Það vakna ýmsar spurningar upp í kollinum þegar gengið er út úr leikhúsinu eftir að hafa séð magnaða leiksýningu Borgarleikhússins á leikritinu: Köttur á heitu blikkþaki, eftir Tennessee Williams í lipurri þýðingu Jóns St. Kristjánssonar. Leikstjóri er Þorleifur Örn Arnarsson. Leikmynd og búningar voru í höndum Ernu Mist og hljóðmynd í umsjón Þorbjörns Steingrímssonar. Um lýsingu sá Gunnar Hildimar Halldórsson.
Átakanleg saga fyllir leiksviðið frá fyrstu mínútu og til loka. Áhorfandi spyr sjálfan sig hvort allri heimsins óhamingju sé steypt yfir þetta fólk sem leikritið segir frá. Húsbóndinn dauðveikur án þess að vita það því að fjölskyldan liggur á því leyndarmáli, ung barnlaus hjón í ástlausu sambandi og hann samkynhneigður, slegist um arf og margvíslegur fagurgali hafður uppi til að ganga í augun á þeim sem arfleiðir.
Og hver ætli sé tilgangurinn? Er verið að vara fólk við einstaklingum sem búa yfir ógeðfelldum mannlegum kenndum? Kannski hvetja fólk til að sýna skilning og rétta fram hjálparhönd til þeirra sem búa við þess konar aðstæður? Eða á hver og einn að sjá sögubrot úr eigin fjölskyldu í atganginum á sviðinu og gangast við því að í djúpi hverrar fjölskyldu leynist margt sem betur mætti fara? Já, hvaða sögu er verið að segja?
Viðfangsefni höfundar er ekki lítið. Tvöfeldni manneskjunnar, græðgi, hræsni og lygar. Fordómar og skömm. Fagurgali og botnlaus sjálfselska. Stjórnleysi, alkóhólismi. Viðbrögð andspænis dauða. Skyldu áhorfendur kannast við það? Öllu þessu er teflt fram í sögu af fjölskyldu.
Sennilega er það svo að fjölskyldulíf flestra gengur alla jafn vel fyrir sem betur fer. Hversdagurinn býður þó upp á ýmsar þolraunir og kannski ekki síst í nútímasamfélagi þar sem krafa um hágan þægindastuðul er talin nauðsynleg. Skiptar skoðanir eru sjálfsagðar og hver fjölskylda finnur sinn eigin farveg í önnum dagsins. Allir eiga að fá að njóta sín, eins og sagt er.
Hamingjusamt fjölskyldulíf er keppikefli allra og heimilið er skjól og samstarfsvettvangur náinna samskipta. Venjulegt fólk reynir að leysa hversdagleg vandamál í samvinnu og af sanngirni. Tengsl milli fólks í fjölskyldum eru auðvitað með ýmsu móti, náin, örugg, lausleg, yfirborðsleg og óheiðarleg. Fjölskyldan er eins og vígi þeirra sem henni tilheyra og þar getur krafa um samstöðu út á við verið rík þó að átök séu innan hennar. Þar er allt til – innan herbúða fjölskyldunnar er oft að finna hinn óeigingjarna sáttasemjara og svo líka harðstjórann.
Stundum er sagt að það sé draugagangur í öllum fjölskyldum eins og einhver óuppgerð mál eða eitthvað sem þagað er um. Hamingjusamt líf á yfirborðinu en undir niðri kraumar eitt og annað – og hverjum kemur það svo sem við? Hver gengur fram á leiksvið fjölskyldunnar eftir sínu lunderni. Er ekki alltaf einhvers staðar svartur sauður? Sumar fjölskyldur kunna að vera snarruglaðar í augum annars fólks en aðrir láta sér fátt um finnast. Hin fullkomna fjölskylda er ekki til.
Þær eru margar sögurnar sem nota tímamót í fjölskyldum til að gera út um mál og þá aldeilis óvænt. Þegar fögnuður snýst í ófögnuð.
Fjölskyldan sem leikritið Köttur á heitu blikkþaki fjallar um er ekki hamingjusöm fjölskylda. Margs konar óhamingja, gömul og ný, tekur í hnakkadramb hennar þessa kvöldstund sem áhorfendur sitja í hring kringum leiksviðið sem er eins og hnefaleikahringur. Það er nefnilega tekist á í þessari fjölskyldu og höggin látin dynja sitt og hvað. Engin miskunn.
Þekkjum við þessar persónur? Brick hinn unga sem leikinn er af Sigurði Ingvarssyni. Hann er alkóhólisti, höktir við hækju eftir ökklabrot sem hann hlaut á fylleríi. Hefur ekki nokkurn áhuga á konu sinni, Maggie, sem Áshildur Úa Sigurðardóttir leikur, enda samkynhneigður. Hefur flosnað upp úr vinnu. Engist um í sálarkvölum vegna sjálfsvígs kynferðislega náins vinar síns, og hallar sér ótæpilega að flöskunni til að drekkja sorg sinni. Sektarkennd liggur þungt á honum því hann telur sig eiga hlut í að hafa rekið vin sinn út í dauðann. Svo er það glíman við kynhneigðina. Faðir hans, sem Hilmir Snær Guðnason leikur, Stóri pabbi, neyðir hann til að horfast í augu við samkynhneigð sína – hann er maður sem unnið hefur hörðum höndum í lífi sínu og komið ár sinni vel fyrir borð. Þolir ekki leti, lygar eða óheilindi. Sjálfur óheflaður og harður í horn að taka. Er karlmaðurinn sem vill ráða því sem hann kýs að ráða. Kona hans er Stóra mamma – leikin af Kötlu Margréti Þorgeirsdóttur – og reynir hvað hún getur til að halda fjölskyldunni saman undir merkjum borgarlegrar skyldurækni og trúar. Hún er hins vegar fyrirlitin af eiginmanni sínum enda slæg og gráðug. Stóra mamma lifir í sjálfsblekkingu þegar kemur að veikindum eiginmannsins en verður að horfast í augu við þau síðar.
Bróðir Bricks, leikinn af Hákoni Jóhannessyni, og kona sem Heiðdís C. Hlynsdóttir leikur, ásælast arf Stóra pabba og helsta tromp þeirra er að þau eiga börn og geta fleytt nafni föðurins áfram. En þar er líka græðgin ein við stjórn.
Prestur kemur við sögu í leikritinu og hann er leikinn af Halldóri Gylfasyni. Honum er ýmist vel tekið eða illa en er þó virtur á sinn hátt og þegar það á við. Presturinn er spaugsamur á köflum og kemur fram með ljúfri vinsemd til að styrkja fólkið en hann er fjölskylduvinur. Það er óneitanlega sérstakt að sjá hann arka nokkrum sinnum um inn á sviðið í hempu og með pípukraga. Hann er fulltrúi kirkjunnar, siðferðisins en þess er að gæta að leikritið gerist í Suðríkjum Bandaríkjanna – Biblíubeltinu. En hann er líka breiskur og sýnir græðgi fyrir kirkjunnar hönd í sífri sínu um að kirkjan þurfi á þessu eða hinu að halda – til dæmis loftkælikerfi í kæfandi hita Suðurríkjanna og vill að auðfólkið kosti það.
En Maggie, kona Bricks, er ekki á því að gefast upp. Hún er kötturinn á blikkþakinu heita, sem klórar og lætur finna fyrir sér. Þráir vissulega ástir Bricks en fær þær ekki endurgoldnar – glímir sjálf við minnimáttarkennd að vera komin úr lágstétt inn í ríkidæmi tengdafjölskyldu sinnar. Lýgur því til í lokin að hún sé ófrísk og þau geti því haldið nafni fjölskyldunnar lifandi. Það er nefnilega nokkuð mikilvægt í augum Stóra pabba og Stóru mömmu að nafn fjölskyldunnar haldist við.
Köttur á heitu blikkþaki er tilfinningaleg hraðferð yfir sprengjusvæði og enginn dauður punktur á þeirri ferð þó að áhorfandi sé orðinn ögn lúinn þegar líður að leikslokum. Kannski búinn að fá nóg af spennunni og stríðsátökum persónanna? Leikurinn er framúrskarandi og kröftugur – glæsilegur leikarahópur. Hver leikari sýnir vel unnar persónur í hinu smæsta sem því stærsta. Leikstjórinn hefur haldið utan um alla meginþræði en ekki stigið á listræna leikhæfileika hvers og eins en þeir njóta sín í fjölbreytni tilfinningaflórunnar sem útausið er á sviðið.
Þau sem fást við sálusorgun hafa eflaust gagn af því að sjá þessa sýningu enda þótt á ferð sé yfirskammtur af óhamingju einnar fjölskyldu.
Niðurstaða: Mjög svo áhugaverð sýning sem heldur athygli áhorfenda, einstaklega góð frammistaða leikara. Efni leikritsins er sígilt og það á fullt erindi inn í nútímann. Leikurinn hraður og markviss. Hvergi er dauður punktur en í lokin kennir örlítillar þreytu á dramanu og skyldi engan undra.
Kjarnyrt viðtal við Ernu mist sem hannaði leikmynd og búninga.
Hér ræða nokkrir leikarar sýningarinnar aðeins um hlutverk sín.
Það vakna ýmsar spurningar upp í kollinum þegar gengið er út úr leikhúsinu eftir að hafa séð magnaða leiksýningu Borgarleikhússins á leikritinu: Köttur á heitu blikkþaki, eftir Tennessee Williams í lipurri þýðingu Jóns St. Kristjánssonar. Leikstjóri er Þorleifur Örn Arnarsson. Leikmynd og búningar voru í höndum Ernu Mist og hljóðmynd í umsjón Þorbjörns Steingrímssonar. Um lýsingu sá Gunnar Hildimar Halldórsson.
Átakanleg saga fyllir leiksviðið frá fyrstu mínútu og til loka. Áhorfandi spyr sjálfan sig hvort allri heimsins óhamingju sé steypt yfir þetta fólk sem leikritið segir frá. Húsbóndinn dauðveikur án þess að vita það því að fjölskyldan liggur á því leyndarmáli, ung barnlaus hjón í ástlausu sambandi og hann samkynhneigður, slegist um arf og margvíslegur fagurgali hafður uppi til að ganga í augun á þeim sem arfleiðir.
Og hver ætli sé tilgangurinn? Er verið að vara fólk við einstaklingum sem búa yfir ógeðfelldum mannlegum kenndum? Kannski hvetja fólk til að sýna skilning og rétta fram hjálparhönd til þeirra sem búa við þess konar aðstæður? Eða á hver og einn að sjá sögubrot úr eigin fjölskyldu í atganginum á sviðinu og gangast við því að í djúpi hverrar fjölskyldu leynist margt sem betur mætti fara? Já, hvaða sögu er verið að segja?
Viðfangsefni höfundar er ekki lítið. Tvöfeldni manneskjunnar, græðgi, hræsni og lygar. Fordómar og skömm. Fagurgali og botnlaus sjálfselska. Stjórnleysi, alkóhólismi. Viðbrögð andspænis dauða. Skyldu áhorfendur kannast við það? Öllu þessu er teflt fram í sögu af fjölskyldu.
Sennilega er það svo að fjölskyldulíf flestra gengur alla jafn vel fyrir sem betur fer. Hversdagurinn býður þó upp á ýmsar þolraunir og kannski ekki síst í nútímasamfélagi þar sem krafa um hágan þægindastuðul er talin nauðsynleg. Skiptar skoðanir eru sjálfsagðar og hver fjölskylda finnur sinn eigin farveg í önnum dagsins. Allir eiga að fá að njóta sín, eins og sagt er.
Hamingjusamt fjölskyldulíf er keppikefli allra og heimilið er skjól og samstarfsvettvangur náinna samskipta. Venjulegt fólk reynir að leysa hversdagleg vandamál í samvinnu og af sanngirni. Tengsl milli fólks í fjölskyldum eru auðvitað með ýmsu móti, náin, örugg, lausleg, yfirborðsleg og óheiðarleg. Fjölskyldan er eins og vígi þeirra sem henni tilheyra og þar getur krafa um samstöðu út á við verið rík þó að átök séu innan hennar. Þar er allt til – innan herbúða fjölskyldunnar er oft að finna hinn óeigingjarna sáttasemjara og svo líka harðstjórann.
Stundum er sagt að það sé draugagangur í öllum fjölskyldum eins og einhver óuppgerð mál eða eitthvað sem þagað er um. Hamingjusamt líf á yfirborðinu en undir niðri kraumar eitt og annað – og hverjum kemur það svo sem við? Hver gengur fram á leiksvið fjölskyldunnar eftir sínu lunderni. Er ekki alltaf einhvers staðar svartur sauður? Sumar fjölskyldur kunna að vera snarruglaðar í augum annars fólks en aðrir láta sér fátt um finnast. Hin fullkomna fjölskylda er ekki til.
Þær eru margar sögurnar sem nota tímamót í fjölskyldum til að gera út um mál og þá aldeilis óvænt. Þegar fögnuður snýst í ófögnuð.
Fjölskyldan sem leikritið Köttur á heitu blikkþaki fjallar um er ekki hamingjusöm fjölskylda. Margs konar óhamingja, gömul og ný, tekur í hnakkadramb hennar þessa kvöldstund sem áhorfendur sitja í hring kringum leiksviðið sem er eins og hnefaleikahringur. Það er nefnilega tekist á í þessari fjölskyldu og höggin látin dynja sitt og hvað. Engin miskunn.
Þekkjum við þessar persónur? Brick hinn unga sem leikinn er af Sigurði Ingvarssyni. Hann er alkóhólisti, höktir við hækju eftir ökklabrot sem hann hlaut á fylleríi. Hefur ekki nokkurn áhuga á konu sinni, Maggie, sem Áshildur Úa Sigurðardóttir leikur, enda samkynhneigður. Hefur flosnað upp úr vinnu. Engist um í sálarkvölum vegna sjálfsvígs kynferðislega náins vinar síns, og hallar sér ótæpilega að flöskunni til að drekkja sorg sinni. Sektarkennd liggur þungt á honum því hann telur sig eiga hlut í að hafa rekið vin sinn út í dauðann. Svo er það glíman við kynhneigðina. Faðir hans, sem Hilmir Snær Guðnason leikur, Stóri pabbi, neyðir hann til að horfast í augu við samkynhneigð sína – hann er maður sem unnið hefur hörðum höndum í lífi sínu og komið ár sinni vel fyrir borð. Þolir ekki leti, lygar eða óheilindi. Sjálfur óheflaður og harður í horn að taka. Er karlmaðurinn sem vill ráða því sem hann kýs að ráða. Kona hans er Stóra mamma – leikin af Kötlu Margréti Þorgeirsdóttur – og reynir hvað hún getur til að halda fjölskyldunni saman undir merkjum borgarlegrar skyldurækni og trúar. Hún er hins vegar fyrirlitin af eiginmanni sínum enda slæg og gráðug. Stóra mamma lifir í sjálfsblekkingu þegar kemur að veikindum eiginmannsins en verður að horfast í augu við þau síðar.
Bróðir Bricks, leikinn af Hákoni Jóhannessyni, og kona sem Heiðdís C. Hlynsdóttir leikur, ásælast arf Stóra pabba og helsta tromp þeirra er að þau eiga börn og geta fleytt nafni föðurins áfram. En þar er líka græðgin ein við stjórn.
Prestur kemur við sögu í leikritinu og hann er leikinn af Halldóri Gylfasyni. Honum er ýmist vel tekið eða illa en er þó virtur á sinn hátt og þegar það á við. Presturinn er spaugsamur á köflum og kemur fram með ljúfri vinsemd til að styrkja fólkið en hann er fjölskylduvinur. Það er óneitanlega sérstakt að sjá hann arka nokkrum sinnum um inn á sviðið í hempu og með pípukraga. Hann er fulltrúi kirkjunnar, siðferðisins en þess er að gæta að leikritið gerist í Suðríkjum Bandaríkjanna – Biblíubeltinu. En hann er líka breiskur og sýnir græðgi fyrir kirkjunnar hönd í sífri sínu um að kirkjan þurfi á þessu eða hinu að halda – til dæmis loftkælikerfi í kæfandi hita Suðurríkjanna og vill að auðfólkið kosti það.
En Maggie, kona Bricks, er ekki á því að gefast upp. Hún er kötturinn á blikkþakinu heita, sem klórar og lætur finna fyrir sér. Þráir vissulega ástir Bricks en fær þær ekki endurgoldnar – glímir sjálf við minnimáttarkennd að vera komin úr lágstétt inn í ríkidæmi tengdafjölskyldu sinnar. Lýgur því til í lokin að hún sé ófrísk og þau geti því haldið nafni fjölskyldunnar lifandi. Það er nefnilega nokkuð mikilvægt í augum Stóra pabba og Stóru mömmu að nafn fjölskyldunnar haldist við.
Köttur á heitu blikkþaki er tilfinningaleg hraðferð yfir sprengjusvæði og enginn dauður punktur á þeirri ferð þó að áhorfandi sé orðinn ögn lúinn þegar líður að leikslokum. Kannski búinn að fá nóg af spennunni og stríðsátökum persónanna? Leikurinn er framúrskarandi og kröftugur – glæsilegur leikarahópur. Hver leikari sýnir vel unnar persónur í hinu smæsta sem því stærsta. Leikstjórinn hefur haldið utan um alla meginþræði en ekki stigið á listræna leikhæfileika hvers og eins en þeir njóta sín í fjölbreytni tilfinningaflórunnar sem útausið er á sviðið.
Þau sem fást við sálusorgun hafa eflaust gagn af því að sjá þessa sýningu enda þótt á ferð sé yfirskammtur af óhamingju einnar fjölskyldu.
Niðurstaða: Mjög svo áhugaverð sýning sem heldur athygli áhorfenda, einstaklega góð frammistaða leikara. Efni leikritsins er sígilt og það á fullt erindi inn í nútímann. Leikurinn hraður og markviss. Hvergi er dauður punktur en í lokin kennir örlítillar þreytu á dramanu og skyldi engan undra.
Kjarnyrt viðtal við Ernu mist sem hannaði leikmynd og búninga.
Hér ræða nokkrir leikarar sýningarinnar aðeins um hlutverk sín.