Hallgrímskirkja og Skálholtsútgáfa hafa gefið út í sameiningu bókina Hvað verður fegra fundið?
Það er vel til fundið að gefa út bók með úrvali af kveðskap þjóðskáldsins sr. Hallgríms Péturssonar í tilefni 350. ártíðar hans. Og meira en það. Bókin er einkar falleg og er á tveimur tungumálum, íslensku og ensku.
Frumkvæði að útgáfu bókarinnar átti sóknarnefnd Hallgrímskirkju og markmiðið var háleitt sem var það að hún skyldi vera sýnishorn þess besta sem skáldið kvað. Ekki verður annað sagt en vel hafi tekist til með val á kvæðum í þetta sýnishorn þó að alltaf megi deila um það sem er best í kveðskap sem öðru. Í bókinni streymir fram andlegur kveðskapur skáldsins, kröftugur og fagur, sem og veraldlegur kveðskapur með hressilegum brag og stundum broddi.
Hér hafa fjórar konur sest niður og hver um sig valið efni í þessa fallegu bók. Konurnar eru Irma Sjöfn Óskarsdóttir, Margrét Eggertsdóttir, Steinunn Jóhannesdóttir og Svanhildur Óskarsdóttir. Hver þeirra velur að sjálfsögðu eftir eigin smekk og tilfinningu. Auk þess skrifa þær stuttan og greinargóðan inngang að bókinni. Það er einnig snjallt að val þeirra fellur í einn farveg að því leyti að ekki kemur fram í bókinni hver þeirra valdi hvað. Val þeirra er ekki bundið við heil kvæði heldur sækja þær hvort tveggja stök erindi og vers úr verkum Hallgríms.
Irma Sjöfn er sóknarprestur í kirkju Hallgríms í Reykjavík, Margrét er sérfræðingur í ævi skáldsins og ljóðum, Steinunn hefur skrifað skáldsögur og leikrit um Hallgrím og Svanhildur hefur unnið að útgáfu á verkum skáldsins. Þannig hefur skáldið Hallgrímur bankað upp á með ýmsum hætti í lífi þeirra allra og nú leggja þær í sameiningu valin kvæði eftir hann í einn sjóð handa lesendum. Og vel er það gert.
Listræn umgjörð bókarinnar er í höndum Helgu Gerðar Magnúsdóttur og er einkar smekkleg. Hún hefur sótt í smiðju Sölva Helgasonar (1820-1895) og lífleg blóm hans fara bókinni vel. Sem og hin klassíska endurteikning listmálarans Brynjólfs Þórðarsonar á mynd Hjalta Þorsteinssonar af Hallgrími Péturssyni (þetta var annars skemmtileg setning) á innsíðu bókarinnar í fernu – frummyndin er í eigu Þjóðminjasafnsins en Vatnsfjarðarklerkurinn síra Hjalti var níu ára gamall þegar Hallgrímur andaðist og sá hann því sennilega aldrei en gerði myndina ef til vill eftir lýsingum eldri manna. Þess vegna er gaman að valin hefur verið stakan Sá sem orti rímur af Ref og lesa má á blaðsíðu 77 – en hún gæti gefið til kynna að til hafi verið mynd af séra Hallgrími – og að minnsta kosti er brúnum skáldsins og nefi lýst:
Sá sem orti rímur af Ref
reiknast jafnan glaður,
með svartar brýr og sívalt nef,
svo er hann uppmálaður.
Ritstjóri bókarinnar er Margrét Eggertsdóttir en útgáfustjórn skipuðu þau Einar Karl Haraldsson, Irma Sjöfn Óskarsdóttir og Eiríkur Jóhannsson.
Niðurstaða:
Vel valið sýnishorn úr skáldheimi Hallgríms Péturssonar. Útlit bókarinnar sæmir vel innihaldinu, fagurt og traust. Lifandi kápa, fjörleg blóm og titill á kápu á tveimur tungumálum og truflar ekki lesandann. Kærkomin gjafabók við margvísleg tækifæri enda um sígildan kveðskap að ræða. Menningarleg og trúarleg verðmæti sem eiga erindi til fólks í erli dagsins.
Hallgrímskirkja og Skálholtsútgáfa hafa gefið út í sameiningu bókina Hvað verður fegra fundið?
Það er vel til fundið að gefa út bók með úrvali af kveðskap þjóðskáldsins sr. Hallgríms Péturssonar í tilefni 350. ártíðar hans. Og meira en það. Bókin er einkar falleg og er á tveimur tungumálum, íslensku og ensku.
Frumkvæði að útgáfu bókarinnar átti sóknarnefnd Hallgrímskirkju og markmiðið var háleitt sem var það að hún skyldi vera sýnishorn þess besta sem skáldið kvað. Ekki verður annað sagt en vel hafi tekist til með val á kvæðum í þetta sýnishorn þó að alltaf megi deila um það sem er best í kveðskap sem öðru. Í bókinni streymir fram andlegur kveðskapur skáldsins, kröftugur og fagur, sem og veraldlegur kveðskapur með hressilegum brag og stundum broddi.
Hér hafa fjórar konur sest niður og hver um sig valið efni í þessa fallegu bók. Konurnar eru Irma Sjöfn Óskarsdóttir, Margrét Eggertsdóttir, Steinunn Jóhannesdóttir og Svanhildur Óskarsdóttir. Hver þeirra velur að sjálfsögðu eftir eigin smekk og tilfinningu. Auk þess skrifa þær stuttan og greinargóðan inngang að bókinni. Það er einnig snjallt að val þeirra fellur í einn farveg að því leyti að ekki kemur fram í bókinni hver þeirra valdi hvað. Val þeirra er ekki bundið við heil kvæði heldur sækja þær hvort tveggja stök erindi og vers úr verkum Hallgríms.
Irma Sjöfn er sóknarprestur í kirkju Hallgríms í Reykjavík, Margrét er sérfræðingur í ævi skáldsins og ljóðum, Steinunn hefur skrifað skáldsögur og leikrit um Hallgrím og Svanhildur hefur unnið að útgáfu á verkum skáldsins. Þannig hefur skáldið Hallgrímur bankað upp á með ýmsum hætti í lífi þeirra allra og nú leggja þær í sameiningu valin kvæði eftir hann í einn sjóð handa lesendum. Og vel er það gert.
Listræn umgjörð bókarinnar er í höndum Helgu Gerðar Magnúsdóttur og er einkar smekkleg. Hún hefur sótt í smiðju Sölva Helgasonar (1820-1895) og lífleg blóm hans fara bókinni vel. Sem og hin klassíska endurteikning listmálarans Brynjólfs Þórðarsonar á mynd Hjalta Þorsteinssonar af Hallgrími Péturssyni (þetta var annars skemmtileg setning) á innsíðu bókarinnar í fernu – frummyndin er í eigu Þjóðminjasafnsins en Vatnsfjarðarklerkurinn síra Hjalti var níu ára gamall þegar Hallgrímur andaðist og sá hann því sennilega aldrei en gerði myndina ef til vill eftir lýsingum eldri manna. Þess vegna er gaman að valin hefur verið stakan Sá sem orti rímur af Ref og lesa má á blaðsíðu 77 – en hún gæti gefið til kynna að til hafi verið mynd af séra Hallgrími – og að minnsta kosti er brúnum skáldsins og nefi lýst:
Sá sem orti rímur af Ref
reiknast jafnan glaður,
með svartar brýr og sívalt nef,
svo er hann uppmálaður.
Ritstjóri bókarinnar er Margrét Eggertsdóttir en útgáfustjórn skipuðu þau Einar Karl Haraldsson, Irma Sjöfn Óskarsdóttir og Eiríkur Jóhannsson.
Niðurstaða:
Vel valið sýnishorn úr skáldheimi Hallgríms Péturssonar. Útlit bókarinnar sæmir vel innihaldinu, fagurt og traust. Lifandi kápa, fjörleg blóm og titill á kápu á tveimur tungumálum og truflar ekki lesandann. Kærkomin gjafabók við margvísleg tækifæri enda um sígildan kveðskap að ræða. Menningarleg og trúarleg verðmæti sem eiga erindi til fólks í erli dagsins.