Ætli utangarðsmaðurinn sé ekki jafngamall menningunni? Sá sem stendur á jaðri samfélagsins og horfir þaðan á iðandi mannlíf þar sem hver og einn ræktar sinn garð í hinum stóra garði.

Samfélagið er nefnilega garður og fólk býr innan hans og utan. Þau sem eru innan garðs strita við það að rækta garðinn. Og menn vita að garðurinn gefur ekki neitt af sjálfum sér. Hörðum höndum vinnur hölda kinn, sagði listaskáldið góða. Og í sveita þíns andlitis skaltu þú brauðs þíns neyta, var sagt við mann nokkurn sem rekinn var út fyrir frægan garð. Fólkið sem bjó í þeim garði er sennilega frægasta utangarðsfólk sögunnar. Það ber í það minnsta nokkuð merkileg nöfn. Eða hver man ekki eftir Adam og Evu?

Utangarðsmennirnir sem við sjáum í borgum nútímans eru nafnlausir en eru hluti af sál þeirra. Við þekkjum þá alla því að þeir skera sig úr. Þó eru þeir ekki eins. Hver þeirra er einstakur. Menn af holdi og blóði. Sumir gengu til liðs við flokk þennan ófúsir og aðrir skipa raðir hans vegna sjúkleika sem er illviðráðanlegur. Og enn aðrir gátu kannski ekki fótað sig innan garðsins og hröktust af leið. Lentu utan garðs. Svo eru þeir til í hópnum sem í dularfullri sérvisku sinni ákváðu að hreiðra um sig utan hans.

Utangarðsfólkið eru bræður okkar og systur. Þau minnimáttar. Samfélagið sinnir þeim að vissu marki og réttir þeim hjálparhönd í margháttuðum og flóknum vanda þess. Það á líka við einstaklinga sem hafa ekki hátt um það þegar þeir skjóta einu og öðru að þeim sem er hollt og heillavænlegt. Samskipti hins almenna borgara og utangarðsmanna eru lítil sem engin. Ýmsar ástæður eru fyrir þessu samskiptaleysi og getur í raun hver svarað því fyrir sig.

Þessa helgi verða miklar frosthörkur. Sem betur fer verða neyðarskýli opin allan sólarhringinn. Það er gott. Enn betra væri ef einhverjar kirkjur byðu utangarðsfólkinu í heita kjötsúpu nú um helgina. Utangarðsfólk eru börn Guðs eins og annað fólk.

Jesús frá Nasaret var sjálfur utangarðsmaður og umgekkst þau sem voru á jaðri samfélagsins. Við lesum um samneyti hans við betlara og sjúkt fólk sem samfélagið hafði vísað á dyr. Í þeim hópi voru líkþráir, blindir og heyrnarlausir, geðsjúkir, vændiskonur og bæklaðir. Fólk sem á reyndar enn undir högg að sækja í samfélagi velferðar. Fleiri voru í þessum hópi utangarðsfólks eins og fjárhirðar (þeir sem reyndar fengu fyrstir að heyra fagnaðarboðskapinn um fæðingu frelsara heimsins!), mykjuhreinsarar, litarar, farandsalar, vefarar, fjárhættuspilarar og glæpamenn: flokkur hinna óhreinu. Syndararnir og undirmálsfólkið sem stóð utan garðs.

Utangarðsmaðurinn er hluti af sál borgarinnar. Þau sem minna mega sín. Bræður okkar og systur. Jesús Kristur.

Allt þetta fólk sem stóð og stendur á jaðri samfélagsins. Fólk sem við þekkjum.

Meistarinn frá Nasaret beinir sjónum sínum að utangarðsfólkinu. Er vinur þeirra (Lúkasarguðspjall 7.34) og finnur til samkenndar með þeim: „Ég er ekki kominn til að kalla réttláta heldur syndara.“ (Markúsarguðspjall 2.17) – þeirra er boðskapurinn um ríki Guðs. Þeir sem berja sér á brjóst, frómir á svip og með kenninguna á hreinu, og telja sig réttláta fyrir eigin verk, fá að heyra: „Tollheimtumenn og skækjur verða á undan ykkur inn í Guðs ríki.“ (Matteusarguðspjall 21.31).

Sjálfur var hann farandpredikari sem lifði að mestu á bónbjörgum. Enda þótt hefðin segi að Jesús frá Nasaret hafi verið smiður þá er ekki þar með sagt að hann hafi ætíð haft lífsviðurværi af því starfi. Smiðsvinnan gat verið býsna stopul. Samfélag hans var bændasamfélag, jarðareign var undirstaðan. En rödd hans bar fagnaðarerindið í þeirri trúar- og samfélagslegu gagnrýni sem hann lét í ljós. Þess vegna hafnaði samfélagið honum og þrýsti út á jaðarinn. Setti hann utan garðs.

Krossfestingin var staðfesting samfélagsins á því að hann væri utangarðsmaður. Ekki bara vegna þess að krossfest var utan borgarmúra hinnar helgu borgar heldur voru honum til sitt hvorrar handar aðrir utangarðsmenn – reyndar voru þeir þar með réttu eins og annar þeirra sagði. Og sá bað Jesú um að minnast sín – Jesús svaraði honum að bragði: „Í dag skaltu vera með mér í Paradís.“(Lk 23.43). Í garðinum sem þau Adam og Eva voru forðum rekin úr.

Utangarðsmanninum var gefin von. Það var meistarinn frá Nasaret sem gaf hana. Það var hluti af fagnaðarerindinu.

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Ætli utangarðsmaðurinn sé ekki jafngamall menningunni? Sá sem stendur á jaðri samfélagsins og horfir þaðan á iðandi mannlíf þar sem hver og einn ræktar sinn garð í hinum stóra garði.

Samfélagið er nefnilega garður og fólk býr innan hans og utan. Þau sem eru innan garðs strita við það að rækta garðinn. Og menn vita að garðurinn gefur ekki neitt af sjálfum sér. Hörðum höndum vinnur hölda kinn, sagði listaskáldið góða. Og í sveita þíns andlitis skaltu þú brauðs þíns neyta, var sagt við mann nokkurn sem rekinn var út fyrir frægan garð. Fólkið sem bjó í þeim garði er sennilega frægasta utangarðsfólk sögunnar. Það ber í það minnsta nokkuð merkileg nöfn. Eða hver man ekki eftir Adam og Evu?

Utangarðsmennirnir sem við sjáum í borgum nútímans eru nafnlausir en eru hluti af sál þeirra. Við þekkjum þá alla því að þeir skera sig úr. Þó eru þeir ekki eins. Hver þeirra er einstakur. Menn af holdi og blóði. Sumir gengu til liðs við flokk þennan ófúsir og aðrir skipa raðir hans vegna sjúkleika sem er illviðráðanlegur. Og enn aðrir gátu kannski ekki fótað sig innan garðsins og hröktust af leið. Lentu utan garðs. Svo eru þeir til í hópnum sem í dularfullri sérvisku sinni ákváðu að hreiðra um sig utan hans.

Utangarðsfólkið eru bræður okkar og systur. Þau minnimáttar. Samfélagið sinnir þeim að vissu marki og réttir þeim hjálparhönd í margháttuðum og flóknum vanda þess. Það á líka við einstaklinga sem hafa ekki hátt um það þegar þeir skjóta einu og öðru að þeim sem er hollt og heillavænlegt. Samskipti hins almenna borgara og utangarðsmanna eru lítil sem engin. Ýmsar ástæður eru fyrir þessu samskiptaleysi og getur í raun hver svarað því fyrir sig.

Þessa helgi verða miklar frosthörkur. Sem betur fer verða neyðarskýli opin allan sólarhringinn. Það er gott. Enn betra væri ef einhverjar kirkjur byðu utangarðsfólkinu í heita kjötsúpu nú um helgina. Utangarðsfólk eru börn Guðs eins og annað fólk.

Jesús frá Nasaret var sjálfur utangarðsmaður og umgekkst þau sem voru á jaðri samfélagsins. Við lesum um samneyti hans við betlara og sjúkt fólk sem samfélagið hafði vísað á dyr. Í þeim hópi voru líkþráir, blindir og heyrnarlausir, geðsjúkir, vændiskonur og bæklaðir. Fólk sem á reyndar enn undir högg að sækja í samfélagi velferðar. Fleiri voru í þessum hópi utangarðsfólks eins og fjárhirðar (þeir sem reyndar fengu fyrstir að heyra fagnaðarboðskapinn um fæðingu frelsara heimsins!), mykjuhreinsarar, litarar, farandsalar, vefarar, fjárhættuspilarar og glæpamenn: flokkur hinna óhreinu. Syndararnir og undirmálsfólkið sem stóð utan garðs.

Utangarðsmaðurinn er hluti af sál borgarinnar. Þau sem minna mega sín. Bræður okkar og systur. Jesús Kristur.

Allt þetta fólk sem stóð og stendur á jaðri samfélagsins. Fólk sem við þekkjum.

Meistarinn frá Nasaret beinir sjónum sínum að utangarðsfólkinu. Er vinur þeirra (Lúkasarguðspjall 7.34) og finnur til samkenndar með þeim: „Ég er ekki kominn til að kalla réttláta heldur syndara.“ (Markúsarguðspjall 2.17) – þeirra er boðskapurinn um ríki Guðs. Þeir sem berja sér á brjóst, frómir á svip og með kenninguna á hreinu, og telja sig réttláta fyrir eigin verk, fá að heyra: „Tollheimtumenn og skækjur verða á undan ykkur inn í Guðs ríki.“ (Matteusarguðspjall 21.31).

Sjálfur var hann farandpredikari sem lifði að mestu á bónbjörgum. Enda þótt hefðin segi að Jesús frá Nasaret hafi verið smiður þá er ekki þar með sagt að hann hafi ætíð haft lífsviðurværi af því starfi. Smiðsvinnan gat verið býsna stopul. Samfélag hans var bændasamfélag, jarðareign var undirstaðan. En rödd hans bar fagnaðarerindið í þeirri trúar- og samfélagslegu gagnrýni sem hann lét í ljós. Þess vegna hafnaði samfélagið honum og þrýsti út á jaðarinn. Setti hann utan garðs.

Krossfestingin var staðfesting samfélagsins á því að hann væri utangarðsmaður. Ekki bara vegna þess að krossfest var utan borgarmúra hinnar helgu borgar heldur voru honum til sitt hvorrar handar aðrir utangarðsmenn – reyndar voru þeir þar með réttu eins og annar þeirra sagði. Og sá bað Jesú um að minnast sín – Jesús svaraði honum að bragði: „Í dag skaltu vera með mér í Paradís.“(Lk 23.43). Í garðinum sem þau Adam og Eva voru forðum rekin úr.

Utangarðsmanninum var gefin von. Það var meistarinn frá Nasaret sem gaf hana. Það var hluti af fagnaðarerindinu.

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir