Nú stendur yfir sýning á verkum útskriftarnema úr Listaháskóla Íslands og er heiti hennar Glitský. Það var Listasafn Reykjavíkur sem að þessu sinni bauð húsnæði sitt fram fyrir nemendurna í myndlistardeild, hönnun og arkitektúr. Sýnd eru lokaverkefni 77 nemenda við Listaháskólann og eru þau af ýmsum toga enda kennsla fjölbreytileg.
Svo sannarlega svífur ferskleiki og frumleiki yfir sýningunni. Slíkt er í sjálfu sér ekki neitt undrunarefni þar sem ungt listafólk stígur fram og sýnir listaverk sín sem sum hver hafa verið lengi í mótun. Unga listafólkið tekst á við eitt og annað sem ógnarhraður samtíminn færir í hendur þeirra. Það fer sínar eigin leiðir í listsköpun sinni en hún byggir á námi og rannsóknum og áður unnin listaverk gegna þar líka mikilvægu hlutverki. Þrátt fyrir þennan ferskleika er ekki laust við að sum verkanna beri ættarsvip hefðbundinnar listhefðar hverrar listgreinar fyrir sig þó að ýmsar tilraunir séu gerðar. Hefðin er eins og öryggisnet en sköpunarkrafturinn leitar út fyrir hana með hóflegum hætti og þar er alls jafnvægis gætt.
Listamenn á öllum öldum hafa túlkað hinn dularfulla Edenslund og íbúa hans, þau Adam og Evu. Þessi forna trúarfrásögn dregur að sér listamennina enda er hún einstök og sviðið sem hún býður upp á óþrjótandi uppspretta hugmynda og sköpunar. Sem sé Aldingarðurinn heillar allar kynslóðir.
Eitt verk vakti sérstaka athygli Kirkjublaðsins.is. Höfundur þess er Alda Ægisdóttir (f. 1999) og heitir það Aldingarðurinn. Það er náttúrlega hinn eini og sanni Edensgarður sem þar blasir við.
Verkið er svokölluð innsetning sem þýðir að áhorfandi getur svo að segja gengið inn í verkið. Stundum er talað um að líkami áhorfandans skipti máli í tengslum við innsetningarverk eða með öðrum orðum hann skoðar verkið með öllum líkamanum; það hefur áhrif á skynjun hans með nánd beggja. Þetta innsetningarverk er eins og mörg önnur líkt leiksviði og áhorfanda heimilt að ganga inn á það. Hins vegar virtist ábreiðan sem var undir verkinu gefa til kynna ósýnilega markalínu svo að áhorfendur stóðu utan verksins; gátu ekki farið inn í það og á sviðið. En sé farið inn í verkið er rétt að fara úr skónum og gæta sín á því að reka sig ekki utan í einstaka hluta verksins!
Efniviður þessa innsetningarverks er skjár, textíll, málmur, málning, leir, hænsnavír og pappamassi svo eitthvað sé nefnt. Aðferðir við vinnslu verksins eru margs konar. Í Aldingarðinum getur að líta litskrúðug blóm og skordýr. Margt minnir á heim fantasíunnar og ævintýrisins. Garðurinn er eins og stillimynd einhvers óræðins augnabliks í sögunni. Þá eru þar skötuhjúin Adam og Eva sem upplagt er að líta við hjá. Garðurinn er óvenju líflegur og bjartur. Hvert blóm og skordýr kallar á skoðun. Þó að skordýrin, blómin og mannverurnar tvær séu ekki mjög svo fínlegar heldur miklu fremur groddalegar þá eru þau öll afskaplega forvitnileg. Áhorfendur stóðu margir lengi við verkið og skoðuðu sumt í þeim í krók og kima. Sérstaklega vakti Eva athygli þar sem kolsvört slanga tróð sér niður kok hennar. Adam situr í garðinum og horfir niður fyrir sig undrunaraugum. Þau bæði bera með sér svip ákveðins óhugnaðar og jafnvel ljótleika sem ýtir við áhorfendum.
En veggskýring listakonunnar er þessi:
Tvær verur, hlið við hlið. Umkringdar blómum, innan í blómi, í eilífðarhringrás.
Listakonan glímir við þennan ævaforna trúartexta, þessa skýringarfrásögn af fyrstu mannverum heimsins. Sögusvið verksins dregur upp bjarta, sterka og litríka mynd af veröldinni þegar þau Adam og Eva eru í vanda stödd eftir að hafa farið sínu fram í garðinum.
Vönduð bók með titilinn Útskriftarverkefni – Myndlist, hefur verið gefin út af myndlistardeild Listaháskólans í tilefni sýningarinnar. Hún er ríkulega myndskreytt og listamennirnir skrifa meðal annars um sjálfa sig og verk sín.
Alda Ægisdóttir skrifar þetta:
Ég dregst að tímafrekum miðlum sem krefjast mikillar handavinnu. Vinnan og endurtekningin verður að einhvers konar hugleiðslu. Ég elska öll fíngerðu smáatriðin sem krefjast alúðar og tíma. Umkringd yfirþyrmandi tækni og fjöldaframleiðslu dregst ég að handverkinu; hinum ófullkomna fullkomleika sem engin vél getur framkallað. (Bls. 84).
Annað verk Öldu Ægisdóttur á sýningunni er tíu mínútna „stop-motion“ kvikunarverk þar sem listakonan veltir fyrir sér nánum samböndum og öllu því sem þeim fylgir, sérstaklega tilfinningastreyminu í þeim. Þar sækir hún efnivið sinn meðal annars til fornra texta um Adam og Evu, Orfeus og Evridís, Ask og Emblu. Þetta verk hennar heitir Sálufélagar. Það er fjörlegt og litskrúðugt. Ákveðinn óhugnaður hvílir þar yfir vötnum sem sóttur er í ýmis minni er tengjast áðurnefndum persónum. Verkið Sálufélagar tengist verkinu Aldingarður og er í sama rými og í sjónlínu við það. Efniviður úr því síðarnefnda er notaður í kvikunarverkinu. Þó er ekki annað að sjá en að um tvö sjálfstæð verk sé að ræða.
Kirkjublaðið.is hvetur öll þau sem eru áhugasöm um trú, listir, sögu og samfélag að skoða sýninguna og sérstaklega þau verk sem nefnd eru hér.
Sýningin stendur fram til þriðjudagsins 21. maí. Ókeypis er inn.
Þá má skjóta þeirri hugmynd fram að einhver söfnuðurinn sem hefur gott safnaðarrými ætti að bjóða listakonunni að setja verkið upp í haust og nota það sem efnivið í fræðslu barna og fullorðinna. Öruggt má telja að það veki upp líflegar umræður í lifandi söfnuði.
Nú stendur yfir sýning á verkum útskriftarnema úr Listaháskóla Íslands og er heiti hennar Glitský. Það var Listasafn Reykjavíkur sem að þessu sinni bauð húsnæði sitt fram fyrir nemendurna í myndlistardeild, hönnun og arkitektúr. Sýnd eru lokaverkefni 77 nemenda við Listaháskólann og eru þau af ýmsum toga enda kennsla fjölbreytileg.
Svo sannarlega svífur ferskleiki og frumleiki yfir sýningunni. Slíkt er í sjálfu sér ekki neitt undrunarefni þar sem ungt listafólk stígur fram og sýnir listaverk sín sem sum hver hafa verið lengi í mótun. Unga listafólkið tekst á við eitt og annað sem ógnarhraður samtíminn færir í hendur þeirra. Það fer sínar eigin leiðir í listsköpun sinni en hún byggir á námi og rannsóknum og áður unnin listaverk gegna þar líka mikilvægu hlutverki. Þrátt fyrir þennan ferskleika er ekki laust við að sum verkanna beri ættarsvip hefðbundinnar listhefðar hverrar listgreinar fyrir sig þó að ýmsar tilraunir séu gerðar. Hefðin er eins og öryggisnet en sköpunarkrafturinn leitar út fyrir hana með hóflegum hætti og þar er alls jafnvægis gætt.
Listamenn á öllum öldum hafa túlkað hinn dularfulla Edenslund og íbúa hans, þau Adam og Evu. Þessi forna trúarfrásögn dregur að sér listamennina enda er hún einstök og sviðið sem hún býður upp á óþrjótandi uppspretta hugmynda og sköpunar. Sem sé Aldingarðurinn heillar allar kynslóðir.
Eitt verk vakti sérstaka athygli Kirkjublaðsins.is. Höfundur þess er Alda Ægisdóttir (f. 1999) og heitir það Aldingarðurinn. Það er náttúrlega hinn eini og sanni Edensgarður sem þar blasir við.
Verkið er svokölluð innsetning sem þýðir að áhorfandi getur svo að segja gengið inn í verkið. Stundum er talað um að líkami áhorfandans skipti máli í tengslum við innsetningarverk eða með öðrum orðum hann skoðar verkið með öllum líkamanum; það hefur áhrif á skynjun hans með nánd beggja. Þetta innsetningarverk er eins og mörg önnur líkt leiksviði og áhorfanda heimilt að ganga inn á það. Hins vegar virtist ábreiðan sem var undir verkinu gefa til kynna ósýnilega markalínu svo að áhorfendur stóðu utan verksins; gátu ekki farið inn í það og á sviðið. En sé farið inn í verkið er rétt að fara úr skónum og gæta sín á því að reka sig ekki utan í einstaka hluta verksins!
Efniviður þessa innsetningarverks er skjár, textíll, málmur, málning, leir, hænsnavír og pappamassi svo eitthvað sé nefnt. Aðferðir við vinnslu verksins eru margs konar. Í Aldingarðinum getur að líta litskrúðug blóm og skordýr. Margt minnir á heim fantasíunnar og ævintýrisins. Garðurinn er eins og stillimynd einhvers óræðins augnabliks í sögunni. Þá eru þar skötuhjúin Adam og Eva sem upplagt er að líta við hjá. Garðurinn er óvenju líflegur og bjartur. Hvert blóm og skordýr kallar á skoðun. Þó að skordýrin, blómin og mannverurnar tvær séu ekki mjög svo fínlegar heldur miklu fremur groddalegar þá eru þau öll afskaplega forvitnileg. Áhorfendur stóðu margir lengi við verkið og skoðuðu sumt í þeim í krók og kima. Sérstaklega vakti Eva athygli þar sem kolsvört slanga tróð sér niður kok hennar. Adam situr í garðinum og horfir niður fyrir sig undrunaraugum. Þau bæði bera með sér svip ákveðins óhugnaðar og jafnvel ljótleika sem ýtir við áhorfendum.
En veggskýring listakonunnar er þessi:
Tvær verur, hlið við hlið. Umkringdar blómum, innan í blómi, í eilífðarhringrás.
Listakonan glímir við þennan ævaforna trúartexta, þessa skýringarfrásögn af fyrstu mannverum heimsins. Sögusvið verksins dregur upp bjarta, sterka og litríka mynd af veröldinni þegar þau Adam og Eva eru í vanda stödd eftir að hafa farið sínu fram í garðinum.
Vönduð bók með titilinn Útskriftarverkefni – Myndlist, hefur verið gefin út af myndlistardeild Listaháskólans í tilefni sýningarinnar. Hún er ríkulega myndskreytt og listamennirnir skrifa meðal annars um sjálfa sig og verk sín.
Alda Ægisdóttir skrifar þetta:
Ég dregst að tímafrekum miðlum sem krefjast mikillar handavinnu. Vinnan og endurtekningin verður að einhvers konar hugleiðslu. Ég elska öll fíngerðu smáatriðin sem krefjast alúðar og tíma. Umkringd yfirþyrmandi tækni og fjöldaframleiðslu dregst ég að handverkinu; hinum ófullkomna fullkomleika sem engin vél getur framkallað. (Bls. 84).
Annað verk Öldu Ægisdóttur á sýningunni er tíu mínútna „stop-motion“ kvikunarverk þar sem listakonan veltir fyrir sér nánum samböndum og öllu því sem þeim fylgir, sérstaklega tilfinningastreyminu í þeim. Þar sækir hún efnivið sinn meðal annars til fornra texta um Adam og Evu, Orfeus og Evridís, Ask og Emblu. Þetta verk hennar heitir Sálufélagar. Það er fjörlegt og litskrúðugt. Ákveðinn óhugnaður hvílir þar yfir vötnum sem sóttur er í ýmis minni er tengjast áðurnefndum persónum. Verkið Sálufélagar tengist verkinu Aldingarður og er í sama rými og í sjónlínu við það. Efniviður úr því síðarnefnda er notaður í kvikunarverkinu. Þó er ekki annað að sjá en að um tvö sjálfstæð verk sé að ræða.
Kirkjublaðið.is hvetur öll þau sem eru áhugasöm um trú, listir, sögu og samfélag að skoða sýninguna og sérstaklega þau verk sem nefnd eru hér.
Sýningin stendur fram til þriðjudagsins 21. maí. Ókeypis er inn.
Þá má skjóta þeirri hugmynd fram að einhver söfnuðurinn sem hefur gott safnaðarrými ætti að bjóða listakonunni að setja verkið upp í haust og nota það sem efnivið í fræðslu barna og fullorðinna. Öruggt má telja að það veki upp líflegar umræður í lifandi söfnuði.