Kirkjublaðið birtir með góðfúslegu leyfi forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar, ræðu þá sem hann flutti 21. júlí sl. í Skálholtsdómkirkju á Skálholtshátíð

 

Skjaldarmerki forseta Íslands
 

Biskup Íslands,
nýkjörinn biskup,
vígslubiskupinn í Skálholti,
ráðherra og aðrir góðir gestir.

 

Mér þykir vænt um að flytja erindi á Skálholtshátíð, þremur aldarfjórðungum eftir að sú fyrsta var haldin. Umgjörðin er virðuleg, hvort sem horft er til hinnar glæstu byggingar sem hýsir okkur eða sögu staðarins – þess þráðar sem tengir okkar samtíma við hið liðna. Hér sat fyrsti biskup Íslands, hér var lengi stórbú og um miðja þrettándu öld hófst sá siður að koma hér saman hinn 20. júlí ár hvert; á Þorláksmessu sem svo var nefnd til heiðurs Þorláki biskupi Þórhallssyni.

Um þremur öldum síðar urðu svo mikil tíðindi hér í Skálholti; Jón Arason veginn ásamt sonum sínum tveimur. Í sögunni hefur Jón ætíð lifað, þjóðhetja sem barðist gegn dönsku konungsvaldi. Hann var hinn síðasti Íslendingur sem stóð undir nafni á þeim óróatímum eins og Jón forseti Sigurðsson komst að orði.

Eitthvað hefur ímynd Jóns biskups Arasonar þó breyst í tímans rás. Því hefur verið haldið fram að engir hafi breytt gangi mannkynssögunnar eins mikið og sagnfræðingarnir, eða í það minnsta reynt það. Þannig hefur Helgi Þorláksson, einn félaga minna í þeirri stétt, fullyrt nýlega að þótt vart verði ættjarðarástar hjá Jóni biskupi hafi þjóðernishyggja í anda Jóns forseta verið honum algerlega framandi. En þá finnst öðrum kannski fulllangt gengið. „Á síðari tímum komst einhvern veginn í tísku að reyna að gera lítið úr þjóðhetjum.“ Það skrifaði Ásgeir Jónsson, hagfræðingur og seðlabankastjóri, fyrir nokkrum árum. Að vísu benti hann einnig á að Jón Arason ætlaði sér að koma landinu undir þýsk yfirráð og þá má efast um þjóðræknina, ekki satt?

Svona getur sagan verið flókin og margslungin, síkvik og háð aldasöng hvers tíma. Og hún breytist ekki bara með nýjum túlkunum og ályktunum; við finnum líka nýjar heimildir. Í ágúst fyrir sjötíu árum fannst hér – nánast nákvæmlega undir þeim stað sem ég stend á nú – steinkista Páls biskups Jónssonar. Þetta var og er einn merkasti fornleifafundur Íslandssögunnar. „Það er fullkomlega egypsk stemning yfir henni,“ skrifaði Kristján Eldjárn þjóðminjavörður hjá sér daginn sem kistan fannst.

Tveimur árum síðar, sumarið 1956, var níu alda afmæli biskupsdóms á Íslandi fagnað á Skálholtshátíð, þeirri fjölmennustu fyrr og síðar þegar nær níu þúsund manns komu hér saman. Þá var einnig lagður hornsteinn að þeirri dómkirkju sem við njótum nú og þá mælti Ásgeir Ásgeirsson forseti svo um helgi og sögu þessa staðar: „Hér reika svipir margra hinna ágætustu manna fortíðarinnar. … Hin ósýnilega Skálholtskirkja hefir alltaf fyrirfundist og stígur nú fram í allri sinni tign, þegar þokunni léttir.“

Sumarið 1963, á þeim sunnudegi sem næstur var Þorláksmessu, var hin nýja kirkja vígð og æ síðan hefur verið boðað til Skálholtshátíðar um það leyti. Þær hafa verið vel sóttar og vinsælar, vettvangur menningar og mennta, tónlistar og gleði. Þannig hafa vísur orðið til hér, með vísun í sögu staðarins og vitna ég hér í einn kviðlinginn af því tagi:

Ástin finnur afdrep nóg,
á sér leynistaði.
Faðmast enn í rökkurró,
Ragnheiður og Daði.

(Stefán Stefánsson frá Móskógum á Bökkum, Skagafirði)

Já, hér hefur verið gestkvæmt og gaman. Þegar Kristján Eldjárn var orðinn forseti sótti hann Skálholtshátíð og það gerðu þau Vigdís Finnbogadóttir og Ólafur Ragnar Grímsson sömuleiðis. Og nú feta ég í þeirra fótspor, flyt hér eitt mitt síðasta opinbera ávarp á forsetastóli.

Mér þykir vænt um það eins og áður sagði, þykir í raun heiður að því. Ég þakka Agnesi Sigurðardóttur biskupi fyrir samstarf á liðnum árum og óska henni gæfu og góðs gengis. Sömu óskir færi ég nýkjörnum biskupi, Guðrúnu Karls Helgudóttur. Þá þakka ég þeim hjónum, Kristjáni Björnssyni vígslubiskupi og Guðrúnu Helgu Bjarnadóttur, gestrisni og góðvild hér í Skálholti nú sem endranær.

Ágætu áheyrendur: Stundum gætir þess misskilnings að forseti sé samkvæmt stjórnarskrá verndari þjóðkirkjunnar. Sú er ekki raunin en þar segir þó að hin evangelíska lúterska kirkja sé þjóðkirkja á Íslandi og skuli ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Um leið er kveðið á um fullt trúfrelsi í landinu enda telst slíkt til grundvallarmannréttinda í öflugu lýðræðisríki.

Vissulega hafa tengsl ríkis og kirkju því smám saman dofnað hér á landi. Tímarnir breytast og mennirnir með. Sjálfsagt er samt að samband þjóðhöfðingja og þjóðkirkju sé eins farsælt og traust og verða má. Forseti hefur ætíð sótt guðsþjónustu fyrir innsetningu í embætti eða setningu Alþingis og þegar ég var kjörinn til setu á Bessastöðum var það enn í verkahring forseta að skipa biskupa á Íslandi í embætti svo að nærtækt dæmi sé tekið. Skammt er síðan lögum um þetta var breytt og legg ég ekki mat hér á ágæti þess. En okkar ágæti vígslubiskup í Skálholti var sá síðasti í biskupsstétt sem hlaut skipan forseta í embætti.

Gleymum því ekki heldur að á þjóðhöfðingjasetrinu blasir bændakirkja staðarins fyrst við gestum og gangandi. Það er virðuleg bygging, eitt elsta guðshús landsins. Nú standa þar yfir viðgerðir og endurbætur. Er það ósk mín og vænting að við frekari framkvæmdir verði ætíð tekið tillit til þarfa og vilja presta og safnaðar. Um leið má eftir föngum færa kirkjuna að takmörkuðu leyti til upprunalegs eða eldra horfs ‒ enda má vissulega deila um gildi ýmissa breytinga sem ráðist hefur verið í.

Augljóst umhugsunarefni er trúartáknið á turni kirkjunnar. Þegar lokið var við gerð hans árið 1823 var settur þar veðurviti eða vindör, með danskri kórónu áfastri. Skömmu eftir lýðveldisstofnun voru þau herlegheit hins vegar fjarlægð og kross settur í staðinn. Hann fauk svo af laust fyrir síðustu aldamót og þar til í fyrra var turninn án nokkurs skrauts af neinu tagi.

Þá voru tímamót, tvær aldir frá því að rekið var smiðshögg á turn Bessastaðakirkju. Af því tilefni féllst ég á að settur yrði veðurviti á kirkjuna á ný, með sama sniði og sá sem prýddi hana í vel á aðra öld. Að vísu var kórónu sleppt enda hefði verið ótækt að það tákn erlends valds gnæfði hæst við aðsetur forseta lýðveldisins.

Fyrst um sinn gætti samt einhverrar gremju vegna veðurvitans nýja. Því heyrðist jafnvel fleygt að ég hefði látið fjarlægja krossinn, trúlaus maðurinn, nú eða að það væri út í hött að hafa veðurvita, vindör eða vindhana á turni kirkna. Hvorugt er satt og það kom mér stundum á óvart hversu hvassyrt sumt fólk gat orðið í krafti sinnar trúarsannfæringar eða hvað ætti að kalla það. Sagan er ólygnust um veðurvitann á Bessastaðakirkju og til samanburðar má líka horfa á trúartákn af nákvæmlega sama tagi á turni kirkjunnar á Þingvöllum, þeim þjóðhelga stað, nú eða á turni dómkirkjunnar í Reykjavík.

Vituð þér enn – eða hvað? Já, eftir stendur kannski spurningin um trúleysið. Nú er það vissulega svo að ég stend utan allra trúfélaga en í góðri sátt við guð og menn að því er ég best veit. Ég vona þess vegna að þið fyrirgefið að ég nýti þetta tækifæri hér í Skálholti til að lýsa aðeins að lokum eigin trúar- og trúfélagssögu.

Ömmur mínar tvær voru báðar fæddar árið 1909. Móðuramman Margrét ólst upp í Hjörsey á Mýrum, í nokkurri einangrun eins og síðar greinir. Föðuramman Sigurveig fékk berkla ung að árum. Hún var lengi rúmföst, lá á Kópavogshæli og sá aðeins út fyrir veggi sjúkrastofunnar með því að halda á spegli þannig að vogurinn blasti við henni. „Er svo sem frá nokkru að segja í slíkri tilveru?“ Þannig spurði amma löngu síðar í endurminningum sínum sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir skráði og hún svaraði að bragði: „Jú, reyndar, því þegar hinn ytri heimur lokast, utan eins klefa, þá fer sálin á kreik. Heimurinn varð hjáleigan, höfuðbólið draumsins ríki.“

Frá því er líka að segja að ömmur mínar tvær kynntust í Kvennaskólanum, voru leitandi í trúmálum og að því kom að þær tóku báðar kaþólska trú. Amma Sigurveig ætlaði að gerast nunna en ekki varð úr því – blessunarlega, segi ég. Trúarhitinn var þó samur við sig. Í ævisögu sinni lýsir hún því til dæmis hvernig Marteinn Meulenberg, fyrsti biskup kaþólskra á Íslandi eftir siðaskipti (og takið eftir því að ég nota það orð, ekki siðbót), predikaði yfir henni eins og þar segir „um yfirburði hins forna siðar fram yfir þá Lúthersvillu sem Kristján III Danakóngur tróð upp á Íslendinga eftir að hafa látið hálshöggva síðustu sönnu Íslendingana, Jón Arason biskup og syni hans“.

Amma Veiga var þó fráleitt þröngsýn í trúmálum frekar en öðru, var lengi flokksbundin í Sjálfstæðisflokknum en lauk sínum pólitíska ferli í Kvennalistanum, alltaf fróðleiksfús og frjó í hugsun. Hún lést á hundraðasta og fyrsta aldursári og bjó síðustu árin á Hrafnistu í Hafnarfirði. Þar heimsótti ég hana gjarnan og skrifaði svo hjá mér punkta upp úr frásögnum hennar, fróðlega og skemmtilega. Hér er dæmi: „Amma Veiga, 10. júní 2004: Ég vil ekki lifa ef ég get ekki lesið.“ Og svo þetta: „Allt sem [kaþólska] kirkjan segir um konur, barneignir, og þess háttar er á skakk og skjön. Og hvað ættu þessar karluglur líka að geta vitað um þetta?“

Þá er þess að geta að Sigurveig gekk í hjónaband, eignaðist föður minn, Jóhannes Sæmundsson, árið 1940 og svo sex önnur börn. Þau voru alin upp í kaþólskum sið og pabbi var tvo vetur á heimavistarskóla á Írlandi. Í einu bréfa sinna til hans skrifar amma til frumburðarins: „Þú ættir að spyrja prestana hvað þeim finnst um að þú yrðir tertiar, ef þú hefir kraft til slíks félagsskapar.“ Og hvað er það nú að vera tertiar? Jú, að fylgja leikmannareglu, vera ekki í klaustri en vinna heit um fátækt, guðsótta og skírlífi. Aftur segi ég að blessunarlega varð ekki af því að slík slóð yrði fetuð.

Ég segi ekki að það hafi verið til vara en amma mín lýsti líka þeirri von fyrir föður mínum að fengi hann kvonfang yrði góð stúlka fyrir valinu – kaþólsk stúlka. Þá ku hann hafa svarað að þar væri úr vöndu að ráða því að eina stelpan sem þá kæmi til greina væri hún Magga Toll og henni myndi hann aldrei giftast.

Það var sem sagt Margrét Thorlacius, dóttir vinkonunnar Margrétar úr Kvennaskólanum og kaþólskum sið, og manns hennar sem ég er nefndur í höfuðið á. Aldrei að segja aldrei! Þau Jóhannes og Margrét giftust. Er ég elstur í röð þriggja sona þeirra og allir vorum við skírðir til kaþólskrar trúar. Hvern sunnudag gekk ég til kirkju með ömmu Margréti og náði því á barnsaldri að hlusta á messuna þegar hún var lesin á latínu. Enn kann ég suma hluta hennar – kyrie eleison og credo og játningu syndanna, mea culpa, mea culpa, mea maxima culpa.

Þegar þar var komið sögu vissi barnið að senn liði að lokum guðsþjónustunnar. Skömmu síðar varð sú breyting að messunni var snúið yfir á íslensku og sú saga hefur lifað í minni fjölskyldu að þá hafi kveðjuorðum verið bætt við þannig að prestur eða biskup sagði: „Farið í friði, messunni er lokið“ og fyrsta kastið hafi söfnuður síðan svarað að bragði: „Guði sé lof!“ Síðan hafi því svo verið breytt – af augljósum ástæðum – í „Þökk sé guði.“ Sú kveðja þótti ekki eins tvíræð.

Ég nefndi áðan að Margrét móðuramma mín ólst upp á Hjörsey á Mýrum. Þar var fátt um leikfélaga en hún sagði mér ungum að hún hefði bara leikið við álfana í hólunum. Það þóttu mér firn mikil og sagði með töffaraskap táningsins að þetta gæti bara ekki verið. Hún væri rammkaþólsk og það væru engir álfar í biblíunni; þetta væru bara hjátrú og hindurvitni. Gamla konan var hins vegar fljót að slá vopnin úr höndum oflátungsins. „Guðni minn,“ svaraði hún pollróleg, „þetta voru kaþólskir álfar.“

Ég minnist amma minna með miklum hlýhug og föður míns sömuleiðis. Hann lést úr krabbameini árið 1983, langt fyrir aldur fram. Í bréfi nokkru síðar skrifaði amma Sigurveig: „Þau hin römmu rök, að hann skyldi ekki verða langlífur, þeim getur enginn svarað. Allt vort ráð er í Guðs hendi.“

Það var gott og blessað en reynið að segja það við fjórtán ára strák sem missir föður sinn. Þá þegar tók við efi um hinn góða guð, barnatrúin beið algeran hnekki. Við faðir minn höfðum líka rætt um tengsl trúar og vísinda, hvernig kirkjuvaldið hefði lengi reynt að útskýra margt sem við hefðum síðan lært að skilja án aðstoðar úr þeirri átt. Þar voru Kópernikus og Galíleo til dæmis mínir menn. Raunhyggjan fékk að ráða frekar en það sem ég vildi þá kalla blinda trú, jafnvel bull og vitleysu ‒ um konu búna til úr rifbeini karls, vatni breytt í vín og annað eftir því.

Á fullorðinsárum sagði ég mig líka úr kaþólskri kirkju. Þetta gerði maður í kyrrþey á eigin forsendum en öll mín börn hafa verið skírð til kristinnar trúar og þau ráða síðan hvað þau gera í þeim efnum.

Sjálfur hef ég komist nær því sem kalla má jafnvægi í trú og efa. Mína sýn á mannúð og mildi, grundvöll kristinnar trúar ef því er að skipta, má draga saman í upphafsorðum Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna eins og ég lærði þau einu sinni utan að: „Hver maður er borinn frjáls, jafn öðrum að virðingu og réttindum. Menn eru gæddir vitsmunum og samvisku og ber þeim að breyta bróðurlega hverjum við annan.“

Kæru vinir: Í samfélagi frelsis, framfara og friðar verður fullt trúfrelsi að ríkja. Ekki má þröngva trú og venju upp á þau sem vilja lítið með slíkt gera eða hafa á því ímugust. Um leið verður réttarríkið ætíð að vera öllum trúarbrögðum æðri. Við skulum hafa ein lög en marga siði. Og styrkur samfélags og ríkis felst ekki síst í þeim sáttmála fólks frá degi til dags að það sé meira sem sameinar okkur en hitt sem sundrar. Þar geta kirkja og trú gegnt viðamiklu hlutverki sé rétt á málum haldið.

Í mínu embætti hef ég notið þess einstaka heiðurs að fagna með þjóðinni á gleðistundum. Ég hef fundið fyrir samhug og samstöðu við mörg ólík tilefni, fyllst bjartsýni og von með fjöldanum.

En ég hef líka mætt fólki í mikilli sorg ‒ þegar áföll hafa dunið yfir, þegar vonin hefur verið hvað veikust. Oftar en ekki hef ég þá séð hversu mikilvæg trú getur verið, hvernig haldreipi fæst þar, hvernig kirkjunnar þjónar geta rétt hjálparhönd, verið til taks þegar mest á reynir, og hvernig við vonum að hann heyri himnasmiður hvers við biðjum.

„Við vitum það með lífið, það endar bara á einn veg.“ Þannig mæltist séra Karli Sigurbjörnssyni árið 2017, um svipað leyti og hann greindist með krabbamein. Það var líka um þær mundir að ég tók að njóta vinskapar hans og hlýju. Hann sendi mér kveðjur og rit og við ræddum saman öðru hvoru. Karl lést fyrr í ár og blessuð sé minning hans. Á Skálholtshátíð árið 2013, þegar hálfrar aldar afmælis þessarar glæstu kirkju var minnst, flutti hann frábært ávarp. Karl hafði nýlokið landsprófi þegar hann réðst til starfa við að fegra umhverfið hér utandyra fyrir vígslu hennar. Í máli sínu brá hann upp mynd af gerð kirkjunnar og Kristsmyndarinnar sem síðar kom – en sagði um leið dýpri sögu eins og honum var svo vel lagið.

Ég lýk máli mínu hér í dag með því að óska ykkur öllum velfarnaðar, þakka vináttu og hlýhug í áranna rás, og vitna í þessa lýsingu Karls Sigurbjörnssonar á lífi og list, menningu og mannlífi á þessu yndisfagra landi okkar:

Allt sem ber fyrir augu og eyru okkar hér í Skálholti í dag vitnar um hið besta í íslenskri þjóðmenningu, en kemur hvaðanæva. Gjafir sem við höfum þegið. Kirkjugluggarnir [sem Gerður Helgadóttir gerði] eru fágætt listaverk, vinargjöf erlendra manna. Þremur árum síðar kom svo Kristsmynd Nínu Tryggvadóttur, líka kostuð af Dönum en unnin af sömu þýsku handverksmönnunum og gluggarnir. Já, þessar merku íslensku listakonur áttu báðar frægðarferil sinn í framandi löndum. Mér er minnisstætt þegar búið var að raða hér á kirkjugólfið þeim óteljandi smásteinum í ótal litum sem myndin er byggð upp af. Og maður gat með engu móti skilið að hér væri mynd, hvað þá það undursamlega listaverk sem listakonan sá fyrir sér, þegar þessir ótalmörgu smásteinar mynduðu saman þá heild sem handverksmennirnir felldu síðan saman af alúð og trúmennsku. Svona er íslenskt samfélag, menning, kirkja, ótal marglitar og ólíkar einingar, einstaklingar, fjölskyldur, heimili, samfélög, hagsmunir, en það er hugur og mynd að baki oft ósýnileg og óskiljanleg í margbreytileika sínum, en samt svo skýr. Og svo kemur til trúmennska hinna mörgu sem skynja huga höfundarins, og missa ekki sjónar á myndinni.

Ég þakka ykkur fyrir áheyrnina.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Kirkjublaðið birtir með góðfúslegu leyfi forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar, ræðu þá sem hann flutti 21. júlí sl. í Skálholtsdómkirkju á Skálholtshátíð

 

Skjaldarmerki forseta Íslands
 

Biskup Íslands,
nýkjörinn biskup,
vígslubiskupinn í Skálholti,
ráðherra og aðrir góðir gestir.

 

Mér þykir vænt um að flytja erindi á Skálholtshátíð, þremur aldarfjórðungum eftir að sú fyrsta var haldin. Umgjörðin er virðuleg, hvort sem horft er til hinnar glæstu byggingar sem hýsir okkur eða sögu staðarins – þess þráðar sem tengir okkar samtíma við hið liðna. Hér sat fyrsti biskup Íslands, hér var lengi stórbú og um miðja þrettándu öld hófst sá siður að koma hér saman hinn 20. júlí ár hvert; á Þorláksmessu sem svo var nefnd til heiðurs Þorláki biskupi Þórhallssyni.

Um þremur öldum síðar urðu svo mikil tíðindi hér í Skálholti; Jón Arason veginn ásamt sonum sínum tveimur. Í sögunni hefur Jón ætíð lifað, þjóðhetja sem barðist gegn dönsku konungsvaldi. Hann var hinn síðasti Íslendingur sem stóð undir nafni á þeim óróatímum eins og Jón forseti Sigurðsson komst að orði.

Eitthvað hefur ímynd Jóns biskups Arasonar þó breyst í tímans rás. Því hefur verið haldið fram að engir hafi breytt gangi mannkynssögunnar eins mikið og sagnfræðingarnir, eða í það minnsta reynt það. Þannig hefur Helgi Þorláksson, einn félaga minna í þeirri stétt, fullyrt nýlega að þótt vart verði ættjarðarástar hjá Jóni biskupi hafi þjóðernishyggja í anda Jóns forseta verið honum algerlega framandi. En þá finnst öðrum kannski fulllangt gengið. „Á síðari tímum komst einhvern veginn í tísku að reyna að gera lítið úr þjóðhetjum.“ Það skrifaði Ásgeir Jónsson, hagfræðingur og seðlabankastjóri, fyrir nokkrum árum. Að vísu benti hann einnig á að Jón Arason ætlaði sér að koma landinu undir þýsk yfirráð og þá má efast um þjóðræknina, ekki satt?

Svona getur sagan verið flókin og margslungin, síkvik og háð aldasöng hvers tíma. Og hún breytist ekki bara með nýjum túlkunum og ályktunum; við finnum líka nýjar heimildir. Í ágúst fyrir sjötíu árum fannst hér – nánast nákvæmlega undir þeim stað sem ég stend á nú – steinkista Páls biskups Jónssonar. Þetta var og er einn merkasti fornleifafundur Íslandssögunnar. „Það er fullkomlega egypsk stemning yfir henni,“ skrifaði Kristján Eldjárn þjóðminjavörður hjá sér daginn sem kistan fannst.

Tveimur árum síðar, sumarið 1956, var níu alda afmæli biskupsdóms á Íslandi fagnað á Skálholtshátíð, þeirri fjölmennustu fyrr og síðar þegar nær níu þúsund manns komu hér saman. Þá var einnig lagður hornsteinn að þeirri dómkirkju sem við njótum nú og þá mælti Ásgeir Ásgeirsson forseti svo um helgi og sögu þessa staðar: „Hér reika svipir margra hinna ágætustu manna fortíðarinnar. … Hin ósýnilega Skálholtskirkja hefir alltaf fyrirfundist og stígur nú fram í allri sinni tign, þegar þokunni léttir.“

Sumarið 1963, á þeim sunnudegi sem næstur var Þorláksmessu, var hin nýja kirkja vígð og æ síðan hefur verið boðað til Skálholtshátíðar um það leyti. Þær hafa verið vel sóttar og vinsælar, vettvangur menningar og mennta, tónlistar og gleði. Þannig hafa vísur orðið til hér, með vísun í sögu staðarins og vitna ég hér í einn kviðlinginn af því tagi:

Ástin finnur afdrep nóg,
á sér leynistaði.
Faðmast enn í rökkurró,
Ragnheiður og Daði.

(Stefán Stefánsson frá Móskógum á Bökkum, Skagafirði)

Já, hér hefur verið gestkvæmt og gaman. Þegar Kristján Eldjárn var orðinn forseti sótti hann Skálholtshátíð og það gerðu þau Vigdís Finnbogadóttir og Ólafur Ragnar Grímsson sömuleiðis. Og nú feta ég í þeirra fótspor, flyt hér eitt mitt síðasta opinbera ávarp á forsetastóli.

Mér þykir vænt um það eins og áður sagði, þykir í raun heiður að því. Ég þakka Agnesi Sigurðardóttur biskupi fyrir samstarf á liðnum árum og óska henni gæfu og góðs gengis. Sömu óskir færi ég nýkjörnum biskupi, Guðrúnu Karls Helgudóttur. Þá þakka ég þeim hjónum, Kristjáni Björnssyni vígslubiskupi og Guðrúnu Helgu Bjarnadóttur, gestrisni og góðvild hér í Skálholti nú sem endranær.

Ágætu áheyrendur: Stundum gætir þess misskilnings að forseti sé samkvæmt stjórnarskrá verndari þjóðkirkjunnar. Sú er ekki raunin en þar segir þó að hin evangelíska lúterska kirkja sé þjóðkirkja á Íslandi og skuli ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Um leið er kveðið á um fullt trúfrelsi í landinu enda telst slíkt til grundvallarmannréttinda í öflugu lýðræðisríki.

Vissulega hafa tengsl ríkis og kirkju því smám saman dofnað hér á landi. Tímarnir breytast og mennirnir með. Sjálfsagt er samt að samband þjóðhöfðingja og þjóðkirkju sé eins farsælt og traust og verða má. Forseti hefur ætíð sótt guðsþjónustu fyrir innsetningu í embætti eða setningu Alþingis og þegar ég var kjörinn til setu á Bessastöðum var það enn í verkahring forseta að skipa biskupa á Íslandi í embætti svo að nærtækt dæmi sé tekið. Skammt er síðan lögum um þetta var breytt og legg ég ekki mat hér á ágæti þess. En okkar ágæti vígslubiskup í Skálholti var sá síðasti í biskupsstétt sem hlaut skipan forseta í embætti.

Gleymum því ekki heldur að á þjóðhöfðingjasetrinu blasir bændakirkja staðarins fyrst við gestum og gangandi. Það er virðuleg bygging, eitt elsta guðshús landsins. Nú standa þar yfir viðgerðir og endurbætur. Er það ósk mín og vænting að við frekari framkvæmdir verði ætíð tekið tillit til þarfa og vilja presta og safnaðar. Um leið má eftir föngum færa kirkjuna að takmörkuðu leyti til upprunalegs eða eldra horfs ‒ enda má vissulega deila um gildi ýmissa breytinga sem ráðist hefur verið í.

Augljóst umhugsunarefni er trúartáknið á turni kirkjunnar. Þegar lokið var við gerð hans árið 1823 var settur þar veðurviti eða vindör, með danskri kórónu áfastri. Skömmu eftir lýðveldisstofnun voru þau herlegheit hins vegar fjarlægð og kross settur í staðinn. Hann fauk svo af laust fyrir síðustu aldamót og þar til í fyrra var turninn án nokkurs skrauts af neinu tagi.

Þá voru tímamót, tvær aldir frá því að rekið var smiðshögg á turn Bessastaðakirkju. Af því tilefni féllst ég á að settur yrði veðurviti á kirkjuna á ný, með sama sniði og sá sem prýddi hana í vel á aðra öld. Að vísu var kórónu sleppt enda hefði verið ótækt að það tákn erlends valds gnæfði hæst við aðsetur forseta lýðveldisins.

Fyrst um sinn gætti samt einhverrar gremju vegna veðurvitans nýja. Því heyrðist jafnvel fleygt að ég hefði látið fjarlægja krossinn, trúlaus maðurinn, nú eða að það væri út í hött að hafa veðurvita, vindör eða vindhana á turni kirkna. Hvorugt er satt og það kom mér stundum á óvart hversu hvassyrt sumt fólk gat orðið í krafti sinnar trúarsannfæringar eða hvað ætti að kalla það. Sagan er ólygnust um veðurvitann á Bessastaðakirkju og til samanburðar má líka horfa á trúartákn af nákvæmlega sama tagi á turni kirkjunnar á Þingvöllum, þeim þjóðhelga stað, nú eða á turni dómkirkjunnar í Reykjavík.

Vituð þér enn – eða hvað? Já, eftir stendur kannski spurningin um trúleysið. Nú er það vissulega svo að ég stend utan allra trúfélaga en í góðri sátt við guð og menn að því er ég best veit. Ég vona þess vegna að þið fyrirgefið að ég nýti þetta tækifæri hér í Skálholti til að lýsa aðeins að lokum eigin trúar- og trúfélagssögu.

Ömmur mínar tvær voru báðar fæddar árið 1909. Móðuramman Margrét ólst upp í Hjörsey á Mýrum, í nokkurri einangrun eins og síðar greinir. Föðuramman Sigurveig fékk berkla ung að árum. Hún var lengi rúmföst, lá á Kópavogshæli og sá aðeins út fyrir veggi sjúkrastofunnar með því að halda á spegli þannig að vogurinn blasti við henni. „Er svo sem frá nokkru að segja í slíkri tilveru?“ Þannig spurði amma löngu síðar í endurminningum sínum sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir skráði og hún svaraði að bragði: „Jú, reyndar, því þegar hinn ytri heimur lokast, utan eins klefa, þá fer sálin á kreik. Heimurinn varð hjáleigan, höfuðbólið draumsins ríki.“

Frá því er líka að segja að ömmur mínar tvær kynntust í Kvennaskólanum, voru leitandi í trúmálum og að því kom að þær tóku báðar kaþólska trú. Amma Sigurveig ætlaði að gerast nunna en ekki varð úr því – blessunarlega, segi ég. Trúarhitinn var þó samur við sig. Í ævisögu sinni lýsir hún því til dæmis hvernig Marteinn Meulenberg, fyrsti biskup kaþólskra á Íslandi eftir siðaskipti (og takið eftir því að ég nota það orð, ekki siðbót), predikaði yfir henni eins og þar segir „um yfirburði hins forna siðar fram yfir þá Lúthersvillu sem Kristján III Danakóngur tróð upp á Íslendinga eftir að hafa látið hálshöggva síðustu sönnu Íslendingana, Jón Arason biskup og syni hans“.

Amma Veiga var þó fráleitt þröngsýn í trúmálum frekar en öðru, var lengi flokksbundin í Sjálfstæðisflokknum en lauk sínum pólitíska ferli í Kvennalistanum, alltaf fróðleiksfús og frjó í hugsun. Hún lést á hundraðasta og fyrsta aldursári og bjó síðustu árin á Hrafnistu í Hafnarfirði. Þar heimsótti ég hana gjarnan og skrifaði svo hjá mér punkta upp úr frásögnum hennar, fróðlega og skemmtilega. Hér er dæmi: „Amma Veiga, 10. júní 2004: Ég vil ekki lifa ef ég get ekki lesið.“ Og svo þetta: „Allt sem [kaþólska] kirkjan segir um konur, barneignir, og þess háttar er á skakk og skjön. Og hvað ættu þessar karluglur líka að geta vitað um þetta?“

Þá er þess að geta að Sigurveig gekk í hjónaband, eignaðist föður minn, Jóhannes Sæmundsson, árið 1940 og svo sex önnur börn. Þau voru alin upp í kaþólskum sið og pabbi var tvo vetur á heimavistarskóla á Írlandi. Í einu bréfa sinna til hans skrifar amma til frumburðarins: „Þú ættir að spyrja prestana hvað þeim finnst um að þú yrðir tertiar, ef þú hefir kraft til slíks félagsskapar.“ Og hvað er það nú að vera tertiar? Jú, að fylgja leikmannareglu, vera ekki í klaustri en vinna heit um fátækt, guðsótta og skírlífi. Aftur segi ég að blessunarlega varð ekki af því að slík slóð yrði fetuð.

Ég segi ekki að það hafi verið til vara en amma mín lýsti líka þeirri von fyrir föður mínum að fengi hann kvonfang yrði góð stúlka fyrir valinu – kaþólsk stúlka. Þá ku hann hafa svarað að þar væri úr vöndu að ráða því að eina stelpan sem þá kæmi til greina væri hún Magga Toll og henni myndi hann aldrei giftast.

Það var sem sagt Margrét Thorlacius, dóttir vinkonunnar Margrétar úr Kvennaskólanum og kaþólskum sið, og manns hennar sem ég er nefndur í höfuðið á. Aldrei að segja aldrei! Þau Jóhannes og Margrét giftust. Er ég elstur í röð þriggja sona þeirra og allir vorum við skírðir til kaþólskrar trúar. Hvern sunnudag gekk ég til kirkju með ömmu Margréti og náði því á barnsaldri að hlusta á messuna þegar hún var lesin á latínu. Enn kann ég suma hluta hennar – kyrie eleison og credo og játningu syndanna, mea culpa, mea culpa, mea maxima culpa.

Þegar þar var komið sögu vissi barnið að senn liði að lokum guðsþjónustunnar. Skömmu síðar varð sú breyting að messunni var snúið yfir á íslensku og sú saga hefur lifað í minni fjölskyldu að þá hafi kveðjuorðum verið bætt við þannig að prestur eða biskup sagði: „Farið í friði, messunni er lokið“ og fyrsta kastið hafi söfnuður síðan svarað að bragði: „Guði sé lof!“ Síðan hafi því svo verið breytt – af augljósum ástæðum – í „Þökk sé guði.“ Sú kveðja þótti ekki eins tvíræð.

Ég nefndi áðan að Margrét móðuramma mín ólst upp á Hjörsey á Mýrum. Þar var fátt um leikfélaga en hún sagði mér ungum að hún hefði bara leikið við álfana í hólunum. Það þóttu mér firn mikil og sagði með töffaraskap táningsins að þetta gæti bara ekki verið. Hún væri rammkaþólsk og það væru engir álfar í biblíunni; þetta væru bara hjátrú og hindurvitni. Gamla konan var hins vegar fljót að slá vopnin úr höndum oflátungsins. „Guðni minn,“ svaraði hún pollróleg, „þetta voru kaþólskir álfar.“

Ég minnist amma minna með miklum hlýhug og föður míns sömuleiðis. Hann lést úr krabbameini árið 1983, langt fyrir aldur fram. Í bréfi nokkru síðar skrifaði amma Sigurveig: „Þau hin römmu rök, að hann skyldi ekki verða langlífur, þeim getur enginn svarað. Allt vort ráð er í Guðs hendi.“

Það var gott og blessað en reynið að segja það við fjórtán ára strák sem missir föður sinn. Þá þegar tók við efi um hinn góða guð, barnatrúin beið algeran hnekki. Við faðir minn höfðum líka rætt um tengsl trúar og vísinda, hvernig kirkjuvaldið hefði lengi reynt að útskýra margt sem við hefðum síðan lært að skilja án aðstoðar úr þeirri átt. Þar voru Kópernikus og Galíleo til dæmis mínir menn. Raunhyggjan fékk að ráða frekar en það sem ég vildi þá kalla blinda trú, jafnvel bull og vitleysu ‒ um konu búna til úr rifbeini karls, vatni breytt í vín og annað eftir því.

Á fullorðinsárum sagði ég mig líka úr kaþólskri kirkju. Þetta gerði maður í kyrrþey á eigin forsendum en öll mín börn hafa verið skírð til kristinnar trúar og þau ráða síðan hvað þau gera í þeim efnum.

Sjálfur hef ég komist nær því sem kalla má jafnvægi í trú og efa. Mína sýn á mannúð og mildi, grundvöll kristinnar trúar ef því er að skipta, má draga saman í upphafsorðum Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna eins og ég lærði þau einu sinni utan að: „Hver maður er borinn frjáls, jafn öðrum að virðingu og réttindum. Menn eru gæddir vitsmunum og samvisku og ber þeim að breyta bróðurlega hverjum við annan.“

Kæru vinir: Í samfélagi frelsis, framfara og friðar verður fullt trúfrelsi að ríkja. Ekki má þröngva trú og venju upp á þau sem vilja lítið með slíkt gera eða hafa á því ímugust. Um leið verður réttarríkið ætíð að vera öllum trúarbrögðum æðri. Við skulum hafa ein lög en marga siði. Og styrkur samfélags og ríkis felst ekki síst í þeim sáttmála fólks frá degi til dags að það sé meira sem sameinar okkur en hitt sem sundrar. Þar geta kirkja og trú gegnt viðamiklu hlutverki sé rétt á málum haldið.

Í mínu embætti hef ég notið þess einstaka heiðurs að fagna með þjóðinni á gleðistundum. Ég hef fundið fyrir samhug og samstöðu við mörg ólík tilefni, fyllst bjartsýni og von með fjöldanum.

En ég hef líka mætt fólki í mikilli sorg ‒ þegar áföll hafa dunið yfir, þegar vonin hefur verið hvað veikust. Oftar en ekki hef ég þá séð hversu mikilvæg trú getur verið, hvernig haldreipi fæst þar, hvernig kirkjunnar þjónar geta rétt hjálparhönd, verið til taks þegar mest á reynir, og hvernig við vonum að hann heyri himnasmiður hvers við biðjum.

„Við vitum það með lífið, það endar bara á einn veg.“ Þannig mæltist séra Karli Sigurbjörnssyni árið 2017, um svipað leyti og hann greindist með krabbamein. Það var líka um þær mundir að ég tók að njóta vinskapar hans og hlýju. Hann sendi mér kveðjur og rit og við ræddum saman öðru hvoru. Karl lést fyrr í ár og blessuð sé minning hans. Á Skálholtshátíð árið 2013, þegar hálfrar aldar afmælis þessarar glæstu kirkju var minnst, flutti hann frábært ávarp. Karl hafði nýlokið landsprófi þegar hann réðst til starfa við að fegra umhverfið hér utandyra fyrir vígslu hennar. Í máli sínu brá hann upp mynd af gerð kirkjunnar og Kristsmyndarinnar sem síðar kom – en sagði um leið dýpri sögu eins og honum var svo vel lagið.

Ég lýk máli mínu hér í dag með því að óska ykkur öllum velfarnaðar, þakka vináttu og hlýhug í áranna rás, og vitna í þessa lýsingu Karls Sigurbjörnssonar á lífi og list, menningu og mannlífi á þessu yndisfagra landi okkar:

Allt sem ber fyrir augu og eyru okkar hér í Skálholti í dag vitnar um hið besta í íslenskri þjóðmenningu, en kemur hvaðanæva. Gjafir sem við höfum þegið. Kirkjugluggarnir [sem Gerður Helgadóttir gerði] eru fágætt listaverk, vinargjöf erlendra manna. Þremur árum síðar kom svo Kristsmynd Nínu Tryggvadóttur, líka kostuð af Dönum en unnin af sömu þýsku handverksmönnunum og gluggarnir. Já, þessar merku íslensku listakonur áttu báðar frægðarferil sinn í framandi löndum. Mér er minnisstætt þegar búið var að raða hér á kirkjugólfið þeim óteljandi smásteinum í ótal litum sem myndin er byggð upp af. Og maður gat með engu móti skilið að hér væri mynd, hvað þá það undursamlega listaverk sem listakonan sá fyrir sér, þegar þessir ótalmörgu smásteinar mynduðu saman þá heild sem handverksmennirnir felldu síðan saman af alúð og trúmennsku. Svona er íslenskt samfélag, menning, kirkja, ótal marglitar og ólíkar einingar, einstaklingar, fjölskyldur, heimili, samfélög, hagsmunir, en það er hugur og mynd að baki oft ósýnileg og óskiljanleg í margbreytileika sínum, en samt svo skýr. Og svo kemur til trúmennska hinna mörgu sem skynja huga höfundarins, og missa ekki sjónar á myndinni.

Ég þakka ykkur fyrir áheyrnina.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir