Nýtt ár kallar á breytingar. Alveg eins og árið á undan – og öll hin sem við höfum lifað. Ef ekki verður breyting þá situr stöðnunin ofan á öllu eins og kæfandi ábreiða. Stöðnun sem elur af sér þunglyndi og fúllyndi – og niðurrif. Þar sem stöðnun ríkir er allt fast í sömu hjólförum og engu má breyta af ótta við hið nýja og óþekkta. Andstæða stöðnunar er sköpun og gleði. Hvert nýtt ár sem við horfumst í augu við leggur fram ýmsar spurningar fyrir okkur, áskoranir sem fela í sér tækifæri til að efla huga og heilsu.
Gleði, bjartsýni og sköpun. Það eru kjörorð nýja ársins.
Árið sem senn hnígur í djúp aldanna var mjög sérstakt í sögu þjóðkirkjunnar. Kórónuveirufaraldur setti allt hefðbundið kirkjustarf úr skorðum. En starfsfólk kirkjunnar sýndi ótrúlega aðlögunarhæfileika og metnað við að koma helgihaldi til fólksins með rafrænum hætti. Má segja að nýr tónn hafi verið sleginn sem muni hljóma að einhverju leyti áfram þegar kirkjustarf fellur í hinn háttbundna farveg. Hvorki streymi né upptökur varpa út hefðbundnum starfsaðferðum kirkjunnar þar sem nálægð og samfélag skipta höfuðmáli.
Þjóðkirkjan getur verið glöð í hjarta sínu með hvernig flest allt fór vel á árinu í starfi hennar.
Margt bíður þjóðkirkjunnar á nýju ári að áliti Kirkjublaðsins.is.
Ný lög sem væntanlega verða samþykkt í ársbyrjun munu hafa mikil áhrif á þjóðkirkjuna til lengri tíma litið. Sjálfstæði hennar eykst til muna og þá einkum sakir þess að hún fær fjárstjórnarvald í sínar hendur. Hún verður svo að segja fullmyndug.
Nýju lögin segja til um hlutverk þjóðkirkjunnar og það er víðfeðmt og ábyrgðarmikið en í 4. gr. frumvarpsins segir:
Þjóðkirkjunni ber að halda úti kirkjulegri þjónustu á landinu öllu og tryggja að allir landsmenn geti átt kost á henni. Þá heldur þjóðkirkjan úti margs konar almennri faglegri þjónustu, svo sem kærleiksþjónustu, sálgæslu og hjálparstarfi. Prestar og djáknar gegna þjónustu í þjóðkirkjunni. Stjórnvöldum skal áfram heimilt að eiga samstarf við þjóðkirkjuna í störfum sínum með sama hætti og verið hefur.
Þetta er kjarni málsins: kirkjuleg þjónusta á landinu öllu. Þjónusta fyrir fólkið í landinu. Og henni ber að tryggja að allir landsmenn hafi kost á þessari þjónustu. Eftirtektarvert er að það er ríkisvaldið sem leggur þessa skyldu á herðar kirkjunnar með lögum.
Þess vegna hlýtur það að verða meginverkefni að skoða alla þá þjónustu sem nú er veitt og athuga hvort hægt sé að bæta hana og efla. Það er hlutverk fólks úti í söfnuðum landsins og kirkjuþings.
Á árinu verður efnt til stefnumótunarvinnu og sú vinna hlýtur að einhverju leyti að leggja þjóðkirkjufrumvarpið til grundvallar.
Sem fyrr verða leikmenn fleiri á kirkjuþingi en vígðir þjónar. Það er einfaldlega rökrétt. Þarflaust er að taka það fram að aðeins brotabrot af félögum þjóðkirkjunnar eru vígðir þjónar og það væri ankannalegt að þau síðarnefndu hefðu meirihluta á þinginu. Kirkjan á ekki að vera presta- eða djáknakirkja enda þótt hún hafi því miður mikla og hégómlega tilhneigingu til þess.
Kirkjuþing er æðsti lýðræðislegi vettvangur kirkjunnar sem fyrr. Þingið axlar mikla ábyrgð. Aldrei sem nú er mikilvægt að til kirkjuþingsstarfa veljist öflugt fólk hvort heldur úr hópi leikmanna eða vígðra þjóna. Til athugunar hlýtur að koma að fækka kirkjuþingmönnum og styrkja starfsskilyrði þeirra svo um munar.
Þjóðkirkjan fær fjárstjórnarvald sem fyrr segir. Nú ríður á að fara vel með það vald og bruðla í engu. Sýna fulla ábyrgð og fara vel með féð. Fá sem mest út úr því til þess að þjónusta kirkjunnar við fólkið verði sem best.
Á nýju ári þarf þjóðkirkjan að kynna rækilega hlutverk sitt meðal þjóðarinnar. Það þarf hún að gera með jákvæðum og skynsömum hætti og draga fram allt hið góða starf sem hún innir af hendi um land allt. Hún þarf að þétta raðirnar og girða fyrir hið stöðuga smástreymi úr henni enda þótt það sé alla jafna svipað frá mánuði til mánaðar. Það sígur sem sé úr dekkinu og þá þarf að bregðast við.
Þjóðkirkjan þarf að gera stórátak í fræðslumálum sem snýr að grunnfræðslu í biblíusögum. Kirkjublaðið.is heyrir fleiri og fleiri segja að börn og ungmenni þekki ekki kunnustu frásagnir Nýja testamentisins. Kannski er kominn tími til að horfast í augu við að kristinfræðikennslan í grunnskólunum er upp og ofan, gloppótt og hátíðabundin, og við því þarf að bregðast innan safnaðanna sjálfra með vandaðri og kraftmikilli biblíufræðslu handa börnum og ungmennum. Þegar biblíusagan týnist er hætt við að mergurinn málsins sé skafinn út og stoðir kirkjunnar gliðni.
Kirkjan er þjóðkirkja vegna þess að drjúgur meirihluti þjóðarinnar er enn innan veggja hennar og metur þjónustu hennar mikils. Þjóðkirkjan á samkvæmt hinu nýja lagafrumvarpi að þjóna félögum sínum og þeim sem standa utan hennar. Þess vegna er hún þjóðkirkja, opin kirkja og trú fagnaðarerindinu í evangelísk-lútherskum anda.
En nýtt ár gengur í garð og Kirkjublaðið.is þakkar fyrir samfylgdina á liðnu ári þó stutt hafi verið og biður þess að árið 2021 færi landi og lýð blessun Guðs og miskunn.
Gleðilegt ár í guðsfriði!
Nýtt ár kallar á breytingar. Alveg eins og árið á undan – og öll hin sem við höfum lifað. Ef ekki verður breyting þá situr stöðnunin ofan á öllu eins og kæfandi ábreiða. Stöðnun sem elur af sér þunglyndi og fúllyndi – og niðurrif. Þar sem stöðnun ríkir er allt fast í sömu hjólförum og engu má breyta af ótta við hið nýja og óþekkta. Andstæða stöðnunar er sköpun og gleði. Hvert nýtt ár sem við horfumst í augu við leggur fram ýmsar spurningar fyrir okkur, áskoranir sem fela í sér tækifæri til að efla huga og heilsu.
Gleði, bjartsýni og sköpun. Það eru kjörorð nýja ársins.
Árið sem senn hnígur í djúp aldanna var mjög sérstakt í sögu þjóðkirkjunnar. Kórónuveirufaraldur setti allt hefðbundið kirkjustarf úr skorðum. En starfsfólk kirkjunnar sýndi ótrúlega aðlögunarhæfileika og metnað við að koma helgihaldi til fólksins með rafrænum hætti. Má segja að nýr tónn hafi verið sleginn sem muni hljóma að einhverju leyti áfram þegar kirkjustarf fellur í hinn háttbundna farveg. Hvorki streymi né upptökur varpa út hefðbundnum starfsaðferðum kirkjunnar þar sem nálægð og samfélag skipta höfuðmáli.
Þjóðkirkjan getur verið glöð í hjarta sínu með hvernig flest allt fór vel á árinu í starfi hennar.
Margt bíður þjóðkirkjunnar á nýju ári að áliti Kirkjublaðsins.is.
Ný lög sem væntanlega verða samþykkt í ársbyrjun munu hafa mikil áhrif á þjóðkirkjuna til lengri tíma litið. Sjálfstæði hennar eykst til muna og þá einkum sakir þess að hún fær fjárstjórnarvald í sínar hendur. Hún verður svo að segja fullmyndug.
Nýju lögin segja til um hlutverk þjóðkirkjunnar og það er víðfeðmt og ábyrgðarmikið en í 4. gr. frumvarpsins segir:
Þjóðkirkjunni ber að halda úti kirkjulegri þjónustu á landinu öllu og tryggja að allir landsmenn geti átt kost á henni. Þá heldur þjóðkirkjan úti margs konar almennri faglegri þjónustu, svo sem kærleiksþjónustu, sálgæslu og hjálparstarfi. Prestar og djáknar gegna þjónustu í þjóðkirkjunni. Stjórnvöldum skal áfram heimilt að eiga samstarf við þjóðkirkjuna í störfum sínum með sama hætti og verið hefur.
Þetta er kjarni málsins: kirkjuleg þjónusta á landinu öllu. Þjónusta fyrir fólkið í landinu. Og henni ber að tryggja að allir landsmenn hafi kost á þessari þjónustu. Eftirtektarvert er að það er ríkisvaldið sem leggur þessa skyldu á herðar kirkjunnar með lögum.
Þess vegna hlýtur það að verða meginverkefni að skoða alla þá þjónustu sem nú er veitt og athuga hvort hægt sé að bæta hana og efla. Það er hlutverk fólks úti í söfnuðum landsins og kirkjuþings.
Á árinu verður efnt til stefnumótunarvinnu og sú vinna hlýtur að einhverju leyti að leggja þjóðkirkjufrumvarpið til grundvallar.
Sem fyrr verða leikmenn fleiri á kirkjuþingi en vígðir þjónar. Það er einfaldlega rökrétt. Þarflaust er að taka það fram að aðeins brotabrot af félögum þjóðkirkjunnar eru vígðir þjónar og það væri ankannalegt að þau síðarnefndu hefðu meirihluta á þinginu. Kirkjan á ekki að vera presta- eða djáknakirkja enda þótt hún hafi því miður mikla og hégómlega tilhneigingu til þess.
Kirkjuþing er æðsti lýðræðislegi vettvangur kirkjunnar sem fyrr. Þingið axlar mikla ábyrgð. Aldrei sem nú er mikilvægt að til kirkjuþingsstarfa veljist öflugt fólk hvort heldur úr hópi leikmanna eða vígðra þjóna. Til athugunar hlýtur að koma að fækka kirkjuþingmönnum og styrkja starfsskilyrði þeirra svo um munar.
Þjóðkirkjan fær fjárstjórnarvald sem fyrr segir. Nú ríður á að fara vel með það vald og bruðla í engu. Sýna fulla ábyrgð og fara vel með féð. Fá sem mest út úr því til þess að þjónusta kirkjunnar við fólkið verði sem best.
Á nýju ári þarf þjóðkirkjan að kynna rækilega hlutverk sitt meðal þjóðarinnar. Það þarf hún að gera með jákvæðum og skynsömum hætti og draga fram allt hið góða starf sem hún innir af hendi um land allt. Hún þarf að þétta raðirnar og girða fyrir hið stöðuga smástreymi úr henni enda þótt það sé alla jafna svipað frá mánuði til mánaðar. Það sígur sem sé úr dekkinu og þá þarf að bregðast við.
Þjóðkirkjan þarf að gera stórátak í fræðslumálum sem snýr að grunnfræðslu í biblíusögum. Kirkjublaðið.is heyrir fleiri og fleiri segja að börn og ungmenni þekki ekki kunnustu frásagnir Nýja testamentisins. Kannski er kominn tími til að horfast í augu við að kristinfræðikennslan í grunnskólunum er upp og ofan, gloppótt og hátíðabundin, og við því þarf að bregðast innan safnaðanna sjálfra með vandaðri og kraftmikilli biblíufræðslu handa börnum og ungmennum. Þegar biblíusagan týnist er hætt við að mergurinn málsins sé skafinn út og stoðir kirkjunnar gliðni.
Kirkjan er þjóðkirkja vegna þess að drjúgur meirihluti þjóðarinnar er enn innan veggja hennar og metur þjónustu hennar mikils. Þjóðkirkjan á samkvæmt hinu nýja lagafrumvarpi að þjóna félögum sínum og þeim sem standa utan hennar. Þess vegna er hún þjóðkirkja, opin kirkja og trú fagnaðarerindinu í evangelísk-lútherskum anda.
En nýtt ár gengur í garð og Kirkjublaðið.is þakkar fyrir samfylgdina á liðnu ári þó stutt hafi verið og biður þess að árið 2021 færi landi og lýð blessun Guðs og miskunn.
Gleðilegt ár í guðsfriði!