Það eru tímamót í þjóðkirkjunni þegar nýr biskup tekur við.
Mörg verkefni blasa við þjóðkirkjunni á slíkum tímamótum. Sjálf hefur sr. Guðrún Karls Helgudóttir, nýkjörinn biskup, lýst því yfir að mikilvægt sé að byggja upp. Sannarlega má taka undir með henni og treysta því að hún muni leiða þá uppbyggingu af skynsemi, bjartsýni og góðvild.
Þjóðkirkjan hefur búið við mikið vantraust undanfarna áratugi. Samkvæmt nýjustu tölum Gallups á Íslandi frá því í febrúar sl. treysta 26% þjóðkirkjunni.
Sennilega er það öllu kirkjufólki hollt að velta fyrir sér hvernig þjóðkirkjan geti byggt upp traust gagnvart sínum eigin meðlimum sem og þjóðinni.
Nú skal ekkert sagt um það hvort forysta þjóðkirkjunnar hafi farið ofan í saumana á því hvaða orsakir gætu legið til þessa vantrausts til kirkjunnar og hvort henni hafi flogið í hug að bregðast við með einhverjum hætti. Þó skal bent á ágæta skýrslu sem tekin var saman um skylt efni, Nýliðun innan þjóðkirkjunnar, og lögð fyrir kirkjuþing árið 2015.
Kirkjublaðið.is rakst á athyglisverða forskýrslu sem verður tekin til umræðu á almennu kirkjuþingi ensku kirkjunnar nú í júlíbyrjun. Þessi tiltekna skýrsla fjallar um ýmsar hliðar á trausti sem borið er til ýmissa stofnana samfélagsins og þá einkum kirkjunnar í þessu samhengi. Hvað byggir upp traust og hvað grefur undan trausti? Lögð er áhersla á að kirkjan geti með engu móti gengið að því vísu í samfélaginu að henni sé sýnt traust umfram aðra. Bent er á að ýmsar leiðir eru til að byggja upp traust innan kirkjunnar og gagnvart almenningi. Í öllum samskiptum er traust lykilatriði.
Hér verður gripið niður í skýrsluna á nokkrum stöðum lesendum til glöggvunar og umhugsunar. Það er nefnilega svo að við lestur skýrslunnar kemur íslenska þjóðkirkjan iðulega upp í huga lesandans og hann segir við sjálfan sig: „Já, einmitt. Þetta þekkjum við og svona þurfum við að bregðast við.“ Það er með öðrum orðum hægt að læra margt af þessari skýrslu.
En semsé. Nokkrir molar úr skýrslunni og þau áhugasömustu opna tengilinn á hana hér að ofan og lesa með sínum hætti. Skýrslan byggir meðal annars á ýmsum þverfaglegum upplýsingum og hluti hennar styðst við almenn viðtöl og djúpviðtöl sem tekin voru við fólk innan kirkju sem utan, launað starfsfólk og sjálfboðaliða.
Punktarnir hér að neðan eru til orðnir með þeim hætti að ritstjórinn renndi yfir skýrsluna og hripaði niður það athyglisverðasta að mati hans ásamt nokkrum auka innskotum.
- Ýmsar stofnanir samfélagsins eiga undir högg að sækja þegar kemur að traustsmælingum.
- Þegar rætt er um traust og vantraust innan kirkjunnar verður að skoða skipulag hennar og allt fyrirkomulag. Skráðar reglur sem og óskráðar. Spyrja verður hvernig hversdagsleg starfsmenning þrífst innan hennar en hana má kalla ómenningu ef kæruleysi, pukur, tvöfeldni og tortryggni ráða för. Hugmyndir um traust byggjast á því hvernig ákvarðanir eru teknar innan skipulags kirkjunnar, af hverjum og hvers vegna.
- Spurt er hvers vegna kirkjan bregðist trausti þegar haft er í huga hver siðferðisgrunnur hennar er og hún ætti í raun og veru að vera til fyrirmyndar.
- Mörg alvarleg mál hafa grafið undan trausti á kirkju og starfsfólki hennar þegar um er að ræða kynferðis-, ofbeldis- og eineltismál. Það tekur langan tíma að byggja upp traust gagnvart viðkomandi stofnun í kjölfar slíkra mála sé það yfirhöfuð gerlegt. Traustir verkferlar gera gæfumun þegar fengist er við slík mál.
- Rætt er um hvað kirkjan geti aðhafst gagnvart þeim sem hún hefur brugðist trausti. Kærleikur og traust séu eitt.
- Aukið traust leiðir af sér gagnsærra stjórnunarferli og hraðari ákvarðanir. Upplýsingaflæði er betra, enginn liggur á upplýsingum fyrir sig eða telur akk í því að stinga þeim ofan í skúffu; lausnamiðuð vinnubrögð styrkjast og starfsmannaánægja eykst. Öll byrgistilfinning (e. bunker) er fjarri. Þrátt fyrir þetta verður að gæta raunsæis og fullyrt er að óhindrað gagnsæi náist aldrei. Þegar öllu sé á botninn hvolft sé ekki hægt að treysta öllum alltaf.
- Upplýsingar eru hluti af trausti. Nútímafólk telur sig búa við upplýsingaöryggi en svo er ekki alltaf. Samfélagsmiðlar birta iðulega rangar upplýsingar og misvísandi – falsfréttir og villandi fréttir. Hver og einn verður að vega og meta þær upplýsingar sem framreiddar eru í miðlum nútímans.
- Gönuhlaup geta grafið undan trausti eins og þegar fólk í tilfinningauppnámi eða bráðræði tekur undir einhverjar falsfærslur á samfélagsmiðlum. Hver og einn verður að meta af fyllsta raunsæi trúverðugleika allra upplýsinga sem máli skipta.
- Þegar litið er til forystufólks á vettvangi kirkjunnar ber að hafa eftirfarandi í huga í sambandi við traust og trúverðugleika:*Hæfi viðkomandi – er hann eða hún starfi sínu vaxin? Er viðkomandi kannski vanhæfur og ræður ekki við starfið? *Góðvild og framkoma: Er þeim annt um annað fólk eða eru þau uppfull af sjálfum sér? *Heiðarleiki: Hvaða siðferðilegu viðmið hafa þau í öndvegi í ákvörðunum sínum og samskiptum? *Fyrirsjáanleiki er talinn jákvæður og kemur betur út heldur en duttlungar og kenjar. Fyrirsjáanleiki er partur af gagnsæi og opinni stjórnsýslu.
- Rannsóknir sýna að fólk getur umborið vanhæfan stjórnanda í ljósi þess að öllum getur skjátlast; allir geta tekið rangar ákvarðanir. Hins vegar er óheiðarleiki ekki umborinn eða ættarhygli. Skortur á góðvild leiðtogans er ekki heldur umborinn.
- Nútímasamfélag er að sjálfsögðu mun óstöðugra fyrirbæri en hin fyrri. Spurt er hvernig kirkjan eigi sem samfélag að tryggja traust sitt gagnvart almenningi: hún verður að spinna saman þræði fortíðar, nútíðar og framtíðar. Sérstaklega er mikilvægt að horfa til framtíðarinnar. Í kirkjulegu samhengi er framtíðin nefnilega nátengd liðinni sögu. Kristin trú segir sögu sem gerðist, sögu sem gerist og mun gerast. Aðalhlutverkið er að miðla boðskap trúarinnar. Þess vegna er kirkjan til.
- Forystufólk kirkjunnar verður að koma fram af tilfinningalegri snerpu og heiðarlegri þegar áföll dynja yfir í nær- eða fjærsamfélagi, þegar umdeild tilfinningamál af ýmsu tagi koma upp í samfélögunum. Með öðrum orðum: styðja við þá sem minnst mega sín – koma fram sem manneskjur en ekki sem kerfisþursar. Það byggir upp traust. Tækifærismennska getur orðið öllum að falli.
- Dómharka hefur aukist eins og sjá má í athugasemdakerfum samfélagsmiðlanna. Til að byggja upp traust í samskiptum við aðra er affarasælla að fella milda dóma fremur en harða. Tjáningarfrelsið verður að nota með virðingu og uppbyggilegum hætti. Þar getur kirkjufólk skarað fram úr.
- Allt orkar tvímælis sem gert er. Þegar engar nákvæmar reglur fyrirfinnast er alltaf ein eftir og hún má ekki gleymast: Þú skalt elska náungann eins og sjálfan þig. Náungakærleikur vekur traust.
- Ekki eru allir viðhlæjendur vinir. Í umdeildum málum þar sem taka þarf ákvörðun eða sýna frumkvæði geta margir staðið á sviði: eldheitir stuðningsmenn, efafullir, ábyrgðarlausir, forvitnir, aðgerðarsinnar o.s.frv. Traust er tengslahugtak.
- Spurt er í skýrslunni hvað fólk sjái í þeim sem standa í forystu kirkjunnar og veki hugsanlega ótrúverðugleika í huga þess: 1. Vanhæfni 2. Illvilji 3. Óheiðarleiki 4. Duttlungar, kenjar.
- Í skýrslunni er eðli máls komið að samfélagsástandi sem enska kirkjan horfist í augu við. Þó að það sé ólíkt því sem hér gerist þá er margt sameiginlegt. Fátækt, flóttafólk, kynþáttahatur, ójöfnuður, afleiðingar af kórónuveirufaraldri o.s.frv.
- Eins og fram hefur komið þá lýtur kirkjan sem félagsskapur ákveðnu skipulagi. Þar er fólk á öllum póstum. Ákveðnu regluverki hefur verið komið á til að allt gangi vel fyrir sig. Stundum ríkir traust á milli fólks, stundum vantraust. En reglur er hægt að túlka með ýmsu móti og manneskjur eru misjafnar. Kirkjan sjálf hefur sett þessar reglur í góðu skyni og býst við að eftir þeim sé farið. Auðvitað koma upp margvísleg álitamál og þau eru leyst eftir því sem við á. Traust regluverk sem allir virða leggur mikilvægt lóð á vogaskálar hins almenna trausts.
- Forystufólk innan kirkjunnar sem býr til fjarlægð milli sín og annarra dregur úr trausti með framkomu sinni. Yfirlætisfullt viðmót og áfergja í virðingu annarra dregur úr trausti. Sömuleiðis getur ósiðleg framkoma forystufólks og sniðganga við almennt siðferði dregið úr trausti. Loks má nefna forystufólk sem missir áhugann og eldmóðinn fyrir kirkjunni og telur að allt sé ómögulegt og því öfugsnúið. Það eflir fráleitt nokkurt traust.
- Samkoma gagnrýnislausra og meðvirkra jávina byggir ekki upp traust.
- Traustið á djúpar rætur í kristinni trú: „Þetta hef ég skrifað ykkur sem trúið á nafn Guðs sonar til þess að þið vitið að þið eigið eilíft líf. Og þetta er traustið sem við berum til hans: Ef við biðjum um eitthvað eftir hans vilja, þá heyrir hann okkur. Og ef við vitum að hann bænheyrir okkur um hvað sem við biðjum, þá vitum við að við höfum þegar öðlast það sem við báðum hann um.“ (Fyrsta Jóhannesarbréf 5.13-15).
Það eru tímamót í þjóðkirkjunni þegar nýr biskup tekur við.
Mörg verkefni blasa við þjóðkirkjunni á slíkum tímamótum. Sjálf hefur sr. Guðrún Karls Helgudóttir, nýkjörinn biskup, lýst því yfir að mikilvægt sé að byggja upp. Sannarlega má taka undir með henni og treysta því að hún muni leiða þá uppbyggingu af skynsemi, bjartsýni og góðvild.
Þjóðkirkjan hefur búið við mikið vantraust undanfarna áratugi. Samkvæmt nýjustu tölum Gallups á Íslandi frá því í febrúar sl. treysta 26% þjóðkirkjunni.
Sennilega er það öllu kirkjufólki hollt að velta fyrir sér hvernig þjóðkirkjan geti byggt upp traust gagnvart sínum eigin meðlimum sem og þjóðinni.
Nú skal ekkert sagt um það hvort forysta þjóðkirkjunnar hafi farið ofan í saumana á því hvaða orsakir gætu legið til þessa vantrausts til kirkjunnar og hvort henni hafi flogið í hug að bregðast við með einhverjum hætti. Þó skal bent á ágæta skýrslu sem tekin var saman um skylt efni, Nýliðun innan þjóðkirkjunnar, og lögð fyrir kirkjuþing árið 2015.
Kirkjublaðið.is rakst á athyglisverða forskýrslu sem verður tekin til umræðu á almennu kirkjuþingi ensku kirkjunnar nú í júlíbyrjun. Þessi tiltekna skýrsla fjallar um ýmsar hliðar á trausti sem borið er til ýmissa stofnana samfélagsins og þá einkum kirkjunnar í þessu samhengi. Hvað byggir upp traust og hvað grefur undan trausti? Lögð er áhersla á að kirkjan geti með engu móti gengið að því vísu í samfélaginu að henni sé sýnt traust umfram aðra. Bent er á að ýmsar leiðir eru til að byggja upp traust innan kirkjunnar og gagnvart almenningi. Í öllum samskiptum er traust lykilatriði.
Hér verður gripið niður í skýrsluna á nokkrum stöðum lesendum til glöggvunar og umhugsunar. Það er nefnilega svo að við lestur skýrslunnar kemur íslenska þjóðkirkjan iðulega upp í huga lesandans og hann segir við sjálfan sig: „Já, einmitt. Þetta þekkjum við og svona þurfum við að bregðast við.“ Það er með öðrum orðum hægt að læra margt af þessari skýrslu.
En semsé. Nokkrir molar úr skýrslunni og þau áhugasömustu opna tengilinn á hana hér að ofan og lesa með sínum hætti. Skýrslan byggir meðal annars á ýmsum þverfaglegum upplýsingum og hluti hennar styðst við almenn viðtöl og djúpviðtöl sem tekin voru við fólk innan kirkju sem utan, launað starfsfólk og sjálfboðaliða.
Punktarnir hér að neðan eru til orðnir með þeim hætti að ritstjórinn renndi yfir skýrsluna og hripaði niður það athyglisverðasta að mati hans ásamt nokkrum auka innskotum.
- Ýmsar stofnanir samfélagsins eiga undir högg að sækja þegar kemur að traustsmælingum.
- Þegar rætt er um traust og vantraust innan kirkjunnar verður að skoða skipulag hennar og allt fyrirkomulag. Skráðar reglur sem og óskráðar. Spyrja verður hvernig hversdagsleg starfsmenning þrífst innan hennar en hana má kalla ómenningu ef kæruleysi, pukur, tvöfeldni og tortryggni ráða för. Hugmyndir um traust byggjast á því hvernig ákvarðanir eru teknar innan skipulags kirkjunnar, af hverjum og hvers vegna.
- Spurt er hvers vegna kirkjan bregðist trausti þegar haft er í huga hver siðferðisgrunnur hennar er og hún ætti í raun og veru að vera til fyrirmyndar.
- Mörg alvarleg mál hafa grafið undan trausti á kirkju og starfsfólki hennar þegar um er að ræða kynferðis-, ofbeldis- og eineltismál. Það tekur langan tíma að byggja upp traust gagnvart viðkomandi stofnun í kjölfar slíkra mála sé það yfirhöfuð gerlegt. Traustir verkferlar gera gæfumun þegar fengist er við slík mál.
- Rætt er um hvað kirkjan geti aðhafst gagnvart þeim sem hún hefur brugðist trausti. Kærleikur og traust séu eitt.
- Aukið traust leiðir af sér gagnsærra stjórnunarferli og hraðari ákvarðanir. Upplýsingaflæði er betra, enginn liggur á upplýsingum fyrir sig eða telur akk í því að stinga þeim ofan í skúffu; lausnamiðuð vinnubrögð styrkjast og starfsmannaánægja eykst. Öll byrgistilfinning (e. bunker) er fjarri. Þrátt fyrir þetta verður að gæta raunsæis og fullyrt er að óhindrað gagnsæi náist aldrei. Þegar öllu sé á botninn hvolft sé ekki hægt að treysta öllum alltaf.
- Upplýsingar eru hluti af trausti. Nútímafólk telur sig búa við upplýsingaöryggi en svo er ekki alltaf. Samfélagsmiðlar birta iðulega rangar upplýsingar og misvísandi – falsfréttir og villandi fréttir. Hver og einn verður að vega og meta þær upplýsingar sem framreiddar eru í miðlum nútímans.
- Gönuhlaup geta grafið undan trausti eins og þegar fólk í tilfinningauppnámi eða bráðræði tekur undir einhverjar falsfærslur á samfélagsmiðlum. Hver og einn verður að meta af fyllsta raunsæi trúverðugleika allra upplýsinga sem máli skipta.
- Þegar litið er til forystufólks á vettvangi kirkjunnar ber að hafa eftirfarandi í huga í sambandi við traust og trúverðugleika:*Hæfi viðkomandi – er hann eða hún starfi sínu vaxin? Er viðkomandi kannski vanhæfur og ræður ekki við starfið? *Góðvild og framkoma: Er þeim annt um annað fólk eða eru þau uppfull af sjálfum sér? *Heiðarleiki: Hvaða siðferðilegu viðmið hafa þau í öndvegi í ákvörðunum sínum og samskiptum? *Fyrirsjáanleiki er talinn jákvæður og kemur betur út heldur en duttlungar og kenjar. Fyrirsjáanleiki er partur af gagnsæi og opinni stjórnsýslu.
- Rannsóknir sýna að fólk getur umborið vanhæfan stjórnanda í ljósi þess að öllum getur skjátlast; allir geta tekið rangar ákvarðanir. Hins vegar er óheiðarleiki ekki umborinn eða ættarhygli. Skortur á góðvild leiðtogans er ekki heldur umborinn.
- Nútímasamfélag er að sjálfsögðu mun óstöðugra fyrirbæri en hin fyrri. Spurt er hvernig kirkjan eigi sem samfélag að tryggja traust sitt gagnvart almenningi: hún verður að spinna saman þræði fortíðar, nútíðar og framtíðar. Sérstaklega er mikilvægt að horfa til framtíðarinnar. Í kirkjulegu samhengi er framtíðin nefnilega nátengd liðinni sögu. Kristin trú segir sögu sem gerðist, sögu sem gerist og mun gerast. Aðalhlutverkið er að miðla boðskap trúarinnar. Þess vegna er kirkjan til.
- Forystufólk kirkjunnar verður að koma fram af tilfinningalegri snerpu og heiðarlegri þegar áföll dynja yfir í nær- eða fjærsamfélagi, þegar umdeild tilfinningamál af ýmsu tagi koma upp í samfélögunum. Með öðrum orðum: styðja við þá sem minnst mega sín – koma fram sem manneskjur en ekki sem kerfisþursar. Það byggir upp traust. Tækifærismennska getur orðið öllum að falli.
- Dómharka hefur aukist eins og sjá má í athugasemdakerfum samfélagsmiðlanna. Til að byggja upp traust í samskiptum við aðra er affarasælla að fella milda dóma fremur en harða. Tjáningarfrelsið verður að nota með virðingu og uppbyggilegum hætti. Þar getur kirkjufólk skarað fram úr.
- Allt orkar tvímælis sem gert er. Þegar engar nákvæmar reglur fyrirfinnast er alltaf ein eftir og hún má ekki gleymast: Þú skalt elska náungann eins og sjálfan þig. Náungakærleikur vekur traust.
- Ekki eru allir viðhlæjendur vinir. Í umdeildum málum þar sem taka þarf ákvörðun eða sýna frumkvæði geta margir staðið á sviði: eldheitir stuðningsmenn, efafullir, ábyrgðarlausir, forvitnir, aðgerðarsinnar o.s.frv. Traust er tengslahugtak.
- Spurt er í skýrslunni hvað fólk sjái í þeim sem standa í forystu kirkjunnar og veki hugsanlega ótrúverðugleika í huga þess: 1. Vanhæfni 2. Illvilji 3. Óheiðarleiki 4. Duttlungar, kenjar.
- Í skýrslunni er eðli máls komið að samfélagsástandi sem enska kirkjan horfist í augu við. Þó að það sé ólíkt því sem hér gerist þá er margt sameiginlegt. Fátækt, flóttafólk, kynþáttahatur, ójöfnuður, afleiðingar af kórónuveirufaraldri o.s.frv.
- Eins og fram hefur komið þá lýtur kirkjan sem félagsskapur ákveðnu skipulagi. Þar er fólk á öllum póstum. Ákveðnu regluverki hefur verið komið á til að allt gangi vel fyrir sig. Stundum ríkir traust á milli fólks, stundum vantraust. En reglur er hægt að túlka með ýmsu móti og manneskjur eru misjafnar. Kirkjan sjálf hefur sett þessar reglur í góðu skyni og býst við að eftir þeim sé farið. Auðvitað koma upp margvísleg álitamál og þau eru leyst eftir því sem við á. Traust regluverk sem allir virða leggur mikilvægt lóð á vogaskálar hins almenna trausts.
- Forystufólk innan kirkjunnar sem býr til fjarlægð milli sín og annarra dregur úr trausti með framkomu sinni. Yfirlætisfullt viðmót og áfergja í virðingu annarra dregur úr trausti. Sömuleiðis getur ósiðleg framkoma forystufólks og sniðganga við almennt siðferði dregið úr trausti. Loks má nefna forystufólk sem missir áhugann og eldmóðinn fyrir kirkjunni og telur að allt sé ómögulegt og því öfugsnúið. Það eflir fráleitt nokkurt traust.
- Samkoma gagnrýnislausra og meðvirkra jávina byggir ekki upp traust.
- Traustið á djúpar rætur í kristinni trú: „Þetta hef ég skrifað ykkur sem trúið á nafn Guðs sonar til þess að þið vitið að þið eigið eilíft líf. Og þetta er traustið sem við berum til hans: Ef við biðjum um eitthvað eftir hans vilja, þá heyrir hann okkur. Og ef við vitum að hann bænheyrir okkur um hvað sem við biðjum, þá vitum við að við höfum þegar öðlast það sem við báðum hann um.“ (Fyrsta Jóhannesarbréf 5.13-15).