Einhver gæti haldið að þessar myndir væru teknar úr teiknimyndabók þar sem sagan af Adam og Evu væri sögð á myndrænan hátt án orða. Svo er nú ekki. Myndaröðin er tekin úr handskrifaðri bók frá 830-840 sem var í eigu klaustursins Moutier-Grandval í Sviss. En þetta var ekki nein venjuleg bók heldur sjálf Biblían. Allar bækur þessa tíma og fram til miðrar 15. aldar voru handskrifaðar og áttu munkar í klaustrum þar drýgstan hlut að máli. Eftirritun trúartexta var kirkjunni snemma mikilvæg og þau sem fengust við þessa iðju báru mikla ábyrgð sem lá í því að skrifa textann rétt niður eftir frumtextanum en það var upp og ofan hvernig til tókst með það. Sumir tóku sér jafnvel það bessaleyfi að skjóta inn í textann orðum ef þeim fannst hann eitthvað óskýr og láir þeim enginn það. Slík innskot hafa stundum vakið harðar trúardeilur. Talið er að um tuttugu ritarar hafi komið að ritun þessa handrits sem er 449 arkir, 495×380 mm.
Þetta biblíuhandrit sem hér er nefnt kallast Grandval-biblían. Auk venjulegra lýsinga í upphafsstöfum og myndstöfum geymir það nokkrar myndir á þremur blaðsíðum sem teljast vera með fyrstu myndskreytingum í biblíuhandriti. Ekki verður annað sagt en að hinn ókunni listamaður hafi verið býsna fær um að setja söguna um þau Adam og Evu, já eða okkur, í myndir.
Í hverri myndröð eru tvær myndir.
Fyrsta myndaröðin sýnir skaparann taka um höfuð Adams sem liggur á jörðinni. Þetta er sköpun Adams, höfuðið er bústaður sálarinnar og skynseminnar. Tveir englar fylgjast vel með. Önnur myndin sýnir sköpun Evu. Þar liggur Adam sofandi með hönd undir kinn og skaparinn snertir hann með hægri hönd, skapar Evu úr rifbeini hans.
Önnur myndaröðin sýnir skaparann rétta upp óvenju langa hægri hönd og virðist ekki beint glaðlegur á svipinn – kannski hefur hann áhyggjur af framtíðinni. Svo er að sjá sem hann sé að kynna þau hvort fyrir öðru á fyrri myndinni og þeirri seinni leggja þeim lífsreglurnar í garðinum góða. Þau Adam og Eva eru prúð að sjá og hlusta gaumgæfilega.
Þriðja myndaröðin er sjálft syndafallið. Eva tekur ávöxt af trénu sem sennilega var alls ekki epli eins og hefðin hefur sagt. Höggormurinn frægi er þarna á sínum stað og í góðum holdum. Þau borða ávöxtinn og horfa hvort á annað. Seinni myndin í röðinni sýnir skaparann gremjufullan á svip og skyldi engan unda. Þau eru búin að bregða fyrir sig fíkjublöðum. Höggormurinn virðist vera að draga sig í hlé enda hefur hann lokið verki sínu að sinni.
Fjórða myndaröðin er svo brottreksturinn úr Paradís. Þau Adam og Eva eru komin í ágæt skinnklæði af hendi skaparans og engillinn styður hönd á öxl annars þeirra. Handahreyfingar þeirra skötuhjúanna gætu gefið til kynna að þau séu að malda í móinn. Seinni myndin í röðinni er svo samkvæmt orðanna hljóðan að Eva skyldi með þraut fæða börnin og yrking jarðarinnar yrði Adam þrældómur. (1. Mósebók 2-3).
Þetta er gömul og ný myndasaga því fjöldi listamanna hefur glímt við að setja hana í ótrúlegustu listform. Já, saga Adams og Evu er lífseig. Hún er nefnilega saga Guðs og manns í heiminum.
Myndir stytta sögur og styrkja. Þær bæta líka stundum við sögur. Stundum festa þær líka sögurnar betur í minni.
Nútíminn er heimur myndanna. Ef læsi og skilningur á texta dofnar þá fær myndin sterkari stöðu en áður. Allir vita að myndir í kirkjum fyrr á öldum voru hugsaðar sem fræðsluefni fyrir ólæsan almúgann og með því urðu samtímis til ódauðleg listaverk. Kannski þarf að fylla kirkjur nútímans af myndum sem rekja helstu sögur Biblíunnar? Reyndar finnast dæmi um slíkt í kirkjum hér á landi eins og steindir gluggar Seljakirkju í Reykjavík sem Einar Hákonarson gerði. Þeir eru glæsileg kirkjulistaverk sem rekja sögur úr Biblíunni á skýran og áhrifamikinn hátt. Til þess að girða fyrir misskilning þá er ekki verið að segja með þessu að sóknarbörn Seljasóknar séu ólæs!
Grandval-biblían var sett í rafrænt form árið 2014 og ef allt væri með felldu mætti sjá hana hér en eins og fram kemur hafa hakkarar ráðist á síðuna og því er ekki hægt að skoða biblíuhandritið eins og er. Það er The British Library sem hýsir handrit Grandval-biblíunnar.
Einhver gæti haldið að þessar myndir væru teknar úr teiknimyndabók þar sem sagan af Adam og Evu væri sögð á myndrænan hátt án orða. Svo er nú ekki. Myndaröðin er tekin úr handskrifaðri bók frá 830-840 sem var í eigu klaustursins Moutier-Grandval í Sviss. En þetta var ekki nein venjuleg bók heldur sjálf Biblían. Allar bækur þessa tíma og fram til miðrar 15. aldar voru handskrifaðar og áttu munkar í klaustrum þar drýgstan hlut að máli. Eftirritun trúartexta var kirkjunni snemma mikilvæg og þau sem fengust við þessa iðju báru mikla ábyrgð sem lá í því að skrifa textann rétt niður eftir frumtextanum en það var upp og ofan hvernig til tókst með það. Sumir tóku sér jafnvel það bessaleyfi að skjóta inn í textann orðum ef þeim fannst hann eitthvað óskýr og láir þeim enginn það. Slík innskot hafa stundum vakið harðar trúardeilur. Talið er að um tuttugu ritarar hafi komið að ritun þessa handrits sem er 449 arkir, 495×380 mm.
Þetta biblíuhandrit sem hér er nefnt kallast Grandval-biblían. Auk venjulegra lýsinga í upphafsstöfum og myndstöfum geymir það nokkrar myndir á þremur blaðsíðum sem teljast vera með fyrstu myndskreytingum í biblíuhandriti. Ekki verður annað sagt en að hinn ókunni listamaður hafi verið býsna fær um að setja söguna um þau Adam og Evu, já eða okkur, í myndir.
Í hverri myndröð eru tvær myndir.
Fyrsta myndaröðin sýnir skaparann taka um höfuð Adams sem liggur á jörðinni. Þetta er sköpun Adams, höfuðið er bústaður sálarinnar og skynseminnar. Tveir englar fylgjast vel með. Önnur myndin sýnir sköpun Evu. Þar liggur Adam sofandi með hönd undir kinn og skaparinn snertir hann með hægri hönd, skapar Evu úr rifbeini hans.
Önnur myndaröðin sýnir skaparann rétta upp óvenju langa hægri hönd og virðist ekki beint glaðlegur á svipinn – kannski hefur hann áhyggjur af framtíðinni. Svo er að sjá sem hann sé að kynna þau hvort fyrir öðru á fyrri myndinni og þeirri seinni leggja þeim lífsreglurnar í garðinum góða. Þau Adam og Eva eru prúð að sjá og hlusta gaumgæfilega.
Þriðja myndaröðin er sjálft syndafallið. Eva tekur ávöxt af trénu sem sennilega var alls ekki epli eins og hefðin hefur sagt. Höggormurinn frægi er þarna á sínum stað og í góðum holdum. Þau borða ávöxtinn og horfa hvort á annað. Seinni myndin í röðinni sýnir skaparann gremjufullan á svip og skyldi engan unda. Þau eru búin að bregða fyrir sig fíkjublöðum. Höggormurinn virðist vera að draga sig í hlé enda hefur hann lokið verki sínu að sinni.
Fjórða myndaröðin er svo brottreksturinn úr Paradís. Þau Adam og Eva eru komin í ágæt skinnklæði af hendi skaparans og engillinn styður hönd á öxl annars þeirra. Handahreyfingar þeirra skötuhjúanna gætu gefið til kynna að þau séu að malda í móinn. Seinni myndin í röðinni er svo samkvæmt orðanna hljóðan að Eva skyldi með þraut fæða börnin og yrking jarðarinnar yrði Adam þrældómur. (1. Mósebók 2-3).
Þetta er gömul og ný myndasaga því fjöldi listamanna hefur glímt við að setja hana í ótrúlegustu listform. Já, saga Adams og Evu er lífseig. Hún er nefnilega saga Guðs og manns í heiminum.
Myndir stytta sögur og styrkja. Þær bæta líka stundum við sögur. Stundum festa þær líka sögurnar betur í minni.
Nútíminn er heimur myndanna. Ef læsi og skilningur á texta dofnar þá fær myndin sterkari stöðu en áður. Allir vita að myndir í kirkjum fyrr á öldum voru hugsaðar sem fræðsluefni fyrir ólæsan almúgann og með því urðu samtímis til ódauðleg listaverk. Kannski þarf að fylla kirkjur nútímans af myndum sem rekja helstu sögur Biblíunnar? Reyndar finnast dæmi um slíkt í kirkjum hér á landi eins og steindir gluggar Seljakirkju í Reykjavík sem Einar Hákonarson gerði. Þeir eru glæsileg kirkjulistaverk sem rekja sögur úr Biblíunni á skýran og áhrifamikinn hátt. Til þess að girða fyrir misskilning þá er ekki verið að segja með þessu að sóknarbörn Seljasóknar séu ólæs!
Grandval-biblían var sett í rafrænt form árið 2014 og ef allt væri með felldu mætti sjá hana hér en eins og fram kemur hafa hakkarar ráðist á síðuna og því er ekki hægt að skoða biblíuhandritið eins og er. Það er The British Library sem hýsir handrit Grandval-biblíunnar.