Öll þau sem unna íslenskri kirkju- og menningarsögu hljóta að fagna því að nýlega kom út snotur bók sem er reyndar ekki stór að vöxtum en geymir mikla sögu sem sett er fram í skýru og læsilegu formi. Þetta er Sálmasaga og íslenskar sálmabækur 1555-2022 og er eftir dr. Einar Sigurbjörnsson (1944-2019), sem var mikilvirkur í rannsóknum sínum á íslenskri menningarsögu þar sem kirkjan kom við sögu. Hógvær og vandaður fræðimaður, af hjarta lítillátur. Í bókinni kemur fram að bók þessi sé hluti af stærra verki sem dr. Einar vann að en entist ekki aldur til að ljúka. Þessum hluta var lokið af hans hálfu og stendur sem sjálftstætt verk á sviði sálmasögu og sálmafræði.

Sögu sálmabókanna gerir höfundur góð skil í gagnyrtri umfjöllun sinni svo lesanda leiðist aldrei. Margs konar fróðleikur kemur fram sem mikilvægt er að halda til haga. Það er til dæmis gaman að fræðast um að sálmatöflur/söngtöflur/númeratöflur komu til sögunnar með sálmabókinni frá 1801 (Leirgerði) en prestar völdu sálmana með tilliti til prédikunar sinnar en ekki þess sem Grallarinn sagði til um.

Það er ekki lítill hópur sem kemur að kirkjulegu kórastarfi vítt og breitt um landið. Sumir fara um langan veg til þess eins að komast á kirkjukórsæfingu vegna þess að hún er partur af menningu samfélagsins. Kirkjukórarnir eru menningarveitur sem veita öllum sem taka þátt í þeim mikla ánægju og lífsfyllingu. Ekki einasta félagsskapur og samsemd í söng heldur og því sem sálmalög miðla sem og sálmarnir sjálfir. Allt á þetta sér sína sögu.

Bókin er kjörin fyrir allt áhugasamt kirkjufólk til að komast inn í þennan merka þátt íslenskrar kirkju- og menningarsögu þar sem sálmar eru annars vegar. Á tæpum hundrað blaðsíðum er lesandi fræddur um allt sem máli skiptir í þessari sögu sem er ekki mörgum kunn.

Sálmar verða til sem annar kveðskapur af ákveðnum tilefnum og bak við þau er saga. Þeir miðla ekki aðeins hugmyndum trúar og trúarsannfæringar heldur og líka íslensku máli á ólíkum tímum. Sálmarnir hafa þannig verið mikilvægur liður í varðveislu íslenskrar tungu enda höfðu margir skoðanir á því þegar farið var að hrófla við sumum sálmum og oft í óþökk höfunda. Mest kvað af slíkum uppátækjum í kringum eina frægustu sálmabókaútgáfu Íslandssögunnar, þeirri sem kom út 1801 og uppnefnd var í háðungarskyni Leirgerður. Þar fór upplýsingatíminn á köflum fram úr sjálfum sér. Upplýsingafrömuðurinn Magnús Stephensen (1762-1833) breytti tugum sálma og ýfði hressilega við stórskáldinu á Bægisá, séra Jóni Þorlákssyni (1744-1819), enda hafði Magnús krukkað í nokkra sálma hans. Séra Jón er höfundur uppnefnisins Leirgerður.

Saga sálma er merkileg og sumir sálmanna festa rætur í huga fólks. Þegar sálmi er kippt út úr sálmabók hrökkva auðvitað margir við. En hver kynslóð á sína sálma og stundum verða gamlir sálmar að víkja fyrir nýjum. Öll þau sem komið hafa að sálmabókaútgáfu vita að það er ekki auðvelt mál að velja sálma í nýjar bækur.

Sálmarnir hafa þó það meginmarkmið að koma á framfæri ýmsu sem tengist trúnni hvort heldur íhugun og bæn, játningu eða frásögn. Stundum hefur verið talað um að þar sé sungin guðfræði á ferð. Og sú guðfræði er af ýmsum toga og hver getur fundið sitthvað við sitt hæfi sem er vel.

Það er gaman að fræðast um þá sem hafa fengist við sálmafræði en þeir eru ekki margir. Hins vegar hafa þeir með krafti sínum og áhuga átt sinn hlut í að varðveita sálmaarfinn hvort heldur sem kveðskap eða sem sálmalög.

Fyrsta sálmabókin kom út á íslensku 1555 og á næsta ári verða því 470 ár frá þeim tímamótum og því fullt tilefni til að minnast þeirra – og hita upp fyrir 500 ára afmælið 2055! Annað eins hefur nú verið gert.

Saga hverrar útgáfu er rakin í stuttu máli. Stundum er sú saga einföld og stundum flókin. En hún er alltaf forvitnileg og sýnir hve síðari kynslóðir eiga að þakka fólki sem sýndi mikla elju og þrautseigju í að koma út prentuðu máli á sinni tíð. Það var ekki alltaf auðvelt.

Sálmabók Guðbrands Þorlákssonar (1541-1627) kom út 1589 en með henni var íslensk sálma- og helgisiðaþróun staðfest ásamt Grallara hans frá 1594 (bls. 40).

Sumir sálmar verða vinsælli en aðrir. Ýmsar ástæður eru fyrir því. Vel ortir og rétta lagið fundið eða samið við þá. Sagt er meðal annars frá þeim glæsilega sálmi Heyr himna smiður eftir Kolbein Tumason (1173-1208) sem kom ekki í sálmabók fyrr en 1945. Sá sálmur er talinn vera elsti sálmur á Norðurlöndum og við hann hafa verið gerð þrjú lög. Lag Þorkels Sigurbjörnssonar (1938-2013) fleytti honum áfram til mikilla vinsælda enda glæsilegt með fullri virðingu fyrir hinum lögunum við sálm Kolbeins.

Það er mikill fengur að þessari bók fyrir öll þau sem hafa áhuga á menningu og þætti kirkjunnar í henni.

Bókin er fallega úr garði gerð. Það er bjart yfir henni og himinblá bókarkápan fer efni hennar vel og þar rís upp stílhreinn keltneskur kross Sæbólskirkju á Ingjaldssandi í Þingeyrarprestakalli en myndina tók sr. Guðrún Edda Gunnarsdóttir, ekkja dr. Einars, en hún vígðist sem prestur til Þingeyrarprestakalls 1996.

Persónulegur eftirmáli sr. Guðrúnar Eddu er hugljúfur. Fræðahlið dr. Einars er mörgum kunn en þar var hann í fremstu röð á sínum tíma fyrir snerpu og afköst. Hið sama er að segja um þátttöku hans á vettvangi þjóðkirkjunnar. En færri vita eins og gengur um hina persónulegu hlið. Fram kemur að dr. Einar var mikill flugáhugamaður. Auk þess naut hann þess að vaska upp og ryksuga. Þá var hjónabandssæla uppáhaldskakan hans. Hafði yndi af börnum, las fyrir þau, söng og sagði sögur. Þar er góðs manns að minnast sem dr. Einar var.

Einar Sigurbjörnsson, Sálmasaga og íslenskar sálmabækur 1555-2022, Reykjavík 2024, 94 bls. Útgefandi: Guðrún Edda Gunnarsdóttir.

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Öll þau sem unna íslenskri kirkju- og menningarsögu hljóta að fagna því að nýlega kom út snotur bók sem er reyndar ekki stór að vöxtum en geymir mikla sögu sem sett er fram í skýru og læsilegu formi. Þetta er Sálmasaga og íslenskar sálmabækur 1555-2022 og er eftir dr. Einar Sigurbjörnsson (1944-2019), sem var mikilvirkur í rannsóknum sínum á íslenskri menningarsögu þar sem kirkjan kom við sögu. Hógvær og vandaður fræðimaður, af hjarta lítillátur. Í bókinni kemur fram að bók þessi sé hluti af stærra verki sem dr. Einar vann að en entist ekki aldur til að ljúka. Þessum hluta var lokið af hans hálfu og stendur sem sjálftstætt verk á sviði sálmasögu og sálmafræði.

Sögu sálmabókanna gerir höfundur góð skil í gagnyrtri umfjöllun sinni svo lesanda leiðist aldrei. Margs konar fróðleikur kemur fram sem mikilvægt er að halda til haga. Það er til dæmis gaman að fræðast um að sálmatöflur/söngtöflur/númeratöflur komu til sögunnar með sálmabókinni frá 1801 (Leirgerði) en prestar völdu sálmana með tilliti til prédikunar sinnar en ekki þess sem Grallarinn sagði til um.

Það er ekki lítill hópur sem kemur að kirkjulegu kórastarfi vítt og breitt um landið. Sumir fara um langan veg til þess eins að komast á kirkjukórsæfingu vegna þess að hún er partur af menningu samfélagsins. Kirkjukórarnir eru menningarveitur sem veita öllum sem taka þátt í þeim mikla ánægju og lífsfyllingu. Ekki einasta félagsskapur og samsemd í söng heldur og því sem sálmalög miðla sem og sálmarnir sjálfir. Allt á þetta sér sína sögu.

Bókin er kjörin fyrir allt áhugasamt kirkjufólk til að komast inn í þennan merka þátt íslenskrar kirkju- og menningarsögu þar sem sálmar eru annars vegar. Á tæpum hundrað blaðsíðum er lesandi fræddur um allt sem máli skiptir í þessari sögu sem er ekki mörgum kunn.

Sálmar verða til sem annar kveðskapur af ákveðnum tilefnum og bak við þau er saga. Þeir miðla ekki aðeins hugmyndum trúar og trúarsannfæringar heldur og líka íslensku máli á ólíkum tímum. Sálmarnir hafa þannig verið mikilvægur liður í varðveislu íslenskrar tungu enda höfðu margir skoðanir á því þegar farið var að hrófla við sumum sálmum og oft í óþökk höfunda. Mest kvað af slíkum uppátækjum í kringum eina frægustu sálmabókaútgáfu Íslandssögunnar, þeirri sem kom út 1801 og uppnefnd var í háðungarskyni Leirgerður. Þar fór upplýsingatíminn á köflum fram úr sjálfum sér. Upplýsingafrömuðurinn Magnús Stephensen (1762-1833) breytti tugum sálma og ýfði hressilega við stórskáldinu á Bægisá, séra Jóni Þorlákssyni (1744-1819), enda hafði Magnús krukkað í nokkra sálma hans. Séra Jón er höfundur uppnefnisins Leirgerður.

Saga sálma er merkileg og sumir sálmanna festa rætur í huga fólks. Þegar sálmi er kippt út úr sálmabók hrökkva auðvitað margir við. En hver kynslóð á sína sálma og stundum verða gamlir sálmar að víkja fyrir nýjum. Öll þau sem komið hafa að sálmabókaútgáfu vita að það er ekki auðvelt mál að velja sálma í nýjar bækur.

Sálmarnir hafa þó það meginmarkmið að koma á framfæri ýmsu sem tengist trúnni hvort heldur íhugun og bæn, játningu eða frásögn. Stundum hefur verið talað um að þar sé sungin guðfræði á ferð. Og sú guðfræði er af ýmsum toga og hver getur fundið sitthvað við sitt hæfi sem er vel.

Það er gaman að fræðast um þá sem hafa fengist við sálmafræði en þeir eru ekki margir. Hins vegar hafa þeir með krafti sínum og áhuga átt sinn hlut í að varðveita sálmaarfinn hvort heldur sem kveðskap eða sem sálmalög.

Fyrsta sálmabókin kom út á íslensku 1555 og á næsta ári verða því 470 ár frá þeim tímamótum og því fullt tilefni til að minnast þeirra – og hita upp fyrir 500 ára afmælið 2055! Annað eins hefur nú verið gert.

Saga hverrar útgáfu er rakin í stuttu máli. Stundum er sú saga einföld og stundum flókin. En hún er alltaf forvitnileg og sýnir hve síðari kynslóðir eiga að þakka fólki sem sýndi mikla elju og þrautseigju í að koma út prentuðu máli á sinni tíð. Það var ekki alltaf auðvelt.

Sálmabók Guðbrands Þorlákssonar (1541-1627) kom út 1589 en með henni var íslensk sálma- og helgisiðaþróun staðfest ásamt Grallara hans frá 1594 (bls. 40).

Sumir sálmar verða vinsælli en aðrir. Ýmsar ástæður eru fyrir því. Vel ortir og rétta lagið fundið eða samið við þá. Sagt er meðal annars frá þeim glæsilega sálmi Heyr himna smiður eftir Kolbein Tumason (1173-1208) sem kom ekki í sálmabók fyrr en 1945. Sá sálmur er talinn vera elsti sálmur á Norðurlöndum og við hann hafa verið gerð þrjú lög. Lag Þorkels Sigurbjörnssonar (1938-2013) fleytti honum áfram til mikilla vinsælda enda glæsilegt með fullri virðingu fyrir hinum lögunum við sálm Kolbeins.

Það er mikill fengur að þessari bók fyrir öll þau sem hafa áhuga á menningu og þætti kirkjunnar í henni.

Bókin er fallega úr garði gerð. Það er bjart yfir henni og himinblá bókarkápan fer efni hennar vel og þar rís upp stílhreinn keltneskur kross Sæbólskirkju á Ingjaldssandi í Þingeyrarprestakalli en myndina tók sr. Guðrún Edda Gunnarsdóttir, ekkja dr. Einars, en hún vígðist sem prestur til Þingeyrarprestakalls 1996.

Persónulegur eftirmáli sr. Guðrúnar Eddu er hugljúfur. Fræðahlið dr. Einars er mörgum kunn en þar var hann í fremstu röð á sínum tíma fyrir snerpu og afköst. Hið sama er að segja um þátttöku hans á vettvangi þjóðkirkjunnar. En færri vita eins og gengur um hina persónulegu hlið. Fram kemur að dr. Einar var mikill flugáhugamaður. Auk þess naut hann þess að vaska upp og ryksuga. Þá var hjónabandssæla uppáhaldskakan hans. Hafði yndi af börnum, las fyrir þau, söng og sagði sögur. Þar er góðs manns að minnast sem dr. Einar var.

Einar Sigurbjörnsson, Sálmasaga og íslenskar sálmabækur 1555-2022, Reykjavík 2024, 94 bls. Útgefandi: Guðrún Edda Gunnarsdóttir.

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir