Um leið og hann setti vörurnar í innkaupapokann var kallað til hans af næsta pokasvæði og einhver sagði að þetta væri nú alveg ferlegt sumar en það væri eins og svo oft áður fótboltinn sem bjargaði því.
Hann svaraði þessum nágranna sínum með bros á vör að ár og dagar væru liðnir frá því hann hefði sætt sig við að búa á þessari breiddargráðu. Einn góður sumardagur væri í augum hans sem heilt sumar og hann þakkaði fyrir það.
Nágranninn flissaði og sagði að sem betur fer færi boltinn aldrei í sumarfrí frekar en almættið. Auk þess væri hann með allar heimsins sportrásir sem gæfu rysjóttu sumri langt nef.
Svo skiptust þeir á nokkrum orðum um kenjótt sumarið og nágranni hans gat ekki leynt óþoli sínu þrátt fyrir þúsund sportrásir sem biðu hans heima í stofu.
Hann ýtti innkaupakerrunni á undan sér og spurði sjálfan sig hvers vegna almættið hefði borið á góma þarna á pokasvæðinu. Hann hló innra með sér og hugsaði sem svo að almættið væri auðvitað alls staðar. Já, eins og í gúmmíslöngunni sem einhver söng um hér um árið, ef hann mundi rétt.
Hann hitti ekki fyrir löngu mikla kirkjukonu sem sagði honum að allt starf kirkjunnar væri komið í sumargírinn. Starfsfólkið þyrfti náttúrlega sumarfrí eins og annað fólk. Kirkjukonan sagði honum að á sumrin væri best að spyrja um sumarið í manneskjunum. Svo var hún rokin en skildi hann eftir með þessa hugsun um sumarið í honum sjálfum.
Á leiðinni út úr versluninni hugsaði hann með sér að sumarið væri sennilega besta árstíðin til að láta í ljós vonir sínar og þrár. Honum hafði alltaf fundist sumarið kalla fram það besta í sér og skipti engu máli hvernig það var. Kalt og blautt. Hlýtt og sólríkt. Eða ekkert. Dagatalið sagði bara sumar og það var nóg. Hann hafði alist upp við alls konar sumur og mundi ekki eftir neinu leiðinlegu sumri. Tók hverju sumri sem gjöf. Hugsaði oft að sumarið væri eins og listaverk sem hver og einn yrði að upplifa með sínum hætti. Sumarið tók hann sér í faðm og bar hann áfram. Lyfti huga hans og anda til bjartari daga. Já, til þeirra daga sem eiga sér engar nætur og lífið virðist án upphafs og endis. Það bara er. Enda var hann viss um að Guð færi aldrei í sumarfrí. Hver hefði svo sem átt að semja við hann um það?
Guð og hann væru sennilega sammála um taka einn sumardag í einu. Finna sumarið þegar það kæmi. Og ekki væri verra að þakka fyrir það.
Um leið og hann setti vörurnar í innkaupapokann var kallað til hans af næsta pokasvæði og einhver sagði að þetta væri nú alveg ferlegt sumar en það væri eins og svo oft áður fótboltinn sem bjargaði því.
Hann svaraði þessum nágranna sínum með bros á vör að ár og dagar væru liðnir frá því hann hefði sætt sig við að búa á þessari breiddargráðu. Einn góður sumardagur væri í augum hans sem heilt sumar og hann þakkaði fyrir það.
Nágranninn flissaði og sagði að sem betur fer færi boltinn aldrei í sumarfrí frekar en almættið. Auk þess væri hann með allar heimsins sportrásir sem gæfu rysjóttu sumri langt nef.
Svo skiptust þeir á nokkrum orðum um kenjótt sumarið og nágranni hans gat ekki leynt óþoli sínu þrátt fyrir þúsund sportrásir sem biðu hans heima í stofu.
Hann ýtti innkaupakerrunni á undan sér og spurði sjálfan sig hvers vegna almættið hefði borið á góma þarna á pokasvæðinu. Hann hló innra með sér og hugsaði sem svo að almættið væri auðvitað alls staðar. Já, eins og í gúmmíslöngunni sem einhver söng um hér um árið, ef hann mundi rétt.
Hann hitti ekki fyrir löngu mikla kirkjukonu sem sagði honum að allt starf kirkjunnar væri komið í sumargírinn. Starfsfólkið þyrfti náttúrlega sumarfrí eins og annað fólk. Kirkjukonan sagði honum að á sumrin væri best að spyrja um sumarið í manneskjunum. Svo var hún rokin en skildi hann eftir með þessa hugsun um sumarið í honum sjálfum.
Á leiðinni út úr versluninni hugsaði hann með sér að sumarið væri sennilega besta árstíðin til að láta í ljós vonir sínar og þrár. Honum hafði alltaf fundist sumarið kalla fram það besta í sér og skipti engu máli hvernig það var. Kalt og blautt. Hlýtt og sólríkt. Eða ekkert. Dagatalið sagði bara sumar og það var nóg. Hann hafði alist upp við alls konar sumur og mundi ekki eftir neinu leiðinlegu sumri. Tók hverju sumri sem gjöf. Hugsaði oft að sumarið væri eins og listaverk sem hver og einn yrði að upplifa með sínum hætti. Sumarið tók hann sér í faðm og bar hann áfram. Lyfti huga hans og anda til bjartari daga. Já, til þeirra daga sem eiga sér engar nætur og lífið virðist án upphafs og endis. Það bara er. Enda var hann viss um að Guð færi aldrei í sumarfrí. Hver hefði svo sem átt að semja við hann um það?
Guð og hann væru sennilega sammála um taka einn sumardag í einu. Finna sumarið þegar það kæmi. Og ekki væri verra að þakka fyrir það.