Þóra Kristjánsdóttir (1939-2024), kirkjulistfræðingur – mynd: Morgunblaðið
Greinin „Myndheimur íslenskrar kristni,“ eftir Þóru Kristjánsdóttur (1939-2024), kirkjulistfræðing er sérstaklega skilmerkilegt og gagnyrt yfirlit yfir íslenska kirkjulistasögu. Segja má að grein þessi sé skyldulesning fyrir öll þau sem láta sig menningu, sögu og kirkju, varða.
Greinin er fyrirlestur sem Þóra flutti á útgáfumálþingi á Akureyri árið 2000 og birtist styttur í sérstakri bók 2001 sem bar sama heiti og hin nýja kristnisaga, „Kristni á Íslandi,“ en þingið var haldið í tilefni útgáfu hennar.
Mikilvægt er að góðar greinar og vandaðar megi einnig finna á netinu en ekki aðeins í bók sem kannski fáir vita um. Birting þessarar greinar Þóru er liður í því að koma greininni fyrir augu sem flestra.
Kirkjublaðið.is þakkar Alþingi fyrir leyfi til að birta erindið en hjá því lá útgáfurétturinn. Þær Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri Alþingis, og Halldóra Viðarsdóttir, sérfræðingur, höfðu þar milligöngu um. Eiginmaður Þóru heitinnar, dr. Sveinn Einarsson, fyrrv. Þjóðleikhússtjóri, gaf leyfi fyrir sitt leyti til að birta erindið og er þakkað fyrir það. Ívari Brynjólfssyni, ljósmyndara hjá Þjóðminjasafninu, er þakkað fyrir lipurð við öflun mynda sem birtust með greininni á sínum tíma og flestar þeirra hefur hann tekið. Þá er Arnari Má Brynjarssyni, tölvunarfræðingi, þökkuð margháttuð tæknileg aðstoð við m.a. innskönnun erindisins úr bókinni, „Kristni á Íslandi,“ en textinn var ekki til í tölvutæku formi.
I. Inngangur
Hver er myndheimur íslenskrar kristni nú þegar við minnumst þúsund ára sambúðar kristni og þjóða? Er myndheimurinn í einhverju frábrugðinn myndheimi nágrannalandanna?

Mynd 1: Hallgrímskirkja í Reykjavík – ljósmynd: Kirkjublaðið.is
Þessari síðari spurningu er hægt að svara játandi. Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að myndheimur kristni á Íslandi nú á dögum sé mun einhæfari og í raun fátæklegri en víðast hvar annars staðar í hinum vestræna heimi. Þær kirkjur sem reistar hafa verið hér á landi á síðustu árum og áratugum eru vissulega reistar af metnaði af áhugasömum söfnuðum vítt og breitt um landið og eru flestar hverjar með öflugt safnaðarstarf og því mótandi um myndheim kristni á Íslandi. En í flestum tilvikum hafa kirkjusmiðirnir fylgt helstu straumum og stefnum í byggingarlist samtímans og í hálfa öld er það einfaldleikinn sem hefur ráðið ríkjum og er tískuorðið. Íslendingar virðast upp til hópa lifa aðeins í samtímanum. Við sjáum bara og skynjum samtímann. Í okkar daglega lífi er ákaflega fátt sem minnir á eitthvert samhengi í sögunni og myndheimur fyrri kynslóða virðist flestum núlifandi Íslendingum framandi (sjá mynd 1).
Í útlöndum er þessu öðruvísi farið. Þar eru víðast hvar kirkjur, stórar og smáar, kastalar, jafnvel klaustur og aðrar opinberar byggingar sem eiga uppruna sinn að rekja til miðalda og myndheimur fyrri kynslóða því samofinn og hluti af samtímanum.
Hvað vitum við um myndir og listir á Íslandi fyrr á öldum? Er það ekki ákaflega lítið? Hér er kennt að íslensk myndlist hafi ekki orðið til fyrr en um aldamótin 1900 með frumkvöðlunum svonefndu, Einari Jónssyni myndhöggvara og málurum Þórarni B. Þorlákssyni, Ásgrími Jónssyni og Jóhannes Sveinssyni Kjarval. En svo er reyndar alls ekki. Þessir menn fæddust að vísu inn í öld breytinga á íslensku þjóðlífi, öld sjálfstæðisbaráttunnar og vaknandi vitundar þjóðarinnar um eigin borgarmenningu. Þeim tókst að hasla sér völl sem skapandi myndlistarmenn, fengu meira að segja hús reist yfir verk sín, sumir hverjir. Hnitbjörg, hin sérstæða og veglega bygging Einars Jónssonar á Skólavörðuholtinu, er fyrsta húsið sem reist er á Íslandi sérstaklega fyrir og yfir myndlist, fullbyggt og opnað almenningi árið 1923.
Þetta er athyglisvert frá mörgum sjónarhornum séð því að í rúm 900 ár voru það kirkjurnar sem hýstu listina á Íslandi. Kirkjan var í senn helsti viðskiptavinur listamannanna og um leið eini opinberi staðurinn þar sem menn gátu séð og notið listar.
II. Arfur frá hinni voldugu alþjóðlegu kirkju
Þegar við rýnum í listasögu fyrri alda hér á Íslandi kemur í ljós að nærri allt sem varðveist hefur af myndverkum er úr kirkjum eða frá kirkjunnar mönnum. Auðvitað hafa varðveisluskilyrðin haft sitt að segja. Kirkjurnar varðveittu listgripi betur en heimili manna. En ég vil leyfa mér að fullyrða hér að listsköpun á Íslandi, og þá á ég fyrst og fremst við það sem ég vil kalla myndlist, hafi verið samofin kristni í landinu og kirkjunni sem stofnun í nær 900 ár. Meira að segja útsaumur heimilanna, rúmábreiður og reflar, svo og myndskurður á húsbúnaði var iðulega með kristnum minnum.
Dr. Hjalti Hugason lýsir áhrifum kristninnar á Íslendinga á mjög einfaldan og skýran hátt á einum stað er hann segir:
„Kristnitakan hafði áhrif bæði á innan ríkis- og utanríkismál þegar hún er skoðuð í ljósi stjórnmálanna. Ef til vill fæst þá raunhæfari mynd af henni með því að meta hana út frá sjónarhorni menningarinnar. Frá þeim bæjardyrum séð merkir hún að Íslendingar urðu Evrópumenn í nútímamerkingu þess orðs.“

Mynd 2: Tábagall sem fannst á Þingvöllum árið 1957. Ljósmynd Þjóðminjasafn Íslands
Og það er einmitt það sem gerðist á Íslandi fyrir þúsund árum. Menn fóru fljótt að reisa kirkjur og búa þær helgum gripum og myndum og sóttu fyrirmyndirnar eftir krókaleiðum alla leið til Miðjarðarhafslanda. Kirkjurnar risu sem kristin tákn í náttúru landsins og innan dyra urðu menn fyrir myndrænni upplifun af boðskap Biblíunnar.
En hvar eru þá elstu sjáanlegu, áþreifanlegu sporin eftir kristið samfélag á Íslandi? Á Þingvöllum þar sem hin merkilega samþykkt var gerð fyrir þúsund árum sjást engin spor. En hin sérstæða fegurð staðarins, Almannagjá, vellirnir og fjallahringurinn, fylla flesta sem koma á staðinn lotningu er þeir þekkja söguna. Og þar fannst ekki fyrir mjög mörgum árum, lítill gripur, biskupsbagall, eða húnninn af einum slíkum, með gröfnum dýramyndum, tímasettur frá því um 1100 (sjá mynd 2). Þegar svona gripur finnst, í túninu á Þingvöllum, opnast í einu vetfangi sýn til fyrri tíma. Með því að fylla upp í myndina með fróðleik úr bókum og með því að skoða fleiri varðveitta gripi verður myndin skýrari fyrir þá sem setja sig í þessar ákveðnu stellingar og hugleiða fortíðina.
Fornar kirkjurústir hafa á síðustu áratugum verið grafnar fram á nokkrum stöðum. Ein sú elsta sem rannsökuð hefur verið er á Stöng í Þjórsárdal. Kirkjan hefur verið örlítil, rúmir 3 metrar á lengd og tæpir 3 á breidd, auk kórs sem er um það bil einn og hálfur metri á kant. Rústin er vel geymd í jörðinni á Stöng en nú í vetur var reist eftirgerð Stangarkirkju neðar í dalnum, við þjóðveldisbæinn svokallaða í Þjórsárdal (sjá mynd 3). Langflestar þeirra kirkna sem hér risu um og eftir árið 1000 hafa verið líkar Stangarkirkjunni, þ.e. Litlar heimiliskirkjur.

Mynd 3: Bænhús við Þjóðveldisbæinn í Þjórsárdal. Ljósmynd: Þjóðveldisbærinn
En svo fóru menn að reisa stórar kirkjur, einkum á biskupsstólunum. Miðaldadómkirkjurnar voru einhverjar stærstu timburkirkjur sem sögur fara af. Við vorum ein þjóða sem reistu dómkirkjur okkar úr timbri og er það hluti skýringarinnar. Mest er vitað um síðustu miðaldakirkjurnar á biskupsstólunum. Hóladómkirkja var 50 metra löng og Skálholtskirkja aðeins stærri. Stoðir sem báru upp framkirkjuna á Hólum voru 8 metra háar og að þvermáli nærri metri. Þetta voru nærri helmingi stærri kirkjur en sú sem er í Skálholti í dag.
Þessar risastóru kirkjur voru hlaðnar dýrgripum og listaverkum. Árið 1525, þ.e. þegar Jón Arason tók við biskupsstólunum, voru í Hólakirkju á sjötta hundrað listgripa. Örlítið brot af öllum þessum dýrgripum hefur varðveist fram á þennan dag en þekktustu varðveittu gripirnir eru þeir sem Jón lagði sjálfur til á sínum tíma, þ.e. altarisbríkin stóra sem er enn í Hóladómkirkju og Hólaklæðið með dýrlingunum íslensku, Þorláki helga, Jóni helga og Guðmundi góða (sjá mynd 4).

Mynd 4. Altarisklæði úr Hóladómkirkju með myndum af íslensku biskupunum Guðmundi Arasyni, Jóni Ögmundssyn og Þorláki Þórhallssyni. Ljósmynd: Þjóðminjasafn Íslands, Ívar Brynjólfsson
Biskupskápa Jóns Arasonar, sem notuð var fram á síðustu öld, er nú í Þjóðminjasafninu. Þar er varðveitt merkilegt safn kirkjugripa frá fyrri tíð sem vitnar í senn um hagleik Íslendinga og listrænan metnað, svo og um viðskipti Íslendinga við helstu listamiðstöðvar í Evrópu.
Mynd 5. Kristsmynd frá Ufsum í Svarfaðardal. Ljósmynd: Þjóðminjasafn Íslands, Ívar Brynjólfsson
Margt af því sem menn telja merkilegast í safninu er einmitt úr kirkjum hér við Eyjafjörð.[1] Elstu gripirnir eru útskornir gripir eins og Ufsakristur, kenndur við kirkjuna á Ufsum í Svarfaðardal, þar sem hann hékk yfir kórdyrum fram að aldamótunum síðustu. Þá fauk kirkjan og voru gömlu gripir hennar, er þóttu orðnir úreltir, seldir safninu. Þar sjáum við Krist konung, hinn sigrandi höfðingja frumkristninnar (sjá mynd 5). Hann ber kórónu á höfði sér og stendur teinréttur með báða fætur á fótstalli. Líkneskið hefur verið málað, það vottar fyrir málningu á stöku stað. Krossinn er löngu glataður. Líkneskið er í rómönskum stíl, talið vera frá fyrstu öld kristni í landinu. Þessi rólegi, yfirvegaði, en um leið upphafni Kristur, er úr birki og vafalaust skorinn út hér á landi. Ufsakristur er ólíkur þeim gotnesku, sveigðu kristsmyndum sem á eftir komu og sýna hinn þjáða Krist á krossinum.
Húsavíkurkristur er líka skorinn út úr birki, en hér sjáum við mannssoninn, er þoldi píslir og lét lífið fyrir syndir mannanna (sjá mynd 6). Á krossinum eru útskorin laufblöð á endunum, tákn þess að krossinn er lífsins tré. Neðst á krossinum er mannshöfuð. Það hefur verið túlkað að eigi að tákna Adam sem Kristur leysti frá syndum sínum.
Varðveist hafa útskornar viðarþiljur og stoðir sem bera vott um glæstar byggingar hér snemma á öldum (sjá mynd 7). Elstar eru taldar fornar viðarþiljur kenndar við Möðrufell hér frammi í firði. Útskurðurinn er með stílsvip frá lokaskeiði víkingaaldar. Á síðustu árum hafa fundist fleiri fjalir hér í sveit með svipuðum útskurði, samtals 70 til viðbótar. Lengi var talið að þessar þiljur væru úr fornum veraldlegum skála en nú eru menn á því að þetta séu leifar af viðum úr fornum timburkirkjum frá miðri 11. öld, og því elstu skreyttu kirkjuviðir sem varðveist hafa á Norðurlöndum.

Mynd 7. Útskornar þiljur frá Möðrufelli. Ljósmynd: Þjóðminjasafn Íslands, Ívar Brynjólfsson

Mynd 8. Helgur maður, hluti af svonefndum Flatatungufjölum. Ljósmynd: Þjóðminjasafn Íslands, Ívar Brynjólfsson
Aðrar viðarþiljur eru kenndar við Flatatungu í Skagafirði því þær voru síðast notaðar þar í gamla torfbænum sem rifinn var 1952. Varðveisla þeirra og geymd sýnir hversu dýrmætur allur byggingarviður hefur löngum verið á Íslandi, hver fjöl notuð til hins ýtrasta, góður forn viður fluttur á milli bæja ogjafnvel héraða og notaður aftur og aftur. Þessar fjórar fjalir eru vafalaust úr þili, sem á hefur verið skorin helgimynd með mannamyndum og skrautverki, og hefur síðan allt þilið verið málað. Á þeirri fjöl sem hér er sýn er helgur maður með geislabaug, trúlega Kristur (sjá mynd 8). Skrautverkið sýnir hreinræktaðan Hringaríkisstíl, sem ríkjandi var á Norðurlöndum og á Englandi á 11. öld, einkum á fyrri hluta 11. aldar, í lok víkingaaldar. Stíllinn er vel þekktur á rúnasteinum en lítið hefur varðveist af slíkum skurði í tré. Menn eru yfirleitt sammála um að slík helgimynd hafi prýtt stóra kirkju og þá helst fyrstu dómkirkjuna á Hólum. Hver svo sem útskurðarmeistarinn hefur verið má færa rök fyrir því að hér séum við með í höndunum eina elstu útskornu kirkjumynd af helgum mönnum sem varðveist hefur á Norðurslóðum.

Mynd 9. Útskorin mynd af Maríu guðsmóður, hluti af dómsdagsmyndinni stóru sem kennd hefur verið við Bjarnastaðarhlíð. Ljósmynd: Þjóðminjasafn Íslands, Ívar Brynjólfsson
Þá er að geta hinna miklu dómsdagsmyndar sem fræðimenn telja nú að hafi einnig prýtt eina af fyrstu kirkjunum á Hólum. Varðveist hafa 13 fjalir eða myndbútar, sem lengi ollu mönnum heilabrotum. Þeir komu til Þjóðminjasafnsins frá Bjarnastaðahlíð í Skagafirði 1924 og voru þar síðast í árefti á skemmu. Selma Jónsdóttir færði rök fyrir því í doktorsriti sínu árið 1961 að fjalirnar væru hluti af stórri býsanskri dómsdagsmynd. Hún taldi að myndin hefði upprunalega verið í sögufrægu skála Þórðar hreðu í Skagafirði en þessa skála er oft getið í fornum heimildum. Kristján Eldjárn dró í efa að svo stór mynd, með þessu myndefni, hefði verið í veraldlegum skála og taldi trúlegra að hún hefði upphaflega verið í stórri kirkju og þá helst dómkirkjunni á Hólum. Hörður Ágústsson skrifaði síðar heila bók um þessar og fleiri útskornar fjalir, Dómsdagur og helgir menn á Hólum, þar sem hann færir rök fyrir því að þessi stóra dómsdagsmynd, níu metra breið og rúmir tveir metrar á hæð, hafi prýtt dómkirkju Jóns helga Ögmundssonar á Hólum í upphafi 12. aldar. Fyrirmyndin vefst enn fyrir mönnum en hér er ekki rúm til þess að fara nánar út í rök manna um það efni. Býsanskar dómsdagsmyndir eru í nokkrum veigamiklum atriðum öðruvísi en vestrænar. Fyrirmyndirnar eru ekki eingöngu að fá úr Biblíunni heldur og úr predikunum heilags Efraíms frá Sýrlandi. Örfáar slíkar býsanskar myndir hafa varðveist í Vestur-Evrópu, ein sú heillegasta er stór mósaíkmynd í kirkjunni í Torcello, á eyju rétt utan við Feneyjar. Aðeins hefur varðveist neðri hluti íslensku myndarinnar og ef myndhlutarnir eru bornir saman við Torcello-myndina falla þeir sæmilega inn í myndheildina. Í stórum dráttum má segja að fyrir miðju tróni Kristur í miklum geislabaugi. Hinir fordæmdu eru hægra megin á myndinni en hinir útvöldu vinstra megin. Hægra megin blása tveir englar í langa lúðra og boða dómsdag. Meðal hinna útvöldu vinstra megin er dregin mynd af konu, sem menn vilja túlka sem Maríu guðsmóður, og þá elstu útskornu Maríumynd sem varðveist hefur á Norðurlöndum (sjá mynd 9).

Mynd 10. Kirkjuhurð frá Valþjófsstað. Ljósmynd: Þjóðminjasafn Íslands, Ívar Brynjólfsson
Sá gripur sem við Íslendingar erum hvað stoltastir af er Valþjófsstaðarhurðin og er hún eitt glæsilegasta og þekktasta listaverk sem varðveist hefur frá miðöldum á Íslandi (sjá mynd 10). Hurðin mun upphaflega hafa prýtt stóra stafkirkju á Valþjófsstað í Fljótsdal um 1200 og verið þá þriðjungi hærri en dyrnar hafa verið lækkaðar þegar minni torfkirkja var reist á staðnum löngu eftir siðaskiptin. Hún var kirkjuhurð á Valþjófsstað fram til 1859, það er í yfir 650 ár. Á efri myndkringlunni er sögð sagan af riddaranum sem bjargar ljóni úr gini dreka, sýnd í þremur atriðum. Síðasta atriðið sýnir ljónið þar sem það liggur syrgjandi á gröf riddarans. Kross er á leiðinu og lítil kirkja í bakgrunni. Þessi kirkjumynd hefur verið til fyrirmyndar þegar menn endurgera fornar kirkjur nú á dögum, samanber Stangarkirkjuna hér áðan.
Mér hefur verið tíðrætt um timburkirkjur og tréskurð því eins og ég sagði í upphafi bendir allt til þess að það hafi verið það byggingarefni sem hér var helst notað fram eftir öldum. Fáeinar undantekningar virðast þó hafa verið í þeim efnum.
Forvitnilegasta má telja myndsteina tvo sem varðveist hafa ofan úr Hítardal.

Mynd 11. Myndsteinn úr Hítardal, nú í Þjóðminjasafni Íslands. Ljósmynd: Þjóðminjasafn Íslands, Ívar Brynjólfsson
Önnur höggmyndin er annaðhvort sködduð eða ófullgerð (sjá mynd 11). En hún sýnir ungan mann afhenda manni í hásæti eitthvert verk. Það minnir á atburðinn í vor er ritstjóri afhenti forseta Alþingis kristnisöguna fullbúna. Slíkar afhendingarmyndir sér maður oft, bæði í handritum og á máluðum eða úthoggnum gripum frá fyrri öldum — sem sýnir að hefðin er rík í öllu okkar ferli.
Mynd 12. Myndsteinn í hlaðinu í Hítardal. Ljósmynd: Þóra Kristjánsdóttir
Hinn steinninn er reyndar enn á bæjarhlaðinu í Hítardal (sjá mynd 12). Að öllum líkindum eru þetta leifar kirkjulegra höggmynda úr miðaldakirkju. Eins og kunnugt er á Hítardalur langa og merka sögu. Þar var fyrrum kirkjustaður og prestssetur í margar aldir. Þar var eitt mesta manntjón í eldsvoða sem um getur er Magnús Einarsson Skálholtsbiskup brann inni 30. september 1148 ásamt um 70 mönnum. Tveimur áratugum síðar vígði Klængur Skálholtsbiskup klaustur í Hítardal til minningar um Magnús biskup að talið er. Klaustrið stóð ekki lengi. Um aldamótin 1200 er staðurinn setinn leikmanni, Þorláki Ketilssyni, mági Páls biskups í Skálholti, en klaustur fyrirfinnst ekkert. Það getur varla verið tilviljun að merkustu minjar úr steini, sem varðveist hafa frá miðöldum, eru þessir steinar og svo steinkista Páls biskups í Skálholti sem lést 1211. Þetta er eitt af mörgum rannsóknarefnum sem eftir er að kanna miklu betur og gætu fornleifarannsóknir í Hítardal vafalaust varpað einhverju ljósi á þessar steinsmíðar.

Mynd 13. Altarisbrík frá Ögurkirkju við Ísafjarðardjúp. Ljósmynd: Þjóðminjasafn Íslands, Ívar Brynjólfsson
Ég hef lagt áherslu á það sem talið er varðveitt af íslenskri kirkjulist frá fyrstu öldum. En fyrir okkur er ekki síður áhugaverður sá mikli fjársjóður sem varð veist hefur af erlendum kirkjugripum, einkum frá því fyrir siðaskiptin. Íslenska kirkjan fyrir siðaskipti var meiður af hinni miklu og ríku kaþólsku kirkju. Og það fer ekki fram hjá þeim sem skoða gripi frá fyrri öldum að mikill munur er á yfirbragði þeirra kaþólsku og þeirra sem kirkjurnar eignuðust eftir siðaskiptin. Ljósast varð þetta þegar skoðaðar voru kirkjudeildir Þjóðminjasafnsins. Þar kom kaþólska kirkjan manni fyrir sjónir sem alþjóðleg og rík með tengsl við helstu menningarsetur Evrópu. Í safninu er að finna glæsta gripi frá bestu verkstæðum álfunnar, dýrmætt kirkjusilfur, skírnarföt, altariskrossa, alabastursbríkur frá Englandi og dýrlingamyndir af ýmsu tagi. Altarisbríkin frá Ögri við Ísafjarðardjúp var gefin af Birni Guðnasyni ríka í upphafi 16. aldar eða af tengdasyni hans Eggert Hannessyni hirðstjóra. Bríkin er talin niðurlensk frá því um 1510 (sjá mynd 13). Hún sýnir Guð alföður, Jesú Krist og postulana tólf. Undurfagurt málverk er á vængjunum: María mey móðir skær með jesúbarnið.
Það er forvitnilegt að skoða þessa gripi og sjá hve mikið samband Íslendingar hafa átt við menningarmiðstöðvar í Evrópu. Þessir fágætu gripir og dýrlingamyndir hafa varðveist hér ótrúlega vel og verið í kirkjunum lengst af þrátt fyrir að myndefnið hafi oft ekki fallið að trúarkenningum siðaskiptamanna.
III. Íslenskir listamenn koma fram í dagsljósið
Í lúthersku deildinni í Þjóðminjasafninu er allt annað upp á teningnum. Þar fá gestir þau skilaboð að kirkjan á Íslandi hafi breyst frá því að vera meiður af ríkri alþjóðlegri kirkju í það að verða fátæk innlend kirkja háð veraldlegu valdi úti í Danmörku. En vissulega er þetta merkilegt og áhugavert tímabil í íslenskri menningarsögu, m.a. vegna þess að eftir siðaskiptin koma fram nafngreindir höfundar listaverkanna. Allir þeir sem við höfum getað nafngreint frá fyrstu öldum eftir siðaskipti eru íslenskir.
Og þá varð breyting á búnaði kirknanna og myndlistinni. Hliðarölturu urðu að víkja og þá dýrlingarnir af stöllum sínum. Háaltarið varð eitt eftir, með einni altaristöflu yfir. Algengasta myndefnið var kvöldmáltíð Krists og lærisveinanna til að minna á og kenna hvað gerist þegar söfnuðurinn tekur á móti altarissakramentinu. Predikunarstóllinn fékk og meira vægi því nú er það hið talaða orð, predikunin, sem verður megininntak messunnar. Predikunarstólar eru langoftast með myndum af guðspjallamönnunum fjórum – boðskapurinn er jú frá þeim.
Ákaflega forvitnilegur predikunarstóll hefur varðveist frá Bæ á Rauðasandi, smíðaður og málaður árið 1617 af Jóni Greipssyni fyrir Björn Magnússon bónda og sýslumann á Bæ (sjá mynd 14). Það sem er svo merkilegt við þennan predikunarstól er að guðspjallamennirnir og María og Jóhannes, er standa við kross Krists, eru öll klædd að hætti íslenskra manna frá þessum tíma. Guðspjallamennirnir eru í klæðum lútherskra kirkjunnar manna og María er klædd eins og íslensk sveitastúlka. Þetta er einsdæmi meðal kirkjugripa frá fyrri öldum.
Mynd 14. Myndheimur Jóns Greipssonar frá 1617. Ljósmynd: Þjóðminjasafn Íslands, Ívar Brynjólfsson
Annar predikunarstóll er frá Bræðratungukirkju, málaður á mjög svipuðum tíma, en þar sjáum við hefðbundnar myndir af guðspjallamönnunum (sjá mynd 14). Þetta eru fínlegar myndir, enda málaðar af Birni Grímssyni málara fyrir Gísla Hákonarson sýslumann í Bræðratungu — en Björn mun hafa forframast og lært til verks í Hamborg um aldamótin 1600. Björn er þekktastur fyrir nokkur frábærlega lýst Jónsbókarkver.
Mynd 15. Útskorin beinspjöld úr Skarðskirkju á landi. Ljósmynd: Þjóðminjasafn Íslands (skjáskot)
Beinspjöld frá Skarðskirkju á Landi með fínlega skornum myndum úr lífi og starfi Krists eru eftir Brynjólf Jónsson bónda og lögréttumann, er bjó í Skarði um aldamótin 1600 (sjá mynd 15). Hér sjáum við fæðingu Jesú í fjárhúsinu í Betlehem. Þetta er aðeins lítil hluti af þeim fágætu hvalbeinsskreytingum sem voru í Skarðskirkju í fjórar aldir og hafa frætt söfnuðinn um myndheim Biblíunnar.
Afkastamiklir listamenn á 17. og 18. öld voru Guðmundur Guðmundsson, kenndur við Bjarnastaðahlíð í Skagafirði, séra Hjalti Þorsteinsson prófastur í Vatnsfirði, Ámundi Jónsson snikkari á Suðurlandi og feðgarnir Hallgrímur Jónsson bóndi og listamaður og Jón málari sonur hans, ættaðir héðan úr Eyjafirði.

Mynd 16. altaristafla eftir Jón Halllgrímsson málara. Ljósmynd: Þjóðminjasafn Íslands
Jón forframaðist í útlöndum og prýddi margar kirkjur á Norðurlandi með altaristöflum, predikunarstólum og fleiri gripum. Altaristöflur eftir Jón eru enn í fáeinum kirkjum hér á Norðurlandi, m.a. í gömlu kirkjunni frá Svalbarði sem er nú hluti af Minjasafninu á Akureyri. Flestar altaristöflur sem varðveist hafa eftir Jón sýna síðustu kvöldmáltíð Krists. Kristur situr við dúkað borð með lærisveinunum tólf í stórum sal (sjá mynd 16). Jóhannes, sá sem Jesú elskaði, hallar sér að Jesú. Jóhannes er ljóshærður, skegglaus og unglingslegur, en þannig er honum oftast lýst. Jesús hefur sagt: „einn af yður mun svíkja mig.” Júdas stendur hugsi og hlustar. Hann sá um fjársjóð lærisveinanna og er því oftast sýndur með peningapyngju. Jón málari auðkennir hann enn fremur með því að láta hárið mynda eins konar horn á höfði hans. Hér sjáum við því svikarann Júdas. Í forgrunni eys lærisveinn víni úr stóru keraldi. Kristur réttir Jóhannesi vínkaleikinn og segir: „Drekkið allir hér af. Þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans, úthellt fyrir marga til fyrirgefningar synda.”
Ég hef gert sérstaka úttekt á þessu tímabili frá siðaskiptum og fram á 19. öld, og niðurstaða könnunar minnar varð sú að kirkjan hafi haldið áfram að vera helsti hvati listsköpunar í landinu, jafnt eftir siðaskipti sem fyrir þau. Við bættist að höfðingjar efldust í skjóli konungsvaldsins og urðu margir miklir stuðningsmenn lista á 16., 17. og 18. öld. Það sem varðveist hefur frá veraldlegum höfðingjum eru einkum minningartöflur og aðrir gripir úr kirkjum.

Mynd 17. Myndir predikunarstól í Kirkjubæ í Hróarstungu. Ljósmynd: Ólafur Ingi Jónsson
Að sjálfsögðu eru þetta ekki eingöngu íslenskir gripir. Hér skal nefnt dæmi: Í Kirkjubæ í Hróarstungu er forvitnilegur predikunarstóll með myndum af dönsku konungshjónunum Friðriki öðrum og Soffíu af Mecklenburg, konu hans (sjá mynd 17). Friðrik dó árið 1588. Stóllinn hlýtur að vera gerður talsvert fyrir þann tíma og er því líklega elsti predikunarstóllinn á landinu. Stóll Guðbrands biskups Þorlákssonar úr Hóladómkirkju er með ártalinu 1594. Þessir tveir predikunarstólar eru þeir elstu sem hægt er að tímasetja hér á landi.
Eftir siðaskiptin fjölgar minningartöflum og mannamyndum í kirkjunum. Höfðingjar fyrri tíma hafa vitað sem er að þannig er vænlegast að komast á spjöld sögunnar. Varðveist hafa bæði myndir af veraldlegum höfðingjum, og kirkjunnar mönnum. Þekktust er trúlega minningartaflan um Gísla Þorláksson biskup og konurnar hans þrjár. Ragnheiður Jónsdóttir, síðasta kona hans, lét gera þá töflu í Kaupmannahöfn í lok 17. aldar til þess að vera í Hóladómkirkju.

Mynd 18. Fjölskylda Magnúsar Jónssonar prúða sýslumanns. Ljósmynd: Þjóðminjasafn Íslands
Dæmi um kirkjumálverk af fjölskyldu veraldlegra höfðingja er minningartafla um Magnús Jónsson prúða sýslumann og Ragnheiði Eggertsdóttur konu hans og öll börn þeirra (sjá mynd 18). Magnús lést seint á 16. öld en myndin gæti verið máluð eftir dauða hans fyrir einhvern afkomanda hans. Myndin hékk síðast í Hagakirkju á Barðaströnd en er nú komin á Þjóðminjasafnið.

Mynd 19. Séra Halldór Jónsson á Stað í Grunnavík. Ljósmynd: Jón Ögmundur Þormóðsson
Í kirkjunni á Stað í Grunnavík er enn stórmerkur predikunarstóll með erlendum málverkum, aðallega frásögum úr Biblíunni. En næst kórnum er forvitnileg mynd af presti fyrir framan altarið (sjá mynd 19). Þetta er málverk af séra Halldóri Jónssyni sem þjónaði Stað í Grunnavík á 17. öld. Hann var lengi í þjónustu Brynjólfs biskups í Skálholti og á meðal annars að hafa komið fyrir róðukrossi í Kaldaðarneskirkju að beiðni Brynjólfs í stað krossins helga sem tekinn var niður á umbrotatímum siðaskiptanna. Þetta er fágætt málverk því þetta er elsta myndin sem til er af íslenskum nafngreindum presti fyrir framan altarið í kirkju sinni.
Í lok 18. aldar verða enn breytingar á myndheimi kristninnar á Íslandi. Biskupsstólarnir berjast þá í bökkum og voru ekki lengur sú uppspretta listsköpunar sem fyrr. Áhugi og geta veraldlegra höfðingja að prýða kirkjur og híbýli listmunum virðist og hafa dvínað. Þetta helst í hendur við almennar þjóðfélagsbreytingar í landinu — listin er ekki einangrað fyrirbæri.
Á 19. öldinni virðist öll orka manna hafa beinst að sjálfstæðisbaráttunni. Þeir Íslendingar, sem höfðu leitað sér listmenntunar í útlöndum í lok 18. aldar, eins og séra Sæmundur Hólm og Gunnlaugur Briem, síðar sýslumaður, sneru við blaðinu og sinntu listinni lítið sem ekkert eftir heimkomuna. Og aðrir ílentust ytra. Um miðja 19. öld komu heim Sigurður málari Guðmundsson, Þorsteinn Guðmundsson frá Hlíð í Gnúpverjahreppi og séra Helgi Sigurðsson. Þeir voru allir í listnámi ytra um lengri eða skemmri tíma en minna varð úr listsköpun þeirra en efni stóðu til. Íslenskt samfélag var ekki tilbúið að taka á móti þeim og kirkjan var ekki lengur það afl sem hlúði að skapandi listamönnum.
Á þessum árum ber mest á innfluttum gripum í kirkjunum. Nýjar altaristöflur eru oftast fengnar frá Danmörku, ýmist frummyndir eða eftirmyndir eftir þekktum erlendum myndum. Danska altaristaflan sem kom í Dómkirkjuna 1848 varð eftirsótt fyrirmynd. Þeir máluðu eftir henni bæði Sigurður málari og Þórarinn B. Þorláksson. Tíu töflur eru til eftir Sigurð og þrjár eftir Þórarin.

Mynd 20. Kristur eftir Bertel Thorvaldsen. Ljósmynd: Kirkjublaðið.is
Kristur Thorvaldsens í Frúarkirkjunni í Kaupmannahöfn varð fyrirmynd margra málara í Evrópu á þessum tíma (sjá mynd 20). Sú mynd var til í ótal eftirgerðum hér á síðustu öld, bæði litlum og stórum, í kirkjum og inni á heimilum manna.
Danski málarinn Anker Lund varð vinsælastur meðal kirkjuyfirvalda um síðustu aldamót. Til eru altaristöflur eftir hann í að minnsta kosti 25 kirkjum hér á landi frá árunum 1888–1920. Hann, eins og fleiri samtímamenn hans, hafði Krist Thorvaldsen að fyrirmynd og málaði myndir er sýndu Jesú Krist meðal manna, kraftaverk hans og ýmsar sögur úr lífi hans.
IV. Lokaorð
Það er svo staðreynd að þegar frumkvöðlarnir, sem svo hafa verið nefndir, Einar Jónsson, Þórarinn B. Þorláksson, Ásgrímur Jónsson og Kjarval, komu heim frá útlöndum í upphafi 20. aldar var hér til vísir að borgaralegu samfélagi. Þeir komu til starfa á sama tíma og Reykvíkingar eignuðust sitt fyrsta leikhús og fyrstu hljómsveitirnar létu í sér heyra. Þeir stigu fram á sviðið þegar nútímamyndlist var að þróast og verða til úti í hinum stóra heimi. Þeir voru fyrstu myndlistarmennirnir sem störfuðu á Íslandi óháðir kirkjunni, þeir fyrstu í 900 ára sögu myndlistar í landinu. Þeir unnu þó allir eitthvað fyrir kirkjuna. Ekki mikið þegar litið er á lífsverk þeirra en þeir gerðu það samt.
Þeir eru fleiri íslenskir listamenn sem hafa málað fyrir kirkjurnar á 20. öldinni en hér verð ég að láta staðar numið. Það hefur, held ég, ekki staðið á listamönnunum þegar þeir hafa verið kallaðir til.
En listin er ævinlega endurspeglun samfélagsins og hinar öru breytingar í myndlist 20. aldar endurspegla ákveðinn aðskilnað kirkjunnar við myndlistina. Þetta á ekki bara við um íslenskt samfélag, þetta er að gerast úti um allan hinn vestræna heim. En það sem er alvarlegra er að Íslendingar eru ekki, almennt séð, meðvitaðir um þann fjársjóð sem þeir eiga frá fyrri tíð og skynja því ekki samhengi í sögunni. Í því mikla ritverki Kristni á Íslandi, sem hér er verið að fagna útgáfu af í dag, er gerð tilraun til þess að lýsa þeim myndheimi sem íslenska þjóðin hefur búið við í þúsund ár. Ég hef farið hér mjög hratt yfir sögu og sleppt mörgum mikilvægum þáttum, því miður. Tíminn leyfir ekki annað. En sjón er sögu ríkari í þessum bókum.
[1] Fyrirlesturinn var fluttur á Akureyri 15. apríl 2000.
Heimildir:
Björn Th. Björnsson. Íslenzk myndlist I. Reykjavík 1964.
Björn Th. Björnsson. „Myndlist á síðmiðöldum.“ Saga Íslands V. Reykjavík 1990.
Elsa E. Guðjónsson. Íslenskur útsaumur. Reykjavík 1985.
Guðbrandur Jónsson. Dómkirkjan á Hólum í Hjaltadal. Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmennta að fornu og nýju V. Reykjavík 1919.
Halldór Hermannsson. „Illuminated manuscripts of the Jónsbók.“ Islandica XXVIII, New York 1940.
Hjalti Hugason. „Kristni á Íslandi í 1000 ár.“ Gersemar. Sýningarskrá Þjóðminjasafnsins og Minjasafnsins á Akureyri 1999.
Hörður Ágústsson. Dómsdagur og helgir menn á Hólum, Reykjavík 1989.
Hörður Ágústsson. Skálholt. Kirkjur. Reykjavík 1990.
Jón Auðuns. Sigurður Guðmundsson málari. Reykjavík 1950.
Koch, Frederick Christiane. Isländer in Hamburg 1520–1662. Hamburg 1995.
Kristján Eldjárn. „Íslenskur barokkmeistari.“ Stakir steinar. Tólf minjaþættir. Akureyri 1961.
Kristján Eldjárn. Hundrað ár í Þjóðminjasafni. Reykjavík 1963.
Kristján Eldjárn og Hörður Ágústsson. Skálholt. Skrúði og áhöld. Reykjavík 1992.
Lilja Árnadóttir. „Anker Lund og altaristöflurnar hans á Íslandi.“ Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1982. Reykjavík 1983.
Magerøy, Ellen Marie. Planteornamentikken i islandsk treskurd I–II (Bibl. Arn. Supplementum. Vol V–VI), Kh. 1967.
Magnús Már Lárusson. Maríukirkja og Valþjófsstaðarhurð. Fróðleikspættir og sögubrot, Hafnarfirði 1967.
Matthías Þórðarson. Íslenzkir listamenn I–II. Reykjavík 1920 og 1925.
Matthías Þórðarson. Islands middelalderkunst. Nordisk kultur XXVII, Stockholm 1931.
Selma Jónsdóttir. Byzönsk dómsdagsmynd í Flatatungu. Reykjavík 1959.
F.B. Wallem. De islandske kirkers udstyr i middelalderen. Kristiania 1910.
Þóra Kristjánsdóttir. „Altar í Flatey.“ „Altaristafla eftir Ámunda smið.“ „Fornar minjar í Hítardal.“ „Gunnlaugur Briem.“ „Helgir menn í Jökuldal.“ „Kistill úr eigu Sigurðar málara.“ Gersemar og þarfaþing. Reykjavík 1994.
Þóra Kristjánsdóttir (1939-2024), kirkjulistfræðingur – mynd: Morgunblaðið
Greinin „Myndheimur íslenskrar kristni,“ eftir Þóru Kristjánsdóttur (1939-2024), kirkjulistfræðing er sérstaklega skilmerkilegt og gagnyrt yfirlit yfir íslenska kirkjulistasögu. Segja má að grein þessi sé skyldulesning fyrir öll þau sem láta sig menningu, sögu og kirkju, varða.
Greinin er fyrirlestur sem Þóra flutti á útgáfumálþingi á Akureyri árið 2000 og birtist styttur í sérstakri bók 2001 sem bar sama heiti og hin nýja kristnisaga, „Kristni á Íslandi,“ en þingið var haldið í tilefni útgáfu hennar.
Mikilvægt er að góðar greinar og vandaðar megi einnig finna á netinu en ekki aðeins í bók sem kannski fáir vita um. Birting þessarar greinar Þóru er liður í því að koma greininni fyrir augu sem flestra.
Kirkjublaðið.is þakkar Alþingi fyrir leyfi til að birta erindið en hjá því lá útgáfurétturinn. Þær Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri Alþingis, og Halldóra Viðarsdóttir, sérfræðingur, höfðu þar milligöngu um. Eiginmaður Þóru heitinnar, dr. Sveinn Einarsson, fyrrv. Þjóðleikhússtjóri, gaf leyfi fyrir sitt leyti til að birta erindið og er þakkað fyrir það. Ívari Brynjólfssyni, ljósmyndara hjá Þjóðminjasafninu, er þakkað fyrir lipurð við öflun mynda sem birtust með greininni á sínum tíma og flestar þeirra hefur hann tekið. Þá er Arnari Má Brynjarssyni, tölvunarfræðingi, þökkuð margháttuð tæknileg aðstoð við m.a. innskönnun erindisins úr bókinni, „Kristni á Íslandi,“ en textinn var ekki til í tölvutæku formi.
I. Inngangur
Hver er myndheimur íslenskrar kristni nú þegar við minnumst þúsund ára sambúðar kristni og þjóða? Er myndheimurinn í einhverju frábrugðinn myndheimi nágrannalandanna?

Mynd 1: Hallgrímskirkja í Reykjavík – ljósmynd: Kirkjublaðið.is
Þessari síðari spurningu er hægt að svara játandi. Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að myndheimur kristni á Íslandi nú á dögum sé mun einhæfari og í raun fátæklegri en víðast hvar annars staðar í hinum vestræna heimi. Þær kirkjur sem reistar hafa verið hér á landi á síðustu árum og áratugum eru vissulega reistar af metnaði af áhugasömum söfnuðum vítt og breitt um landið og eru flestar hverjar með öflugt safnaðarstarf og því mótandi um myndheim kristni á Íslandi. En í flestum tilvikum hafa kirkjusmiðirnir fylgt helstu straumum og stefnum í byggingarlist samtímans og í hálfa öld er það einfaldleikinn sem hefur ráðið ríkjum og er tískuorðið. Íslendingar virðast upp til hópa lifa aðeins í samtímanum. Við sjáum bara og skynjum samtímann. Í okkar daglega lífi er ákaflega fátt sem minnir á eitthvert samhengi í sögunni og myndheimur fyrri kynslóða virðist flestum núlifandi Íslendingum framandi (sjá mynd 1).
Í útlöndum er þessu öðruvísi farið. Þar eru víðast hvar kirkjur, stórar og smáar, kastalar, jafnvel klaustur og aðrar opinberar byggingar sem eiga uppruna sinn að rekja til miðalda og myndheimur fyrri kynslóða því samofinn og hluti af samtímanum.
Hvað vitum við um myndir og listir á Íslandi fyrr á öldum? Er það ekki ákaflega lítið? Hér er kennt að íslensk myndlist hafi ekki orðið til fyrr en um aldamótin 1900 með frumkvöðlunum svonefndu, Einari Jónssyni myndhöggvara og málurum Þórarni B. Þorlákssyni, Ásgrími Jónssyni og Jóhannes Sveinssyni Kjarval. En svo er reyndar alls ekki. Þessir menn fæddust að vísu inn í öld breytinga á íslensku þjóðlífi, öld sjálfstæðisbaráttunnar og vaknandi vitundar þjóðarinnar um eigin borgarmenningu. Þeim tókst að hasla sér völl sem skapandi myndlistarmenn, fengu meira að segja hús reist yfir verk sín, sumir hverjir. Hnitbjörg, hin sérstæða og veglega bygging Einars Jónssonar á Skólavörðuholtinu, er fyrsta húsið sem reist er á Íslandi sérstaklega fyrir og yfir myndlist, fullbyggt og opnað almenningi árið 1923.
Þetta er athyglisvert frá mörgum sjónarhornum séð því að í rúm 900 ár voru það kirkjurnar sem hýstu listina á Íslandi. Kirkjan var í senn helsti viðskiptavinur listamannanna og um leið eini opinberi staðurinn þar sem menn gátu séð og notið listar.
II. Arfur frá hinni voldugu alþjóðlegu kirkju
Þegar við rýnum í listasögu fyrri alda hér á Íslandi kemur í ljós að nærri allt sem varðveist hefur af myndverkum er úr kirkjum eða frá kirkjunnar mönnum. Auðvitað hafa varðveisluskilyrðin haft sitt að segja. Kirkjurnar varðveittu listgripi betur en heimili manna. En ég vil leyfa mér að fullyrða hér að listsköpun á Íslandi, og þá á ég fyrst og fremst við það sem ég vil kalla myndlist, hafi verið samofin kristni í landinu og kirkjunni sem stofnun í nær 900 ár. Meira að segja útsaumur heimilanna, rúmábreiður og reflar, svo og myndskurður á húsbúnaði var iðulega með kristnum minnum.
Dr. Hjalti Hugason lýsir áhrifum kristninnar á Íslendinga á mjög einfaldan og skýran hátt á einum stað er hann segir:
„Kristnitakan hafði áhrif bæði á innan ríkis- og utanríkismál þegar hún er skoðuð í ljósi stjórnmálanna. Ef til vill fæst þá raunhæfari mynd af henni með því að meta hana út frá sjónarhorni menningarinnar. Frá þeim bæjardyrum séð merkir hún að Íslendingar urðu Evrópumenn í nútímamerkingu þess orðs.“

Mynd 2: Tábagall sem fannst á Þingvöllum árið 1957. Ljósmynd Þjóðminjasafn Íslands
Og það er einmitt það sem gerðist á Íslandi fyrir þúsund árum. Menn fóru fljótt að reisa kirkjur og búa þær helgum gripum og myndum og sóttu fyrirmyndirnar eftir krókaleiðum alla leið til Miðjarðarhafslanda. Kirkjurnar risu sem kristin tákn í náttúru landsins og innan dyra urðu menn fyrir myndrænni upplifun af boðskap Biblíunnar.
En hvar eru þá elstu sjáanlegu, áþreifanlegu sporin eftir kristið samfélag á Íslandi? Á Þingvöllum þar sem hin merkilega samþykkt var gerð fyrir þúsund árum sjást engin spor. En hin sérstæða fegurð staðarins, Almannagjá, vellirnir og fjallahringurinn, fylla flesta sem koma á staðinn lotningu er þeir þekkja söguna. Og þar fannst ekki fyrir mjög mörgum árum, lítill gripur, biskupsbagall, eða húnninn af einum slíkum, með gröfnum dýramyndum, tímasettur frá því um 1100 (sjá mynd 2). Þegar svona gripur finnst, í túninu á Þingvöllum, opnast í einu vetfangi sýn til fyrri tíma. Með því að fylla upp í myndina með fróðleik úr bókum og með því að skoða fleiri varðveitta gripi verður myndin skýrari fyrir þá sem setja sig í þessar ákveðnu stellingar og hugleiða fortíðina.
Fornar kirkjurústir hafa á síðustu áratugum verið grafnar fram á nokkrum stöðum. Ein sú elsta sem rannsökuð hefur verið er á Stöng í Þjórsárdal. Kirkjan hefur verið örlítil, rúmir 3 metrar á lengd og tæpir 3 á breidd, auk kórs sem er um það bil einn og hálfur metri á kant. Rústin er vel geymd í jörðinni á Stöng en nú í vetur var reist eftirgerð Stangarkirkju neðar í dalnum, við þjóðveldisbæinn svokallaða í Þjórsárdal (sjá mynd 3). Langflestar þeirra kirkna sem hér risu um og eftir árið 1000 hafa verið líkar Stangarkirkjunni, þ.e. Litlar heimiliskirkjur.

Mynd 3: Bænhús við Þjóðveldisbæinn í Þjórsárdal. Ljósmynd: Þjóðveldisbærinn
En svo fóru menn að reisa stórar kirkjur, einkum á biskupsstólunum. Miðaldadómkirkjurnar voru einhverjar stærstu timburkirkjur sem sögur fara af. Við vorum ein þjóða sem reistu dómkirkjur okkar úr timbri og er það hluti skýringarinnar. Mest er vitað um síðustu miðaldakirkjurnar á biskupsstólunum. Hóladómkirkja var 50 metra löng og Skálholtskirkja aðeins stærri. Stoðir sem báru upp framkirkjuna á Hólum voru 8 metra háar og að þvermáli nærri metri. Þetta voru nærri helmingi stærri kirkjur en sú sem er í Skálholti í dag.
Þessar risastóru kirkjur voru hlaðnar dýrgripum og listaverkum. Árið 1525, þ.e. þegar Jón Arason tók við biskupsstólunum, voru í Hólakirkju á sjötta hundrað listgripa. Örlítið brot af öllum þessum dýrgripum hefur varðveist fram á þennan dag en þekktustu varðveittu gripirnir eru þeir sem Jón lagði sjálfur til á sínum tíma, þ.e. altarisbríkin stóra sem er enn í Hóladómkirkju og Hólaklæðið með dýrlingunum íslensku, Þorláki helga, Jóni helga og Guðmundi góða (sjá mynd 4).

Mynd 4. Altarisklæði úr Hóladómkirkju með myndum af íslensku biskupunum Guðmundi Arasyni, Jóni Ögmundssyn og Þorláki Þórhallssyni. Ljósmynd: Þjóðminjasafn Íslands, Ívar Brynjólfsson
Biskupskápa Jóns Arasonar, sem notuð var fram á síðustu öld, er nú í Þjóðminjasafninu. Þar er varðveitt merkilegt safn kirkjugripa frá fyrri tíð sem vitnar í senn um hagleik Íslendinga og listrænan metnað, svo og um viðskipti Íslendinga við helstu listamiðstöðvar í Evrópu.
Mynd 5. Kristsmynd frá Ufsum í Svarfaðardal. Ljósmynd: Þjóðminjasafn Íslands, Ívar Brynjólfsson
Margt af því sem menn telja merkilegast í safninu er einmitt úr kirkjum hér við Eyjafjörð.[1] Elstu gripirnir eru útskornir gripir eins og Ufsakristur, kenndur við kirkjuna á Ufsum í Svarfaðardal, þar sem hann hékk yfir kórdyrum fram að aldamótunum síðustu. Þá fauk kirkjan og voru gömlu gripir hennar, er þóttu orðnir úreltir, seldir safninu. Þar sjáum við Krist konung, hinn sigrandi höfðingja frumkristninnar (sjá mynd 5). Hann ber kórónu á höfði sér og stendur teinréttur með báða fætur á fótstalli. Líkneskið hefur verið málað, það vottar fyrir málningu á stöku stað. Krossinn er löngu glataður. Líkneskið er í rómönskum stíl, talið vera frá fyrstu öld kristni í landinu. Þessi rólegi, yfirvegaði, en um leið upphafni Kristur, er úr birki og vafalaust skorinn út hér á landi. Ufsakristur er ólíkur þeim gotnesku, sveigðu kristsmyndum sem á eftir komu og sýna hinn þjáða Krist á krossinum.
Húsavíkurkristur er líka skorinn út úr birki, en hér sjáum við mannssoninn, er þoldi píslir og lét lífið fyrir syndir mannanna (sjá mynd 6). Á krossinum eru útskorin laufblöð á endunum, tákn þess að krossinn er lífsins tré. Neðst á krossinum er mannshöfuð. Það hefur verið túlkað að eigi að tákna Adam sem Kristur leysti frá syndum sínum.
Varðveist hafa útskornar viðarþiljur og stoðir sem bera vott um glæstar byggingar hér snemma á öldum (sjá mynd 7). Elstar eru taldar fornar viðarþiljur kenndar við Möðrufell hér frammi í firði. Útskurðurinn er með stílsvip frá lokaskeiði víkingaaldar. Á síðustu árum hafa fundist fleiri fjalir hér í sveit með svipuðum útskurði, samtals 70 til viðbótar. Lengi var talið að þessar þiljur væru úr fornum veraldlegum skála en nú eru menn á því að þetta séu leifar af viðum úr fornum timburkirkjum frá miðri 11. öld, og því elstu skreyttu kirkjuviðir sem varðveist hafa á Norðurlöndum.

Mynd 7. Útskornar þiljur frá Möðrufelli. Ljósmynd: Þjóðminjasafn Íslands, Ívar Brynjólfsson

Mynd 8. Helgur maður, hluti af svonefndum Flatatungufjölum. Ljósmynd: Þjóðminjasafn Íslands, Ívar Brynjólfsson
Aðrar viðarþiljur eru kenndar við Flatatungu í Skagafirði því þær voru síðast notaðar þar í gamla torfbænum sem rifinn var 1952. Varðveisla þeirra og geymd sýnir hversu dýrmætur allur byggingarviður hefur löngum verið á Íslandi, hver fjöl notuð til hins ýtrasta, góður forn viður fluttur á milli bæja ogjafnvel héraða og notaður aftur og aftur. Þessar fjórar fjalir eru vafalaust úr þili, sem á hefur verið skorin helgimynd með mannamyndum og skrautverki, og hefur síðan allt þilið verið málað. Á þeirri fjöl sem hér er sýn er helgur maður með geislabaug, trúlega Kristur (sjá mynd 8). Skrautverkið sýnir hreinræktaðan Hringaríkisstíl, sem ríkjandi var á Norðurlöndum og á Englandi á 11. öld, einkum á fyrri hluta 11. aldar, í lok víkingaaldar. Stíllinn er vel þekktur á rúnasteinum en lítið hefur varðveist af slíkum skurði í tré. Menn eru yfirleitt sammála um að slík helgimynd hafi prýtt stóra kirkju og þá helst fyrstu dómkirkjuna á Hólum. Hver svo sem útskurðarmeistarinn hefur verið má færa rök fyrir því að hér séum við með í höndunum eina elstu útskornu kirkjumynd af helgum mönnum sem varðveist hefur á Norðurslóðum.

Mynd 9. Útskorin mynd af Maríu guðsmóður, hluti af dómsdagsmyndinni stóru sem kennd hefur verið við Bjarnastaðarhlíð. Ljósmynd: Þjóðminjasafn Íslands, Ívar Brynjólfsson
Þá er að geta hinna miklu dómsdagsmyndar sem fræðimenn telja nú að hafi einnig prýtt eina af fyrstu kirkjunum á Hólum. Varðveist hafa 13 fjalir eða myndbútar, sem lengi ollu mönnum heilabrotum. Þeir komu til Þjóðminjasafnsins frá Bjarnastaðahlíð í Skagafirði 1924 og voru þar síðast í árefti á skemmu. Selma Jónsdóttir færði rök fyrir því í doktorsriti sínu árið 1961 að fjalirnar væru hluti af stórri býsanskri dómsdagsmynd. Hún taldi að myndin hefði upprunalega verið í sögufrægu skála Þórðar hreðu í Skagafirði en þessa skála er oft getið í fornum heimildum. Kristján Eldjárn dró í efa að svo stór mynd, með þessu myndefni, hefði verið í veraldlegum skála og taldi trúlegra að hún hefði upphaflega verið í stórri kirkju og þá helst dómkirkjunni á Hólum. Hörður Ágústsson skrifaði síðar heila bók um þessar og fleiri útskornar fjalir, Dómsdagur og helgir menn á Hólum, þar sem hann færir rök fyrir því að þessi stóra dómsdagsmynd, níu metra breið og rúmir tveir metrar á hæð, hafi prýtt dómkirkju Jóns helga Ögmundssonar á Hólum í upphafi 12. aldar. Fyrirmyndin vefst enn fyrir mönnum en hér er ekki rúm til þess að fara nánar út í rök manna um það efni. Býsanskar dómsdagsmyndir eru í nokkrum veigamiklum atriðum öðruvísi en vestrænar. Fyrirmyndirnar eru ekki eingöngu að fá úr Biblíunni heldur og úr predikunum heilags Efraíms frá Sýrlandi. Örfáar slíkar býsanskar myndir hafa varðveist í Vestur-Evrópu, ein sú heillegasta er stór mósaíkmynd í kirkjunni í Torcello, á eyju rétt utan við Feneyjar. Aðeins hefur varðveist neðri hluti íslensku myndarinnar og ef myndhlutarnir eru bornir saman við Torcello-myndina falla þeir sæmilega inn í myndheildina. Í stórum dráttum má segja að fyrir miðju tróni Kristur í miklum geislabaugi. Hinir fordæmdu eru hægra megin á myndinni en hinir útvöldu vinstra megin. Hægra megin blása tveir englar í langa lúðra og boða dómsdag. Meðal hinna útvöldu vinstra megin er dregin mynd af konu, sem menn vilja túlka sem Maríu guðsmóður, og þá elstu útskornu Maríumynd sem varðveist hefur á Norðurlöndum (sjá mynd 9).

Mynd 10. Kirkjuhurð frá Valþjófsstað. Ljósmynd: Þjóðminjasafn Íslands, Ívar Brynjólfsson
Sá gripur sem við Íslendingar erum hvað stoltastir af er Valþjófsstaðarhurðin og er hún eitt glæsilegasta og þekktasta listaverk sem varðveist hefur frá miðöldum á Íslandi (sjá mynd 10). Hurðin mun upphaflega hafa prýtt stóra stafkirkju á Valþjófsstað í Fljótsdal um 1200 og verið þá þriðjungi hærri en dyrnar hafa verið lækkaðar þegar minni torfkirkja var reist á staðnum löngu eftir siðaskiptin. Hún var kirkjuhurð á Valþjófsstað fram til 1859, það er í yfir 650 ár. Á efri myndkringlunni er sögð sagan af riddaranum sem bjargar ljóni úr gini dreka, sýnd í þremur atriðum. Síðasta atriðið sýnir ljónið þar sem það liggur syrgjandi á gröf riddarans. Kross er á leiðinu og lítil kirkja í bakgrunni. Þessi kirkjumynd hefur verið til fyrirmyndar þegar menn endurgera fornar kirkjur nú á dögum, samanber Stangarkirkjuna hér áðan.
Mér hefur verið tíðrætt um timburkirkjur og tréskurð því eins og ég sagði í upphafi bendir allt til þess að það hafi verið það byggingarefni sem hér var helst notað fram eftir öldum. Fáeinar undantekningar virðast þó hafa verið í þeim efnum.
Forvitnilegasta má telja myndsteina tvo sem varðveist hafa ofan úr Hítardal.

Mynd 11. Myndsteinn úr Hítardal, nú í Þjóðminjasafni Íslands. Ljósmynd: Þjóðminjasafn Íslands, Ívar Brynjólfsson
Önnur höggmyndin er annaðhvort sködduð eða ófullgerð (sjá mynd 11). En hún sýnir ungan mann afhenda manni í hásæti eitthvert verk. Það minnir á atburðinn í vor er ritstjóri afhenti forseta Alþingis kristnisöguna fullbúna. Slíkar afhendingarmyndir sér maður oft, bæði í handritum og á máluðum eða úthoggnum gripum frá fyrri öldum — sem sýnir að hefðin er rík í öllu okkar ferli.
Mynd 12. Myndsteinn í hlaðinu í Hítardal. Ljósmynd: Þóra Kristjánsdóttir
Hinn steinninn er reyndar enn á bæjarhlaðinu í Hítardal (sjá mynd 12). Að öllum líkindum eru þetta leifar kirkjulegra höggmynda úr miðaldakirkju. Eins og kunnugt er á Hítardalur langa og merka sögu. Þar var fyrrum kirkjustaður og prestssetur í margar aldir. Þar var eitt mesta manntjón í eldsvoða sem um getur er Magnús Einarsson Skálholtsbiskup brann inni 30. september 1148 ásamt um 70 mönnum. Tveimur áratugum síðar vígði Klængur Skálholtsbiskup klaustur í Hítardal til minningar um Magnús biskup að talið er. Klaustrið stóð ekki lengi. Um aldamótin 1200 er staðurinn setinn leikmanni, Þorláki Ketilssyni, mági Páls biskups í Skálholti, en klaustur fyrirfinnst ekkert. Það getur varla verið tilviljun að merkustu minjar úr steini, sem varðveist hafa frá miðöldum, eru þessir steinar og svo steinkista Páls biskups í Skálholti sem lést 1211. Þetta er eitt af mörgum rannsóknarefnum sem eftir er að kanna miklu betur og gætu fornleifarannsóknir í Hítardal vafalaust varpað einhverju ljósi á þessar steinsmíðar.

Mynd 13. Altarisbrík frá Ögurkirkju við Ísafjarðardjúp. Ljósmynd: Þjóðminjasafn Íslands, Ívar Brynjólfsson
Ég hef lagt áherslu á það sem talið er varðveitt af íslenskri kirkjulist frá fyrstu öldum. En fyrir okkur er ekki síður áhugaverður sá mikli fjársjóður sem varð veist hefur af erlendum kirkjugripum, einkum frá því fyrir siðaskiptin. Íslenska kirkjan fyrir siðaskipti var meiður af hinni miklu og ríku kaþólsku kirkju. Og það fer ekki fram hjá þeim sem skoða gripi frá fyrri öldum að mikill munur er á yfirbragði þeirra kaþólsku og þeirra sem kirkjurnar eignuðust eftir siðaskiptin. Ljósast varð þetta þegar skoðaðar voru kirkjudeildir Þjóðminjasafnsins. Þar kom kaþólska kirkjan manni fyrir sjónir sem alþjóðleg og rík með tengsl við helstu menningarsetur Evrópu. Í safninu er að finna glæsta gripi frá bestu verkstæðum álfunnar, dýrmætt kirkjusilfur, skírnarföt, altariskrossa, alabastursbríkur frá Englandi og dýrlingamyndir af ýmsu tagi. Altarisbríkin frá Ögri við Ísafjarðardjúp var gefin af Birni Guðnasyni ríka í upphafi 16. aldar eða af tengdasyni hans Eggert Hannessyni hirðstjóra. Bríkin er talin niðurlensk frá því um 1510 (sjá mynd 13). Hún sýnir Guð alföður, Jesú Krist og postulana tólf. Undurfagurt málverk er á vængjunum: María mey móðir skær með jesúbarnið.
Það er forvitnilegt að skoða þessa gripi og sjá hve mikið samband Íslendingar hafa átt við menningarmiðstöðvar í Evrópu. Þessir fágætu gripir og dýrlingamyndir hafa varðveist hér ótrúlega vel og verið í kirkjunum lengst af þrátt fyrir að myndefnið hafi oft ekki fallið að trúarkenningum siðaskiptamanna.
III. Íslenskir listamenn koma fram í dagsljósið
Í lúthersku deildinni í Þjóðminjasafninu er allt annað upp á teningnum. Þar fá gestir þau skilaboð að kirkjan á Íslandi hafi breyst frá því að vera meiður af ríkri alþjóðlegri kirkju í það að verða fátæk innlend kirkja háð veraldlegu valdi úti í Danmörku. En vissulega er þetta merkilegt og áhugavert tímabil í íslenskri menningarsögu, m.a. vegna þess að eftir siðaskiptin koma fram nafngreindir höfundar listaverkanna. Allir þeir sem við höfum getað nafngreint frá fyrstu öldum eftir siðaskipti eru íslenskir.
Og þá varð breyting á búnaði kirknanna og myndlistinni. Hliðarölturu urðu að víkja og þá dýrlingarnir af stöllum sínum. Háaltarið varð eitt eftir, með einni altaristöflu yfir. Algengasta myndefnið var kvöldmáltíð Krists og lærisveinanna til að minna á og kenna hvað gerist þegar söfnuðurinn tekur á móti altarissakramentinu. Predikunarstóllinn fékk og meira vægi því nú er það hið talaða orð, predikunin, sem verður megininntak messunnar. Predikunarstólar eru langoftast með myndum af guðspjallamönnunum fjórum – boðskapurinn er jú frá þeim.
Ákaflega forvitnilegur predikunarstóll hefur varðveist frá Bæ á Rauðasandi, smíðaður og málaður árið 1617 af Jóni Greipssyni fyrir Björn Magnússon bónda og sýslumann á Bæ (sjá mynd 14). Það sem er svo merkilegt við þennan predikunarstól er að guðspjallamennirnir og María og Jóhannes, er standa við kross Krists, eru öll klædd að hætti íslenskra manna frá þessum tíma. Guðspjallamennirnir eru í klæðum lútherskra kirkjunnar manna og María er klædd eins og íslensk sveitastúlka. Þetta er einsdæmi meðal kirkjugripa frá fyrri öldum.
Mynd 14. Myndheimur Jóns Greipssonar frá 1617. Ljósmynd: Þjóðminjasafn Íslands, Ívar Brynjólfsson
Annar predikunarstóll er frá Bræðratungukirkju, málaður á mjög svipuðum tíma, en þar sjáum við hefðbundnar myndir af guðspjallamönnunum (sjá mynd 14). Þetta eru fínlegar myndir, enda málaðar af Birni Grímssyni málara fyrir Gísla Hákonarson sýslumann í Bræðratungu — en Björn mun hafa forframast og lært til verks í Hamborg um aldamótin 1600. Björn er þekktastur fyrir nokkur frábærlega lýst Jónsbókarkver.
Mynd 15. Útskorin beinspjöld úr Skarðskirkju á landi. Ljósmynd: Þjóðminjasafn Íslands (skjáskot)
Beinspjöld frá Skarðskirkju á Landi með fínlega skornum myndum úr lífi og starfi Krists eru eftir Brynjólf Jónsson bónda og lögréttumann, er bjó í Skarði um aldamótin 1600 (sjá mynd 15). Hér sjáum við fæðingu Jesú í fjárhúsinu í Betlehem. Þetta er aðeins lítil hluti af þeim fágætu hvalbeinsskreytingum sem voru í Skarðskirkju í fjórar aldir og hafa frætt söfnuðinn um myndheim Biblíunnar.
Afkastamiklir listamenn á 17. og 18. öld voru Guðmundur Guðmundsson, kenndur við Bjarnastaðahlíð í Skagafirði, séra Hjalti Þorsteinsson prófastur í Vatnsfirði, Ámundi Jónsson snikkari á Suðurlandi og feðgarnir Hallgrímur Jónsson bóndi og listamaður og Jón málari sonur hans, ættaðir héðan úr Eyjafirði.

Mynd 16. altaristafla eftir Jón Halllgrímsson málara. Ljósmynd: Þjóðminjasafn Íslands
Jón forframaðist í útlöndum og prýddi margar kirkjur á Norðurlandi með altaristöflum, predikunarstólum og fleiri gripum. Altaristöflur eftir Jón eru enn í fáeinum kirkjum hér á Norðurlandi, m.a. í gömlu kirkjunni frá Svalbarði sem er nú hluti af Minjasafninu á Akureyri. Flestar altaristöflur sem varðveist hafa eftir Jón sýna síðustu kvöldmáltíð Krists. Kristur situr við dúkað borð með lærisveinunum tólf í stórum sal (sjá mynd 16). Jóhannes, sá sem Jesú elskaði, hallar sér að Jesú. Jóhannes er ljóshærður, skegglaus og unglingslegur, en þannig er honum oftast lýst. Jesús hefur sagt: „einn af yður mun svíkja mig.” Júdas stendur hugsi og hlustar. Hann sá um fjársjóð lærisveinanna og er því oftast sýndur með peningapyngju. Jón málari auðkennir hann enn fremur með því að láta hárið mynda eins konar horn á höfði hans. Hér sjáum við því svikarann Júdas. Í forgrunni eys lærisveinn víni úr stóru keraldi. Kristur réttir Jóhannesi vínkaleikinn og segir: „Drekkið allir hér af. Þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans, úthellt fyrir marga til fyrirgefningar synda.”
Ég hef gert sérstaka úttekt á þessu tímabili frá siðaskiptum og fram á 19. öld, og niðurstaða könnunar minnar varð sú að kirkjan hafi haldið áfram að vera helsti hvati listsköpunar í landinu, jafnt eftir siðaskipti sem fyrir þau. Við bættist að höfðingjar efldust í skjóli konungsvaldsins og urðu margir miklir stuðningsmenn lista á 16., 17. og 18. öld. Það sem varðveist hefur frá veraldlegum höfðingjum eru einkum minningartöflur og aðrir gripir úr kirkjum.

Mynd 17. Myndir predikunarstól í Kirkjubæ í Hróarstungu. Ljósmynd: Ólafur Ingi Jónsson
Að sjálfsögðu eru þetta ekki eingöngu íslenskir gripir. Hér skal nefnt dæmi: Í Kirkjubæ í Hróarstungu er forvitnilegur predikunarstóll með myndum af dönsku konungshjónunum Friðriki öðrum og Soffíu af Mecklenburg, konu hans (sjá mynd 17). Friðrik dó árið 1588. Stóllinn hlýtur að vera gerður talsvert fyrir þann tíma og er því líklega elsti predikunarstóllinn á landinu. Stóll Guðbrands biskups Þorlákssonar úr Hóladómkirkju er með ártalinu 1594. Þessir tveir predikunarstólar eru þeir elstu sem hægt er að tímasetja hér á landi.
Eftir siðaskiptin fjölgar minningartöflum og mannamyndum í kirkjunum. Höfðingjar fyrri tíma hafa vitað sem er að þannig er vænlegast að komast á spjöld sögunnar. Varðveist hafa bæði myndir af veraldlegum höfðingjum, og kirkjunnar mönnum. Þekktust er trúlega minningartaflan um Gísla Þorláksson biskup og konurnar hans þrjár. Ragnheiður Jónsdóttir, síðasta kona hans, lét gera þá töflu í Kaupmannahöfn í lok 17. aldar til þess að vera í Hóladómkirkju.

Mynd 18. Fjölskylda Magnúsar Jónssonar prúða sýslumanns. Ljósmynd: Þjóðminjasafn Íslands
Dæmi um kirkjumálverk af fjölskyldu veraldlegra höfðingja er minningartafla um Magnús Jónsson prúða sýslumann og Ragnheiði Eggertsdóttur konu hans og öll börn þeirra (sjá mynd 18). Magnús lést seint á 16. öld en myndin gæti verið máluð eftir dauða hans fyrir einhvern afkomanda hans. Myndin hékk síðast í Hagakirkju á Barðaströnd en er nú komin á Þjóðminjasafnið.

Mynd 19. Séra Halldór Jónsson á Stað í Grunnavík. Ljósmynd: Jón Ögmundur Þormóðsson
Í kirkjunni á Stað í Grunnavík er enn stórmerkur predikunarstóll með erlendum málverkum, aðallega frásögum úr Biblíunni. En næst kórnum er forvitnileg mynd af presti fyrir framan altarið (sjá mynd 19). Þetta er málverk af séra Halldóri Jónssyni sem þjónaði Stað í Grunnavík á 17. öld. Hann var lengi í þjónustu Brynjólfs biskups í Skálholti og á meðal annars að hafa komið fyrir róðukrossi í Kaldaðarneskirkju að beiðni Brynjólfs í stað krossins helga sem tekinn var niður á umbrotatímum siðaskiptanna. Þetta er fágætt málverk því þetta er elsta myndin sem til er af íslenskum nafngreindum presti fyrir framan altarið í kirkju sinni.
Í lok 18. aldar verða enn breytingar á myndheimi kristninnar á Íslandi. Biskupsstólarnir berjast þá í bökkum og voru ekki lengur sú uppspretta listsköpunar sem fyrr. Áhugi og geta veraldlegra höfðingja að prýða kirkjur og híbýli listmunum virðist og hafa dvínað. Þetta helst í hendur við almennar þjóðfélagsbreytingar í landinu — listin er ekki einangrað fyrirbæri.
Á 19. öldinni virðist öll orka manna hafa beinst að sjálfstæðisbaráttunni. Þeir Íslendingar, sem höfðu leitað sér listmenntunar í útlöndum í lok 18. aldar, eins og séra Sæmundur Hólm og Gunnlaugur Briem, síðar sýslumaður, sneru við blaðinu og sinntu listinni lítið sem ekkert eftir heimkomuna. Og aðrir ílentust ytra. Um miðja 19. öld komu heim Sigurður málari Guðmundsson, Þorsteinn Guðmundsson frá Hlíð í Gnúpverjahreppi og séra Helgi Sigurðsson. Þeir voru allir í listnámi ytra um lengri eða skemmri tíma en minna varð úr listsköpun þeirra en efni stóðu til. Íslenskt samfélag var ekki tilbúið að taka á móti þeim og kirkjan var ekki lengur það afl sem hlúði að skapandi listamönnum.
Á þessum árum ber mest á innfluttum gripum í kirkjunum. Nýjar altaristöflur eru oftast fengnar frá Danmörku, ýmist frummyndir eða eftirmyndir eftir þekktum erlendum myndum. Danska altaristaflan sem kom í Dómkirkjuna 1848 varð eftirsótt fyrirmynd. Þeir máluðu eftir henni bæði Sigurður málari og Þórarinn B. Þorláksson. Tíu töflur eru til eftir Sigurð og þrjár eftir Þórarin.

Mynd 20. Kristur eftir Bertel Thorvaldsen. Ljósmynd: Kirkjublaðið.is
Kristur Thorvaldsens í Frúarkirkjunni í Kaupmannahöfn varð fyrirmynd margra málara í Evrópu á þessum tíma (sjá mynd 20). Sú mynd var til í ótal eftirgerðum hér á síðustu öld, bæði litlum og stórum, í kirkjum og inni á heimilum manna.
Danski málarinn Anker Lund varð vinsælastur meðal kirkjuyfirvalda um síðustu aldamót. Til eru altaristöflur eftir hann í að minnsta kosti 25 kirkjum hér á landi frá árunum 1888–1920. Hann, eins og fleiri samtímamenn hans, hafði Krist Thorvaldsen að fyrirmynd og málaði myndir er sýndu Jesú Krist meðal manna, kraftaverk hans og ýmsar sögur úr lífi hans.
IV. Lokaorð
Það er svo staðreynd að þegar frumkvöðlarnir, sem svo hafa verið nefndir, Einar Jónsson, Þórarinn B. Þorláksson, Ásgrímur Jónsson og Kjarval, komu heim frá útlöndum í upphafi 20. aldar var hér til vísir að borgaralegu samfélagi. Þeir komu til starfa á sama tíma og Reykvíkingar eignuðust sitt fyrsta leikhús og fyrstu hljómsveitirnar létu í sér heyra. Þeir stigu fram á sviðið þegar nútímamyndlist var að þróast og verða til úti í hinum stóra heimi. Þeir voru fyrstu myndlistarmennirnir sem störfuðu á Íslandi óháðir kirkjunni, þeir fyrstu í 900 ára sögu myndlistar í landinu. Þeir unnu þó allir eitthvað fyrir kirkjuna. Ekki mikið þegar litið er á lífsverk þeirra en þeir gerðu það samt.
Þeir eru fleiri íslenskir listamenn sem hafa málað fyrir kirkjurnar á 20. öldinni en hér verð ég að láta staðar numið. Það hefur, held ég, ekki staðið á listamönnunum þegar þeir hafa verið kallaðir til.
En listin er ævinlega endurspeglun samfélagsins og hinar öru breytingar í myndlist 20. aldar endurspegla ákveðinn aðskilnað kirkjunnar við myndlistina. Þetta á ekki bara við um íslenskt samfélag, þetta er að gerast úti um allan hinn vestræna heim. En það sem er alvarlegra er að Íslendingar eru ekki, almennt séð, meðvitaðir um þann fjársjóð sem þeir eiga frá fyrri tíð og skynja því ekki samhengi í sögunni. Í því mikla ritverki Kristni á Íslandi, sem hér er verið að fagna útgáfu af í dag, er gerð tilraun til þess að lýsa þeim myndheimi sem íslenska þjóðin hefur búið við í þúsund ár. Ég hef farið hér mjög hratt yfir sögu og sleppt mörgum mikilvægum þáttum, því miður. Tíminn leyfir ekki annað. En sjón er sögu ríkari í þessum bókum.
[1] Fyrirlesturinn var fluttur á Akureyri 15. apríl 2000.
Heimildir:
Björn Th. Björnsson. Íslenzk myndlist I. Reykjavík 1964.
Björn Th. Björnsson. „Myndlist á síðmiðöldum.“ Saga Íslands V. Reykjavík 1990.
Elsa E. Guðjónsson. Íslenskur útsaumur. Reykjavík 1985.
Guðbrandur Jónsson. Dómkirkjan á Hólum í Hjaltadal. Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmennta að fornu og nýju V. Reykjavík 1919.
Halldór Hermannsson. „Illuminated manuscripts of the Jónsbók.“ Islandica XXVIII, New York 1940.
Hjalti Hugason. „Kristni á Íslandi í 1000 ár.“ Gersemar. Sýningarskrá Þjóðminjasafnsins og Minjasafnsins á Akureyri 1999.
Hörður Ágústsson. Dómsdagur og helgir menn á Hólum, Reykjavík 1989.
Hörður Ágústsson. Skálholt. Kirkjur. Reykjavík 1990.
Jón Auðuns. Sigurður Guðmundsson málari. Reykjavík 1950.
Koch, Frederick Christiane. Isländer in Hamburg 1520–1662. Hamburg 1995.
Kristján Eldjárn. „Íslenskur barokkmeistari.“ Stakir steinar. Tólf minjaþættir. Akureyri 1961.
Kristján Eldjárn. Hundrað ár í Þjóðminjasafni. Reykjavík 1963.
Kristján Eldjárn og Hörður Ágústsson. Skálholt. Skrúði og áhöld. Reykjavík 1992.
Lilja Árnadóttir. „Anker Lund og altaristöflurnar hans á Íslandi.“ Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1982. Reykjavík 1983.
Magerøy, Ellen Marie. Planteornamentikken i islandsk treskurd I–II (Bibl. Arn. Supplementum. Vol V–VI), Kh. 1967.
Magnús Már Lárusson. Maríukirkja og Valþjófsstaðarhurð. Fróðleikspættir og sögubrot, Hafnarfirði 1967.
Matthías Þórðarson. Íslenzkir listamenn I–II. Reykjavík 1920 og 1925.
Matthías Þórðarson. Islands middelalderkunst. Nordisk kultur XXVII, Stockholm 1931.
Selma Jónsdóttir. Byzönsk dómsdagsmynd í Flatatungu. Reykjavík 1959.
F.B. Wallem. De islandske kirkers udstyr i middelalderen. Kristiania 1910.
Þóra Kristjánsdóttir. „Altar í Flatey.“ „Altaristafla eftir Ámunda smið.“ „Fornar minjar í Hítardal.“ „Gunnlaugur Briem.“ „Helgir menn í Jökuldal.“ „Kistill úr eigu Sigurðar málara.“ Gersemar og þarfaþing. Reykjavík 1994.