Þó að páskaeggin fari á útsölu eftir páska og séu enn til í fjallháum stæðum í verslunum á hlægilegu verði eins og sagt er stundum þá er boðskapur páskanna ekki á neinni útsölu. Hann er reyndar ekki til sölu heldur fæst hann í trúnni. Og hann er í boði allan ársins hring. Alltaf jafn ferskur.
Páskar, það er nafnið sem listamaðurinn kaus að kalla verk sitt sem fylgir þessu stutta laugardagsspjalli.
Listaverkið felur í sér allar árstíðir og allar hugsanlegar hátíðir sem raðast á þær. Vetur, sumar, vor og haust. Við sjáum gráma haustsins í gráum flötum, svart vetrarmyrkrið, brúna mold sem undirbýr vorið og eitthvað sem er að bruma. Svo kemur sumarið með hvíta birtu og yl. En yfir öllu skín sólin og umvefur manneskjurnar með mýkt og elsku.
Maðurinn lifir stutta stund og hverja árstíðina á fætur annarri. Trúaður maður þakkar fyrir það og sér alltaf eitthvað heillandi við hverja árstíð.
Upprisa til lífs er alltaf einhvern veginn tengd vori sem getur komið til mannsins á öllum tímum. Þess vegna eru páskar alla daga mannsins.
Já, páskar eru alltaf því að boðskapur þeirra er hjarta trúarinnar.
Ferðalag mannsins í lífinu án upprisunnar er að margra mati heldur drungaleg ferð jafnvel þótt menn segist vera svalir á því og horfi mót lífslokum eins og nettum endi á hverri annarri misspennandi skáldsögu sem þeir lesa eða þá mögnuðu lokaatriði í kvikmynd – eða slöppu – og myndin góð eða slæm. En því er lokið. Að eilífu. Maðurinn er bara eins og regndropi sem fellur á svart malbikið og þá er það ferðalag á enda. Trúin talar hins vegar um upprisu frá dauðum. Já, og heim sem hefur tilgang þó að margur efist um það þegar sturlaðir herrar heimsins og frúr dansa við dauðann og steypa saklausu fólk í þjáningar.
Nú túlkar hver maður listaverk svo sem hugur hans segir til um. Nafn sem listamaður velur á verk sitt er hluti af verkinu. Það er margt sem heitið Páskar kann að vekja upp. Enn sem komið er kunna margir skil á þeim atburðum sem gerðust á páskum í kristinni trúarsögu. Á litlu spjald við verk Einars stendur:
Í verkinu Páskar er afmörkuðum en óræðum formum raðað út frá miðju verksins. Þjáning og upprisa. Gulur og svartur minna á að hér er hætta á ferðum.
Hér má bæta við að kraftur ljóðræns gróanda og upprisu birtist í allri uppbyggingu myndarinnar hvort sem hún er skoðuð að ofanverðu eða neðanverðu. Rætur, litfögur blóm og sprotar. Allt sett á einn flöt sem settur er saman úr mörgum minni flötum. Listamaðurinn var óhræddur við að tefla fram ólíkum litum og sterkum sem ýttu við vanabundnum hugsunum listfróðra. Hér má kannski sjá súrrealíska takta og jafnvel dadaíska hjá listamanninum en hann var nokkuð hallur undir þær listastefnur. Það er ekki fráleitt hjá listamanninum að setja páskaboðskapinn fram í súrrealískum anda. Lífið er nefnilega í augum margra hálfgerð fjarstæða og boðskapur kristinnar trúar ofan við raunveruleika og handan við hann, eða öllu meira en raunveruleikinn, en það er einmitt merking orðsins súrrealismi. Þess vegna segjum við á páskum, hvítasunnu og jólum sem og endranær: Kristur er upprisinn. Og enginn þarf að kippa sér upp við það.
Þó að páskaeggin fari á útsölu eftir páska og séu enn til í fjallháum stæðum í verslunum á hlægilegu verði eins og sagt er stundum þá er boðskapur páskanna ekki á neinni útsölu. Hann er reyndar ekki til sölu heldur fæst hann í trúnni. Og hann er í boði allan ársins hring. Alltaf jafn ferskur.
Páskar, það er nafnið sem listamaðurinn kaus að kalla verk sitt sem fylgir þessu stutta laugardagsspjalli.
Listaverkið felur í sér allar árstíðir og allar hugsanlegar hátíðir sem raðast á þær. Vetur, sumar, vor og haust. Við sjáum gráma haustsins í gráum flötum, svart vetrarmyrkrið, brúna mold sem undirbýr vorið og eitthvað sem er að bruma. Svo kemur sumarið með hvíta birtu og yl. En yfir öllu skín sólin og umvefur manneskjurnar með mýkt og elsku.
Maðurinn lifir stutta stund og hverja árstíðina á fætur annarri. Trúaður maður þakkar fyrir það og sér alltaf eitthvað heillandi við hverja árstíð.
Upprisa til lífs er alltaf einhvern veginn tengd vori sem getur komið til mannsins á öllum tímum. Þess vegna eru páskar alla daga mannsins.
Já, páskar eru alltaf því að boðskapur þeirra er hjarta trúarinnar.
Ferðalag mannsins í lífinu án upprisunnar er að margra mati heldur drungaleg ferð jafnvel þótt menn segist vera svalir á því og horfi mót lífslokum eins og nettum endi á hverri annarri misspennandi skáldsögu sem þeir lesa eða þá mögnuðu lokaatriði í kvikmynd – eða slöppu – og myndin góð eða slæm. En því er lokið. Að eilífu. Maðurinn er bara eins og regndropi sem fellur á svart malbikið og þá er það ferðalag á enda. Trúin talar hins vegar um upprisu frá dauðum. Já, og heim sem hefur tilgang þó að margur efist um það þegar sturlaðir herrar heimsins og frúr dansa við dauðann og steypa saklausu fólk í þjáningar.
Nú túlkar hver maður listaverk svo sem hugur hans segir til um. Nafn sem listamaður velur á verk sitt er hluti af verkinu. Það er margt sem heitið Páskar kann að vekja upp. Enn sem komið er kunna margir skil á þeim atburðum sem gerðust á páskum í kristinni trúarsögu. Á litlu spjald við verk Einars stendur:
Í verkinu Páskar er afmörkuðum en óræðum formum raðað út frá miðju verksins. Þjáning og upprisa. Gulur og svartur minna á að hér er hætta á ferðum.
Hér má bæta við að kraftur ljóðræns gróanda og upprisu birtist í allri uppbyggingu myndarinnar hvort sem hún er skoðuð að ofanverðu eða neðanverðu. Rætur, litfögur blóm og sprotar. Allt sett á einn flöt sem settur er saman úr mörgum minni flötum. Listamaðurinn var óhræddur við að tefla fram ólíkum litum og sterkum sem ýttu við vanabundnum hugsunum listfróðra. Hér má kannski sjá súrrealíska takta og jafnvel dadaíska hjá listamanninum en hann var nokkuð hallur undir þær listastefnur. Það er ekki fráleitt hjá listamanninum að setja páskaboðskapinn fram í súrrealískum anda. Lífið er nefnilega í augum margra hálfgerð fjarstæða og boðskapur kristinnar trúar ofan við raunveruleika og handan við hann, eða öllu meira en raunveruleikinn, en það er einmitt merking orðsins súrrealismi. Þess vegna segjum við á páskum, hvítasunnu og jólum sem og endranær: Kristur er upprisinn. Og enginn þarf að kippa sér upp við það.