Kirkjublaðið.is birtir erindi Steinunnar Jóhannesdóttur, rithöfundar, sem hún flutti á Skálholtshátíð 20. júlí sl. á málstofu til minningar um sr. Karl Sigurbörnsson (1947-2024), biskup. 

Á morgun birtir Kirkjublaðið.is svo erindi Einars Karls Haraldssonar, fyrrv. ritstjóra, þar sem hann fjallar um sr. Karl og listina í kirkjunni. 

Kirkjublaðið.is þakkar þeim Steinunni og Einari Karli fyrir þessi áhugaverðu erindi.                                                              

Erindi sitt kallaði Steinunn: Karl Sigurbjörnsson, samverkamaður, vinur, kennimaður og hvetjandi frumkvöðull

 

„Allt getur snúist til betri vegar, allt getur orðið til góðs, allt getur öðlast tilgang, jafnvel það sem virðist meiningarlaust í sjálfu sér. Guð getur reist upp, snúið hinni sárustu reynslu í blessun.“ (Orð í gleði, bls. 89).

Þetta segir Karl Sigurbjörnsson í bók sinni, gullkornasafninu, Orð í gleði, sem hann gaf út 2003 og svo aftur í endurnýjaðri gerð 2021 og gaf okkur Einari (Karli Haraldssyni). Og þessi orð geyma mikil sannindi, reynslu og visku, þótt erfitt geti reynst að koma auga á slíkt í miðju áfalli eða hörmungum sem yfir manninn geta dunið. Allt getur snúist til betri vegar. Lítum ögn á gamalt dæmi.

Þennan dag, 20. júlí 1627, fyrir 397 árum, urðu stórtíðindi á biskupsstólunum báðum á Íslandi. Á Hólum í Hjaltadal, lést Guðbrandur Þorláksson biskup í hárri elli, 85 ára að aldri, eftir rúmlega þriggja ára sjúkdómslegu. Hann hafði þá verið biskup í 56 ár, lengur en nokkur í því embætti hérlendis, bæði fyrr og síðar. Í Skálholti varð á hinn bóginn mikið uppnám þegar ljóst varð að innbyggjurum stiftisins hafði fækkað í einni svipan um tæp 400 manns. Alls 110 Austfirðingar og um 250 Vestmannaeyingar voru í fjötrum um borð í þrem herskipum rétt suður af landinu, skipum sem daginn áður höfðu létt akkerum og dregið upp segl í höfninni í Eyjum og siglt af stað með sinn mikla ránsfeng í suðurátt. Fyrr um sumarið hafði 15-20 manns verið rænt frá Grindavík af sambærilegu innrásarliði og horfið sjónum. Þessa atburði, innrásirnar í Grindavík á Austfjörðum og í Vestmannaeyjum, siglinguna suður Atlantshaf til Marokkó og Algeirsborgar á norðurströnd Afríku, sölu bandingjanna á þrælatorgum þar syðra og langvarandi eftirköst atburðanna hafa Íslendingar síðan rætt og skrifað um sem TYRKJARÁNIÐ. Biskup í Skálholti sumarið 1627 var Oddur Einarsson, 68 ára að aldri og langreyndur í embætti, hafði setið stólinn í tæp 40 ár þegar hann tók á móti þessum hrikalegu tíðindum, með sendiboðum og vitnum sem komist höfðu undan ránsmönnunum. Ræningjarnir höfðu að auki myrt fjölda manns, bæði á Austfjörðum og í Eyjum. Tala líflátinna var á fimmta tug eftir samtímaheimildum.

Þrír biskupar, eftirmenn Guðbrands og Odds, Þorlákur Skúlason á Hólum og Gísli Oddsson og Brynjólfur Sveinsson í Skálholti, áttu eftir að fást við afleiðingar Tyrkjaránsins lengi fram eftir 17. öldinni. En á tuttugustu öld urðu það einkum prestar Hallgrímskirkju sem létu þennan sögulega og einstæða atburð sérstaklega til sín taka af kirkjunnar mönnum.

Sr. Karl Sigurbjörnsson, sem við minnumst hér í dag, vígðist ungur prestur til Vestmannaeyja, þegar hið óvænta risaáfall reið yfir byggðina þar og ógnaði lífi og limum manna. Eldgosið í Eyjum hófst aðfaranótt 23. janúar 1973. Rétt hálfum mánuði síðar, 4. febrúar, vígðist Karl til prestakallsins, daginn fyrir 26 ára afmælið sitt. Hann gerðist því sóknarprestur í byggðarlagi sem allir innbyggjarar höfðu flúið, en að gosinu loknu, upp úr miðju sumri 1973, fóru Eyjamenn að tínast aftur heim og presturinn ungi fékk það sem sitt fyrsta stóra verkefni að gerast sálusorgari fólks í miklu áfalli yfir öllu því sem það hafði misst. Þó tapaði enginn lífinu nema einn maður sem lést af völdum gassins sem gosinu fylgdi.

Þann 1. janúar 1975, var Karl svo skipaður sóknarprestur í Hallgrímskirkju og það er í því hlutverki sem við Einar kynnumst honum og Kristínu Guðjónsdóttur konu hans fyrst. Það gerðist reyndar á skrifstofu fasteignasala einhvern tíma ársins 1981, þar sem þessi tvenn hjón, sem aldrei höfðu hist áður, voru talin á að hefja húsbyggingu saman. Og hvað flýtir meir fyrir nánum kynnum fólks á svipuðum aldri og stað í lífinu en svitna saman af líkamlegu erfiði við steypuvinnu og timbursköfun, hafandi sambærilegar fjárhagsáhyggjur.

Og þannig fór um okkur, sem fluttum inn í nýbyggt parhús við Þórsgötu 18 og 18A snemmsumars 1983, Karl og Kristín með börnin sín þrjú, og við Einar með dætur okkar sem þá voru tvær. Við urðum ævivinir! Þegar dregið var um húshelmingana hrepptu Karl og Kristín að búa nær kirkjunni, en við Einar nær Þjóðleikhúsinu, þar sem ég var þá starfandi leikkona.

Svo vildi til að fyrsta veturinn okkar í nýja parhúsinu fékk ég það hlutverk að leika Guðríði Símonardóttur, eiginkonu Hallgríms Péturssonar, sálmaskáldsins mikla, sem vinnustaður Karls, Hallgrímskirkja, var kenndur við. Þetta var titilhlutverk í TYRKJA-GUDDU, leikriti sr. Jakobs Jónssonar, fyrrum prests í Hallgrímskirkju. En Guðríður Símonardóttir var ein þeirra sem rænt var frá Vestmannaeyjum í fyrrnefndu Tyrkjaráni í júlí 1627. Og hún var ein hinna fáu sem síðar áttu eftir að losna úr ánauðinni sem fólkið var selt í á þrælatorgi Algeirsborgar. Útlausn 36 Íslendinga átti sér stað níu árum frá ráninu, þ.e. 1636. Hátt í 90 prósent hinna herleiddu báru hins vegar beinin þarna suður frá.

Víkur nú sögunni aftur til Hóla í Hjaltadal 20. júlí 1627. Þá bjó þar 13 ára gáfaður en óstýrilátur unglingspiltur, áðurnefndur Hallgrímur Pétursson, hringjara við dómkirkjuna. Þeir feðgar voru frændur biskupsins og nutu góðs af ættartengslunum. En þarna upp úr 20. júlí snerist allt um andlát gamla mannsins, útför hans frá nýbyggðri kirkju, eftir hrun hinnar gömlu, og komandi biskupskosningu með tilheyrandi valdabaráttu og brölti. Fréttir af Tyrkjaráninu bárust norður á samgönguhraða þess tíma, þótt enginn vissi hvað orðið hefði um allan þann mannfjölda sem horfinn var af landinu. Og varla grunaði unglinginn Hallgrím Pétursson að á ræningjaskipunum leyndist konuefni hans.

Konuna hitti Hallgrímur níu árum síðar í Kaupmannahöfn, haustið 1636, þar sem hann var á lokaári sínu í fremsta latínuskóla Danmerkur við Vor Frue Kirke. Hann var orðinn 22ja ára og var ráðinn til þess trúnaðarstarfs af hálfu yfirvalda að taka að sér umsjón með hópi Íslendinga sem leystir höfðu verið úr ánauðinni í Algeirsborg og ferðast um langan veg yfir Miðjarðarhaf og um nokkur Evrópulönd alla leið til Kaupmannahafnar á rúmum tveim mánuðum. Guðríður Símonardóttir var 29 ára sjómannskona þegar henni var rænt í Vestmannaeyjum með um fjögurra ára gömlum syni sínum, en maður hennar komst undan. Haustið 1636 var hún orðin 38 ára, ein í hópi rúmlega 30 Íslendinga sem náðu til Danmerkur, að meirihluta konur, sem voru á leið heim til maka sinna og fjölskyldna á Íslandi. Soninn, þá 13 ára, hafði Guðríður orðið að skilja eftir í Afríku. Leysingjarnir urðu að hafa vetursetu í Kaupmannahöfn, þar sem siglingar milli Íslands og Danmerkur voru engar frá hausti til vors, þetta var á tímum einokunarverslunarinnar, og Hallgrími var sem sagt falið að vera fólkinu til halds og trausts, endurhæfa það í trúnni og tungumálinu, sem það hafði allt óhjákvæmilega fjarlægst í herleiðingunni. Algeirsborg var hluti Tyrkjaveldis, hins víðáttumikla heimsveldis múslíma á þeim tíma.

Og til þess að gera langa sögu stutta þá féllu þau kylliflöt hvort fyrir öðru, Guðríður og Hallgrímur Pétursson, sem opinberaðist í því að hún varð fljótlega með barni. Sú uppákoma kostaði unga manninn skólavistina, þau héldu saman heim til Íslands, þar sem í fá hús var að venda. Þau höfðu með framferði sínu gerst brotleg samkvæmt Stóradómi og voru í fyllingu tímans dæmd í sekt, áður en þau gátu fengið að giftast og hafið lífsbaráttuna saman.

Með tímanum varð Hallgrímur þetta mikla skáld, sem færði þjóð sinni andlega næringu flestum öðrum fremur í meira en þrjár aldir og til endurgjalds hefur þjóðin reist honum stærra minnismerki en nokkru öðru skáldi, þ.e.a.s. Hallgrímskirkju í Reykjavík. Og gleymi ég þó ekki hinni kirkjunni sem við skáldið er kennd, Hallgrímskirkju í Saurbæ, á kirkjustaðnum þar sem Hallgrímur orti sitt stærsta og mikilvægasta verk, Passíusálmana.

Hallgrímur varð stórveldi í íslensku trúar- og menningarlífi og það að vera prestur í kirkjunni stóru sem kennd er við hann er talið mikið ábyrgðarhlutverk, því fyrir utan hið hefðbundna hlutverk prestsins að þjóna og predika, hvílir sú skylda á prestum Hallgrímskirkju að halda á lofti nafni skáldsins. Þar lögðu línuna fyrstu prestar kirkjunnar, sr. Sigurjón Þ. Árnason, sr. Sigurbjörn Einarsson og sr. Jakob Jónsson í hálfbyggðri kirkjunni. Hinir tveir síðarnefndu gerðust að auki einlægir málsvarar Guðríðar Símonardóttur sem í aldanna rás hafði fallið mjög í skuggann af manni sínum og hlotið niðurlægjandi uppnefni í þjóðsögum en einnig í almennri söguritun. Raunverulegt nafn hennar var við það að týnast á bak við TYRKJA-GUDDU-nafnið, sem vísaði í þann hrikalega atburð sem hún hafði lent í, TYRKJARÁNIÐ.

Og nú höfðu örlögin hagað því svo að við Karl vorum orðin eins konar talsmenn fyrir hvort þessara hjóna, hann fyrir Hallgrím og undirrituð fyrir Guðríði.

Svo liðu nokkur ár. Við Einar fluttum til Svíþjóðar, þar sem hann tók við starfi ritstjóra Nordisk kontakt, tímarits ráðherranefndar Norðurlandaráðs á árabilinu 1985-1990 en ég hóf að stunda ritstörf af meiri alvöru en áður og sækja ýmis námskeið fyrir leikhúsfólk. Og okkur fæddist þriðja dóttirin. Hallgrímskirkja varð fullbyggð og vígð  haustið 1986 en 1988-89 héldu Karl og Kristín með börn sín til Bandaríkjanna þar sem Karl jók við menntun sína í sálgæslu. Öll snerum við aftur í húsið okkar, Karl aftur til Hallgrímskirkju, Kristín í bankann, en við Einar á frjálsan vinnumarkað, því bæði höfðum við sagt upp fyrri störfum við flutninginn til Svíþjóðar.

Þá er það einhvern tíma vors 1994 að Kristín spyr hvort ég sé ekki til í að segja frá Guðríði Símonardóttur á fundi Kvenfélags Hallgrímskirkju á grundvelli fyrri reynslu. Og þótt Karl væri ekki í Kvenfélaginu mætti hann á umræddan fund og lét hrífast af hugleiðingum mínum um konuna og hennar ævi. Í framhaldinu lagði hann til að til auglýstur yrði opinber fyrirlestur í kirkjunni. Aðsókn fór langt fram úr væntingum, salurinn  fylltist af fólki sem hafði brennandi áhuga á örlögum Guðríðar Símonardóttur. Meðal þeirra reyndist vera Vigdís Finnbogadóttir forseti.

Um veturinn var ég stödd norður á Þórshöfn á Langanesi við að setja upp leikrit þegar ég var kölluð í síma. Á línunni var Þóra Kristjánsdóttir listfræðingur og formaður Listvinafélags Hallgrímskirkju. Hún spurði mig í umboði séra Karls hvort ég vildi taka að mér að skrifa nýtt leikrit um Guðríði Símonardóttur og Hallgrím til að sýna í kirkjunni á komandi Kirkjulistahátíð. Beiðnin kom algjörlega flatt upp á mig, en mér fannst það ótrúlega djörf hugmynd að hugsa sér að setja upp leikrit í þessari stóru kirkju með sinn erfiða hljómburð. Ég bað um umhugsunarfrest, en ákvað svo að ég gæti ekki verið sú raggeit að reyna ekki að leggja til atlögu við verkefnið úr því Karl og stjórn Listvinafélagsins treystu mér til þess.

Ég kom mér fyrir í lesklefa í hinni nýju Þjóðarbókhlöðu í byrjun árs 1995 og sökkti mér niður í heimildir um Tyrkjaránið. Snemma á því tímabili reið stórt áfall yfir lítið þorp á Vestfjörðum, þegar snjóflóð féll á Súðavík, sem mikill mannskaði og eyðilegging hlaust af. Og ég skildi að það sem hafði gerst í Vestmannaeyjum í Tyrkjaráninu hefði haft svipuð áhrif á samfélagið, þótt það hafi snert margfalt fleiri einstaklinga. Í Reykjavík flykktist fólk í Hallgrímskirkju í leit að huggun og Karl varð sálusorgari fjöldans.

Alveg frá því við Einar kynntumst sr. Karli höfðum við sótt messur hjá honum og hrifist mjög af boðun hans og prédikunum. Hann var framúrskarandi kennimaður og notaði húmor með einstaklega frjóum hætti til að leyfa söfnuðinum að brosa eða hlæja áður en alvaran tæki yfir og hin stóru og þungu íhugunarefni. Karl varð kennari minn í trúmálum og kristinni hugsun, hann gerði mig öðrum fremur að trúaðri konu, trúaðri manneskju. Og hann sýndi mér með framgöngu sinni hvernig væri hægt að tala og flytja boðskap sem virkaði í jafn stórri byggingu og Hallgrímskirkja er.

Þegar kom að því að setjast við skriftir fann ég lykilinn að verkinu í kirkjunni sjálfri. Ég lét leikritið gerast í kirkju, í kirkju þar sem mannlífið er allt tekið til skoðunar og samband mannsins við guð. Leikritið fékk titilinn: Heimur Guðríðar. Síðasta heimsókn Guðríðar Símonardóttur í kirkju Hallgríms. Það er Guðríður gamla sem segir söguna, hún sem lifði mann sinn í mörg ár og varð nánast jafn gömul og Guðbrandur. Hún talar við sjálfa sig unga, konuna sem lenti í Tyrkjaráninu, talar við soninn sem hún varð að yfirgefa, talar við Hallgrím ungan og sterkan, síðan miðaldra, veikan og deyjandi. Og hún talar við Guð. Leikararnir hreyfðu sig eins og presturinn gerir, gengu inn ganginn langa, sneru sér ýmist að altarinu eða frá því, sögðu söguna, eins og gert er í guðspjöllunum, hrópuðu út angist sína, báðu og tókust á við guð. Þagnir til íhugunar og þáttaskil voru svo tjáð í tónlist, sem organisti kirkjunnar, Hörður Áskelsson, samdi og lék sjálfur á stóra orgelið í kirkjunni.

Ég hef stundum sagt að Hallgrímskirkja hafi skrifað leikritið.

Verkið var frumsýnt á Kirkjulistahátíð 5. júní 1995 og fékk miklar og góðar undirtektir. Strax fyrir aðra sýningu var komin beiðni frá Vestmannaeyjum um að leikritið yrði sýnt í Landakirkju, sem gert var á allra heilagra messu 1. nóvember. Og þar með var boltinn farinn að rúlla. Kirkja eftir kirkju og sóknarnefnd eftir sóknarnefnd óskaði eftir sýningunni og við fórum í hverja leikferðina af annarri til allra hluta landsins, líka bæði til London og Kaupmannahafnar. Hér á meðal okkar á málþinginu er staddur yngsti maðurinn í leikhópnum, Guðjón Davíð Karlsson, Gói, sonur Karls og Kristínar, sem var nýorðinn 15 ára þegar hann lék hlutverk Sölmundar Eyjólfssonar, sonar Guðríðar, á þeim aldri sem hann var þegar hún varð að skilja við hann í Algeirsborg.

Þetta var frumraun Góa á leikferli sem átti eftir að verða svo glæsilegur að hann er nú kominn í fremstu röð sinnar kynslóðar í stéttinni.

Og Karl og Kristín treystu mér fyrir syni sínum á endurteknum þvælingi um landið og tvisvar til útlanda á meira en fimm ára tímabili. Það hefur vafalaust verið góður skóli fyrir verðandi leikhúsmann að vinna svo náið með og kynnast leikurum í fremstu röð sem fylltu þennan flokk. En það voru Helga Bachmann sem lék Guðríði eldri og Margrét Guðmundsdóttir, sem eftir fyrstu sex sýningarnar tók við því hlutverki, Helga Elínborg Jónsdóttir, sem lék Guðríði yngri allan tímann, Þröstur Leó og Gunnarsson, sem lék Hallgrím og Jakob Þór Einarsson tók við hlutverkinu af Þresti undir lokin.  Fimmtugasta og síðasta sýningin fór fram hér í Skálholtskirkju á dánardegi Hallgríms 27. október, kristnihátíðarárið 2000, þegar hálft sjötta ár var liðið frá frumsýningu. Þá ákvað ég að láta staðar numið, því ég þurfti á öllum mínum kröftum að halda til að geta lokið mun stærra verki sem fæddist af þessu ferli öllu með Heim Guðríðar. En það er skáldsagan stóra, Reisubók Guðríðar Símonardóttur.

Líka í því ferli á ég Karli Sigurbjörnssyni þakkarskuld að gjalda. Karl var og er með mikilvægustu áhrifavöldum í mínu lífi. Hann átti með fram biskupsdómi en einkum að honum loknum eftir að gerast mikilvirkur rithöfundur og þýðandi og orða bæði stórt og smátt öðrum betur. Í báðum verkunum um Guðríði og sömuleiðis í Heimanfylgju, skáldsögu um uppvöxt Hallgríms Péturssonar norður í Skagafirði er leiðarstefið það sama og ég hafði eftir Karli í upphafi míns máls:

„Allt getur snúist til betri vegar, allt getur orðið til góðs, allt getur öðlast tilgang, jafnvel það sem virðist meiningarlaust í sjálfu sér. Guð getur reist upp, snúið hinni sárustu reynslu í blessun.“
(Orð í gleði, bls. 89).

Sr. Karl Sigurbjörnsson (1947-2024), biskup.  Mynd: Kirkjublaðið.is

 

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Kirkjublaðið.is birtir erindi Steinunnar Jóhannesdóttur, rithöfundar, sem hún flutti á Skálholtshátíð 20. júlí sl. á málstofu til minningar um sr. Karl Sigurbörnsson (1947-2024), biskup. 

Á morgun birtir Kirkjublaðið.is svo erindi Einars Karls Haraldssonar, fyrrv. ritstjóra, þar sem hann fjallar um sr. Karl og listina í kirkjunni. 

Kirkjublaðið.is þakkar þeim Steinunni og Einari Karli fyrir þessi áhugaverðu erindi.                                                              

Erindi sitt kallaði Steinunn: Karl Sigurbjörnsson, samverkamaður, vinur, kennimaður og hvetjandi frumkvöðull

 

„Allt getur snúist til betri vegar, allt getur orðið til góðs, allt getur öðlast tilgang, jafnvel það sem virðist meiningarlaust í sjálfu sér. Guð getur reist upp, snúið hinni sárustu reynslu í blessun.“ (Orð í gleði, bls. 89).

Þetta segir Karl Sigurbjörnsson í bók sinni, gullkornasafninu, Orð í gleði, sem hann gaf út 2003 og svo aftur í endurnýjaðri gerð 2021 og gaf okkur Einari (Karli Haraldssyni). Og þessi orð geyma mikil sannindi, reynslu og visku, þótt erfitt geti reynst að koma auga á slíkt í miðju áfalli eða hörmungum sem yfir manninn geta dunið. Allt getur snúist til betri vegar. Lítum ögn á gamalt dæmi.

Þennan dag, 20. júlí 1627, fyrir 397 árum, urðu stórtíðindi á biskupsstólunum báðum á Íslandi. Á Hólum í Hjaltadal, lést Guðbrandur Þorláksson biskup í hárri elli, 85 ára að aldri, eftir rúmlega þriggja ára sjúkdómslegu. Hann hafði þá verið biskup í 56 ár, lengur en nokkur í því embætti hérlendis, bæði fyrr og síðar. Í Skálholti varð á hinn bóginn mikið uppnám þegar ljóst varð að innbyggjurum stiftisins hafði fækkað í einni svipan um tæp 400 manns. Alls 110 Austfirðingar og um 250 Vestmannaeyingar voru í fjötrum um borð í þrem herskipum rétt suður af landinu, skipum sem daginn áður höfðu létt akkerum og dregið upp segl í höfninni í Eyjum og siglt af stað með sinn mikla ránsfeng í suðurátt. Fyrr um sumarið hafði 15-20 manns verið rænt frá Grindavík af sambærilegu innrásarliði og horfið sjónum. Þessa atburði, innrásirnar í Grindavík á Austfjörðum og í Vestmannaeyjum, siglinguna suður Atlantshaf til Marokkó og Algeirsborgar á norðurströnd Afríku, sölu bandingjanna á þrælatorgum þar syðra og langvarandi eftirköst atburðanna hafa Íslendingar síðan rætt og skrifað um sem TYRKJARÁNIÐ. Biskup í Skálholti sumarið 1627 var Oddur Einarsson, 68 ára að aldri og langreyndur í embætti, hafði setið stólinn í tæp 40 ár þegar hann tók á móti þessum hrikalegu tíðindum, með sendiboðum og vitnum sem komist höfðu undan ránsmönnunum. Ræningjarnir höfðu að auki myrt fjölda manns, bæði á Austfjörðum og í Eyjum. Tala líflátinna var á fimmta tug eftir samtímaheimildum.

Þrír biskupar, eftirmenn Guðbrands og Odds, Þorlákur Skúlason á Hólum og Gísli Oddsson og Brynjólfur Sveinsson í Skálholti, áttu eftir að fást við afleiðingar Tyrkjaránsins lengi fram eftir 17. öldinni. En á tuttugustu öld urðu það einkum prestar Hallgrímskirkju sem létu þennan sögulega og einstæða atburð sérstaklega til sín taka af kirkjunnar mönnum.

Sr. Karl Sigurbjörnsson, sem við minnumst hér í dag, vígðist ungur prestur til Vestmannaeyja, þegar hið óvænta risaáfall reið yfir byggðina þar og ógnaði lífi og limum manna. Eldgosið í Eyjum hófst aðfaranótt 23. janúar 1973. Rétt hálfum mánuði síðar, 4. febrúar, vígðist Karl til prestakallsins, daginn fyrir 26 ára afmælið sitt. Hann gerðist því sóknarprestur í byggðarlagi sem allir innbyggjarar höfðu flúið, en að gosinu loknu, upp úr miðju sumri 1973, fóru Eyjamenn að tínast aftur heim og presturinn ungi fékk það sem sitt fyrsta stóra verkefni að gerast sálusorgari fólks í miklu áfalli yfir öllu því sem það hafði misst. Þó tapaði enginn lífinu nema einn maður sem lést af völdum gassins sem gosinu fylgdi.

Þann 1. janúar 1975, var Karl svo skipaður sóknarprestur í Hallgrímskirkju og það er í því hlutverki sem við Einar kynnumst honum og Kristínu Guðjónsdóttur konu hans fyrst. Það gerðist reyndar á skrifstofu fasteignasala einhvern tíma ársins 1981, þar sem þessi tvenn hjón, sem aldrei höfðu hist áður, voru talin á að hefja húsbyggingu saman. Og hvað flýtir meir fyrir nánum kynnum fólks á svipuðum aldri og stað í lífinu en svitna saman af líkamlegu erfiði við steypuvinnu og timbursköfun, hafandi sambærilegar fjárhagsáhyggjur.

Og þannig fór um okkur, sem fluttum inn í nýbyggt parhús við Þórsgötu 18 og 18A snemmsumars 1983, Karl og Kristín með börnin sín þrjú, og við Einar með dætur okkar sem þá voru tvær. Við urðum ævivinir! Þegar dregið var um húshelmingana hrepptu Karl og Kristín að búa nær kirkjunni, en við Einar nær Þjóðleikhúsinu, þar sem ég var þá starfandi leikkona.

Svo vildi til að fyrsta veturinn okkar í nýja parhúsinu fékk ég það hlutverk að leika Guðríði Símonardóttur, eiginkonu Hallgríms Péturssonar, sálmaskáldsins mikla, sem vinnustaður Karls, Hallgrímskirkja, var kenndur við. Þetta var titilhlutverk í TYRKJA-GUDDU, leikriti sr. Jakobs Jónssonar, fyrrum prests í Hallgrímskirkju. En Guðríður Símonardóttir var ein þeirra sem rænt var frá Vestmannaeyjum í fyrrnefndu Tyrkjaráni í júlí 1627. Og hún var ein hinna fáu sem síðar áttu eftir að losna úr ánauðinni sem fólkið var selt í á þrælatorgi Algeirsborgar. Útlausn 36 Íslendinga átti sér stað níu árum frá ráninu, þ.e. 1636. Hátt í 90 prósent hinna herleiddu báru hins vegar beinin þarna suður frá.

Víkur nú sögunni aftur til Hóla í Hjaltadal 20. júlí 1627. Þá bjó þar 13 ára gáfaður en óstýrilátur unglingspiltur, áðurnefndur Hallgrímur Pétursson, hringjara við dómkirkjuna. Þeir feðgar voru frændur biskupsins og nutu góðs af ættartengslunum. En þarna upp úr 20. júlí snerist allt um andlát gamla mannsins, útför hans frá nýbyggðri kirkju, eftir hrun hinnar gömlu, og komandi biskupskosningu með tilheyrandi valdabaráttu og brölti. Fréttir af Tyrkjaráninu bárust norður á samgönguhraða þess tíma, þótt enginn vissi hvað orðið hefði um allan þann mannfjölda sem horfinn var af landinu. Og varla grunaði unglinginn Hallgrím Pétursson að á ræningjaskipunum leyndist konuefni hans.

Konuna hitti Hallgrímur níu árum síðar í Kaupmannahöfn, haustið 1636, þar sem hann var á lokaári sínu í fremsta latínuskóla Danmerkur við Vor Frue Kirke. Hann var orðinn 22ja ára og var ráðinn til þess trúnaðarstarfs af hálfu yfirvalda að taka að sér umsjón með hópi Íslendinga sem leystir höfðu verið úr ánauðinni í Algeirsborg og ferðast um langan veg yfir Miðjarðarhaf og um nokkur Evrópulönd alla leið til Kaupmannahafnar á rúmum tveim mánuðum. Guðríður Símonardóttir var 29 ára sjómannskona þegar henni var rænt í Vestmannaeyjum með um fjögurra ára gömlum syni sínum, en maður hennar komst undan. Haustið 1636 var hún orðin 38 ára, ein í hópi rúmlega 30 Íslendinga sem náðu til Danmerkur, að meirihluta konur, sem voru á leið heim til maka sinna og fjölskyldna á Íslandi. Soninn, þá 13 ára, hafði Guðríður orðið að skilja eftir í Afríku. Leysingjarnir urðu að hafa vetursetu í Kaupmannahöfn, þar sem siglingar milli Íslands og Danmerkur voru engar frá hausti til vors, þetta var á tímum einokunarverslunarinnar, og Hallgrími var sem sagt falið að vera fólkinu til halds og trausts, endurhæfa það í trúnni og tungumálinu, sem það hafði allt óhjákvæmilega fjarlægst í herleiðingunni. Algeirsborg var hluti Tyrkjaveldis, hins víðáttumikla heimsveldis múslíma á þeim tíma.

Og til þess að gera langa sögu stutta þá féllu þau kylliflöt hvort fyrir öðru, Guðríður og Hallgrímur Pétursson, sem opinberaðist í því að hún varð fljótlega með barni. Sú uppákoma kostaði unga manninn skólavistina, þau héldu saman heim til Íslands, þar sem í fá hús var að venda. Þau höfðu með framferði sínu gerst brotleg samkvæmt Stóradómi og voru í fyllingu tímans dæmd í sekt, áður en þau gátu fengið að giftast og hafið lífsbaráttuna saman.

Með tímanum varð Hallgrímur þetta mikla skáld, sem færði þjóð sinni andlega næringu flestum öðrum fremur í meira en þrjár aldir og til endurgjalds hefur þjóðin reist honum stærra minnismerki en nokkru öðru skáldi, þ.e.a.s. Hallgrímskirkju í Reykjavík. Og gleymi ég þó ekki hinni kirkjunni sem við skáldið er kennd, Hallgrímskirkju í Saurbæ, á kirkjustaðnum þar sem Hallgrímur orti sitt stærsta og mikilvægasta verk, Passíusálmana.

Hallgrímur varð stórveldi í íslensku trúar- og menningarlífi og það að vera prestur í kirkjunni stóru sem kennd er við hann er talið mikið ábyrgðarhlutverk, því fyrir utan hið hefðbundna hlutverk prestsins að þjóna og predika, hvílir sú skylda á prestum Hallgrímskirkju að halda á lofti nafni skáldsins. Þar lögðu línuna fyrstu prestar kirkjunnar, sr. Sigurjón Þ. Árnason, sr. Sigurbjörn Einarsson og sr. Jakob Jónsson í hálfbyggðri kirkjunni. Hinir tveir síðarnefndu gerðust að auki einlægir málsvarar Guðríðar Símonardóttur sem í aldanna rás hafði fallið mjög í skuggann af manni sínum og hlotið niðurlægjandi uppnefni í þjóðsögum en einnig í almennri söguritun. Raunverulegt nafn hennar var við það að týnast á bak við TYRKJA-GUDDU-nafnið, sem vísaði í þann hrikalega atburð sem hún hafði lent í, TYRKJARÁNIÐ.

Og nú höfðu örlögin hagað því svo að við Karl vorum orðin eins konar talsmenn fyrir hvort þessara hjóna, hann fyrir Hallgrím og undirrituð fyrir Guðríði.

Svo liðu nokkur ár. Við Einar fluttum til Svíþjóðar, þar sem hann tók við starfi ritstjóra Nordisk kontakt, tímarits ráðherranefndar Norðurlandaráðs á árabilinu 1985-1990 en ég hóf að stunda ritstörf af meiri alvöru en áður og sækja ýmis námskeið fyrir leikhúsfólk. Og okkur fæddist þriðja dóttirin. Hallgrímskirkja varð fullbyggð og vígð  haustið 1986 en 1988-89 héldu Karl og Kristín með börn sín til Bandaríkjanna þar sem Karl jók við menntun sína í sálgæslu. Öll snerum við aftur í húsið okkar, Karl aftur til Hallgrímskirkju, Kristín í bankann, en við Einar á frjálsan vinnumarkað, því bæði höfðum við sagt upp fyrri störfum við flutninginn til Svíþjóðar.

Þá er það einhvern tíma vors 1994 að Kristín spyr hvort ég sé ekki til í að segja frá Guðríði Símonardóttur á fundi Kvenfélags Hallgrímskirkju á grundvelli fyrri reynslu. Og þótt Karl væri ekki í Kvenfélaginu mætti hann á umræddan fund og lét hrífast af hugleiðingum mínum um konuna og hennar ævi. Í framhaldinu lagði hann til að til auglýstur yrði opinber fyrirlestur í kirkjunni. Aðsókn fór langt fram úr væntingum, salurinn  fylltist af fólki sem hafði brennandi áhuga á örlögum Guðríðar Símonardóttur. Meðal þeirra reyndist vera Vigdís Finnbogadóttir forseti.

Um veturinn var ég stödd norður á Þórshöfn á Langanesi við að setja upp leikrit þegar ég var kölluð í síma. Á línunni var Þóra Kristjánsdóttir listfræðingur og formaður Listvinafélags Hallgrímskirkju. Hún spurði mig í umboði séra Karls hvort ég vildi taka að mér að skrifa nýtt leikrit um Guðríði Símonardóttur og Hallgrím til að sýna í kirkjunni á komandi Kirkjulistahátíð. Beiðnin kom algjörlega flatt upp á mig, en mér fannst það ótrúlega djörf hugmynd að hugsa sér að setja upp leikrit í þessari stóru kirkju með sinn erfiða hljómburð. Ég bað um umhugsunarfrest, en ákvað svo að ég gæti ekki verið sú raggeit að reyna ekki að leggja til atlögu við verkefnið úr því Karl og stjórn Listvinafélagsins treystu mér til þess.

Ég kom mér fyrir í lesklefa í hinni nýju Þjóðarbókhlöðu í byrjun árs 1995 og sökkti mér niður í heimildir um Tyrkjaránið. Snemma á því tímabili reið stórt áfall yfir lítið þorp á Vestfjörðum, þegar snjóflóð féll á Súðavík, sem mikill mannskaði og eyðilegging hlaust af. Og ég skildi að það sem hafði gerst í Vestmannaeyjum í Tyrkjaráninu hefði haft svipuð áhrif á samfélagið, þótt það hafi snert margfalt fleiri einstaklinga. Í Reykjavík flykktist fólk í Hallgrímskirkju í leit að huggun og Karl varð sálusorgari fjöldans.

Alveg frá því við Einar kynntumst sr. Karli höfðum við sótt messur hjá honum og hrifist mjög af boðun hans og prédikunum. Hann var framúrskarandi kennimaður og notaði húmor með einstaklega frjóum hætti til að leyfa söfnuðinum að brosa eða hlæja áður en alvaran tæki yfir og hin stóru og þungu íhugunarefni. Karl varð kennari minn í trúmálum og kristinni hugsun, hann gerði mig öðrum fremur að trúaðri konu, trúaðri manneskju. Og hann sýndi mér með framgöngu sinni hvernig væri hægt að tala og flytja boðskap sem virkaði í jafn stórri byggingu og Hallgrímskirkja er.

Þegar kom að því að setjast við skriftir fann ég lykilinn að verkinu í kirkjunni sjálfri. Ég lét leikritið gerast í kirkju, í kirkju þar sem mannlífið er allt tekið til skoðunar og samband mannsins við guð. Leikritið fékk titilinn: Heimur Guðríðar. Síðasta heimsókn Guðríðar Símonardóttur í kirkju Hallgríms. Það er Guðríður gamla sem segir söguna, hún sem lifði mann sinn í mörg ár og varð nánast jafn gömul og Guðbrandur. Hún talar við sjálfa sig unga, konuna sem lenti í Tyrkjaráninu, talar við soninn sem hún varð að yfirgefa, talar við Hallgrím ungan og sterkan, síðan miðaldra, veikan og deyjandi. Og hún talar við Guð. Leikararnir hreyfðu sig eins og presturinn gerir, gengu inn ganginn langa, sneru sér ýmist að altarinu eða frá því, sögðu söguna, eins og gert er í guðspjöllunum, hrópuðu út angist sína, báðu og tókust á við guð. Þagnir til íhugunar og þáttaskil voru svo tjáð í tónlist, sem organisti kirkjunnar, Hörður Áskelsson, samdi og lék sjálfur á stóra orgelið í kirkjunni.

Ég hef stundum sagt að Hallgrímskirkja hafi skrifað leikritið.

Verkið var frumsýnt á Kirkjulistahátíð 5. júní 1995 og fékk miklar og góðar undirtektir. Strax fyrir aðra sýningu var komin beiðni frá Vestmannaeyjum um að leikritið yrði sýnt í Landakirkju, sem gert var á allra heilagra messu 1. nóvember. Og þar með var boltinn farinn að rúlla. Kirkja eftir kirkju og sóknarnefnd eftir sóknarnefnd óskaði eftir sýningunni og við fórum í hverja leikferðina af annarri til allra hluta landsins, líka bæði til London og Kaupmannahafnar. Hér á meðal okkar á málþinginu er staddur yngsti maðurinn í leikhópnum, Guðjón Davíð Karlsson, Gói, sonur Karls og Kristínar, sem var nýorðinn 15 ára þegar hann lék hlutverk Sölmundar Eyjólfssonar, sonar Guðríðar, á þeim aldri sem hann var þegar hún varð að skilja við hann í Algeirsborg.

Þetta var frumraun Góa á leikferli sem átti eftir að verða svo glæsilegur að hann er nú kominn í fremstu röð sinnar kynslóðar í stéttinni.

Og Karl og Kristín treystu mér fyrir syni sínum á endurteknum þvælingi um landið og tvisvar til útlanda á meira en fimm ára tímabili. Það hefur vafalaust verið góður skóli fyrir verðandi leikhúsmann að vinna svo náið með og kynnast leikurum í fremstu röð sem fylltu þennan flokk. En það voru Helga Bachmann sem lék Guðríði eldri og Margrét Guðmundsdóttir, sem eftir fyrstu sex sýningarnar tók við því hlutverki, Helga Elínborg Jónsdóttir, sem lék Guðríði yngri allan tímann, Þröstur Leó og Gunnarsson, sem lék Hallgrím og Jakob Þór Einarsson tók við hlutverkinu af Þresti undir lokin.  Fimmtugasta og síðasta sýningin fór fram hér í Skálholtskirkju á dánardegi Hallgríms 27. október, kristnihátíðarárið 2000, þegar hálft sjötta ár var liðið frá frumsýningu. Þá ákvað ég að láta staðar numið, því ég þurfti á öllum mínum kröftum að halda til að geta lokið mun stærra verki sem fæddist af þessu ferli öllu með Heim Guðríðar. En það er skáldsagan stóra, Reisubók Guðríðar Símonardóttur.

Líka í því ferli á ég Karli Sigurbjörnssyni þakkarskuld að gjalda. Karl var og er með mikilvægustu áhrifavöldum í mínu lífi. Hann átti með fram biskupsdómi en einkum að honum loknum eftir að gerast mikilvirkur rithöfundur og þýðandi og orða bæði stórt og smátt öðrum betur. Í báðum verkunum um Guðríði og sömuleiðis í Heimanfylgju, skáldsögu um uppvöxt Hallgríms Péturssonar norður í Skagafirði er leiðarstefið það sama og ég hafði eftir Karli í upphafi míns máls:

„Allt getur snúist til betri vegar, allt getur orðið til góðs, allt getur öðlast tilgang, jafnvel það sem virðist meiningarlaust í sjálfu sér. Guð getur reist upp, snúið hinni sárustu reynslu í blessun.“
(Orð í gleði, bls. 89).

Sr. Karl Sigurbjörnsson (1947-2024), biskup.  Mynd: Kirkjublaðið.is

 

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir