Frá því sagði í fréttum í vikunni að enskur prestur hefði ákveðið að taka þátt í bæjarhátíðinni í litla bænum sínum með óvenjulegum hætti. Hann vildi brúa bilið milli kirkjunnar sinnar og samfélagsins. Hvort hann hefði lengið velt þessari hugmynd sinn fyrir sér áður en henni var hrundið í framkvæmd er ekki sagt. En hann komst á síður blaða og öldur ljósvakans. Og meira en það: komst á allra varir – sem getur náttúrlega verið býsna varasamt svo ekki sé meira sagt.

Þessum kennimanni ensku kirkjunnar datt sem sé það snjallræði í hug að koma fyrir nettri krá í einu horni kirkjunnar með silfruðum bjórkrönum og traustum handföngum. Og gullinn bjórinn með himinhvítri dúnmjúkri froðunni braust fram úr glottandi kranastútunum. Nóg var nú plássið í kirkjunni. Sóknarbörnin lyftu brúnum og sum urðu hýr á svip. Á brún og brá – meðan brúnin seig á öðrum. Bjórkranar á næsta bæ við háaltarið? Klerkur taldi sig vera að brúa bilið milli samfélagsins og kirkjunnar.

Þegar þetta er skrifað er ekki ljóst hvort presturinn verði að gjalda fyrir þessa gáskafullu tilraun sína til brúargerðar yfir í samfélagið. Hvort honum verði sem sé gert að taka pokann sinn – í margvíslegri merkingu.

Engu að síður merkilegt framtak í sjálfu sér. Hvort það er til fyrirmyndar skal ekki fullyrt.

Stundum er eins og kirkjan sé eyja í mannlífinu. Fyrrum lá býsna þéttur straumur út í eyna og í kirkjuhúsin. En eftir því sem árin hafa liðið hefur dregið úr komu fólks nema helst ferðamönnum í þau kirkjuhús sem laða þá til sín vegna sögu sinna og sérkenna.

Kirkjan hefur horft úr hlaðvarpa sínum á fleiri og fleiri ganga þar fram hjá án þess að líta við. Sumir kinka kolli til hennar í önnum sínum þegar þeir eiga þar leið hjá, brosa vinsamlega. Aðrir eru súrir og hreyta jafnvel ónotum í hana.

En kirkjufólk situr ekki auðum höndum og veit hvert hlutverk kirkjunnar er: Að koma ákveðnum trúarboðskap á framfæri, flytja hann til fólks og ræða. Þessi boðskapur kallast í einu orði fagnaðarerindi.

Ef kirkjan er eyja í mannlífinu þarf að byggja brú eða grafa göng. Það hefur hún auðvitað gert. Oft og mörgum sinnum. Jafnvel reist margar brýr. Sumar eru traustar – öðrum er hróflað upp í flýti til þess að laða til sín vinsældarskriður samtímans. Enn aðrar eru orðnar lúnar og mosavaxnar. En margar þessara brúa hafa verið fáfarnar. Brúarsmiðirnir hafa velt vöngum yfir því hvað valdi. Sumir hafa spurt sig gagnrýninna spurninga: Voru undirstöðurnar nógu tryggar? Var grafið niður á fast fyrir þeim? Skekktust ekki brúarstólparnir af því að undirstöðurnar voru á sandi? Var hún virkilega hrákasmíð? Eitthvað olli því að sumir hlupu kvíðafullir við fót yfir hana. Getur verið að brúin hafi verið of hollívúddleg? En verst var loftkastalabrúin. Það var ekki lítið talað um hana á fundum og þingum. Í mörg ár. Og nokkrar utanlandsreisur farnar til að skoða slíkar brýr sem voru í vændum. En það gerðist ekkert. Hún kom aldrei. Kannski var það bara gott.

Nútíminn býður upp á ótrúlega fjölbreytilega brúarsmíð. Það liggur við að hægt sé að skoða á youtube hvernig skuli staðið að henni.

Það þarf dirfsku til að byggja brýr yfir til samtíma sem er með þeim hætti og sá er blasir nú við. Hvort krá í kirkjuhorni er lausn er vafamál. En hugsunin freyðir kannski sem bjór.

Stundum gleymist eitt. Brú er ólík þorsknum sem hefur einn sporð. Brúin hefur tvo brúarsporða. Annar stendur í hlaði kirkjunnar. En hvar er hinn?

Hann er úti í samfélaginu.

Þar má krossinn ekki verða mosavaxinn. Jafnvel þótt hann geti verið fallegur í faðmi mosans.

 

Glaðhlakkalegur kennimaðurinn Nick Widdows við bjórkranann í St Ia-kirkjunni í Cornwall, Englandi. Mynd: The Daily Telegraph, 21. september 2023

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Frá því sagði í fréttum í vikunni að enskur prestur hefði ákveðið að taka þátt í bæjarhátíðinni í litla bænum sínum með óvenjulegum hætti. Hann vildi brúa bilið milli kirkjunnar sinnar og samfélagsins. Hvort hann hefði lengið velt þessari hugmynd sinn fyrir sér áður en henni var hrundið í framkvæmd er ekki sagt. En hann komst á síður blaða og öldur ljósvakans. Og meira en það: komst á allra varir – sem getur náttúrlega verið býsna varasamt svo ekki sé meira sagt.

Þessum kennimanni ensku kirkjunnar datt sem sé það snjallræði í hug að koma fyrir nettri krá í einu horni kirkjunnar með silfruðum bjórkrönum og traustum handföngum. Og gullinn bjórinn með himinhvítri dúnmjúkri froðunni braust fram úr glottandi kranastútunum. Nóg var nú plássið í kirkjunni. Sóknarbörnin lyftu brúnum og sum urðu hýr á svip. Á brún og brá – meðan brúnin seig á öðrum. Bjórkranar á næsta bæ við háaltarið? Klerkur taldi sig vera að brúa bilið milli samfélagsins og kirkjunnar.

Þegar þetta er skrifað er ekki ljóst hvort presturinn verði að gjalda fyrir þessa gáskafullu tilraun sína til brúargerðar yfir í samfélagið. Hvort honum verði sem sé gert að taka pokann sinn – í margvíslegri merkingu.

Engu að síður merkilegt framtak í sjálfu sér. Hvort það er til fyrirmyndar skal ekki fullyrt.

Stundum er eins og kirkjan sé eyja í mannlífinu. Fyrrum lá býsna þéttur straumur út í eyna og í kirkjuhúsin. En eftir því sem árin hafa liðið hefur dregið úr komu fólks nema helst ferðamönnum í þau kirkjuhús sem laða þá til sín vegna sögu sinna og sérkenna.

Kirkjan hefur horft úr hlaðvarpa sínum á fleiri og fleiri ganga þar fram hjá án þess að líta við. Sumir kinka kolli til hennar í önnum sínum þegar þeir eiga þar leið hjá, brosa vinsamlega. Aðrir eru súrir og hreyta jafnvel ónotum í hana.

En kirkjufólk situr ekki auðum höndum og veit hvert hlutverk kirkjunnar er: Að koma ákveðnum trúarboðskap á framfæri, flytja hann til fólks og ræða. Þessi boðskapur kallast í einu orði fagnaðarerindi.

Ef kirkjan er eyja í mannlífinu þarf að byggja brú eða grafa göng. Það hefur hún auðvitað gert. Oft og mörgum sinnum. Jafnvel reist margar brýr. Sumar eru traustar – öðrum er hróflað upp í flýti til þess að laða til sín vinsældarskriður samtímans. Enn aðrar eru orðnar lúnar og mosavaxnar. En margar þessara brúa hafa verið fáfarnar. Brúarsmiðirnir hafa velt vöngum yfir því hvað valdi. Sumir hafa spurt sig gagnrýninna spurninga: Voru undirstöðurnar nógu tryggar? Var grafið niður á fast fyrir þeim? Skekktust ekki brúarstólparnir af því að undirstöðurnar voru á sandi? Var hún virkilega hrákasmíð? Eitthvað olli því að sumir hlupu kvíðafullir við fót yfir hana. Getur verið að brúin hafi verið of hollívúddleg? En verst var loftkastalabrúin. Það var ekki lítið talað um hana á fundum og þingum. Í mörg ár. Og nokkrar utanlandsreisur farnar til að skoða slíkar brýr sem voru í vændum. En það gerðist ekkert. Hún kom aldrei. Kannski var það bara gott.

Nútíminn býður upp á ótrúlega fjölbreytilega brúarsmíð. Það liggur við að hægt sé að skoða á youtube hvernig skuli staðið að henni.

Það þarf dirfsku til að byggja brýr yfir til samtíma sem er með þeim hætti og sá er blasir nú við. Hvort krá í kirkjuhorni er lausn er vafamál. En hugsunin freyðir kannski sem bjór.

Stundum gleymist eitt. Brú er ólík þorsknum sem hefur einn sporð. Brúin hefur tvo brúarsporða. Annar stendur í hlaði kirkjunnar. En hvar er hinn?

Hann er úti í samfélaginu.

Þar má krossinn ekki verða mosavaxinn. Jafnvel þótt hann geti verið fallegur í faðmi mosans.

 

Glaðhlakkalegur kennimaðurinn Nick Widdows við bjórkranann í St Ia-kirkjunni í Cornwall, Englandi. Mynd: The Daily Telegraph, 21. september 2023

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?