Á svölu sumri býður ljóðskáldið Anton Helgi Jónsson upp á forvitnilega ljóðagöngu með nýrri ljóðabók sem gefin er út í tilefni hálfrar aldar höfundarafmælis hans. Það er ekki á hverjum degi sem lesandi bindur á sig ljóðaskóna og gengur á vit ljóðanna en þessi ganga er svo sannarlega þess virði að rísa upp úr hægindastólum hversdagsins og fylgja skáldinu.

Græðikraftur ljóða er sá að þau flytja hugsanir í fáum orðum sem duga býsna lengi og eru ekki með neinar dagsetningar sem segja hvenær þau renna út. En það er ekki bara skáldið sem leiðir ljóðagönguna heldur slást ýmsir aðrir í för eins og mörg ljóðin enduróma. Ljóðagangan verður því fjörleg og það eru margir sem láta að sér kveða úr djúpi minninganna, núsins og framtíðarinnar. Þetta er sum sé tilverufræðileg og ljóðræn skemmtiganga þar sem horft er til ýmissa átta með bros á vör, spurningar í huga, vonir og þrár. En aldrei neinum leiða þó að einhver vonbrigðaský láti á sér kræla. Öllu er tekið með stóískri ró þó að mannleg og viðkvæm gremjan rumski einhvers staðar þar sem hún á heima. Yfir öllu svífur ákveðið æðruleysi og innileiki, ljúfmennska og réttlætiskennd. Hver lesandi ætti að kannast við sjálfan sig og fráleitt að bregða í brún enda þótt einhver kunni að hafa varpað yfir sig huliðshjálmi þegar kerfisvilla sat um líf hans.

Anton Helgi varpar upp myndum á ljóðavegg sinn sem lesandinn dregst að vegna þess að þær tala við hann með einhverri undarlegri seiðmagnandi rödd. Stundum finnst lesanda sem þetta séu myndir úr hans eigin lífi því hann kannast svo dæmalaust vel við þær en hefur aldrei dottið í hug að setja þær í ljóðrænan búning né heldur haft getu til þess. En skáldið beitir lesandann dásamlegum töfrum svo að þeim síðarnefnda finnst skáldið vera æskuvinur sinn sem gat alltaf talað fyrir hann.

Ljóð eru ekki bara myndbrot úr innstu afkimum sálarinnar heldur líka hversdagsleg leiftur úr lífinu sem brjóta upp daginn og gætu allt eins verið eins og hvert annað athyglisvert veggjakrot. Skilaboð sett fram af djúpri alvöru á stað sem flestir ganga um.

En skáldið er ekki eitt á ferð á síðum ljóðabókarinnar. Þar er og listakonan Sossa sem hefur gengið inn í ljóðaheim skáldsins og umbreytir orðum og hugmyndum í listaverk pensilsins með miklum glæsibrag. Það er líf á blaðsíðunum og listakonan gleymir því ekki að hún er að túlka ljóðin og láta þau blása sér anda ljóðlistarinnar í brjóst með sínu móti. Hér skilja skáldið og listakonan hvort annað svo bæði hljóta sóma af.

Anton Helgi hefur fengist við skáldskap í hálfa öld. Eftir hann liggja ellefu bækur. Sú fyrsta kom út þegar hann var 19 ára gamall árið 1974. Ljóðið hefur verið hans meginlistform og hann hefur aldrei brugðist því. Ljóð hans hafa jafnan vakið athygli ljóðaunnenda og langt út fyrir þann skemmtilega og dularfulla hóp sem sækir tilverufræðilegan kraft í ljóð og fegurð þeirra. Ljóðin eru kraftmikil og skáldið hefur sjaldan verið sprækara á ljóðaakrinum en einmitt í þessari bók.

Nafn ljóðabókarinnar hreyfir við lesandanum: Ég hugsa mig, nokkur ljóðaljóð og sagnir. Persóna ljóðskáldsins er í forgrunni eins og titillinn gefur til kynna en þó ekki í þeim skilningi að skáldið komist ekki út fyrir sjálft sig. Þvert á móti þó að margar vörður úr ævi skáldsins verði á vegi lesandans þá er alltaf annað fólk með í för eða ekki langt undan. Skáldið er augljóslega traustur ferðafélagi á ævigöngunni og ljóðagöngunni. Mörg ljóðanna endurspegla það. Á þessari göngu gerist enda margt og þar liggur orðið sagnir í heiti bókarinnar. Sagnir (sagnorð) segja nefnilega frá því sem gerist eða gerðist. Þess vegna er líka Yfirlit sagna í bókinni á fjórum síðustu blaðsíðunum. Það er vel til fundið.

Það er alltaf dálitlum vandkvæðum bundið að taka ljóðadæmi úr ljóðabókum sem eru í raun og veru ákveðin heild. Í sumum ljóðabókum eins og þessari standa ljóðin saman í orðsins fyllstu merkingu og ekkert þeirra er kannski mjög svo áfram um að læðast úr breiðfylkingunni til að láta ljós sitt skína eitt og sér. Ljóðin skína nefnilega öll sem heild. Mörg þeirra ítreka þessa heild með því að sumum þeirra lýkur á orði eða hugsun sem tekin er upp með öðrum hætti eða eðlislíkum í ljóðinu sem fylgir á eftir. Engu að síður skulu nú fjögur ljóð birt hér til að æsa ljóðasult lesenda því ef einhver sultur er sálarhollur þá er það sá.

Ég hverf inn í faðmlag sem bíður mín
hverf inn í morgunblæinn
inn í andvara kvöldsins

hverf inn í faðm þinn
eitt augnablik
kvölds og morgna

við kveðjumst á tröppunum
við heilsumst á tröppunum
þú ferð
þú kemur
þú finnur mig
laumar þinni svölu hendi í mína (bls. 15)

Í umfjöllunum Kirkjublaðsins.is um ljóð hefur stundum verið bent á að ljóðskáld séu full af vísdómi sem þurfi að fleyta áfram í þessum heimi sem og öðrum. Ljóðið er líka þess konar form að það er á mörkum margra heima eins og vel kemur fram í þessari ljóðabók Antons Helga. Það er ekki verið að segja að ljóðskáldin séu einhverjir prédikarar í gömlu merkingu þess orðs heldur kannski sjáendur sem eru  englar er svífa á milli hversdagsleikans og annars veruleika – annarrar víddar – og bjóða lesendum arminn.

Á blaðsíðu 21 er þetta athyglisverða ljóð:

Ég smíðaði stiga úr afar traustum viði
sem rak á land í órólegum draumi
þegar ég gisti eina nótt
hjá ættingja norður í landi.

Heimkominn með viðinn hóf ég smíðina
og fólkið spurði
hvað allt mitt pat út í loftið ætti að þýða.

Þið sjáið mig smíða stiga, útskýrði ég.
Þá ansaði fólkið: Vissulega
sjáum við þig
en engan sjáum  við stigann.

Enda smíða ég stiga til himna, svaraði ég
ég smíða minn himnastiga
sem þið sjáið aldrei
því barasta mig dreymdi efnið í hann.

Ég hélt síðan áfram að smíða
og efla
mína aflvana trú.

Sennilega hefur óréttlætið heimsótt alla einhvern tíma á ævinni og suma oft. Það gleymist hverjum og einum seint. Sumum aldrei. Á bls. 59 má lesa þetta ljóð þar sem óréttlætið kemur við sögu:

Ég virðist gráta tárum löngu horfins barns
sem kynntist vonbrigðum í afmælisveislu
þegar það fékk sér aftur
af bestu tertunni
en óréttlætið tók af því sneiðina
og færði síðbúnum gesti.

Tertan kláraðist, veislunni lauk
fólkið hvarf og árin liðu.

Núna býð ég fram hið eina
sem tíminn varðveitti:
ógrátin tár úr æsku minni.

Loksins, loksins, græt ég.
Það gat ég fyrst núna
gamalmennið
barnið
gamalmennisbarnið.

Þó að hver einstaklingur hafi sín einkenni þá eru oft hin sameiginlegu einkenni sem draga fram uppruna og ætt sem ekki verður undan vikist. Enginn flýr sína ættarsveit eða sitt ættarmót – hver manneskja ber með sér farangur annarra hvort heldur í útliti eða háttum. Á blaðsíðu 75 er þetta skemmtilega ljóð:

Ég bar hikandi kennsl á svipinn.

Hver á þennan svip?
Hver á þetta bros?

Í brosinu brosa foreldrarnir
í brosinu brosa systkinin
brosir fjölskyldan
brosir ættin
brosir allt sem megnar að brosa

en einkum brosir vöggubarnið
eigin brosi
sveipað öryggi óvissunnar.

Niðurstaða:

Ljóðabók Antons Helga er firnagóð, efnismikil og geymir bæði speki og næmni fyrir manneskjunum. Skáldið tekur lesandann með sér í uppbyggilegan og sammannlegan lífsleiðangur um margvíslegar slóðir lífsins af hugkvæmni og brakandi ljúfum hversdagsleika sem allir kannast við. Boðið er til veislu á hverri síðu með ljóði og myndum Sossu og þar er alltaf eitthvað nýtt. Anton Helgi er í hópi bestu ljóðskálda landsins og nafn hans mun lengi lifa meðan til er fólk sem kann að meta ljóð. Ég hugsa mig, nokkur ljóðaljóð og sagnir, er ljóðabók sem á heima á borði allra ljóðaunnenda. Kirkjublaðinu.is finnst hæfa að gefa henni fimmtíu stjörnur – eina fyrir árið hvert á öldinni frá því að höfundur sendi frá sér sína fyrstu bók.

 Anton Helgi Jónsson: Ég hugsa mig, nokkur ljóðaljóð og sagnir. Myndir við ljóðin gerði Sossa. Útgefandi Mál og menning, 2024, 95 bls.

Sossa og Anton Helgi á listsýningu Sossu sl.  fimmtudag

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Á svölu sumri býður ljóðskáldið Anton Helgi Jónsson upp á forvitnilega ljóðagöngu með nýrri ljóðabók sem gefin er út í tilefni hálfrar aldar höfundarafmælis hans. Það er ekki á hverjum degi sem lesandi bindur á sig ljóðaskóna og gengur á vit ljóðanna en þessi ganga er svo sannarlega þess virði að rísa upp úr hægindastólum hversdagsins og fylgja skáldinu.

Græðikraftur ljóða er sá að þau flytja hugsanir í fáum orðum sem duga býsna lengi og eru ekki með neinar dagsetningar sem segja hvenær þau renna út. En það er ekki bara skáldið sem leiðir ljóðagönguna heldur slást ýmsir aðrir í för eins og mörg ljóðin enduróma. Ljóðagangan verður því fjörleg og það eru margir sem láta að sér kveða úr djúpi minninganna, núsins og framtíðarinnar. Þetta er sum sé tilverufræðileg og ljóðræn skemmtiganga þar sem horft er til ýmissa átta með bros á vör, spurningar í huga, vonir og þrár. En aldrei neinum leiða þó að einhver vonbrigðaský láti á sér kræla. Öllu er tekið með stóískri ró þó að mannleg og viðkvæm gremjan rumski einhvers staðar þar sem hún á heima. Yfir öllu svífur ákveðið æðruleysi og innileiki, ljúfmennska og réttlætiskennd. Hver lesandi ætti að kannast við sjálfan sig og fráleitt að bregða í brún enda þótt einhver kunni að hafa varpað yfir sig huliðshjálmi þegar kerfisvilla sat um líf hans.

Anton Helgi varpar upp myndum á ljóðavegg sinn sem lesandinn dregst að vegna þess að þær tala við hann með einhverri undarlegri seiðmagnandi rödd. Stundum finnst lesanda sem þetta séu myndir úr hans eigin lífi því hann kannast svo dæmalaust vel við þær en hefur aldrei dottið í hug að setja þær í ljóðrænan búning né heldur haft getu til þess. En skáldið beitir lesandann dásamlegum töfrum svo að þeim síðarnefnda finnst skáldið vera æskuvinur sinn sem gat alltaf talað fyrir hann.

Ljóð eru ekki bara myndbrot úr innstu afkimum sálarinnar heldur líka hversdagsleg leiftur úr lífinu sem brjóta upp daginn og gætu allt eins verið eins og hvert annað athyglisvert veggjakrot. Skilaboð sett fram af djúpri alvöru á stað sem flestir ganga um.

En skáldið er ekki eitt á ferð á síðum ljóðabókarinnar. Þar er og listakonan Sossa sem hefur gengið inn í ljóðaheim skáldsins og umbreytir orðum og hugmyndum í listaverk pensilsins með miklum glæsibrag. Það er líf á blaðsíðunum og listakonan gleymir því ekki að hún er að túlka ljóðin og láta þau blása sér anda ljóðlistarinnar í brjóst með sínu móti. Hér skilja skáldið og listakonan hvort annað svo bæði hljóta sóma af.

Anton Helgi hefur fengist við skáldskap í hálfa öld. Eftir hann liggja ellefu bækur. Sú fyrsta kom út þegar hann var 19 ára gamall árið 1974. Ljóðið hefur verið hans meginlistform og hann hefur aldrei brugðist því. Ljóð hans hafa jafnan vakið athygli ljóðaunnenda og langt út fyrir þann skemmtilega og dularfulla hóp sem sækir tilverufræðilegan kraft í ljóð og fegurð þeirra. Ljóðin eru kraftmikil og skáldið hefur sjaldan verið sprækara á ljóðaakrinum en einmitt í þessari bók.

Nafn ljóðabókarinnar hreyfir við lesandanum: Ég hugsa mig, nokkur ljóðaljóð og sagnir. Persóna ljóðskáldsins er í forgrunni eins og titillinn gefur til kynna en þó ekki í þeim skilningi að skáldið komist ekki út fyrir sjálft sig. Þvert á móti þó að margar vörður úr ævi skáldsins verði á vegi lesandans þá er alltaf annað fólk með í för eða ekki langt undan. Skáldið er augljóslega traustur ferðafélagi á ævigöngunni og ljóðagöngunni. Mörg ljóðanna endurspegla það. Á þessari göngu gerist enda margt og þar liggur orðið sagnir í heiti bókarinnar. Sagnir (sagnorð) segja nefnilega frá því sem gerist eða gerðist. Þess vegna er líka Yfirlit sagna í bókinni á fjórum síðustu blaðsíðunum. Það er vel til fundið.

Það er alltaf dálitlum vandkvæðum bundið að taka ljóðadæmi úr ljóðabókum sem eru í raun og veru ákveðin heild. Í sumum ljóðabókum eins og þessari standa ljóðin saman í orðsins fyllstu merkingu og ekkert þeirra er kannski mjög svo áfram um að læðast úr breiðfylkingunni til að láta ljós sitt skína eitt og sér. Ljóðin skína nefnilega öll sem heild. Mörg þeirra ítreka þessa heild með því að sumum þeirra lýkur á orði eða hugsun sem tekin er upp með öðrum hætti eða eðlislíkum í ljóðinu sem fylgir á eftir. Engu að síður skulu nú fjögur ljóð birt hér til að æsa ljóðasult lesenda því ef einhver sultur er sálarhollur þá er það sá.

Ég hverf inn í faðmlag sem bíður mín
hverf inn í morgunblæinn
inn í andvara kvöldsins

hverf inn í faðm þinn
eitt augnablik
kvölds og morgna

við kveðjumst á tröppunum
við heilsumst á tröppunum
þú ferð
þú kemur
þú finnur mig
laumar þinni svölu hendi í mína (bls. 15)

Í umfjöllunum Kirkjublaðsins.is um ljóð hefur stundum verið bent á að ljóðskáld séu full af vísdómi sem þurfi að fleyta áfram í þessum heimi sem og öðrum. Ljóðið er líka þess konar form að það er á mörkum margra heima eins og vel kemur fram í þessari ljóðabók Antons Helga. Það er ekki verið að segja að ljóðskáldin séu einhverjir prédikarar í gömlu merkingu þess orðs heldur kannski sjáendur sem eru  englar er svífa á milli hversdagsleikans og annars veruleika – annarrar víddar – og bjóða lesendum arminn.

Á blaðsíðu 21 er þetta athyglisverða ljóð:

Ég smíðaði stiga úr afar traustum viði
sem rak á land í órólegum draumi
þegar ég gisti eina nótt
hjá ættingja norður í landi.

Heimkominn með viðinn hóf ég smíðina
og fólkið spurði
hvað allt mitt pat út í loftið ætti að þýða.

Þið sjáið mig smíða stiga, útskýrði ég.
Þá ansaði fólkið: Vissulega
sjáum við þig
en engan sjáum  við stigann.

Enda smíða ég stiga til himna, svaraði ég
ég smíða minn himnastiga
sem þið sjáið aldrei
því barasta mig dreymdi efnið í hann.

Ég hélt síðan áfram að smíða
og efla
mína aflvana trú.

Sennilega hefur óréttlætið heimsótt alla einhvern tíma á ævinni og suma oft. Það gleymist hverjum og einum seint. Sumum aldrei. Á bls. 59 má lesa þetta ljóð þar sem óréttlætið kemur við sögu:

Ég virðist gráta tárum löngu horfins barns
sem kynntist vonbrigðum í afmælisveislu
þegar það fékk sér aftur
af bestu tertunni
en óréttlætið tók af því sneiðina
og færði síðbúnum gesti.

Tertan kláraðist, veislunni lauk
fólkið hvarf og árin liðu.

Núna býð ég fram hið eina
sem tíminn varðveitti:
ógrátin tár úr æsku minni.

Loksins, loksins, græt ég.
Það gat ég fyrst núna
gamalmennið
barnið
gamalmennisbarnið.

Þó að hver einstaklingur hafi sín einkenni þá eru oft hin sameiginlegu einkenni sem draga fram uppruna og ætt sem ekki verður undan vikist. Enginn flýr sína ættarsveit eða sitt ættarmót – hver manneskja ber með sér farangur annarra hvort heldur í útliti eða háttum. Á blaðsíðu 75 er þetta skemmtilega ljóð:

Ég bar hikandi kennsl á svipinn.

Hver á þennan svip?
Hver á þetta bros?

Í brosinu brosa foreldrarnir
í brosinu brosa systkinin
brosir fjölskyldan
brosir ættin
brosir allt sem megnar að brosa

en einkum brosir vöggubarnið
eigin brosi
sveipað öryggi óvissunnar.

Niðurstaða:

Ljóðabók Antons Helga er firnagóð, efnismikil og geymir bæði speki og næmni fyrir manneskjunum. Skáldið tekur lesandann með sér í uppbyggilegan og sammannlegan lífsleiðangur um margvíslegar slóðir lífsins af hugkvæmni og brakandi ljúfum hversdagsleika sem allir kannast við. Boðið er til veislu á hverri síðu með ljóði og myndum Sossu og þar er alltaf eitthvað nýtt. Anton Helgi er í hópi bestu ljóðskálda landsins og nafn hans mun lengi lifa meðan til er fólk sem kann að meta ljóð. Ég hugsa mig, nokkur ljóðaljóð og sagnir, er ljóðabók sem á heima á borði allra ljóðaunnenda. Kirkjublaðinu.is finnst hæfa að gefa henni fimmtíu stjörnur – eina fyrir árið hvert á öldinni frá því að höfundur sendi frá sér sína fyrstu bók.

 Anton Helgi Jónsson: Ég hugsa mig, nokkur ljóðaljóð og sagnir. Myndir við ljóðin gerði Sossa. Útgefandi Mál og menning, 2024, 95 bls.

Sossa og Anton Helgi á listsýningu Sossu sl.  fimmtudag

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir