Kórveggur Bessastaðakirkju er einstakur legstaður. Þar hvíla fyrrum forsetahjón íslenska lýðveldisins. Hugmyndir um virðingarstöðu forsetaembættisins og mótun þess hafa sennilega ráðið því að kórveggurinn fékk þetta sérstaka hlutverk – og einstaka hér á landi. Kannski höfðu líka einhverjar persónulegar tilfinningar eða háleitar hugmyndir áhrif á að kórveggurinn varð fyrir valinu sem hinsti hvílustaður. Öldum saman hefur jarðneskum leifum dýrlinga, biskupa og veraldlegra höfðinga verið komið fyrir í kirkjum og með því dregin markalína milli höfðingja og almúga. Legstaður hinna ágætu forsetahjóna er á fárra vitorði án þess þó að vera sérstakt leyndarmál. Kórmúr Bessastaðakirkju var rofinn – en hvaða saga leynist þar á bak við?

Þegar komið er inn í Bessastaðakirkju blasa við þrír minningarskildir á kórvegg kirkjunnar. Sá fyrsti, sem er vinstra megin, nyrst, er með nöfnum Kristjáns Eldjárns og Halldóru Eldjárns. Svo kemur skjöldur til minningar um Svein Björnsson og Georgíu Björnsson. Loks er minningarskjöldur um Ásgeir Ásgeirsson og Dóru Þórhallsdóttur hægra megin við altaristöflu að sunnanverðu.

Allir eru þessir minningarskildir um þrenn fyrstu forsetahjón íslenska lýðveldisins áþekkir ef ekki eins – einfaldir og smekklegir. Segja sína sögu. Einn þeirra geymir þó meiri sögu en hinir.

Það var árið 1985 sem prófasturinn í Kjalarnessprófastsdæmi, séra Bragi Friðriksson, vísiteraði Bessastaðakirkju. Samkvæmt vísitasíugjörðinni fór þar fram dálítið athyglisverð umræða um minningarskildina, sem svo er bókuð:

„Prófastur vakti athygli á því, að hann hefði áhyggjur af staðsetningu slíkra minnismerkja í kirkjunni og svo væri um ýmsa fleiri, sem hann hefði talað við. Sú kæmi tíð, að til vandræða gæti horft um þetta mál. Töflur þessar eru nú þrjár. „Þetta er viðkvæmt mál,“ sagði prófastur „og ber að fjalla um það af stakri varúð en fullkominni hreinskilni.“ Forseti Íslands tók í sama streng og taldi hér einnig horfa til vandkvæða, er litið væri til framtíðar. Forsetaritari bar fram þá tillögu, að gerður yrði sérstakur minningarskjöldur með nöfnum forsetanna og maka þeirra og honum komið fyrir í framkirkju eða anddyri. Tillaga þessi fékk eindreginn hljómgrunn meðal fundarmanna. Lét prófastur í ljós þá von, að stjórnvöld tækju þetta mál til athugunar.“ [1]

Forseti Íslands var þá Vigdís Finnbogadóttir og forsetaritari Halldór Reynisson, er síðar gerðist prestur. Ekki er að sjá að hugmynd forsetaritarans hafi verið hrundið í framkvæmd.


Minningarskildirnir þrír á kórvegg Bessastaðakirkju

Auðvelt er að geta sér til um hvers eðlis þessar áhyggjur voru. Eftir því sem ár og aldir liðu myndi þessum minningarskjöldum fjölga á kórvegg kirkjunnar og þá myndi líklega horfa til vandkvæða. Sú stund kæmi að rými þryti á kórveggnum. Málið var hugsanlega viðkvæmt að því leyti að ef færa ætti minningarskildina eitthvað til af þessum heiðursstað í kirkjunni þá myndi hugsanlega aðeins einn þeirra verða eftir.

Enginn viðstaddra nefnir upphátt það sem var kannski meginástæða þess að þessir minningarskildir voru komnir á kórvegginn. En á bak við það var dálítil saga sem var á fárra vitorði.

Ætla mætti við fyrstu sýn að á bak við alla minningarskildina sé aðeins flatur og kaldur kórveggurinn.

Svo er þó ekki.

Kórveggurinn hefur verið rofinn að baki eins þeirra og þar sett inn duftker.

Hver hvíla þar í veggnum?

 

Í Bessastaðakirkju – veggir kirkjunnar eru þykkir

Legstaðaskrá

Til er nokkuð sem heitir legstaðaskrá. [2] Það er sú skrá sem flest okkar dettum inn á þegar að því kemur. Verður ekki umflúið.

Í legstaðaskrá má sjá hvar fólk fær sína hinstu hvílu. Kirkjugarður er nefndur og númer leiðis hvort sem nú um var að ræða jarðarför eða bálför. Iðulega er flett upp í þessari skrá á gardur.is ef fólk er búið að týna niður leiði eða vill sjá hvar einhver er jarðaður. Einfalt er að leita í hinni rafrænu  legstaðaskrá og hún er öll til hægðarauka fyrir fólk. Allir kirkjugarðar landsins eru þar taldir upp. Enda er fólk alla jafna jarðað í kirkjugörðum. Sömuleiðis er öll öskudreifing skráð og duftker sem á eftir að jarðsetja og geymd eru í bálstofunni. En hvað um þau sem eru geymd á öðrum stöðum?

Kirkjublaðið.is rakst á það fyrir tilviljun að nafn kunnra hjóna var ekki að finna í legstaðaskránni. Og það voru meira en kunn hjón, þjóðfræg hjón og mikils metin, ástsæll forseti og forsetafrú: Ásgeir Ásgeirsson (1894-1972) og Dóra Þórhallsdóttir (1893-1964).

Hvernig stendur á þessu?

Í legstaðaskrá er að finna fyrsta forsetann og konu hans, þau Svein Björnsson og Georgíu Björnsson. Þau eru jarðsett í Bessastaðakirkjugarði. Sömuleiðis Kristján Eldjárn og Halldóru Eldjárn en þau eru jarðsett í Fossvogskirkjugarði. Eins forsetafrúin Guðrún Katrín Þorbergsdóttir, fyrri eiginkona fimmta forsetans, Ólafs Ragnars Grímssonar, sem lést á besta aldri og hvílir í Bessastaðakirkjugarði.

Hjá kirkjugörðunum var notast við svokallaða Dagbók bálstofu þar sem skráðar voru upplýsingar í sambandi við líkbrennslu. Þar er skráð að jarðneskar leifar forsetahjónanna Ásgeirs og Dóru séu í Bessastaðakirkju. [3]

Þessi gjóta sem Kirkjublaðið.is hnaut um reyndist geyma all víðan helli undir sér sem vekur upp ýmsar vangaveltur um líkbrennslu, grafir og landsins lög. Hvað leyfa lögin og hvað ekki. Og hvort eitthvað hafi hugsanlega verið gert á hæpnum forsendum, í óleyfi eða lög sniðgengin? Þá vaknar líka sú spurning hver sé ástæðan fyrir því að þessi staður hafi fengið þetta sérstaka hlutverk.


Þessi mynd er af gardur.is. Sótt 27. maí 2021 Talan nr. 85 á kórgafli segir til um þau sem grafin eru innan kirkju án þess að tiltaka hvar. Þarna stendur til að koma inn nöfnun forsetahjónanna eftir því sem Kirkjublaðið.is hefur fregnað.

Upplýsingar á tveimur stöðum

Svo er að sjá sem það hafi ekki farið hátt, án þess að það hafi verið leyndarmál í sjálfu sér, að duftker hinna sómakæru forsetahjóna væru í kórvegg Bessastaðakirkju.

Upplýsingar um duftker þeirra hjóna hafa að minnsta kosti komið opinberlega fram á tveimur stöðum á þessari öld, á netinu og í bók. Á báðum stöðum er sagt skorinort frá því hvað sé á bak við skjöld Ásgeirs og Dóru. Ekki er hægt að átta sig í fljótu bragði á því hve gamlar upplýsingarnar eru í veftilvitnuninni en þær eru að minnsta kosti ekki eldri en frá árinu 1998 [4]:

„Minningarskildir um látna forseta og eiginkonur þeirra eru á veggnum beggja vegna altaristöflunnar. Bak við skjöld Ásgeirs og Dóru eru duftker þeirra. Uppi á hægra kórgafli hangir dánargríma Gríms Thomsens.“ [5]

Barnabarn Ásgeirs forseta skrifaði bók um afa sinn sem kom út fyrir rúmu ári. Þar segir í neðanmálsgrein sem er orðrétt samhljóða veftilvitnuninni nema hvað ekki er getið um dánargrímu skáldsins enda er hún ekki lengur á kórveggnum:

„Minningarskildir um látna forseta og eiginkonur þeirra eru á veggnum beggja vegna altaristöflunnar. Bak við skjöld Ásgeirs og Dóru eru duftker þeirra.“ [6]

Síðan fer bálför fram…

Ævisaga Ásgeirs Ásgeirssonar, forseta, kom út 1992. Þar er sagt frá útför eiginkonu hans, Dóru Þórhallsdóttur, með þessum hætti:

„Síðan fer bálför fram í Fossvogskapellu, en jarðneskar leifar forsetafrúarinnar eru geymdar í Bessastaðakirkju.“ [7]

Alþýðublaðið, Morgunblaðið og Vísir greindu frá því að „jarðneskar leifar“ forsetafrúarinnar yrðu varðveittar í Bessastaðakirkju. [8] Ekki er getið nánar um hvað í því felist né heldur hvar í kirkjunni hinar jarðnesku leyfar kunni að vera geymdar.

Morgunblaðið sagði frá útför Ásgeirs Ásgeirssonar 1972 og gat um það að jarðneskar leifar hans yrðu geymdar að Bessastöðum [9]:

Ævisöguritari Ásgeirs bætir engu við þetta og segir einfaldlega: „…og askan sett í grafreit forseta.“ [10]

Útförin var hátíðleg en látlaus. [11]

Þetta orðalag er óskýrara heldur en þar sem segir um duftker forsetafrúarinnar: Það er þó sagt geymt í Bessastaðakirkju.

Spurði enginn hvar þessi grafreitur forsetans væri? Hver var þessi sérstaki reitur og hvar var hann?

Reiturinn var kórveggurinn

Ekkert er getið um að sérstök athöfn hafi verið höfð um hönd við setningu duftkerjanna í kórvegg og sá er þetta ritar hefur ekki fundið upplýsingar um hvenær það var gert.

Það er í september 1969 sem prófasturinn í Kjalarnessprófastsdæmi, sr. Garðar Þorsteinsson, er staddur á Bessastöðum til að vísitera kirkjuna og söfnuðinn. Í vísitasíubókinni segir svo:

„Minningartafla Dóru Þórhallsdóttur framan við duftker hennar  í kórgafli.“ [12]

Fimm ár voru liðin frá andláti forsetafrúarinnar og er þetta sennilega í fyrsta sinn sem sagt er fullum fetum í embættisbók hvað sé á bak við skjöldinn. Viðstaddir þessa vísitasíu auk prófastsins voru m.a. Ásgeir Ásgeirsson, fyrrverandi forseti, og dr. Kristján Eldjárn, þáverandi forseti. [13] Vísitasíubækur eru þess eðlis að þær koma ekki fyrir augu margra en eru þó aðgengilegar fyrir öll þau sem hafa áhuga á þeim. Í fylling tímans fara þær eins og lög gera ráð fyrir í Þjóðskjalasafn Íslands.

Minningarskjaldarins um frú Dóru er getið í biskupsvísitasíu að Bessastöðum í mars  1971 en ekki er getið hvað sé á bak við hann. Viðstaddur þessa vísitasíu var meðal annars Ásgeir sjálfur sem og þáverandi forseti, dr. Kristján Eldjárn. [14]

Dr. Kristján Eldjárn var forseti Íslands þegar Ásgeir lést. Hann er fáorður um andlát forvera síns í dagbókum sínum. Á útfarardegi hans, 22. september 1972, skrifar forsetinn í dagbók sína að hann hafi engu við að bæta það sem sagt er um forvera sinn í fjölmiðlum – útförin hafi verið gerð „vel og virðuglega.“ En tveimur dögum eftir útförina, 24. september, segir hann að það sé minningarathöfn í Bessastaðakirkju um Ásgeir. Ekkert meira. [15] Ljóst er að duftker hans var ekki sett inn í kórvegginn í þessari minningarstund vegna þess að það var afhent fjórum dögum eftir útför hans og jarðsetningarstaður skráður hjá kirkjugörðunum: „Bessastaðakirkja“. [16]

Það er í rauninni sérstakt að dr. Kristján skuli ekki geta þess þegar duftkerið var lagt í kórvegg Bessastaðakirkju, í ljósi sögunnar; og kannski líka þar sem segja má að þessi viðburður tengist í eðli sínu með vissum hætti efni  doktorsritgerðar hans, Kuml og haugfé.

Samræmdist það landslögum að koma duftkerjunum fyrir í kórvegg Bessastaðkirkju?

Forsetahjónin létust sem fyrr segir á árunum 1964 og 1972. Huga verður að því hvaða lög um líkbrennslu og kirkjugarða voru í gildi á þessum tíma.

Ný lög um kirkjugarða voru sett árið 1963, nr. 21. frá 23. apríl. Þau voru í gildi í þrjá áratugi. Í 17. gr. þeirra er fjallað um líkbrennslu. Þar er talað um að hægt sé að útbúa ákveðinn reit í kirkjugarði fyrir duftker, og heimilt sé að reisa kapellu í kirkjugarði til þess að varðveita duftker. Lokaorð greinarinnar eru:

„Óheimilt er að varðveita duftker annars staðar en í kirkjugarði.“ [17]

Í 10. grein laganna segir:

„Gröf má eigi taka innan kirkju eða nær grunni hennar en 1 ½ metra.“ [18]

Lögin eru afdráttarlaus og 36. gr. þeirra kveður á um að úr gildi séu numin „öll ákvæði eldri laga, er koma í bága  við lög þessi.“ Undir lögin ritar forsetinn Ásgeir Ásgeirsson og dómsmálaráðherrann Bjarni Benediktsson. [19]

Samkvæmt því sem hér að framan segir þá virðist sá gjörningur að leggja duftker þeirra hjóna í kórvegg Bessastaðakirkju ekki hafa verið í samræmi við lög. [20]

Nú kann einhverjum að hafa þótt það í sjálfu sér ekki langsótt túlkun á heimildaákvæði laganna sem kveður á um að það mætti „reisa kapellu í kirkjugarði til varðveizlu duftkerja“ [21] að Bessastaðakirkja með kirkjugarð umhverfis sig fullnægði þessu skilyrði laganna nema hvað hún var þegar risin. Og þar sem um væri að ræða þjóðhöfðingja hafi kórveggurinn því þótt bæði lögmætur og viðeigandi legstaður. Segja má að alllangt væri til seilst með þessari túlkun á heimildaákvæði laganna. Auk þess verður að benda á að munur er á kirkju og kapellu. Bessastaðakirkja er sóknarkirkja [22] ekki kapella. [23]

Hverjir fá leg í kirkju?

Kirkja er vígt hús. Hún er vígður reitur og frátekinn til ákveðinnar þjónustu. Margir hafa komið í miklar dómkirkjur í útlöndum og séð legsteina í kirkjugólfum. Eins í höfuðkirkjum hér á landi.

Hvorki á 19. né 20. öld var fólk jarðsett í kirkju hérlendis. Ekki aska né andaður líkami. [24] Forn siður að leggja höfðingja og fyrirmenni í kirkju hafði látið undan síga. [25] Sjálfstæðishetjan, Jón Sigurðsson var jarðsettur í Hólavallakirkjugarði. Hefði sá siður verið enn við lýði að jarða fólk innan kirkju hefði Jón forseti líklega hlotið slíkan hvílustað. Fólki hefur ekki lengur staðið til boða að láta jarðneskar leifar sínar hvíla í kirkju og kannski ekki einu sinni hvarflað að því. Stjórnir kirkjugarða hafa tæpast litið á það sem kost að jarðsetja fólk þar.

Það segir vissulega nokkuð um hvað augum menn líta á tiltekið embætti ef þau sem því gegna eigi að fá legstað sem stendur öðrum ekki að jafnaði til boða.

Mótun embættis þjóðhöfðingja hins unga lýðveldis var vissulega vandaverk sem fyrstu tveir forsetarnir höfðu í höndum sínum. Embættið var eitt af megintáknum sjálfstæðisins og mikilvægt að koma þeim skilaboðum til þjóðarinnar. Þess vegna varð að sýna því fullan sóma og virðingu. Hagur þess og framtíð var í húfi en ekki þess er því gegndi hverju sinni. Það er vissulega skiljanlegt að litið hafi verið til þeirra siða og venja sem höfðu orðið til í kringum þjóðhöfðingja grannríkja, hvort sem þeir voru nú konungar eða forsetar. [26]

Þessi legstaður er einstakur hér á landi. Aðeins hin ágætu forsetahjón hvíla í kórveggnum sjálfum enda þótt menn hafi verið jarðsettir í kirkjum fyrr á öldum – og meðal annars í Bessastaðakirkju.

Skjaldarmerki Íslands í Bessastaðakirkju

Mótun hefðar

Fyrstu forsetunum var svo sem áður gat vandi á höndum við að móta embættið með þeim hætti að fram kæmi að forsetinn væri þjóðhöfðingi en lýðræðislega kjörinn. Sveini Björnssyni, hinum fyrsta forseta, var allmikið umhugað um virðingu embættisins – svo sem eðlilegt verður að telja og honum skylt. [27]

Það sómdi forseta vel að búa í hinum gamla konungsgarði, Bessastöðum. En Sveinn gat líka hugsað sér í framtíðinni „virðulega forsetahöll í höfuðstaðnum“ fyrir væntanlega forseta og orðaði það í bréfi til forsætisráðherra 3. janúar 1944. Þau orð endurspegla virðingu fyrir embættinu og hugmynd um mótun þess. [28]

Dæmi um vitund fyrsta forsetans fyrir virðingu embættisins má lesa úr frásögn forsetaritara hans sem segir að forsetinn hafi talið það varla sæma embættinu að hann „væri á vegi manna hversdagslega ef návist hans ætti að teljast nýlunda, því að óneitanlega gerir fjarlægðin fjöllin blá.“ [29] Hann var einnig meðvitaður um að forsetaembættið mætti ekki verða of „hversdagslegt“. Sveinn kom ekki oft opinberlega fram og sást sjaldan á götum Reykjavíkur. Þetta var þáttur í mótun embættisins og ekki auðvelt verk að mati forsetaritarans því að varast þurfti „í þessu litla þjóðfélagi“ að færa embættið í „konungsstíl“ en samt þurfti að hafa á því „virðulegan og geðfelldan svip“. Þetta var vandratað einstigi. Sumir vildu hafa konungsbrag á embættinu en aðrir ekki.[30] Annar forsetaritari sagði Svein hafa borið „mikla virðingu fyrir forsetaembættinu“, og ritarinn segist aldrei hafa snúið baki í hann þegar hann fór út frá honum. [31] Slíkt háttalag hafa menn tamið sér gagnvart konungum en hvort  það var ósk forsetans eða ákvörðun ritarans kemur ekki fram. Mótun embættisins tók einnig til húsbúnaðar [32] og matarmenningar á Bessastöðum sem var á þessum tíma einkum á könnu eiginkvenna forsetanna. [33]

Annað dæmi um hugsun Sveins um virðingu embættisins kemur fram í uppkasti að bréfi til kirkjumálaráðuneytisins vegna umbóta á Bessastaðakirkju en hann og húsameistari ríkisins, Guðjón Samúelsson, voru ekki samstíga í því máli svo ekki sé fastar að orði kveðið. Þetta bréf var aldrei sent. Forsetinn segir í uppkastinu:

„Þetta sífellda nöldur og óánægja með það, sem ég er ekki talinn hafa nóga þekkingu á, hefir þreytt mig svo að ég hefi í seinni tíð helst viljað vera laus við þetta óeðlilega eftirlit mitt með ábyrgum eftirlitsmanni ríkisins, sem auk þess getur skert virðingu stöðu minnar, þegar lítið tillit er tekið til athugasemda minna.“ [34]

Sveinn hefur skynjað að einhverjir töldu hann vera að nöldra þegar hann lét í ljós skoðanir sínar á umbótunum. Og hann hefur fundið til þess að ekki var hlustað á forsetann og þar með ekki borin virðing fyrir stöðu hans – embættinu sem hann var að móta. Honum bar auðvitað ekki sem forseta að hafa eftirlit með ábyrgum eftirlitsmanni ríkisins, þ.e. húsameistara. Hann dregur sig því í hlé. [35] En vissulega verður Sveini virt það til lofs að hafa látið sig miklu skipta helgistað forsetasetursins.

Síðustu fimm árin í embætti var Sveinn oft veikur og fór meðal annars til Danmerkur í heilsubótarskyni og gekkst undir uppskurð í Bretlandi 1951. [36] Hann var lengi búinn að eiga við veikindi að stríða svo: „að fáum kom andlát hans mjög á óvart….“ [37] Vel má vera að komið hafi til umræðu um hvar grafa skyldi forseta þá stund hans rynni upp. Skyldi þá farið að siðum er konungar voru grafnir? Virðulegur legstaður sem ekki stæði almúganum til boða gæti kannski stutt við og aukið enn frekar virðingu embættisins. [38]

Fyrsti forsetinn jarðsettur

Svo sagði í lok fréttar Morgunblaðsins 5. febrúar um útför Sveins Björnssonar 2. febrúar 1952. [39] Ekki kom neitt fram hvar á Bessastöðum askan yrði geymd. Á forsíðu Alþýðublaðsins mátti hins vegar lesa þennan sama dag:

„Bálför forsetans fór fram samdægurs en aska hans fær legstað að Bessastöðum“.

Í frétt Alþýðublaðsins sagði ennfremur að jarðneskar leifar forsetans yrðu jarðsettar. [40] Þjóðviljinn sagði með dramatískum hætti frá lokum athafnarinnar í Fossvogskirkju [41]:

Segja má að orðalag fréttanna sé ögn misvísandi. Talað er um að geyma öskuna, henni verði valinn staður, og jarðsett. Bessastaður er staðurinn. En hvar?

Ekkert virðist hafa verið ákveðið um það.

Sveinn Björnsson hafði látið ósk sína skriflega í ljós um að hann yrði brenndur enda var hann einn af stofnendum Bálfararfélags Íslands. [42] Hann hafði sjálfur mælt fyrir frumvarpi til laga um líkbrennslu á sínum tíma og sagði meðal annars í stuttri framsöguræðu sinni um málið:

„En hjer vantar lög um þetta, sem ákvæðu, undir hvaða skilyrðum líkbrensla geti fari fram.“ [43]

Hann sem lögfræðingur og flutningsmaður þessa lagafrumvarps vissi mæta vel hvaða lög voru í gildi um meðferð duftkerja. [44]

Skylt að benda á „þenna stað“

Í ævisögu Sveins segir frá því að flestir hafi búist við því að jarðneskar leifar hans fengju hvílustað í Bessastaðakirkju – ekki kemur fram hverjir þessir flestir hafa verið. Svo varð þó ekki. Skýringin er sú að sögn ævisöguritarans að forsetafrúin, Georgía Björnsson, hafi lagst gegn því. Ástæðan var sú að eiginmaður hennar hefði verið „sáróánægður með gagngera viðgerð, sem fram fór á kirkjunni í hans tíð, en ekki var samkvæmt hans vilja.“ Sveinn var því jarðsettur norðan megin að Bessastaðakirkju, skammt frá Grími Thomsen, skáldi og alþingismanni, sem búið hafði á Bessastöðum. En orðin má skilja svo að hefðu ekki þessar breytingar farið fram á kirkjunni þá hefði forsetinn fengið legstað í henni. [45]

Það var fimm manna nefnd sem leggja skyldi til hvar fyrsti forsetinn fengi leg. Nefndina skipaði forsætisráðherrann Steingrímur Steinþórsson, og í henni sátu Birgir Thorlacius, forsetaritari, dr. Kristján Eldjárn, þjóðminjavörður, Hörður Bjarnason, húsameistari ríkisins, og Gunnlaugur Halldórsson, arkitekt. [46]

Dr. Kristján Eldjárn segir frá því í dagbókarfærslu  9. febrúar 1952 að hann þá þjóðminjavörður hafi verið kvaddur til að athuga hvar „grafreitur (Sveins, innsk.) væri hugsanlegur í Bessastaðalandi. Fjölskylda hans vill ekki að öskuker hans sé haft í kirkjunni…“ Viðstaddir þessa athugun voru allir synir forsetans og Birgir Thorlacius. Þetta var viku eftir útför Sveins Björnssonar. Segir hann að fjölskyldan hafi haft augastað á Skansinum eða í brekkunum sunnan við kirkjuna. [47]

Nefndin skilaði af sér greinargerð 19. maí 1952 og þá voru rúmlega þrír mánuðir liðnir frá andláti Sveins. Þar kemur fram að forsetafrúin ráði því hvar eiginmaður hennar muni hvíla.

Nefndin segir að með því að grafa jarðneskar leifar forsetans í kirkjunni væri það „hið mesta virðingarmerki, sem unnt væri að sýna jarðneskum leifum fyrsta forseta  lýðveldisins.“ Það var forn venja að grafa höfðingja landsins innan kirkju. Forsetinn hafi unnað kirkju og kristni en hann hafi verið ósáttur við þær breytingar sem gerðar voru á kirkjunni. Ástvinir forsetans verða að dæma um það hvort breytingarnar girði fyrir það að jarðneskar leifar hans verði lagðar í kirkjuna. Síðan segja þeir:

„En okkur virðist skylt að benda hér á þenna stað, sem um margt væri eðlilegur legstaður forsetans, ef hin sérstaka ástæða, sem nú var nefnd, hindrar það eigi.“ [48]

Forsetaritari greindi frá því að nefndin hafi verið í vanda með málið og farin að „nálgast algjöra uppgjöf“ þegar eiginkona eins nefndarmannsins stakk því að manni sínum hvort ekki ætti að láta forsetann hvíla í námunda við Grím Thomsen. Farið var að hinu viturlega ráði konunnar og duftkeri hans komið þar niður. Og að sjálfsögðu voru þetta allt karlar í nefndinni á þessum tíma – hvað annað? – og konan leysti svo vandann! Grímur skáld hafði enda verið í miklu uppáhaldi hjá forsetanum. [49] Þetta var auk þess vel til fundið út frá ýmsum sjónarhornum. Grímur fæddist á Bessastöðum og andaðist þar. Hann var fyrsti íslenski diplómatinn, [50] – en Sveinn hafði starfað lengi í utanríkisþjónustunni – og verið fyrsti sendiherra Íslands. [51]

Duftker Sveins Björnssonar var sett niður við norðurvegg Bessastaðakirkju hinn 14. júlí 1952 um hálfu ári eftir að hann lést. (51b)

Þegar fyrsti forsetinn lést voru í gildi lög sem bönnuðu að taka gröf inann kirkju. [52] Lög um líkbrennslu frá 1915 voru einnig í gildi og þau kváðu á um að duftker ætti að grafa í kirkjugarði eða á öðrum stöðum „sem sérstaklega eru útbúnir til þess eftir fyrirmælum stjórnarráðsins“ .[53]

Nefndin ræddi  þann kost að varðveita jarðneskar leifar fyrsta forsetans í kirkjunni í virðingarskyni.

Það kann að vera að nefndin hafi talið nægjanlega lagastoð í ákvæði líkbrennslulaganna frá 1915 sem heimilaði stjórnarráðinu að mæla fyrir um „aðra staði“ í þessu sambandi. [54]

Segja má að nokkuð sterk alþjóðleg hefð um legstað fyrirmenna og þjóðhöfðingja í kirkjum styðji einnig þessa afstöðu nefndarinnar til úrlausnarefnis sem var víðs fjarri við setningu áðurnefndra laga 1915 og 1932. [55]

Sú viðgerð sem nefnd er fór fram á árunum 1946-1948 undir stjórn húsameistara ríkisins, Guðjóns Samúelssonar. Kirkjunni var gerbreytt og breytingarnar voru mjög umdeildar. [56] Meðal annars var Kristján Eldjárn, þá þjóðminjavörður – og síðar forseti, mjög ósáttur við þær og komst svo að orði [57]:

Minningarmark um Svein Björnsson í Bessastaðakirkjugarði

„eðlilegur legstaður forsetans….“

Líklegt má telja að Ásgeiri Ásgeirssyni hafi verið kunnugt um skýrslu nefndarinnar sem fékk það hlutverk að finna fyrsta forsetanum legstað. Kannski hafa ómað í huga hans orð úr greinargerð nefndarinnar að kirkjan væri um margt „eðlilegur legstaður forsetans….“

Hann unni kirkju og kristni eins og hinn fyrsti forseti. Því var ekki hægt að neita og var sjálfur að auki guðfræðingur – hafði starfað sem biskupskrifari [58] og samið bókina Kver og kirkja. [59]  Prestsskapur stóð honum ekki fjarri huga að loknu guðfræðiprófi enda þótt hann yrði ekki hlutskipti hans. [60]

Kirkjufáni (helgigöngumerki) í Bessastaðakirkju, sem Ásgeir gerði frumdrætti að, saumaður í Englandi

Ásgeir lét sér ætíð mjög annt um kirkjuna á Bessastöðum [61] og gaf henni góða gripi. [62] Steindir gluggar voru til dæmis settir í kirkjuna að hans forgöngu á sjötta áratug síðustu aldar – fyrir var gluggi á austurhlið úr tíð forvera hans. [63] Hugsanlega hefur hann einfaldlega viljað hvíla innan kirkju hafi menn verið að ræða um að koma á slíkri hefð í íslenskum nútíma hvað forsetana snerti. Kannski var þessi ákvörðun hans einfaldlega hluti af mótun forsetaembættisins enda þótt fyrsti forsetinn væri jarðsettur utan kirkjunnar af þeirri ástæðu sem að framan greinir og var sérstaks eðlis.


Steindir  gluggar, legsteinn Magnúsar Gíslasonar, amtmanns, og konu hans Þórunnar Guðmundsdóttur – og skírnarfontur keyptur af Grími Thomsen 1866

Öndvert við Svein forseta virðist Ásgeir hafa verið mjög ánægður með kirkjuna innan sem utan – og mótaði hana áfram að eigin hætti. Lá því kannski ekki beinast við að jarðneskar leifar þeirra hjóna og seinni tíma forseta yrðu varðveittar í kirkjunni í ljósi þeirrar umræðu að legstaður innan kirkju hefði verið um margt „eðlilegur“ fyrir fyrsta forsetann þó ekki hlyti hann hvílustað þar vegna sérstakra ástæðna? Nefndin góða hafði gefið undir fótinn með að kirkjan væri staðurinn. Kannski má álykta svo að það hafi ekki verið arftaka Sveins þvert um geð að fara að þeirri hefð sem fyrsti forsetinn hugðist ef til vill ryðja braut með því að fá leg í kirkjunni. Báðir forsetarnir leituðust enda við að skapa um þjóðhöfðingjaembættið hefðir sem styrktu það í sessi.

Engar heimildir liggja þó fyrir um að Sveinn sjálfur hafi viljað fá leg í kirkjunni að Bessastöðum. En það mætti túlka andmæli ekkjunnar við því að duftkerið yrði lagt í kirkjuna með vísan í að eiginmaður hennar hafi verið ósáttur við breytingar á kirkjunni að það hefði annars komið til greina eða verið sjálfsagt – og þá sennilega vilji Sveins.

Sveinn var fyrsti forsetinn og gat mótað embættið með ákveðnum hætti [64] – að því var vikið hér að framan. Kannski var hluti af þeirri mótun að hafa einhverjar reglur eða fyrirmæli um hvernig staðið skyldi að málum þegar starfandi forseti eða fyrrverandi andaðist. Ætti að horfa til þess hvernig staðið væri að málum þegar konungar ættu í hlut? Þeir fengu legstað í vígðu húsi – Hróarskeldudómkirkja var öllum kunn. Skyldi horft til þess að forsetar voru lýðræðislega kjörnir og því fara öðruvísi að? Þeir voru ekki kóngar. Var sómasamleg og virðuleg útför ekki nóg? Hér varð að sigla á milli skers hins alþýðlega og báru konungsljómans.

Ákvörðun um kórvegginn sem hvílustað hefur hugsanlega verið tekin í ljósi þess sem hér að framan segir og kannski líka verið til marks um að viðkomandi vildi og teldi eðlilegt að marka embætti þjóðhöfðingjans sérstöðu umfram aðra og þá sjálfum sér í leiðinni eðli máls samkvæmt. [65]

Luktar dyr Bessastaðakirkju

Ekki ætíð farið að lagabókstafnum

Svo sem kunnugt er þá þekkjast dæmi þess að lögum sé ekki fylgt út í ystu æsar, einkum kann þó svo að virðast þegar lagafyrirmæli eru óskýr eða stangast að einhverju leyti á. Til verður einhvers konar háttur eða venja sem gengur á svig við lögin eða felur í sér umdeilanlega túlkun. Má vera að eitthvað slíkt hafi gerst í þessu efni. Orð þingkonunnar Auðar Auðuns eru í þessu samhengi athyglisverð en þau mælti hún í umræðunni um kirkjugarðafrumvarpið á Alþingi 1963:

„Eins  og nú háttar til, er mönnum frjálst að varðveita  duftker á hvern þann hátt, er þeir óska, en slíkt  þykir tæpast viðeigandi og því í gr. lagt til, að þau skuli ávallt  varðveitt í vígðum grafreit.“ [66]

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram í umfjöllun um 17. greinina að nánari fyrirmæla sé þörf en áður um meðferð duftkerja. Þar segir:

„Bannað er að varðveita duftker annars staðar en í vígðum grafreit. Áður hefur nokkuð tíðkazt, að slík ker væru varðveitt í heimahúsum eða í kirkjum, en hvorugt þykir viðeigandi né heppilegt.“ [67]

Hér er bæði talað um að mönnum hafi verið frjálst að varðveita duftkerin með ýmsum hætti og að það hafi nokkuð tíðkast að varðveita duftker í heimahúsum eða í kirkjum. Þó voru lögin frá 1915 og 1932 skýr um þetta og heimiluðu almennt ekki þessa frjálsu meðferð duftkerja. Lögin sem sett voru 1963 skutu loku fyrir slíka meðhöndlun sem hin fyrri og skylt var að jarðsetja duftker samkvæmt þeim.

Minningarskjöldur við legstað

Það er athyglisvert að í annars skilmerkilegri umfjöllun og nákvæmri í Kirkjum Íslands um Bessastaðakirkju skuli aðeins þetta standa um minningarskildina:

„Á kórvegg hafa verið settir upp minningarskildir úr steini með nöfnum látinna forseta Íslands og eiginkvenna þeirra, en vængirnir af gamalli altaristöflu, sem áður prýddu kórinn, fluttir á vesturvegg sinn hvoru megin dyra.“ [68]

Það er umhugsunarvert – og jafnvel undarlegt myndi einhver segja – að ekki skuli vikið einu orði að því að duftker forsetahjónanna, Ásgeirs og Dóru, séu á bak við minningarskjöld þeirra inni í veggnum.

Á einni mynd af kórgafli Bessastaðakirkju frá 1980 [69] og tveimur frá 1985 sést veglegur  krans [70] við vegginn undir minningarskildi þeirra Ásgeirs og Dóru. Hann hefur vísað eindregið til þess að þarna var meira en minningarskjöldur.

 

Hér sést krans við minningarskjöld Ásgeirs Ásgeirssonar og Dóru Þórhallsdóttur. Myndin er tekin eftir 1982, og fyrir 2008, þar sem nafn Kristjáns Eldjárns er komið á skjöld en hann lést 1982 og kona hans, Halldóra Eldjárn, 2008. Mynd: Þjóðminjasafn Íslands – keypt mynd.

Hvað sem öllu þessu líður þá þarf ekki að hafa lágt um að jarðneskar hinna ágætu forsetahjóna séu í kórvegg kirkjunnar. Það er merkileg söguleg staðreynd og einstök. Vitaskuld ætti að geta um það í kirkjunni, við minningarskjöld þeirra hjóna.

Og það þarf svo sannarlega að skrá þau hjón í legstaðaskrána og ætti ekki að vera mikið mál. Þar er þjóðin öll – og verður – hvað sem hver segir. Og þau vildu vera hjá þjóðinni.

Forsetastólarnir komu líklega í kirkjuna 1944 – undir steindum glugga

Má ekki gleymast hvað er í kórveggnum

Komið hefur fram tillaga um að taka aftur breytingar þær sem Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, gerði á sínum tíma á Bessastaðakirkju. Myndband var gert sem sýnir útfærslu á tillögunum mjög greinilega. Lagt er til að minningarskildirnir um forsetana og eiginkonur þeirra á kórveggum verði settir upp á vesturgafli kirkjunnar. Ekki er getið um það hvort duftker þeirra Dóru og Ásgeirs verði þá flutt úr kórveggnum eða þau látin vera þar áfram án merkingar. [71]

Það má hins vegar ekki gleymast hvað er í kórveggnum.

Það má hins vegar ekki gleymast hvað er í kórveggnum.

„…prýdd í tigins manns greptri …“

Fyrr á öldum var fólk jafnan grafið utan borgarmúra en það breyttist.

Um aldir hefur það þekktst að jarðneskum leifum fólks hafi verið komið fyrir í kirkjum, þær jarðsettar í kirkjugólfi eða við kirkjuvegg. Jafnan hafa það verið dýrlingar, biskupar og veraldlegir höfðingjar, kóngar og keisarar er átt hafa í hlut.

Til er saga af dýrlingi einum í Frakklandi sem lést árið 540. Þetta var heilagur Vedastus. Sjálfur hafði hann látið í ljós þá ósk að verða grafinn í litlu timburbænahúsi á árbakka einum utan borgarmúra. Þegar færa átti lík hans þangað varð því ekki haggað fyrir þyngdar sakir. Var þá kveðið upp úr með að þetta væri kraftaverk og hinn helgi maður skyldi þá grafinn þar sem kennilýðnum þótti við hæfi og það var hægra megin við altarið í kirkju þeirri sem hann hafði þjónað. Skipti nú engum togum að hinn látni dýrlingur varð sem fis eitt og borinn til kirkjunnar. Var hann sá fyrsti er hlaut leg in ambitus murorum (innan veggja) í kirkju. Þessi saga skaut stoðum undir að heimilt væri að hafa grafir í kirkjum og kirkjugarð í kringum kirkjuhúsin. Hin viðtekna regla hafði verið að hin látnu voru grafin utan borgarveggja. [72] Þannig má segja að hinn helgi maður hafi rofið borgarmúrinn – og kirkjumúrinn!

Höfundur Hungurvöku kemst fallega að orði um biskup einn er fyrstur var grafinn í Skálholtsdómkirkju. Hann segir:

Um daga Ísleifs byskups kom út sá byskup er Kolr hét, ok andaðist hann út hér. Hann var grafinn í Skálaholti, ok var sú kirkja hér á landi fyrst prýdd í tigins manns greptri er at réttu kallask andlig móðir allra annarra vígðra húsa á Íslandi. [73]

Leg í kirkju kostuðu sitt og það var aðeins á færi efnafólks og höfðingja að kaupa sér kirkjuleg. Það var og eftirsótt. Biskup einn gaf Hóladómkirkju róðukross og prédikunarstól fyrir leg í kirkjunni. Krossinn var metinn á 20 ríkisdali og prédikunarstóllinn 30 ríkisdali. [74]

Menn voru grafnir í kirkjum hér á landi á fyrri tíð.

Líklega var Hannes Finnsson, biskup, síðasti maðurinn sem jarðsettur var í Skálholtsdómkirkju en það var árið 1796. [75] Einnig var jarðsett í Hóladómkirkju. [76] Nokkrir sögufrægir einstaklingar fengu fyrr á öldum hinstu hvílu í kirkjugólfi Bessastaðakirkju.[77] Sá sem síðastur var grafinn í gólf Bessastaðakirkju var Magnús Gíslason, amtmaður, dáinn 1766. [78]

Minningarmarkið um Magnús Gíslason, amtmann, (d. 1766), og konu hans, Þórunni Guðmundsdóttur, en þau hjón eru grafin í Bessastaðakirkju með stuttu millibili

En það telst nýlunda að jarðneskar leifar fólks hvíli í kirkjuvegg hér á landi. Sennilega eru hin ágætu forsetahjón, Ásgeir Ásgeirsson og Dóra Þórhallsdóttir, þau fyrstu og kannski þau síðustu, sem fá legstað sem þennan í Bessastaðakirkju. Fer þá ekki illa á að hlutskiptið féll í skaut fyrsta guðfræðingnum sem gegndi forsetaembætti Íslands og biskupsdótturinni eiginkonu hans.

Að minnsta kosti þarf að geyma þessa merkilegu sögulegu staðreynd – og minnast hennar með virðingu.

Besssastaðakirkja á fögrum vetrardegi 2021

Stórglæsileg forsetahjón og ástsæl meðal þjóðarinnar. Dóra Þórhallsdóttir (1893-1964) og Ásgeir Ásgeirsson (1894-1972)

Sveinn Björnsson og Georgía Björnsson – brjóstlíkneski sem Einar Jónsson gerði og eru í safni hans, Hnitbjörgum

 

Neðanmálsgreinar

[1] Vísitasíubók Kjalarnessprófastsdæmis 1980 – bls. 89-90, 12. febrúar 1985. Undir vísitasíuna rita: sr. Bragi Friðriksson, Vigdís Finnbogadóttir, Halldór Reynisson, Vigdís Bjarnadóttir, Bjarni S. Guðmundsson og Sigríður K. Thoroddsen. – Þess má geta að á vesturgafli Skálholtsdómkirkju eru nöfn biskupa Íslands skráð sem og nöfn vígslubiskupa. Í kirkjunni á Staðastað er sömuleiðis í forkirkju tafla með nöfnum presta sem setið hafa staðinn, allt frá sr. Ara fróða Þorgilssyni (1067-1148) og til sr. Rögnvalds Finnbogasonar (1927-1995).

[2] Tölvubréf til höfundar h. 18. febrúar 2021, kl. 10.27, frá forstjóra Kirkjugarðanna, sr. Þórsteini Ragnarssyni: „…vefurinn www.gardur.is var stofnaður árið 2001 og þar inni eru allar greftranir frá og með árinu 2000. Á árunum 1999 til 2001 og áfram var kappkostað að safna saman öllum fyrirliggjandi legstaðaskrám á landinu en heimtur urðu misjafnar og jafnvel kom í ljós að sumir kirkjugarðar höfðu glatað skránum. Þetta skýrir mismunandi skráningu aftur í tímann inn á www.gardur.is.“

[3] Tölvubréf til höfundar h. 28. janúar, kl. 13.19, frá forstjóra Kirkjugarðanna, sr. Þórsteini Ragnarssyni. Því skal til haga haldið að munnmælasögn segir að barn múrarans Sabinkys sé múrað í forkirkjuvegg Hóladómkirkju, sjá: Þorsteinn Gunnarsson (2005). Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritsj.) Friðaðar kirkjur í Skagafjarðarprófastsdæmi, 6, Kirkjur Íslands, R. 2005, bls. 183. Þá er og þess að geta að í bók þeirra Þorsteins Gunnarssonar og Kristjáns Eldjárns: Um Hóladómkirkju, útg. 1993, er augljóslega ekki tekin afstaða til þess hvort dóttir múrarans hvíli í forkirkjunni norðan kirkjudyra heldur aðeins sagt í umfjölluninni: „…er múrað minningarletur yfir dóttur Sabinskys múrmeistara…“ (bls. 40 og 41). Hannes Pétursson, skáld, skrifaði grein í Árbók hins íslenzka fornleifafélags, 1980, R. 1981, bls. 21-24, undir heitinu Zabintski Dochter – Um grafletur í Hóladómkirkju, fáein orð. Þar kemur vel fram að um munnmælasögu er að ræða enda þótt höfundur telji að lík dóttur múrarans hafi verið lagt í forkirkjuveggginn. Einnig má geta í þessu sambandi um meðferð öskukerja að fram kemur í Björg – Ævisaga Bjargar C. Þorláksson, eftir Sigríði Dúnu Kristsmundsdóttur, R. 2001, bls. 330, að Björg hafi óskað eftir því að öskuker hennar fengi „að standa í aðalbyggingu Háskóla Íslands.“ Við því var ekki orðið og askan jarðsett að Lágafelli í Mosfellsbæ 1979. Fædd var hún 1874 og lést 1934. Öskuker hennar fannst 1979 innan um dót í geymslu við Fossvogskapellu. Sjá sama bls. 331.

[4] „Besti ferðafélaginn fyrir ferðalagið um Ísland,“ Morgunblaðið 2. september 2020, þar segir um vefinn NAT Travel Guide ehf.: „Fyrstu síðurnar voru skrifaðar 1998…“ Rætt er í fréttinni við Birgi Sumarliðason, einn stofnanda síðunnar.

[5] https://is.nat.is/bessastadakirkja/ – Ath. Dánargríma G.Th. er ekki lengur í kirkjunni.

[6] Tryggvi Pálsson: Ásgeir Ásgeirsson – maðurinn og meistarinn, Reykjavík 2019, bls. 77 (neðanmálsgrein nr. 181). Höfundurinn talar um bókina í formála sem ritgerð, fyrri hlutinn rekur ævi Ásgeirs í stórum dráttum og seinni hlutinn fjallar um störf hans í Frímúrarareglunni en síðustu æviár sín var hann þar s.k. stórmeistari.

[7] Gylfi Gröndal, Ásgeir Ásgeirsson, ævisaga, R. 1992, bls. 421. – Í gögnum kirkjugarðanna er getið að jarðsetningastaður hennar sé „Bessastaðir.“ Sjá: Tölvubréf til höfundar h. 4. febrúar, kl. 11.29, frá forstjóra Kirkjugarðanna, sr. Þórsteini Ragnarssyni

[8] „Virðuleg útför forsetafrúarinnar í gær,“ Alþýðublaðið 16. september 1964, bls. 4;  „Virðuleg útför forsetafrúarinnar í gær,“ Morgunblaðið 16. september 1964, bls. 13; „Almenn samúð og söknuður við útför forsetafrúarinnar,“ Vísir 16. september 1964, bls. 6. „Forsetafrúin jörðuð í dag,“ Tíminn 15. september 1964, bls. 15. „Útför Dóru Þórhallsdóttur, forsetafrúar,“ Morgunblaðið 15. september 1964, forsíða– fréttirnar byggja líklegast á opinberri tilkynningu.

[9] „Virðuleg útför Ásgeirs Ásgeirssonar var gerð í gær,“ Morgunblaðið 23. september 1972, bls. 3.

[10] Gylfi Gröndal,  Ásgeir Ásgeirsson, ævisaga, R. 1992, bls. 442.

[11] „Útför Ásgeirs Ásgeirssonar,“ Alþýðublaðið 23. september 1972, bls. 3.

[12] Þ.Í. Prófastar – Kjalarnesprófastsdæmi – AA/008: Prófastsvísitasía 17. september 1969, bls. 182. Einnig getið um minningartöflu „herra Sveins Björnssonar og frú Georgíu.“

[13] Einnig voru viðstödd: Jóhann Jónasson, Margrét Sveinsdóttir, Gunnar Stefánsson.

[14] ÞÍ: Vísitazíur biskups 1967-1971: Kjalarnessprófastsdæmi: Bessastaðakirkja, bls. 256: „Minningartöflur eru á kórgafli um forsetahjónin Svein og Georgíu Björnsson og forsetafrú Dóru Þórhallsdóttur.“ Vísitasíugerðin var birt á prenti 1983: Bessastaðakirkja – Vísitazíugjörð 1971, Landnám Ingólfs, 1, 1983, bls. 94-97.

[15] Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, handritasafn. Lbs 18 NF. Kristján Eldjárn dagbækur 1972.

[16] Tölvubréf til höfundar h. 4. febrúar, kl. 14.04, frá forstjóra Kirkjugarðanna, sr. Þórsteini Ragnarssyni – duftkerið afhent 26. september 1972.

[17] Stjórnartíðindi 1963, A-deild, R. 1963, 17. gr., 2. mg., bls. 193, og Lagasafn – íslenzk lög 1. október 1973, R. 1974, bls. 661. – Í umræðum á Alþingi um frumvarpið var vikið nokkrum sinnum að þessari grein. Framsögumaður, Auður Auðuns, sagði: „Eins og nú háttar til, er mönnum frjálst að varðveita duftker á hvern þann hátt, er þeir óska, en slíkt þykir tæpast viðeigandi og því í gr. lagt til að þau skuli ávallt varðveitt í vígðum grafreit.“ (bls. (dálkur) 1503). Orð Auðar um að mönnum sé frjálst að varðveita duftker eins og þeim sýnist vekja undrun í ljósi þess að reglur virðast hafa verið skýrar um að það væri óheimilt samkvæmt lögunum frá 1932. Einn þingmaður, Gísli Jónsson, sagði þetta um greinina: „Ég hef ekki gert sérstaka brtt. við 17. gr. En ætli það finnist nokkurs staðar í nokkru menntuðu landi, að bannað sé að geyma ösku í öskukerum annars staðar en í kirkjugarði, eins og gert er með þessum lögum? Mér er fullkomlega kunnugt um, að í flestum menningarlöndum eru það ættingjar, sem ráða því, eða sjálfur aðili, sem ræður því m.a.,hvort öskunni sé dreift um land eða sjó, upp á fjöll eða með ströndum fram – ekkert við það að athuga. Hér á að banna slíkt. Mér er einnig kunnugt um það, að fjölskyldum er heimilt að geyma þessi ker þar, sem þeim sýnist.“ (bls. (dálkur) 1524-1525. Dómsmálráðherrann, Bjarni Benediktsson, sagði: „Sjálfur verð ég að  segja, að mér fyndist það mjög óskemmtileg varðveizla á leifum látins ástvinar að hafa krukku með honum standandi í heimahúsum eða annars staðar en á þeim stað, sem sérstaklega er til þess ætlaður, og ég verð að játa, að mér finnst hinum jarðnesku leifum hvergi betri staður fundinn en einmitt í kirkjugarði.“ (bls. (dálkur) 1526) (Sjá: Alþingistíðindi 1962 – áttugasta og þriðja löggjafarþing, B: umræður um samþykkt lagafrumvörp með aðalefnisyfirliti, R. 1967, bls. 1501-1527).

[18] Stjórnartíðindi 1963, A-deild, R. 1963, 10. gr., 2. mgr., bls. 191.

[19] Stjórnartíðindi 1963, A-deild, R. 1963, bls. 196.

[20] Hægt er að setja fram þá tilgátu að þau hjón hafi óskað eftir því að jarðneskar leifar þeirra fengju að hvíla í duftkerjum í kórvegg Bessastaðakirkju. Og þau jafnvel fengið formlega  eða óformlega staðfestingu á því að þá stund þeirra rynni upp yrðu jarðneskar leifar þeirra geymdar þar í kirkjunni. Lög um líkbrennslu voru sett 1915 og féllu úr gildi 1963. Í 4. gr. þeirra stendur: „Að lokinni brennslu skal jarðsetja öskuna í kirkjugarði, eða setja hana á aðra staði, sem sérstaklega eru útbúnir til þess eftir fyrirmælum stjórnarráðsins.“ Reglugerð um framkvæmd líkbrennslu á grundvelli laganna frá 1915 var sett 1951 og felld úr gildi 2007. Í 8. gr. reglugerðarinnar segir: „Ef eigi skal jarðsetja ösku þegar að lokinni bálför, skulu hylkin eða kerin merkt með einkenni bálstofunnar og nafni hins látna. Skal þá, eftir löglegri ákvörðun hlutaðeigandi aðstandenda, koma hylkjunum eða kerunum fyrir í kapellu eða grafhýsum kirkjugarðs eða geymsluhvelfingum við bálstofuna“. Sótt 12. febrúar 2022: https://www.reglugerd.is/reglugerdir/allar/nr/4-1951 – Hér er reyndar getið um kapellu – en Bessastaðakirkja er ekki kapella – heldur kirkja. Sem áður segir eru lögin frá 1963 afdráttarlaus um þetta efni – duftker skyldi ekki varðveita annars staðar en í kirkjugarði (17. gr.).

[21] Stjórnartíðindi 1963, A-deild, R. 1963, 17. gr., 1. mgr. bls. 193. Greinin hljóðar svo öll: „Þegar líkbrennsla fer fram, er skylt að búa um öskuna í þar til gerðum duftkerjum. Kerin má grafa niður í grafarstæði eða leiði, enda liggi fyrir fullt samkomulag aðstandenda. Dýpt duftkersgrafar skal vera 1 metri. Kirkjugarðsstjórn getur ákveðið sérstakan reit í kirkjugarði fyrir duftker og sé stærð hvers leiðis jafnan hin sama, um ½ fermetri. Heimilt er bálfararfélagi eða kirkjugarðsstjórn í samráði við umsjónarmann kirkjugarða og skipulagsnefnd kirkjugarða að reisa kapellu í kirkjugarði til varðveizlu duftkerja. Nöfn þeirra, sem duft er varðveitt af í kirkjugarði, skal rita á legstaðaskrá og kerin eða grafirnar tölusettar. Óheimilt er að varðveita duftker annars staðar en í kirkjugarði.“ Um þessa grein sagði m.a. í greinargerð: „Bannað er að varðveita duftker annars staðar en í vígðum grafreit.“ (Alþingistíðindi 1962 – áttugasta og þriðja löggjafarþing, A: þingskjöl með málaskrá, R. 1964, bls. 916).

[22] Björk Ingimundardóttir, Prestaköll, sóknir og prófastsdæmi á Íslandi, I., R. 2019, bls. 426-427.

[23] Kapella er vissulega guðshús en í þeim er ekki reglubundið helgihald  eins og í kapellunni á Hrafnseyri við Arnarfjörð, vígð 1980 (Ásgeir Ásgeirsson, forseti, stofnaði minningarsjóð um eiginkonu sína, Dóru Þórhallsdóttur, sem styðja skyldi byggingu á kapellunni). Sumar kapellur eru eingöngu  grafarkapellur (eins og Fossvogskapella í Reykjavík), skólakapellur og sjúkrahúskapellur. Í stórum kirkjum geta þær verið hluti af kirkjunni sjálfri og oft með sérstakt altari. Sjá nánar: J. S. Purvis, Dictionary of ecclesiastical terms, London 1962, bls. 41.

[24] Það skal tekið fram í þessu samhengi að þegar ný kirkja var reist á Ísafirði 1991 kom í ljós að byggja þyrfti yfir gömul leiði sem höfðu staðið norðan við gömlu kirkjuna. Sérstökum minningarskildi var komið upp í kirkjunni um þau sem þar hvíldu undir kirkjugólfi. Þá vildi svo til að eitt grafarstæðanna sem fór undir gólf nýju kirkjunnar var frátekið fyrir eiginkonu þess er þar hvíldi. Þegar hún lést var gólf kirkjunnar rofið og konan jarðsett við hlið eignmanns síns. Samkv. upplýsingum sr. Magnúsar Erlingssonar, sóknarprests á Ísafirði, og prófasts, 21. febrúar 2021. Sjá einnig viðtal við sr. Magnús í Bæjarins besta, 19. desember, 1997, bls. 14-17: „Ég nýt jólanna í faðmi fjölskyldunnar“. Kona sú sem um er getið var jarðsett vegna þessara sérstöku aðstæðna í kirkjunni 25. nóvember 1997. Það er ekki sambærilegt atvik í samanburði við það sem rætt er um í þessari grein. Slóð sótt 1. mars 2021: https://timarit.is/page/7442487?iabr=on#page/n16/mode/1up

[25] Gunnar Þór Bjarnason, „En þegar dauðinn kemur svo sem ein voldug hetja …“ – Um viðhorf til dauðans á síðari öldum, Ný Saga – tímarit Sögufélags, 1. árg., 1. tbl., 1987, bls. 34-35.

[26] Hjá: Stefanía Haraldsdóttir, Bankað upp á að Bessastöðum – Forsetafrúr lýðveldisins 1944-1996, BA-ritgerð, 2014, bls. 12, segir svo um þau Svein og Georgíu: „Forsetahjónin þurftu að sigla milli skers og báru til að forðast konungsstíl á embættinu en jafnframt því að skapa því virðingarsess. Sendiráðum Íslands voru send bréf 1946 með beiðni um að þau útveguðu „allar eða sem flestar protocol [siðareglur] bækur“ sem væru í notkun hjá vinaþjóðum Íslands til þess að allt mætti rétt fara í samskiptum og umgengni við þjóðhöfðingja ríkjanna.“ Það var forsetaritarinn, Gunnlaugur Þórðarson, sem sendi þessi bréf. Fjöldi sendiráða sendi gögn. Í bréfi frá sendiráði Íslands í London sagði svo 4. mars 1946: „Að lokum skal þess getið að bók um mannasiði almennt, sem mjög hefir verið notuð af sendiráðum hér, er uppseld og mun nokkur tími líða þangað til hún verður endurprentuð.“ Sjá: ÞÍ. Skrifstofa forseta Íslands 1994-22 B-B 51. 1941-1980. Svo virðist og að forsetaritarinn hafi viljað koma upp safni af siðareglum því að í bréfi til sendiráða (London, innsk. höf.) 14. mars 1946, segir hann: „…jafnframt er þess óskað, að ef nýjar „protocol“ – bækur eru gefnar út, þá sé eintak sent til skrifstofunnar (forsetaskrifstofunnar, innsk. höf.) Það getur verið á ýmsan hátt þægilegt og fróðlegt að hafa slíkt safn.“ Sjá: ÞÍ. Skrifstofa forseta Íslands 1994-22 B-B 51. 1941-1980.

[27] Hér segir: „Sveinn hafði ekki neinum hefðum að fylgja og engan ramma fyrir embætti sitt nema þann sem stjórnarskráin setti: …“ Bjarni Guðmarsson og Hrafn Jökulsson, Forsetar íslenska lýðveldisins, R. 1990, bls. 75.

[28] Gylfi Gröndal, Sveinn Björnsson, ævisaga, R. 1994, bls. 13.

[29] Birgir Thorlacius, Víða komið við, síðara bindi, R. 1994 bls. 59. Birgir birtir líka minnisblað/reglur sem eru frá Sveini komnar þar sem fram kemur hvaða boð forseti eigi að þiggja (bls. 59-60). Hann segir einnig að löng dvöl þeirra hjóna, Sveins og Georgíu, í útlöndum og kynni þeirra af „fagurlega búnum heimilum og höllum“ hafi átt mikinn þátt í að móta „umgjörð forsetaembættisins“. (Bls. 56).

[30] Birgir Thorlacius, „Forsetar, konungar, o.fl.“ Tíminn, 31. mars 1994, bls. 6-7. Nefna má dæmi um hvernig Sveinn forseti steig út í hversdagsleikann ef svo má segja þegar hann bauð tveimur stúlkum á Álftanesinu far í bæinn þar sem þær biðu eftir Hafnarfjarðarstrætó – voru á leið í kvikmyndahús. Þær þáðu farið og hann bauðst til að sækja þær eftir sýninguna sem og var gert: Gyða Skúladóttir Flinker, Vigdís Jack – sveitastelpan sem varð prestsfrú, R. 2020, bls. 60-62.

[31] Gunnlaugur Þórðarson, Ævibrot, R. 1990, bls. 67-68.

[32] Í bréfasamskiptum milli sendiráðsins í London og Kaupmannahöfn við utanríkisráðuneytið kemur fram að í upphafi forsetatíðar Ásgeirs var leitast við að endurnýja húsgögn og borðbúnað (til dæmis bréf 10. des. 1956 og 8. apríl 1957) á Bessastöðum. Næsta víst er að þörf hefur verið á því. Í bréfi sendiherra Íslands frá því 5. febrúar 1952 segir að Sveinn Björnsson hafi þegar hann kom til London að leita sér lækninga í október 1951 haft „meðferðis mjög verðmæt áklæði af stólum í forsetrasetrinu að Bessastöðum, sem voru orðin allslitin og þurftu viðgerð.“ Um viðgerðina sá Victoria and Albert Museum og voru klæðin síðan send heim í teimur ströngum. (bréf 5. febrúar 1952, Agnar Kl. Jónsson). Sendiráðin í London og Kaupmannahöfn voru beðin um að athuga með heppileg húsgögn fyrir forsetasetrið. Um var að ræða stóla, sófa, skatthol, borð og borðbúnað. Og teppi. Í bréfi til sendiherrans í London í nóvember 4. nóvember 1953 segir forsetaritarinn: „Húsgögn þessi þyrftu auk þess að vera lagleg, að falla inn í hinn rétta ramma Bessastaða, sem þú þekkir vel sjálfur.“ Það var þó nokkurt umstang eins og fram kemur í bréfum sendiherranna. Sendiherrann í London fékk meira að segja móður sína með sér til að skoða matarstell sem kom til álita að kaupa. (Bréf Agnars Kl. Jónssonar, 7. ágúst 1953). Og ekki gekk það ætíð vel: „…hér er nú furðulítið úrval af húsgögnum eins og þeim, sem hæfileg geta talist fyrir Bessastaði.“ Og:  „Það er leitt hvað þetta ber lítinn árangur og ótrulegt í rauninni hversu lítið úrval er í stórborg eins og London,“ segir sendiherrann Agnar Kl. Jónsson í bréfi til forsetaritarans 23. febrúar 1954. Hann sendi þó lítinn húsgagnabækling frá Harrods en viðbrögðin voru þau að húsgögnin væru „of fyrirferðamikl“ og þau yrðu „of nýleg.“ Í því bréfi spyr forsetaritari hvort ekki væri hægt að fá Ministry of Work til að aðstoða í þessum málum en sú skrifstofa hafði með „innréttingar breskra sendiherrabústaða“ að gera. (Bréf 10. febrúar 1954). Og kona Agnars, Ólöf, fór líka með honum að skoða húsgögn (bréf 15. des. 1953). Gunnlaugur Halldórsson, arkitekt, var beðinn um að athuga með húsgögn á Norðurlöndum og var farið að hans ráðum að einhverju leyti, (bréf 19. ágúst 1954) til dæmis keyptur ruggustóll úr eik. Lesa má úr þessu að búa átti forsetasetrið út í anda hinna glæsilegustu embættisbústaða eins og til dæmis sendiráða. Það hæfði ekki allt forsetasetrinu né ramma þess og segja má að með því sé verið að gæta að virðingu embættisins og um leið verið að móta það í vissan heldrafólksstíl, ef svo má segja, þetta var jú einu sinni bústaður þjóðhöfðingjans. Hann varð að bera af og næsta víst að sátt hefur verið um það. (ÞÍ. Skrifstofa forseta Íslands 1994-22 B-B 59-1. Bessastaðir Tímabil 1944-1980).

[33] Stefanía Haraldsdóttir, Bankað upp á að Bessastöðum – Forsetafrúr lýðveldisins 1944-1996, BA-ritgerð, 2014, bls. 11-13; 18-20; 22-24 og víðar.

[34] Þór Magnússon, „ „Vandalisminn“ í Bessastaðakirkju eða víti til varnaðar“, Árbók hins íslenska fornleifafélags, 2002-2003, R. 2004, bls. 72 – (Bréfið er dagsett 28. febrúar 1948).

[35] Í minningargrein um Svein í Morgunblaðinu sem Jóhann Jónsson skrifaði stendur m.a.: „Ég minnist þess nú, að hann sagði einhvern tíma við mig, að sig iðraði þess mest, að hann hafði einu sinni fyrir áeggjan vina sinna látið aðra ráða framkvæmdum, en það voru breytingar þær, sem gerðar voru á Bessastaðakirkju. Með þær var hann alla tíð mjög óánægður.“ Jóhann Jónsson, „Minningarorð um forseta Íslands,“ Morgunblaðið 2. febrúar 1952, bls. 3. Ekki er ólíklegt að þetta hafi verið í fyrsta sinn sem þessi óánægja forsetans með breytingar á Bessastaðakirkju var orðuð opinberlega.

[36] Gylfi Gröndal, Sveinn Björnsson, ævisaga, R. 1994, bls. 342-344.

[37] Birgir Thorlacius, Í þjónustu forseta og ráðherra, R. 1994, bls. 165.

[38] Guðni Th. Jóhannesson, Fyrstu forsetarnir – Embætti þjóðhöfðingja Íslands á 20. öld, R. 2016, bls. 76, segir um Svein: „Honum var annt um virðingu embættisins og vildi ekki gerast of alþýðlegur í háttum.“ Þar kemur og fram að erlendum embættismönnum hafi þótt Sveinn full fastheldinn á hirðsiði og formreglur. Landsmenn hafi jafnvel sagt framferði hans sýna hégómaskap. 

[39] „Virðuleg útför forsetans greip hugi Reykvíkinga,“ Morgunblaðið 5. febrúar 1952, bls. 2.

[40] „Þúsundir við útför forsetans á laugardaginn,“ Alþýðublaðið 5. febrúar 1952, forsíða.

[41] „Þegar þjóðin kvaddi fyrsta forseta lýðveldisins,“ Þjóðviljinn 5. febrúar 1952, bls. 3.

[42] Birgir Thorlacius, Í þjónustu forseta og ráðherra, R. 1994, bls. 175.

[43] Alþingistíðindi 1915, B. umræður, R. 1916, bls. (dálkur) 908.

[44] „Að lokinni brenslu skal jarðsetja öskuna í kirkjugarði, eða setja hana á aðra  staði, sem sjerstaklega eru útbúnir til þess, eftir fyrirmælum Stjórnarráðsins.“ 4. gr. laga um líkbrennslu, nr. 41, 3. nóvember 1915, Stjórnartíðindi  fyrir Ísland 1915, R. (ekkert ártal), bls. 140. Í 12. gr. laga um kirkjugarða frá 1932 stendur svo í 2. mgr.: „Þar, sem líkbrennsla fer fram, en menn vilja þó geyma duftker með bálfararleifum í kirkjugarði, getur sóknarnefnd ákveðið, að kerin skuli grafin í sérstökum röðum, eða geymd í grafkapellum, er bæjarstjórn eða bálfararfélög reisa innan kirkjugarðs í því skyni.“ Stjórnartíðindi fyrir Ísland, árið 1932, A-deild, R. 1932, bls. 151. Og í 9. gr. 2. mgr. sömu laga sagði: „Bannað er að taka gröf innan kirkju.“ Sama heimild, bls. 150.

[45] Gylfi Gröndal, Sveinn Björnsson, ævisaga, R. 1994, bls. 347 og Birgir Thorlacius, Í þjónustu forseta og ráðherra, R. 1994, bls. 175-179. Ranglega er sagt frá því á https://www.gardur.is/einstakl.php?nafn_id=234641, að duftker Sveins sé „staðsett í Bessastaðakirkju“ en réttilega getið að það sé í reit 84 sem er norðanmegin við kirkjuna.

[46] Birgir Thorlacius, Í þjónustu forseta og ráðherra, R. 1994, bls. 175.

[47] Gylfi Gröndal, Kristján Eldjárn, ævisaga, R. 1991, bls. 303.

[48] Birgir Thorlacius, Í þjónustu forseta og ráðherra, R. 1994, bls. 176-177.

[49] Gylfi Gröndal, Sveinn Björnsson, ævisaga, R. 1994, bls. 347. Sjá einnig: Birgir Thorlacius, Í þjónustu forseta og ráðherra, R. 1994, bls. 175 (Birgir getur um að fjórum mönnum hafi verið falið að finna Sveini legstað, honum sjálfum og þeim dr. Kristjáni Eldjárn, þjóðminjaverði, Herði Bjarnasyni, húsameistara ríkisins, og Gunnlaugi Halldórssyni, arkitekt. Þar kemur m.a. fram að þess megi vænta að líkneski verði reist af forsetanum í Reykjavík eða annars staðar. Ekki hefur nú orðið af því enn. Greinargerð hópsins má lesa á bls. 175-178).

[50] Hannes Jónsson, Sendiherra á sagnabekk, R. 1994, bls.21-23. Grímur Thomsen er „fyrsti lærimeistari íslenskra diplómata“, (bls. 22-23) að áliti dr. Hannesar.

[51] Sveinn Björnsson, Endurminningar Sveins Björnssonar, R. 1957, bls. 117; Birgir Thorlacius, Í þjónustu forseta og ráðherra, R. 1994, bls. 167. – Hannes Jónsson, Sendiherra á sagnabekk, R. 1994, bls. 24-34, en þar segir (bls. 25) að Sveinn hafi verið aðalhöfundur bráðabirgðalaga nr. 120 frá 8. júlí 1940 um utanríkisþjónustu og laganna um utanríkisráðuneyti Íslands og fulltrúa þess erlendis nr. 31 frá 27. júní 1941. Sveinn hafi lagt „grundvöllinn að skipulagi og starfsáttum íslenskrar utanríkisþjónustu.“ (Bls. 25).

(51b) Gylfi Gröndal, Sveinn Björnsson, ævisaga, R. 1994, bls. 347.

[52] Stjórnartíðindi fyrir Ísland, árið 1932, A-deild, R. 1932, bls. 150. Í 9. gr. 2. mgr. sömu laga sagði: „Bannað er að taka gröf innan kirkju.“

[53] Stjórnartíðindi fyrir Ísland, R. 1915, 4. gr., bls. 140. „Að lokinni brennslu skal jarðsetja öskuna í kirkjugarði, eða setja hana á aðra staði, sem sjérstaklega eru útbúnir til þess eftir fyrirmælum stjórnarráðsins.“ Í nefndaráliti um frumvarp til laga um líkbrennslu 1915 var svo tekið til orða: „…að askan sé jörðuð eða komið þar fyrir á hæfilegum stað, – hefir frv. tekið til greina.“  Alþingistíðindi 1915 – A. Þingskjöl R. 1915, bls. 689.

[54] Í reglugerð um framkvæmd líkbrennslu á grundvelli laganna frá 1915 frá 1951 og felld úr gildi 2007 segir í 8. gr., að ef ekki eigi að jarðsetja  „ösku þegar að lokinni bálför, skulu hylkin eða kerin merkt með einkenni bálstofunnar og nafni hins látna. Skal þá, eftir löglegri ákvörðun hlutaðeigandi aðstandenda, koma hylkjunum eða kerunum fyrir í kapellu eða grafhýsum kirkjugarðs eða geymsluhvelfingum við bálstofuna“. (Skáletrun höf.) Sótt 12. febrúar 2022: https://www.reglugerd.is/reglugerdir/allar/nr/4-1951 – Hér virðist vera átt við um tímabundna geymslu. Reyndar er getið um kapellu – en Bessastaðakirkja er ekki kapella – heldur kirkja.

[55] Hér má geta grafhýsis sem Páll Beyer lét gera um 1710 undir Bessastaðakirkju fyrir „heldri menn“. Sjá Guðmundur Ólafsson, Bessastaðarannsókn 1987 Aðdragandi og upphaf – uppgraftarsvæði 1-11, bls. 21. Sótt 19. febrúar 2021: https://www.thjodminjasafn.is/media/utgafa/2010-1-Bessastadarannsokn-1987.pdf Einnig grafhýsis amtmannsins á Bessastöðum, Lauritz Thodals sem skipaður var amtmaður yfir Íslandi og Færeyum 1770: Þorsteinn Gunnarsson (2008). Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritstj.) Friðaðar kirkjur í Kjalarnessprófastsdæmi II, 12, Kirkjur Íslands, R. 2008, bls. 34-36.

[56] Þór Magnússon rekur sögu hinna umdeildu breytinga, sjá:, „ „Vandalisminn“ í Bessastaðakirkju eða víti til varnaðar“, Árbók hins íslenska fornleifafélags, 2002-2003, R. 2004, bls. 56-78. Einnig: Pétur Ármannsson: Guðjón Samúelsson húsameistari, R. 2020, bls. 341-342. Þar segir Pétur frá þessari gagnrýni og breytingum Guðjóns og það sé enn í dag „umdeildast“ embættisverka hans. Sjá einnig breytingasöguna í: Þorsteinn Gunnarsson (2008). Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritstj.) Friðaðar kirkjur í Kjalarnessprófastsdæmi II, 12, Kirkjur Íslands, R. 2008, bls. 53-58. Þar segir Þorsteinn að færa ætti kirkjunni aftur: „…þá ásjón sem hún hafði fyrrum, færa í hana á ný þá innansmíð, sem hún hafði og er til.“ (Bls. 58).

[57] Kristján Eldjárn, „Hugleiðingar um Oddakirkju,“ Morgunblaðið 28. nóvember 1953, bls. – Guðjón Samúelsson skrifaði tvær greinar í Kirkjublaðið þar sem hann svarar gagnrýni á breytingarnar á Bessastaðakirkju. Sú fyrri: „Bessastaðakirkja – Nokkrar athugasemdir“, (Kirkjublaðið 4. tbl., 1. mars 1948, bls. 2-3,  og „Bessastaðakirkja – síðari grein“, (Kirkjublaðið, 5. tbl., 5. apríl 1948, bls. 3). Hann segir meðal annars í seinni greininni, bls. 3: „Helgigripir hennar valdir af handahófi, og mjög ósmekklegir og ólistrænir.“ Gylfi Þ. Gíslason, alþingismaður, svarar húsameistara í Kirkjublaðinu 5. apríl 1948, bls. 4: „Húsameistari ríkisins og Bessastaðakirkja“ og er býsna þungorður og í næsta tölublaði Kirkjublaðsins, 26. apríl segir m.a. svo í lítilli grein á forsíðu: „Bessastaðakirkja“: „Ætlun blaðsins er ekki sú að blanda sér í deilur um það mál (þ.e. framkvæmdir við kirkjuna, innsk.) Bezt er að láta fólkið sjálft, sem áður þekkti kirkjuna og mun fá mörg tækifæri til þess að skoða hana eftir að viðgerðinni er lokið, dæma um hvort þar hafi verið unnið gott verk og þarft, eða hvort hér sé um eyðileggingu Bessastaðakirkju að ræða, eins og herra Gylfi Þ. Gíslason gefur í skyn.“ Kirkjublaðið greindi á forsíðu 15. nóvember 1948 frá hátíðarguðsþjónustu sem haldin hefði verið í kirkjunni 31. október 1948 og þar sagði að kirkjan væri tekin í notkun eftir að „myndarlegri viðgerð“ væri lokið á henni. Ennfremur: „Enda þótt eigi verði sagt að neinar meiri háttar breytingar hafi gjörðar verið á Bessastaðakirkju, hefur hún þó mjög skipt um svip, þegar inn í hana er komið. Hún er orðin björt og vistleg, hlý og traust, látlaus en þó sérkennilega fögur.“ Ritstjórinn og biskupinn yfir Íslandi sagði í prédikun sinni þennan dag: „Það er fagnaðarefni, hve yndislega falleg kirkjan er, vingjarnleg, látlaus, hlý og björt. Og ég finn ástæðu til þess að þakka kirkjueigandanum, ríkistjórninni, fyrir hönd þjóðarinnar, og öllum þeim, sem þátt hafa átt í að þessi (sic) fagra verki, þeim sem yfirumsjón þess höfðu og þeim, sem unnu að því á annan hátt.“ Sigurgeir Sigurðsson, „Helgidómarnir og þjóðin  – ræða flutt í Bessastaðakirkju 31. október 1948“, Kirkjublaðið 15. nóvember 1948, bls. 2. Ekkert er haft eftir forseta í blaðinu um hvað honum fannst.

[58] Gunnlaugur Haraldsson, Guðfræðingatal 1847-2002, R. 2002, bls. 215.

[59] Kver og kirkja kom út 1925.

[60] Gylfi Gröndal,  Ásgeir Ásgeirsson, ævisaga, R. 1992, bls. 124-125.

[61] Bessastaðakirkja. Vísitazíugjörð 1971, Landnám Ingólfs – nýtt safn til sögu þess, 1, R. 1983, bls. 94-97; „Kirkjugluggarnir á Bessastöðum,“ Samvinnan, jólin 1957:, bls.  4-5; 7; 50-51.

[62] Til dæmis Steinsbiblíu frá  1728, og kirkjufána (helgigöngumerki), sem Ásgeir gerði frumdrætti að, saumaður í Englandi; hann átti og hugmyndina að því að íslenskir járnsmiðir smíðuðu skrá í kirkjuhurðina, „kostulega vel smíðuð,“- og gaf kirkjunni koparaltariskross, róðukross, sjá: Þ.Í. Prófastar – Kjalarnesprófastsdæmi – AA/008: Prófastsvísitasía 17. september 1969, bls. 182, 172 (skráin). Einnig koparstjaka á altari sjá: Þorsteinn Gunnarsson (2008). Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritsj.) Friðaðar kirkjur í Kjalarnessprófastsdæmi II, 12, Kirkjur Íslands, R. 2008, bls. 64-65.

[63] Þorsteinn Gunnarsson (2008). Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritsj.) Friðaðar kirkjur í Kjalarnessprófastsdæmi II, 12, Kirkjur Íslands, R. 2008, bls. 67-68. Í vísitasíugjörð Ásmundar Guðmundssonar biskups 27. febrúar 1955, bls. 31, er svo tekið til orða: „Forseti Íslands, hr. Ásg. Ásgeirsson skýrði frá því, að ríkisstjórn Íslands hefði í tilefni af 60 ára afmæli hans heitið að gefa kirkjunni 2 steinda glugga. Hefir forseti í hyggju að vinna að því, að allir gluggar kirkjunnar verði slíkir, með myndum úr heilagri ritningu og kristnisögu þjóðarinnar.“

[64] Birgir Thorlacius, Í þjónustu forseta og ráðherra, R. 1994, bls. 167.

[65] Guðni Th. Jóhannesson, Fyrstu forsetarnir – Embætti þjóðhöfðingja Íslands á 20. öld, R. 2016, bls. 117-118. Hér  má og nefna frásögn Ólafs Thors af samtali hans og Ásgeirs Ásgeirssonar 11. febrúar 1954 og það sem hann segir þar um Ásgeir og  hirðsiði í kringum hann – í gamamsömum tóni en þó ögn háðulegum, sjá: Matthías Johannessen, Ólafur  Thors, ævi og störf, R. 1981, bls. 246-250. Þess má geta  að Ólafi var sennilega ekki vel við svokallaða hirðsiði – Pétur Eggerz segir frá því er hann var forsetaritari hafi hann farið með borðröðunarlista fyrir Svein Björnsson, forseta, til Ólafs, sem þá var utanríkisráðherra, og sá síðarnefndi sagt er hann leit yfir listann: „Hvaða helvítis asnaplagg er þetta?“ Sagði síðan að sér væri nákvæmlega sama hvar fólk sæti, nema hvað borgarstjórinn í Reykjavík ætti að fá „virðingarsess“ við borðið. Pétur Eggerz, Létta leiðin ljúfa, R. 1972, bls. 184. – Úrslit forsetakosninganna 1952 höfðu ekki verið Ólafi að skapi en hann hafði fengið tillögu samþykkta á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins að flokkurinn styddi sr. Bjarna Jónsson. „Ólafur Thors tók sér úrslitin afar nærri.“ Sjá: Ásgeir Pétursson, Haustlitir, minningaþættir, R. 2006, bls. 275, -277.

[66] Alþingistíðindi 1962 – áttugasta og þriðja löggjafarþing, B: umræður um samþykkt lagafrumvörp með aðalefnisyfirliti, R. 1967, bls. 1503.

[67] Alþingistíðindi 1962, áttugasta og þriðja löggjafarþing, A Þingskjöl með málaskrá, R. bls. 916. – Lögin sem féllu úr gildi með lagasetningunni 1963 voru meðal annars lög um kirkjugarða nr. 41 frá 1931 en þar sagði í 12. gr. 2. mgr.: „Þar, sem líkbrennsla fer fram, en menn vilja þó geyma duftker með bálfararleifum í kirkjugarði, getur sóknarnefnd ákveðið, að kerin skulu grafin í sérstökum röðum, eða geymd í grafkapellum, er bæjarstjórn eða bálfararfélög reisa innan kirkjugarðs í því skyni. Hefir þá sóknarnefnd allar hinar sömu skyldur til eftirlits með viðhaldi grafkapellu og varðveizlu bálfararleifa sem með einstökum leiðum í kirkjugarði.“(Stjórnartíðindi fyrir Ísland árið 1932, A-deild, R. 1932, bls. 151).

[68] Þorsteinn Gunnarsson (2008). Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritsj.) Friðaðar kirkjur í Kjalarnessprófastsdæmi II, 12, Kirkjur Íslands, R. 2008, bls. 45.

[69] Sótt 27. janúar 2021: https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=743723,

[70] Sótt 27. janúar 2021: https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=753213 og https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=753208,

[71] Þorsteinn Gunnarsson í samvinnu  við ARGOS ehf.: Innri gerð Bessastaðakirkju – Rannsóknarverkefni – Hugmyndir um endurbætur, R. 2017. – Sótt 9. febrúar 2021: https://www.minjastofnun.is/media/skjol-i-grein/001-ARG-Bessastadakirkja-PP12.pdf

https://www.youtube.com/watch?v=dpX3dTqBLHE&feature=youtu.be

Í þessu sambandi verður að huga að táknfræði austurs og vesturs í kirkjum: kórgafl (austur) og inngöngugafl (vestur). Austur er tákn lífs og upprisu (kórveggur) en vestur (kirkjudyr) er tákn dauðans og næturinnar, „deyðandi og niðurbrjótandi afla tilverunnar“ – vesturgaflinn táknar oft að kirkjan sé „vígi mannsins og vörn gegn niðurbrjótandi öflum“: Gunnar Kristjánsson, Gengið í guðshús, R. 1988, bls. 20-21.

[72] Ariés, Philippe (ensk þýðing: Helen Weaver), The Hour of our Death, London 1981, bls. 36-37.

[73] Biskupasögur II, Hungurvaka, R. 2002, bls. 9.

[74] Sigurjón Páll Ísaksson, „Um legsteina Hóladómkirkju,“ Skagfirðingabók, 1. tbl., 1992, bls. 62-63. Hér má og skjóta inn tilvitnun í grein dr. Hjalta Hugasonar: „Átökin um útförina. Skiptar skoðanir um heimagrafreiti á Íslandi á nítjándu og tuttugustu öld.“: „Upptaka einkagrafreita í Noregi helst líklega í hendur við áhuga fólks úr efri lögum samfélagsins að halda sérstöðu sinni er hætt var að grafa einstaklinga úr þeim þjóðfélagshópi inni í kirkjunum.“ Saga – Tímarit Sögufélags, LVIII:2, 2020, R. 2020, bls.

[75] Staðir og kirkjur I: Skálholt Fornleifarannsóknir 1954-1958, R. 1988: Kristján Eldjárn: Legstaðir bls. 123.

[76] Kristján Eldjárn og Gunnar Bollason (2005). Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritsj.) Friðaðar kirkjur í Skagafjarðarprófastsdæmi, 6,  Kirkjur Íslands, R. 2005, bls. 206-217.

[77] Þorsteinn Gunnarsson (2008). Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritsj.) Friðaðar kirkjur í Kjalarnessprófastsdæmi II, 12, Kirkjur Íslands, R. 2008, bls. 79-84.

[78] Þorsteinn Gunnarsson (2008). Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritsj.) Friðaðar kirkjur í Kjalarnessprófastsdæmi II, 12, Kirkjur Íslands, R. 2008, bls. 82. Hér skal þó haldið til haga frásögn af Tómasi Hammond Meldal amtmanni í Suðuramti 1790-1791, sem andaðist á Bessastöðum í nóvember 1791. Hann var grafinn í Bessastaðakirkju í desember sama ár. Sjá: Vilhjálmur Þ. Gíslason, Bessastaðir – þættir úr sögu höfuðbóls, R. 1947, bls. 91. Einnig Magnús Ketilsson, Stiftamtmenn og amtmenn á Íslandi 1750-1800, R. 1948, bls. 94-96. Hann hafði „látið taka af sér ístruna um haustið og varð ekki jafngóður síðan“ – segir í Annálar 1400-1800, VI. bindi, R. bls. 317.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Kórveggur Bessastaðakirkju er einstakur legstaður. Þar hvíla fyrrum forsetahjón íslenska lýðveldisins. Hugmyndir um virðingarstöðu forsetaembættisins og mótun þess hafa sennilega ráðið því að kórveggurinn fékk þetta sérstaka hlutverk – og einstaka hér á landi. Kannski höfðu líka einhverjar persónulegar tilfinningar eða háleitar hugmyndir áhrif á að kórveggurinn varð fyrir valinu sem hinsti hvílustaður. Öldum saman hefur jarðneskum leifum dýrlinga, biskupa og veraldlegra höfðinga verið komið fyrir í kirkjum og með því dregin markalína milli höfðingja og almúga. Legstaður hinna ágætu forsetahjóna er á fárra vitorði án þess þó að vera sérstakt leyndarmál. Kórmúr Bessastaðakirkju var rofinn – en hvaða saga leynist þar á bak við?

Þegar komið er inn í Bessastaðakirkju blasa við þrír minningarskildir á kórvegg kirkjunnar. Sá fyrsti, sem er vinstra megin, nyrst, er með nöfnum Kristjáns Eldjárns og Halldóru Eldjárns. Svo kemur skjöldur til minningar um Svein Björnsson og Georgíu Björnsson. Loks er minningarskjöldur um Ásgeir Ásgeirsson og Dóru Þórhallsdóttur hægra megin við altaristöflu að sunnanverðu.

Allir eru þessir minningarskildir um þrenn fyrstu forsetahjón íslenska lýðveldisins áþekkir ef ekki eins – einfaldir og smekklegir. Segja sína sögu. Einn þeirra geymir þó meiri sögu en hinir.

Það var árið 1985 sem prófasturinn í Kjalarnessprófastsdæmi, séra Bragi Friðriksson, vísiteraði Bessastaðakirkju. Samkvæmt vísitasíugjörðinni fór þar fram dálítið athyglisverð umræða um minningarskildina, sem svo er bókuð:

„Prófastur vakti athygli á því, að hann hefði áhyggjur af staðsetningu slíkra minnismerkja í kirkjunni og svo væri um ýmsa fleiri, sem hann hefði talað við. Sú kæmi tíð, að til vandræða gæti horft um þetta mál. Töflur þessar eru nú þrjár. „Þetta er viðkvæmt mál,“ sagði prófastur „og ber að fjalla um það af stakri varúð en fullkominni hreinskilni.“ Forseti Íslands tók í sama streng og taldi hér einnig horfa til vandkvæða, er litið væri til framtíðar. Forsetaritari bar fram þá tillögu, að gerður yrði sérstakur minningarskjöldur með nöfnum forsetanna og maka þeirra og honum komið fyrir í framkirkju eða anddyri. Tillaga þessi fékk eindreginn hljómgrunn meðal fundarmanna. Lét prófastur í ljós þá von, að stjórnvöld tækju þetta mál til athugunar.“ [1]

Forseti Íslands var þá Vigdís Finnbogadóttir og forsetaritari Halldór Reynisson, er síðar gerðist prestur. Ekki er að sjá að hugmynd forsetaritarans hafi verið hrundið í framkvæmd.


Minningarskildirnir þrír á kórvegg Bessastaðakirkju

Auðvelt er að geta sér til um hvers eðlis þessar áhyggjur voru. Eftir því sem ár og aldir liðu myndi þessum minningarskjöldum fjölga á kórvegg kirkjunnar og þá myndi líklega horfa til vandkvæða. Sú stund kæmi að rými þryti á kórveggnum. Málið var hugsanlega viðkvæmt að því leyti að ef færa ætti minningarskildina eitthvað til af þessum heiðursstað í kirkjunni þá myndi hugsanlega aðeins einn þeirra verða eftir.

Enginn viðstaddra nefnir upphátt það sem var kannski meginástæða þess að þessir minningarskildir voru komnir á kórvegginn. En á bak við það var dálítil saga sem var á fárra vitorði.

Ætla mætti við fyrstu sýn að á bak við alla minningarskildina sé aðeins flatur og kaldur kórveggurinn.

Svo er þó ekki.

Kórveggurinn hefur verið rofinn að baki eins þeirra og þar sett inn duftker.

Hver hvíla þar í veggnum?

 

Í Bessastaðakirkju – veggir kirkjunnar eru þykkir

Legstaðaskrá

Til er nokkuð sem heitir legstaðaskrá. [2] Það er sú skrá sem flest okkar dettum inn á þegar að því kemur. Verður ekki umflúið.

Í legstaðaskrá má sjá hvar fólk fær sína hinstu hvílu. Kirkjugarður er nefndur og númer leiðis hvort sem nú um var að ræða jarðarför eða bálför. Iðulega er flett upp í þessari skrá á gardur.is ef fólk er búið að týna niður leiði eða vill sjá hvar einhver er jarðaður. Einfalt er að leita í hinni rafrænu  legstaðaskrá og hún er öll til hægðarauka fyrir fólk. Allir kirkjugarðar landsins eru þar taldir upp. Enda er fólk alla jafna jarðað í kirkjugörðum. Sömuleiðis er öll öskudreifing skráð og duftker sem á eftir að jarðsetja og geymd eru í bálstofunni. En hvað um þau sem eru geymd á öðrum stöðum?

Kirkjublaðið.is rakst á það fyrir tilviljun að nafn kunnra hjóna var ekki að finna í legstaðaskránni. Og það voru meira en kunn hjón, þjóðfræg hjón og mikils metin, ástsæll forseti og forsetafrú: Ásgeir Ásgeirsson (1894-1972) og Dóra Þórhallsdóttir (1893-1964).

Hvernig stendur á þessu?

Í legstaðaskrá er að finna fyrsta forsetann og konu hans, þau Svein Björnsson og Georgíu Björnsson. Þau eru jarðsett í Bessastaðakirkjugarði. Sömuleiðis Kristján Eldjárn og Halldóru Eldjárn en þau eru jarðsett í Fossvogskirkjugarði. Eins forsetafrúin Guðrún Katrín Þorbergsdóttir, fyrri eiginkona fimmta forsetans, Ólafs Ragnars Grímssonar, sem lést á besta aldri og hvílir í Bessastaðakirkjugarði.

Hjá kirkjugörðunum var notast við svokallaða Dagbók bálstofu þar sem skráðar voru upplýsingar í sambandi við líkbrennslu. Þar er skráð að jarðneskar leifar forsetahjónanna Ásgeirs og Dóru séu í Bessastaðakirkju. [3]

Þessi gjóta sem Kirkjublaðið.is hnaut um reyndist geyma all víðan helli undir sér sem vekur upp ýmsar vangaveltur um líkbrennslu, grafir og landsins lög. Hvað leyfa lögin og hvað ekki. Og hvort eitthvað hafi hugsanlega verið gert á hæpnum forsendum, í óleyfi eða lög sniðgengin? Þá vaknar líka sú spurning hver sé ástæðan fyrir því að þessi staður hafi fengið þetta sérstaka hlutverk.


Þessi mynd er af gardur.is. Sótt 27. maí 2021 Talan nr. 85 á kórgafli segir til um þau sem grafin eru innan kirkju án þess að tiltaka hvar. Þarna stendur til að koma inn nöfnun forsetahjónanna eftir því sem Kirkjublaðið.is hefur fregnað.

Upplýsingar á tveimur stöðum

Svo er að sjá sem það hafi ekki farið hátt, án þess að það hafi verið leyndarmál í sjálfu sér, að duftker hinna sómakæru forsetahjóna væru í kórvegg Bessastaðakirkju.

Upplýsingar um duftker þeirra hjóna hafa að minnsta kosti komið opinberlega fram á tveimur stöðum á þessari öld, á netinu og í bók. Á báðum stöðum er sagt skorinort frá því hvað sé á bak við skjöld Ásgeirs og Dóru. Ekki er hægt að átta sig í fljótu bragði á því hve gamlar upplýsingarnar eru í veftilvitnuninni en þær eru að minnsta kosti ekki eldri en frá árinu 1998 [4]:

„Minningarskildir um látna forseta og eiginkonur þeirra eru á veggnum beggja vegna altaristöflunnar. Bak við skjöld Ásgeirs og Dóru eru duftker þeirra. Uppi á hægra kórgafli hangir dánargríma Gríms Thomsens.“ [5]

Barnabarn Ásgeirs forseta skrifaði bók um afa sinn sem kom út fyrir rúmu ári. Þar segir í neðanmálsgrein sem er orðrétt samhljóða veftilvitnuninni nema hvað ekki er getið um dánargrímu skáldsins enda er hún ekki lengur á kórveggnum:

„Minningarskildir um látna forseta og eiginkonur þeirra eru á veggnum beggja vegna altaristöflunnar. Bak við skjöld Ásgeirs og Dóru eru duftker þeirra.“ [6]

Síðan fer bálför fram…

Ævisaga Ásgeirs Ásgeirssonar, forseta, kom út 1992. Þar er sagt frá útför eiginkonu hans, Dóru Þórhallsdóttur, með þessum hætti:

„Síðan fer bálför fram í Fossvogskapellu, en jarðneskar leifar forsetafrúarinnar eru geymdar í Bessastaðakirkju.“ [7]

Alþýðublaðið, Morgunblaðið og Vísir greindu frá því að „jarðneskar leifar“ forsetafrúarinnar yrðu varðveittar í Bessastaðakirkju. [8] Ekki er getið nánar um hvað í því felist né heldur hvar í kirkjunni hinar jarðnesku leyfar kunni að vera geymdar.

Morgunblaðið sagði frá útför Ásgeirs Ásgeirssonar 1972 og gat um það að jarðneskar leifar hans yrðu geymdar að Bessastöðum [9]:

Ævisöguritari Ásgeirs bætir engu við þetta og segir einfaldlega: „…og askan sett í grafreit forseta.“ [10]

Útförin var hátíðleg en látlaus. [11]

Þetta orðalag er óskýrara heldur en þar sem segir um duftker forsetafrúarinnar: Það er þó sagt geymt í Bessastaðakirkju.

Spurði enginn hvar þessi grafreitur forsetans væri? Hver var þessi sérstaki reitur og hvar var hann?

Reiturinn var kórveggurinn

Ekkert er getið um að sérstök athöfn hafi verið höfð um hönd við setningu duftkerjanna í kórvegg og sá er þetta ritar hefur ekki fundið upplýsingar um hvenær það var gert.

Það er í september 1969 sem prófasturinn í Kjalarnessprófastsdæmi, sr. Garðar Þorsteinsson, er staddur á Bessastöðum til að vísitera kirkjuna og söfnuðinn. Í vísitasíubókinni segir svo:

„Minningartafla Dóru Þórhallsdóttur framan við duftker hennar  í kórgafli.“ [12]

Fimm ár voru liðin frá andláti forsetafrúarinnar og er þetta sennilega í fyrsta sinn sem sagt er fullum fetum í embættisbók hvað sé á bak við skjöldinn. Viðstaddir þessa vísitasíu auk prófastsins voru m.a. Ásgeir Ásgeirsson, fyrrverandi forseti, og dr. Kristján Eldjárn, þáverandi forseti. [13] Vísitasíubækur eru þess eðlis að þær koma ekki fyrir augu margra en eru þó aðgengilegar fyrir öll þau sem hafa áhuga á þeim. Í fylling tímans fara þær eins og lög gera ráð fyrir í Þjóðskjalasafn Íslands.

Minningarskjaldarins um frú Dóru er getið í biskupsvísitasíu að Bessastöðum í mars  1971 en ekki er getið hvað sé á bak við hann. Viðstaddur þessa vísitasíu var meðal annars Ásgeir sjálfur sem og þáverandi forseti, dr. Kristján Eldjárn. [14]

Dr. Kristján Eldjárn var forseti Íslands þegar Ásgeir lést. Hann er fáorður um andlát forvera síns í dagbókum sínum. Á útfarardegi hans, 22. september 1972, skrifar forsetinn í dagbók sína að hann hafi engu við að bæta það sem sagt er um forvera sinn í fjölmiðlum – útförin hafi verið gerð „vel og virðuglega.“ En tveimur dögum eftir útförina, 24. september, segir hann að það sé minningarathöfn í Bessastaðakirkju um Ásgeir. Ekkert meira. [15] Ljóst er að duftker hans var ekki sett inn í kórvegginn í þessari minningarstund vegna þess að það var afhent fjórum dögum eftir útför hans og jarðsetningarstaður skráður hjá kirkjugörðunum: „Bessastaðakirkja“. [16]

Það er í rauninni sérstakt að dr. Kristján skuli ekki geta þess þegar duftkerið var lagt í kórvegg Bessastaðakirkju, í ljósi sögunnar; og kannski líka þar sem segja má að þessi viðburður tengist í eðli sínu með vissum hætti efni  doktorsritgerðar hans, Kuml og haugfé.

Samræmdist það landslögum að koma duftkerjunum fyrir í kórvegg Bessastaðkirkju?

Forsetahjónin létust sem fyrr segir á árunum 1964 og 1972. Huga verður að því hvaða lög um líkbrennslu og kirkjugarða voru í gildi á þessum tíma.

Ný lög um kirkjugarða voru sett árið 1963, nr. 21. frá 23. apríl. Þau voru í gildi í þrjá áratugi. Í 17. gr. þeirra er fjallað um líkbrennslu. Þar er talað um að hægt sé að útbúa ákveðinn reit í kirkjugarði fyrir duftker, og heimilt sé að reisa kapellu í kirkjugarði til þess að varðveita duftker. Lokaorð greinarinnar eru:

„Óheimilt er að varðveita duftker annars staðar en í kirkjugarði.“ [17]

Í 10. grein laganna segir:

„Gröf má eigi taka innan kirkju eða nær grunni hennar en 1 ½ metra.“ [18]

Lögin eru afdráttarlaus og 36. gr. þeirra kveður á um að úr gildi séu numin „öll ákvæði eldri laga, er koma í bága  við lög þessi.“ Undir lögin ritar forsetinn Ásgeir Ásgeirsson og dómsmálaráðherrann Bjarni Benediktsson. [19]

Samkvæmt því sem hér að framan segir þá virðist sá gjörningur að leggja duftker þeirra hjóna í kórvegg Bessastaðakirkju ekki hafa verið í samræmi við lög. [20]

Nú kann einhverjum að hafa þótt það í sjálfu sér ekki langsótt túlkun á heimildaákvæði laganna sem kveður á um að það mætti „reisa kapellu í kirkjugarði til varðveizlu duftkerja“ [21] að Bessastaðakirkja með kirkjugarð umhverfis sig fullnægði þessu skilyrði laganna nema hvað hún var þegar risin. Og þar sem um væri að ræða þjóðhöfðingja hafi kórveggurinn því þótt bæði lögmætur og viðeigandi legstaður. Segja má að alllangt væri til seilst með þessari túlkun á heimildaákvæði laganna. Auk þess verður að benda á að munur er á kirkju og kapellu. Bessastaðakirkja er sóknarkirkja [22] ekki kapella. [23]

Hverjir fá leg í kirkju?

Kirkja er vígt hús. Hún er vígður reitur og frátekinn til ákveðinnar þjónustu. Margir hafa komið í miklar dómkirkjur í útlöndum og séð legsteina í kirkjugólfum. Eins í höfuðkirkjum hér á landi.

Hvorki á 19. né 20. öld var fólk jarðsett í kirkju hérlendis. Ekki aska né andaður líkami. [24] Forn siður að leggja höfðingja og fyrirmenni í kirkju hafði látið undan síga. [25] Sjálfstæðishetjan, Jón Sigurðsson var jarðsettur í Hólavallakirkjugarði. Hefði sá siður verið enn við lýði að jarða fólk innan kirkju hefði Jón forseti líklega hlotið slíkan hvílustað. Fólki hefur ekki lengur staðið til boða að láta jarðneskar leifar sínar hvíla í kirkju og kannski ekki einu sinni hvarflað að því. Stjórnir kirkjugarða hafa tæpast litið á það sem kost að jarðsetja fólk þar.

Það segir vissulega nokkuð um hvað augum menn líta á tiltekið embætti ef þau sem því gegna eigi að fá legstað sem stendur öðrum ekki að jafnaði til boða.

Mótun embættis þjóðhöfðingja hins unga lýðveldis var vissulega vandaverk sem fyrstu tveir forsetarnir höfðu í höndum sínum. Embættið var eitt af megintáknum sjálfstæðisins og mikilvægt að koma þeim skilaboðum til þjóðarinnar. Þess vegna varð að sýna því fullan sóma og virðingu. Hagur þess og framtíð var í húfi en ekki þess er því gegndi hverju sinni. Það er vissulega skiljanlegt að litið hafi verið til þeirra siða og venja sem höfðu orðið til í kringum þjóðhöfðingja grannríkja, hvort sem þeir voru nú konungar eða forsetar. [26]

Þessi legstaður er einstakur hér á landi. Aðeins hin ágætu forsetahjón hvíla í kórveggnum sjálfum enda þótt menn hafi verið jarðsettir í kirkjum fyrr á öldum – og meðal annars í Bessastaðakirkju.

Skjaldarmerki Íslands í Bessastaðakirkju

Mótun hefðar

Fyrstu forsetunum var svo sem áður gat vandi á höndum við að móta embættið með þeim hætti að fram kæmi að forsetinn væri þjóðhöfðingi en lýðræðislega kjörinn. Sveini Björnssyni, hinum fyrsta forseta, var allmikið umhugað um virðingu embættisins – svo sem eðlilegt verður að telja og honum skylt. [27]

Það sómdi forseta vel að búa í hinum gamla konungsgarði, Bessastöðum. En Sveinn gat líka hugsað sér í framtíðinni „virðulega forsetahöll í höfuðstaðnum“ fyrir væntanlega forseta og orðaði það í bréfi til forsætisráðherra 3. janúar 1944. Þau orð endurspegla virðingu fyrir embættinu og hugmynd um mótun þess. [28]

Dæmi um vitund fyrsta forsetans fyrir virðingu embættisins má lesa úr frásögn forsetaritara hans sem segir að forsetinn hafi talið það varla sæma embættinu að hann „væri á vegi manna hversdagslega ef návist hans ætti að teljast nýlunda, því að óneitanlega gerir fjarlægðin fjöllin blá.“ [29] Hann var einnig meðvitaður um að forsetaembættið mætti ekki verða of „hversdagslegt“. Sveinn kom ekki oft opinberlega fram og sást sjaldan á götum Reykjavíkur. Þetta var þáttur í mótun embættisins og ekki auðvelt verk að mati forsetaritarans því að varast þurfti „í þessu litla þjóðfélagi“ að færa embættið í „konungsstíl“ en samt þurfti að hafa á því „virðulegan og geðfelldan svip“. Þetta var vandratað einstigi. Sumir vildu hafa konungsbrag á embættinu en aðrir ekki.[30] Annar forsetaritari sagði Svein hafa borið „mikla virðingu fyrir forsetaembættinu“, og ritarinn segist aldrei hafa snúið baki í hann þegar hann fór út frá honum. [31] Slíkt háttalag hafa menn tamið sér gagnvart konungum en hvort  það var ósk forsetans eða ákvörðun ritarans kemur ekki fram. Mótun embættisins tók einnig til húsbúnaðar [32] og matarmenningar á Bessastöðum sem var á þessum tíma einkum á könnu eiginkvenna forsetanna. [33]

Annað dæmi um hugsun Sveins um virðingu embættisins kemur fram í uppkasti að bréfi til kirkjumálaráðuneytisins vegna umbóta á Bessastaðakirkju en hann og húsameistari ríkisins, Guðjón Samúelsson, voru ekki samstíga í því máli svo ekki sé fastar að orði kveðið. Þetta bréf var aldrei sent. Forsetinn segir í uppkastinu:

„Þetta sífellda nöldur og óánægja með það, sem ég er ekki talinn hafa nóga þekkingu á, hefir þreytt mig svo að ég hefi í seinni tíð helst viljað vera laus við þetta óeðlilega eftirlit mitt með ábyrgum eftirlitsmanni ríkisins, sem auk þess getur skert virðingu stöðu minnar, þegar lítið tillit er tekið til athugasemda minna.“ [34]

Sveinn hefur skynjað að einhverjir töldu hann vera að nöldra þegar hann lét í ljós skoðanir sínar á umbótunum. Og hann hefur fundið til þess að ekki var hlustað á forsetann og þar með ekki borin virðing fyrir stöðu hans – embættinu sem hann var að móta. Honum bar auðvitað ekki sem forseta að hafa eftirlit með ábyrgum eftirlitsmanni ríkisins, þ.e. húsameistara. Hann dregur sig því í hlé. [35] En vissulega verður Sveini virt það til lofs að hafa látið sig miklu skipta helgistað forsetasetursins.

Síðustu fimm árin í embætti var Sveinn oft veikur og fór meðal annars til Danmerkur í heilsubótarskyni og gekkst undir uppskurð í Bretlandi 1951. [36] Hann var lengi búinn að eiga við veikindi að stríða svo: „að fáum kom andlát hans mjög á óvart….“ [37] Vel má vera að komið hafi til umræðu um hvar grafa skyldi forseta þá stund hans rynni upp. Skyldi þá farið að siðum er konungar voru grafnir? Virðulegur legstaður sem ekki stæði almúganum til boða gæti kannski stutt við og aukið enn frekar virðingu embættisins. [38]

Fyrsti forsetinn jarðsettur

Svo sagði í lok fréttar Morgunblaðsins 5. febrúar um útför Sveins Björnssonar 2. febrúar 1952. [39] Ekki kom neitt fram hvar á Bessastöðum askan yrði geymd. Á forsíðu Alþýðublaðsins mátti hins vegar lesa þennan sama dag:

„Bálför forsetans fór fram samdægurs en aska hans fær legstað að Bessastöðum“.

Í frétt Alþýðublaðsins sagði ennfremur að jarðneskar leifar forsetans yrðu jarðsettar. [40] Þjóðviljinn sagði með dramatískum hætti frá lokum athafnarinnar í Fossvogskirkju [41]:

Segja má að orðalag fréttanna sé ögn misvísandi. Talað er um að geyma öskuna, henni verði valinn staður, og jarðsett. Bessastaður er staðurinn. En hvar?

Ekkert virðist hafa verið ákveðið um það.

Sveinn Björnsson hafði látið ósk sína skriflega í ljós um að hann yrði brenndur enda var hann einn af stofnendum Bálfararfélags Íslands. [42] Hann hafði sjálfur mælt fyrir frumvarpi til laga um líkbrennslu á sínum tíma og sagði meðal annars í stuttri framsöguræðu sinni um málið:

„En hjer vantar lög um þetta, sem ákvæðu, undir hvaða skilyrðum líkbrensla geti fari fram.“ [43]

Hann sem lögfræðingur og flutningsmaður þessa lagafrumvarps vissi mæta vel hvaða lög voru í gildi um meðferð duftkerja. [44]

Skylt að benda á „þenna stað“

Í ævisögu Sveins segir frá því að flestir hafi búist við því að jarðneskar leifar hans fengju hvílustað í Bessastaðakirkju – ekki kemur fram hverjir þessir flestir hafa verið. Svo varð þó ekki. Skýringin er sú að sögn ævisöguritarans að forsetafrúin, Georgía Björnsson, hafi lagst gegn því. Ástæðan var sú að eiginmaður hennar hefði verið „sáróánægður með gagngera viðgerð, sem fram fór á kirkjunni í hans tíð, en ekki var samkvæmt hans vilja.“ Sveinn var því jarðsettur norðan megin að Bessastaðakirkju, skammt frá Grími Thomsen, skáldi og alþingismanni, sem búið hafði á Bessastöðum. En orðin má skilja svo að hefðu ekki þessar breytingar farið fram á kirkjunni þá hefði forsetinn fengið legstað í henni. [45]

Það var fimm manna nefnd sem leggja skyldi til hvar fyrsti forsetinn fengi leg. Nefndina skipaði forsætisráðherrann Steingrímur Steinþórsson, og í henni sátu Birgir Thorlacius, forsetaritari, dr. Kristján Eldjárn, þjóðminjavörður, Hörður Bjarnason, húsameistari ríkisins, og Gunnlaugur Halldórsson, arkitekt. [46]

Dr. Kristján Eldjárn segir frá því í dagbókarfærslu  9. febrúar 1952 að hann þá þjóðminjavörður hafi verið kvaddur til að athuga hvar „grafreitur (Sveins, innsk.) væri hugsanlegur í Bessastaðalandi. Fjölskylda hans vill ekki að öskuker hans sé haft í kirkjunni…“ Viðstaddir þessa athugun voru allir synir forsetans og Birgir Thorlacius. Þetta var viku eftir útför Sveins Björnssonar. Segir hann að fjölskyldan hafi haft augastað á Skansinum eða í brekkunum sunnan við kirkjuna. [47]

Nefndin skilaði af sér greinargerð 19. maí 1952 og þá voru rúmlega þrír mánuðir liðnir frá andláti Sveins. Þar kemur fram að forsetafrúin ráði því hvar eiginmaður hennar muni hvíla.

Nefndin segir að með því að grafa jarðneskar leifar forsetans í kirkjunni væri það „hið mesta virðingarmerki, sem unnt væri að sýna jarðneskum leifum fyrsta forseta  lýðveldisins.“ Það var forn venja að grafa höfðingja landsins innan kirkju. Forsetinn hafi unnað kirkju og kristni en hann hafi verið ósáttur við þær breytingar sem gerðar voru á kirkjunni. Ástvinir forsetans verða að dæma um það hvort breytingarnar girði fyrir það að jarðneskar leifar hans verði lagðar í kirkjuna. Síðan segja þeir:

„En okkur virðist skylt að benda hér á þenna stað, sem um margt væri eðlilegur legstaður forsetans, ef hin sérstaka ástæða, sem nú var nefnd, hindrar það eigi.“ [48]

Forsetaritari greindi frá því að nefndin hafi verið í vanda með málið og farin að „nálgast algjöra uppgjöf“ þegar eiginkona eins nefndarmannsins stakk því að manni sínum hvort ekki ætti að láta forsetann hvíla í námunda við Grím Thomsen. Farið var að hinu viturlega ráði konunnar og duftkeri hans komið þar niður. Og að sjálfsögðu voru þetta allt karlar í nefndinni á þessum tíma – hvað annað? – og konan leysti svo vandann! Grímur skáld hafði enda verið í miklu uppáhaldi hjá forsetanum. [49] Þetta var auk þess vel til fundið út frá ýmsum sjónarhornum. Grímur fæddist á Bessastöðum og andaðist þar. Hann var fyrsti íslenski diplómatinn, [50] – en Sveinn hafði starfað lengi í utanríkisþjónustunni – og verið fyrsti sendiherra Íslands. [51]

Duftker Sveins Björnssonar var sett niður við norðurvegg Bessastaðakirkju hinn 14. júlí 1952 um hálfu ári eftir að hann lést. (51b)

Þegar fyrsti forsetinn lést voru í gildi lög sem bönnuðu að taka gröf inann kirkju. [52] Lög um líkbrennslu frá 1915 voru einnig í gildi og þau kváðu á um að duftker ætti að grafa í kirkjugarði eða á öðrum stöðum „sem sérstaklega eru útbúnir til þess eftir fyrirmælum stjórnarráðsins“ .[53]

Nefndin ræddi  þann kost að varðveita jarðneskar leifar fyrsta forsetans í kirkjunni í virðingarskyni.

Það kann að vera að nefndin hafi talið nægjanlega lagastoð í ákvæði líkbrennslulaganna frá 1915 sem heimilaði stjórnarráðinu að mæla fyrir um „aðra staði“ í þessu sambandi. [54]

Segja má að nokkuð sterk alþjóðleg hefð um legstað fyrirmenna og þjóðhöfðingja í kirkjum styðji einnig þessa afstöðu nefndarinnar til úrlausnarefnis sem var víðs fjarri við setningu áðurnefndra laga 1915 og 1932. [55]

Sú viðgerð sem nefnd er fór fram á árunum 1946-1948 undir stjórn húsameistara ríkisins, Guðjóns Samúelssonar. Kirkjunni var gerbreytt og breytingarnar voru mjög umdeildar. [56] Meðal annars var Kristján Eldjárn, þá þjóðminjavörður – og síðar forseti, mjög ósáttur við þær og komst svo að orði [57]:

Minningarmark um Svein Björnsson í Bessastaðakirkjugarði

„eðlilegur legstaður forsetans….“

Líklegt má telja að Ásgeiri Ásgeirssyni hafi verið kunnugt um skýrslu nefndarinnar sem fékk það hlutverk að finna fyrsta forsetanum legstað. Kannski hafa ómað í huga hans orð úr greinargerð nefndarinnar að kirkjan væri um margt „eðlilegur legstaður forsetans….“

Hann unni kirkju og kristni eins og hinn fyrsti forseti. Því var ekki hægt að neita og var sjálfur að auki guðfræðingur – hafði starfað sem biskupskrifari [58] og samið bókina Kver og kirkja. [59]  Prestsskapur stóð honum ekki fjarri huga að loknu guðfræðiprófi enda þótt hann yrði ekki hlutskipti hans. [60]

Kirkjufáni (helgigöngumerki) í Bessastaðakirkju, sem Ásgeir gerði frumdrætti að, saumaður í Englandi

Ásgeir lét sér ætíð mjög annt um kirkjuna á Bessastöðum [61] og gaf henni góða gripi. [62] Steindir gluggar voru til dæmis settir í kirkjuna að hans forgöngu á sjötta áratug síðustu aldar – fyrir var gluggi á austurhlið úr tíð forvera hans. [63] Hugsanlega hefur hann einfaldlega viljað hvíla innan kirkju hafi menn verið að ræða um að koma á slíkri hefð í íslenskum nútíma hvað forsetana snerti. Kannski var þessi ákvörðun hans einfaldlega hluti af mótun forsetaembættisins enda þótt fyrsti forsetinn væri jarðsettur utan kirkjunnar af þeirri ástæðu sem að framan greinir og var sérstaks eðlis.


Steindir  gluggar, legsteinn Magnúsar Gíslasonar, amtmanns, og konu hans Þórunnar Guðmundsdóttur – og skírnarfontur keyptur af Grími Thomsen 1866

Öndvert við Svein forseta virðist Ásgeir hafa verið mjög ánægður með kirkjuna innan sem utan – og mótaði hana áfram að eigin hætti. Lá því kannski ekki beinast við að jarðneskar leifar þeirra hjóna og seinni tíma forseta yrðu varðveittar í kirkjunni í ljósi þeirrar umræðu að legstaður innan kirkju hefði verið um margt „eðlilegur“ fyrir fyrsta forsetann þó ekki hlyti hann hvílustað þar vegna sérstakra ástæðna? Nefndin góða hafði gefið undir fótinn með að kirkjan væri staðurinn. Kannski má álykta svo að það hafi ekki verið arftaka Sveins þvert um geð að fara að þeirri hefð sem fyrsti forsetinn hugðist ef til vill ryðja braut með því að fá leg í kirkjunni. Báðir forsetarnir leituðust enda við að skapa um þjóðhöfðingjaembættið hefðir sem styrktu það í sessi.

Engar heimildir liggja þó fyrir um að Sveinn sjálfur hafi viljað fá leg í kirkjunni að Bessastöðum. En það mætti túlka andmæli ekkjunnar við því að duftkerið yrði lagt í kirkjuna með vísan í að eiginmaður hennar hafi verið ósáttur við breytingar á kirkjunni að það hefði annars komið til greina eða verið sjálfsagt – og þá sennilega vilji Sveins.

Sveinn var fyrsti forsetinn og gat mótað embættið með ákveðnum hætti [64] – að því var vikið hér að framan. Kannski var hluti af þeirri mótun að hafa einhverjar reglur eða fyrirmæli um hvernig staðið skyldi að málum þegar starfandi forseti eða fyrrverandi andaðist. Ætti að horfa til þess hvernig staðið væri að málum þegar konungar ættu í hlut? Þeir fengu legstað í vígðu húsi – Hróarskeldudómkirkja var öllum kunn. Skyldi horft til þess að forsetar voru lýðræðislega kjörnir og því fara öðruvísi að? Þeir voru ekki kóngar. Var sómasamleg og virðuleg útför ekki nóg? Hér varð að sigla á milli skers hins alþýðlega og báru konungsljómans.

Ákvörðun um kórvegginn sem hvílustað hefur hugsanlega verið tekin í ljósi þess sem hér að framan segir og kannski líka verið til marks um að viðkomandi vildi og teldi eðlilegt að marka embætti þjóðhöfðingjans sérstöðu umfram aðra og þá sjálfum sér í leiðinni eðli máls samkvæmt. [65]

Luktar dyr Bessastaðakirkju

Ekki ætíð farið að lagabókstafnum

Svo sem kunnugt er þá þekkjast dæmi þess að lögum sé ekki fylgt út í ystu æsar, einkum kann þó svo að virðast þegar lagafyrirmæli eru óskýr eða stangast að einhverju leyti á. Til verður einhvers konar háttur eða venja sem gengur á svig við lögin eða felur í sér umdeilanlega túlkun. Má vera að eitthvað slíkt hafi gerst í þessu efni. Orð þingkonunnar Auðar Auðuns eru í þessu samhengi athyglisverð en þau mælti hún í umræðunni um kirkjugarðafrumvarpið á Alþingi 1963:

„Eins  og nú háttar til, er mönnum frjálst að varðveita  duftker á hvern þann hátt, er þeir óska, en slíkt  þykir tæpast viðeigandi og því í gr. lagt til, að þau skuli ávallt  varðveitt í vígðum grafreit.“ [66]

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram í umfjöllun um 17. greinina að nánari fyrirmæla sé þörf en áður um meðferð duftkerja. Þar segir:

„Bannað er að varðveita duftker annars staðar en í vígðum grafreit. Áður hefur nokkuð tíðkazt, að slík ker væru varðveitt í heimahúsum eða í kirkjum, en hvorugt þykir viðeigandi né heppilegt.“ [67]

Hér er bæði talað um að mönnum hafi verið frjálst að varðveita duftkerin með ýmsum hætti og að það hafi nokkuð tíðkast að varðveita duftker í heimahúsum eða í kirkjum. Þó voru lögin frá 1915 og 1932 skýr um þetta og heimiluðu almennt ekki þessa frjálsu meðferð duftkerja. Lögin sem sett voru 1963 skutu loku fyrir slíka meðhöndlun sem hin fyrri og skylt var að jarðsetja duftker samkvæmt þeim.

Minningarskjöldur við legstað

Það er athyglisvert að í annars skilmerkilegri umfjöllun og nákvæmri í Kirkjum Íslands um Bessastaðakirkju skuli aðeins þetta standa um minningarskildina:

„Á kórvegg hafa verið settir upp minningarskildir úr steini með nöfnum látinna forseta Íslands og eiginkvenna þeirra, en vængirnir af gamalli altaristöflu, sem áður prýddu kórinn, fluttir á vesturvegg sinn hvoru megin dyra.“ [68]

Það er umhugsunarvert – og jafnvel undarlegt myndi einhver segja – að ekki skuli vikið einu orði að því að duftker forsetahjónanna, Ásgeirs og Dóru, séu á bak við minningarskjöld þeirra inni í veggnum.

Á einni mynd af kórgafli Bessastaðakirkju frá 1980 [69] og tveimur frá 1985 sést veglegur  krans [70] við vegginn undir minningarskildi þeirra Ásgeirs og Dóru. Hann hefur vísað eindregið til þess að þarna var meira en minningarskjöldur.

 

Hér sést krans við minningarskjöld Ásgeirs Ásgeirssonar og Dóru Þórhallsdóttur. Myndin er tekin eftir 1982, og fyrir 2008, þar sem nafn Kristjáns Eldjárns er komið á skjöld en hann lést 1982 og kona hans, Halldóra Eldjárn, 2008. Mynd: Þjóðminjasafn Íslands – keypt mynd.

Hvað sem öllu þessu líður þá þarf ekki að hafa lágt um að jarðneskar hinna ágætu forsetahjóna séu í kórvegg kirkjunnar. Það er merkileg söguleg staðreynd og einstök. Vitaskuld ætti að geta um það í kirkjunni, við minningarskjöld þeirra hjóna.

Og það þarf svo sannarlega að skrá þau hjón í legstaðaskrána og ætti ekki að vera mikið mál. Þar er þjóðin öll – og verður – hvað sem hver segir. Og þau vildu vera hjá þjóðinni.

Forsetastólarnir komu líklega í kirkjuna 1944 – undir steindum glugga

Má ekki gleymast hvað er í kórveggnum

Komið hefur fram tillaga um að taka aftur breytingar þær sem Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, gerði á sínum tíma á Bessastaðakirkju. Myndband var gert sem sýnir útfærslu á tillögunum mjög greinilega. Lagt er til að minningarskildirnir um forsetana og eiginkonur þeirra á kórveggum verði settir upp á vesturgafli kirkjunnar. Ekki er getið um það hvort duftker þeirra Dóru og Ásgeirs verði þá flutt úr kórveggnum eða þau látin vera þar áfram án merkingar. [71]

Það má hins vegar ekki gleymast hvað er í kórveggnum.

Það má hins vegar ekki gleymast hvað er í kórveggnum.

„…prýdd í tigins manns greptri …“

Fyrr á öldum var fólk jafnan grafið utan borgarmúra en það breyttist.

Um aldir hefur það þekktst að jarðneskum leifum fólks hafi verið komið fyrir í kirkjum, þær jarðsettar í kirkjugólfi eða við kirkjuvegg. Jafnan hafa það verið dýrlingar, biskupar og veraldlegir höfðingjar, kóngar og keisarar er átt hafa í hlut.

Til er saga af dýrlingi einum í Frakklandi sem lést árið 540. Þetta var heilagur Vedastus. Sjálfur hafði hann látið í ljós þá ósk að verða grafinn í litlu timburbænahúsi á árbakka einum utan borgarmúra. Þegar færa átti lík hans þangað varð því ekki haggað fyrir þyngdar sakir. Var þá kveðið upp úr með að þetta væri kraftaverk og hinn helgi maður skyldi þá grafinn þar sem kennilýðnum þótti við hæfi og það var hægra megin við altarið í kirkju þeirri sem hann hafði þjónað. Skipti nú engum togum að hinn látni dýrlingur varð sem fis eitt og borinn til kirkjunnar. Var hann sá fyrsti er hlaut leg in ambitus murorum (innan veggja) í kirkju. Þessi saga skaut stoðum undir að heimilt væri að hafa grafir í kirkjum og kirkjugarð í kringum kirkjuhúsin. Hin viðtekna regla hafði verið að hin látnu voru grafin utan borgarveggja. [72] Þannig má segja að hinn helgi maður hafi rofið borgarmúrinn – og kirkjumúrinn!

Höfundur Hungurvöku kemst fallega að orði um biskup einn er fyrstur var grafinn í Skálholtsdómkirkju. Hann segir:

Um daga Ísleifs byskups kom út sá byskup er Kolr hét, ok andaðist hann út hér. Hann var grafinn í Skálaholti, ok var sú kirkja hér á landi fyrst prýdd í tigins manns greptri er at réttu kallask andlig móðir allra annarra vígðra húsa á Íslandi. [73]

Leg í kirkju kostuðu sitt og það var aðeins á færi efnafólks og höfðingja að kaupa sér kirkjuleg. Það var og eftirsótt. Biskup einn gaf Hóladómkirkju róðukross og prédikunarstól fyrir leg í kirkjunni. Krossinn var metinn á 20 ríkisdali og prédikunarstóllinn 30 ríkisdali. [74]

Menn voru grafnir í kirkjum hér á landi á fyrri tíð.

Líklega var Hannes Finnsson, biskup, síðasti maðurinn sem jarðsettur var í Skálholtsdómkirkju en það var árið 1796. [75] Einnig var jarðsett í Hóladómkirkju. [76] Nokkrir sögufrægir einstaklingar fengu fyrr á öldum hinstu hvílu í kirkjugólfi Bessastaðakirkju.[77] Sá sem síðastur var grafinn í gólf Bessastaðakirkju var Magnús Gíslason, amtmaður, dáinn 1766. [78]

Minningarmarkið um Magnús Gíslason, amtmann, (d. 1766), og konu hans, Þórunni Guðmundsdóttur, en þau hjón eru grafin í Bessastaðakirkju með stuttu millibili

En það telst nýlunda að jarðneskar leifar fólks hvíli í kirkjuvegg hér á landi. Sennilega eru hin ágætu forsetahjón, Ásgeir Ásgeirsson og Dóra Þórhallsdóttir, þau fyrstu og kannski þau síðustu, sem fá legstað sem þennan í Bessastaðakirkju. Fer þá ekki illa á að hlutskiptið féll í skaut fyrsta guðfræðingnum sem gegndi forsetaembætti Íslands og biskupsdótturinni eiginkonu hans.

Að minnsta kosti þarf að geyma þessa merkilegu sögulegu staðreynd – og minnast hennar með virðingu.

Besssastaðakirkja á fögrum vetrardegi 2021

Stórglæsileg forsetahjón og ástsæl meðal þjóðarinnar. Dóra Þórhallsdóttir (1893-1964) og Ásgeir Ásgeirsson (1894-1972)

Sveinn Björnsson og Georgía Björnsson – brjóstlíkneski sem Einar Jónsson gerði og eru í safni hans, Hnitbjörgum

 

Neðanmálsgreinar

[1] Vísitasíubók Kjalarnessprófastsdæmis 1980 – bls. 89-90, 12. febrúar 1985. Undir vísitasíuna rita: sr. Bragi Friðriksson, Vigdís Finnbogadóttir, Halldór Reynisson, Vigdís Bjarnadóttir, Bjarni S. Guðmundsson og Sigríður K. Thoroddsen. – Þess má geta að á vesturgafli Skálholtsdómkirkju eru nöfn biskupa Íslands skráð sem og nöfn vígslubiskupa. Í kirkjunni á Staðastað er sömuleiðis í forkirkju tafla með nöfnum presta sem setið hafa staðinn, allt frá sr. Ara fróða Þorgilssyni (1067-1148) og til sr. Rögnvalds Finnbogasonar (1927-1995).

[2] Tölvubréf til höfundar h. 18. febrúar 2021, kl. 10.27, frá forstjóra Kirkjugarðanna, sr. Þórsteini Ragnarssyni: „…vefurinn www.gardur.is var stofnaður árið 2001 og þar inni eru allar greftranir frá og með árinu 2000. Á árunum 1999 til 2001 og áfram var kappkostað að safna saman öllum fyrirliggjandi legstaðaskrám á landinu en heimtur urðu misjafnar og jafnvel kom í ljós að sumir kirkjugarðar höfðu glatað skránum. Þetta skýrir mismunandi skráningu aftur í tímann inn á www.gardur.is.“

[3] Tölvubréf til höfundar h. 28. janúar, kl. 13.19, frá forstjóra Kirkjugarðanna, sr. Þórsteini Ragnarssyni. Því skal til haga haldið að munnmælasögn segir að barn múrarans Sabinkys sé múrað í forkirkjuvegg Hóladómkirkju, sjá: Þorsteinn Gunnarsson (2005). Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritsj.) Friðaðar kirkjur í Skagafjarðarprófastsdæmi, 6, Kirkjur Íslands, R. 2005, bls. 183. Þá er og þess að geta að í bók þeirra Þorsteins Gunnarssonar og Kristjáns Eldjárns: Um Hóladómkirkju, útg. 1993, er augljóslega ekki tekin afstaða til þess hvort dóttir múrarans hvíli í forkirkjunni norðan kirkjudyra heldur aðeins sagt í umfjölluninni: „…er múrað minningarletur yfir dóttur Sabinskys múrmeistara…“ (bls. 40 og 41). Hannes Pétursson, skáld, skrifaði grein í Árbók hins íslenzka fornleifafélags, 1980, R. 1981, bls. 21-24, undir heitinu Zabintski Dochter – Um grafletur í Hóladómkirkju, fáein orð. Þar kemur vel fram að um munnmælasögu er að ræða enda þótt höfundur telji að lík dóttur múrarans hafi verið lagt í forkirkjuveggginn. Einnig má geta í þessu sambandi um meðferð öskukerja að fram kemur í Björg – Ævisaga Bjargar C. Þorláksson, eftir Sigríði Dúnu Kristsmundsdóttur, R. 2001, bls. 330, að Björg hafi óskað eftir því að öskuker hennar fengi „að standa í aðalbyggingu Háskóla Íslands.“ Við því var ekki orðið og askan jarðsett að Lágafelli í Mosfellsbæ 1979. Fædd var hún 1874 og lést 1934. Öskuker hennar fannst 1979 innan um dót í geymslu við Fossvogskapellu. Sjá sama bls. 331.

[4] „Besti ferðafélaginn fyrir ferðalagið um Ísland,“ Morgunblaðið 2. september 2020, þar segir um vefinn NAT Travel Guide ehf.: „Fyrstu síðurnar voru skrifaðar 1998…“ Rætt er í fréttinni við Birgi Sumarliðason, einn stofnanda síðunnar.

[5] https://is.nat.is/bessastadakirkja/ – Ath. Dánargríma G.Th. er ekki lengur í kirkjunni.

[6] Tryggvi Pálsson: Ásgeir Ásgeirsson – maðurinn og meistarinn, Reykjavík 2019, bls. 77 (neðanmálsgrein nr. 181). Höfundurinn talar um bókina í formála sem ritgerð, fyrri hlutinn rekur ævi Ásgeirs í stórum dráttum og seinni hlutinn fjallar um störf hans í Frímúrarareglunni en síðustu æviár sín var hann þar s.k. stórmeistari.

[7] Gylfi Gröndal, Ásgeir Ásgeirsson, ævisaga, R. 1992, bls. 421. – Í gögnum kirkjugarðanna er getið að jarðsetningastaður hennar sé „Bessastaðir.“ Sjá: Tölvubréf til höfundar h. 4. febrúar, kl. 11.29, frá forstjóra Kirkjugarðanna, sr. Þórsteini Ragnarssyni

[8] „Virðuleg útför forsetafrúarinnar í gær,“ Alþýðublaðið 16. september 1964, bls. 4;  „Virðuleg útför forsetafrúarinnar í gær,“ Morgunblaðið 16. september 1964, bls. 13; „Almenn samúð og söknuður við útför forsetafrúarinnar,“ Vísir 16. september 1964, bls. 6. „Forsetafrúin jörðuð í dag,“ Tíminn 15. september 1964, bls. 15. „Útför Dóru Þórhallsdóttur, forsetafrúar,“ Morgunblaðið 15. september 1964, forsíða– fréttirnar byggja líklegast á opinberri tilkynningu.

[9] „Virðuleg útför Ásgeirs Ásgeirssonar var gerð í gær,“ Morgunblaðið 23. september 1972, bls. 3.

[10] Gylfi Gröndal,  Ásgeir Ásgeirsson, ævisaga, R. 1992, bls. 442.

[11] „Útför Ásgeirs Ásgeirssonar,“ Alþýðublaðið 23. september 1972, bls. 3.

[12] Þ.Í. Prófastar – Kjalarnesprófastsdæmi – AA/008: Prófastsvísitasía 17. september 1969, bls. 182. Einnig getið um minningartöflu „herra Sveins Björnssonar og frú Georgíu.“

[13] Einnig voru viðstödd: Jóhann Jónasson, Margrét Sveinsdóttir, Gunnar Stefánsson.

[14] ÞÍ: Vísitazíur biskups 1967-1971: Kjalarnessprófastsdæmi: Bessastaðakirkja, bls. 256: „Minningartöflur eru á kórgafli um forsetahjónin Svein og Georgíu Björnsson og forsetafrú Dóru Þórhallsdóttur.“ Vísitasíugerðin var birt á prenti 1983: Bessastaðakirkja – Vísitazíugjörð 1971, Landnám Ingólfs, 1, 1983, bls. 94-97.

[15] Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, handritasafn. Lbs 18 NF. Kristján Eldjárn dagbækur 1972.

[16] Tölvubréf til höfundar h. 4. febrúar, kl. 14.04, frá forstjóra Kirkjugarðanna, sr. Þórsteini Ragnarssyni – duftkerið afhent 26. september 1972.

[17] Stjórnartíðindi 1963, A-deild, R. 1963, 17. gr., 2. mg., bls. 193, og Lagasafn – íslenzk lög 1. október 1973, R. 1974, bls. 661. – Í umræðum á Alþingi um frumvarpið var vikið nokkrum sinnum að þessari grein. Framsögumaður, Auður Auðuns, sagði: „Eins og nú háttar til, er mönnum frjálst að varðveita duftker á hvern þann hátt, er þeir óska, en slíkt þykir tæpast viðeigandi og því í gr. lagt til að þau skuli ávallt varðveitt í vígðum grafreit.“ (bls. (dálkur) 1503). Orð Auðar um að mönnum sé frjálst að varðveita duftker eins og þeim sýnist vekja undrun í ljósi þess að reglur virðast hafa verið skýrar um að það væri óheimilt samkvæmt lögunum frá 1932. Einn þingmaður, Gísli Jónsson, sagði þetta um greinina: „Ég hef ekki gert sérstaka brtt. við 17. gr. En ætli það finnist nokkurs staðar í nokkru menntuðu landi, að bannað sé að geyma ösku í öskukerum annars staðar en í kirkjugarði, eins og gert er með þessum lögum? Mér er fullkomlega kunnugt um, að í flestum menningarlöndum eru það ættingjar, sem ráða því, eða sjálfur aðili, sem ræður því m.a.,hvort öskunni sé dreift um land eða sjó, upp á fjöll eða með ströndum fram – ekkert við það að athuga. Hér á að banna slíkt. Mér er einnig kunnugt um það, að fjölskyldum er heimilt að geyma þessi ker þar, sem þeim sýnist.“ (bls. (dálkur) 1524-1525. Dómsmálráðherrann, Bjarni Benediktsson, sagði: „Sjálfur verð ég að  segja, að mér fyndist það mjög óskemmtileg varðveizla á leifum látins ástvinar að hafa krukku með honum standandi í heimahúsum eða annars staðar en á þeim stað, sem sérstaklega er til þess ætlaður, og ég verð að játa, að mér finnst hinum jarðnesku leifum hvergi betri staður fundinn en einmitt í kirkjugarði.“ (bls. (dálkur) 1526) (Sjá: Alþingistíðindi 1962 – áttugasta og þriðja löggjafarþing, B: umræður um samþykkt lagafrumvörp með aðalefnisyfirliti, R. 1967, bls. 1501-1527).

[18] Stjórnartíðindi 1963, A-deild, R. 1963, 10. gr., 2. mgr., bls. 191.

[19] Stjórnartíðindi 1963, A-deild, R. 1963, bls. 196.

[20] Hægt er að setja fram þá tilgátu að þau hjón hafi óskað eftir því að jarðneskar leifar þeirra fengju að hvíla í duftkerjum í kórvegg Bessastaðakirkju. Og þau jafnvel fengið formlega  eða óformlega staðfestingu á því að þá stund þeirra rynni upp yrðu jarðneskar leifar þeirra geymdar þar í kirkjunni. Lög um líkbrennslu voru sett 1915 og féllu úr gildi 1963. Í 4. gr. þeirra stendur: „Að lokinni brennslu skal jarðsetja öskuna í kirkjugarði, eða setja hana á aðra staði, sem sérstaklega eru útbúnir til þess eftir fyrirmælum stjórnarráðsins.“ Reglugerð um framkvæmd líkbrennslu á grundvelli laganna frá 1915 var sett 1951 og felld úr gildi 2007. Í 8. gr. reglugerðarinnar segir: „Ef eigi skal jarðsetja ösku þegar að lokinni bálför, skulu hylkin eða kerin merkt með einkenni bálstofunnar og nafni hins látna. Skal þá, eftir löglegri ákvörðun hlutaðeigandi aðstandenda, koma hylkjunum eða kerunum fyrir í kapellu eða grafhýsum kirkjugarðs eða geymsluhvelfingum við bálstofuna“. Sótt 12. febrúar 2022: https://www.reglugerd.is/reglugerdir/allar/nr/4-1951 – Hér er reyndar getið um kapellu – en Bessastaðakirkja er ekki kapella – heldur kirkja. Sem áður segir eru lögin frá 1963 afdráttarlaus um þetta efni – duftker skyldi ekki varðveita annars staðar en í kirkjugarði (17. gr.).

[21] Stjórnartíðindi 1963, A-deild, R. 1963, 17. gr., 1. mgr. bls. 193. Greinin hljóðar svo öll: „Þegar líkbrennsla fer fram, er skylt að búa um öskuna í þar til gerðum duftkerjum. Kerin má grafa niður í grafarstæði eða leiði, enda liggi fyrir fullt samkomulag aðstandenda. Dýpt duftkersgrafar skal vera 1 metri. Kirkjugarðsstjórn getur ákveðið sérstakan reit í kirkjugarði fyrir duftker og sé stærð hvers leiðis jafnan hin sama, um ½ fermetri. Heimilt er bálfararfélagi eða kirkjugarðsstjórn í samráði við umsjónarmann kirkjugarða og skipulagsnefnd kirkjugarða að reisa kapellu í kirkjugarði til varðveizlu duftkerja. Nöfn þeirra, sem duft er varðveitt af í kirkjugarði, skal rita á legstaðaskrá og kerin eða grafirnar tölusettar. Óheimilt er að varðveita duftker annars staðar en í kirkjugarði.“ Um þessa grein sagði m.a. í greinargerð: „Bannað er að varðveita duftker annars staðar en í vígðum grafreit.“ (Alþingistíðindi 1962 – áttugasta og þriðja löggjafarþing, A: þingskjöl með málaskrá, R. 1964, bls. 916).

[22] Björk Ingimundardóttir, Prestaköll, sóknir og prófastsdæmi á Íslandi, I., R. 2019, bls. 426-427.

[23] Kapella er vissulega guðshús en í þeim er ekki reglubundið helgihald  eins og í kapellunni á Hrafnseyri við Arnarfjörð, vígð 1980 (Ásgeir Ásgeirsson, forseti, stofnaði minningarsjóð um eiginkonu sína, Dóru Þórhallsdóttur, sem styðja skyldi byggingu á kapellunni). Sumar kapellur eru eingöngu  grafarkapellur (eins og Fossvogskapella í Reykjavík), skólakapellur og sjúkrahúskapellur. Í stórum kirkjum geta þær verið hluti af kirkjunni sjálfri og oft með sérstakt altari. Sjá nánar: J. S. Purvis, Dictionary of ecclesiastical terms, London 1962, bls. 41.

[24] Það skal tekið fram í þessu samhengi að þegar ný kirkja var reist á Ísafirði 1991 kom í ljós að byggja þyrfti yfir gömul leiði sem höfðu staðið norðan við gömlu kirkjuna. Sérstökum minningarskildi var komið upp í kirkjunni um þau sem þar hvíldu undir kirkjugólfi. Þá vildi svo til að eitt grafarstæðanna sem fór undir gólf nýju kirkjunnar var frátekið fyrir eiginkonu þess er þar hvíldi. Þegar hún lést var gólf kirkjunnar rofið og konan jarðsett við hlið eignmanns síns. Samkv. upplýsingum sr. Magnúsar Erlingssonar, sóknarprests á Ísafirði, og prófasts, 21. febrúar 2021. Sjá einnig viðtal við sr. Magnús í Bæjarins besta, 19. desember, 1997, bls. 14-17: „Ég nýt jólanna í faðmi fjölskyldunnar“. Kona sú sem um er getið var jarðsett vegna þessara sérstöku aðstæðna í kirkjunni 25. nóvember 1997. Það er ekki sambærilegt atvik í samanburði við það sem rætt er um í þessari grein. Slóð sótt 1. mars 2021: https://timarit.is/page/7442487?iabr=on#page/n16/mode/1up

[25] Gunnar Þór Bjarnason, „En þegar dauðinn kemur svo sem ein voldug hetja …“ – Um viðhorf til dauðans á síðari öldum, Ný Saga – tímarit Sögufélags, 1. árg., 1. tbl., 1987, bls. 34-35.

[26] Hjá: Stefanía Haraldsdóttir, Bankað upp á að Bessastöðum – Forsetafrúr lýðveldisins 1944-1996, BA-ritgerð, 2014, bls. 12, segir svo um þau Svein og Georgíu: „Forsetahjónin þurftu að sigla milli skers og báru til að forðast konungsstíl á embættinu en jafnframt því að skapa því virðingarsess. Sendiráðum Íslands voru send bréf 1946 með beiðni um að þau útveguðu „allar eða sem flestar protocol [siðareglur] bækur“ sem væru í notkun hjá vinaþjóðum Íslands til þess að allt mætti rétt fara í samskiptum og umgengni við þjóðhöfðingja ríkjanna.“ Það var forsetaritarinn, Gunnlaugur Þórðarson, sem sendi þessi bréf. Fjöldi sendiráða sendi gögn. Í bréfi frá sendiráði Íslands í London sagði svo 4. mars 1946: „Að lokum skal þess getið að bók um mannasiði almennt, sem mjög hefir verið notuð af sendiráðum hér, er uppseld og mun nokkur tími líða þangað til hún verður endurprentuð.“ Sjá: ÞÍ. Skrifstofa forseta Íslands 1994-22 B-B 51. 1941-1980. Svo virðist og að forsetaritarinn hafi viljað koma upp safni af siðareglum því að í bréfi til sendiráða (London, innsk. höf.) 14. mars 1946, segir hann: „…jafnframt er þess óskað, að ef nýjar „protocol“ – bækur eru gefnar út, þá sé eintak sent til skrifstofunnar (forsetaskrifstofunnar, innsk. höf.) Það getur verið á ýmsan hátt þægilegt og fróðlegt að hafa slíkt safn.“ Sjá: ÞÍ. Skrifstofa forseta Íslands 1994-22 B-B 51. 1941-1980.

[27] Hér segir: „Sveinn hafði ekki neinum hefðum að fylgja og engan ramma fyrir embætti sitt nema þann sem stjórnarskráin setti: …“ Bjarni Guðmarsson og Hrafn Jökulsson, Forsetar íslenska lýðveldisins, R. 1990, bls. 75.

[28] Gylfi Gröndal, Sveinn Björnsson, ævisaga, R. 1994, bls. 13.

[29] Birgir Thorlacius, Víða komið við, síðara bindi, R. 1994 bls. 59. Birgir birtir líka minnisblað/reglur sem eru frá Sveini komnar þar sem fram kemur hvaða boð forseti eigi að þiggja (bls. 59-60). Hann segir einnig að löng dvöl þeirra hjóna, Sveins og Georgíu, í útlöndum og kynni þeirra af „fagurlega búnum heimilum og höllum“ hafi átt mikinn þátt í að móta „umgjörð forsetaembættisins“. (Bls. 56).

[30] Birgir Thorlacius, „Forsetar, konungar, o.fl.“ Tíminn, 31. mars 1994, bls. 6-7. Nefna má dæmi um hvernig Sveinn forseti steig út í hversdagsleikann ef svo má segja þegar hann bauð tveimur stúlkum á Álftanesinu far í bæinn þar sem þær biðu eftir Hafnarfjarðarstrætó – voru á leið í kvikmyndahús. Þær þáðu farið og hann bauðst til að sækja þær eftir sýninguna sem og var gert: Gyða Skúladóttir Flinker, Vigdís Jack – sveitastelpan sem varð prestsfrú, R. 2020, bls. 60-62.

[31] Gunnlaugur Þórðarson, Ævibrot, R. 1990, bls. 67-68.

[32] Í bréfasamskiptum milli sendiráðsins í London og Kaupmannahöfn við utanríkisráðuneytið kemur fram að í upphafi forsetatíðar Ásgeirs var leitast við að endurnýja húsgögn og borðbúnað (til dæmis bréf 10. des. 1956 og 8. apríl 1957) á Bessastöðum. Næsta víst er að þörf hefur verið á því. Í bréfi sendiherra Íslands frá því 5. febrúar 1952 segir að Sveinn Björnsson hafi þegar hann kom til London að leita sér lækninga í október 1951 haft „meðferðis mjög verðmæt áklæði af stólum í forsetrasetrinu að Bessastöðum, sem voru orðin allslitin og þurftu viðgerð.“ Um viðgerðina sá Victoria and Albert Museum og voru klæðin síðan send heim í teimur ströngum. (bréf 5. febrúar 1952, Agnar Kl. Jónsson). Sendiráðin í London og Kaupmannahöfn voru beðin um að athuga með heppileg húsgögn fyrir forsetasetrið. Um var að ræða stóla, sófa, skatthol, borð og borðbúnað. Og teppi. Í bréfi til sendiherrans í London í nóvember 4. nóvember 1953 segir forsetaritarinn: „Húsgögn þessi þyrftu auk þess að vera lagleg, að falla inn í hinn rétta ramma Bessastaða, sem þú þekkir vel sjálfur.“ Það var þó nokkurt umstang eins og fram kemur í bréfum sendiherranna. Sendiherrann í London fékk meira að segja móður sína með sér til að skoða matarstell sem kom til álita að kaupa. (Bréf Agnars Kl. Jónssonar, 7. ágúst 1953). Og ekki gekk það ætíð vel: „…hér er nú furðulítið úrval af húsgögnum eins og þeim, sem hæfileg geta talist fyrir Bessastaði.“ Og:  „Það er leitt hvað þetta ber lítinn árangur og ótrulegt í rauninni hversu lítið úrval er í stórborg eins og London,“ segir sendiherrann Agnar Kl. Jónsson í bréfi til forsetaritarans 23. febrúar 1954. Hann sendi þó lítinn húsgagnabækling frá Harrods en viðbrögðin voru þau að húsgögnin væru „of fyrirferðamikl“ og þau yrðu „of nýleg.“ Í því bréfi spyr forsetaritari hvort ekki væri hægt að fá Ministry of Work til að aðstoða í þessum málum en sú skrifstofa hafði með „innréttingar breskra sendiherrabústaða“ að gera. (Bréf 10. febrúar 1954). Og kona Agnars, Ólöf, fór líka með honum að skoða húsgögn (bréf 15. des. 1953). Gunnlaugur Halldórsson, arkitekt, var beðinn um að athuga með húsgögn á Norðurlöndum og var farið að hans ráðum að einhverju leyti, (bréf 19. ágúst 1954) til dæmis keyptur ruggustóll úr eik. Lesa má úr þessu að búa átti forsetasetrið út í anda hinna glæsilegustu embættisbústaða eins og til dæmis sendiráða. Það hæfði ekki allt forsetasetrinu né ramma þess og segja má að með því sé verið að gæta að virðingu embættisins og um leið verið að móta það í vissan heldrafólksstíl, ef svo má segja, þetta var jú einu sinni bústaður þjóðhöfðingjans. Hann varð að bera af og næsta víst að sátt hefur verið um það. (ÞÍ. Skrifstofa forseta Íslands 1994-22 B-B 59-1. Bessastaðir Tímabil 1944-1980).

[33] Stefanía Haraldsdóttir, Bankað upp á að Bessastöðum – Forsetafrúr lýðveldisins 1944-1996, BA-ritgerð, 2014, bls. 11-13; 18-20; 22-24 og víðar.

[34] Þór Magnússon, „ „Vandalisminn“ í Bessastaðakirkju eða víti til varnaðar“, Árbók hins íslenska fornleifafélags, 2002-2003, R. 2004, bls. 72 – (Bréfið er dagsett 28. febrúar 1948).

[35] Í minningargrein um Svein í Morgunblaðinu sem Jóhann Jónsson skrifaði stendur m.a.: „Ég minnist þess nú, að hann sagði einhvern tíma við mig, að sig iðraði þess mest, að hann hafði einu sinni fyrir áeggjan vina sinna látið aðra ráða framkvæmdum, en það voru breytingar þær, sem gerðar voru á Bessastaðakirkju. Með þær var hann alla tíð mjög óánægður.“ Jóhann Jónsson, „Minningarorð um forseta Íslands,“ Morgunblaðið 2. febrúar 1952, bls. 3. Ekki er ólíklegt að þetta hafi verið í fyrsta sinn sem þessi óánægja forsetans með breytingar á Bessastaðakirkju var orðuð opinberlega.

[36] Gylfi Gröndal, Sveinn Björnsson, ævisaga, R. 1994, bls. 342-344.

[37] Birgir Thorlacius, Í þjónustu forseta og ráðherra, R. 1994, bls. 165.

[38] Guðni Th. Jóhannesson, Fyrstu forsetarnir – Embætti þjóðhöfðingja Íslands á 20. öld, R. 2016, bls. 76, segir um Svein: „Honum var annt um virðingu embættisins og vildi ekki gerast of alþýðlegur í háttum.“ Þar kemur og fram að erlendum embættismönnum hafi þótt Sveinn full fastheldinn á hirðsiði og formreglur. Landsmenn hafi jafnvel sagt framferði hans sýna hégómaskap. 

[39] „Virðuleg útför forsetans greip hugi Reykvíkinga,“ Morgunblaðið 5. febrúar 1952, bls. 2.

[40] „Þúsundir við útför forsetans á laugardaginn,“ Alþýðublaðið 5. febrúar 1952, forsíða.

[41] „Þegar þjóðin kvaddi fyrsta forseta lýðveldisins,“ Þjóðviljinn 5. febrúar 1952, bls. 3.

[42] Birgir Thorlacius, Í þjónustu forseta og ráðherra, R. 1994, bls. 175.

[43] Alþingistíðindi 1915, B. umræður, R. 1916, bls. (dálkur) 908.

[44] „Að lokinni brenslu skal jarðsetja öskuna í kirkjugarði, eða setja hana á aðra  staði, sem sjerstaklega eru útbúnir til þess, eftir fyrirmælum Stjórnarráðsins.“ 4. gr. laga um líkbrennslu, nr. 41, 3. nóvember 1915, Stjórnartíðindi  fyrir Ísland 1915, R. (ekkert ártal), bls. 140. Í 12. gr. laga um kirkjugarða frá 1932 stendur svo í 2. mgr.: „Þar, sem líkbrennsla fer fram, en menn vilja þó geyma duftker með bálfararleifum í kirkjugarði, getur sóknarnefnd ákveðið, að kerin skuli grafin í sérstökum röðum, eða geymd í grafkapellum, er bæjarstjórn eða bálfararfélög reisa innan kirkjugarðs í því skyni.“ Stjórnartíðindi fyrir Ísland, árið 1932, A-deild, R. 1932, bls. 151. Og í 9. gr. 2. mgr. sömu laga sagði: „Bannað er að taka gröf innan kirkju.“ Sama heimild, bls. 150.

[45] Gylfi Gröndal, Sveinn Björnsson, ævisaga, R. 1994, bls. 347 og Birgir Thorlacius, Í þjónustu forseta og ráðherra, R. 1994, bls. 175-179. Ranglega er sagt frá því á https://www.gardur.is/einstakl.php?nafn_id=234641, að duftker Sveins sé „staðsett í Bessastaðakirkju“ en réttilega getið að það sé í reit 84 sem er norðanmegin við kirkjuna.

[46] Birgir Thorlacius, Í þjónustu forseta og ráðherra, R. 1994, bls. 175.

[47] Gylfi Gröndal, Kristján Eldjárn, ævisaga, R. 1991, bls. 303.

[48] Birgir Thorlacius, Í þjónustu forseta og ráðherra, R. 1994, bls. 176-177.

[49] Gylfi Gröndal, Sveinn Björnsson, ævisaga, R. 1994, bls. 347. Sjá einnig: Birgir Thorlacius, Í þjónustu forseta og ráðherra, R. 1994, bls. 175 (Birgir getur um að fjórum mönnum hafi verið falið að finna Sveini legstað, honum sjálfum og þeim dr. Kristjáni Eldjárn, þjóðminjaverði, Herði Bjarnasyni, húsameistara ríkisins, og Gunnlaugi Halldórssyni, arkitekt. Þar kemur m.a. fram að þess megi vænta að líkneski verði reist af forsetanum í Reykjavík eða annars staðar. Ekki hefur nú orðið af því enn. Greinargerð hópsins má lesa á bls. 175-178).

[50] Hannes Jónsson, Sendiherra á sagnabekk, R. 1994, bls.21-23. Grímur Thomsen er „fyrsti lærimeistari íslenskra diplómata“, (bls. 22-23) að áliti dr. Hannesar.

[51] Sveinn Björnsson, Endurminningar Sveins Björnssonar, R. 1957, bls. 117; Birgir Thorlacius, Í þjónustu forseta og ráðherra, R. 1994, bls. 167. – Hannes Jónsson, Sendiherra á sagnabekk, R. 1994, bls. 24-34, en þar segir (bls. 25) að Sveinn hafi verið aðalhöfundur bráðabirgðalaga nr. 120 frá 8. júlí 1940 um utanríkisþjónustu og laganna um utanríkisráðuneyti Íslands og fulltrúa þess erlendis nr. 31 frá 27. júní 1941. Sveinn hafi lagt „grundvöllinn að skipulagi og starfsáttum íslenskrar utanríkisþjónustu.“ (Bls. 25).

(51b) Gylfi Gröndal, Sveinn Björnsson, ævisaga, R. 1994, bls. 347.

[52] Stjórnartíðindi fyrir Ísland, árið 1932, A-deild, R. 1932, bls. 150. Í 9. gr. 2. mgr. sömu laga sagði: „Bannað er að taka gröf innan kirkju.“

[53] Stjórnartíðindi fyrir Ísland, R. 1915, 4. gr., bls. 140. „Að lokinni brennslu skal jarðsetja öskuna í kirkjugarði, eða setja hana á aðra staði, sem sjérstaklega eru útbúnir til þess eftir fyrirmælum stjórnarráðsins.“ Í nefndaráliti um frumvarp til laga um líkbrennslu 1915 var svo tekið til orða: „…að askan sé jörðuð eða komið þar fyrir á hæfilegum stað, – hefir frv. tekið til greina.“  Alþingistíðindi 1915 – A. Þingskjöl R. 1915, bls. 689.

[54] Í reglugerð um framkvæmd líkbrennslu á grundvelli laganna frá 1915 frá 1951 og felld úr gildi 2007 segir í 8. gr., að ef ekki eigi að jarðsetja  „ösku þegar að lokinni bálför, skulu hylkin eða kerin merkt með einkenni bálstofunnar og nafni hins látna. Skal þá, eftir löglegri ákvörðun hlutaðeigandi aðstandenda, koma hylkjunum eða kerunum fyrir í kapellu eða grafhýsum kirkjugarðs eða geymsluhvelfingum við bálstofuna“. (Skáletrun höf.) Sótt 12. febrúar 2022: https://www.reglugerd.is/reglugerdir/allar/nr/4-1951 – Hér virðist vera átt við um tímabundna geymslu. Reyndar er getið um kapellu – en Bessastaðakirkja er ekki kapella – heldur kirkja.

[55] Hér má geta grafhýsis sem Páll Beyer lét gera um 1710 undir Bessastaðakirkju fyrir „heldri menn“. Sjá Guðmundur Ólafsson, Bessastaðarannsókn 1987 Aðdragandi og upphaf – uppgraftarsvæði 1-11, bls. 21. Sótt 19. febrúar 2021: https://www.thjodminjasafn.is/media/utgafa/2010-1-Bessastadarannsokn-1987.pdf Einnig grafhýsis amtmannsins á Bessastöðum, Lauritz Thodals sem skipaður var amtmaður yfir Íslandi og Færeyum 1770: Þorsteinn Gunnarsson (2008). Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritstj.) Friðaðar kirkjur í Kjalarnessprófastsdæmi II, 12, Kirkjur Íslands, R. 2008, bls. 34-36.

[56] Þór Magnússon rekur sögu hinna umdeildu breytinga, sjá:, „ „Vandalisminn“ í Bessastaðakirkju eða víti til varnaðar“, Árbók hins íslenska fornleifafélags, 2002-2003, R. 2004, bls. 56-78. Einnig: Pétur Ármannsson: Guðjón Samúelsson húsameistari, R. 2020, bls. 341-342. Þar segir Pétur frá þessari gagnrýni og breytingum Guðjóns og það sé enn í dag „umdeildast“ embættisverka hans. Sjá einnig breytingasöguna í: Þorsteinn Gunnarsson (2008). Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritstj.) Friðaðar kirkjur í Kjalarnessprófastsdæmi II, 12, Kirkjur Íslands, R. 2008, bls. 53-58. Þar segir Þorsteinn að færa ætti kirkjunni aftur: „…þá ásjón sem hún hafði fyrrum, færa í hana á ný þá innansmíð, sem hún hafði og er til.“ (Bls. 58).

[57] Kristján Eldjárn, „Hugleiðingar um Oddakirkju,“ Morgunblaðið 28. nóvember 1953, bls. – Guðjón Samúelsson skrifaði tvær greinar í Kirkjublaðið þar sem hann svarar gagnrýni á breytingarnar á Bessastaðakirkju. Sú fyrri: „Bessastaðakirkja – Nokkrar athugasemdir“, (Kirkjublaðið 4. tbl., 1. mars 1948, bls. 2-3,  og „Bessastaðakirkja – síðari grein“, (Kirkjublaðið, 5. tbl., 5. apríl 1948, bls. 3). Hann segir meðal annars í seinni greininni, bls. 3: „Helgigripir hennar valdir af handahófi, og mjög ósmekklegir og ólistrænir.“ Gylfi Þ. Gíslason, alþingismaður, svarar húsameistara í Kirkjublaðinu 5. apríl 1948, bls. 4: „Húsameistari ríkisins og Bessastaðakirkja“ og er býsna þungorður og í næsta tölublaði Kirkjublaðsins, 26. apríl segir m.a. svo í lítilli grein á forsíðu: „Bessastaðakirkja“: „Ætlun blaðsins er ekki sú að blanda sér í deilur um það mál (þ.e. framkvæmdir við kirkjuna, innsk.) Bezt er að láta fólkið sjálft, sem áður þekkti kirkjuna og mun fá mörg tækifæri til þess að skoða hana eftir að viðgerðinni er lokið, dæma um hvort þar hafi verið unnið gott verk og þarft, eða hvort hér sé um eyðileggingu Bessastaðakirkju að ræða, eins og herra Gylfi Þ. Gíslason gefur í skyn.“ Kirkjublaðið greindi á forsíðu 15. nóvember 1948 frá hátíðarguðsþjónustu sem haldin hefði verið í kirkjunni 31. október 1948 og þar sagði að kirkjan væri tekin í notkun eftir að „myndarlegri viðgerð“ væri lokið á henni. Ennfremur: „Enda þótt eigi verði sagt að neinar meiri háttar breytingar hafi gjörðar verið á Bessastaðakirkju, hefur hún þó mjög skipt um svip, þegar inn í hana er komið. Hún er orðin björt og vistleg, hlý og traust, látlaus en þó sérkennilega fögur.“ Ritstjórinn og biskupinn yfir Íslandi sagði í prédikun sinni þennan dag: „Það er fagnaðarefni, hve yndislega falleg kirkjan er, vingjarnleg, látlaus, hlý og björt. Og ég finn ástæðu til þess að þakka kirkjueigandanum, ríkistjórninni, fyrir hönd þjóðarinnar, og öllum þeim, sem þátt hafa átt í að þessi (sic) fagra verki, þeim sem yfirumsjón þess höfðu og þeim, sem unnu að því á annan hátt.“ Sigurgeir Sigurðsson, „Helgidómarnir og þjóðin  – ræða flutt í Bessastaðakirkju 31. október 1948“, Kirkjublaðið 15. nóvember 1948, bls. 2. Ekkert er haft eftir forseta í blaðinu um hvað honum fannst.

[58] Gunnlaugur Haraldsson, Guðfræðingatal 1847-2002, R. 2002, bls. 215.

[59] Kver og kirkja kom út 1925.

[60] Gylfi Gröndal,  Ásgeir Ásgeirsson, ævisaga, R. 1992, bls. 124-125.

[61] Bessastaðakirkja. Vísitazíugjörð 1971, Landnám Ingólfs – nýtt safn til sögu þess, 1, R. 1983, bls. 94-97; „Kirkjugluggarnir á Bessastöðum,“ Samvinnan, jólin 1957:, bls.  4-5; 7; 50-51.

[62] Til dæmis Steinsbiblíu frá  1728, og kirkjufána (helgigöngumerki), sem Ásgeir gerði frumdrætti að, saumaður í Englandi; hann átti og hugmyndina að því að íslenskir járnsmiðir smíðuðu skrá í kirkjuhurðina, „kostulega vel smíðuð,“- og gaf kirkjunni koparaltariskross, róðukross, sjá: Þ.Í. Prófastar – Kjalarnesprófastsdæmi – AA/008: Prófastsvísitasía 17. september 1969, bls. 182, 172 (skráin). Einnig koparstjaka á altari sjá: Þorsteinn Gunnarsson (2008). Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritsj.) Friðaðar kirkjur í Kjalarnessprófastsdæmi II, 12, Kirkjur Íslands, R. 2008, bls. 64-65.

[63] Þorsteinn Gunnarsson (2008). Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritsj.) Friðaðar kirkjur í Kjalarnessprófastsdæmi II, 12, Kirkjur Íslands, R. 2008, bls. 67-68. Í vísitasíugjörð Ásmundar Guðmundssonar biskups 27. febrúar 1955, bls. 31, er svo tekið til orða: „Forseti Íslands, hr. Ásg. Ásgeirsson skýrði frá því, að ríkisstjórn Íslands hefði í tilefni af 60 ára afmæli hans heitið að gefa kirkjunni 2 steinda glugga. Hefir forseti í hyggju að vinna að því, að allir gluggar kirkjunnar verði slíkir, með myndum úr heilagri ritningu og kristnisögu þjóðarinnar.“

[64] Birgir Thorlacius, Í þjónustu forseta og ráðherra, R. 1994, bls. 167.

[65] Guðni Th. Jóhannesson, Fyrstu forsetarnir – Embætti þjóðhöfðingja Íslands á 20. öld, R. 2016, bls. 117-118. Hér  má og nefna frásögn Ólafs Thors af samtali hans og Ásgeirs Ásgeirssonar 11. febrúar 1954 og það sem hann segir þar um Ásgeir og  hirðsiði í kringum hann – í gamamsömum tóni en þó ögn háðulegum, sjá: Matthías Johannessen, Ólafur  Thors, ævi og störf, R. 1981, bls. 246-250. Þess má geta  að Ólafi var sennilega ekki vel við svokallaða hirðsiði – Pétur Eggerz segir frá því er hann var forsetaritari hafi hann farið með borðröðunarlista fyrir Svein Björnsson, forseta, til Ólafs, sem þá var utanríkisráðherra, og sá síðarnefndi sagt er hann leit yfir listann: „Hvaða helvítis asnaplagg er þetta?“ Sagði síðan að sér væri nákvæmlega sama hvar fólk sæti, nema hvað borgarstjórinn í Reykjavík ætti að fá „virðingarsess“ við borðið. Pétur Eggerz, Létta leiðin ljúfa, R. 1972, bls. 184. – Úrslit forsetakosninganna 1952 höfðu ekki verið Ólafi að skapi en hann hafði fengið tillögu samþykkta á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins að flokkurinn styddi sr. Bjarna Jónsson. „Ólafur Thors tók sér úrslitin afar nærri.“ Sjá: Ásgeir Pétursson, Haustlitir, minningaþættir, R. 2006, bls. 275, -277.

[66] Alþingistíðindi 1962 – áttugasta og þriðja löggjafarþing, B: umræður um samþykkt lagafrumvörp með aðalefnisyfirliti, R. 1967, bls. 1503.

[67] Alþingistíðindi 1962, áttugasta og þriðja löggjafarþing, A Þingskjöl með málaskrá, R. bls. 916. – Lögin sem féllu úr gildi með lagasetningunni 1963 voru meðal annars lög um kirkjugarða nr. 41 frá 1931 en þar sagði í 12. gr. 2. mgr.: „Þar, sem líkbrennsla fer fram, en menn vilja þó geyma duftker með bálfararleifum í kirkjugarði, getur sóknarnefnd ákveðið, að kerin skulu grafin í sérstökum röðum, eða geymd í grafkapellum, er bæjarstjórn eða bálfararfélög reisa innan kirkjugarðs í því skyni. Hefir þá sóknarnefnd allar hinar sömu skyldur til eftirlits með viðhaldi grafkapellu og varðveizlu bálfararleifa sem með einstökum leiðum í kirkjugarði.“(Stjórnartíðindi fyrir Ísland árið 1932, A-deild, R. 1932, bls. 151).

[68] Þorsteinn Gunnarsson (2008). Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritsj.) Friðaðar kirkjur í Kjalarnessprófastsdæmi II, 12, Kirkjur Íslands, R. 2008, bls. 45.

[69] Sótt 27. janúar 2021: https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=743723,

[70] Sótt 27. janúar 2021: https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=753213 og https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=753208,

[71] Þorsteinn Gunnarsson í samvinnu  við ARGOS ehf.: Innri gerð Bessastaðakirkju – Rannsóknarverkefni – Hugmyndir um endurbætur, R. 2017. – Sótt 9. febrúar 2021: https://www.minjastofnun.is/media/skjol-i-grein/001-ARG-Bessastadakirkja-PP12.pdf

https://www.youtube.com/watch?v=dpX3dTqBLHE&feature=youtu.be

Í þessu sambandi verður að huga að táknfræði austurs og vesturs í kirkjum: kórgafl (austur) og inngöngugafl (vestur). Austur er tákn lífs og upprisu (kórveggur) en vestur (kirkjudyr) er tákn dauðans og næturinnar, „deyðandi og niðurbrjótandi afla tilverunnar“ – vesturgaflinn táknar oft að kirkjan sé „vígi mannsins og vörn gegn niðurbrjótandi öflum“: Gunnar Kristjánsson, Gengið í guðshús, R. 1988, bls. 20-21.

[72] Ariés, Philippe (ensk þýðing: Helen Weaver), The Hour of our Death, London 1981, bls. 36-37.

[73] Biskupasögur II, Hungurvaka, R. 2002, bls. 9.

[74] Sigurjón Páll Ísaksson, „Um legsteina Hóladómkirkju,“ Skagfirðingabók, 1. tbl., 1992, bls. 62-63. Hér má og skjóta inn tilvitnun í grein dr. Hjalta Hugasonar: „Átökin um útförina. Skiptar skoðanir um heimagrafreiti á Íslandi á nítjándu og tuttugustu öld.“: „Upptaka einkagrafreita í Noregi helst líklega í hendur við áhuga fólks úr efri lögum samfélagsins að halda sérstöðu sinni er hætt var að grafa einstaklinga úr þeim þjóðfélagshópi inni í kirkjunum.“ Saga – Tímarit Sögufélags, LVIII:2, 2020, R. 2020, bls.

[75] Staðir og kirkjur I: Skálholt Fornleifarannsóknir 1954-1958, R. 1988: Kristján Eldjárn: Legstaðir bls. 123.

[76] Kristján Eldjárn og Gunnar Bollason (2005). Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritsj.) Friðaðar kirkjur í Skagafjarðarprófastsdæmi, 6,  Kirkjur Íslands, R. 2005, bls. 206-217.

[77] Þorsteinn Gunnarsson (2008). Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritsj.) Friðaðar kirkjur í Kjalarnessprófastsdæmi II, 12, Kirkjur Íslands, R. 2008, bls. 79-84.

[78] Þorsteinn Gunnarsson (2008). Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritsj.) Friðaðar kirkjur í Kjalarnessprófastsdæmi II, 12, Kirkjur Íslands, R. 2008, bls. 82. Hér skal þó haldið til haga frásögn af Tómasi Hammond Meldal amtmanni í Suðuramti 1790-1791, sem andaðist á Bessastöðum í nóvember 1791. Hann var grafinn í Bessastaðakirkju í desember sama ár. Sjá: Vilhjálmur Þ. Gíslason, Bessastaðir – þættir úr sögu höfuðbóls, R. 1947, bls. 91. Einnig Magnús Ketilsson, Stiftamtmenn og amtmenn á Íslandi 1750-1800, R. 1948, bls. 94-96. Hann hafði „látið taka af sér ístruna um haustið og varð ekki jafngóður síðan“ – segir í Annálar 1400-1800, VI. bindi, R. bls. 317.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir