Kvikmyndin Missir sem nú er sýnd í Bíó-Paradís er svo sannarlega listaverk sem Kirkjublaðið.is hvetur alla til að sjá.

Í stuttu máli fjallar hún um dauðann og viðbrögð við honum.

Myndin byggir á sögu eftir rithöfundinn Guðberg Bergsson (1932-2023) sem lést á síðasta ári. Hún segir sögu af manni sem missir konu sína og hvernig hann bregst við missinum. Söknuður hans er mikill og hann er sem ráðvilltur maður eftir lát eiginkonunnar. Hann er beygður af sorg og gengur um íbúðina eins og hann sé á ókunnugum stað og það vekur ótta innra með honum; hann kannast bæði við heimilið og virðist svo ekki kannast við það. Óreiða einkennir heimilið sem er í samræmi við óreiðukennda hugsun og hversdagslegt hik ekkilsins. Eiginkonan látna hefur sennilega verið fastur punktur í lífi hans og á heimilinu en nú er hún horfin. Þær leifturmyndir sem sýndar eru úr hjónabandi þeirra eru ekki til þess fallnar að sýna að þetta hjónaband hafi verið eitthvað ástríkara en önnur. Kannski var þetta ósköp venjulegt gott hjónaband eins og þau flest eru sennilega. Traust hjónaband. Vissulega er hann umhyggjusamur þegar augljós elliglöp fara að herja á konuna en annars er hann hljóður og afskiptalítill.

Nágranni ekkilsins reynir að hressa hann við. Sá er lífsglaður náungi og málugur. Hann dregur ekkilinn með sér í jóga og heilsusundæfingar. En skammt er stórra högga á milli. Nágranninn stendur nokkru síðar í sömu sporum og ekkillinn þegar kona hans verður bráðkvödd. Saman fara þeir félagarnir suður með sjó þar sem hún er jarðsett við brimsorfna strönd í fallega rauðri kistu eins og höfundurinn þá hann var kvaddur hinstu kveðju.

Sameiginlegt ekkjustand þeirra leiðir til nánari vináttu sem stendur ekki lengi því að vinurinn deyr í sumarbústað þar sem þeir voru grilla og að staupa sig.

Yfir myndinni er ákveðinn drungi með ljóðrænu yfirbragði sem fer vel við efnistökin og framvinduna sem er fremur hæg og hófstillt. Drunganum er komið á framfæri í veðrinu, rigningu og roki, köldum og blautum vetrardögum sem frostköldum og svellandi brimi við strönd í kuldagjósti. Þessi drungi er að mestu bundinn við borgina því að létt er yfir þegar ekkjumaðurinn bregður sér út fyrir hana.

Áhorfandi fær ekki mikla baksögu úr lífi ekkilsins til að moða úr og koma sér upp einhverjum skoðunum á honum. Býr í gömlu steinsteyptu húsi á fyrstu hæð og á gamlan svartan Benz. Hann segir fátt og svo virðist hafa verið í hjónabandinu þegar myndum úr því er brugðið upp í hugskoti hans og settar á tjaldið. Það eru reyndar minningar hans eftir að konan er látin, minningar sem sjást; minningar í myndum.

Í sjálfu sér er ekki verið að afhjúpa neitt leyndarmál þegar sagt er frá því að eftir að bálför eiginkonunnar hefur farið fram og líkamsleifar hennar (askan) eru komnar í duftker, þá tekur hann sig til og fær sér eina skeið af öskunni á hverjum degi. Setur hana út í sjóðandi heitt vatn. Mýstískur samruni verður milli hans, ekkilsins, og hinnar látnu eiginkonu. Hvort neysla hans á ösku líkamsleifa hennar vekja þessar myndir af eiginkonunni skal ósagt látið. Það getur verið en þarf ekki að vera.

Hann heldur til Færeyja með duftkerið og ástæðan er sú að konuna hafði alltaf langað þangað en þau höfðu aldrei farið saman til útlanda. Ekkillinn virðist ekki hafa haft neina döngun í sér að ferðast utan lands og það í samræmi við framtaksleysi hans sem birtist líka í ljósa rykfrakkanum sem karlar af ákveðinni kynslóð klæddust nánast sem einkennisfatnaði því að þeir þorðu ekki að skera sig úr fjöldanum. En nú var sem sé komið að utanlandsreisunni þó að með þessum mýstíska hætti væri. Í Færeyjaferðinni drekkur hann síðasta bollann með líkamsdufti hennar. Hann slær vel í botn kersins til að hvert korn falli í bollann. Eftir það heldur hann til fjalls og þoka liggur yfir. Eiginkona hans hafði talað um hjúfrandi þokuna í Færeyjum í nokkrum minningarleiftrum og regnvotar hlíðar. Þar sem hann er kominn efst í hlíðarhjallann og undir niðri dunar hafið sér hann móta fyrir konu sinni – hjúfraða þoku. Á þeim punkti lýkur myndinni.

Segja má að á köflum svífi ákveðinn súrrealismi yfir myndinni og styrki meginþráð frásagnarinnar sem er söknuðurinn og lífið í minningunum. Þessi súrrealismi birtist að sjálfsögðu í neyslu ekkilsins á líkamsdufti eiginkonunnar sem og í atvikum þar sem aukapersónur koma fyrir með ógleymanlegum hætti. Starfsmaður útfararstofu selur vini ekkilsins, nágrannanum, tvær líkkistur. Þetta var tilboð. Tvær fyrir verð einnar. Önnur þeirra var rauð, lakkið var sjöfalt, og starfsmaðurinn kallaði hana Ferrarinn. Hin var hvít. Og þeir félagarnir koma kistunum fyrir á þaki bíls ekkilsins og aka heim á leið. Þá má líka segja að súrrealisminn birtist í freudískum ókunnugleika ekkjumannsins á heimilinu eftir að konan er dáin. Hann er óttasleginn, týndur maður í veröldinni sem áður var honum kunn en nú framandi (þ. unheimlich, e. uncanny).

Leikarar eru ekki af verri endanum. Þorsteinn Gunnarsson fer með hlutverk ekkilsins. Eiginkonu hans leikur Guðrún Gísladóttir. Vinur ekkilsins er leikinn af Sigurði Sigurjónssyni. Hlutverk starfsmanns útfararþjónustunnar er í höndum Árna Péturs Guðjónssonar. Í einu orði sagt er leikurinn skínandi góður.

Friðrik Þór Friðriksson, Guðrún Edda Þórhannesdóttir og Gísli Hauksson hjá Íslensku kvikmyndasamsteypunni framleiða myndina. Meðframleiðslufyrirtæki eru Evil Doghouse Productions, Harald House og Spellbound Productions.

Stikla úr myndinni, Missir. 

Niðurstaða:

Athyglisverð ljóðræn mynd, súrrealísk á köflum, heldur áhorfandanum vel við efnið þó að enginn sé æsingurinn í myndfrásögninni. Úrvalsleikarar bera myndina uppi og söguþráðurinn er forvitnilegur og um margt guðbergskur. Kirkublaðið.is mælir eindregið með þessari vel gerðu kvikmynd sem vekur upp margar spurningar um manneskjuna og viðbrögð hennar við því þegar dauðinn – sem býr í henni – bankar upp á. Sálusorgarar þjóðkirkjunnar ættu að sjá myndina og styrkja sig þar með í starfi.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Kvikmyndin Missir sem nú er sýnd í Bíó-Paradís er svo sannarlega listaverk sem Kirkjublaðið.is hvetur alla til að sjá.

Í stuttu máli fjallar hún um dauðann og viðbrögð við honum.

Myndin byggir á sögu eftir rithöfundinn Guðberg Bergsson (1932-2023) sem lést á síðasta ári. Hún segir sögu af manni sem missir konu sína og hvernig hann bregst við missinum. Söknuður hans er mikill og hann er sem ráðvilltur maður eftir lát eiginkonunnar. Hann er beygður af sorg og gengur um íbúðina eins og hann sé á ókunnugum stað og það vekur ótta innra með honum; hann kannast bæði við heimilið og virðist svo ekki kannast við það. Óreiða einkennir heimilið sem er í samræmi við óreiðukennda hugsun og hversdagslegt hik ekkilsins. Eiginkonan látna hefur sennilega verið fastur punktur í lífi hans og á heimilinu en nú er hún horfin. Þær leifturmyndir sem sýndar eru úr hjónabandi þeirra eru ekki til þess fallnar að sýna að þetta hjónaband hafi verið eitthvað ástríkara en önnur. Kannski var þetta ósköp venjulegt gott hjónaband eins og þau flest eru sennilega. Traust hjónaband. Vissulega er hann umhyggjusamur þegar augljós elliglöp fara að herja á konuna en annars er hann hljóður og afskiptalítill.

Nágranni ekkilsins reynir að hressa hann við. Sá er lífsglaður náungi og málugur. Hann dregur ekkilinn með sér í jóga og heilsusundæfingar. En skammt er stórra högga á milli. Nágranninn stendur nokkru síðar í sömu sporum og ekkillinn þegar kona hans verður bráðkvödd. Saman fara þeir félagarnir suður með sjó þar sem hún er jarðsett við brimsorfna strönd í fallega rauðri kistu eins og höfundurinn þá hann var kvaddur hinstu kveðju.

Sameiginlegt ekkjustand þeirra leiðir til nánari vináttu sem stendur ekki lengi því að vinurinn deyr í sumarbústað þar sem þeir voru grilla og að staupa sig.

Yfir myndinni er ákveðinn drungi með ljóðrænu yfirbragði sem fer vel við efnistökin og framvinduna sem er fremur hæg og hófstillt. Drunganum er komið á framfæri í veðrinu, rigningu og roki, köldum og blautum vetrardögum sem frostköldum og svellandi brimi við strönd í kuldagjósti. Þessi drungi er að mestu bundinn við borgina því að létt er yfir þegar ekkjumaðurinn bregður sér út fyrir hana.

Áhorfandi fær ekki mikla baksögu úr lífi ekkilsins til að moða úr og koma sér upp einhverjum skoðunum á honum. Býr í gömlu steinsteyptu húsi á fyrstu hæð og á gamlan svartan Benz. Hann segir fátt og svo virðist hafa verið í hjónabandinu þegar myndum úr því er brugðið upp í hugskoti hans og settar á tjaldið. Það eru reyndar minningar hans eftir að konan er látin, minningar sem sjást; minningar í myndum.

Í sjálfu sér er ekki verið að afhjúpa neitt leyndarmál þegar sagt er frá því að eftir að bálför eiginkonunnar hefur farið fram og líkamsleifar hennar (askan) eru komnar í duftker, þá tekur hann sig til og fær sér eina skeið af öskunni á hverjum degi. Setur hana út í sjóðandi heitt vatn. Mýstískur samruni verður milli hans, ekkilsins, og hinnar látnu eiginkonu. Hvort neysla hans á ösku líkamsleifa hennar vekja þessar myndir af eiginkonunni skal ósagt látið. Það getur verið en þarf ekki að vera.

Hann heldur til Færeyja með duftkerið og ástæðan er sú að konuna hafði alltaf langað þangað en þau höfðu aldrei farið saman til útlanda. Ekkillinn virðist ekki hafa haft neina döngun í sér að ferðast utan lands og það í samræmi við framtaksleysi hans sem birtist líka í ljósa rykfrakkanum sem karlar af ákveðinni kynslóð klæddust nánast sem einkennisfatnaði því að þeir þorðu ekki að skera sig úr fjöldanum. En nú var sem sé komið að utanlandsreisunni þó að með þessum mýstíska hætti væri. Í Færeyjaferðinni drekkur hann síðasta bollann með líkamsdufti hennar. Hann slær vel í botn kersins til að hvert korn falli í bollann. Eftir það heldur hann til fjalls og þoka liggur yfir. Eiginkona hans hafði talað um hjúfrandi þokuna í Færeyjum í nokkrum minningarleiftrum og regnvotar hlíðar. Þar sem hann er kominn efst í hlíðarhjallann og undir niðri dunar hafið sér hann móta fyrir konu sinni – hjúfraða þoku. Á þeim punkti lýkur myndinni.

Segja má að á köflum svífi ákveðinn súrrealismi yfir myndinni og styrki meginþráð frásagnarinnar sem er söknuðurinn og lífið í minningunum. Þessi súrrealismi birtist að sjálfsögðu í neyslu ekkilsins á líkamsdufti eiginkonunnar sem og í atvikum þar sem aukapersónur koma fyrir með ógleymanlegum hætti. Starfsmaður útfararstofu selur vini ekkilsins, nágrannanum, tvær líkkistur. Þetta var tilboð. Tvær fyrir verð einnar. Önnur þeirra var rauð, lakkið var sjöfalt, og starfsmaðurinn kallaði hana Ferrarinn. Hin var hvít. Og þeir félagarnir koma kistunum fyrir á þaki bíls ekkilsins og aka heim á leið. Þá má líka segja að súrrealisminn birtist í freudískum ókunnugleika ekkjumannsins á heimilinu eftir að konan er dáin. Hann er óttasleginn, týndur maður í veröldinni sem áður var honum kunn en nú framandi (þ. unheimlich, e. uncanny).

Leikarar eru ekki af verri endanum. Þorsteinn Gunnarsson fer með hlutverk ekkilsins. Eiginkonu hans leikur Guðrún Gísladóttir. Vinur ekkilsins er leikinn af Sigurði Sigurjónssyni. Hlutverk starfsmanns útfararþjónustunnar er í höndum Árna Péturs Guðjónssonar. Í einu orði sagt er leikurinn skínandi góður.

Friðrik Þór Friðriksson, Guðrún Edda Þórhannesdóttir og Gísli Hauksson hjá Íslensku kvikmyndasamsteypunni framleiða myndina. Meðframleiðslufyrirtæki eru Evil Doghouse Productions, Harald House og Spellbound Productions.

Stikla úr myndinni, Missir. 

Niðurstaða:

Athyglisverð ljóðræn mynd, súrrealísk á köflum, heldur áhorfandanum vel við efnið þó að enginn sé æsingurinn í myndfrásögninni. Úrvalsleikarar bera myndina uppi og söguþráðurinn er forvitnilegur og um margt guðbergskur. Kirkublaðið.is mælir eindregið með þessari vel gerðu kvikmynd sem vekur upp margar spurningar um manneskjuna og viðbrögð hennar við því þegar dauðinn – sem býr í henni – bankar upp á. Sálusorgarar þjóðkirkjunnar ættu að sjá myndina og styrkja sig þar með í starfi.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir