Það er gott að vera mátulega ánægður með sig og sína. Við eigum að vera stolt af verkum okkar og horfast með heiðarlegum hætti í augu við öll þau sem verk okkar kunna að vera unnin fyrir. Hófleg ánægja með vel unnin verk og sjálfan sig er holl sálarlífinu – og hvetur til að halda áfram á sömu braut.
Samfélagsmiðlar nútímans hafa gefið fólki tækifæri til að vekja athygli á sjálfu sér með jákvæðum hætti. Hrós og aðdáun lætur sjaldnast á sér standa í vinahópnum og vekur vellíðan bæði hjá þeim sem hrósið á skilið og þeim sem hrósar. Enda á að hrósa fyrir það sem vel er gert.
Hverjum þykir sinn fugl fagur þó hann sé bæði ljótur og magur, er stundum sagt. Það má færa upp á samfélagsmiðlana þegar nákomnum er hrósað í hástert. Ekkert er athugavert við það í sjálfu sér og skiptir engu hvort sem einhverjum kunni slíkt fjölskyldu- og vinahrós vera broslegt.
En það er vandratað meðalhófið eins og frægt er. Sumir eru frekari til fjörsins eins og sagt er og gefa reyndar lítið fyrir meðalhófið. Vilja meira rými fyrir persónu sína og hversdagsleg afrek. Vilja jafnvel heyra í hverri setningu orðið snillingur og telja sig meira að segja ekki geta lifað án aðdáunar annarra; hún verður þeim sem næring hungraðri manneskju.
Hógværð sem dygð hefur verið á undanhaldi í samfélaginu. Dygðir eru náttúrulega ekki annað en eitthvað sem samfélagið kemur sér saman um að sé eftirsóknarvert og mikilvægur þáttur í vönduðum persónuleika. Þess vegna geta dygðir komið og farið eftir því hvernig vindar blása í samfélaginu enda þótt flestar þeirra séu meitlaðar í deiglu aldanna.
Sjálfsánægja hefur siglt nokkrum hraðbyri í flokk dygða en þó ekki í merkingunni mont eða drýldni. Kannski fremur sem einhvers konar eðlilegt stolt og ánægja með að hafa komið einhverju í verk sem sé hróssins virði.
Sjálfsánægja er ólík hógværðinni hvað það snertir að henni finnst eðlilegt að vekja blátt áfram athygli á einhverju vel unnu eða góðum kosti meðan sú síðarnefnda hefur fremur hljótt um sig eða biðst jafnvel afsökunar með þeim orðum að þetta eða hitt sé ómynd.
Andstaða þessarar náttúrlegu sjálfsánægju er hrokinn en um hann eru til mörg orð eins og belgingur, dramb, gorgeir, mikillæti, mont og oflæti.
Hroki er fyrirbæri sem fylgt hefur mannkyninu frá upphafi vega. Margar sögur eru til af því hvernig manneskjan hefur reynt að hreykja sér yfir aðra – líka yfir náttúruna og Guð. Talið allt eiga að vera í sinni hendi því þar sé öllu best borgið.
Öll þekkjum við hrokann. Finnum fyrir rembingi sem grípur okkur stundum, tyllum okkur á tá og erum full af drýgindum. Reigjum okkur og köllum eftir aðdáun. Kannski teljum við ætt okkar vera öðrum ættum fremri. Menntun okkar blæs okkur upp. Fimleiki og metnaður við að príla metorðastiga samfélagsins getur þanið brjóst og sperrt stél. Einnig má bæta við hvimleiðu sjálfshóli sem margur hefur tamið sér og sjá ekki kosti annarra eða verk þar sem drýldnin hefur byrgt þeim alla útsýn.
Hvernig eigum við að bregðast við hrokanum? Margir reyna hreint og beint að forðast hina hrokafullu vegna þeirrar einföldu ástæðu að þeir eru svo leiðinlegir þegar úldinn hrokinn blæs. Svo eru þeir sem velja þann kost að horfa fram hjá þessum persónuþætti og bíða þess að hrokinn renni af viðkomandi. Aðrir hlusta og jafnvel taka undir mærðarfullt hjal viðkomandi um sjálfan sig og þau viðbrögð eru verst því þau koma engu góðu til leiðar. Það er líka góð leið að segja viðkomandi umbúðalaust að vera ekki að hreykja sér upp; hætta monti og derringi.
En besta ráðið gegn hroka okkar sjálfra og annarra er auðmýkt.
Það teljast mannkostir að halda þessum miður neikvæða eðlisþætti í skefjum og flestum hefur verið innrætt frá blautu barnsbeini að temja sér hógværð sem hófleg og heilbrigð sjálfsánægja er sennilega að leysa af hólmi.
Í lokin má nefna að kosningar af hvaða tagi sem er geta reynt á mannkosti frambjóðenda og stuðningsfólks. Nýliðnar forsetakosningar gengu vel fyrir sig ef frá eru skilin mörg hörmuleg ummæli í athugasemdakerfum samfélagsmiðla. Forsetaefni tefldu sjálfum sér fram af yfirvegun og hógværð, já hógværð, með eðlilegri sjálfsánægju. Hið sama má segja um biskupskosningar sem fóru fram á árinu. Í þessum tvennum kosningum var, þegar öllu er á botninn hvolft, allt sem máli skipti til fyrirmyndar þar sem drýldni og hroka var gefið langt nef. Það er svo sannarlega ánægjuefni sem Fjallkonan hafði fullt tilefni til að færa til bókar á samfélagsmiðlunum.
…lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur …
(Matteusarguðspjall 11. 29)
Það er gott að vera mátulega ánægður með sig og sína. Við eigum að vera stolt af verkum okkar og horfast með heiðarlegum hætti í augu við öll þau sem verk okkar kunna að vera unnin fyrir. Hófleg ánægja með vel unnin verk og sjálfan sig er holl sálarlífinu – og hvetur til að halda áfram á sömu braut.
Samfélagsmiðlar nútímans hafa gefið fólki tækifæri til að vekja athygli á sjálfu sér með jákvæðum hætti. Hrós og aðdáun lætur sjaldnast á sér standa í vinahópnum og vekur vellíðan bæði hjá þeim sem hrósið á skilið og þeim sem hrósar. Enda á að hrósa fyrir það sem vel er gert.
Hverjum þykir sinn fugl fagur þó hann sé bæði ljótur og magur, er stundum sagt. Það má færa upp á samfélagsmiðlana þegar nákomnum er hrósað í hástert. Ekkert er athugavert við það í sjálfu sér og skiptir engu hvort sem einhverjum kunni slíkt fjölskyldu- og vinahrós vera broslegt.
En það er vandratað meðalhófið eins og frægt er. Sumir eru frekari til fjörsins eins og sagt er og gefa reyndar lítið fyrir meðalhófið. Vilja meira rými fyrir persónu sína og hversdagsleg afrek. Vilja jafnvel heyra í hverri setningu orðið snillingur og telja sig meira að segja ekki geta lifað án aðdáunar annarra; hún verður þeim sem næring hungraðri manneskju.
Hógværð sem dygð hefur verið á undanhaldi í samfélaginu. Dygðir eru náttúrulega ekki annað en eitthvað sem samfélagið kemur sér saman um að sé eftirsóknarvert og mikilvægur þáttur í vönduðum persónuleika. Þess vegna geta dygðir komið og farið eftir því hvernig vindar blása í samfélaginu enda þótt flestar þeirra séu meitlaðar í deiglu aldanna.
Sjálfsánægja hefur siglt nokkrum hraðbyri í flokk dygða en þó ekki í merkingunni mont eða drýldni. Kannski fremur sem einhvers konar eðlilegt stolt og ánægja með að hafa komið einhverju í verk sem sé hróssins virði.
Sjálfsánægja er ólík hógværðinni hvað það snertir að henni finnst eðlilegt að vekja blátt áfram athygli á einhverju vel unnu eða góðum kosti meðan sú síðarnefnda hefur fremur hljótt um sig eða biðst jafnvel afsökunar með þeim orðum að þetta eða hitt sé ómynd.
Andstaða þessarar náttúrlegu sjálfsánægju er hrokinn en um hann eru til mörg orð eins og belgingur, dramb, gorgeir, mikillæti, mont og oflæti.
Hroki er fyrirbæri sem fylgt hefur mannkyninu frá upphafi vega. Margar sögur eru til af því hvernig manneskjan hefur reynt að hreykja sér yfir aðra – líka yfir náttúruna og Guð. Talið allt eiga að vera í sinni hendi því þar sé öllu best borgið.
Öll þekkjum við hrokann. Finnum fyrir rembingi sem grípur okkur stundum, tyllum okkur á tá og erum full af drýgindum. Reigjum okkur og köllum eftir aðdáun. Kannski teljum við ætt okkar vera öðrum ættum fremri. Menntun okkar blæs okkur upp. Fimleiki og metnaður við að príla metorðastiga samfélagsins getur þanið brjóst og sperrt stél. Einnig má bæta við hvimleiðu sjálfshóli sem margur hefur tamið sér og sjá ekki kosti annarra eða verk þar sem drýldnin hefur byrgt þeim alla útsýn.
Hvernig eigum við að bregðast við hrokanum? Margir reyna hreint og beint að forðast hina hrokafullu vegna þeirrar einföldu ástæðu að þeir eru svo leiðinlegir þegar úldinn hrokinn blæs. Svo eru þeir sem velja þann kost að horfa fram hjá þessum persónuþætti og bíða þess að hrokinn renni af viðkomandi. Aðrir hlusta og jafnvel taka undir mærðarfullt hjal viðkomandi um sjálfan sig og þau viðbrögð eru verst því þau koma engu góðu til leiðar. Það er líka góð leið að segja viðkomandi umbúðalaust að vera ekki að hreykja sér upp; hætta monti og derringi.
En besta ráðið gegn hroka okkar sjálfra og annarra er auðmýkt.
Það teljast mannkostir að halda þessum miður neikvæða eðlisþætti í skefjum og flestum hefur verið innrætt frá blautu barnsbeini að temja sér hógværð sem hófleg og heilbrigð sjálfsánægja er sennilega að leysa af hólmi.
Í lokin má nefna að kosningar af hvaða tagi sem er geta reynt á mannkosti frambjóðenda og stuðningsfólks. Nýliðnar forsetakosningar gengu vel fyrir sig ef frá eru skilin mörg hörmuleg ummæli í athugasemdakerfum samfélagsmiðla. Forsetaefni tefldu sjálfum sér fram af yfirvegun og hógværð, já hógværð, með eðlilegri sjálfsánægju. Hið sama má segja um biskupskosningar sem fóru fram á árinu. Í þessum tvennum kosningum var, þegar öllu er á botninn hvolft, allt sem máli skipti til fyrirmyndar þar sem drýldni og hroka var gefið langt nef. Það er svo sannarlega ánægjuefni sem Fjallkonan hafði fullt tilefni til að færa til bókar á samfélagsmiðlunum.