Kirkjublaðið.is las og íhugaði söguna kunnu, Aðventu. Það er viðeigandi að fleyta áfram þeim punktum sem komu upp í huga við lestur þessa sígilda verks í íslenskum bókmenntum. Þá skal bent á umfjöllun um leiksýninguna, Aðventu, sem birtist hér á mánudaginn.
Aðventa er falleg saga og stútfull af kristilegum tilvísunum. Hún er hollur lestur um hógværan mann og gæskuríkan. Sálarheilsubætandi.
Aðventa og jólafasta
Orðið aðventa kemst ekki í almenna notkun í íslensku máli fyrr en á 20. öld enda þótt elsta dæmi um orðið sé frá 1553 samkvæmt Ritmálssafni Orðabókar Háskólans.
Það er orðið jólafasta sem skipar öndvegi lengst af en er svo þokað til hliðar með orðinu aðventa. Einföld leit á timarit.is sýnir að orðið aðventa er fyrst og fremst að finna í almanaki Ólafs H. Thorgeirssonar!
Svo kemur saga Gunnars Gunnarssonar, Aðventa. Gefin út á íslensku 1939 – skrifuð á dönsku (Advent) og útgefin 1937. Hugsanlega hefur heiti sögunnar fest orðið aðventa í sessi í tungunni og gert það ögn hversdagslegra en áður enda þótt orðið jólafasta væri notað jöfnum höndum með því. Orðið jólafasta kemur aðeins tvisvar fyrir í sögunni.
Benedikt, sem er aðalpersóna sögunnar, grípur á þessu orði, aðventa, og honum finnst það „furðulega annarlegt og þó um leið innfjálgt, sennilega það orð er snart hann dýpra en öll önnur.“ (Bls. 37). Sem sé áhrifaríkt orð og hlaðið einhvers konar seiðmagni. Og þetta orð var hljóðlátt í huga hans.
Kristnar tilvísanir
Benedikt er kristinn maður, alþýðumaður eins og hann segir sjálfur. Kristin trú hefur mótað hann, vinsemd hans og hjálpfýsi. Hann er kærleiksríkur maður og fórnfús. Umhverfi hans er íslenskt sveitasamfélag þar sem kirkjan hefur sinn sess. Á aðventunni er hann frjáls ferða sinna, heldur til fjalla í ákveðnum tilgangi.
Í þessari stuttu og mögnuðu sögu er að finna ýmsar kristnar tilvísanir. Þær hæfa sögusviðinu, sveitinni með sinni litlu torfkirkju, og manninum í stórbrotinni náttúru. Enda góð saga og athyglisverð fyrir margt. Hver og einn les hana með sínum augum og túlkar eftir eigin höfði. Þessir punktar eru teknir saman til íhugunar eftir lestur sögunnar.
Það er góð aðferð þegar athyglisverðar bækur eru lesnar að punkta hjá sér sem kemur upp í hugann við lesturinn.
27 ár og 27 punktar
- Ein leið til að túlka er að kanna nöfn og merkingu þeirra – og tilvísanir – til gamans og skemmtunar. Aðalpersóna sögunnar heitir Benedikt, það orð merkir sá sem er blessaður. Hann á hund sem ber nafnið Leó og höfundur kallar hann nokkrum sinnum páfa. Nafnið Leó var vinsælt páfanafn og einn þeirra sem lengst var páfi var Leó 13, frá 1878 til 1903. Leó þýðir ljón, og ljónið er tákn guðspjallamannsins Markúsar. Af hverju? Jú: „Rödd hrópanda í eyðimörk…“ (Markúsarguðspjall 1.1). Þeir halda út í auðnina, eyðimörkina, vinirnir þrír: Benedikt, Leó og forystusauðurinn Eitill; til öræfa. Nefndir þrenningin í sögunni.
- Benedikt veltir fyrir sér hlutskipti mannsins: Líf mannsins á jörðinni var ófullkomin þjónusta að mati hans (bls. 38). Ónýtir þjónar erum vér, sögðu postularnir í Lúkasarguðspjalli 17.10. Og Job spyr í 7. kafla bókar sinnar hvort hlutskipti mannsins á jörðinni sé ekki herþjónusta og ævidagar hans eins og málaliðans. Hann sé eins og þræll sem þrái skugga, daglaunamaður sem bíði launa sinna. (Job 7.1-2).
- Og örlitlar talnavangaveltur til gamans: Benedikt heldur til öræfa í tuttugasta og sjöunda sinn. Í 1. Mósebók 1.27 segir frá sköpun mannsins. Og tvisvar sinnum tuttugu og sjö? Hann er fimmtíu og fjögurra ára – sú tala stendur fyrir öryggi hins trúaða manns.
- Ferð hans inn á öræfin er farin til að leita hins týnda, nokkuð biblíulegt stef svo ekki sé meira sagt. Og ferð hans er á við kirkjugöngu, hugsar hann sjálfur (bls. 36). Þar er allt sömuleiðis með hátíðisyfirbragði og hann talar um ómælanlega hvíta helgi sem er yfir reykjarstrókum sem stíga upp frá býlunum (bls. 37).
- Bónda einum finnst þetta vera ráðgáta að Benedikt leggi „jafnvel líftóruna í sölurnar til þess eins að bjarga fáeinum flökkurollum…“ (bls. 39) – sem vekur hugrenningatengsl við hið biblíulega stef um að leggja líf sitt í sölurnar (t.d. Jóhannesarguðspjall 13.37 og Efesusbréfið 5.2).
- Þegar hann hugsar um texta aðventunnar, innreiðina í Jerúsalem, þá liggur við að hann sé ekki staddur á öræfunum heldur á Betlehemsvöllum: orð ritningarinnar að „heita mátti heyranleg utan úr geimnum…“ (bls. 40). Og Benedikt segir með sjálfum sér að hann skilji hógværð frelsarans „út í æsar“ (bls. 40). Ekkert lifandi eða dautt var of lítilmótlegt til þjónustunnar – ösnufolinn sem Jesús reið á inn í borgina helgu: Og Benedikt finnst í sömu svipan hann kannast við „þennan litla asnafola…“ (bls. 40) og gefur höfundur til kynna að hann sjái sjálfan sig í þessari skepnu þjónustunnar.
- Það má svo sannarlega segja að heit trú blundi í Benedikt – honum hitnar í hamsi þegar hann leiðir hugann að því að menn skyldu ekki kannast við frelsarann þegar þeir stóðu augliti til auglitis við hann í borginni helgu á þessum degi innreiðarinnar (bls. 41). Hann svitnar af trúarhita þegar honum verður hugsað til hreinsunar musterisins (Matteusarguðspjall 21.12) og tengir það í huganum við litlu gömlu torfkirkjuna. Og hann var til í allt til að verja málstað frelsarans undir „forystu himnaherrans.“ (Bls. 42).
- Já, og dagurinn var að fjara út eins og „óskýr skuggi á flökti“ (bls. 43) – „Ég hverf sem skugginn er degi hallar…“ (Sl 109.23).
- Og Benedikt á sér draum eða leyndarmál sem enginn vissi um nema „hann og guð almáttugur“, segir á einum stað (bls. 44) og bætir við: „Og öræfin, sem hann háróma hafði trúað fyrir þeim í sálarangist sinni.“ (bls. 45). Óbyggðin. Já. Enda þótt hér sé kannski ekki Kristsgervingur á ferð þá er sterk ómun til eyðimerkurinnar þar sem frelsarinn dvaldist í fjörutíu daga (Lúkasarguðspjall 4.1). Á þessum öræfum var Benedikt ekki einn og yfirgefinn, það var nefnilega smá glufa upp til himins. (Bls. 46).
- Margt fer um huga hans. Dauðaangist „kvíðir því að missa lífið“ (bls. 47). En handan úr eilífðinni, „hinum megin frá væntir maður þess að hafa í tómstundum útsýni yfir sveitina, annað væri vart hugsanlegt.“ (Bls. 48). Það er paradís sveitamannsins – og þó ekki væri nema útsýnið yfir dal og fjöll. En hann virðist líka vera búinn að ná einhvers konar andlegu jafnvægi milli angistar lífsins og dauðans sem hafði ekki aðeins kraumað í sálu hans heldur lá og óttinn líka „falinn inni á milli fjallanna“. (Bls. 79). Höfundur segir að nú sé „oftast hljótt“ hið innra með honum sem í umhverfinu.
- Og Eitill – forystusauðurinn, var „einn af stóru spámönnunum!…“ (bls. 50). Ekkert annað. Jesaja, Jeremía og fleiri.
- Benedikt er sem helgur maður þegar litið er til þess að: „…nauðugt sem það var Benedikt að neita nokkrum manni um neitt.“ (Bls. 56). Þeir félagarnir verða „að hjálpa hverjum og einum sem er í nauðum staddur.“ (Bls. 57).
- Segja má að orð sem þessi endurómi orð úr Fjallræðunni: „Enginn skyldi áhyggjum við annan deila. Hver og einn á nóg með eigin armæðu.“ (Bls. 60). Er þetta ekki ákveðin samsvörun eða óbein umorðun á: Hverjum degi nægir sín þjáning (Matteusarguðspjall 6.34).
- Leyfið börnunum að koma til mín … allir þekkja þá setningu (Markúsarguðspjall 10.14). Segja má að það sé biblíulegur svipur yfir myndinni þar sem hann sat „í miðjum krakkahópnum og telgdi dýr, telgdi fugla, skar út mannamyndir, bjó til amboð úr spýtnarusli…“. (Bls. 61 og 62). Börnin fögnuðu honum og Benedikt vildi frekar sinna þeim og Eitli en að sitja að spilum.
- Þegar hann flettir blöðum á bænum og les um hörmungar heimsins fyllist hann eldmóði: „Það væri sannarlega verkefni fyrir Bensa!“ (Bls. 62).
- Honum er treyst. Einnig Leó og Eitli. Þeir sem njóta aðstoðar hans á fjöllum uppi bera fullt traust til hans og félaganna Leós og Eitils: „…einmuna traust…“ og þeir voru „eina vonarglætan sem þeir gátu eygt…“ (bls. 69).
- Aðventugangan er á vissan hátt stef einsetumannsins og kemur fram að hann hafi „forðast mannlegt föruneyti“ á aðventugöngum sínum – vildi ekki hlusta á „byggðaskraf liðlangan daginn inni milli fjallanna – það átti ekki heima hér.“ (Bls. 76). Já, ekkert podcast í eyrum! Fjöllin voru kirkjan, helgidómur, kannski angi af frómleika sveitamannsins. Öræfin voru hans veröld og þar átti hann heima. (Bls. 46). Og þegar hann skynjar að ungur piltur skuli ekki ganga út frá því sem vísu að hann, Benedikt, muni hjálpa, þá svíður hann undan því – að hann skyldi ekki telja sér „hjálp hans vísa.“ (Bls. 78). Að einhver skuli hafa, ja, vogað sér? að efast um góðmennsku hans? Eða?
- Ferð hans dróst í þetta sinn – nú sat hann ekki sem áður á kirkjubekk „með þakkargerð og helgi í huga“ í kirkjunni sinni heima. (Bls. 79). Er þetta ekki trúaður maður sem hugsar svona?
- Benedikt er hjálpfús maður og lætur ekki illt umtal um aðra hafa áhrif á sig – og jafnvel þótt gefið sé í skyn að aðrir séu að notfæra sér hjálpfýsi hans og góðmennsku eins og Grímsdalsbóndinn ýjar að. Hann aðstoðaði við að bjarga fé hans: „Hverju er ég bættari þótt ég rati á eina og eina villiklauf, ef heilar hjarðir verða úti?“ (Bls. 81). Hann gefur af nesti sínu (bls. 81) – deilir af því litla sem hann á og slíkt samræmist harla vel kristnum siðaboðskap.
- Aðventan í huga hans er eitthvað mjög svo jákvætt og fyllir hann öryggiskennd. Aðventan vekur upp sólskin í minningu hans og heyilm, „von um sumarland“. Kannski bara „innri kyrrð og friður“ hugsar hann. (Bls. 86).
- Hann breiðir yfir bak Eitils yfirhöfn sem höfundur kallar hempu og það er gert til að hlífa honum fyrir klakahröngli. (Bls. 65 og 87). Saman halda þeir áfram ferð sinni um öræfin í „för með reikistjörnum“ og finnst ánægjulegt. Og auðvitað tengja stjörnurnar hinn kristna mann við vitringana þrjá frá Austurlöndum sem fylgdu stjörnunni frægu samkvæmt helgisögninni.
- Það var honum mikil lífsfylling að ferðast um öræfin (bls. 89) og þó að hann væri einn á fjöllum uppi þá átti hann þessa félaga, Leó og Eitil og var því „ekki einstæðingur í henni veröld.“ (Bls. 89).
- Samband Benedikts við Leó og Eitil er einstakt. Hann metur þá mjög mikils. Ekkert kemst til jafns við þessa vini hans: „Og samband manns og dýrs var á sérstakan hátt heilagt og órjúfanlegt.“ (Bls. 90). Hann hugleiðir fórnina – sá dagur kemur að það þarf að aflífa skepnuna. „Það er gjaldið,“ segir hann. Fyrir lífið væntanlega. Honum finnst svo allar skepnur vera „fórnardýr“. Og í enn breiðari skírskotun: Var „ekki allt líf fórn“. (Bls. 90). Er það ekki gátan, spyr hann. Segja má að þessar hugsanir hans endurspegli hugmyndir um hlutverk mannsins gagnvart náttúru og dýrum – sem ráðsmanns á jörðu sem þarf að taka ýmsar ákvarðanir, einfaldar sem erfiðar.
- Sambandið við þá félaga er einnig borðsamfélag, hann snæðir með Leó og Eitli. Borðsamfélagið í kristinni trú er kærleikssamfélag og samfélagið með þeim Leó og Eitli er slíkt. Eitill fær hey og þeir Leó freðið kjöt. Sitja saman – deila kjörum bróðurlega – líður vel sem í konungsríki væru og veröldin með sínar þrengingar – en Benedikt leit á það sem hluta af hinum konunglegu kjörum að eiga sér „von um að bjarga nokkrum klaufum frá hungurdauða næstu daga og inna þannig umhverfi sínu, þjóðfélaginu og alverunni þjónustu af höndum.“ Páfinn í Róm bjó ekki betur en þeir að honum fannst og hafði ekki hreinni samvisku. (Bls. 97-98).
- Trú hans er sterk. Þegar gengur á forðann á níunda degi þá verður honum hugsað til þegar Jesús mettaði fimm þúsund manns (Jóhannesarguðspjall 6. 1-15). Þar reyndust fimm brauð og tveir fiskar býsna drjúgir. Benedikt þurfti ekki að kvíða neina: „Með slíkar staðreyndir í minni var manni í hans sporum illsæmandi að örvænta.“ (Bls. 98-99). En hann þurfti að vera forsjáll engu að síður „…forsjálni er hvergi bönnuð í boðorðum…“ (Bls. 99).
- Þegar Benedikt finnur lengi vel engar kindur þyngist brúnin á honum. Hún þyngist líka á náttúrunni í kringum hann: „Fjöllin umkringdu hann einkennilega þögul og fýld.“ (104) Voru þau að sýna fjandskap? „…ef fjöllin endilega vildu sýna honum úlfúð og fáleik, þá þau um það. Frá þeirri stundu virti hann þau ekki viðlits…“ (Bls. 104). Svo náið er samband hans við náttúruna.
- Og Benedikt gefst ekki upp: „…leita skyldi hann, hversu hvefsin og fráhverf sem veður og fjöll kynnu að sýna sig.“ (Bls. 106). Já, náttúran, þó að hann þekkti hana vel, hún skyldi ekki bregða fæti fyrir ætlunarverk hans: að finna eftirlegukindur – að leita hins týnda. En svo rætist úr öllu. Hann fer að finna kindur. „Skapið skánaði.“ (Bls. 106). Eitill fær að sýna forystusauðshæfileika sína svo um munar.
Margt gerist á fáeinum blaðsíðum. Benedikt grefur sig í fönn og síðan finnur hundurinn Leó gryfjuna þeirra eða grýtuna sem var nokkurs konar fjallabækistöð Benedikts.
Allt fer vel að lokum – Eitill og hjörðin þokuðust á aðfangadegi með hægð til byggða (bls. 115). Benedikt og Leó halda svo jólin hátíðleg í samastað sínum, grýtunni. (Bls. 116).
En á endanum: Þá sneri Benedikt til byggða: „…gamall, lúinn, bráðónýtur.“ (Bls. 116).
Aðventuförinni var lokið. „…þjónustan innt af höndum af fremsta megni.“ (Bls. 117).
Hvernig á að túlka lokin þegar aldur og elli eru færð í tal? Hann hafði fundið fyrir því í þessari aðventugöngu að hann gerðist gamall (bls. 76). Það er ekki annað að skilja en svo að þessi 27. ferð hans, minningarársferðin (bls. 54), sem hann var fullur tilhlökkunar að fara hafi fært honum ellina og það sem henni fylgir.
Söguna mætti túlka sem einhvers konar tegund af lífssögu. Benedikt kemur gamall og lúinn maður til baka eftir aðventugöngu sína, lífsgöngu sína, sem mótaðist af kærleika og hjálpfýsi.
Og það sem meira er og hefur ekki verið nefnt. Í Botni – svo hét bærinn – var ungur maður sem hét Benedikt – sonur hjónanna á bænum – (bls. 51). Þessi sonur þeirra var „einkavinur“ Benedikts – þeir tveir einir báru þetta eiginnafn á þessum slóðum. Gat þetta verið sonur Benedikts? Hann gengur þó í fótspor hans í lok sögunnar – Benedikt ungi eins og hann er nefndur.
Eins og sést á þessari stuttu umfjöllun býr þessi saga yfir mikilli dýpt og örlögum.
Tilvitnanir í texta vísa til 9. útgáfu sögunnar frá 2017 í þýðingu höfundar, Bjartur gaf út.
Hér skal í lokin bent á ljómandi góða grein um Aðventu eftir dr. Hjalta Hugason, prófessor emeritus.
Sjá einnig: Viðtalið: Aðventa lesin (kirkjan.is)
Kirkjublaðið.is las og íhugaði söguna kunnu, Aðventu. Það er viðeigandi að fleyta áfram þeim punktum sem komu upp í huga við lestur þessa sígilda verks í íslenskum bókmenntum. Þá skal bent á umfjöllun um leiksýninguna, Aðventu, sem birtist hér á mánudaginn.
Aðventa er falleg saga og stútfull af kristilegum tilvísunum. Hún er hollur lestur um hógværan mann og gæskuríkan. Sálarheilsubætandi.
Aðventa og jólafasta
Orðið aðventa kemst ekki í almenna notkun í íslensku máli fyrr en á 20. öld enda þótt elsta dæmi um orðið sé frá 1553 samkvæmt Ritmálssafni Orðabókar Háskólans.
Það er orðið jólafasta sem skipar öndvegi lengst af en er svo þokað til hliðar með orðinu aðventa. Einföld leit á timarit.is sýnir að orðið aðventa er fyrst og fremst að finna í almanaki Ólafs H. Thorgeirssonar!
Svo kemur saga Gunnars Gunnarssonar, Aðventa. Gefin út á íslensku 1939 – skrifuð á dönsku (Advent) og útgefin 1937. Hugsanlega hefur heiti sögunnar fest orðið aðventa í sessi í tungunni og gert það ögn hversdagslegra en áður enda þótt orðið jólafasta væri notað jöfnum höndum með því. Orðið jólafasta kemur aðeins tvisvar fyrir í sögunni.
Benedikt, sem er aðalpersóna sögunnar, grípur á þessu orði, aðventa, og honum finnst það „furðulega annarlegt og þó um leið innfjálgt, sennilega það orð er snart hann dýpra en öll önnur.“ (Bls. 37). Sem sé áhrifaríkt orð og hlaðið einhvers konar seiðmagni. Og þetta orð var hljóðlátt í huga hans.
Kristnar tilvísanir
Benedikt er kristinn maður, alþýðumaður eins og hann segir sjálfur. Kristin trú hefur mótað hann, vinsemd hans og hjálpfýsi. Hann er kærleiksríkur maður og fórnfús. Umhverfi hans er íslenskt sveitasamfélag þar sem kirkjan hefur sinn sess. Á aðventunni er hann frjáls ferða sinna, heldur til fjalla í ákveðnum tilgangi.
Í þessari stuttu og mögnuðu sögu er að finna ýmsar kristnar tilvísanir. Þær hæfa sögusviðinu, sveitinni með sinni litlu torfkirkju, og manninum í stórbrotinni náttúru. Enda góð saga og athyglisverð fyrir margt. Hver og einn les hana með sínum augum og túlkar eftir eigin höfði. Þessir punktar eru teknir saman til íhugunar eftir lestur sögunnar.
Það er góð aðferð þegar athyglisverðar bækur eru lesnar að punkta hjá sér sem kemur upp í hugann við lesturinn.
27 ár og 27 punktar
- Ein leið til að túlka er að kanna nöfn og merkingu þeirra – og tilvísanir – til gamans og skemmtunar. Aðalpersóna sögunnar heitir Benedikt, það orð merkir sá sem er blessaður. Hann á hund sem ber nafnið Leó og höfundur kallar hann nokkrum sinnum páfa. Nafnið Leó var vinsælt páfanafn og einn þeirra sem lengst var páfi var Leó 13, frá 1878 til 1903. Leó þýðir ljón, og ljónið er tákn guðspjallamannsins Markúsar. Af hverju? Jú: „Rödd hrópanda í eyðimörk…“ (Markúsarguðspjall 1.1). Þeir halda út í auðnina, eyðimörkina, vinirnir þrír: Benedikt, Leó og forystusauðurinn Eitill; til öræfa. Nefndir þrenningin í sögunni.
- Benedikt veltir fyrir sér hlutskipti mannsins: Líf mannsins á jörðinni var ófullkomin þjónusta að mati hans (bls. 38). Ónýtir þjónar erum vér, sögðu postularnir í Lúkasarguðspjalli 17.10. Og Job spyr í 7. kafla bókar sinnar hvort hlutskipti mannsins á jörðinni sé ekki herþjónusta og ævidagar hans eins og málaliðans. Hann sé eins og þræll sem þrái skugga, daglaunamaður sem bíði launa sinna. (Job 7.1-2).
- Og örlitlar talnavangaveltur til gamans: Benedikt heldur til öræfa í tuttugasta og sjöunda sinn. Í 1. Mósebók 1.27 segir frá sköpun mannsins. Og tvisvar sinnum tuttugu og sjö? Hann er fimmtíu og fjögurra ára – sú tala stendur fyrir öryggi hins trúaða manns.
- Ferð hans inn á öræfin er farin til að leita hins týnda, nokkuð biblíulegt stef svo ekki sé meira sagt. Og ferð hans er á við kirkjugöngu, hugsar hann sjálfur (bls. 36). Þar er allt sömuleiðis með hátíðisyfirbragði og hann talar um ómælanlega hvíta helgi sem er yfir reykjarstrókum sem stíga upp frá býlunum (bls. 37).
- Bónda einum finnst þetta vera ráðgáta að Benedikt leggi „jafnvel líftóruna í sölurnar til þess eins að bjarga fáeinum flökkurollum…“ (bls. 39) – sem vekur hugrenningatengsl við hið biblíulega stef um að leggja líf sitt í sölurnar (t.d. Jóhannesarguðspjall 13.37 og Efesusbréfið 5.2).
- Þegar hann hugsar um texta aðventunnar, innreiðina í Jerúsalem, þá liggur við að hann sé ekki staddur á öræfunum heldur á Betlehemsvöllum: orð ritningarinnar að „heita mátti heyranleg utan úr geimnum…“ (bls. 40). Og Benedikt segir með sjálfum sér að hann skilji hógværð frelsarans „út í æsar“ (bls. 40). Ekkert lifandi eða dautt var of lítilmótlegt til þjónustunnar – ösnufolinn sem Jesús reið á inn í borgina helgu: Og Benedikt finnst í sömu svipan hann kannast við „þennan litla asnafola…“ (bls. 40) og gefur höfundur til kynna að hann sjái sjálfan sig í þessari skepnu þjónustunnar.
- Það má svo sannarlega segja að heit trú blundi í Benedikt – honum hitnar í hamsi þegar hann leiðir hugann að því að menn skyldu ekki kannast við frelsarann þegar þeir stóðu augliti til auglitis við hann í borginni helgu á þessum degi innreiðarinnar (bls. 41). Hann svitnar af trúarhita þegar honum verður hugsað til hreinsunar musterisins (Matteusarguðspjall 21.12) og tengir það í huganum við litlu gömlu torfkirkjuna. Og hann var til í allt til að verja málstað frelsarans undir „forystu himnaherrans.“ (Bls. 42).
- Já, og dagurinn var að fjara út eins og „óskýr skuggi á flökti“ (bls. 43) – „Ég hverf sem skugginn er degi hallar…“ (Sl 109.23).
- Og Benedikt á sér draum eða leyndarmál sem enginn vissi um nema „hann og guð almáttugur“, segir á einum stað (bls. 44) og bætir við: „Og öræfin, sem hann háróma hafði trúað fyrir þeim í sálarangist sinni.“ (bls. 45). Óbyggðin. Já. Enda þótt hér sé kannski ekki Kristsgervingur á ferð þá er sterk ómun til eyðimerkurinnar þar sem frelsarinn dvaldist í fjörutíu daga (Lúkasarguðspjall 4.1). Á þessum öræfum var Benedikt ekki einn og yfirgefinn, það var nefnilega smá glufa upp til himins. (Bls. 46).
- Margt fer um huga hans. Dauðaangist „kvíðir því að missa lífið“ (bls. 47). En handan úr eilífðinni, „hinum megin frá væntir maður þess að hafa í tómstundum útsýni yfir sveitina, annað væri vart hugsanlegt.“ (Bls. 48). Það er paradís sveitamannsins – og þó ekki væri nema útsýnið yfir dal og fjöll. En hann virðist líka vera búinn að ná einhvers konar andlegu jafnvægi milli angistar lífsins og dauðans sem hafði ekki aðeins kraumað í sálu hans heldur lá og óttinn líka „falinn inni á milli fjallanna“. (Bls. 79). Höfundur segir að nú sé „oftast hljótt“ hið innra með honum sem í umhverfinu.
- Og Eitill – forystusauðurinn, var „einn af stóru spámönnunum!…“ (bls. 50). Ekkert annað. Jesaja, Jeremía og fleiri.
- Benedikt er sem helgur maður þegar litið er til þess að: „…nauðugt sem það var Benedikt að neita nokkrum manni um neitt.“ (Bls. 56). Þeir félagarnir verða „að hjálpa hverjum og einum sem er í nauðum staddur.“ (Bls. 57).
- Segja má að orð sem þessi endurómi orð úr Fjallræðunni: „Enginn skyldi áhyggjum við annan deila. Hver og einn á nóg með eigin armæðu.“ (Bls. 60). Er þetta ekki ákveðin samsvörun eða óbein umorðun á: Hverjum degi nægir sín þjáning (Matteusarguðspjall 6.34).
- Leyfið börnunum að koma til mín … allir þekkja þá setningu (Markúsarguðspjall 10.14). Segja má að það sé biblíulegur svipur yfir myndinni þar sem hann sat „í miðjum krakkahópnum og telgdi dýr, telgdi fugla, skar út mannamyndir, bjó til amboð úr spýtnarusli…“. (Bls. 61 og 62). Börnin fögnuðu honum og Benedikt vildi frekar sinna þeim og Eitli en að sitja að spilum.
- Þegar hann flettir blöðum á bænum og les um hörmungar heimsins fyllist hann eldmóði: „Það væri sannarlega verkefni fyrir Bensa!“ (Bls. 62).
- Honum er treyst. Einnig Leó og Eitli. Þeir sem njóta aðstoðar hans á fjöllum uppi bera fullt traust til hans og félaganna Leós og Eitils: „…einmuna traust…“ og þeir voru „eina vonarglætan sem þeir gátu eygt…“ (bls. 69).
- Aðventugangan er á vissan hátt stef einsetumannsins og kemur fram að hann hafi „forðast mannlegt föruneyti“ á aðventugöngum sínum – vildi ekki hlusta á „byggðaskraf liðlangan daginn inni milli fjallanna – það átti ekki heima hér.“ (Bls. 76). Já, ekkert podcast í eyrum! Fjöllin voru kirkjan, helgidómur, kannski angi af frómleika sveitamannsins. Öræfin voru hans veröld og þar átti hann heima. (Bls. 46). Og þegar hann skynjar að ungur piltur skuli ekki ganga út frá því sem vísu að hann, Benedikt, muni hjálpa, þá svíður hann undan því – að hann skyldi ekki telja sér „hjálp hans vísa.“ (Bls. 78). Að einhver skuli hafa, ja, vogað sér? að efast um góðmennsku hans? Eða?
- Ferð hans dróst í þetta sinn – nú sat hann ekki sem áður á kirkjubekk „með þakkargerð og helgi í huga“ í kirkjunni sinni heima. (Bls. 79). Er þetta ekki trúaður maður sem hugsar svona?
- Benedikt er hjálpfús maður og lætur ekki illt umtal um aðra hafa áhrif á sig – og jafnvel þótt gefið sé í skyn að aðrir séu að notfæra sér hjálpfýsi hans og góðmennsku eins og Grímsdalsbóndinn ýjar að. Hann aðstoðaði við að bjarga fé hans: „Hverju er ég bættari þótt ég rati á eina og eina villiklauf, ef heilar hjarðir verða úti?“ (Bls. 81). Hann gefur af nesti sínu (bls. 81) – deilir af því litla sem hann á og slíkt samræmist harla vel kristnum siðaboðskap.
- Aðventan í huga hans er eitthvað mjög svo jákvætt og fyllir hann öryggiskennd. Aðventan vekur upp sólskin í minningu hans og heyilm, „von um sumarland“. Kannski bara „innri kyrrð og friður“ hugsar hann. (Bls. 86).
- Hann breiðir yfir bak Eitils yfirhöfn sem höfundur kallar hempu og það er gert til að hlífa honum fyrir klakahröngli. (Bls. 65 og 87). Saman halda þeir áfram ferð sinni um öræfin í „för með reikistjörnum“ og finnst ánægjulegt. Og auðvitað tengja stjörnurnar hinn kristna mann við vitringana þrjá frá Austurlöndum sem fylgdu stjörnunni frægu samkvæmt helgisögninni.
- Það var honum mikil lífsfylling að ferðast um öræfin (bls. 89) og þó að hann væri einn á fjöllum uppi þá átti hann þessa félaga, Leó og Eitil og var því „ekki einstæðingur í henni veröld.“ (Bls. 89).
- Samband Benedikts við Leó og Eitil er einstakt. Hann metur þá mjög mikils. Ekkert kemst til jafns við þessa vini hans: „Og samband manns og dýrs var á sérstakan hátt heilagt og órjúfanlegt.“ (Bls. 90). Hann hugleiðir fórnina – sá dagur kemur að það þarf að aflífa skepnuna. „Það er gjaldið,“ segir hann. Fyrir lífið væntanlega. Honum finnst svo allar skepnur vera „fórnardýr“. Og í enn breiðari skírskotun: Var „ekki allt líf fórn“. (Bls. 90). Er það ekki gátan, spyr hann. Segja má að þessar hugsanir hans endurspegli hugmyndir um hlutverk mannsins gagnvart náttúru og dýrum – sem ráðsmanns á jörðu sem þarf að taka ýmsar ákvarðanir, einfaldar sem erfiðar.
- Sambandið við þá félaga er einnig borðsamfélag, hann snæðir með Leó og Eitli. Borðsamfélagið í kristinni trú er kærleikssamfélag og samfélagið með þeim Leó og Eitli er slíkt. Eitill fær hey og þeir Leó freðið kjöt. Sitja saman – deila kjörum bróðurlega – líður vel sem í konungsríki væru og veröldin með sínar þrengingar – en Benedikt leit á það sem hluta af hinum konunglegu kjörum að eiga sér „von um að bjarga nokkrum klaufum frá hungurdauða næstu daga og inna þannig umhverfi sínu, þjóðfélaginu og alverunni þjónustu af höndum.“ Páfinn í Róm bjó ekki betur en þeir að honum fannst og hafði ekki hreinni samvisku. (Bls. 97-98).
- Trú hans er sterk. Þegar gengur á forðann á níunda degi þá verður honum hugsað til þegar Jesús mettaði fimm þúsund manns (Jóhannesarguðspjall 6. 1-15). Þar reyndust fimm brauð og tveir fiskar býsna drjúgir. Benedikt þurfti ekki að kvíða neina: „Með slíkar staðreyndir í minni var manni í hans sporum illsæmandi að örvænta.“ (Bls. 98-99). En hann þurfti að vera forsjáll engu að síður „…forsjálni er hvergi bönnuð í boðorðum…“ (Bls. 99).
- Þegar Benedikt finnur lengi vel engar kindur þyngist brúnin á honum. Hún þyngist líka á náttúrunni í kringum hann: „Fjöllin umkringdu hann einkennilega þögul og fýld.“ (104) Voru þau að sýna fjandskap? „…ef fjöllin endilega vildu sýna honum úlfúð og fáleik, þá þau um það. Frá þeirri stundu virti hann þau ekki viðlits…“ (Bls. 104). Svo náið er samband hans við náttúruna.
- Og Benedikt gefst ekki upp: „…leita skyldi hann, hversu hvefsin og fráhverf sem veður og fjöll kynnu að sýna sig.“ (Bls. 106). Já, náttúran, þó að hann þekkti hana vel, hún skyldi ekki bregða fæti fyrir ætlunarverk hans: að finna eftirlegukindur – að leita hins týnda. En svo rætist úr öllu. Hann fer að finna kindur. „Skapið skánaði.“ (Bls. 106). Eitill fær að sýna forystusauðshæfileika sína svo um munar.
Margt gerist á fáeinum blaðsíðum. Benedikt grefur sig í fönn og síðan finnur hundurinn Leó gryfjuna þeirra eða grýtuna sem var nokkurs konar fjallabækistöð Benedikts.
Allt fer vel að lokum – Eitill og hjörðin þokuðust á aðfangadegi með hægð til byggða (bls. 115). Benedikt og Leó halda svo jólin hátíðleg í samastað sínum, grýtunni. (Bls. 116).
En á endanum: Þá sneri Benedikt til byggða: „…gamall, lúinn, bráðónýtur.“ (Bls. 116).
Aðventuförinni var lokið. „…þjónustan innt af höndum af fremsta megni.“ (Bls. 117).
Hvernig á að túlka lokin þegar aldur og elli eru færð í tal? Hann hafði fundið fyrir því í þessari aðventugöngu að hann gerðist gamall (bls. 76). Það er ekki annað að skilja en svo að þessi 27. ferð hans, minningarársferðin (bls. 54), sem hann var fullur tilhlökkunar að fara hafi fært honum ellina og það sem henni fylgir.
Söguna mætti túlka sem einhvers konar tegund af lífssögu. Benedikt kemur gamall og lúinn maður til baka eftir aðventugöngu sína, lífsgöngu sína, sem mótaðist af kærleika og hjálpfýsi.
Og það sem meira er og hefur ekki verið nefnt. Í Botni – svo hét bærinn – var ungur maður sem hét Benedikt – sonur hjónanna á bænum – (bls. 51). Þessi sonur þeirra var „einkavinur“ Benedikts – þeir tveir einir báru þetta eiginnafn á þessum slóðum. Gat þetta verið sonur Benedikts? Hann gengur þó í fótspor hans í lok sögunnar – Benedikt ungi eins og hann er nefndur.
Eins og sést á þessari stuttu umfjöllun býr þessi saga yfir mikilli dýpt og örlögum.
Tilvitnanir í texta vísa til 9. útgáfu sögunnar frá 2017 í þýðingu höfundar, Bjartur gaf út.
Hér skal í lokin bent á ljómandi góða grein um Aðventu eftir dr. Hjalta Hugason, prófessor emeritus.
Sjá einnig: Viðtalið: Aðventa lesin (kirkjan.is)