Kirkjublaðið.is birtir erindi Einars Karls Haraldssonar, fyrrv. ritstjóra, sem hann flutti á Skálholtshátíð 20. júlí sl. á málstofu til minningar um sr. Karl Sigurbörnsson (1947-2024), biskup. 

Í gær birti Kirkjublaðið.is erindi Steinunnar Jóhannesdóttur, rithöfundar. 

Kirkjublaðið.is þakkar þeim Steinunni og Einari Karli fyrir þessi tvö áhugaverðu erindi.

Við undirbúning þessa erindis um áhrif Karls Sigurbjörnssonar á listalíf í kirkjunni, kom ósjálfrátt upp í hugann sú staðreynd að þegar fjölskyldur okkar byggðu saman hús á Skólavörðuholtinu í Reykjavík þá var það reist á svo traustu bjargi að horfið var frá því að koma grunninum eins langt niður og ætlunin var. Þannig varð svo um vináttu og samstarf okkar í framhaldinu, það var allt saman bjargfast og bifaðist ekki. Þetta kann að vefjast fyrir í hlutlægu mati á lífshlaupi Karls en þó fremur hitt að hann var frábitinn allri markaðssetningu á sjálfum sér og hirti ekki um að halda fram sínum hlut í framvindu mála. Hann lét sér oftast nægja að vera sáðmaðurinn!

Teikning og myndskreyting

Ungur gekk Karl í „háskólann á Skólavörðuholti“, eins og hann nefndi athafnasvæði forvitins stráks þar sem samankomnir voru helstu handverksmenn og listafólk af öllu tagi sem hann sniglaðist í kringum. Þau viðhorf hlaut hann í veganesti, að bera virðingu fyrir vinnunni, erfiði manns og lífsbaráttu. Handverk, list, menning, að vanda sig við verk sín af virðingu fyrir efniviðnum og manneskjunni sem njóta skal. Heima lærði hann af móður sinni að þekkja hinar mismunandi tegundir hannyrða, harðangur og klaustur, hvítsaum og flatsaum, Feneyjasaum og hvað það var nú kallað. Þegar hann löngu síðar var að vísitera kirkjur landsins lagði Karl sig eftir því að lyfta fram og skrá nöfn hannyrðakvennanna í sóknunum sem lagt höfðu kirkjum sínum til altarisdúka og brúnir. Og þurfti að hafa mikið fyrir að grafa fram nöfn þeirra.

Á menntaskólaaldri stóð hugur Karls til þess að nema arkitektúr í Danmörku. Enda var hann síteiknandi og fyrir augum hans var hið mikla stórvirki Guðjóns Samúelssonar að þokast upp á Skólavörðuholtinu steinsnar frá hans æskuheimili á Freyjugötunni. Hann sótti einnig námskeið í Handíða- og myndlistarskólanum. Teikniáráttan skilaði sér síðan ríkulega á kirkjulegum vettvangi. Dæmigert var þó að Karl talaði um teikningar sínar sem smámyndir, riss og dundur. Þær eru þó í hæsta máta einlægar og tjá svo vel hið fíngerða, smáa og viðkvæma í tilverunni. Það er hægt að segja svo mikið með snjallri teikningu. Margar skreyttu upphaflega messublöð í Hallgrímskirkju. Eins og hin mikla ritaskrá hans ber vott um þá birtust teikningarnar til dæmis í merkjum á Sálmabók íslensku kirkjunnar, í heftinu Hreyfisöngvum, bókinni Táknmáli trúarinnar, prédikanasafninu Í helgum steini, Bókinni um englana þar sem Karl er í essinu sínu að segja sínar sögur af englum og Bænabókinni vinsælu.

Skálholtsfélagið nýja beitti sér fyrir gerð minningarmarks um Ragnheiði Brynjólfsdóttur og kom það í hlut Karls að hanna það. Nú í ágúst verður nýr steinn settur á leiði Hallgríms Péturssonar í garðinum við Hallgrímskirkju í Saurbæ með nöfnum hans og Guðríðar Símonardóttur. Teikningin á steininum er sömuleiðis verk Karls Sigurbjörnssonar.

Talandi um vinsældir þá voru Orð í gleði og Til þín sem átt um sárt að binda, algjörar metsölubækur hjá Skálholtsútgáfunni enda forgönguverk hvor á sínu sviði. Og með myndskreytingu á Jólaandanum, sögubók sonar síns Guðjóns Davíðs, sýndi hann ótvírætt myndlistarhæfileika sína. Full ástæða væri til þess að gera myndverkum Karls skil í bók og/eða sýningu.

Hið talaða og ritaða orð varð þó hans helsti vettvangur og að kvöldi dags fékkst hann við þýðingar af listfengi, meðal annars kynnti hann okkur fyrir höfundinum Marylinne Robinson með útgáfu siðferðilegu skáldsagnanna Gilead í þremur bindum hjá Uglu útgáfu. Og ekki má gleyma Facebook-söfnuðinum stóra sem hann myndaði og nærði með vísdóms- og huggunarorðum fram í andlátið!

Takið eftir, kæru áheyrendur, að allt sem hér hefur verið nefnt af iðju Karls gerði hann í þágu þjónustunnar við fagnaðarerindið.

Ekki fyrirhafnarlaust

Karl var þess utan alinn upp í því viðhorfi að engin list væri kirkjunni óviðkomandi fremur en annað mannlegt. Hann tók því af lífi og sál þátt í stofnun Listvinafélags Hallgrímskirkju 1982 enda var það hugsað sem sjálfstætt kirkjufélag sem stuðlaði að boðun fagnaðarerindisins með listrænni túlkun á mörgum sviðum auk þess sem það stækkaði í raun sóknarmörk Hallgrímssafnaðar. Í júlí 1987 var fyrsta kirkjulistahátíðin haldin í Hallgrímskirkju og æ síðan hefur mikill metnaður einkennt tónlistar- og listastarf þar sem haft hefur margvísleg áhrif innan kirkjunnar á landsvísu. Samstarf hans við framúrskarandi tónlistarfólk eins og til að mynda Þorgerði Ingólfsdóttir, Ingu Rós Ingólfsdóttur og Hörð Áskelsson bar mikinn ávöxt.

„Maður nokkur fór til læknis sem skoðaði hann hátt og lágt og sagði svo: „Það sem að þér er er Desidia magna.“ „Hvað þýðir það?“ spurði maðurinn áhyggjufullur. „Ja, eiginlega bara haugaleti,“ sagði læknirinn. „Æ, værirðu ekki til í að skrifa latneska heitið á vottorðið“, sagði þá sjúklingurinn.“ Þessi saga er eins og ykkur grunar úr einni af prédikunum Karls. Hann hafði ótal sögur á hraðbergi, oft fullar af glettni og gamansemi og fólk þyrsti í að hlýða á hann. Winston Churchill sagði eitt sinn að hann hefði varið þriðjungi ævi sinnar í að undirbúa óundirbúnar ræður. Áhrifaríkar prédikanir og kostulegar frásagnir Karls voru á sama hátt ekki fyrirhafnarlausar eins og Rannveig dóttir hans lýsir svo vel í minningargrein um föður sinn:

„Honum féll aldrei verk úr hendi, skrifaði prédikanir, þýddi bækur, las ógrynnin öll af bókum, sér til gamans og uppfræðslu. Enda var hann mín alfræðibók, mitt eigið uppflettirit. Ef svo ólíklega vildi til að hann hafði ekki svörin, þá fletti hann upp í bók og dró þau fram. Vissi nákvæmlega hvar þau var að finna og miðlaði áfram. Það var sama hver spurningin var, um trúarbragðafræði, sagnfræði, list, arkitektúr, hönnun, leiklist, tónlist, allt milli himins og jarðar.“

Við erum mörg sem nutum þeirra forréttinda fram á síðasta dag í hans jarðlífi að geta flett upp í þeirri alfræðibók sem hann var kirkjunnar fólki. Guðný Einarsdóttir söngmálastjóri leitaði til Karls á föstudagskvöldinu sem hann fór svo á sjúkrahúsið í hinsta sinn. Hana vantaði enska þýðingu á sálminum Nú hverfur sól í haf til birtingar í Alþjóðlegri sálmabók sem gefin er út vegna 500 ára afmælis fyrstu Wittenberg sálmabókarinnar, Geystliche gesangk Buchleyn, sem Marteinn Lúther skrifaði formála fyrir 1524. Gegn ráðum nærstaddra rauk Karl til upp úr rúminu, fann í hvelli þýðinguna og sendi bróðurdóttur sinni í tölvupósti.

Meðal þeirra fjölmörgu um allt land sem nutu Karls í samtali og samráði um táknmál trúar, kristni og kirkju voru Leifur Breiðfjörð glerlistamaður og Sigríður Jóhannsdóttir veflistamaður. Karl átti frumkvæði að því að leitað var til þeirra um myndglugga og búnað kapellu við nýja Kvennadeild Landspítalans og áttu þau afar skemmtilegt samstarf um hönnun kapellunnar, sem vígð var 1982 og varð hinn fegursti helgidómur. Nú hefur kapellan verið tekin ofan, munir og listbúnaður fjarlægður. Afhelgunin hefur tekið yfir, segir Karl. Sigríður, Leifur og Karl áttu náið samstarf um listbúnað og kirkjuskrúða í Hallgrímskirkju um árabil, og er mér kunnugt um að það samstarf var Karli afar dýrmætt og gefandi.

Engin haugaleti í Hallgrímskirkju

Haugaletin einkenndi ekki vinnubrögðin í Hallgrímskirkju á þeim tæplega 23 árum sem prestskapur Karls varði við kirkjuna. Sjálfum var honum jafnan í huga það stórvirki og nánast að segja óðra manna æði sem einkenndi lokasprettinn fyrir vígslu Hallgrímskirkju 1986. Fáir trúðu á að það tækist að koma kirkjunni í vígsluhæft ástand fyrir 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar 26. október 1986. En það tókst með ósérhlífnu átaki ráðamanna hjá ríki og borg, velunnara, verkamanna, starfsfólks og sóknarnefndar. Og ekki má gleyma Kvenfélaginu sem Karl þreyttist aldrei á að lofa og prísa. Félagið safnaði fyrir mörgum listmunum, vefnaði, höklum og öðrum búnaði til helgihalds í kirkjunni og þar voru í fyrirrúmi einstakar dugnaðarkonur. Gefum Karli orðið:

„Einhverju sinni á fyrsta starfsári okkar í Hallgrímskirkju mættu þessar glæsilegu, dugmiklu forystukonur á stjórnarfund heima hjá okkur. Ég var á leið út til einhverra prestverka og Kristín kallar á eftir mér: „Æ, hentu ruslinu í leiðinni.“ Þá heyrðist innan úr stofu: „Almáttugur, hún lætur prestinn fara út með ruslið!“ En Kristín svaraði að bragði: „Nei, nei, ég læt bara hann Kalla gera það!“

Og Kalli taldi ekki eftir sér að ganga í öll verk enda hamhleypa til verka, skipulagður og fljótvirkur.

Birtan tæra engu lík

Eftir vígslu kirkjunnar 1986 hafði Alþingi frumkvæði að því að skipuð væri sjö manna listskreytingarnefnd vegna Hallgrímskirkju enda væri hún þjóðarhelgidómur og á ábyrgð Alþingis og Reykjavíkurborgar. Þetta var að sjálfsögðu fagnaðarefni og Karl óskaði eftir því að eiga sæti í nefndinni en því var hafnað. Því var einnig hafnað að prestar kirkjunnar fengju áheyrnaraðild að nefndinni. Nefndin fékk dr. Horst Schwebel kirkjulistfræðing til þess að gera skýrslu og hann setti fram djarfar og nýstárlegar skoðanir. Hann vildi skreyta kirkjuna í samræmi við 19. aldar nýgotík; hafa kirkjuskipið í miklum og björtum litum; gera kirkjuna að höfuðkirkju Norðursins; búa hana myndgluggasafni með verkum erlendra glerlistamanna; hafa hana sem kristalskirkju og með miklum róðukrossi hangandi í kór. Bæði Sigurbjörn og Karl snérust gegn meginhugmyndum dr. Schwebels og Karl rökstuddi þá skoðun sína að Hallgrímskirkju mætti helst jafna til kirkjubygginga í Evrópu á fyrri hluta 20. aldar. Í annan stað vildi Karl að kirkjan yrði fyrst og fremst íslensk:

„Við nánari og lengri viðkynningu,“ segir hann, „verður mér æ betur ljóst hve birtan í kirkjunni gefur henni mikinn svip. Þessi tæra birta er það sem erlendir ferðamenn hrífast mest af í kirkjunni, því það er ólíkt öllum öðrum kirkjum, vegna þess að birtan tæra á Íslandi er engri lík. Það er afar brýnt að spilla ekki þessum áhrifum.“

„Séra Karl minn, á að úthýsa Kristi?“

Þessi stefna Karls hefur orðið ríkjandi í Hallgrímskirkju. Hún er mínimalísk í þeim skilningi að halda fyrst og fremst í það sem er mikilvægast. Margt í tillögum listskreytingarnefndar átti þó rétt á sér og ýmislegt komst til framkvæmda. Og enn vakir hugmyndin um að í neðri glugga kórs verði komið fyrir steindu gleri sem vísi til Hallgríms Péturssonar, þó með upprisumótívi í miðglugga sem var viðbót frá Sigurbirni Einarssyni.

Sem dæmi um að list í kirkju geti verið ágreiningsefni var það viðhorf Péturs Sigurgeirssonar biskups að Kristsstytta Einars Jónssonar, sem listamaðurinn gaf Hallgrímskirkju, yrði látin standa bak við altari í kór. Karli fannst það ekki koma til greina, hvorki stíll kirkjunnar né guðfræðilegar og helgisiðafræðilegar forsendur leyfðu það. Svo væri aðeins ein fyrirmynd að slíku sem er Frúarkirkjan í Kaupmannahöfn, og Niðarósdómkirkja um tíma á 19. öld, en því var breytt. Biskup var afar ósáttur. Það endaði með því að hann horfði fast í augu Karls og sagði með áhersluþunga: „Séra Karl minn, ætlarðu að úthýsa Kristi úr kirkju hans?“ Karli segist svo frá að honum hafi næstum orðið orðfall en hafi með herkjum getað svarað:

„Kristur er ekki myndastytta, návist Krists í kirkju hans er ekki undir því komin hvar einni mynd er komið fyrir. Návist hans er í orðinu og sakramentinu, það er altarið sem markar þá návist, engin mynd.“

Nú vakir Kristsstytta Einars Jónssonar, með hendur verkalýðsforingjans Guðmundar J. Guðmundssonar sem fyrirmynd, yfir bænastað Hallgrímskirkju þar sem beðið er fyrir fólki og þúsundir ferðamanna og gesta rita bænir sem bornar eru í körfum upp að altari vikulega.

Dr. Elisabeth Stengaard kirkjulistfræðingur kom hér til fyrirlestrahalds, m.a. í Skálholti vorið 1991, og tók undir meginviðhorf Karls í heimsókn í Hallgrímskirkju. Hennar kenning var að heilagt rými yrði fyrst og fremst til í frumformum kirkjubygginga og í Hallgrímskirkju þyrfti að gæta þess að trufla ekki sjónlínur þannig að helgi grunnformsins fengi að njóta sín. Reynt var að fylgja því við gerð prédikunarstóls og við staðsetningu Fróbeníus kórorgelsins sem nú hefur gengið í endurnýjun lífdaganna með mikilli stækkun. En skiptar skoðanir eru enn og félag mun hafa verið stofnað um að koma eftirlíkingu af hinni fögru Jesústyttu Bertil Thorvaldsens fyrir í kór Hallgrímskirkju. Ólíklegt verður að telja að sú hugmynd verði að veruleika meðan áhrifa Karls Sigurbjörnssonar gætir í kirkjunni.

 Traust hjálparhella þýðenda

Sigurbjörn Einarsson og Karl sonur hans voru meðal traustustu hjálparhellna þeirra sem ráðist hafa í að þýða Passíusálma Hallgríms á sín móðurmál. Enn eru óútkomnar þýðingar sem Karl hafði veður af eins og á færeysku og finnsku en við höfum vitnisburð Graciu Grindal um hlut hans í nýjustu þýðingu á Passíusálmunum á ensku sem Hallgrímskirkja hefur gefið út. Cracia er ljóðskáld og prófessor emeritus í lútherskum prédikunarfræðum við St. Paul háskólann í Minnesota. Hún fékk köllun til þýðingarinnar komin á eftirlaun.

„Á hverjum degi reyndi ég,“ segir hún, „að snúa Hallgrími á ljóðræna ensku og seint á kvöldin sendi ég Karli dagsverkið. Það brást ekki því að morguninn eftir vaknaði ég við svar frá honum þar sem umhyggjusöm, lærð og ljóðræn gagnrýni á minn texta var sett fram. Deginum varði ég svo við það að vinna áfram í textanum. Þetta var satt að segja afar gaman. Án Karls hefði verkið ekki orðið eins trútt og vandað og raun ber vitni. Fræðileg hæfni hans og gott eyra fyrir enskri tungu gerði þýðingarvinnuna ríka af gleði.“

Sem biskup var Karl kirkjuarkitekt

Í lokin þetta. Séra Helga Soffía Konráðsdóttir, sóknarprestur og fyrrverandi prófastur, hitti naglann á höfuðið þegar hún sagði í minningargrein að Karl hefði sem biskup reynst vera kirkjuarkitekt. Af glöggskyggni kemur hún auga á það að margt sem mótuð var stefna um og innleitt í biskupstíð Karls hefur reynst vera óbrotgjarnt – hyrningarsteinar sem kirkjan getur byggt á til framtíðar.

Ekki gefst tóm til þess að gera þeim áhrifum sem Karl hafði á þeim vettvangi skil í dag heldur hef ég haldið mér að mestu við Hallgrímskirkju sem ég þekki. Þar fannst Karli mikilvægt að byggja upp helgihald sem hæfði hinum stóra helgidómi þar sem augu og sjón væru virkjuð í þágu tilbeiðslu og boðunar. Enn lifa til dæmis góðu lífi í kirkjunni altarisganga hvern sunnudag;  helgiganga á pálmasunnudag með birkikvisti líkt og gert var forðum með pálmagreinar í borgarhliðum Jerúsalem og Getsemanestundin áhrifaríka á skírdagskvöld svo og lestur Passíusálma á föstudaginn langa sem breiddist út um landið.

 

Sr. Karl Sigurbjörnsson (1947-2024), biskup.  Mynd: Kirkjublaðið.is

 

 

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Kirkjublaðið.is birtir erindi Einars Karls Haraldssonar, fyrrv. ritstjóra, sem hann flutti á Skálholtshátíð 20. júlí sl. á málstofu til minningar um sr. Karl Sigurbörnsson (1947-2024), biskup. 

Í gær birti Kirkjublaðið.is erindi Steinunnar Jóhannesdóttur, rithöfundar. 

Kirkjublaðið.is þakkar þeim Steinunni og Einari Karli fyrir þessi tvö áhugaverðu erindi.

Við undirbúning þessa erindis um áhrif Karls Sigurbjörnssonar á listalíf í kirkjunni, kom ósjálfrátt upp í hugann sú staðreynd að þegar fjölskyldur okkar byggðu saman hús á Skólavörðuholtinu í Reykjavík þá var það reist á svo traustu bjargi að horfið var frá því að koma grunninum eins langt niður og ætlunin var. Þannig varð svo um vináttu og samstarf okkar í framhaldinu, það var allt saman bjargfast og bifaðist ekki. Þetta kann að vefjast fyrir í hlutlægu mati á lífshlaupi Karls en þó fremur hitt að hann var frábitinn allri markaðssetningu á sjálfum sér og hirti ekki um að halda fram sínum hlut í framvindu mála. Hann lét sér oftast nægja að vera sáðmaðurinn!

Teikning og myndskreyting

Ungur gekk Karl í „háskólann á Skólavörðuholti“, eins og hann nefndi athafnasvæði forvitins stráks þar sem samankomnir voru helstu handverksmenn og listafólk af öllu tagi sem hann sniglaðist í kringum. Þau viðhorf hlaut hann í veganesti, að bera virðingu fyrir vinnunni, erfiði manns og lífsbaráttu. Handverk, list, menning, að vanda sig við verk sín af virðingu fyrir efniviðnum og manneskjunni sem njóta skal. Heima lærði hann af móður sinni að þekkja hinar mismunandi tegundir hannyrða, harðangur og klaustur, hvítsaum og flatsaum, Feneyjasaum og hvað það var nú kallað. Þegar hann löngu síðar var að vísitera kirkjur landsins lagði Karl sig eftir því að lyfta fram og skrá nöfn hannyrðakvennanna í sóknunum sem lagt höfðu kirkjum sínum til altarisdúka og brúnir. Og þurfti að hafa mikið fyrir að grafa fram nöfn þeirra.

Á menntaskólaaldri stóð hugur Karls til þess að nema arkitektúr í Danmörku. Enda var hann síteiknandi og fyrir augum hans var hið mikla stórvirki Guðjóns Samúelssonar að þokast upp á Skólavörðuholtinu steinsnar frá hans æskuheimili á Freyjugötunni. Hann sótti einnig námskeið í Handíða- og myndlistarskólanum. Teikniáráttan skilaði sér síðan ríkulega á kirkjulegum vettvangi. Dæmigert var þó að Karl talaði um teikningar sínar sem smámyndir, riss og dundur. Þær eru þó í hæsta máta einlægar og tjá svo vel hið fíngerða, smáa og viðkvæma í tilverunni. Það er hægt að segja svo mikið með snjallri teikningu. Margar skreyttu upphaflega messublöð í Hallgrímskirkju. Eins og hin mikla ritaskrá hans ber vott um þá birtust teikningarnar til dæmis í merkjum á Sálmabók íslensku kirkjunnar, í heftinu Hreyfisöngvum, bókinni Táknmáli trúarinnar, prédikanasafninu Í helgum steini, Bókinni um englana þar sem Karl er í essinu sínu að segja sínar sögur af englum og Bænabókinni vinsælu.

Skálholtsfélagið nýja beitti sér fyrir gerð minningarmarks um Ragnheiði Brynjólfsdóttur og kom það í hlut Karls að hanna það. Nú í ágúst verður nýr steinn settur á leiði Hallgríms Péturssonar í garðinum við Hallgrímskirkju í Saurbæ með nöfnum hans og Guðríðar Símonardóttur. Teikningin á steininum er sömuleiðis verk Karls Sigurbjörnssonar.

Talandi um vinsældir þá voru Orð í gleði og Til þín sem átt um sárt að binda, algjörar metsölubækur hjá Skálholtsútgáfunni enda forgönguverk hvor á sínu sviði. Og með myndskreytingu á Jólaandanum, sögubók sonar síns Guðjóns Davíðs, sýndi hann ótvírætt myndlistarhæfileika sína. Full ástæða væri til þess að gera myndverkum Karls skil í bók og/eða sýningu.

Hið talaða og ritaða orð varð þó hans helsti vettvangur og að kvöldi dags fékkst hann við þýðingar af listfengi, meðal annars kynnti hann okkur fyrir höfundinum Marylinne Robinson með útgáfu siðferðilegu skáldsagnanna Gilead í þremur bindum hjá Uglu útgáfu. Og ekki má gleyma Facebook-söfnuðinum stóra sem hann myndaði og nærði með vísdóms- og huggunarorðum fram í andlátið!

Takið eftir, kæru áheyrendur, að allt sem hér hefur verið nefnt af iðju Karls gerði hann í þágu þjónustunnar við fagnaðarerindið.

Ekki fyrirhafnarlaust

Karl var þess utan alinn upp í því viðhorfi að engin list væri kirkjunni óviðkomandi fremur en annað mannlegt. Hann tók því af lífi og sál þátt í stofnun Listvinafélags Hallgrímskirkju 1982 enda var það hugsað sem sjálfstætt kirkjufélag sem stuðlaði að boðun fagnaðarerindisins með listrænni túlkun á mörgum sviðum auk þess sem það stækkaði í raun sóknarmörk Hallgrímssafnaðar. Í júlí 1987 var fyrsta kirkjulistahátíðin haldin í Hallgrímskirkju og æ síðan hefur mikill metnaður einkennt tónlistar- og listastarf þar sem haft hefur margvísleg áhrif innan kirkjunnar á landsvísu. Samstarf hans við framúrskarandi tónlistarfólk eins og til að mynda Þorgerði Ingólfsdóttir, Ingu Rós Ingólfsdóttur og Hörð Áskelsson bar mikinn ávöxt.

„Maður nokkur fór til læknis sem skoðaði hann hátt og lágt og sagði svo: „Það sem að þér er er Desidia magna.“ „Hvað þýðir það?“ spurði maðurinn áhyggjufullur. „Ja, eiginlega bara haugaleti,“ sagði læknirinn. „Æ, værirðu ekki til í að skrifa latneska heitið á vottorðið“, sagði þá sjúklingurinn.“ Þessi saga er eins og ykkur grunar úr einni af prédikunum Karls. Hann hafði ótal sögur á hraðbergi, oft fullar af glettni og gamansemi og fólk þyrsti í að hlýða á hann. Winston Churchill sagði eitt sinn að hann hefði varið þriðjungi ævi sinnar í að undirbúa óundirbúnar ræður. Áhrifaríkar prédikanir og kostulegar frásagnir Karls voru á sama hátt ekki fyrirhafnarlausar eins og Rannveig dóttir hans lýsir svo vel í minningargrein um föður sinn:

„Honum féll aldrei verk úr hendi, skrifaði prédikanir, þýddi bækur, las ógrynnin öll af bókum, sér til gamans og uppfræðslu. Enda var hann mín alfræðibók, mitt eigið uppflettirit. Ef svo ólíklega vildi til að hann hafði ekki svörin, þá fletti hann upp í bók og dró þau fram. Vissi nákvæmlega hvar þau var að finna og miðlaði áfram. Það var sama hver spurningin var, um trúarbragðafræði, sagnfræði, list, arkitektúr, hönnun, leiklist, tónlist, allt milli himins og jarðar.“

Við erum mörg sem nutum þeirra forréttinda fram á síðasta dag í hans jarðlífi að geta flett upp í þeirri alfræðibók sem hann var kirkjunnar fólki. Guðný Einarsdóttir söngmálastjóri leitaði til Karls á föstudagskvöldinu sem hann fór svo á sjúkrahúsið í hinsta sinn. Hana vantaði enska þýðingu á sálminum Nú hverfur sól í haf til birtingar í Alþjóðlegri sálmabók sem gefin er út vegna 500 ára afmælis fyrstu Wittenberg sálmabókarinnar, Geystliche gesangk Buchleyn, sem Marteinn Lúther skrifaði formála fyrir 1524. Gegn ráðum nærstaddra rauk Karl til upp úr rúminu, fann í hvelli þýðinguna og sendi bróðurdóttur sinni í tölvupósti.

Meðal þeirra fjölmörgu um allt land sem nutu Karls í samtali og samráði um táknmál trúar, kristni og kirkju voru Leifur Breiðfjörð glerlistamaður og Sigríður Jóhannsdóttir veflistamaður. Karl átti frumkvæði að því að leitað var til þeirra um myndglugga og búnað kapellu við nýja Kvennadeild Landspítalans og áttu þau afar skemmtilegt samstarf um hönnun kapellunnar, sem vígð var 1982 og varð hinn fegursti helgidómur. Nú hefur kapellan verið tekin ofan, munir og listbúnaður fjarlægður. Afhelgunin hefur tekið yfir, segir Karl. Sigríður, Leifur og Karl áttu náið samstarf um listbúnað og kirkjuskrúða í Hallgrímskirkju um árabil, og er mér kunnugt um að það samstarf var Karli afar dýrmætt og gefandi.

Engin haugaleti í Hallgrímskirkju

Haugaletin einkenndi ekki vinnubrögðin í Hallgrímskirkju á þeim tæplega 23 árum sem prestskapur Karls varði við kirkjuna. Sjálfum var honum jafnan í huga það stórvirki og nánast að segja óðra manna æði sem einkenndi lokasprettinn fyrir vígslu Hallgrímskirkju 1986. Fáir trúðu á að það tækist að koma kirkjunni í vígsluhæft ástand fyrir 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar 26. október 1986. En það tókst með ósérhlífnu átaki ráðamanna hjá ríki og borg, velunnara, verkamanna, starfsfólks og sóknarnefndar. Og ekki má gleyma Kvenfélaginu sem Karl þreyttist aldrei á að lofa og prísa. Félagið safnaði fyrir mörgum listmunum, vefnaði, höklum og öðrum búnaði til helgihalds í kirkjunni og þar voru í fyrirrúmi einstakar dugnaðarkonur. Gefum Karli orðið:

„Einhverju sinni á fyrsta starfsári okkar í Hallgrímskirkju mættu þessar glæsilegu, dugmiklu forystukonur á stjórnarfund heima hjá okkur. Ég var á leið út til einhverra prestverka og Kristín kallar á eftir mér: „Æ, hentu ruslinu í leiðinni.“ Þá heyrðist innan úr stofu: „Almáttugur, hún lætur prestinn fara út með ruslið!“ En Kristín svaraði að bragði: „Nei, nei, ég læt bara hann Kalla gera það!“

Og Kalli taldi ekki eftir sér að ganga í öll verk enda hamhleypa til verka, skipulagður og fljótvirkur.

Birtan tæra engu lík

Eftir vígslu kirkjunnar 1986 hafði Alþingi frumkvæði að því að skipuð væri sjö manna listskreytingarnefnd vegna Hallgrímskirkju enda væri hún þjóðarhelgidómur og á ábyrgð Alþingis og Reykjavíkurborgar. Þetta var að sjálfsögðu fagnaðarefni og Karl óskaði eftir því að eiga sæti í nefndinni en því var hafnað. Því var einnig hafnað að prestar kirkjunnar fengju áheyrnaraðild að nefndinni. Nefndin fékk dr. Horst Schwebel kirkjulistfræðing til þess að gera skýrslu og hann setti fram djarfar og nýstárlegar skoðanir. Hann vildi skreyta kirkjuna í samræmi við 19. aldar nýgotík; hafa kirkjuskipið í miklum og björtum litum; gera kirkjuna að höfuðkirkju Norðursins; búa hana myndgluggasafni með verkum erlendra glerlistamanna; hafa hana sem kristalskirkju og með miklum róðukrossi hangandi í kór. Bæði Sigurbjörn og Karl snérust gegn meginhugmyndum dr. Schwebels og Karl rökstuddi þá skoðun sína að Hallgrímskirkju mætti helst jafna til kirkjubygginga í Evrópu á fyrri hluta 20. aldar. Í annan stað vildi Karl að kirkjan yrði fyrst og fremst íslensk:

„Við nánari og lengri viðkynningu,“ segir hann, „verður mér æ betur ljóst hve birtan í kirkjunni gefur henni mikinn svip. Þessi tæra birta er það sem erlendir ferðamenn hrífast mest af í kirkjunni, því það er ólíkt öllum öðrum kirkjum, vegna þess að birtan tæra á Íslandi er engri lík. Það er afar brýnt að spilla ekki þessum áhrifum.“

„Séra Karl minn, á að úthýsa Kristi?“

Þessi stefna Karls hefur orðið ríkjandi í Hallgrímskirkju. Hún er mínimalísk í þeim skilningi að halda fyrst og fremst í það sem er mikilvægast. Margt í tillögum listskreytingarnefndar átti þó rétt á sér og ýmislegt komst til framkvæmda. Og enn vakir hugmyndin um að í neðri glugga kórs verði komið fyrir steindu gleri sem vísi til Hallgríms Péturssonar, þó með upprisumótívi í miðglugga sem var viðbót frá Sigurbirni Einarssyni.

Sem dæmi um að list í kirkju geti verið ágreiningsefni var það viðhorf Péturs Sigurgeirssonar biskups að Kristsstytta Einars Jónssonar, sem listamaðurinn gaf Hallgrímskirkju, yrði látin standa bak við altari í kór. Karli fannst það ekki koma til greina, hvorki stíll kirkjunnar né guðfræðilegar og helgisiðafræðilegar forsendur leyfðu það. Svo væri aðeins ein fyrirmynd að slíku sem er Frúarkirkjan í Kaupmannahöfn, og Niðarósdómkirkja um tíma á 19. öld, en því var breytt. Biskup var afar ósáttur. Það endaði með því að hann horfði fast í augu Karls og sagði með áhersluþunga: „Séra Karl minn, ætlarðu að úthýsa Kristi úr kirkju hans?“ Karli segist svo frá að honum hafi næstum orðið orðfall en hafi með herkjum getað svarað:

„Kristur er ekki myndastytta, návist Krists í kirkju hans er ekki undir því komin hvar einni mynd er komið fyrir. Návist hans er í orðinu og sakramentinu, það er altarið sem markar þá návist, engin mynd.“

Nú vakir Kristsstytta Einars Jónssonar, með hendur verkalýðsforingjans Guðmundar J. Guðmundssonar sem fyrirmynd, yfir bænastað Hallgrímskirkju þar sem beðið er fyrir fólki og þúsundir ferðamanna og gesta rita bænir sem bornar eru í körfum upp að altari vikulega.

Dr. Elisabeth Stengaard kirkjulistfræðingur kom hér til fyrirlestrahalds, m.a. í Skálholti vorið 1991, og tók undir meginviðhorf Karls í heimsókn í Hallgrímskirkju. Hennar kenning var að heilagt rými yrði fyrst og fremst til í frumformum kirkjubygginga og í Hallgrímskirkju þyrfti að gæta þess að trufla ekki sjónlínur þannig að helgi grunnformsins fengi að njóta sín. Reynt var að fylgja því við gerð prédikunarstóls og við staðsetningu Fróbeníus kórorgelsins sem nú hefur gengið í endurnýjun lífdaganna með mikilli stækkun. En skiptar skoðanir eru enn og félag mun hafa verið stofnað um að koma eftirlíkingu af hinni fögru Jesústyttu Bertil Thorvaldsens fyrir í kór Hallgrímskirkju. Ólíklegt verður að telja að sú hugmynd verði að veruleika meðan áhrifa Karls Sigurbjörnssonar gætir í kirkjunni.

 Traust hjálparhella þýðenda

Sigurbjörn Einarsson og Karl sonur hans voru meðal traustustu hjálparhellna þeirra sem ráðist hafa í að þýða Passíusálma Hallgríms á sín móðurmál. Enn eru óútkomnar þýðingar sem Karl hafði veður af eins og á færeysku og finnsku en við höfum vitnisburð Graciu Grindal um hlut hans í nýjustu þýðingu á Passíusálmunum á ensku sem Hallgrímskirkja hefur gefið út. Cracia er ljóðskáld og prófessor emeritus í lútherskum prédikunarfræðum við St. Paul háskólann í Minnesota. Hún fékk köllun til þýðingarinnar komin á eftirlaun.

„Á hverjum degi reyndi ég,“ segir hún, „að snúa Hallgrími á ljóðræna ensku og seint á kvöldin sendi ég Karli dagsverkið. Það brást ekki því að morguninn eftir vaknaði ég við svar frá honum þar sem umhyggjusöm, lærð og ljóðræn gagnrýni á minn texta var sett fram. Deginum varði ég svo við það að vinna áfram í textanum. Þetta var satt að segja afar gaman. Án Karls hefði verkið ekki orðið eins trútt og vandað og raun ber vitni. Fræðileg hæfni hans og gott eyra fyrir enskri tungu gerði þýðingarvinnuna ríka af gleði.“

Sem biskup var Karl kirkjuarkitekt

Í lokin þetta. Séra Helga Soffía Konráðsdóttir, sóknarprestur og fyrrverandi prófastur, hitti naglann á höfuðið þegar hún sagði í minningargrein að Karl hefði sem biskup reynst vera kirkjuarkitekt. Af glöggskyggni kemur hún auga á það að margt sem mótuð var stefna um og innleitt í biskupstíð Karls hefur reynst vera óbrotgjarnt – hyrningarsteinar sem kirkjan getur byggt á til framtíðar.

Ekki gefst tóm til þess að gera þeim áhrifum sem Karl hafði á þeim vettvangi skil í dag heldur hef ég haldið mér að mestu við Hallgrímskirkju sem ég þekki. Þar fannst Karli mikilvægt að byggja upp helgihald sem hæfði hinum stóra helgidómi þar sem augu og sjón væru virkjuð í þágu tilbeiðslu og boðunar. Enn lifa til dæmis góðu lífi í kirkjunni altarisganga hvern sunnudag;  helgiganga á pálmasunnudag með birkikvisti líkt og gert var forðum með pálmagreinar í borgarhliðum Jerúsalem og Getsemanestundin áhrifaríka á skírdagskvöld svo og lestur Passíusálma á föstudaginn langa sem breiddist út um landið.

 

Sr. Karl Sigurbjörnsson (1947-2024), biskup.  Mynd: Kirkjublaðið.is

 

 

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir