Hún settist niður með kúfaðan diskinn af núðlum með eggjum og grænmeti. Þetta var ósköp venjulegur föstudagur og hún var vön að koma við á kínverska veitingastaðnum alltaf á sama tíma og panta það sama. Naut þess að sitja ein við borð og fara yfir vikuna í huganum og komandi helgi. Nú var hennar helgi með soninn og hann hafði beðið hana um að fara í sunnudagaskóla með sér. Hafði heyrt hjá einhverjum öðrum fimm ára pjakki að þar væri rosalegt fjör. Alls konar dýr kæmu í heimsókn, rebbi og einhver kanína… og hann taldi ákafri röddu upp eitt og annað. Sjálf hafði hún aldrei farið í sunnudagaskóla en lofaði syninum að fara. Hún spurði sjálfa sig í hljóði hvort hún væri trúuð og svarið var hikandi. Já, hún var trúuð, svaraði hún sjálfri sér. En ekki með sama hætti og boðað var í kirkjunni. Hún trúði á Guð en gat engan veginn tekið á móti öllum þessum sögum og útskýringum sem lagðar voru á borð í messum og helgistundum. Sagði við sjálfa sig að hún tryði á sinn hátt. Þyrfti ekki neina aðstoð við það. Það rifjaðist upp fyrir henni að hún hafði hitt guðfræðistúdent í partíi fyrir æði löngu og hann spurði hana hvort hún vissi hvað hjálpræðissaga væri. Nei, hún vissi það ekki og hélt að hann væri að spyrja hana út í sögu Hjálpræðishersins. Hann hló við með mjúkum skilningi á fávísri konu. Síðan runnu frá honum í stríðum straumi útskýringar og vangaveltur. Þær urðu flóknari eftir því sem yfirborðið í glasinu lækkaði. Hún spurði hvort öll þessi gamla saga og tilvitnanir í spámenn og fræðimenn væru nauðsynleg til þess að almættið tæki mark á henni. Hann svaraði henni drukkinni röddu að þarna skipti hefðin mestu máli. Og siðurinn, syndandi augu hans skáletruðu það orð. En Guð, hafði hún spurt í grandaleysi en þá var svefnhöfgi sigin á stúdentinn en henni heyrðist ekki betur en hann segði að þess gerðist ekki þörf. Ekki að sinni, drafaði hann. Og siðurinn, hljómlaus röddin fjaraði út. Hún hló með sjálfri sér af þessari upprifjun á kínverska veitingastaðnum og horfði á myndir af góðlegum kínverskum drekum og svipillum nöðrum í flóknu stafrófi þeirra Kínverjanna. Kannski var það einfaldara en margt annað í trúni sem hún botnaði ekkert í. Vonaði að Guð tæki mark á sér þó hún væri ekki með allt á hreinu. Hún lauk við núðlurnar og skolaði þeim síðustu niður með vatnsglasi. Leit á símann og renndi yfir Feisbókina. Kannski er bara Feisbókin nýr tilbeiðslusiður, kumraði í henni. Sennilega litu fleiri á Feisbókina fyrir svefninn en þeir sem færu með bænir. Hún hafði reyndar kennt syni sínum nokkra barnasálma og bænir. Þegar hún fór með þær með honum læddist stundum sú hugsun að henni hvort Guð væri nú ekki bara þarna í herberginu. Væri þar yfir og allt um kring. Hún sagði við sjálfa sig að ekki væri það verra. En hjálpræðissöguna myndi hún ekki skilja – og jafnvel þótt hún næði þræðinum þá myndi hann renna fljótt af prjónum hennar eins og hálar núðlurnar með eggjum og grænmeti.
Og svo kemur Jesú í sunnudagaskólann, hafði sonur hennar sagt. Hún hváði en sonur hennar sagði að hann kæmi alltaf, Gummi segði það. Spurði hvort hún vildi ekki hitta hann. Ekkert hafði hún á móti því. Hafði ekkert heyrt nema gott af honum og almennt hefði hann ekkert verið að flækja málin eftir því sem hún vissi best. Eða þannig. Sambúð með honum og Guði yrði sennilega ekki neitt vandamál.
Hún settist niður með kúfaðan diskinn af núðlum með eggjum og grænmeti. Þetta var ósköp venjulegur föstudagur og hún var vön að koma við á kínverska veitingastaðnum alltaf á sama tíma og panta það sama. Naut þess að sitja ein við borð og fara yfir vikuna í huganum og komandi helgi. Nú var hennar helgi með soninn og hann hafði beðið hana um að fara í sunnudagaskóla með sér. Hafði heyrt hjá einhverjum öðrum fimm ára pjakki að þar væri rosalegt fjör. Alls konar dýr kæmu í heimsókn, rebbi og einhver kanína… og hann taldi ákafri röddu upp eitt og annað. Sjálf hafði hún aldrei farið í sunnudagaskóla en lofaði syninum að fara. Hún spurði sjálfa sig í hljóði hvort hún væri trúuð og svarið var hikandi. Já, hún var trúuð, svaraði hún sjálfri sér. En ekki með sama hætti og boðað var í kirkjunni. Hún trúði á Guð en gat engan veginn tekið á móti öllum þessum sögum og útskýringum sem lagðar voru á borð í messum og helgistundum. Sagði við sjálfa sig að hún tryði á sinn hátt. Þyrfti ekki neina aðstoð við það. Það rifjaðist upp fyrir henni að hún hafði hitt guðfræðistúdent í partíi fyrir æði löngu og hann spurði hana hvort hún vissi hvað hjálpræðissaga væri. Nei, hún vissi það ekki og hélt að hann væri að spyrja hana út í sögu Hjálpræðishersins. Hann hló við með mjúkum skilningi á fávísri konu. Síðan runnu frá honum í stríðum straumi útskýringar og vangaveltur. Þær urðu flóknari eftir því sem yfirborðið í glasinu lækkaði. Hún spurði hvort öll þessi gamla saga og tilvitnanir í spámenn og fræðimenn væru nauðsynleg til þess að almættið tæki mark á henni. Hann svaraði henni drukkinni röddu að þarna skipti hefðin mestu máli. Og siðurinn, syndandi augu hans skáletruðu það orð. En Guð, hafði hún spurt í grandaleysi en þá var svefnhöfgi sigin á stúdentinn en henni heyrðist ekki betur en hann segði að þess gerðist ekki þörf. Ekki að sinni, drafaði hann. Og siðurinn, hljómlaus röddin fjaraði út. Hún hló með sjálfri sér af þessari upprifjun á kínverska veitingastaðnum og horfði á myndir af góðlegum kínverskum drekum og svipillum nöðrum í flóknu stafrófi þeirra Kínverjanna. Kannski var það einfaldara en margt annað í trúni sem hún botnaði ekkert í. Vonaði að Guð tæki mark á sér þó hún væri ekki með allt á hreinu. Hún lauk við núðlurnar og skolaði þeim síðustu niður með vatnsglasi. Leit á símann og renndi yfir Feisbókina. Kannski er bara Feisbókin nýr tilbeiðslusiður, kumraði í henni. Sennilega litu fleiri á Feisbókina fyrir svefninn en þeir sem færu með bænir. Hún hafði reyndar kennt syni sínum nokkra barnasálma og bænir. Þegar hún fór með þær með honum læddist stundum sú hugsun að henni hvort Guð væri nú ekki bara þarna í herberginu. Væri þar yfir og allt um kring. Hún sagði við sjálfa sig að ekki væri það verra. En hjálpræðissöguna myndi hún ekki skilja – og jafnvel þótt hún næði þræðinum þá myndi hann renna fljótt af prjónum hennar eins og hálar núðlurnar með eggjum og grænmeti.
Og svo kemur Jesú í sunnudagaskólann, hafði sonur hennar sagt. Hún hváði en sonur hennar sagði að hann kæmi alltaf, Gummi segði það. Spurði hvort hún vildi ekki hitta hann. Ekkert hafði hún á móti því. Hafði ekkert heyrt nema gott af honum og almennt hefði hann ekkert verið að flækja málin eftir því sem hún vissi best. Eða þannig. Sambúð með honum og Guði yrði sennilega ekki neitt vandamál.