Í þessari grein verður rætt um ljósmyndina og spurt jafnframt um hvert sé sannleiksgildi ljósmynda almennt. Enn fremur verður augum sérstaklega beint að tveimur myndum af kirkjulegum vettvangi frá lokum 19. aldar og á öndverðri þeirri 20. og spurt hversu sannar þær megi teljast.

Samfélag nútímans er gegnsmogið ljósmyndum og hefur aldrei verið jafn mikið sem nú. Augað virðist aldrei verða mett á því að sjá myndir. Samfélagsmiðlarnir hafa lagt af mörkum til þessa myndaflóðs svo ekki sé meira sagt. Ef eitthvað er í öndvegi þá er það myndin. Bæði kyrr og á hreyfingu.

Ljósmyndin sigrar heiminn um stund

Það hefur verið mögnuð stund þegar ljósmyndin kom fyrst til sögunnar um miðja nítjándu öld. Ætli sú tilfinning hafi vaknað í brjóstum manna að nú loksins hefði maðurinn náð tökum á tilverunni? Búinn að ramma hana nánast inn! Öll fræði gripu ljósmyndina fegins hendi því að nú bættist önnur heimildaleið við hinar rituðu og munnlegu heimildir. Ljósmyndin. Hún hlaut að segja sanna og rétta sögu. Fólk „sá“ atburði með „eigin augum“ á myndum. Í ljósmyndinni nálgaðist maðurinn heiminn á nýjan hátt og færði fólk nær hvert öðru. [1] Hér var tæknin komin til sögu og skrásetningin hlaut að vera sönn og rétt. Ekki sveik tæknin!

Stundum er spurt hvað ljósmynd sé. Algengasta svarið er að hún sé mynd af einhverju tilteknu, fólki eða hlut. Í heimspeki ljósmyndarinnar – ef svo má komast að orði – er ekki allt eins einfalt og sýnist. Ljósmynd af hlut sýnir hvort tveggja í senn, nærveru hans og fjarveru. Þetta er hluturinn sem var þarna á tiltekinni stund (en er þar ekki lengur), skrásetning á tilteknum aðstæðum. En myndin er líka nærvera hlutarins – eins og aðstæður voru. Þess vegna má segja að þegar horft er á mynd af styttunni af Jónasi Hallgrímssyni í Hljómskálagarðinum þá telji viðkomandi myndina koma heim og saman við styttuna sem er þarna á þessum tiltekna stað. En til þess að sjá styttuna í raunveruleikanum verður að fara og skoða hana sjálfa en ekki í gegnum myndina. Það er auðvitað sterkari upplifun að standa andspænis styttunni sjálfri, sjá raunverulega stærð hennar og umhverfi.[2] Þannig má segja að myndin ein og sér sé á vissan hátt ófullkominn veruleiki þar sem hinn raunverulega raunveruleika vantar!

Eðli ljósmynda

Milli tækis og mannshandarinnar er alltaf samband. Maður heldur á pensli og málar. Annar á blýanti og skrifar skáldverk. Og enn annar á myndavél og tekur mynd. Hver þeirra skyldi greina með sönnustum hætti frá viðfanginu? Hér er ekki spurt hvort ljósmyndun sé list því að það er annað verkefni.

Ljósmyndir eru teknar í ákveðnum tilgangi. Fréttaljósmyndir, viðburðamyndir úr fjölskyldum o.s.frv. Markmiðið er að skrásetja það sem hefur gerst. Svo eru til aðrar tegundir af myndum sem eru áróðursmyndir og þeirra markmið er að hagræða því sem hefur gerst; þær eru bæði skoðanamyndandi og skoðanakúgandi.[3]

Ljósmynd er alltaf tekin út frá ákveðnu sjónarhorni. Segja má að sannleikur hennar sé sagður út frá því hvaðan hún er tekin. Miklu getur munað á sjónarhorninu eins og mörg dæmi eru um.[4]

Það er ljósmyndarinn sem velur hverju sinni sjónarhornið og það getur verið valið út frá margvíslegum forsendum. Fegurðartilfinningu, smekk, góðum ásetningi sem og vafasömum o.s.frv. Sjónarhornið getur verið vandlega valið til þess að viðfangið komi sem best út og önnur síðri sjónarhorn látin lönd og leið. Engu að síður eru þau sjónarhorn, sýnd og ekki sýnd. Í sinni róttækustu mynd mætti fullyrða að sannleikurinn væri valinn fyrir fram.

Segja ljósmyndir satt?

Sumar myndir segja augljóslega satt að svo miklu leyti sem þær geta það. Aðrar ekki.

Þegar hugað er að sannleiksgildi ljósmynda má ekki gleyma því að áhorfandinn kemur klyfjaður fyrirframþekkingu og jafnvel ákveðnum skoðunum að myndinni. Gömul mynd sem er tekin er skoðuð með augum þessarar þekkingar.[5] Eitt af því sem er í farteski okkar eru hugmyndir um sannleikann, hvað sé honum samkvæmt eða ekki. Áhorfandinn getur líka haft sínar skoðanir á því hvað er satt og hvað er ekki satt og þá sérstaklega þegar kemur að umdeildum myndum, kannski pólitískum.

„Ljósmyndin er hvort tveggja, atburðurinn og endurbirting hans og um leið er hún hvorugt. Hún er eins og vofa eða afturganga, hvorki raunveruleg né óraunveruleg, en um leið er hún hvort tveggja.“[6] Þetta sama orðaði kunnur ljósmyndari með öðrum hætti en þó svipuðum þegar hann sagði að hversu illa sem ljósmyndin hefði verið byggð, ljót og ómerkileg út frá tæknilegri hlið, þá væri hún það sem eftir lifði því að allt sem hún sýndi hyrfi fyrr eða síðar.[7] Í raun og veru má segja að hún sé sannleiksmerki um það sem var til staðar á tiltekinni stundu. En að sjálfsögðu er líka hægt að draga það í efa.

En er hægt að umgangast sannleikann með misjöfnum hætti? Meta svo í einhverjum tilvikum að ekki saki að hagræða honum, heitir jafnvel skáldaleyfi, á góðu máli. Í öðrum megi alls ekki hnika honum, það gæti jafnvel í versta falli flokkast undir landráð. Er sannleikurinn svo afstæður? Leiða má að því líkum að svo sé í ys og þys líðandi stundar. Eða er viðhorf gagnvart sannleikanum blendið? Ljósmyndir eins og önnur mannanna verk hafa verið lagfærðar til þess að fara betur í bókum og á blaðsíðum – en það eru ekki falsanir.[8]

Hvers vegna er eitt sjónarhorn valið umfram annað? Ljósmyndarinn getur haft ákveðnar hugmyndir um það en þær þurfa ekki að vera þær sömu og ljósmyndaskoðarinn hefur.

Í þessu sambandi er stundum talað um að ljósmynd sé í orsakasamhengi við þann hlut sem hún sýnir meðan málverkið hins vegar er í ásetningssambandi. Orsakasambandið helgast af tæknilegu sambandi. En hvort tveggja, málverk og ljósmynd, eru í ásetningssambandi þar sem ljósmyndarinn ákveður að taka mynd af tilteknum hlut og málarinn að mála hlutinn. Verk þeirra eru afurð sköpunar úr ásetningssambandi.[9] Þetta kemur ágætlega fram í ljósmyndaverkum Sigurðar Guðmundssonar en í bók einni segir svo um vinnuaðferð hans þar sem ásetningurinn er einkar skýr: „Myndavélinni er einfaldlega stillt upp, takan er hrein og bein.“[10] Uppstillingin er snar þáttur af mörgum ljósmyndum. Uppstilling er mikilvægur þáttur í ljósmyndun eins og í hópmyndum. Þá er reynt að haga myndatökunni svo að allir sjáist, allur hópurinn.

Það er hjálplegt að styðjast við hugtökin punctum og studium sem komu fram í merkilegu bókakveri eftir franska menningarforkólfinn Roland Barthes (1915-1980). Punctum er það sem augað grípur fyrst sem kjarna í myndinni, hreyfir við áhorfandanum með afgerandi hætti og oft á augabragði; talar til hans.[11] Studium er hins vegar sá menningarómur sem myndin færir áhorfandanum; hann svo að segja gefur sig á tal við þann menningarheim sem hún sýnir: veltir vöngum og spyr spurninga.[12]

Tvær myndir

Þær tvær myndir sem hér verður fjallað lítillega um í þessu samhengi eru af kirkjulegum vettvangi. Önnur tekin milli 1908 og 1928 og hin skömmu fyrir aldamótin 2000. Til hægðarauka eru myndirnar merktar A og B.

Þegar horft er á gamlar myndir vaknar óneitanlega upp í huganum sú spurning hvernig hægt sé að gera sér grein fyrir þeim veruleika sem býr að baki myndunum. Er hægt að gera kröfu til myndarinnar að hún segi einhverja löngu liðna sögu? Nú, og kannski segir hún bara enga sögu. Þetta á kannski sérstaklega við um mannamyndir og hlutverk þeirra, kannski var það bara að „staðfesta tilvist myndefnisins á tökutímanum.“[13] Sjálf eigum við fjölda mynda sem við ætlum ekki að segja í sjálfu sér neina sögu með heldur aðeins ramma inn augnablikið í minningarskyni. Hversdagslegar ljósmyndir hafa oft býsna hversdagslegan tilgang. Hversdagurinn er viðfangsefni flestra ljósmyndara – og almennings – og með þeim hætti má segja að sífellt sé verið að skoða þessa umgjörð, hversdaginn, sem manneskjan lifir og hrærist í. Sem sé: þar er ljósmyndin aðalskráningartækið.

En hvað með myndir sem teknar voru fyrir um einni öld og þaðan af eldri? Þá var myndataka hátíðleg stund en ekki hversdagsleg.

Mynd A

Mynd A

Guðsþjónusta í Holdsveikraspítalanum í Laugarnesi. Sú vitneskja ein og sér vekur upp í huga myndskoðara ýmsar vangaveltur. Hér eru saman komnir karlar og konur á öllum aldri, snúa baki í ljósmyndavélina. Ástæðan fyrir því kann að vera sú að fólk hafði óbeit á holdsveikisjúklingum – og þeir vildu ekki þekkjast fengju þeir endurheimt heilsu sína, sem var alls ekki alltaf víst. Maðurinn lengst til vinstri dregur athygli áhorfandans að sér. Kannski er hann punctum myndarinnar að áliti einhverra. Yfir honum er kyrrð dauðans alvöru enda horfir hann á hóp sjúklinga sem margir eru dauðvona. Engin lækning var til við holdsveiki. Þetta er sr. Haraldur Níelsson (1868-1928), prófessor, en hann var þjónandi prestur við spítalann frá 1908 til dauðadags.[14] Forystumaður í sálarrannsóknarfélaginu og var þjóðkunnur maður á sínum tíma og mjög eftirsóttur prédikari. Þá var hann rektor Háskóla Íslands um skeið og aðalþýðandi Biblíuútgáfunnar 1912. Það er vitneskja sem nútímamenn koma með að myndinni, hafi þeir aflað sér hennar eða kynnt sér sögu hennar að gefnu tilefni. Annars ekki.

Hvaða sögu er þessi mynd að segja? Álykta má svo að það sé verið að taka mynd af prestinum við störf og sýna að drjúgur hópur hefur komið til að hlýða á hann. Myndskoðari getur gefið sér út frá aðstæðum að yfir öllu hvíli dauðans angist. Hann getur sagt að þau öll sem sitja og hlusta og eru nafnlaus séu punctum myndarinnar ekki fyrirlesarinn. Punctum er háð tilfinningu og skynjun hvers og eins – er ekki eitthvað niðurnjörvað fyrirbæri. Svo gripið sé til hins greiningarhugtaksins úr smiðju Barthesar, studium, geta ýmsar hugsanir vaknað. Hvað er þessi maður að gera þarna? Hver er bakgrunnur þessa fólks sem hlýðir á hann og horfir ekki í auga myndavélarinnar?

Ef spurt er um sannleiksgildi myndarinnar þá er hægt að svara því svo að hún sýni kirkjulegt starf í Holdsveikraspítalanum svo langt sem það nær. Þau sem horfðu fyrst á þessa mynd töldu hana eflaust miðla hinu þögula og kyrra andrúmslofti sem hvílir yfir henni. Myndin er sönn í þeim skilningi að þessi stund fór fram og á vissum tímapunkti voru aðstæður með þessum hætti sem myndin sýnir en augnabliki síðar allt aðrar. Myndin skrásetur þessa stund. Hún er frásögn eða heimild um þessa stund en ekki stundin sjálf.

Þetta er líklega eina myndin sem varðveist hefur úr kapellu Holdsveikraspítalans í Laugarnesi í Reykjavík. Mynd sem sýnir með daufum hætti altaristöflu – og þar er prédikunarstóll. Allt þetta varð eldi að bráð þegar Holdsveikraspítalinn brann til grunna árið 1943 en þá hafði bandaríski herinn hann til umráða. Holdsveikraspítalinn var reistur 1898 að frumkvæði og kostnað dönsku Oddfellowreglunnar.[15]

Mynd B

Mynd B

Þessi mynd er tekin í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg 9 í Reykjavík nokkru fyrir aldamótin 2000. Hegningarhúsið var tekið í notkun árið 1874 og því var lokað sem fangelsi árið 2016. Húsið fær nýtt hlutverk þar sem margvísleg menningarstarfsemi mun líklega fara fram.

Myndin er frá guðsþjónustu í Hegningarhúsinu.[16] Þar var engin kapella heldur fóru allar guðsþjónustur fram á fangaganginum svokallaða en eftir endilöngu húsinu var langur gangur og fangaklefar til beggja handa. Fangar komu með stóla úr klefum sínum til að sitja á. Þeir snúa baki í ljósmyndavélina enda hvorki heimilt að taka myndir af þeim innanhúss né heldur vildu þeir nokkuð með slíkt hafa.

Nú kann einhver að spyrja um punctum myndarinnar og frá sjónarhóli þess sem hér slær lyklaborð er það svitabletturinn á baki þess fanga sem fremstur situr. Hann segir margt, um andlega líðan fangans og tilfinningar hans. Sem fyrr segir geta aðrir séð punctum myndarinnar  í öðrum „punkti“. Studium myndarinnar er umhverfi þessa gamla húss í miðborginni – það var reist í útjaðri bæjarins á sínum tíma en er nú hluti af sígildri miðborgarmynd Reykjavíkur. Hluti af menningararfi þessa húss er ekki einasta líf þeirra sem þar hafa dvalið um lengri eða skemmri tíma heldur og að þar á efri hæð voru bæjarstjóraskrifstofur og dómsalir og meira að segja haldnir þar dansleikir [17]  Myndin varðveitir umgjörð fangelsisins, fangaganginn. Á veggjum gangsins var þykkur og sterkur gólfdúkur, mjög slitþolinn.

Ljóst er að þarna fer fram kirkjulegt starf af einhverjum toga. Myndin grípur stundina sem löngu er liðin og aldrei aftur verða slíkar samkomur í þessu húsi af þessu tagi – hægt er að fullyrða það nokkuð ákveðið. Sannleikur myndarinnar er sá að stundin fór fram, svona var hún á þessu augnabliki, og kannski öðruvísi á því næsta. Auk þess er stundin líkast til öllum gleymd en ljósmyndin geymir hana. En myndin er það eina sem lifir enda húsið ekki lengur fangelsi eins og áður var sagt. Myndin verður hluti af menningararfi borgarinnar.

En báðar myndirnar, A og B, geyma örlagasögu þess fólks sem situr og tekur þátt í guðsþjónustunni. Það er örlagasaga sem báðir prestarnir komu að, hvor með sínum hætti, en gátu í raun fátt gert annað en að sýna umhyggju og benda á kærleika trúarinnar og von.

Niðurstaða

Ljósmyndin er flóknara fyrirbæri en virðist við fyrstu sýn. Hún geymir brot stundar sem er liðin – er frásögn um hana án orða en þó með styrkleika sínum í því að sjón er sögu ríkari eftir því sem á við um ljósmynd af veruleikaaugnabliki. Hversdagurinn er verkefni langflestra ljósmynda. Talað er um orsakasamhengi og þá vísað til tæknihliðarinnar og svo ásetningssamhengis þegar ákveðið er að taka ljósmynd af einhverju tilteknu. Í raun mætti bæta við ástarsamhengi sem sýnir tengsl hins fyrrnefnda samhengis og þess síðarnefnda og sameinast í ást á mannlífi hversdagsins sem knýr ljósmyndarana áfram.

Ljósmyndir flytja einhvers konar form af sannleika sem logar á þeirri stundu sem myndin er tekin. Svo má líka spyrja um túlkun á ljósmyndum sem sannleiksbrotum og hve langt þau ná út í veruleikann. Tvær myndir voru skoðaðar á grundvelli rannsóknarspurningarinnar; þær voru af kirkjulegum vettvangi í tveimur stofnunum: sjúkrahúsi og fangelsi. Hvað sannleiksgildi þeirra snertir má segja að þær sýni tiltekna helgistund á tilteknum tíma sem ákveðnum hópum var boðið til, sjúklingum og föngum. Þau sem skoða myndirnar geta svo túlkað eftir atvikum líkamsstellingar þessa fólks sem situr ýmist beint í baki eða niðurlútt. En myndin er sönn: þarna er þessi stund í þeirri andrá sem ljósmyndarinn grípur. Eins og neisti sem hrekkur út í loftið. Auðvitað geta einhverjir fyllst vafa og spurt: Er þetta ekki uppstilling? Hins vegar segir hefðin og sagan að svona stundir voru hafðar um hönd en svarar því ekki að þessar tilteknu stundir sem myndirnar sýna séu uppstillingar eða ekki. Það er þó mun líklegra en hitt að þær séu ekki uppstillingar svo allrar hlutlægni sé gætt.

Í anda Rolands Barthes dró höfundur greinarinnar fram hvað hann teldi vera punctum myndanna beggja og tengdist sá liður áheyrendum á myndunum og liðurinn studium eðli stofnananna sem hýstu fólkið, sögu þess og örlög.

Tilvísanir

[1] Richard Howells og Joaquim Negreiros, Visual Culture. (Polity Press: Medford 2021), 199.

[2] Þessi hlið mála er rædd í Gunnar Harðarson, „Hugsun í verki? Málverk, ljósmynd, heimspeki,“ í Fegurðin er ekki skraut, ritstj. Æsa Sigurjónsdóttir, Sigrún Alba Sigurðardóttir, (Fagurskinna: Reykjavík 2020), 176-177.

[3] Richard Howells og Joaquim Negreiros, Visual Culture. (Polity Press: Medford 2021), 208.

[4] Richard Howells og Joaquim Negreiros, Visual Culture. (Polity Press: Medford 2021), 207.

[5] Susan Sontag orðar þetta svo: „Þar sem kyrrar ljósmyndir eru annars vegar, nýtum við okkur það sem við vitum um þá viðburði sem tengjast því sem er á myndinni.” Susan Sontag. Um sársauka annarra, ísl. þýð. Uggi Jónsson. (HÍB: Reykjavík 2006), 51.

[6] Sigrún Sigurðardóttir, afturgöngur og afskipti af sannleikanum, (Listaháskóli Íslands: Reykjavík 2009), 42.

[7] Einar Falur Ingólfsson, „Þetta gerist hratt,“ í Guðmundur Ingólfsson – á eigin vegum – Ljósmyndir 1967-2017. (Þjóðminjasafn Íslands: Reykjavík 2017), 54.

[8] Gunnþórunn Guðmundsdóttir, „Eins og þessi mynd sýnir…“, í Ritið, tímarit Hugvísindastofnunar, 4. árg. 2004, 3. tbl. „Falsanir.“ (Ritið: Reykjavík  2004), 35. Bent er meðal annars á hina frægu forsíðu National Geography þegar tveimur píramídum var hagrætt svo þeir færu betur á forsíðunni.

[9] Gunnar Harðarson, „Hugsun í verki? Málverk, ljósmynd, heimspeki,“ í Fegurðin er ekki skraut, ritstj.  Æsa Sigurjónsdóttir, Sigrún Alba Sigurðardóttir, (Fagurskinna: Reykjavík 2020), 169.

[10] Lili van Ginneken, „Situations, ljósmyndaverk eftir Sigurð Guðmundsson,“ í Sigurður Guðmundsson, Dancing Horizon, (Crymogea: Reykjavík 2014), 14.

[11] Roland Barthes, Camera lucida: Reflections on Photography, (Hill and Wang: New York, 1981), 32.

[12] Roland Barthes, Camera lucida: Reflections on Photography, (Hill and Wang: New York, 1981), 26-27. Íslenska þýðingu á skilgreiningu Barthesar sjálfs á studium er að finna hér: Sigrún Sigurðardóttir, afturgöngur og afskipti af sannleikanum, (Listaháskóli Íslands: Reykjavík 2009), 69.

[13] Æsa Sigurjónsdóttir, Til gagns og fegurðar – sjálfsmyndir í ljósmyndum og klæðnaði á Íslandi 1860-1960, (Þjóðminjasafn Íslands: Reykjavík, 2008), 10.

[14] Pétur Pétursson, Trúmaður á tímamótum – ævisaga Haralds Níelssonar. (HÍB: Reykjavík, 2011), 173. Hann var fæddur 1868 og lést 1928.

[15] Guðjón Friðriksson, Saga Reykjavíkur – bærinn vaknar, 1870-1940, síðari hluti, (Iðunn: Reykjavík, 1994), 37.

[16] Tekið skal fram að presturinn á myndinni er höfundur greinarinnar og tónlistarmaðurinn heitir Ármann Hákon Gunnarsson og er einnig djákni.

[17] Guðjón Friðriksson, Saga Reykjavíkur – bærinn vaknar, 1870-1940, fyrri hluti, (Iðunn: Reykjavík 1992), 187, 223.

 

Heimildir

Barthes, Roland. Camera lucida: Reflections on Photography. Hill and Wang: New York, 1981.

Einar Falur Ingólfsson, „Þetta gerist hratt,“ í Guðmundur Ingólfsson – á eigin vegum – Ljósmyndir 1967-2017. Þjóðminjasafn Íslands: Reykjavík 2017.

Guðjón Friðriksson, Saga Reykjavíkur – bærinn vaknar, 1870-1940, fyrri hluti. Iðunn: Reykjavík: 1992.

Guðjón Friðriksson, Saga Reykjavíkur – bærinn vaknar, 1870-1940, síðari hluti. Iðunn: Reykjavík: 1994.

Gunnar Harðarson. „Hugsun í verki? Málverk, ljósmynd, heimspeki,“ í Fegurðin er ekki skraut, ritstj.,  Æsa Sigurjónsdóttir, Sigrún Alba Sigurðardóttir. Fagurskinna: Reykjavík 2020.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, „Eins og þessi mynd sýnir…“, í Ritið, tímarit Hugvísindastofnunar, 4. árg., 3. tbl. 2004.

Howells, Richard og Joaquim Negreiros. Visual Culture. Polity Press: Medford 2021.

Morgunblaðið 19. apríl 2023, 24: „Hafnar verðlaunum fyrir gervigreindarmynd.“

Pétur Pétursson, Trúmaður á tímamótum – ævisaga Haralds Níelssonar. HÍB: Reykjavík, 2011.

Sigrún Sigurðardóttir, afturgöngur og afskipti af sannleikanum. Listaháskóli Íslands: Reykjavík 2009.

Sontag, Susan. Um sársauka annarra, ísl. þýð. Uggi Jónsson. HÍB: Reykjavík 2006.

van Ginneken, Lilli„ Situations, ljósmyndaverk eftir Sigurð Guðmundsson,“ í Sigurður Guðmundsson, Dancing Horizon. Crymogea: Reykjavík 2014.

Æsa Sigurjónsdóttir, Til gagns og fegurðar – sjálfsmyndir í ljósmyndum og klæðnaði á Íslandi 1860-1960. Þjóðminjasafn Íslands: Reykjavík, 2008.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Í þessari grein verður rætt um ljósmyndina og spurt jafnframt um hvert sé sannleiksgildi ljósmynda almennt. Enn fremur verður augum sérstaklega beint að tveimur myndum af kirkjulegum vettvangi frá lokum 19. aldar og á öndverðri þeirri 20. og spurt hversu sannar þær megi teljast.

Samfélag nútímans er gegnsmogið ljósmyndum og hefur aldrei verið jafn mikið sem nú. Augað virðist aldrei verða mett á því að sjá myndir. Samfélagsmiðlarnir hafa lagt af mörkum til þessa myndaflóðs svo ekki sé meira sagt. Ef eitthvað er í öndvegi þá er það myndin. Bæði kyrr og á hreyfingu.

Ljósmyndin sigrar heiminn um stund

Það hefur verið mögnuð stund þegar ljósmyndin kom fyrst til sögunnar um miðja nítjándu öld. Ætli sú tilfinning hafi vaknað í brjóstum manna að nú loksins hefði maðurinn náð tökum á tilverunni? Búinn að ramma hana nánast inn! Öll fræði gripu ljósmyndina fegins hendi því að nú bættist önnur heimildaleið við hinar rituðu og munnlegu heimildir. Ljósmyndin. Hún hlaut að segja sanna og rétta sögu. Fólk „sá“ atburði með „eigin augum“ á myndum. Í ljósmyndinni nálgaðist maðurinn heiminn á nýjan hátt og færði fólk nær hvert öðru. [1] Hér var tæknin komin til sögu og skrásetningin hlaut að vera sönn og rétt. Ekki sveik tæknin!

Stundum er spurt hvað ljósmynd sé. Algengasta svarið er að hún sé mynd af einhverju tilteknu, fólki eða hlut. Í heimspeki ljósmyndarinnar – ef svo má komast að orði – er ekki allt eins einfalt og sýnist. Ljósmynd af hlut sýnir hvort tveggja í senn, nærveru hans og fjarveru. Þetta er hluturinn sem var þarna á tiltekinni stund (en er þar ekki lengur), skrásetning á tilteknum aðstæðum. En myndin er líka nærvera hlutarins – eins og aðstæður voru. Þess vegna má segja að þegar horft er á mynd af styttunni af Jónasi Hallgrímssyni í Hljómskálagarðinum þá telji viðkomandi myndina koma heim og saman við styttuna sem er þarna á þessum tiltekna stað. En til þess að sjá styttuna í raunveruleikanum verður að fara og skoða hana sjálfa en ekki í gegnum myndina. Það er auðvitað sterkari upplifun að standa andspænis styttunni sjálfri, sjá raunverulega stærð hennar og umhverfi.[2] Þannig má segja að myndin ein og sér sé á vissan hátt ófullkominn veruleiki þar sem hinn raunverulega raunveruleika vantar!

Eðli ljósmynda

Milli tækis og mannshandarinnar er alltaf samband. Maður heldur á pensli og málar. Annar á blýanti og skrifar skáldverk. Og enn annar á myndavél og tekur mynd. Hver þeirra skyldi greina með sönnustum hætti frá viðfanginu? Hér er ekki spurt hvort ljósmyndun sé list því að það er annað verkefni.

Ljósmyndir eru teknar í ákveðnum tilgangi. Fréttaljósmyndir, viðburðamyndir úr fjölskyldum o.s.frv. Markmiðið er að skrásetja það sem hefur gerst. Svo eru til aðrar tegundir af myndum sem eru áróðursmyndir og þeirra markmið er að hagræða því sem hefur gerst; þær eru bæði skoðanamyndandi og skoðanakúgandi.[3]

Ljósmynd er alltaf tekin út frá ákveðnu sjónarhorni. Segja má að sannleikur hennar sé sagður út frá því hvaðan hún er tekin. Miklu getur munað á sjónarhorninu eins og mörg dæmi eru um.[4]

Það er ljósmyndarinn sem velur hverju sinni sjónarhornið og það getur verið valið út frá margvíslegum forsendum. Fegurðartilfinningu, smekk, góðum ásetningi sem og vafasömum o.s.frv. Sjónarhornið getur verið vandlega valið til þess að viðfangið komi sem best út og önnur síðri sjónarhorn látin lönd og leið. Engu að síður eru þau sjónarhorn, sýnd og ekki sýnd. Í sinni róttækustu mynd mætti fullyrða að sannleikurinn væri valinn fyrir fram.

Segja ljósmyndir satt?

Sumar myndir segja augljóslega satt að svo miklu leyti sem þær geta það. Aðrar ekki.

Þegar hugað er að sannleiksgildi ljósmynda má ekki gleyma því að áhorfandinn kemur klyfjaður fyrirframþekkingu og jafnvel ákveðnum skoðunum að myndinni. Gömul mynd sem er tekin er skoðuð með augum þessarar þekkingar.[5] Eitt af því sem er í farteski okkar eru hugmyndir um sannleikann, hvað sé honum samkvæmt eða ekki. Áhorfandinn getur líka haft sínar skoðanir á því hvað er satt og hvað er ekki satt og þá sérstaklega þegar kemur að umdeildum myndum, kannski pólitískum.

„Ljósmyndin er hvort tveggja, atburðurinn og endurbirting hans og um leið er hún hvorugt. Hún er eins og vofa eða afturganga, hvorki raunveruleg né óraunveruleg, en um leið er hún hvort tveggja.“[6] Þetta sama orðaði kunnur ljósmyndari með öðrum hætti en þó svipuðum þegar hann sagði að hversu illa sem ljósmyndin hefði verið byggð, ljót og ómerkileg út frá tæknilegri hlið, þá væri hún það sem eftir lifði því að allt sem hún sýndi hyrfi fyrr eða síðar.[7] Í raun og veru má segja að hún sé sannleiksmerki um það sem var til staðar á tiltekinni stundu. En að sjálfsögðu er líka hægt að draga það í efa.

En er hægt að umgangast sannleikann með misjöfnum hætti? Meta svo í einhverjum tilvikum að ekki saki að hagræða honum, heitir jafnvel skáldaleyfi, á góðu máli. Í öðrum megi alls ekki hnika honum, það gæti jafnvel í versta falli flokkast undir landráð. Er sannleikurinn svo afstæður? Leiða má að því líkum að svo sé í ys og þys líðandi stundar. Eða er viðhorf gagnvart sannleikanum blendið? Ljósmyndir eins og önnur mannanna verk hafa verið lagfærðar til þess að fara betur í bókum og á blaðsíðum – en það eru ekki falsanir.[8]

Hvers vegna er eitt sjónarhorn valið umfram annað? Ljósmyndarinn getur haft ákveðnar hugmyndir um það en þær þurfa ekki að vera þær sömu og ljósmyndaskoðarinn hefur.

Í þessu sambandi er stundum talað um að ljósmynd sé í orsakasamhengi við þann hlut sem hún sýnir meðan málverkið hins vegar er í ásetningssambandi. Orsakasambandið helgast af tæknilegu sambandi. En hvort tveggja, málverk og ljósmynd, eru í ásetningssambandi þar sem ljósmyndarinn ákveður að taka mynd af tilteknum hlut og málarinn að mála hlutinn. Verk þeirra eru afurð sköpunar úr ásetningssambandi.[9] Þetta kemur ágætlega fram í ljósmyndaverkum Sigurðar Guðmundssonar en í bók einni segir svo um vinnuaðferð hans þar sem ásetningurinn er einkar skýr: „Myndavélinni er einfaldlega stillt upp, takan er hrein og bein.“[10] Uppstillingin er snar þáttur af mörgum ljósmyndum. Uppstilling er mikilvægur þáttur í ljósmyndun eins og í hópmyndum. Þá er reynt að haga myndatökunni svo að allir sjáist, allur hópurinn.

Það er hjálplegt að styðjast við hugtökin punctum og studium sem komu fram í merkilegu bókakveri eftir franska menningarforkólfinn Roland Barthes (1915-1980). Punctum er það sem augað grípur fyrst sem kjarna í myndinni, hreyfir við áhorfandanum með afgerandi hætti og oft á augabragði; talar til hans.[11] Studium er hins vegar sá menningarómur sem myndin færir áhorfandanum; hann svo að segja gefur sig á tal við þann menningarheim sem hún sýnir: veltir vöngum og spyr spurninga.[12]

Tvær myndir

Þær tvær myndir sem hér verður fjallað lítillega um í þessu samhengi eru af kirkjulegum vettvangi. Önnur tekin milli 1908 og 1928 og hin skömmu fyrir aldamótin 2000. Til hægðarauka eru myndirnar merktar A og B.

Þegar horft er á gamlar myndir vaknar óneitanlega upp í huganum sú spurning hvernig hægt sé að gera sér grein fyrir þeim veruleika sem býr að baki myndunum. Er hægt að gera kröfu til myndarinnar að hún segi einhverja löngu liðna sögu? Nú, og kannski segir hún bara enga sögu. Þetta á kannski sérstaklega við um mannamyndir og hlutverk þeirra, kannski var það bara að „staðfesta tilvist myndefnisins á tökutímanum.“[13] Sjálf eigum við fjölda mynda sem við ætlum ekki að segja í sjálfu sér neina sögu með heldur aðeins ramma inn augnablikið í minningarskyni. Hversdagslegar ljósmyndir hafa oft býsna hversdagslegan tilgang. Hversdagurinn er viðfangsefni flestra ljósmyndara – og almennings – og með þeim hætti má segja að sífellt sé verið að skoða þessa umgjörð, hversdaginn, sem manneskjan lifir og hrærist í. Sem sé: þar er ljósmyndin aðalskráningartækið.

En hvað með myndir sem teknar voru fyrir um einni öld og þaðan af eldri? Þá var myndataka hátíðleg stund en ekki hversdagsleg.

Mynd A

Mynd A

Guðsþjónusta í Holdsveikraspítalanum í Laugarnesi. Sú vitneskja ein og sér vekur upp í huga myndskoðara ýmsar vangaveltur. Hér eru saman komnir karlar og konur á öllum aldri, snúa baki í ljósmyndavélina. Ástæðan fyrir því kann að vera sú að fólk hafði óbeit á holdsveikisjúklingum – og þeir vildu ekki þekkjast fengju þeir endurheimt heilsu sína, sem var alls ekki alltaf víst. Maðurinn lengst til vinstri dregur athygli áhorfandans að sér. Kannski er hann punctum myndarinnar að áliti einhverra. Yfir honum er kyrrð dauðans alvöru enda horfir hann á hóp sjúklinga sem margir eru dauðvona. Engin lækning var til við holdsveiki. Þetta er sr. Haraldur Níelsson (1868-1928), prófessor, en hann var þjónandi prestur við spítalann frá 1908 til dauðadags.[14] Forystumaður í sálarrannsóknarfélaginu og var þjóðkunnur maður á sínum tíma og mjög eftirsóttur prédikari. Þá var hann rektor Háskóla Íslands um skeið og aðalþýðandi Biblíuútgáfunnar 1912. Það er vitneskja sem nútímamenn koma með að myndinni, hafi þeir aflað sér hennar eða kynnt sér sögu hennar að gefnu tilefni. Annars ekki.

Hvaða sögu er þessi mynd að segja? Álykta má svo að það sé verið að taka mynd af prestinum við störf og sýna að drjúgur hópur hefur komið til að hlýða á hann. Myndskoðari getur gefið sér út frá aðstæðum að yfir öllu hvíli dauðans angist. Hann getur sagt að þau öll sem sitja og hlusta og eru nafnlaus séu punctum myndarinnar ekki fyrirlesarinn. Punctum er háð tilfinningu og skynjun hvers og eins – er ekki eitthvað niðurnjörvað fyrirbæri. Svo gripið sé til hins greiningarhugtaksins úr smiðju Barthesar, studium, geta ýmsar hugsanir vaknað. Hvað er þessi maður að gera þarna? Hver er bakgrunnur þessa fólks sem hlýðir á hann og horfir ekki í auga myndavélarinnar?

Ef spurt er um sannleiksgildi myndarinnar þá er hægt að svara því svo að hún sýni kirkjulegt starf í Holdsveikraspítalanum svo langt sem það nær. Þau sem horfðu fyrst á þessa mynd töldu hana eflaust miðla hinu þögula og kyrra andrúmslofti sem hvílir yfir henni. Myndin er sönn í þeim skilningi að þessi stund fór fram og á vissum tímapunkti voru aðstæður með þessum hætti sem myndin sýnir en augnabliki síðar allt aðrar. Myndin skrásetur þessa stund. Hún er frásögn eða heimild um þessa stund en ekki stundin sjálf.

Þetta er líklega eina myndin sem varðveist hefur úr kapellu Holdsveikraspítalans í Laugarnesi í Reykjavík. Mynd sem sýnir með daufum hætti altaristöflu – og þar er prédikunarstóll. Allt þetta varð eldi að bráð þegar Holdsveikraspítalinn brann til grunna árið 1943 en þá hafði bandaríski herinn hann til umráða. Holdsveikraspítalinn var reistur 1898 að frumkvæði og kostnað dönsku Oddfellowreglunnar.[15]

Mynd B

Mynd B

Þessi mynd er tekin í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg 9 í Reykjavík nokkru fyrir aldamótin 2000. Hegningarhúsið var tekið í notkun árið 1874 og því var lokað sem fangelsi árið 2016. Húsið fær nýtt hlutverk þar sem margvísleg menningarstarfsemi mun líklega fara fram.

Myndin er frá guðsþjónustu í Hegningarhúsinu.[16] Þar var engin kapella heldur fóru allar guðsþjónustur fram á fangaganginum svokallaða en eftir endilöngu húsinu var langur gangur og fangaklefar til beggja handa. Fangar komu með stóla úr klefum sínum til að sitja á. Þeir snúa baki í ljósmyndavélina enda hvorki heimilt að taka myndir af þeim innanhúss né heldur vildu þeir nokkuð með slíkt hafa.

Nú kann einhver að spyrja um punctum myndarinnar og frá sjónarhóli þess sem hér slær lyklaborð er það svitabletturinn á baki þess fanga sem fremstur situr. Hann segir margt, um andlega líðan fangans og tilfinningar hans. Sem fyrr segir geta aðrir séð punctum myndarinnar  í öðrum „punkti“. Studium myndarinnar er umhverfi þessa gamla húss í miðborginni – það var reist í útjaðri bæjarins á sínum tíma en er nú hluti af sígildri miðborgarmynd Reykjavíkur. Hluti af menningararfi þessa húss er ekki einasta líf þeirra sem þar hafa dvalið um lengri eða skemmri tíma heldur og að þar á efri hæð voru bæjarstjóraskrifstofur og dómsalir og meira að segja haldnir þar dansleikir [17]  Myndin varðveitir umgjörð fangelsisins, fangaganginn. Á veggjum gangsins var þykkur og sterkur gólfdúkur, mjög slitþolinn.

Ljóst er að þarna fer fram kirkjulegt starf af einhverjum toga. Myndin grípur stundina sem löngu er liðin og aldrei aftur verða slíkar samkomur í þessu húsi af þessu tagi – hægt er að fullyrða það nokkuð ákveðið. Sannleikur myndarinnar er sá að stundin fór fram, svona var hún á þessu augnabliki, og kannski öðruvísi á því næsta. Auk þess er stundin líkast til öllum gleymd en ljósmyndin geymir hana. En myndin er það eina sem lifir enda húsið ekki lengur fangelsi eins og áður var sagt. Myndin verður hluti af menningararfi borgarinnar.

En báðar myndirnar, A og B, geyma örlagasögu þess fólks sem situr og tekur þátt í guðsþjónustunni. Það er örlagasaga sem báðir prestarnir komu að, hvor með sínum hætti, en gátu í raun fátt gert annað en að sýna umhyggju og benda á kærleika trúarinnar og von.

Niðurstaða

Ljósmyndin er flóknara fyrirbæri en virðist við fyrstu sýn. Hún geymir brot stundar sem er liðin – er frásögn um hana án orða en þó með styrkleika sínum í því að sjón er sögu ríkari eftir því sem á við um ljósmynd af veruleikaaugnabliki. Hversdagurinn er verkefni langflestra ljósmynda. Talað er um orsakasamhengi og þá vísað til tæknihliðarinnar og svo ásetningssamhengis þegar ákveðið er að taka ljósmynd af einhverju tilteknu. Í raun mætti bæta við ástarsamhengi sem sýnir tengsl hins fyrrnefnda samhengis og þess síðarnefnda og sameinast í ást á mannlífi hversdagsins sem knýr ljósmyndarana áfram.

Ljósmyndir flytja einhvers konar form af sannleika sem logar á þeirri stundu sem myndin er tekin. Svo má líka spyrja um túlkun á ljósmyndum sem sannleiksbrotum og hve langt þau ná út í veruleikann. Tvær myndir voru skoðaðar á grundvelli rannsóknarspurningarinnar; þær voru af kirkjulegum vettvangi í tveimur stofnunum: sjúkrahúsi og fangelsi. Hvað sannleiksgildi þeirra snertir má segja að þær sýni tiltekna helgistund á tilteknum tíma sem ákveðnum hópum var boðið til, sjúklingum og föngum. Þau sem skoða myndirnar geta svo túlkað eftir atvikum líkamsstellingar þessa fólks sem situr ýmist beint í baki eða niðurlútt. En myndin er sönn: þarna er þessi stund í þeirri andrá sem ljósmyndarinn grípur. Eins og neisti sem hrekkur út í loftið. Auðvitað geta einhverjir fyllst vafa og spurt: Er þetta ekki uppstilling? Hins vegar segir hefðin og sagan að svona stundir voru hafðar um hönd en svarar því ekki að þessar tilteknu stundir sem myndirnar sýna séu uppstillingar eða ekki. Það er þó mun líklegra en hitt að þær séu ekki uppstillingar svo allrar hlutlægni sé gætt.

Í anda Rolands Barthes dró höfundur greinarinnar fram hvað hann teldi vera punctum myndanna beggja og tengdist sá liður áheyrendum á myndunum og liðurinn studium eðli stofnananna sem hýstu fólkið, sögu þess og örlög.

Tilvísanir

[1] Richard Howells og Joaquim Negreiros, Visual Culture. (Polity Press: Medford 2021), 199.

[2] Þessi hlið mála er rædd í Gunnar Harðarson, „Hugsun í verki? Málverk, ljósmynd, heimspeki,“ í Fegurðin er ekki skraut, ritstj. Æsa Sigurjónsdóttir, Sigrún Alba Sigurðardóttir, (Fagurskinna: Reykjavík 2020), 176-177.

[3] Richard Howells og Joaquim Negreiros, Visual Culture. (Polity Press: Medford 2021), 208.

[4] Richard Howells og Joaquim Negreiros, Visual Culture. (Polity Press: Medford 2021), 207.

[5] Susan Sontag orðar þetta svo: „Þar sem kyrrar ljósmyndir eru annars vegar, nýtum við okkur það sem við vitum um þá viðburði sem tengjast því sem er á myndinni.” Susan Sontag. Um sársauka annarra, ísl. þýð. Uggi Jónsson. (HÍB: Reykjavík 2006), 51.

[6] Sigrún Sigurðardóttir, afturgöngur og afskipti af sannleikanum, (Listaháskóli Íslands: Reykjavík 2009), 42.

[7] Einar Falur Ingólfsson, „Þetta gerist hratt,“ í Guðmundur Ingólfsson – á eigin vegum – Ljósmyndir 1967-2017. (Þjóðminjasafn Íslands: Reykjavík 2017), 54.

[8] Gunnþórunn Guðmundsdóttir, „Eins og þessi mynd sýnir…“, í Ritið, tímarit Hugvísindastofnunar, 4. árg. 2004, 3. tbl. „Falsanir.“ (Ritið: Reykjavík  2004), 35. Bent er meðal annars á hina frægu forsíðu National Geography þegar tveimur píramídum var hagrætt svo þeir færu betur á forsíðunni.

[9] Gunnar Harðarson, „Hugsun í verki? Málverk, ljósmynd, heimspeki,“ í Fegurðin er ekki skraut, ritstj.  Æsa Sigurjónsdóttir, Sigrún Alba Sigurðardóttir, (Fagurskinna: Reykjavík 2020), 169.

[10] Lili van Ginneken, „Situations, ljósmyndaverk eftir Sigurð Guðmundsson,“ í Sigurður Guðmundsson, Dancing Horizon, (Crymogea: Reykjavík 2014), 14.

[11] Roland Barthes, Camera lucida: Reflections on Photography, (Hill and Wang: New York, 1981), 32.

[12] Roland Barthes, Camera lucida: Reflections on Photography, (Hill and Wang: New York, 1981), 26-27. Íslenska þýðingu á skilgreiningu Barthesar sjálfs á studium er að finna hér: Sigrún Sigurðardóttir, afturgöngur og afskipti af sannleikanum, (Listaháskóli Íslands: Reykjavík 2009), 69.

[13] Æsa Sigurjónsdóttir, Til gagns og fegurðar – sjálfsmyndir í ljósmyndum og klæðnaði á Íslandi 1860-1960, (Þjóðminjasafn Íslands: Reykjavík, 2008), 10.

[14] Pétur Pétursson, Trúmaður á tímamótum – ævisaga Haralds Níelssonar. (HÍB: Reykjavík, 2011), 173. Hann var fæddur 1868 og lést 1928.

[15] Guðjón Friðriksson, Saga Reykjavíkur – bærinn vaknar, 1870-1940, síðari hluti, (Iðunn: Reykjavík, 1994), 37.

[16] Tekið skal fram að presturinn á myndinni er höfundur greinarinnar og tónlistarmaðurinn heitir Ármann Hákon Gunnarsson og er einnig djákni.

[17] Guðjón Friðriksson, Saga Reykjavíkur – bærinn vaknar, 1870-1940, fyrri hluti, (Iðunn: Reykjavík 1992), 187, 223.

 

Heimildir

Barthes, Roland. Camera lucida: Reflections on Photography. Hill and Wang: New York, 1981.

Einar Falur Ingólfsson, „Þetta gerist hratt,“ í Guðmundur Ingólfsson – á eigin vegum – Ljósmyndir 1967-2017. Þjóðminjasafn Íslands: Reykjavík 2017.

Guðjón Friðriksson, Saga Reykjavíkur – bærinn vaknar, 1870-1940, fyrri hluti. Iðunn: Reykjavík: 1992.

Guðjón Friðriksson, Saga Reykjavíkur – bærinn vaknar, 1870-1940, síðari hluti. Iðunn: Reykjavík: 1994.

Gunnar Harðarson. „Hugsun í verki? Málverk, ljósmynd, heimspeki,“ í Fegurðin er ekki skraut, ritstj.,  Æsa Sigurjónsdóttir, Sigrún Alba Sigurðardóttir. Fagurskinna: Reykjavík 2020.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, „Eins og þessi mynd sýnir…“, í Ritið, tímarit Hugvísindastofnunar, 4. árg., 3. tbl. 2004.

Howells, Richard og Joaquim Negreiros. Visual Culture. Polity Press: Medford 2021.

Morgunblaðið 19. apríl 2023, 24: „Hafnar verðlaunum fyrir gervigreindarmynd.“

Pétur Pétursson, Trúmaður á tímamótum – ævisaga Haralds Níelssonar. HÍB: Reykjavík, 2011.

Sigrún Sigurðardóttir, afturgöngur og afskipti af sannleikanum. Listaháskóli Íslands: Reykjavík 2009.

Sontag, Susan. Um sársauka annarra, ísl. þýð. Uggi Jónsson. HÍB: Reykjavík 2006.

van Ginneken, Lilli„ Situations, ljósmyndaverk eftir Sigurð Guðmundsson,“ í Sigurður Guðmundsson, Dancing Horizon. Crymogea: Reykjavík 2014.

Æsa Sigurjónsdóttir, Til gagns og fegurðar – sjálfsmyndir í ljósmyndum og klæðnaði á Íslandi 1860-1960. Þjóðminjasafn Íslands: Reykjavík, 2008.

Viltu deila þessari grein með fleirum?