Gleðilegt sumar!
Nú er sá tími kominn þegar allt vaknar. Hvert sem augað lítur nemur það staðar við líf. Grasnálin þokar sér hægt upp úr fölleitum sverði og virðist í fyrstu eiga lítið erindi út í vorsvalann. En fyrr en varir er túnið orðið grænt. Og sóley býr sig undir að lyfta kolli sínum mót himni og sterkur fífillinn er í viðbragðsstöðu. Fugl svífur léttilega um svalan himin – fugl sem við höfum ekki séð í langan tíma eða allt frá því að hann hélt utan á síðasta hausti. Hann er kominn aftur – eða afkvæmi hans. Kominn um langan veg og ætlar að búa sér hreiður á öruggum stað og koma upp ungum. Hvað sumarið geymir veit hann ekki. Hann veit þó að gleðin verður mikil þegar ungar brjótast úr eggjum. Fuglinn veit að hann þarf að vernda unga sína og fæða. Sumarstarfið bíður hans og hann hlakkar til að takast á við það. Hlakkar til þeirrar stundar þegar ungar hans fara að flögra um frá einni trjágrein til annarrar eða kútveltast milli þúfna úti í móa. Og gleðst innilega í fuglshjarta sínu yfir því þegar hann er orðinn vel fleygur og getur flogið af landi brott þegar haustar.
Og við fylgjumst með lífinu sem vaknar. Það er ekki laust við að við vöknum líka af vetrardvala. Lífskrafturinn sem streymir allt í kringum okkur er smitandi. Öll náttúran rís upp í faðm sólarljóssins bjarta og hlýja. Við fögnum sumrinu því reynslan hefur kennt okkur að það er sá tími sem fyllir huga okkar bjartsýni og krafti. Fyllir hann af gleði. Sumarið er eitt stærsta gleðiefni sem að okkur er rétt á hverju ári. Þyngslum sálar og líkama er ýtt til hliðar um stund eða til frambúðar og vonin rís í huga okkar. Von um betra líf.
Öllu því sem kann að hafa lagst á sálina á liðnum vetri verður vonandi sópað til hliðar. Sumarið krefst þess. Sumarið í sálu þinni heimtar það. Þú getur ekki litið fram hjá því. Getur ekki lokað eyrum fyrir söngfuglum lífsins eða blóma jarðarinnar og söngnum í hjarta þínu. Allt þetta hrópar á þig: „Það er tilefni til að gleðjast. Taktu þátt í fögnuði sumars. Ekkert getur kæft hann!“ Fögnuður sumars er öllu sterkari. Hann minnir á styrkleika lífsins, minnir manneskjuna á að hún er sumarbarn þess sem kallaði lífið fram í sumarbyrjun heimsins. Sumarbarn sem átt hlut í sumrinu sem nú er komið og líka í því eilífa.
Ekkert gerist af sjálfu sér í lífi okkar. Við höfum hendur og huga til að byggja okkur upp í anda sumarsins.
Sumarið er tækifæri til að láta það gróa í brjóstum okkar sem mestu máli skiptir en það er fræ kærleikans og framtíðarinnar. Sumarið bendir okkur alltaf fram á við vegna þess að allt sem það færir okkur er á ferð – er hreyfing.
Sumarið heldur áfram. Skýtur rótum, stækkar, lifnar, blómstrar. Jafnvel þótt fyrsti vísirinn sé grannur og virðist ekki standa undir sjálfum sér þá ber hann í sér kraft til að verða sterkur. Já, svo sterkur að hann getur boðið svölum haustvindi byrginn. Bognar ljúflega en brotnar ekki. Horfðu á hann og hugsaðu með þér eitt andartak að þetta sért þú. Hlúðu að honum og finndu hvernig lífið tekur sér stöðu með þér.
„Allt sé hjá yður í kærleika gjört.“ (1. Kor. 16.14).
Kirkjublaðið.is óskar öllum lesendum sínum gleðilegs sumars
og þakkar fyrir veturinn!
Gleðilegt sumar!
Nú er sá tími kominn þegar allt vaknar. Hvert sem augað lítur nemur það staðar við líf. Grasnálin þokar sér hægt upp úr fölleitum sverði og virðist í fyrstu eiga lítið erindi út í vorsvalann. En fyrr en varir er túnið orðið grænt. Og sóley býr sig undir að lyfta kolli sínum mót himni og sterkur fífillinn er í viðbragðsstöðu. Fugl svífur léttilega um svalan himin – fugl sem við höfum ekki séð í langan tíma eða allt frá því að hann hélt utan á síðasta hausti. Hann er kominn aftur – eða afkvæmi hans. Kominn um langan veg og ætlar að búa sér hreiður á öruggum stað og koma upp ungum. Hvað sumarið geymir veit hann ekki. Hann veit þó að gleðin verður mikil þegar ungar brjótast úr eggjum. Fuglinn veit að hann þarf að vernda unga sína og fæða. Sumarstarfið bíður hans og hann hlakkar til að takast á við það. Hlakkar til þeirrar stundar þegar ungar hans fara að flögra um frá einni trjágrein til annarrar eða kútveltast milli þúfna úti í móa. Og gleðst innilega í fuglshjarta sínu yfir því þegar hann er orðinn vel fleygur og getur flogið af landi brott þegar haustar.
Og við fylgjumst með lífinu sem vaknar. Það er ekki laust við að við vöknum líka af vetrardvala. Lífskrafturinn sem streymir allt í kringum okkur er smitandi. Öll náttúran rís upp í faðm sólarljóssins bjarta og hlýja. Við fögnum sumrinu því reynslan hefur kennt okkur að það er sá tími sem fyllir huga okkar bjartsýni og krafti. Fyllir hann af gleði. Sumarið er eitt stærsta gleðiefni sem að okkur er rétt á hverju ári. Þyngslum sálar og líkama er ýtt til hliðar um stund eða til frambúðar og vonin rís í huga okkar. Von um betra líf.
Öllu því sem kann að hafa lagst á sálina á liðnum vetri verður vonandi sópað til hliðar. Sumarið krefst þess. Sumarið í sálu þinni heimtar það. Þú getur ekki litið fram hjá því. Getur ekki lokað eyrum fyrir söngfuglum lífsins eða blóma jarðarinnar og söngnum í hjarta þínu. Allt þetta hrópar á þig: „Það er tilefni til að gleðjast. Taktu þátt í fögnuði sumars. Ekkert getur kæft hann!“ Fögnuður sumars er öllu sterkari. Hann minnir á styrkleika lífsins, minnir manneskjuna á að hún er sumarbarn þess sem kallaði lífið fram í sumarbyrjun heimsins. Sumarbarn sem átt hlut í sumrinu sem nú er komið og líka í því eilífa.
Ekkert gerist af sjálfu sér í lífi okkar. Við höfum hendur og huga til að byggja okkur upp í anda sumarsins.
Sumarið er tækifæri til að láta það gróa í brjóstum okkar sem mestu máli skiptir en það er fræ kærleikans og framtíðarinnar. Sumarið bendir okkur alltaf fram á við vegna þess að allt sem það færir okkur er á ferð – er hreyfing.
Sumarið heldur áfram. Skýtur rótum, stækkar, lifnar, blómstrar. Jafnvel þótt fyrsti vísirinn sé grannur og virðist ekki standa undir sjálfum sér þá ber hann í sér kraft til að verða sterkur. Já, svo sterkur að hann getur boðið svölum haustvindi byrginn. Bognar ljúflega en brotnar ekki. Horfðu á hann og hugsaðu með þér eitt andartak að þetta sért þú. Hlúðu að honum og finndu hvernig lífið tekur sér stöðu með þér.
„Allt sé hjá yður í kærleika gjört.“ (1. Kor. 16.14).