Einhverjir kunna að spyrja þegar þeir sjá þessa mynd hvað sé að hjá Jesúbarninu. Svipur þess er sorgmæddur og litli Jesú hefur stungið vínberjum upp í munninn. Horfir beint fram og augun heldur þung þar sem þau sitja ofarlega við augnlokin. Drengurinn er þéttholda og hrokkinhærður kollurinn glóandi.

Hann er á besta stað heimsins. Í fangi móður sinnar sem er íklædd djúpbláum kyrtli með gullnum bryddingum. María guðsmóðir var oftast í bláklædd enda var blár litur dýrastur lita á endurreisnartíð. Hún horfir ögn niður á við og það er kyrrt yfir henni; er hvort tveggja í senn döpur og stolt. Eflaust skyggnist hún fram í tímann og þá til þeirra örlaga sem biðu sonar hennar. Tákn um það er vínberjaklasinn sem hún réttir að syni sínum en þau vísa til síðustu kvöldmáltíðarinnar – standa fyrir blóð hans sem verður úthellt.

Guðsmóðirin réttir guðssyninum vínberjaklasa en hann táknar blóð Krists og vísar til síðustu kvöldmáltíðarinnar. Svipur barnsins segir að vínberin séu súr. Kristur sem guð og maður – hversu sátt skyldi hin mannlega taug hafa verið við þau örlög sem biðu? Myndhluti frá National Gallery, London

Það má nota ýmis orð um svipinn á Jesúdrengnum. Þetta er að minnsta kosti barnssvipur en á mýmörgum helgimyndum er svipur hans sem fullorðins manns í barnsmynd. Svipurinn er kannski tortryggnislegur. Fullur efasemda. Eða er hann að ná sér eftir grátkast? Dapur? Óttasleginn? Trúir hann kannski ekki sínum eigin augum þegar hann les svip þess sem horfir á hann nú í verufræðilegri andránni og veit hvernig saga hans spannst? Saga þess sem gekk um kring og gerði gott en var svo líflátinn. Hér er að minnsta kosti ekki á ferð neinn sætsúpukristindómur heldur býsna raunsær en þó stautsamur í ljósi þess að barnið góða skuli hreppa bitur örlög enda þótt sá fengur sem þau færðu væri sjálft fagnaðarerindi trúarinnar samkvæmt kirkjulegum kenningum.

Fórnardauði Jesúbarnsins eftir að það óx úr grasi er ákveðinn kjarni í kristinni trú og getur reynst mörgum snúinn og þá sérstaklega nú á tímum þegar fórnarlund er kannski ekki efst á blaði. Kennilýðurinn verður að glíma við þessa fórnarfræði og útskýra fyrir sínu fólki og er það ekki auðvelt viðureignar nema kannski helst í myndmáli rótfastra helgisiða sem öllum er ekki gefið að skilja – kannski á ekki að skilja það frekar en annað í helgisiðalistinni.

Nú, kannski á fórnarstefið ekki heima á 21. öld. Jákvæð innistæða í gleðibanka sálarinnar skiptir öllu máli. Eða hvað? Hverjum dettur í hug að gefa sinn síðasta eyri?

Sem sé. Allt verður að skoðast í samhengi sínu þó að freistandi sé að stytta sér leið.

Það er ekki alltaf líf og fjör í kristinni trú enda þótt gleðilega upprisustefið sé hryggjarstykki fagnaðarerindisins.

Þarna er sem sagt Jesúbarnið og horfir á okkur. Um höfuð hans er öflugur og nánast sporöskjulaga geislabaugur sem minnir mest á geimskip nútímans. Geislabaugar hinna eru ekki eins kröftugir vegna þess að þeir eru hringlaga. Gerðarleg móðir hans situr í glæstu hásæti í rómverskum stíl sem prýtt er léttum súlum og tekur yfir nær allan myndflötinn. Englarnir tveir sem blaka vængjum sínum bak við hásætið eru blíðir á svip eins og englum ber – vængir þeirra skírskota einnig til kirkjunnar þar sem þeir eru míturslaga. Aðrir tveir englar leika á lútur og ekki er annað að sjá en að það sé gert með fumlausum hætti. Englarnir eru smávaxnir í samanburði við guðsmóðurina og barnið enda þau í yfirstærð. Þeir sitja á brún hins gráa og lárétta stöpuls sem veglegt hásæti guðsmóðurinnar hvílir á.

Það er þessi grái stöpull. Kannski aðalatriðið í myndinni. Hvers vegna? Íbjúgt mynstrið í tveimur röðum á brúnunum virðist vera gert eins og af handahófi, myndi einhver ætla. Svo er ekki – segja ýmsir listfróðir. Þarna er að finna skilaboð. Strikin eru tákn fyrir áhald sem notað var í rómverskum baðhúsum til að skafa af dautt skinn, sigg, og óhreinindi á húð. Þetta mynstur var líka notað á kristnum minningarmörkum og þar var fólgin tilvísun til þess að frelsarinn hefði skafið syndina af manneskjunum með fórnardauða sínum. Á því hvílir enda hin svokallaða hjálpræðissaga sem kristin trúarbrögð tala fyrir.

En hvaða listaverk er þetta?

Höfundur þess er ítalski endurreisnarlistamaðurinn Masaccio (1401-1428) sem gerði mörg meistaraverk á stuttri ævi. Hann hleypti raunsæi að í verkum sínum og var snjall í samspili ljóss og skugga á myndfletinum. Masaccio var frá Flórens og talinn tímamótamaður í ítalskri list með því að hann ruddi endurreisninni braut. Auk þess að mála hefðbundin trúarleg verk gerði hann nokkur freskuverk með trúarlegum stefjum. Þetta verk Masaccio er miðhluti af stærra verki, altaristöflu í nítján myndhlutum sem hann gerði fyrir kapellu í Písa á Ítalíu. Ellefu hlutar hafa varðveist og eru á ýmsum söfnum. Masaccio var 25 ára gamall þegar hann málaði verkið.

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Einhverjir kunna að spyrja þegar þeir sjá þessa mynd hvað sé að hjá Jesúbarninu. Svipur þess er sorgmæddur og litli Jesú hefur stungið vínberjum upp í munninn. Horfir beint fram og augun heldur þung þar sem þau sitja ofarlega við augnlokin. Drengurinn er þéttholda og hrokkinhærður kollurinn glóandi.

Hann er á besta stað heimsins. Í fangi móður sinnar sem er íklædd djúpbláum kyrtli með gullnum bryddingum. María guðsmóðir var oftast í bláklædd enda var blár litur dýrastur lita á endurreisnartíð. Hún horfir ögn niður á við og það er kyrrt yfir henni; er hvort tveggja í senn döpur og stolt. Eflaust skyggnist hún fram í tímann og þá til þeirra örlaga sem biðu sonar hennar. Tákn um það er vínberjaklasinn sem hún réttir að syni sínum en þau vísa til síðustu kvöldmáltíðarinnar – standa fyrir blóð hans sem verður úthellt.

Guðsmóðirin réttir guðssyninum vínberjaklasa en hann táknar blóð Krists og vísar til síðustu kvöldmáltíðarinnar. Svipur barnsins segir að vínberin séu súr. Kristur sem guð og maður – hversu sátt skyldi hin mannlega taug hafa verið við þau örlög sem biðu? Myndhluti frá National Gallery, London

Það má nota ýmis orð um svipinn á Jesúdrengnum. Þetta er að minnsta kosti barnssvipur en á mýmörgum helgimyndum er svipur hans sem fullorðins manns í barnsmynd. Svipurinn er kannski tortryggnislegur. Fullur efasemda. Eða er hann að ná sér eftir grátkast? Dapur? Óttasleginn? Trúir hann kannski ekki sínum eigin augum þegar hann les svip þess sem horfir á hann nú í verufræðilegri andránni og veit hvernig saga hans spannst? Saga þess sem gekk um kring og gerði gott en var svo líflátinn. Hér er að minnsta kosti ekki á ferð neinn sætsúpukristindómur heldur býsna raunsær en þó stautsamur í ljósi þess að barnið góða skuli hreppa bitur örlög enda þótt sá fengur sem þau færðu væri sjálft fagnaðarerindi trúarinnar samkvæmt kirkjulegum kenningum.

Fórnardauði Jesúbarnsins eftir að það óx úr grasi er ákveðinn kjarni í kristinni trú og getur reynst mörgum snúinn og þá sérstaklega nú á tímum þegar fórnarlund er kannski ekki efst á blaði. Kennilýðurinn verður að glíma við þessa fórnarfræði og útskýra fyrir sínu fólki og er það ekki auðvelt viðureignar nema kannski helst í myndmáli rótfastra helgisiða sem öllum er ekki gefið að skilja – kannski á ekki að skilja það frekar en annað í helgisiðalistinni.

Nú, kannski á fórnarstefið ekki heima á 21. öld. Jákvæð innistæða í gleðibanka sálarinnar skiptir öllu máli. Eða hvað? Hverjum dettur í hug að gefa sinn síðasta eyri?

Sem sé. Allt verður að skoðast í samhengi sínu þó að freistandi sé að stytta sér leið.

Það er ekki alltaf líf og fjör í kristinni trú enda þótt gleðilega upprisustefið sé hryggjarstykki fagnaðarerindisins.

Þarna er sem sagt Jesúbarnið og horfir á okkur. Um höfuð hans er öflugur og nánast sporöskjulaga geislabaugur sem minnir mest á geimskip nútímans. Geislabaugar hinna eru ekki eins kröftugir vegna þess að þeir eru hringlaga. Gerðarleg móðir hans situr í glæstu hásæti í rómverskum stíl sem prýtt er léttum súlum og tekur yfir nær allan myndflötinn. Englarnir tveir sem blaka vængjum sínum bak við hásætið eru blíðir á svip eins og englum ber – vængir þeirra skírskota einnig til kirkjunnar þar sem þeir eru míturslaga. Aðrir tveir englar leika á lútur og ekki er annað að sjá en að það sé gert með fumlausum hætti. Englarnir eru smávaxnir í samanburði við guðsmóðurina og barnið enda þau í yfirstærð. Þeir sitja á brún hins gráa og lárétta stöpuls sem veglegt hásæti guðsmóðurinnar hvílir á.

Það er þessi grái stöpull. Kannski aðalatriðið í myndinni. Hvers vegna? Íbjúgt mynstrið í tveimur röðum á brúnunum virðist vera gert eins og af handahófi, myndi einhver ætla. Svo er ekki – segja ýmsir listfróðir. Þarna er að finna skilaboð. Strikin eru tákn fyrir áhald sem notað var í rómverskum baðhúsum til að skafa af dautt skinn, sigg, og óhreinindi á húð. Þetta mynstur var líka notað á kristnum minningarmörkum og þar var fólgin tilvísun til þess að frelsarinn hefði skafið syndina af manneskjunum með fórnardauða sínum. Á því hvílir enda hin svokallaða hjálpræðissaga sem kristin trúarbrögð tala fyrir.

En hvaða listaverk er þetta?

Höfundur þess er ítalski endurreisnarlistamaðurinn Masaccio (1401-1428) sem gerði mörg meistaraverk á stuttri ævi. Hann hleypti raunsæi að í verkum sínum og var snjall í samspili ljóss og skugga á myndfletinum. Masaccio var frá Flórens og talinn tímamótamaður í ítalskri list með því að hann ruddi endurreisninni braut. Auk þess að mála hefðbundin trúarleg verk gerði hann nokkur freskuverk með trúarlegum stefjum. Þetta verk Masaccio er miðhluti af stærra verki, altaristöflu í nítján myndhlutum sem hann gerði fyrir kapellu í Písa á Ítalíu. Ellefu hlutar hafa varðveist og eru á ýmsum söfnum. Masaccio var 25 ára gamall þegar hann málaði verkið.

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir