úr kirkjunni. 19. ágúst sama ár skrifar sr. Kjartan Pálma Pálssyni þá nýorðnum forstöðumanni Forngripasafns og vonast hann til, að hægt verði að útvega töfluna þótt Sigurður sé fallinn frá, en hann lést 8. þess mánaðar. Í bréfi þessu kemur fram, að heimamenn hafa haft ákveðnar óskir um stærð og söguefni myndar: „Altarið í Staðarfellskirkju er 2 álnir og 3 þuml. á breidd, og færi víst bezt á að taflan væri jöfn því; þó get jeg ekki sjeð að neitt illa færi á því þótt hún væri lítið eitt mjórri. Um hæðina á jeg ekki gott með að segja neitt á kveðið. Gafl kirkjunnar er mjög stór (og auður) og þolir því stóra töflu; altaristaflan í Reykjavíkurkirkju mundi t.d. sýnast fremur oflítil en ofstór í Staðarfellskirkju… Jeg spurði Hallgrím hvað honum litist um það, og óskaði hann helzt eptir „kveldmáltíðinni“, en ekki er honum það áhugamál. Hræddur er jeg um að slík mynd yrði dýrari en aðrar einfaldari þótt jafnstórar væru.“[20]
Í prófastsvísitasíu 1893 kemur fram, að tafla hefur verið keypt fyrir 265 krónur,[21] en það sama ár kom til Forngripasafns altarisbrík frá Staðarfelli, nú Þjms. 3919.Altaristaflan í Staðarfellskirkju – mynd: Kirkjublaðið.is
- Í Flateyjarkirkju á Breiðafirði er altaristafla máluð 1885 af Kristi með tveimur postulum á leið til Emaus. Töfluna útvegaði biskup frá Kaupmannahöfn að beiðni Sigurðar Jenssonar prófasts í Flatey og kostaði hún 250 krónur.[22] (Sjá mynd 2.)
Áður var í kirkjunni kvöldmáltíðarmynd, nú í Þjóðminjasafni nr. 10170.
- Í Hagakirkju á Barðaströnd er altaristafla máluð árið 1900 og sýnir hún Krist á leið til Emaus með tveimur postulum. Í prófastsvísitasíu 1902 er þess getið, að kirkjan hafi þá nýlega eignast töflu eftir Anker Lund.[23]
- Í Múlakirkju á Skálmarnesi er altaristafla máluð 1899 og sýnir það þegar Kristur læknar blinda manninn. Töflu þessa útvegaði biskup til landsins haustið 1899 að beiðni prófasts og kostaði hún 164 krónur, sem greiddust af kirkjufé.[24]
- Í Ögurkirkju við Ísafjarðardjúp er altaristafla máluð 1889 og er hún af upprisu Krists. Hún kom til kirkjunnar 1890 fyrir milligöngu Forngripasafnsins[25] samanber það sem áður er sagt.
Altaristaflan í Ögurkirkju – mynd: Ívar Brynjólfsson
- Í Unaðsdalskirkju á Snæfjallaströnd er altaristafla máluð 1899 af Kristi þar sem hann læknar blinda manninn. Ekki hefur tekist að rekja hvernig eða hvenær hún kom til kirkjunnar.
- Í Sauðárkrókskirkju er altaristafla máluð 1895 og er hún af göngu Jesú með tveimur postulum til Emaus. Taflan var gjöf frá Emilie ekkju Ludvigs Popp kaupmanns á Sauðárkróki, en hann var velgjörðarmaður kirkjunnar og lést um það leyti sem hún var vígð.[26]
Altaristafla í Sauðárkrókskirkju – mynd: Kirkjublaðið.is
- Í Fellskirkju í Sléttuhlíð er altaristafla máluð 1920 og sýnir hún það, þegar Jesús læknar dóttur Jaírusar. Lengi hafði vantað töflu í kirkjuna, þar til loks við vísitasíu prófasts 1922 að hún hafði verið fengin. Var hún gjöf frá söfnuði og presti og kostaði í kirkjuna komin 617,25 krónur.[27]
- Í Siglufjarðarkirkju er altaristafla máluð 1906 og sýnir Jesúm í grasgarðinum Getsemane. Töfluna fékk kirkjan að gjöf frá safnaðarfulltrúanum Wilhelm M. Jónssyni kaupmanni árið 1907 og kostaði hún 300 krónur.[28] Hún er ekki lengur yfir altari heldur hangir hún á öðrum stað í kirkjunni, andspænis átjándu aldar töflu, sem þar er til.[29]
- Í Grundarkirkju í Eyjafirði er altaristafla máluð 1891, sem sýnir upprisu Krists. Kirkjueigandinn Magnús Gíslason lagði töfluna til og var hún komin í kirkjuna 1893 þegar Jónas Jónasson prófastur á Hrafnagili vísiteraði.[30] (Sjá mynd 1.)
- Í Kirkjubæjarkirkju í Hróarstungu er altaristafla máluð 1894 og er hún af því þegar Kristur birtist Maríu Magdalenu við gröfina. Árið 1893 skrifaði sr. Einar Jónsson í Kirkjubæ Pálma Pálssyni forstöðumanni Forngripasafns. Þá kemur fram, að nýlega hafi verið gert við kirkjuna og átti að útvega nýja töflu í stað tveggja eldri, sem Sigurður Vigfússon hafði boðið 200 krónur í.[31] Árið 1894 komu þær til safnsins Þjms. 4635 og 4637, en svo slysalega vildi til, að kirkjubækur ásamt öðru lentu í bruna á Kirkjubæ árið 1897 og því er ekkert nánar vitað um það, hvenær taflan nýja komst austur, en væntanlega hefur það verið fljótlega eftir þetta.
Kirkjubæjarkirkja í Hróarstungu – mynd: Ívar Brynjólfsson
- Í Hofteigskirkju á Jökuldal er altaristafla máluð 1897 af því þegar Kristur læknar blinda manninn. Ekki hefur tekist að rekja það hvernig hún kom til kirkjunnar því bækur hennar munu hafa eyðilagst þegar bruninn varð í Kirkjubæ.
Altaristaflan í Hofteigskirkju – mynd: Ívar Brynjólfsson
- Í Vallarneskirkju á Völlum er altaristafla máluð 1899 og sýnir það þegar Kristur kyrrir vatn og vind. Í prófastsvísitasíu 1899 er það tekið fram, að altaristafla kirkjunnar sé gömul og léleg og eigi að leggjast niður.[32] Það er svo við heimsókn Jóhanns L. Sveinbjarnarsonar prófasts 1901 sem hin nýja tafla er komin og kostaði hún á fjórða hundrað króna.[33]
- Í Eskifjarðarkirkju er altaristafla, sem sýnir Jesúm í grasgarðinum Getsemane. Árið 1899 var Hólmasókn skipt í tvennt, þannig að ný kirkja var byggð á Eskifirði[34] og má getum að því leiða, að fljótlega hafi komið tafla í hana, en ekkert er um það sagt í prófastsvísitasíum árin á eftir.
- Í Kolfreyjustaðarkirkju við Fáskrúðsfjörð er altaristafla máluð 1904 sem sýnir Jesúm hjá fiskimönnunum er þeir draga net sín. Við prófastsvísitasíu 1905 hafði hún nýlega verið keypt.
Altaristaflan í Kolfreyjustaðarkirkju – mynd: Ívar Brynjólfsson
- Í Prestbakkakirkju á Síðu er altaristafla máluð 1902, og er hún af upprisu Krists. Strax það sama ár er hún komin í kirkjuna, en sóknarnefnd sá um að útvega hana fyrir rúmar 200 krónur.[36]
- Í Langholtskirkju í Meðallandi er altaristafla, máluð árið 1901, af Kristi og konunni við brunninn. Um árabil er þess getið í prófastsvísitasíum að töflu vanti í kirkjuna, en árið 1905 þegar gert hafði verið við húsið var fengin ný tafla.[37]
Langholtskirkja í Meðallandi – mynd: Ívar Brynjólfsson
- Í Þykkvabæjarklausturskirkju í Álftaveri er altaristafla, máluð 1904, og er hún með mynd af því þegar Jesús læknar blinda manninn. Líkt er með þessa töflu og þá í Langholti, að hún kom einhvern tíma árs 1905 þegar gert hafði verið við kirkjuna.[38]
- Í Skeiðflatarkirkju í Mýrdal er altaristafla máluð 1906, sem sýnir upprisu Krists. Var hún keypt fyrir 300 krónur og var komin í kirkjuna í júlí 1908.[39]
- Í Marteinstungukirkju í Holtum er altaristafla með mynd af Kristi í grasgarðinum Getsemane. Taflan er ómerkt eins og fyrr er sagt, en við prófastsvísitasíu 1909 er hún komin. Það var Lovísa drottning Friðriks 8., sem útvegaði og gaf töfluna fyrir milligöngu Kristjáns Jónssonar bónda og fjárhaldsmanns kirkjunnar.[40]
Altaristaflan í Marteinstungukirkju – mynd: Ívar Brynjólfsson
- Í Oddakirkju á Rangárvöllum er altaristafla, sem sýnir Krist í grasgarðinum Getsemane og er hún máluð 1895 og hið sama ár er getið um kaup á henni í prófastsvísitasíu.[41] (Sjá mynd 3.)
- Í Torfastaðakirkju í Biskupstungum er altaristafla, sem sýnir Krist og bersyndugu konuna og er hún máluð 1893. Um það leyti var reist ný kirkja á staðnum, enda er hinnar nýju töflu getið strax í prófastsvísitasíu 1893.[42]
Altaristaflan í Torfastaðakirkju – mynd: Kirkjublaðið.is
- Í Þingvallakirkju var altaristafla, máluð 1895, af Kristi þar sem hann læknar blinda manninn. Töflu þessa gaf Hannes Guðmundsson bóndi í Skógarkoti kirkjunni árið 1896 eða 7 og kostaði hún nálega 300 krónur.[43] (Sjá mynd 4.) Þá var fyrir í kirkjunni máluð kvöldmáltíðarmynd eftir Ófeig Jónsson í Heiðarbæ, en hún var seld til Englands 1899 fyrir 10 krónur. Ekki verður hér frekar rakin saga hennar, en hún endurheimtist 1974 og var þá sett yfir altarið í kirkjunni. Skömmu eftir það tók sóknarnefndin töflu Anker Lund í sína vörslu og er hún nú varðveitt hjá Guðmanni Ólafssyni á Skálabrekku. Mun það vera hugur safnaðarins, að hún hljóti sess á nýjan leik í kirkjunni. –
Nú er upptalning þessi á enda og í lokin er rétt að draga saman fáein atriði um töflurnar. Þær eru allar utan þeirrar í Fellskirkju málaðar á árunum 1885–1906, á sama tímabili og Anker Lund málaði margar aðrar töflur. Þessi mikli fjöldi helgast að hluta til af því, að stór hluti myndanna eru kopíur. En það eitt varpar ekki rýrð á listamanninn sem slíkan. Það var algengt að mála sama viðfangsefnið oft á þessum tíma, þegar eftirspurn var mikil og markaðurinn krafðist þess alls ekki að skipt væri sífellt um myndefni. Að því leyti svipaði þessari altaristöflugerð meira til fjöldaframleiðslu nútímans en til listsköpunar í venjulegum skilningi.
Á þessum tuttugu og fjórum töflum, sem dreifast vítt um landið eru níu viðfangsefni og koma fjögur þeirra fyrir oftar en einu sinni. Þar er upprisan algengust, en til eru sex myndir með henni, sem allar eru nauðalíkar. Fimm eru þar sem Kristur læknar blinda manninn, fjórar af Kristi í grasgarðinum og þrjár af göngunni til Emaus. Hin sex myndefnin koma aðeins einu sinni fyrir. Í ritgerð N. Damsgaard er listi yfir fjörutíu og tvær töflur eftir Lund í Danmörku frá sama tímabili[44] og þær sem hér eru. Nokkuð fróðlegt er að bera saman þetta tvennt. Þar er engin upprisumynd, fjórtán af Emausgöngunni, aðeins tvær af Kristi og blinda manninum og fjórar úr Getsemane. Upprisumyndin mun að hluta til vera kopía eftir verki C. Blochs[45] og gæti það að einhverju leyti skýrt það, að slíkar myndir er einvörðungu að finna hér. Annað myndefni sem kemur fyrir oftar en einu sinni í Danmörku og var mjög vinsælt er t.d. Kristur og börnin og Kristur og syndugi maðurinn, en hvorugt þeirra er til hér. Þannig er nokkur munur á altaristöflum Anker Lund hér og í Danmörku, en að svo komnu máli er fátt um skýringar á því.
Sé hugað að dreifingu taflnanna um landið, má greina, að þær eru að nokkru leyti bundnar við ákveðin svæði, og að í sumum prófastsdæmum eru engar til. Þannig er það t.d. í Húnavatnssýslum og Þingeyjarsýslum, en á hinu síðar nefnda svæði eru nokkrar altaristöflur eftir einn af fáum íslenskum málurum nítjándu aldar, Arngrím Gíslason. Á Austurlandi eru hins vegar fimm á tiltölulega litlu svæði og sömu sögu er að segja um Vestur-Skaftafellssýslu og Barðarstrandarprófastsdæmi. Einar fjórar eru á Suðurlandi. Það kemur líka á daginn, að sama gildir um ofangreind prófastdæmi, að í þeim hefur verið prófastur, sem gerði sér far um að útvega töflur, og þá afar oft í samráði við biskupinn. Þannig er með þetta eins og fleiri nýjungar, að útbreiðslu taflnanna má rekja til einstakra embættismanna. En hafa ber í huga, að hefðu hinir sömu embættismenn verið uppi á öðrum tímum, sem í andlegu og efnalegu tilliti hefðu ekki leyft að skipt væri um töflur eða nýjar fengnar, þá hefði það ekki gerst. Einmitt þarna var trúarlegur jarðvegur fyrir nýjar hugmyndir samfara möguleika á að leggja nokkurt fé til slíkra hluta. Anker Lund málaði töflur sínar einfaldar á þann veg, að almenningur áttaði sig vel á boðskap þeirra og því féllu þær fólki afar vel í geð og gera enn í dag.
Grein þessi var samin að tilmælum dr. Kristjáns Eldjárns.
Þegar greinin hafði verið sett rifjaðist upp, að altaristaflan í Breiðabólstaðarkirkju í Vesturhópi er eftir Anker Lund. Hún er ekki máluð fyrr en 1920 og sýnir Krist þar sem hann blessar ungu börnin. Samkvæmt kirkjustól Breiðabólstaðarkirkju í Þjóðskjalasafni gáfu nokkrir menn í söfnuðinum töfluna árið 1920 og kostaði hún um 650 krónur. Tafla þessi er önnur tveggja yngstu taflna hér á landi eftir málarann, hin er að Felli í Sléttuhlíð, sjá hér að framan.
Athugasemd höfundar
Þegar ritstjóri Kirkjublaðsins.is fór þess á leit við undirritaða að birta í Kirkjublaðinu greinina Anker Lund og altaristöflur hans á Íslandi, sem birtist í Árbók hins íslenzka fornleifafélags árið 1982 vildi ég yfirfara efni greinarinnar þar sem taldar eru upp 24 altarismyndir eftir Lund.
Nú liggur fyrir ritröðin Kirkjur Íslands í 31 bindi með ítarlegum greinum um allar friðaðar kirkjur á landinu. Bækurnar komu út á árunum 2001 til 2018. Nauðsynlegt var að kanna á þessu stigi máls hvort altarismyndir eftir Lund væru jafnvel fleiri á Íslandi.
Er skemmst frá því að segja að ein altarismynd bættist við. Sú er eftirmynd Anker Lund af kunnri altaristöflu danska málarans Carl H. Bloch[46] í gömlu kirkjunni í Reykholti. Á myndinni blessar Jesú hóp fólks sem hallar sér að honum og neðst á myndinni er máluð setningin KOMMER TILL MIG I ALLE SOM ARBETEN OCH ÆREN BETUNGEGDE OG IAG WIL WEDERCWIKA EDER. Í hægra horni neðst stendur að myndin sé eftirmynd Anker Lund á málverki Carl H. Bloch. Hún var keypt til kirkjunnar í byrjun 20. aldar.
Í mars 2025
Lilja Árnadóttir
SUMMARY
This article deals with Danish painter, Anker Lund, who painted relatively large number of alter-pieces for Icelandic churches during the 19th and 20th centuries. It includes a list of his alter-pieces where one traces as far as possible when and how they were purchased. This study benefits from an unpublished master´s -thesis on alter-pieces in Denmark in the 19th century by Nina Damsgaard in Vejle, Danmark.
Anker Lund was one of many Danish painters who painted altar-pieces during this period. He was born in 1840 and died in 1922. He received his education at Kunstakademiet in Copenhagen and apart from the altar-pieces he painted historical scenes and decorated pottery. Many of this altar-pieces are replicas of his own as of others but that was quite common at that time. In Iceland there exist at least 23 altar-pieces by him dating from 1885 to 1906, and one was patinted 1920, but from almost the same period in Denmark the number is just over 40.
It is known that it was through the National Museum that the first altar-pieces was bougth for Ögur church in Northwestern Iceland in 1889. It shows the Resurrection and so do five other altar-pieces by Lund in Iceland. On four of his altar-pieces the motive is Christ in the garden of Gethsemane, five show where Christ heals the blind man and three times the motive shows Christ walking to Emaus together with two apostles. It seems that the authorities, such as the bishop of Iceland, liked the first altar-piece. This can be seen by their number in Iceland which to some extent also can be explained by the fact that in this period many churches were being repaired or built anew, and the need for new church-goods thus became more apparent. But that is not the sole explanation. The motives of Anker Lund´s altar-pieces appealed both to the taste of the nation and its religious ideas. And they still hold the sam appeal today.
Tilvísanir:
[1] Nina Damsgaard: „Det danske altertavlemaleri i 1800 tallet og dets forhold til de samtidige religiøse strømmninger“. bls. 3. Þegar ég var komin af stað með að safna efni í grein þessa, kom í ljós, að næsta litlar heimildir var að finna um Anker Lund. Því skrifaði ég sérfræðingum í Danmörku, sem bentu mér á Ninu Damsgaard magister, sem veitti mér góðfúslegt leyfi að nota óprentaða magistersritgerð sína við samningu þessa og sendi hún mér ljósrit af henni. Kann ég henni bestu þakkir fyrir.
[2] Sama, bls. 4.
[3] Sigrid Christie: Den lutherske ikonografi i Norge inntil 1800. I – II. Norske minnesmerker. Land og kirke. Oslo 1973, bls. 158.
[4] Nina Damsgaard: Sama rit, bls. 9.
[5] Sama, bls. 8.
[6] Sama, bls. 10.
[7] Sama, bls. 10.
[8] Sama, bls. 12.
[9] Sama, bls. 5.
[10] Sama, bls. 7.
[11] Sama, bls. 7.
[12] Sama, bls. 8.
[13] Sama, bls. 13.
[14] Weilbachs Kunstnerleksikon II. Kaupmannahöfn 1949, bls. 283.
[15] Nina Damsgaard: Sama rit, bls. 15.
[16] Sama, bls. 68.
[17] Sigurður Vigfússon: „Altaristöflur“, Fjallkonan 1890, bls. 107.
[18] Hannes Pétursson: Steingrímur Thorsteinsson, Reykjavík 1964, bls. 110.
[19] Þjóðskjalasafn. Kirknasafn X, 1, A, 5.
[20] Bréfasafn Þjóðminjasafns.
[21] Þjskjs. Ks. XI, 5, A, 5.
[22] Sama Ks. XII, 1, A, 7.
[23] Sama Ks. XII, 1, A, 7.
[24] Sama Ks. XII, 5, A, 2.
[25] Sama Ks. XIV, 1, A, 4.
[26] Kristmundur Bjarnason: Saga Sauðárkróks, Sauðárkróki 1969, bls. 299.
[27] Prófastsvísitasíubók Skagafjarðarprófastsdæmis, varðveitt á Héraðsskjalassafninu á Sauðárkróki.
[28] Þjskjs. Ks. XVIII, 1, A, 14.
[29] Siglufjarðarkirkja 1932–1982. Sóknarnefnd Siglufjarðar 1982, bls. 40.
[30] Þjskjs. Ks. XVIII, 1, A, 14.
[31] Bréfasafn Þjóðminjasafns.
[32] Þjskjs. Ks. II, 1, A, 12.
[33] Sama Ks. II, 1, A, 12.
[34] Sama Ks. II, 8, A, 3.
[35] Sama Ks. II, 1, A, 12.
[36] Sama Ks. IV, 1, A, 6.
[37] Sama Ks. IV, 1, A, 6.
[38] Sama Ks. IV, 1, A, 6.
[39] Sama Ks. IV, 1, A, 6.
[40] Sama Ks. V, 1, A, 12.
[41] Sama Ks. V, 1, A, 11.
[42] Sama Ks. VI, 1, A, 8.
[43] Sama Ks. VI, 1, A, 8.
[44] Nina Damsgaard: Sama rit, bilag XXI.
[45] Kirknaskrá Matthíasar Þórðarsonar, ópr. í Þjóðminjasafni, sjá Prestbakki, og Nína Damsgaard, sama rit bls. 76.
[46] https://en.wikipedia.org/wiki/Carl_Bloch
Við Gestaglugga Kirkjublaðsins.is sest Lilja Árnadóttir (f. 1954).
Lilja lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1974 og síðar fil. kand.-prófi frá Háskólanum í Lundi í þjóðhátta og fornleifafræði með listfræði sem aukagrein. Hóf störf í Þjóðminjasafni Íslands snemma árs 1978. Sinnti margvíslegum verkum við safnið til starfsloka 2020. Vann við skráningu gripa, sýningargerð, annaðist húsasafn Þjóðminjasafnsins, var um tíma safnstjóri en seinustu árin var hún sviðstjóri munasafns Þjóðminjasafnsins.
Viðamestu verkefnin voru gerð grunnsýningarinnar Þjóð verður til Menning og samfélag í 1200 ár. Hún hefur skrifað greinar um menningarsöguleg málefni sem birst hafa í tímaritum og sýningarritum Þjóðminjasafnsins. Eftir hana eru greinar um gripi í 39 friðuðum kirkjum í ritröðinni Kirkjur Íslands. Ritstýrði bók Elsu E. Guðjónsson Með verkum handanna sem Þjóðminjasafn Íslands gaf út árið 2023.
Lilja birti athyglisverða grein í Árbók hins íslenzka fornleifafélags árið 1982. Nú hefur Lilja yfirfarið greinina og endurskoðað og óskaði Kirkjublaðið.is eftir því að fá að birta hana til að vekja athygli á efni hennar sem er afar fróðlegt fyrir öll þau sem unna kirkjumenningu og íslenskum kirkjum.
Altaristöflur skipa veglegan sess meðal kirkjugripa. Um aldir hefur fólki fundist næsta tómlegt í kirkjum ef ekki hefur verið fyrir hendi altaristafla eða annar hliðstæður búnaður, og leitast var við að útvega altaristöflur í guðshús, ef nokkur tök voru á. Sama gilti um altaristöflur og aðra hluti, að þær voru gerðar í takt við aldaranda og strauma á hverjum tíma.[1]
Í grein þessari verður leitast við eftir föngum að rekja tildrög að komu altaristaflna dansks málara hingað til lands í lok nítjándu aldar og upphafi hinnar tuttugustu, jafnframt því sem reynt verður að gera listamanninum nokkur skil. Áður en kemur að þeim þætti má geta þess, að myndefni altarisumbúnaða var margbrotið í kaþólskum sið. Mikið var af líkingum og táknum, sem listfræðingar fyrr og síðar hafa glímt við að útskýra og túlka. Svipaða sögu er að segja af kirkjulist frá siðaskiptum og fram að 1800, að hún hefur fengið allmikla umfjöllun fræðimanna.[2] Hefur norski listfræðingurinn Sigrid Christie bent á, að á því tímabili hafi engar gagngerar breytingar átt sér stað í kirkjulist í Noregi[3], þó að form altaristaflna breyttist. Svipaðar niðurstöður liggja fyrir frá Danmörku[4] og því er unnt að áætla, að þessu sé líkt farið á Íslandi. Algengustu myndefni á altaristöflum frá áður nefndu skeiði eru upprisan, krossfestingin og kvöldmáltíðin.[5]
Þegar fram á nítjándu öld kom urðu viðfangsefnin fjölbreyttari,[6] jafnframt því sem þau urðu einföld hvað form og innihald snerti, þótt oft hafi atburðir sem myndirnar sýna verið óútskýranlegir. Með sígildu myndefni, s.s. kvöldmáltíðinni, varð algengt að mála atburði úr Nýja testamentinu, þ.e. frásagnir guðspjallamannanna af lífi og starfi Krists,[7] og þegar leið fram yfir miðja öld urðu myndir úr dæmisögum og af kraftaverkum Krists hins vegar í meirihluta.[8]
En um altaristöflur nítjándu aldar gildir ekki það sama og um þær sem eldri eru. Tiltölulega lítið hefur verið tekið á kristilegu málverki í þeim ritum, sem annars fjalla um myndlist næst liðinnar aldar[9] þrátt fyrir að einmitt þá væri mikið málað af altaristöflum í kirkjur. Í Danmörku voru þá allmargir listamenn, sem höfðu af því atvinnu að mála altaristöflur samhliða annarri listsköpun eins og að mála landslagsmyndir, sögumálverk og mannamyndir. Voru það t.d. C.W. Eckersberg, J.L. Lund, A. Dorph og A. Lund. [10] Vinsældir þeirra áttu sinn þátt í því að þeir máluðu sömu mynd fyrir margar kirkjur og gæti það atriði hafa stuðlað að því að halda verði niðri.[11] Einnig voru til menn, sem einvörðungu kopíeruðu frummyndir annarra.[12] Flestir þessara listamanna hlutu einhverja menntun við listaháskóla, enda var það skylt hverjum þeim er útvega átti altaristöflu í Danmörku að leita ráða hjá Listaháskólanum í Kaupmannahöfn.[13]
Sé ferðast milli kirkna á Íslandi er áberandi hversu víða er að finna töflur frá nítjándu öld. Ástæður til þess, að altaristöflur voru endurnýjaðar þá eru vafalítið margar og oft samofnar. Í því sambandi má nefna, að um þetta leyti voru kirkjur víða gagngert lagfærðar eða hreinlega byggðar nýjar. Eftir slíkar framkvæmdir kom oft upp þörf í sóknum að fá nýja hluti í stað hinna gömlu, sem afar oft þóttu óhæfa lélegir eða svo gamlir og jafnvel verðmætir að þeir þóttu betur komnir á safni. Einmitt þá var Forngripasafnið á bernskuskeiði, en starfsmenn þess höfðu ötullega safnað fornum gripum og reynt að útvega nýja í staðinn ef þess þurfti. Hefur slíkt átt þátt í því að kynna fólki nýja strauma. Skoðun manna var orðin sú, að myndir ættu að vera auðskildar og því áttu hinar nýju altaristöflur erindi til fólks. Nefna má einnig, að oft virðist sem fólk óskaði eftir að fá hluti sem líktust því sem það hafði séð e.t.v. við nágrannakirkjuna eða jafnvel í bókum. Ekki þarf það að koma neinum á óvart, að meirihluti hinna nýju altaristaflna er eftir danska málara þar sem fáir Íslendingar áttu þess kost að stunda myndlist á þeim tíma.
Atvikin hafa hagað því þannig, að í ekki færri en tuttugu og fjórum kirkjum á Íslandi hafa verið til með vissu altaristöflur eftir danska málarann Anker Lund. Málari þessi, sem hét fullu nafni Niels Anker Lund, var fæddur í Kaupmannahöfn 24. febrúar 1840. Stundaði hann nám við Listaháskólann þar frá 1858-1866 þegar hann útskrifaðist sem málari. Hann lést árið 1922. Einna þekktastur varð hann fyrir leirmunaskreytingar sínar með forngrískum fyrirmyndum, sem hann vann fyrir leirkeraverksmiðju P. Ibsens en einnig málaði hann sögumálverk.[14] Hann málaði altaristöflur sínar af atburðum úr lífi og starfi Krists, atburðum og frásögnum Nýja testamentisins, sem fólk þekkti og trúði á og skírskotuðu til trúarinnar á einfaldan hátt, en það var raunar líkt og margir aðrir málarar eftir miðja nítjándu öld og fram á þá tuttugustu. Eitthvað fékkst hann við að kopíera frummyndir annarra[15] m.a. eftir altaristöflum C. Blochs. Myndir sínar auðkenndi hann annað hvort Anker Lund eða A. Lund og með ártali.
Anker Lund tilheyrði þeim hópi listamanna í Danmörku, sem ekki náði sérlegri frægð, þannig að mikið hafi verið um hann fjallað eftir á. En frá tveimur síðustu tugum nítjándu aldar eru um fjörutíu altaristöflur eftir hann í Danmörku og eru ekki fleiri töflur eftir annan málara á því tímabili þar í landi.[16] Fjöldi altaristaflna eftir hann ber vott um vinsældir hans og er greinilegt af því íslenska efni, sem ég hef farið í gegnum, að þegar myndir hans komu fyrst hingað þóttu þær einkar góðar.
Svo skemmtilega vill til, að nokkuð er vitað um tildrög þess, er altaristafla eftir Anker Lund kom fyrst til Íslands. Árið 1890 skrifaði Sigurður Vigfússon, þáverandi forstöðumaður Forngripasafnsins, grein í Fjallkonuna sem ætlað var að vera eins konar orðsending eða leiðbeining til þeirra, sem útvega þurftu altaristöflu. Þar segir hann frá því, að hann hafi sumarið 1886 á yfirreið sinni um Vesturland komið í Ögur. Þar í kirkjunni var þá allnokkuð af gömlum gripum og dýrmætum, þar á meðal var altaristafla frá miðöldum af flæmskum uppruna, „lítt hæf fyrir elli sakir.“[17] Sú er nú á Þjóðminjasafni nr. 3435, daglega nefnd Ögurbrík. Varð það að samkomulagi milli Sigurðar og Jakobs Rósinkarssonar bónda og kirkjuhaldara í Ögri, að hinn fyrrnefndi útvegaði kirkjunni nýja altaristöflu í stað hinna fornu gripa, er skyldu renna til Forngripasafnsins og lögðu stiftsyfirvöld blessun sína yfir það. Fram kemur í máli Sigurðar, að ekki gekk of vel að finna málara, sem bæði málaði það vel að öllum líkaði og væri sanngjarn og viðráðanlegur hvað verð snerti. Leitaði Sigurður fyrir sér bæði utan lands og innan. Það var ekki fyrr en Steingrímur Thorsteinsson skáld og rektor fór utan til Danmerkur sumarið 1888 að honum tókst fyrir beiðni Sigurðar að hafa uppi á málara, sem honum leist vel til verksins, en sjálfur hafði Steingrímur „gott auga fyrir myndlist.“[18] Sigurður samdi sjálfur við málarann um gerð myndarinnar, enda kemur fram í bréfum frá sr. Sigurði Stefánssyni í Vigur til Forngripasafnsins, að nafni hans Vigfússon var tengiliður við málarann og að heimamenn fyrir vestan hafa haft ákveðnar skoðanir á því hvernig taflan skyldi vera. Umrædd tafla sýnir upprisu Krists og kostaði hún 250 krónur, sem var viðráðanlegt verð. Af lestri greinar Sigurðar Vigfússonar má ráða, að þeir sem fyrstir sáu upprisumynd Ögurkirkju hér á landi líkaði hún svo vel, að þeir hafa óhikað getað mælt frekar með listamanninum. Þar á meðal var biskupinn Hallgrímur Sveinsson, sá embættismaður, sem ekki hvað síst hefur verið til ráðgjafar við val og útvegun nýrra kirkjugripa. Átti það drjúgan þátt í því, að töflur eftir Anker Lund eru jafn margar hér á landi og raun ber vitni. Af fjölda þeirra er vart annað að ráða en samband hans við Íslendinga hafi verið með ágætum.
Hér fer á eftir skrá um altaristöflur, sem örugglega eru eftir Lund. Hún byggir á kirknaskrá Matthíasar Þórðarsonar þjóðminjavarðar, sem hann gerði á árunum fyrir 1920 þegar hann ferðaðist um landið þvert og endilangt. Verið gæti, að til væru fleiri töflur eftir hann hér á landi og þá án merkingar listamannsins, því fyrir kemur að Matthías hefur skrifað „nýlegt málverk“ eða eitthvað á þá leið. Þyrfti í slíkum tilfellum að athuga nánar hvort unnt væri að skera úr um hvort Lund kynni að vera höfundur einhverrar þeirra. Af neðangreindum töflum er aðeins ein ómerkt, í Marteinstungukirkju, en af samanburði við töfluna í Odda leynir sér ekki hver höfundur hennar er.
Í upptalningunni hér á eftir verður farið sólarsinnis um landið og byrjað á Setbergi.
- Í Setbergskirkju í Grundarfirði er altaristafla með mynd af upprisu Krists máluð 1892. Einmitt það sama ár var byggð ný kirkja á Setbergi. Það er svo ekki fyrr en 1899, sem nýrrar töflu er getið í kirkjunni. Það ár vísiteraði Sigurður Gunnarsson prófastur og lét þess getið, að keypt hefði verið tafla fyrir 250 krónur. Tveir þriðju verðsins voru greiddir af kirkjufé, en þriðjungur af samskotafé barna og kvenna með forgöngu sóknarprestsins.[19]
- Í Staðarfellskirkju á Fellsströnd er upprisumynd máluð 1892? Það ár fóru bréf á milli forstöðumanns Forngripasafns og manna fyrir vestan, þeirra sr. Kjartans Helgasonar í Hvammi og Hallgríms Jónssonar á Staðarfelli þar sem fram kemur að Sigurður Vigfússon hefur fallist á, að útvega nýja töflu gegn gömlum munum úr kirkjunni. 19. ágúst sama ár skrifar sr. Kjartan Pálma Pálssyni þá nýorðnum forstöðumanni Forngripasafns og vonast hann til, að hægt verði að útvega töfluna þótt Sigurður sé fallinn frá, en hann lést 8. þess mánaðar. Í bréfi þessu kemur fram, að heimamenn hafa haft ákveðnar óskir um stærð og söguefni myndar: „Altarið í Staðarfellskirkju er 2 álnir og 3 þuml. á breidd, og færi víst bezt á að taflan væri jöfn því; þó get jeg ekki sjeð að neitt illa færi á því þótt hún væri lítið eitt mjórri. Um hæðina á jeg ekki gott með að segja neitt á kveðið. Gafl kirkjunnar er mjög stór (og auður) og þolir því stóra töflu; altaristaflan í Reykjavíkurkirkju mundi t.d. sýnast fremur oflítil en ofstór í Staðarfellskirkju… Jeg spurði Hallgrím hvað honum litist um það, og óskaði hann helzt eptir „kveldmáltíðinni“, en ekki er honum það áhugamál. Hræddur er jeg um að slík mynd yrði dýrari en aðrar einfaldari þótt jafnstórar væru.“[20]
Í prófastsvísitasíu 1893 kemur fram, að tafla hefur verið keypt fyrir 265 krónur,[21] en það sama ár kom til Forngripasafns altarisbrík frá Staðarfelli, nú Þjms. 3919.Altaristaflan í Staðarfellskirkju – mynd: Kirkjublaðið.is
- Í Flateyjarkirkju á Breiðafirði er altaristafla máluð 1885 af Kristi með tveimur postulum á leið til Emaus. Töfluna útvegaði biskup frá Kaupmannahöfn að beiðni Sigurðar Jenssonar prófasts í Flatey og kostaði hún 250 krónur.[22] (Sjá mynd 2.)
Áður var í kirkjunni kvöldmáltíðarmynd, nú í Þjóðminjasafni nr. 10170.
- Í Hagakirkju á Barðaströnd er altaristafla máluð árið 1900 og sýnir hún Krist á leið til Emaus með tveimur postulum. Í prófastsvísitasíu 1902 er þess getið, að kirkjan hafi þá nýlega eignast töflu eftir Anker Lund.[23]
- Í Múlakirkju á Skálmarnesi er altaristafla máluð 1899 og sýnir það þegar Kristur læknar blinda manninn. Töflu þessa útvegaði biskup til landsins haustið 1899 að beiðni prófasts og kostaði hún 164 krónur, sem greiddust af kirkjufé.[24]
- Í Ögurkirkju við Ísafjarðardjúp er altaristafla máluð 1889 og er hún af upprisu Krists. Hún kom til kirkjunnar 1890 fyrir milligöngu Forngripasafnsins[25] samanber það sem áður er sagt.
Altaristaflan í Ögurkirkju – mynd: Ívar Brynjólfsson
- Í Unaðsdalskirkju á Snæfjallaströnd er altaristafla máluð 1899 af Kristi þar sem hann læknar blinda manninn. Ekki hefur tekist að rekja hvernig eða hvenær hún kom til kirkjunnar.
- Í Sauðárkrókskirkju er altaristafla máluð 1895 og er hún af göngu Jesú með tveimur postulum til Emaus. Taflan var gjöf frá Emilie ekkju Ludvigs Popp kaupmanns á Sauðárkróki, en hann var velgjörðarmaður kirkjunnar og lést um það leyti sem hún var vígð.[26]
Altaristafla í Sauðárkrókskirkju – mynd: Kirkjublaðið.is
- Í Fellskirkju í Sléttuhlíð er altaristafla máluð 1920 og sýnir hún það, þegar Jesús læknar dóttur Jaírusar. Lengi hafði vantað töflu í kirkjuna, þar til loks við vísitasíu prófasts 1922 að hún hafði verið fengin. Var hún gjöf frá söfnuði og presti og kostaði í kirkjuna komin 617,25 krónur.[27]
- Í Siglufjarðarkirkju er altaristafla máluð 1906 og sýnir Jesúm í grasgarðinum Getsemane. Töfluna fékk kirkjan að gjöf frá safnaðarfulltrúanum Wilhelm M. Jónssyni kaupmanni árið 1907 og kostaði hún 300 krónur.[28] Hún er ekki lengur yfir altari heldur hangir hún á öðrum stað í kirkjunni, andspænis átjándu aldar töflu, sem þar er til.[29]
- Í Grundarkirkju í Eyjafirði er altaristafla máluð 1891, sem sýnir upprisu Krists. Kirkjueigandinn Magnús Gíslason lagði töfluna til og var hún komin í kirkjuna 1893 þegar Jónas Jónasson prófastur á Hrafnagili vísiteraði.[30] (Sjá mynd 1.)
- Í Kirkjubæjarkirkju í Hróarstungu er altaristafla máluð 1894 og er hún af því þegar Kristur birtist Maríu Magdalenu við gröfina. Árið 1893 skrifaði sr. Einar Jónsson í Kirkjubæ Pálma Pálssyni forstöðumanni Forngripasafns. Þá kemur fram, að nýlega hafi verið gert við kirkjuna og átti að útvega nýja töflu í stað tveggja eldri, sem Sigurður Vigfússon hafði boðið 200 krónur í.[31] Árið 1894 komu þær til safnsins Þjms. 4635 og 4637, en svo slysalega vildi til, að kirkjubækur ásamt öðru lentu í bruna á Kirkjubæ árið 1897 og því er ekkert nánar vitað um það, hvenær taflan nýja komst austur, en væntanlega hefur það verið fljótlega eftir þetta.
Kirkjubæjarkirkja í Hróarstungu – mynd: Ívar Brynjólfsson
- Í Hofteigskirkju á Jökuldal er altaristafla máluð 1897 af því þegar Kristur læknar blinda manninn. Ekki hefur tekist að rekja það hvernig hún kom til kirkjunnar því bækur hennar munu hafa eyðilagst þegar bruninn varð í Kirkjubæ.
Altaristaflan í Hofteigskirkju – mynd: Ívar Brynjólfsson
- Í Vallarneskirkju á Völlum er altaristafla máluð 1899 og sýnir það þegar Kristur kyrrir vatn og vind. Í prófastsvísitasíu 1899 er það tekið fram, að altaristafla kirkjunnar sé gömul og léleg og eigi að leggjast niður.[32] Það er svo við heimsókn Jóhanns L. Sveinbjarnarsonar prófasts 1901 sem hin nýja tafla er komin og kostaði hún á fjórða hundrað króna.[33]
- Í Eskifjarðarkirkju er altaristafla, sem sýnir Jesúm í grasgarðinum Getsemane. Árið 1899 var Hólmasókn skipt í tvennt, þannig að ný kirkja var byggð á Eskifirði[34] og má getum að því leiða, að fljótlega hafi komið tafla í hana, en ekkert er um það sagt í prófastsvísitasíum árin á eftir.
- Í Kolfreyjustaðarkirkju við Fáskrúðsfjörð er altaristafla máluð 1904 sem sýnir Jesúm hjá fiskimönnunum er þeir draga net sín. Við prófastsvísitasíu 1905 hafði hún nýlega verið keypt.
Altaristaflan í Kolfreyjustaðarkirkju – mynd: Ívar Brynjólfsson
- Í Prestbakkakirkju á Síðu er altaristafla máluð 1902, og er hún af upprisu Krists. Strax það sama ár er hún komin í kirkjuna, en sóknarnefnd sá um að útvega hana fyrir rúmar 200 krónur.[36]
- Í Langholtskirkju í Meðallandi er altaristafla, máluð árið 1901, af Kristi og konunni við brunninn. Um árabil er þess getið í prófastsvísitasíum að töflu vanti í kirkjuna, en árið 1905 þegar gert hafði verið við húsið var fengin ný tafla.[37]
Langholtskirkja í Meðallandi – mynd: Ívar Brynjólfsson
- Í Þykkvabæjarklausturskirkju í Álftaveri er altaristafla, máluð 1904, og er hún með mynd af því þegar Jesús læknar blinda manninn. Líkt er með þessa töflu og þá í Langholti, að hún kom einhvern tíma árs 1905 þegar gert hafði verið við kirkjuna.[38]
- Í Skeiðflatarkirkju í Mýrdal er altaristafla máluð 1906, sem sýnir upprisu Krists. Var hún keypt fyrir 300 krónur og var komin í kirkjuna í júlí 1908.[39]
- Í Marteinstungukirkju í Holtum er altaristafla með mynd af Kristi í grasgarðinum Getsemane. Taflan er ómerkt eins og fyrr er sagt, en við prófastsvísitasíu 1909 er hún komin. Það var Lovísa drottning Friðriks 8., sem útvegaði og gaf töfluna fyrir milligöngu Kristjáns Jónssonar bónda og fjárhaldsmanns kirkjunnar.[40]
Altaristaflan í Marteinstungukirkju – mynd: Ívar Brynjólfsson
- Í Oddakirkju á Rangárvöllum er altaristafla, sem sýnir Krist í grasgarðinum Getsemane og er hún máluð 1895 og hið sama ár er getið um kaup á henni í prófastsvísitasíu.[41] (Sjá mynd 3.)
- Í Torfastaðakirkju í Biskupstungum er altaristafla, sem sýnir Krist og bersyndugu konuna og er hún máluð 1893. Um það leyti var reist ný kirkja á staðnum, enda er hinnar nýju töflu getið strax í prófastsvísitasíu 1893.[42]
Altaristaflan í Torfastaðakirkju – mynd: Kirkjublaðið.is
- Í Þingvallakirkju var altaristafla, máluð 1895, af Kristi þar sem hann læknar blinda manninn. Töflu þessa gaf Hannes Guðmundsson bóndi í Skógarkoti kirkjunni árið 1896 eða 7 og kostaði hún nálega 300 krónur.[43] (Sjá mynd 4.) Þá var fyrir í kirkjunni máluð kvöldmáltíðarmynd eftir Ófeig Jónsson í Heiðarbæ, en hún var seld til Englands 1899 fyrir 10 krónur. Ekki verður hér frekar rakin saga hennar, en hún endurheimtist 1974 og var þá sett yfir altarið í kirkjunni. Skömmu eftir það tók sóknarnefndin töflu Anker Lund í sína vörslu og er hún nú varðveitt hjá Guðmanni Ólafssyni á Skálabrekku. Mun það vera hugur safnaðarins, að hún hljóti sess á nýjan leik í kirkjunni. –
Nú er upptalning þessi á enda og í lokin er rétt að draga saman fáein atriði um töflurnar. Þær eru allar utan þeirrar í Fellskirkju málaðar á árunum 1885–1906, á sama tímabili og Anker Lund málaði margar aðrar töflur. Þessi mikli fjöldi helgast að hluta til af því, að stór hluti myndanna eru kopíur. En það eitt varpar ekki rýrð á listamanninn sem slíkan. Það var algengt að mála sama viðfangsefnið oft á þessum tíma, þegar eftirspurn var mikil og markaðurinn krafðist þess alls ekki að skipt væri sífellt um myndefni. Að því leyti svipaði þessari altaristöflugerð meira til fjöldaframleiðslu nútímans en til listsköpunar í venjulegum skilningi.
Á þessum tuttugu og fjórum töflum, sem dreifast vítt um landið eru níu viðfangsefni og koma fjögur þeirra fyrir oftar en einu sinni. Þar er upprisan algengust, en til eru sex myndir með henni, sem allar eru nauðalíkar. Fimm eru þar sem Kristur læknar blinda manninn, fjórar af Kristi í grasgarðinum og þrjár af göngunni til Emaus. Hin sex myndefnin koma aðeins einu sinni fyrir. Í ritgerð N. Damsgaard er listi yfir fjörutíu og tvær töflur eftir Lund í Danmörku frá sama tímabili[44] og þær sem hér eru. Nokkuð fróðlegt er að bera saman þetta tvennt. Þar er engin upprisumynd, fjórtán af Emausgöngunni, aðeins tvær af Kristi og blinda manninum og fjórar úr Getsemane. Upprisumyndin mun að hluta til vera kopía eftir verki C. Blochs[45] og gæti það að einhverju leyti skýrt það, að slíkar myndir er einvörðungu að finna hér. Annað myndefni sem kemur fyrir oftar en einu sinni í Danmörku og var mjög vinsælt er t.d. Kristur og börnin og Kristur og syndugi maðurinn, en hvorugt þeirra er til hér. Þannig er nokkur munur á altaristöflum Anker Lund hér og í Danmörku, en að svo komnu máli er fátt um skýringar á því.
Sé hugað að dreifingu taflnanna um landið, má greina, að þær eru að nokkru leyti bundnar við ákveðin svæði, og að í sumum prófastsdæmum eru engar til. Þannig er það t.d. í Húnavatnssýslum og Þingeyjarsýslum, en á hinu síðar nefnda svæði eru nokkrar altaristöflur eftir einn af fáum íslenskum málurum nítjándu aldar, Arngrím Gíslason. Á Austurlandi eru hins vegar fimm á tiltölulega litlu svæði og sömu sögu er að segja um Vestur-Skaftafellssýslu og Barðarstrandarprófastsdæmi. Einar fjórar eru á Suðurlandi. Það kemur líka á daginn, að sama gildir um ofangreind prófastdæmi, að í þeim hefur verið prófastur, sem gerði sér far um að útvega töflur, og þá afar oft í samráði við biskupinn. Þannig er með þetta eins og fleiri nýjungar, að útbreiðslu taflnanna má rekja til einstakra embættismanna. En hafa ber í huga, að hefðu hinir sömu embættismenn verið uppi á öðrum tímum, sem í andlegu og efnalegu tilliti hefðu ekki leyft að skipt væri um töflur eða nýjar fengnar, þá hefði það ekki gerst. Einmitt þarna var trúarlegur jarðvegur fyrir nýjar hugmyndir samfara möguleika á að leggja nokkurt fé til slíkra hluta. Anker Lund málaði töflur sínar einfaldar á þann veg, að almenningur áttaði sig vel á boðskap þeirra og því féllu þær fólki afar vel í geð og gera enn í dag.
Grein þessi var samin að tilmælum dr. Kristjáns Eldjárns.
Þegar greinin hafði verið sett rifjaðist upp, að altaristaflan í Breiðabólstaðarkirkju í Vesturhópi er eftir Anker Lund. Hún er ekki máluð fyrr en 1920 og sýnir Krist þar sem hann blessar ungu börnin. Samkvæmt kirkjustól Breiðabólstaðarkirkju í Þjóðskjalasafni gáfu nokkrir menn í söfnuðinum töfluna árið 1920 og kostaði hún um 650 krónur. Tafla þessi er önnur tveggja yngstu taflna hér á landi eftir málarann, hin er að Felli í Sléttuhlíð, sjá hér að framan.
Athugasemd höfundar
Þegar ritstjóri Kirkjublaðsins.is fór þess á leit við undirritaða að birta í Kirkjublaðinu greinina Anker Lund og altaristöflur hans á Íslandi, sem birtist í Árbók hins íslenzka fornleifafélags árið 1982 vildi ég yfirfara efni greinarinnar þar sem taldar eru upp 24 altarismyndir eftir Lund.
Nú liggur fyrir ritröðin Kirkjur Íslands í 31 bindi með ítarlegum greinum um allar friðaðar kirkjur á landinu. Bækurnar komu út á árunum 2001 til 2018. Nauðsynlegt var að kanna á þessu stigi máls hvort altarismyndir eftir Lund væru jafnvel fleiri á Íslandi.
Er skemmst frá því að segja að ein altarismynd bættist við. Sú er eftirmynd Anker Lund af kunnri altaristöflu danska málarans Carl H. Bloch[46] í gömlu kirkjunni í Reykholti. Á myndinni blessar Jesú hóp fólks sem hallar sér að honum og neðst á myndinni er máluð setningin KOMMER TILL MIG I ALLE SOM ARBETEN OCH ÆREN BETUNGEGDE OG IAG WIL WEDERCWIKA EDER. Í hægra horni neðst stendur að myndin sé eftirmynd Anker Lund á málverki Carl H. Bloch. Hún var keypt til kirkjunnar í byrjun 20. aldar.
Í mars 2025
Lilja Árnadóttir
SUMMARY
This article deals with Danish painter, Anker Lund, who painted relatively large number of alter-pieces for Icelandic churches during the 19th and 20th centuries. It includes a list of his alter-pieces where one traces as far as possible when and how they were purchased. This study benefits from an unpublished master´s -thesis on alter-pieces in Denmark in the 19th century by Nina Damsgaard in Vejle, Danmark.
Anker Lund was one of many Danish painters who painted altar-pieces during this period. He was born in 1840 and died in 1922. He received his education at Kunstakademiet in Copenhagen and apart from the altar-pieces he painted historical scenes and decorated pottery. Many of this altar-pieces are replicas of his own as of others but that was quite common at that time. In Iceland there exist at least 23 altar-pieces by him dating from 1885 to 1906, and one was patinted 1920, but from almost the same period in Denmark the number is just over 40.
It is known that it was through the National Museum that the first altar-pieces was bougth for Ögur church in Northwestern Iceland in 1889. It shows the Resurrection and so do five other altar-pieces by Lund in Iceland. On four of his altar-pieces the motive is Christ in the garden of Gethsemane, five show where Christ heals the blind man and three times the motive shows Christ walking to Emaus together with two apostles. It seems that the authorities, such as the bishop of Iceland, liked the first altar-piece. This can be seen by their number in Iceland which to some extent also can be explained by the fact that in this period many churches were being repaired or built anew, and the need for new church-goods thus became more apparent. But that is not the sole explanation. The motives of Anker Lund´s altar-pieces appealed both to the taste of the nation and its religious ideas. And they still hold the sam appeal today.
Tilvísanir:
[1] Nina Damsgaard: „Det danske altertavlemaleri i 1800 tallet og dets forhold til de samtidige religiøse strømmninger“. bls. 3. Þegar ég var komin af stað með að safna efni í grein þessa, kom í ljós, að næsta litlar heimildir var að finna um Anker Lund. Því skrifaði ég sérfræðingum í Danmörku, sem bentu mér á Ninu Damsgaard magister, sem veitti mér góðfúslegt leyfi að nota óprentaða magistersritgerð sína við samningu þessa og sendi hún mér ljósrit af henni. Kann ég henni bestu þakkir fyrir.
[2] Sama, bls. 4.
[3] Sigrid Christie: Den lutherske ikonografi i Norge inntil 1800. I – II. Norske minnesmerker. Land og kirke. Oslo 1973, bls. 158.
[4] Nina Damsgaard: Sama rit, bls. 9.
[5] Sama, bls. 8.
[6] Sama, bls. 10.
[7] Sama, bls. 10.
[8] Sama, bls. 12.
[9] Sama, bls. 5.
[10] Sama, bls. 7.
[11] Sama, bls. 7.
[12] Sama, bls. 8.
[13] Sama, bls. 13.
[14] Weilbachs Kunstnerleksikon II. Kaupmannahöfn 1949, bls. 283.
[15] Nina Damsgaard: Sama rit, bls. 15.
[16] Sama, bls. 68.
[17] Sigurður Vigfússon: „Altaristöflur“, Fjallkonan 1890, bls. 107.
[18] Hannes Pétursson: Steingrímur Thorsteinsson, Reykjavík 1964, bls. 110.
[19] Þjóðskjalasafn. Kirknasafn X, 1, A, 5.
[20] Bréfasafn Þjóðminjasafns.
[21] Þjskjs. Ks. XI, 5, A, 5.
[22] Sama Ks. XII, 1, A, 7.
[23] Sama Ks. XII, 1, A, 7.
[24] Sama Ks. XII, 5, A, 2.
[25] Sama Ks. XIV, 1, A, 4.
[26] Kristmundur Bjarnason: Saga Sauðárkróks, Sauðárkróki 1969, bls. 299.
[27] Prófastsvísitasíubók Skagafjarðarprófastsdæmis, varðveitt á Héraðsskjalassafninu á Sauðárkróki.
[28] Þjskjs. Ks. XVIII, 1, A, 14.
[29] Siglufjarðarkirkja 1932–1982. Sóknarnefnd Siglufjarðar 1982, bls. 40.
[30] Þjskjs. Ks. XVIII, 1, A, 14.
[31] Bréfasafn Þjóðminjasafns.
[32] Þjskjs. Ks. II, 1, A, 12.
[33] Sama Ks. II, 1, A, 12.
[34] Sama Ks. II, 8, A, 3.
[35] Sama Ks. II, 1, A, 12.
[36] Sama Ks. IV, 1, A, 6.
[37] Sama Ks. IV, 1, A, 6.
[38] Sama Ks. IV, 1, A, 6.
[39] Sama Ks. IV, 1, A, 6.
[40] Sama Ks. V, 1, A, 12.
[41] Sama Ks. V, 1, A, 11.
[42] Sama Ks. VI, 1, A, 8.
[43] Sama Ks. VI, 1, A, 8.
[44] Nina Damsgaard: Sama rit, bilag XXI.
[45] Kirknaskrá Matthíasar Þórðarsonar, ópr. í Þjóðminjasafni, sjá Prestbakki, og Nína Damsgaard, sama rit bls. 76.
[46] https://en.wikipedia.org/wiki/Carl_Bloch