Þetta var nú tiltölulega þægilegt líf hjá þeim hjónaleysunum Adam og Evu þar til höggormurinn kom til sögunnar og tældi þau. Á þessari mynd sést hvar Eva bregður eplinu fræga bak sér í vinstri hönd og bitið sést ef vel er að gáð. Áður en bragðað var á því voru þau bæði nakin og blygðuðust sín ekki. Eða með öðrum orðum þau höfðu ekki hugmynd um að þau væru nakin. Voru vita áhyggjulaus í holdi sínu og huga sem nútímamaðurinn þráir svo innilega. Enginn loftslagskvíði kominn þarna til sögunnar en sitthvað átti þó eftir að banka upp á og verða fært til bókar. Áhyggjubaugar þyrptust að augum þeirra og þau gerðu sér í snatri lendaskýlur til að hylja nekt sína. Ögn efnismeiri klæði fengu þau síðar frá skaparanum, skinngalla sem segja má að sé enn í tísku.

Þetta listaverk er eitt af þeim mörgu verkum sem sýnir hina örlagaríku stund í lífi mannkyns samkvæmt fornum trúartexta sem er sígildur.

Hinn girnilegi fróðleikur varð þeim að falli. Þekking getur nefnilega verið hættuleg.

Höfundur þessa verks var hollenskur, Jan Gossaert (1478-1532) – hann gerði margar myndir í þessum dúr.

Adam og Eva standa milli tveggja trjáa, skilningstrés góðs og ills og lífsins trés. Þau nánast rífa rammann af sér í margvíslegri merkingu. Hvorugt þeirra er hnarreist, hann hallar sér að öðru trénu og hún er ögn álút. Það er ekki að sjá að þau séu stödd í Paradís. Engin angan blóma né fagrir fuglar sem flögra um. Dimmir jarðarlitir einkenna myndina og grjótmulningur við fætur þeirra. En milli þeirra sér í gosbrunn og gæti áhorfandi haldið að hann sæi ofsjónir. Gosbrunnur í Paradís? Mikið rétt. Hann er þarna og táknar lífsins vatn, hjálpræðið. Straumur lífsvatnsins, skær sem kristall, segir í Opinberunarbók Jóhannesar. Lifandi vatn.

Bæði eru þau Adam og Eva býsna hárprúð. Hann er þéttkrullaður og hún með slöngulokka og hárið fjörlega liðað. Myndarpar og engir horkrangar enda flaut allt í hunangi og mjólk á nýrri jörð.

En höggormurinn slægi kemst upp á milli þeirra eins og myndin sýnir. Hann vefur sig kröftuglega um trjágrein yfir höfðum þeirra. Vafningur hans endurspeglast í hvernig þau vefja hvort annað höndum.

Dapur svipur hvílir yfir andlitum Adams og Evu enda átti gjörð þeirra eftir að draga langan slóða í mannkynssögunni samkvæmt trúarlegum skýringum. Margur hefur sennilega verið hnuggnari af minna tilefni. Eva hefur rennt hönd undir handlegg hans og styður á öxlina en hann heldur utan um hana. Svo er að sjá sem Adam bregði fingri í munn sér. Getur verið að hann sé að veiða eplabita upp úr koki sínu eða krafsa eðlahýði sem runnið hefur milli tanna? Einhver hefði sagt, of seint elskan. Eða er hann að grípa andann á lofti vegna þess að hann áttar sig á orðnum hlut?

En þá er það naflinn. Já, naflinn. Öll höfum við nafla og vitum hvernig á því stendur að hann er þar sem hann er. Svo dularfullur og prúður. Miðja mannsins og torg. Leið lífsins til  mannverunnar.

Naflinn er fremur áberandi á líkömum þeirra Adams og Evu. Já, býsna myndarlegir naflar sem hrópa til áhorfandans: hér erum við. Nú vita allir að samkvæmt trúartextanum fæddust þau Adam og Eva ekki með sama hætti og við heldur voru sköpuð með sérstökum hætti; liggur við að segja eins og sérbökuð vínarbrauð. En rifbeinið Adams ól af sér Evu. Og þarna blasa nú við myndarlegir naflar þeirra.

Listamenn endurreisnar fengu ákúrur fyrir að mála nafla á þau Adam og Evu. Það var trúvilla að mati kirkjuvaldsins en almúganum fannst sem hann kannaðist betur við þau skötuhjú væri naflinn á sama stað og þeirra. Listamennirnir létu kirkjuvaldið ekki stöðva sig þó þeir væru á launaskrá þess. Kannski hugsuðu sumir sem svo að naflinn væri lokapunkturinn þegar nakin manneskja væri máluð. Punktur. Aðrir sögðu að naflalaus manneskja væri beinlínis afkáraleg og eins og hver önnur fjöl án kvists. Væri ekki manneskja.

Deilur meðal guðfræðinga og heimspekinga um nafla þeirra Adams og Evu urðu býsna skrautlegar. Á við nærandi guðfræðilegar skemmtigöngur. Þar fengu menn þrætuepli við hæfi sem var ættskotið eplinu fræga sem Eva greip sællar minningar. Enn aðrir litu á naflann sem merki um að andlegur næringarstrengur hefði verið þar á milli þeirra og skaparans.

Eitt er víst að þetta eru bara skemmtilegar vangaveltur. En listaverkið er magnað. Í gyðinglegri hefð er líka að finna þá sögn að það fyrsta sem skaparinn muni spyrja manneskjuna um við lífslok er hvort hún hafi haft gaman af sköpuninni eða ekki.

Þá er bara að undirbúa svarið og hafa það á takteinum. Fara í naflaskoðun eins og það heitir. Er ekki annars hver maður nafli alheimsins?

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Þetta var nú tiltölulega þægilegt líf hjá þeim hjónaleysunum Adam og Evu þar til höggormurinn kom til sögunnar og tældi þau. Á þessari mynd sést hvar Eva bregður eplinu fræga bak sér í vinstri hönd og bitið sést ef vel er að gáð. Áður en bragðað var á því voru þau bæði nakin og blygðuðust sín ekki. Eða með öðrum orðum þau höfðu ekki hugmynd um að þau væru nakin. Voru vita áhyggjulaus í holdi sínu og huga sem nútímamaðurinn þráir svo innilega. Enginn loftslagskvíði kominn þarna til sögunnar en sitthvað átti þó eftir að banka upp á og verða fært til bókar. Áhyggjubaugar þyrptust að augum þeirra og þau gerðu sér í snatri lendaskýlur til að hylja nekt sína. Ögn efnismeiri klæði fengu þau síðar frá skaparanum, skinngalla sem segja má að sé enn í tísku.

Þetta listaverk er eitt af þeim mörgu verkum sem sýnir hina örlagaríku stund í lífi mannkyns samkvæmt fornum trúartexta sem er sígildur.

Hinn girnilegi fróðleikur varð þeim að falli. Þekking getur nefnilega verið hættuleg.

Höfundur þessa verks var hollenskur, Jan Gossaert (1478-1532) – hann gerði margar myndir í þessum dúr.

Adam og Eva standa milli tveggja trjáa, skilningstrés góðs og ills og lífsins trés. Þau nánast rífa rammann af sér í margvíslegri merkingu. Hvorugt þeirra er hnarreist, hann hallar sér að öðru trénu og hún er ögn álút. Það er ekki að sjá að þau séu stödd í Paradís. Engin angan blóma né fagrir fuglar sem flögra um. Dimmir jarðarlitir einkenna myndina og grjótmulningur við fætur þeirra. En milli þeirra sér í gosbrunn og gæti áhorfandi haldið að hann sæi ofsjónir. Gosbrunnur í Paradís? Mikið rétt. Hann er þarna og táknar lífsins vatn, hjálpræðið. Straumur lífsvatnsins, skær sem kristall, segir í Opinberunarbók Jóhannesar. Lifandi vatn.

Bæði eru þau Adam og Eva býsna hárprúð. Hann er þéttkrullaður og hún með slöngulokka og hárið fjörlega liðað. Myndarpar og engir horkrangar enda flaut allt í hunangi og mjólk á nýrri jörð.

En höggormurinn slægi kemst upp á milli þeirra eins og myndin sýnir. Hann vefur sig kröftuglega um trjágrein yfir höfðum þeirra. Vafningur hans endurspeglast í hvernig þau vefja hvort annað höndum.

Dapur svipur hvílir yfir andlitum Adams og Evu enda átti gjörð þeirra eftir að draga langan slóða í mannkynssögunni samkvæmt trúarlegum skýringum. Margur hefur sennilega verið hnuggnari af minna tilefni. Eva hefur rennt hönd undir handlegg hans og styður á öxlina en hann heldur utan um hana. Svo er að sjá sem Adam bregði fingri í munn sér. Getur verið að hann sé að veiða eplabita upp úr koki sínu eða krafsa eðlahýði sem runnið hefur milli tanna? Einhver hefði sagt, of seint elskan. Eða er hann að grípa andann á lofti vegna þess að hann áttar sig á orðnum hlut?

En þá er það naflinn. Já, naflinn. Öll höfum við nafla og vitum hvernig á því stendur að hann er þar sem hann er. Svo dularfullur og prúður. Miðja mannsins og torg. Leið lífsins til  mannverunnar.

Naflinn er fremur áberandi á líkömum þeirra Adams og Evu. Já, býsna myndarlegir naflar sem hrópa til áhorfandans: hér erum við. Nú vita allir að samkvæmt trúartextanum fæddust þau Adam og Eva ekki með sama hætti og við heldur voru sköpuð með sérstökum hætti; liggur við að segja eins og sérbökuð vínarbrauð. En rifbeinið Adams ól af sér Evu. Og þarna blasa nú við myndarlegir naflar þeirra.

Listamenn endurreisnar fengu ákúrur fyrir að mála nafla á þau Adam og Evu. Það var trúvilla að mati kirkjuvaldsins en almúganum fannst sem hann kannaðist betur við þau skötuhjú væri naflinn á sama stað og þeirra. Listamennirnir létu kirkjuvaldið ekki stöðva sig þó þeir væru á launaskrá þess. Kannski hugsuðu sumir sem svo að naflinn væri lokapunkturinn þegar nakin manneskja væri máluð. Punktur. Aðrir sögðu að naflalaus manneskja væri beinlínis afkáraleg og eins og hver önnur fjöl án kvists. Væri ekki manneskja.

Deilur meðal guðfræðinga og heimspekinga um nafla þeirra Adams og Evu urðu býsna skrautlegar. Á við nærandi guðfræðilegar skemmtigöngur. Þar fengu menn þrætuepli við hæfi sem var ættskotið eplinu fræga sem Eva greip sællar minningar. Enn aðrir litu á naflann sem merki um að andlegur næringarstrengur hefði verið þar á milli þeirra og skaparans.

Eitt er víst að þetta eru bara skemmtilegar vangaveltur. En listaverkið er magnað. Í gyðinglegri hefð er líka að finna þá sögn að það fyrsta sem skaparinn muni spyrja manneskjuna um við lífslok er hvort hún hafi haft gaman af sköpuninni eða ekki.

Þá er bara að undirbúa svarið og hafa það á takteinum. Fara í naflaskoðun eins og það heitir. Er ekki annars hver maður nafli alheimsins?

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir