Þetta er bók sem maður les í einum rykk. Galdur frásagnarinnar er slíkur að hún nær ótrúlegum tökum á lesandanum sem fetar sig eins og í hugljómun línu fyrir línu uns komið er skyndilega að bókarlokum. Og lesandinn lygnir aftur augum og um hugann hvarfla leiftur úr frásögninni og myndir. Hann hugsar með sér að þessi eða hinn sem honum eru kunnugir þyrftu að lesa bókina líka því að gaman væri að ræða um hana við aðra.
Sem sé mögnuð bók og áhrifarík.
Ein af þessum bókum sem ekki er hægt að skrifa um – jú, auðvitað gætu bókmenntafræðingar eflaust brotið hana til mergjar og fundið sitthvað í henni sem fræði þeirra hafa orð yfir.
En hinn venjulegi lesandi verður bara að taka hana sér í hönd. Og lesa.
Samt ætlar ritstjóri Kirkjublaðsins. is að fara um hana nokkrum orðum til þess að vekja athygli á henni. Höfundur er eitt fremsta sagnaskáld Svía, Torgny Lindgren (1938-2017).
Bókin ber kirkjulegan titil, kannski guðfræðilegan titil, biblíulegan titil – og listfræðilegan titil: Biblía Dorés.
Hér verður að koma innskot í örstuttu máli: Gustave Doré(s) (1832-1883) var franskur listamaður sem fékkst við ýmsar greinar myndlistarinnar. Flest verka hans eru myndskreytingar við helstu bókmenntaperlur heimsbókmenntanna. Hann skar út í tré 241 mynd sem sýndu ýmis atvik úr þeirri sögu sem Biblían rekur. Segja má að þessar myndir hafi haldið nafni hans á lofti. Biblían með myndum hans kom út 1866 og náði mikilli útbreiðslu. Árið 1945 kom „Biblían í myndum“, út á íslensku og myndirnar voru þær sömu og í Biblíu Dorés. Stór og vegleg bók, 420 blaðsíður, í svörtu bandi upphleyptu og með gyllingum. Ísafoldarprentsmiðja hf. gaf hana út. Sr. Bjarni Jónsson, vígslubiskup, skrifaði formála og sagði meðal annars: „Vona ég, að myndir þessar verði lykill, sem opnar dyrnar að heimkynnum ritningarinnar, og munu menn þá sannfærast um, að stórkostlega mikið er það lesmál, sem engar myndir ná að lýsa, en vakið hefir fögnuð og veitt huggun og styrk…“
Sannarlega urðu myndirnar í Biblíu Dorés sem lykill í lífi þeirrar sögupersónu sem hér er til umfjöllunar. Já, lykill sem nærsamfélag sögupersónunnar hafði ekki skilning á að gæti reynst henni gagnlegur. Bókin segir sögu af samskiptum manns sem getur ekki uppfyllt grundvallarkröfu samfélagsins: að læra að lesa með aðstoð latenska stafrófsins.
Hinn nafnlausi sögumaður í Biblíu Dorés er sem sé ólæs á stafrófið. Saga hans er rituð af öðrum en þó er hinn ólæsi ekki langt undan því hún er sögð fyrir hans hönd í fyrstu persónu. Hann sagði nefnilega sögu sína og tók upp á segulband. Frumeintak sögunnar er sem sé á segulbandsþræði sem fært hefur verið búning sögu sem styðst við stafrófið sem söguhetjan, jú það má kalla hann í raun hetju, botnaði aldrei neitt í. Samfélag læsis var – og er kannski enn – hart í horn að taka gagnvart þeim sem stafrófið stendur í. Samfélag söguhetjunnar flokkaði hann með fávitum, eða þroskahömluðum, eftir að heimili hans og skólakerfið gáfust upp á að kenna honum lestur. Lestur var eitt af því heilaga í samfélaginu og þegar börnin fengu afhentar lestrarbækur í fyrsta sinn var þeim lyftu börnin hverri bók „hátt, eins og presturinn lyftir heilögum sakramentum“ (bls. 37).
Söguhetjan nær að lesa með öðrum hætti en í gegnum stafrófið. Biblíumyndir Dorés kenna honum myndlestur. Hann segir að samband sitt við Guð „yrði líklega enn flóknara, ef ekki beinlínis fjarlægara,“ ef hann kynni að lesa og skrifa (bls. 84). Frásagnir af því hvernig hann túlkar sitthvað sem ber fyrir hann í lífinu með aðstoð biblíumyndanna eru áhrifaríkar og frumlegar. Samt tók samfélagið, feðraveldið er hægt að segja, fram fyrir hendurnar á honum. Föður hans varð nóg um þessa myndlestraraðferð sonarins og læsti bók Dorésar inni í skáp. Hann óttaðist að sonurinn yrði sinnisveikur á því að blaða sífellt í bókinni og það þyrfti að frelsa hann frá „þessum íburðarmiklu og ýktu hugsmíðum nítjándu aldarinnar!“ (bls. 83). Þó lá honum fráleitt þungur hugur til föður síns sem hann taldi elska sig heitt.
Biblía Dorés var ekki í hávegum höfð hjá öllum enda hefði markhópur hennar verið hin „ómenntaða lágstétt“ sem hefði haft þörf fyrir „grófa myndskreytingu“ (bls. 172). Biblía Dorés væri verksmiðjuframleiðsla – hann hefði ráðið tréristara til að gera myndirnar í sínu nafni: „Allt var fúsk og ekkert annað“ (bls. 235).
Myndsýn söguhetjunnar veitir henni djúpan skilning á heiminum og því sem fyrir augu hennar ber. „Innst inni, hafði ég líka bent á, snýst Biblía Dorés um ævarandi samskipti mannanna við Guð“ (bls. 84). Það skortir ekki á siðferðilegt þrek sögumannsins í öllu því sem verður á vegi hans því lengi vel býr hann ekki við sjálfstæði og verður að lúta því sem faðir hans ákveður. Hann átti líka Hauk í horni sem var afi hans. Margfróður afi og jós af brunni bókmenntalegrar þekkingar sinnar til barnabarnsins. Söguhetjan nær því að verða gagnmenntaður maður þó svo samfélagið hafi fellt harða dóma yfir honum sakir ólæsis hans.
Sögumaðurinn verður snemma eins konar boðberi fagnaðarerindisins án þess að vera nokkuð uppáþrengjandi. Myndskreyttar frásagnir úr Biblíu Dorés verða honum iðulega tilefni til að segja öðrum frá og þá meðal annars bekkjarsystkinum sínum, og öðrum síðar á lífsleiðinni.
Margar frásagnir bókarinnar eru eftirminnilegar og tær snilld eins og sú þar sem segir frá fermingarsamtali sögumannsins við prestinn. Söguhetjan er mælsk og fróð og frá henni streyma frásagnir úr kristinni trú og svör við ýmsum guðfræðilegum spurningum. Presturinn fermir hann þar sem þeir sitja í herbergi söguhetjunnar á heimilinu fyrir hin þroskahömluðu. Hann segist ekki þurfa að halda neina fermingarræðu yfir honum þar sem hann hafi gert það sjálfur. Kveður hann í lokin með þeim orðum að það sé skaði að söguhetjan skuli vera þroskaskert því að annars hefði vel eitthvað orðið úr henni (bls. 95-99).
Sjálf tekur söguhetjan upp á því að skera út myndir í tré (bls. 176). Hafði fengið við útskrift úr skólakerfinu sem gafst upp á því að kenna honum að lesa, gjöf frá sveitarfélaginu, bók með tréristum eftir Albrecht Dürer (bls. 69). Og auðvitað voru myndir Dorés skornar út í við og myndir þær sem söguhetjan sker út styðjast við minni hennar – ef rétt er skilið nokkurs konar eftirmyndir, misnákvæmar, af myndum Dorés.
Líf sögumanns er hamingjusamt líf þrátt fyrir allt. Fjárhagsleg afkoma hans er tryggð af fjölskyldunni, arfi. Hann fær atvinnu um tíma á listasafni þar sem hæfileikar til myndgreiningar á listaverkum nýtast honum enda hafði eins og fram er komið Dorés kennt honum margt! „Ég hafði einfaldlega fundið mér rétta hillu í tilverunni,“ segir hann (bls. 200). Fulltrúar skólakerfisins sópuðu honum af þeirri hillu því að dag nokkurn kom gömul kennslukona í safnið en hún var ein af mörgum sem glímt höfðu við að kenna honum að lesa. Hún þekkti hann aftur. Hann vildi sýna að úr honum hafði ræst og fór því að einu verkanna og sagði við nærstadda: „Þarna á þessu skilti má lesa eftirfarandi“ (bls. 207). Síðan tók hann að segja frá sem hann væri að lesa. Kennslukonan gamla tók eftir þessu og vissi sem svo að ekki hafði hann lesið þar sem þarna stóð – lesið það sem bókstafirnir stóðu fyrir – hann las reyndar með öðrum hætti eins og fram hefur komið. Hún kvartaði við forstöðumanninn sem segir honum umsvifalaust upp störfum. Söguhetjan afhendir messingsspjaldið sem allir starfsmenn safnsins báru á jökkum sínum – en það voru allt konur og hann eini karlmaðurinn. Um leið og hann afhenti spjaldið spurði hann forstöðumanninn hvað á því stæði. Og hann svaraði: „Gæslukona … Það voru mistök frá okkar hendi“ (bls. 212).
Svo farið sé hratt yfir sögu. Eintak af Biblíu Dorés varð á vegi sögumanns í lok sögunnar á sorpbrennslustöð þar sem hann vann. Það átti að fara í eldinn: „Og ég tók undir mig stærsta stökk ævi minnar, ég kastaði mér þvert yfir heimsbókmenntirnar, þær sem skildu mig frá Biblíu Dorés. Ég greip rauðglóandi bókina og þrýsti henni í örvæntingu og ólýsanlegri hamingju að brjósti mér. Svo hljóp ég af stað“ (bls. 249).
Þýðandi bókarinnar er Heimir Pálsson og skrifar jafnframt stuttan eftirmála. Þýðingin er vönduð og rennur vel enda vanur maður þar á ferð. Þetta er þriðja bókin sem Heimir þýðir eftir Torgny Lindgren. Biblía Dorés er 256 bls. Bókaútgáfan Ugla gefur út 2024.
Niðurstaða:
Hrífandi bók sem lesandi getur ekki sleppt frá sér fyrr en hann er búinn að lesa hana. Seiðmagnaður texti, ljóðrænn og umvefjandi. Eftirminnilegar persónur og söguefnið einstakt. Bók sem flytur visku og kærleika í hörðum heimi þar sem æðruleysis er þörf.
Hér eru þrjár myndir eftir Gustave Dorés sem prýddu biblíuútgáfu hans 1866 og íslensku útgáfuna frá 1945, Biblían í myndum.
Þetta er bók sem maður les í einum rykk. Galdur frásagnarinnar er slíkur að hún nær ótrúlegum tökum á lesandanum sem fetar sig eins og í hugljómun línu fyrir línu uns komið er skyndilega að bókarlokum. Og lesandinn lygnir aftur augum og um hugann hvarfla leiftur úr frásögninni og myndir. Hann hugsar með sér að þessi eða hinn sem honum eru kunnugir þyrftu að lesa bókina líka því að gaman væri að ræða um hana við aðra.
Sem sé mögnuð bók og áhrifarík.
Ein af þessum bókum sem ekki er hægt að skrifa um – jú, auðvitað gætu bókmenntafræðingar eflaust brotið hana til mergjar og fundið sitthvað í henni sem fræði þeirra hafa orð yfir.
En hinn venjulegi lesandi verður bara að taka hana sér í hönd. Og lesa.
Samt ætlar ritstjóri Kirkjublaðsins. is að fara um hana nokkrum orðum til þess að vekja athygli á henni. Höfundur er eitt fremsta sagnaskáld Svía, Torgny Lindgren (1938-2017).
Bókin ber kirkjulegan titil, kannski guðfræðilegan titil, biblíulegan titil – og listfræðilegan titil: Biblía Dorés.
Hér verður að koma innskot í örstuttu máli: Gustave Doré(s) (1832-1883) var franskur listamaður sem fékkst við ýmsar greinar myndlistarinnar. Flest verka hans eru myndskreytingar við helstu bókmenntaperlur heimsbókmenntanna. Hann skar út í tré 241 mynd sem sýndu ýmis atvik úr þeirri sögu sem Biblían rekur. Segja má að þessar myndir hafi haldið nafni hans á lofti. Biblían með myndum hans kom út 1866 og náði mikilli útbreiðslu. Árið 1945 kom „Biblían í myndum“, út á íslensku og myndirnar voru þær sömu og í Biblíu Dorés. Stór og vegleg bók, 420 blaðsíður, í svörtu bandi upphleyptu og með gyllingum. Ísafoldarprentsmiðja hf. gaf hana út. Sr. Bjarni Jónsson, vígslubiskup, skrifaði formála og sagði meðal annars: „Vona ég, að myndir þessar verði lykill, sem opnar dyrnar að heimkynnum ritningarinnar, og munu menn þá sannfærast um, að stórkostlega mikið er það lesmál, sem engar myndir ná að lýsa, en vakið hefir fögnuð og veitt huggun og styrk…“
Sannarlega urðu myndirnar í Biblíu Dorés sem lykill í lífi þeirrar sögupersónu sem hér er til umfjöllunar. Já, lykill sem nærsamfélag sögupersónunnar hafði ekki skilning á að gæti reynst henni gagnlegur. Bókin segir sögu af samskiptum manns sem getur ekki uppfyllt grundvallarkröfu samfélagsins: að læra að lesa með aðstoð latenska stafrófsins.
Hinn nafnlausi sögumaður í Biblíu Dorés er sem sé ólæs á stafrófið. Saga hans er rituð af öðrum en þó er hinn ólæsi ekki langt undan því hún er sögð fyrir hans hönd í fyrstu persónu. Hann sagði nefnilega sögu sína og tók upp á segulband. Frumeintak sögunnar er sem sé á segulbandsþræði sem fært hefur verið búning sögu sem styðst við stafrófið sem söguhetjan, jú það má kalla hann í raun hetju, botnaði aldrei neitt í. Samfélag læsis var – og er kannski enn – hart í horn að taka gagnvart þeim sem stafrófið stendur í. Samfélag söguhetjunnar flokkaði hann með fávitum, eða þroskahömluðum, eftir að heimili hans og skólakerfið gáfust upp á að kenna honum lestur. Lestur var eitt af því heilaga í samfélaginu og þegar börnin fengu afhentar lestrarbækur í fyrsta sinn var þeim lyftu börnin hverri bók „hátt, eins og presturinn lyftir heilögum sakramentum“ (bls. 37).
Söguhetjan nær að lesa með öðrum hætti en í gegnum stafrófið. Biblíumyndir Dorés kenna honum myndlestur. Hann segir að samband sitt við Guð „yrði líklega enn flóknara, ef ekki beinlínis fjarlægara,“ ef hann kynni að lesa og skrifa (bls. 84). Frásagnir af því hvernig hann túlkar sitthvað sem ber fyrir hann í lífinu með aðstoð biblíumyndanna eru áhrifaríkar og frumlegar. Samt tók samfélagið, feðraveldið er hægt að segja, fram fyrir hendurnar á honum. Föður hans varð nóg um þessa myndlestraraðferð sonarins og læsti bók Dorésar inni í skáp. Hann óttaðist að sonurinn yrði sinnisveikur á því að blaða sífellt í bókinni og það þyrfti að frelsa hann frá „þessum íburðarmiklu og ýktu hugsmíðum nítjándu aldarinnar!“ (bls. 83). Þó lá honum fráleitt þungur hugur til föður síns sem hann taldi elska sig heitt.
Biblía Dorés var ekki í hávegum höfð hjá öllum enda hefði markhópur hennar verið hin „ómenntaða lágstétt“ sem hefði haft þörf fyrir „grófa myndskreytingu“ (bls. 172). Biblía Dorés væri verksmiðjuframleiðsla – hann hefði ráðið tréristara til að gera myndirnar í sínu nafni: „Allt var fúsk og ekkert annað“ (bls. 235).
Myndsýn söguhetjunnar veitir henni djúpan skilning á heiminum og því sem fyrir augu hennar ber. „Innst inni, hafði ég líka bent á, snýst Biblía Dorés um ævarandi samskipti mannanna við Guð“ (bls. 84). Það skortir ekki á siðferðilegt þrek sögumannsins í öllu því sem verður á vegi hans því lengi vel býr hann ekki við sjálfstæði og verður að lúta því sem faðir hans ákveður. Hann átti líka Hauk í horni sem var afi hans. Margfróður afi og jós af brunni bókmenntalegrar þekkingar sinnar til barnabarnsins. Söguhetjan nær því að verða gagnmenntaður maður þó svo samfélagið hafi fellt harða dóma yfir honum sakir ólæsis hans.
Sögumaðurinn verður snemma eins konar boðberi fagnaðarerindisins án þess að vera nokkuð uppáþrengjandi. Myndskreyttar frásagnir úr Biblíu Dorés verða honum iðulega tilefni til að segja öðrum frá og þá meðal annars bekkjarsystkinum sínum, og öðrum síðar á lífsleiðinni.
Margar frásagnir bókarinnar eru eftirminnilegar og tær snilld eins og sú þar sem segir frá fermingarsamtali sögumannsins við prestinn. Söguhetjan er mælsk og fróð og frá henni streyma frásagnir úr kristinni trú og svör við ýmsum guðfræðilegum spurningum. Presturinn fermir hann þar sem þeir sitja í herbergi söguhetjunnar á heimilinu fyrir hin þroskahömluðu. Hann segist ekki þurfa að halda neina fermingarræðu yfir honum þar sem hann hafi gert það sjálfur. Kveður hann í lokin með þeim orðum að það sé skaði að söguhetjan skuli vera þroskaskert því að annars hefði vel eitthvað orðið úr henni (bls. 95-99).
Sjálf tekur söguhetjan upp á því að skera út myndir í tré (bls. 176). Hafði fengið við útskrift úr skólakerfinu sem gafst upp á því að kenna honum að lesa, gjöf frá sveitarfélaginu, bók með tréristum eftir Albrecht Dürer (bls. 69). Og auðvitað voru myndir Dorés skornar út í við og myndir þær sem söguhetjan sker út styðjast við minni hennar – ef rétt er skilið nokkurs konar eftirmyndir, misnákvæmar, af myndum Dorés.
Líf sögumanns er hamingjusamt líf þrátt fyrir allt. Fjárhagsleg afkoma hans er tryggð af fjölskyldunni, arfi. Hann fær atvinnu um tíma á listasafni þar sem hæfileikar til myndgreiningar á listaverkum nýtast honum enda hafði eins og fram er komið Dorés kennt honum margt! „Ég hafði einfaldlega fundið mér rétta hillu í tilverunni,“ segir hann (bls. 200). Fulltrúar skólakerfisins sópuðu honum af þeirri hillu því að dag nokkurn kom gömul kennslukona í safnið en hún var ein af mörgum sem glímt höfðu við að kenna honum að lesa. Hún þekkti hann aftur. Hann vildi sýna að úr honum hafði ræst og fór því að einu verkanna og sagði við nærstadda: „Þarna á þessu skilti má lesa eftirfarandi“ (bls. 207). Síðan tók hann að segja frá sem hann væri að lesa. Kennslukonan gamla tók eftir þessu og vissi sem svo að ekki hafði hann lesið þar sem þarna stóð – lesið það sem bókstafirnir stóðu fyrir – hann las reyndar með öðrum hætti eins og fram hefur komið. Hún kvartaði við forstöðumanninn sem segir honum umsvifalaust upp störfum. Söguhetjan afhendir messingsspjaldið sem allir starfsmenn safnsins báru á jökkum sínum – en það voru allt konur og hann eini karlmaðurinn. Um leið og hann afhenti spjaldið spurði hann forstöðumanninn hvað á því stæði. Og hann svaraði: „Gæslukona … Það voru mistök frá okkar hendi“ (bls. 212).
Svo farið sé hratt yfir sögu. Eintak af Biblíu Dorés varð á vegi sögumanns í lok sögunnar á sorpbrennslustöð þar sem hann vann. Það átti að fara í eldinn: „Og ég tók undir mig stærsta stökk ævi minnar, ég kastaði mér þvert yfir heimsbókmenntirnar, þær sem skildu mig frá Biblíu Dorés. Ég greip rauðglóandi bókina og þrýsti henni í örvæntingu og ólýsanlegri hamingju að brjósti mér. Svo hljóp ég af stað“ (bls. 249).
Þýðandi bókarinnar er Heimir Pálsson og skrifar jafnframt stuttan eftirmála. Þýðingin er vönduð og rennur vel enda vanur maður þar á ferð. Þetta er þriðja bókin sem Heimir þýðir eftir Torgny Lindgren. Biblía Dorés er 256 bls. Bókaútgáfan Ugla gefur út 2024.
Niðurstaða:
Hrífandi bók sem lesandi getur ekki sleppt frá sér fyrr en hann er búinn að lesa hana. Seiðmagnaður texti, ljóðrænn og umvefjandi. Eftirminnilegar persónur og söguefnið einstakt. Bók sem flytur visku og kærleika í hörðum heimi þar sem æðruleysis er þörf.