Skyldi það koma nokkrum á óvart þó að fólk sem gengur fram á kirkju á fjarlægri strönd spyrji hvernig á því standi að þetta hús sé þarna komið? Og ekki síst þegar víkin sem hún stendur við heitir Engilsvík.

Kirkjuhús sem standa inn til dala í sveitum, sjávarplássum við ströndina eða í hlíðarsporðum, segja ekki bara sögu trúarinnar heldur líka fólksins sem þar býr og starfar heldur einnig þeirra er á undan gengu. Þessi hús eru oft miðja sögunnar og mannlífsins og þess vegna hafa flestir taugar til þeirra og telja það vera sálarstyrkjandi að setjast á bekk inni í þeim þó ekki sé nema í stutta stund.

Strandarkirkja geymir sögu sem dregur fólk að sér. Sögu um menn í hrakningum úti á sjó og þegar vot gröfin virðist blasa við heita þeir að reisa kirkju á þeim stað þar sem landi yrði náð. Birtist ljósengill framundan stefni skipsins og leiðir þá heila að landi og hvarf þeim svo. Þetta eru sómamenn sem standa við sitt og kirkja rís við Engilsvíkina í Selvogi þar sem engillinn sást og barg lífi þeirra. Staðurinn er helg jörð því þar steig almættið fram og hafa menn gert knéfall af minna tilefni. Og hrakningar manna víðs vegar í veröldinni láta ekki á sér standa. Því miður. En kirkjan er á sínum stað.

Trúar- og menningarsögu kirknanna verður að miðla.

Góður hópur vina og velunnara Strandarkirkju var mættur í kyrru veðri og mildu við Strandarkirkju í gær. Tilefnið var sem sé að hafa um hönd guðsorð, bjóða tæknina velkomna til þjónustu við þessa merku kirkju og greina frá verklokum við kirkju og stað.

Sr. Jón Ragnarsson sá um helgistundina í fjarveru sóknarprestsins, sr. Sigríðar Mundu Jónsdóttur, og stýrði sömuleiðis öðru sem fram fór.

Myndarleg heimasíða Strandarkirkju var opnuð en hana hannaði Sindri Guðmundsson, tölvunarfræðingur.

Veglegt söguskilti var afhjúpað við kirkjuna. Það var formaður sóknarnefndar kirkjunnar, Guðrún Tómasdóttir, sem dróg skjannahvítan dúkinn af skiltinu.

Viðamiklar framkvæmdir hófust við Strandarkirkju árið 2018 en drógust vegna kórónufaraldursins og lauk þeim formlega á þessu ári. Guðmundur Rafn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kirkjugarðaráðs, lýsti fyrir viðstöddum því sem gert var í kringum kirkjuna. Sóknarnefndarkonan Sigurbjörg Eyjólfsdóttir fór nokkrum orðum um framkvæmdir við kirkjuhúsið sjálft.

Tæknin þjónar kirkjunni ekki aðeins með heimasíðu og QR-kóða heldur hefur verið komið fyrir rafrænum söfnunarbauki í kirkjunni eins og sjá má víða í útlöndum. Ber fólk greiðslukort sitt að honum og velur upphæð sem það vill láta af hendi rakna til kirkjunnar.

Söguskilti eru víða til að greiða ferðamönnum leið að menningu staða og fólks. Söguskiltið við Strandarkirkju er gagnyrt á tveimur tungumálum, íslensku og ensku. Veg og vanda af þeim gagnyrta og góða texta á sr. Jón Ragnarsson. En á skiltinu er líka QR-kóði og þar kemur tæknin til skjalanna því að á bak við hann er saga Strandarkirkju ekki aðeins á þeim tungumálum sem eru á skiltinu heldur einnig dönsku, þýsku, pólsku og tælensku.

Þessi tungumál eru valin samkvæmt upplýsingum sóknarnefndar og staðarumsjónarmanns um þau þjóðerni, annarra en Íslendinga, sem oftast tengjast áheitum á kirkjuna og sem vitja hennar tíðast, fyrir utan almenna ferðamenn sem fara þar um hlöðin t.d. í norðurljósaferðum.

Viðstaddir þágu svo veglegar veitingar í veitingaskála Guðrúnar Tómasdóttur, formanns sóknarnefndar.

Í sóknarnefnd Strandarkirkju eru auk áðurnefnds formanns þær Sylvia Hildur Ágústsdóttir og Sigurbjörg Eyjólfsdóttir.

Strandarkirkjunefnd kemur einnig að málum kirkjunnar en formaður hennar er Ragnhildur Benediktsdóttir, lögfræðingur og fyrrum skrifstofustjóri Biskupsstofu.

Strandarkirkja er í Þorlákshafnarprestakalli, Suðurprófastsdæmi.

 

Sr. Jón Ragnarsson sá um helgistundina

Sóknarnefndarkonan Sigurbjörg Eyjólfsdóttir sagði frá framvkæmdum við kirkjuna innan húss

Formaður sóknarnefndar, Guðrún Tómasdóttir, afhjúpar söguskiltið

Söguskiltið mun þola öll heimsins veður á ströndinni

Guðrún Tómasdóttir myndar QR-kóðann

Sr. Jón Ragnarsson lítur bak við QR-kóðann og sjónvarpsmaðurinn góðkunni Magnús Hlynur Hreiðarsson fylgist með

Guðmundur Rafn Sigurðsson sagði frá framkvæmdum utan dyra við kirkjuna

Brauðtertur og hnallþórur biðu svo viðstaddra í veitingahúsinu Götu

Landsýn, eftir Gunnfríði Jónsdóttur (1889-1968), vísar til sagnarinnar um Engilsvík. Verkið var afhjúpað 29. maí 1950

Þessi tvö erindi eru á stöpli styttunnar og höfundur þeirra er Gunnfríður, myndhöggvari:

Í bæn þeir lyftu huga hátt
þá háðu stríð við ægis mátt
en himinn rétti arm í átt
þar ýtar sáu land

Það skip úr dauðans djúpi rann
því Drottins engill lýsa vann
svo býður hann við boða þann
og báti stýrir hjá

Strandarkirkja – opið guðshús

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Skyldi það koma nokkrum á óvart þó að fólk sem gengur fram á kirkju á fjarlægri strönd spyrji hvernig á því standi að þetta hús sé þarna komið? Og ekki síst þegar víkin sem hún stendur við heitir Engilsvík.

Kirkjuhús sem standa inn til dala í sveitum, sjávarplássum við ströndina eða í hlíðarsporðum, segja ekki bara sögu trúarinnar heldur líka fólksins sem þar býr og starfar heldur einnig þeirra er á undan gengu. Þessi hús eru oft miðja sögunnar og mannlífsins og þess vegna hafa flestir taugar til þeirra og telja það vera sálarstyrkjandi að setjast á bekk inni í þeim þó ekki sé nema í stutta stund.

Strandarkirkja geymir sögu sem dregur fólk að sér. Sögu um menn í hrakningum úti á sjó og þegar vot gröfin virðist blasa við heita þeir að reisa kirkju á þeim stað þar sem landi yrði náð. Birtist ljósengill framundan stefni skipsins og leiðir þá heila að landi og hvarf þeim svo. Þetta eru sómamenn sem standa við sitt og kirkja rís við Engilsvíkina í Selvogi þar sem engillinn sást og barg lífi þeirra. Staðurinn er helg jörð því þar steig almættið fram og hafa menn gert knéfall af minna tilefni. Og hrakningar manna víðs vegar í veröldinni láta ekki á sér standa. Því miður. En kirkjan er á sínum stað.

Trúar- og menningarsögu kirknanna verður að miðla.

Góður hópur vina og velunnara Strandarkirkju var mættur í kyrru veðri og mildu við Strandarkirkju í gær. Tilefnið var sem sé að hafa um hönd guðsorð, bjóða tæknina velkomna til þjónustu við þessa merku kirkju og greina frá verklokum við kirkju og stað.

Sr. Jón Ragnarsson sá um helgistundina í fjarveru sóknarprestsins, sr. Sigríðar Mundu Jónsdóttur, og stýrði sömuleiðis öðru sem fram fór.

Myndarleg heimasíða Strandarkirkju var opnuð en hana hannaði Sindri Guðmundsson, tölvunarfræðingur.

Veglegt söguskilti var afhjúpað við kirkjuna. Það var formaður sóknarnefndar kirkjunnar, Guðrún Tómasdóttir, sem dróg skjannahvítan dúkinn af skiltinu.

Viðamiklar framkvæmdir hófust við Strandarkirkju árið 2018 en drógust vegna kórónufaraldursins og lauk þeim formlega á þessu ári. Guðmundur Rafn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kirkjugarðaráðs, lýsti fyrir viðstöddum því sem gert var í kringum kirkjuna. Sóknarnefndarkonan Sigurbjörg Eyjólfsdóttir fór nokkrum orðum um framkvæmdir við kirkjuhúsið sjálft.

Tæknin þjónar kirkjunni ekki aðeins með heimasíðu og QR-kóða heldur hefur verið komið fyrir rafrænum söfnunarbauki í kirkjunni eins og sjá má víða í útlöndum. Ber fólk greiðslukort sitt að honum og velur upphæð sem það vill láta af hendi rakna til kirkjunnar.

Söguskilti eru víða til að greiða ferðamönnum leið að menningu staða og fólks. Söguskiltið við Strandarkirkju er gagnyrt á tveimur tungumálum, íslensku og ensku. Veg og vanda af þeim gagnyrta og góða texta á sr. Jón Ragnarsson. En á skiltinu er líka QR-kóði og þar kemur tæknin til skjalanna því að á bak við hann er saga Strandarkirkju ekki aðeins á þeim tungumálum sem eru á skiltinu heldur einnig dönsku, þýsku, pólsku og tælensku.

Þessi tungumál eru valin samkvæmt upplýsingum sóknarnefndar og staðarumsjónarmanns um þau þjóðerni, annarra en Íslendinga, sem oftast tengjast áheitum á kirkjuna og sem vitja hennar tíðast, fyrir utan almenna ferðamenn sem fara þar um hlöðin t.d. í norðurljósaferðum.

Viðstaddir þágu svo veglegar veitingar í veitingaskála Guðrúnar Tómasdóttur, formanns sóknarnefndar.

Í sóknarnefnd Strandarkirkju eru auk áðurnefnds formanns þær Sylvia Hildur Ágústsdóttir og Sigurbjörg Eyjólfsdóttir.

Strandarkirkjunefnd kemur einnig að málum kirkjunnar en formaður hennar er Ragnhildur Benediktsdóttir, lögfræðingur og fyrrum skrifstofustjóri Biskupsstofu.

Strandarkirkja er í Þorlákshafnarprestakalli, Suðurprófastsdæmi.

 

Sr. Jón Ragnarsson sá um helgistundina

Sóknarnefndarkonan Sigurbjörg Eyjólfsdóttir sagði frá framvkæmdum við kirkjuna innan húss

Formaður sóknarnefndar, Guðrún Tómasdóttir, afhjúpar söguskiltið

Söguskiltið mun þola öll heimsins veður á ströndinni

Guðrún Tómasdóttir myndar QR-kóðann

Sr. Jón Ragnarsson lítur bak við QR-kóðann og sjónvarpsmaðurinn góðkunni Magnús Hlynur Hreiðarsson fylgist með

Guðmundur Rafn Sigurðsson sagði frá framkvæmdum utan dyra við kirkjuna

Brauðtertur og hnallþórur biðu svo viðstaddra í veitingahúsinu Götu

Landsýn, eftir Gunnfríði Jónsdóttur (1889-1968), vísar til sagnarinnar um Engilsvík. Verkið var afhjúpað 29. maí 1950

Þessi tvö erindi eru á stöpli styttunnar og höfundur þeirra er Gunnfríður, myndhöggvari:

Í bæn þeir lyftu huga hátt
þá háðu stríð við ægis mátt
en himinn rétti arm í átt
þar ýtar sáu land

Það skip úr dauðans djúpi rann
því Drottins engill lýsa vann
svo býður hann við boða þann
og báti stýrir hjá

Strandarkirkja – opið guðshús

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir