Á gær var frumsýnd í Borgarleikhúsinu leikgerð af sögu Gunnars Gunnarssonar, Aðventa. Sýningin er unnin af sviðlistahópnum Rauða sófanum.
Smásaga Gunnars, Aðventa, er meistarastykki og góð lesning á aðventunni sem og reyndar í annan tíma. Saga sem býr yfir djúpri merkingu og mörgum trúarlegum tilvísunum. Sennilega það verk Gunnars sem mun halda nafni hans lifandi í heimi bókmennta og lista.
En leikgerð sögu er að sjálfsögðu annað listform en sagan sjálf. Sagan er sett inn í það form og aðlöguð því. Ekki er hægt að komast hjá því að þeir áhorfendur sem lesið hafa söguna spegli leikgerðina í henni og spyrji sig ýmissa spurninga og þá bæði sanngjarnra gagnvart leikgerðinni sem og gagnrýninna.
Sá sem slær hér lyklaborðið velti því fyrir sér á sýningunni hvað þeim sem ekki hafa lesið sögu Gunnars þætti um leikgerðina. En sýningin getur að sjálfsögðu ekki gert kröfu um að þau sem hana sækja hafi lesið söguna. Þau skilja hana þá öðrum skilningi en hin sem lesið hafa. Hér er þó mælt með því að lesa söguna bæði fyrir sýningu og eftir.
Áherslan í leikgerðinni er á einfaldleika sögunnar sem er reyndar höfuðkostur hennar: verkefnið að sækja fé á fjöll og baráttu við náttúruöflin í samfylgd hundsins Leós og forystusauðsins Eitils. En sagan býr líka yfir mikilli andlegri dýpt sem leikgerðin nær ekki að setja fram með fullum þunga og er þó ekki víst að það hafi verið ætlunin hjá sviðlistarhópnum.
Sýningin er sett saman úr fjölmörgum stuttum atriðum og þótt sú skipting sé ör truflar hún ekki áhorfandann. Skiptingar ganga hratt og örugglega fyrir sig.
Yfirbragð sýningarinnar er hnitmiðað og einlægt eins og höfuðpersóna verksins, Benedikt. Leikmyndin er sett saman úr grafískum myndum á háum skjávegg á sviðinu. Sýningin fer fram fyrir framan hann og aftan. Það eru fallegar myndir og bernskar – næstum því eins og að fletta barnabók frá því á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar.
Í sýningunni víkja orð sögunnar fyrir hinu sjónræna sem tekur á vissan hátt yfirhöndina. Þar er rómantísk mynd af bóndabænum í fagurri íslenskri náttúru umgirtri fjöllum og víðáttum. Veðrið er veigamikill þáttur í verkinu og því er skilað með listrænum hætti til áhorfenda með aðstoð tækni og mynda. Segja mætti að veðrið sé ein persóna sögu og leikgerðar.
Myndrænn veruleiki á sviðinu kemur vel út þar sem tónlist blandast inn í, tækni og að sjálfsögðu leiklistin. Leikarar af holdi og blóði renna stundum saman við skuggamyndir sínar á skjánum, leika við persónur á skjánum, og kemur það vel út. Þó fá orð séu mælt í leiksýningunni er í engu ofgert með svipbrigði og fas sem látið er hafa orðið þegar við á.
Persónu Benedikts í leik Friðgeirs Einarssonar eru gerð heiðarleg og góð skil. Dreginn fram þessi sterki og einlægi maður sem heldur í sína árlegu ferð til fjalla – þessi var sú 27. í röðinni. Hann er hægur og vandvirkur. Fer í engu óðslega og gerir allt af miklu öryggi og fyrirhyggju. Aðrar persónur eru í höndum einnar leikkonu, Lovísu Óskar Gunnarsdóttur en hún er dansari að mennt. Hún bregður sér líka í hlutverk dýranna, forystusauðsins Eitils og hundsins Leós þegar líður á frásögn leikverksins. Það er vel gert, með áhrifaríkum hætti, einföldum og skýrum.
Þá kemur fram kór sem bæði syngur og talar.
Í verki Gunnars eru fjölmargar trúarlegar tilvísanir. Þrenningin, Benedikt, hundurinn Leó og forystusauðurinn Eitill, halda jólin hátíðleg í jarðhelli svo minnir á fjárhirðina á Betlehemsvöllum. Leikgerðin dregur sérstaklega fram eitt vers í sálmi Einars i Eydölum, Nóttin var sú ágæt ein en í honum kristallast kjarni kristinnar trúar:
Fjármenn hrepptu fögnuð þann,
þeir fundu bæði Guð og mann,
í lágan stall var lagður hann,
þó lausnari heimsins væri.
:,: Með vísnasöng ég vögguna þína hræri:,:
Kannski má segja að hin veraldlega trúarlega uppljómun sé sett fram í náttúrúdýrkun Benedikts. Hann er lotningarfullur andspænis náttúrunni og svo að segja nærist á henni. Þessi náttúrudýrkun ætti að ná vel til nútímafólks.
Sögusviðið, lífið, mótar Benedikt með afdrifaríkum hætti. Hann kemur gamall maður úr þessari lífsgöngu sinni og því heldur leikgerðin til haga – sem betur fer.
Vissulega er það dirfska að setja orðsins verk fram með nánast orðlausum hætti en leikhúsfólk þarf að sýna dirfsku og þor. Áhorfenda er svo að dæma um hvernig til tekst.
Það er umhugsunarefni hvort framvinda leikverksins sé of hæg eða ekki – hún varð þó hraðari eftir hlé. En það kann að vera kostur því mannlíf þessa tíma var svo sem ekki plagað af asasótt nútímans eins og einhver vís maður sagði. Að minnsta kosti virtist róleg atburðarásin ekki þreyta áhorfendur nema kannski þessa tvo sem sátu við hlið undirritaðs en þeir hurfu á brott í hléinu. Það brotthvarf gladdi reyndar sessunaut þeirra því allnokkur fyrirferð þessara leikhúsgesta virtist sliga bekkinn óþarflega. Var því brotthvarfið viss léttir í tvennum skilningi: fyrir þann sem eftir sat og væntanlega þá tvo sem höfðu ekki lengra listrænt þol.
Kirkjublaðið.is mælir með þessari ágætu sýningu og er það mjög svo viðeigandi að sjá hana á aðventu og ræða um. Þess má geta að unnið er að undirbúningi kvikmyndunar á sögu Gunnars, Aðventu.
Leikstjóri sýningarinnar er Egill Ingibergsson og hans er leikgerðin í samvinnu við Móeiði Helgadóttur, leikmunahönnuð og Þórarin Blöndal, myndlistarmann. Þórhildur Sunna Jóhannsdóttir, sá um búninga og leikgervi. Tónlist og hljóðmynd var í höndum Sigurðar Halldórssonar. Sýningin sem þessi umfjöllun byggir á var forsýning, laugardaginn 3. desember.
Á gær var frumsýnd í Borgarleikhúsinu leikgerð af sögu Gunnars Gunnarssonar, Aðventa. Sýningin er unnin af sviðlistahópnum Rauða sófanum.
Smásaga Gunnars, Aðventa, er meistarastykki og góð lesning á aðventunni sem og reyndar í annan tíma. Saga sem býr yfir djúpri merkingu og mörgum trúarlegum tilvísunum. Sennilega það verk Gunnars sem mun halda nafni hans lifandi í heimi bókmennta og lista.
En leikgerð sögu er að sjálfsögðu annað listform en sagan sjálf. Sagan er sett inn í það form og aðlöguð því. Ekki er hægt að komast hjá því að þeir áhorfendur sem lesið hafa söguna spegli leikgerðina í henni og spyrji sig ýmissa spurninga og þá bæði sanngjarnra gagnvart leikgerðinni sem og gagnrýninna.
Sá sem slær hér lyklaborðið velti því fyrir sér á sýningunni hvað þeim sem ekki hafa lesið sögu Gunnars þætti um leikgerðina. En sýningin getur að sjálfsögðu ekki gert kröfu um að þau sem hana sækja hafi lesið söguna. Þau skilja hana þá öðrum skilningi en hin sem lesið hafa. Hér er þó mælt með því að lesa söguna bæði fyrir sýningu og eftir.
Áherslan í leikgerðinni er á einfaldleika sögunnar sem er reyndar höfuðkostur hennar: verkefnið að sækja fé á fjöll og baráttu við náttúruöflin í samfylgd hundsins Leós og forystusauðsins Eitils. En sagan býr líka yfir mikilli andlegri dýpt sem leikgerðin nær ekki að setja fram með fullum þunga og er þó ekki víst að það hafi verið ætlunin hjá sviðlistarhópnum.
Sýningin er sett saman úr fjölmörgum stuttum atriðum og þótt sú skipting sé ör truflar hún ekki áhorfandann. Skiptingar ganga hratt og örugglega fyrir sig.
Yfirbragð sýningarinnar er hnitmiðað og einlægt eins og höfuðpersóna verksins, Benedikt. Leikmyndin er sett saman úr grafískum myndum á háum skjávegg á sviðinu. Sýningin fer fram fyrir framan hann og aftan. Það eru fallegar myndir og bernskar – næstum því eins og að fletta barnabók frá því á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar.
Í sýningunni víkja orð sögunnar fyrir hinu sjónræna sem tekur á vissan hátt yfirhöndina. Þar er rómantísk mynd af bóndabænum í fagurri íslenskri náttúru umgirtri fjöllum og víðáttum. Veðrið er veigamikill þáttur í verkinu og því er skilað með listrænum hætti til áhorfenda með aðstoð tækni og mynda. Segja mætti að veðrið sé ein persóna sögu og leikgerðar.
Myndrænn veruleiki á sviðinu kemur vel út þar sem tónlist blandast inn í, tækni og að sjálfsögðu leiklistin. Leikarar af holdi og blóði renna stundum saman við skuggamyndir sínar á skjánum, leika við persónur á skjánum, og kemur það vel út. Þó fá orð séu mælt í leiksýningunni er í engu ofgert með svipbrigði og fas sem látið er hafa orðið þegar við á.
Persónu Benedikts í leik Friðgeirs Einarssonar eru gerð heiðarleg og góð skil. Dreginn fram þessi sterki og einlægi maður sem heldur í sína árlegu ferð til fjalla – þessi var sú 27. í röðinni. Hann er hægur og vandvirkur. Fer í engu óðslega og gerir allt af miklu öryggi og fyrirhyggju. Aðrar persónur eru í höndum einnar leikkonu, Lovísu Óskar Gunnarsdóttur en hún er dansari að mennt. Hún bregður sér líka í hlutverk dýranna, forystusauðsins Eitils og hundsins Leós þegar líður á frásögn leikverksins. Það er vel gert, með áhrifaríkum hætti, einföldum og skýrum.
Þá kemur fram kór sem bæði syngur og talar.
Í verki Gunnars eru fjölmargar trúarlegar tilvísanir. Þrenningin, Benedikt, hundurinn Leó og forystusauðurinn Eitill, halda jólin hátíðleg í jarðhelli svo minnir á fjárhirðina á Betlehemsvöllum. Leikgerðin dregur sérstaklega fram eitt vers í sálmi Einars i Eydölum, Nóttin var sú ágæt ein en í honum kristallast kjarni kristinnar trúar:
Fjármenn hrepptu fögnuð þann,
þeir fundu bæði Guð og mann,
í lágan stall var lagður hann,
þó lausnari heimsins væri.
:,: Með vísnasöng ég vögguna þína hræri:,:
Kannski má segja að hin veraldlega trúarlega uppljómun sé sett fram í náttúrúdýrkun Benedikts. Hann er lotningarfullur andspænis náttúrunni og svo að segja nærist á henni. Þessi náttúrudýrkun ætti að ná vel til nútímafólks.
Sögusviðið, lífið, mótar Benedikt með afdrifaríkum hætti. Hann kemur gamall maður úr þessari lífsgöngu sinni og því heldur leikgerðin til haga – sem betur fer.
Vissulega er það dirfska að setja orðsins verk fram með nánast orðlausum hætti en leikhúsfólk þarf að sýna dirfsku og þor. Áhorfenda er svo að dæma um hvernig til tekst.
Það er umhugsunarefni hvort framvinda leikverksins sé of hæg eða ekki – hún varð þó hraðari eftir hlé. En það kann að vera kostur því mannlíf þessa tíma var svo sem ekki plagað af asasótt nútímans eins og einhver vís maður sagði. Að minnsta kosti virtist róleg atburðarásin ekki þreyta áhorfendur nema kannski þessa tvo sem sátu við hlið undirritaðs en þeir hurfu á brott í hléinu. Það brotthvarf gladdi reyndar sessunaut þeirra því allnokkur fyrirferð þessara leikhúsgesta virtist sliga bekkinn óþarflega. Var því brotthvarfið viss léttir í tvennum skilningi: fyrir þann sem eftir sat og væntanlega þá tvo sem höfðu ekki lengra listrænt þol.
Kirkjublaðið.is mælir með þessari ágætu sýningu og er það mjög svo viðeigandi að sjá hana á aðventu og ræða um. Þess má geta að unnið er að undirbúningi kvikmyndunar á sögu Gunnars, Aðventu.
Leikstjóri sýningarinnar er Egill Ingibergsson og hans er leikgerðin í samvinnu við Móeiði Helgadóttur, leikmunahönnuð og Þórarin Blöndal, myndlistarmann. Þórhildur Sunna Jóhannsdóttir, sá um búninga og leikgervi. Tónlist og hljóðmynd var í höndum Sigurðar Halldórssonar. Sýningin sem þessi umfjöllun byggir á var forsýning, laugardaginn 3. desember.