Fréttir af ljóðabókum berast með ýmsum hætti. Áhugafólk um ljóð lætur gjarnan vita af nýjum bókum sem eru nýsis virði. Samfélagsmiðlar dreifa líka stundum fréttum af nýkomnum ljóðabókum.

Þegar leið liggur í bókabúðir er staldrað við borð þar sem prjónaskilti standa upp úr bókastöflunum og á þeim má lesa að þar megi finna nýjar bækur. Innan um verksmiðjuglæpasögurnar leynast stundum ljóðabækur bæði eftir þekkta höfunda og nýja.

Ljóðabækur eru öðruvísi en verksmiðjubókmenntirnar að þær má lesa aftur og aftur. Stundum finnur augað stól í bókabúðinni og þangað er rölt með ljóðabók í höndum og sest niður. Sýniseintakið er lesið á staðnum. Oft er bara byrjað inni í miðri bók eða jafnvel aftast. Síðan er lesið fram og aftur. Þetta er fyrsti lestur í boði verslunarinnar eða höfundarins og forlagsins.

Lesandi sýpur stundum hveljur yfir verði ljóðabóka og eitt andartak finnst honum hvert orð bókarinnar vera býsna dýrt miðað við einnota orðaflaum verksmiðjubókmenntanna. Þá er sagt í undirmeðvitundinni að auðvitað séu orð ljóðabókarinnar dýrari vegna þess að hún geymir dýpri hugsun. Ljóðabókin er líka margnota. Sum ljóð eru lesin aftur og aftur. Þau geyma eitthvert eðalefni sem lesandinn sér og finnur.

Kirkjublaðið.is rak augun í ljóðabókina Fagurboðar í bókaverslun. Nafnið er sérstaklega skemmtilegt og hlaðið fegurð sem springur út í þúsund hugsunum í höfði þess sem sér það. Myndin á kápu bókarinnar er líka full af upplyftingu.

Þegar farið var inn á leitir.is til að athuga hvaða bókasafn hefði Fagurboðana til láns kom bara í ljós að hún var í útláni á öllum söfnum á höfuðborgarsvæðinu. Segið svo að borgarbúar séu bara fastir í íþróttaáhorfi og verksmiðjuglæpasögum. Þarna kemur bara í ljós leyndur hópur ljóðaunnenda, eins og ljóðaáhugafólk er kallað. Aldrei heyrist sagt að einhver sé unnandi glæpasagna – miklu fremur er viðkomandi sólginn í þær. Og hvílíkur munur að vera unnandi einhvers eða sólginn í eitthvað. Með þessu er náttúrlega verið að segja að ljóðaunnendur séu hágæðabókmenntafólk – bara svo það komist til skila.

En eftir útsmognum leiðum fékkst eintak af Fagurboðum Þórunnar Valdimarsdóttur sem segja má að sé meira en rithöfundur og sagnfræðingur. Hún er fjölhöfundur. Fjölskemmtisagnahöfundur – það má örugglega flokka ljóð líka sem sögur – eða hvað er annars saga? Eða ljóð? Stafahvirfilbylur hugans sem fellur sem andleg gróðrarskúr á pappírinn, lesist skjáinn, eða elding úr efri byggðum sem lýsir upp andlegt myrkur.

Þar sem sláttumaður lyklaborðs er ekki bókmenntafræðingur heldur ljóðaunnandi les hann kannski ljóðin með öðrum hætti. Það veitir frelsi.

Lestur ljóðanna í Fagurboðum er hressandi skemmtiferð um kletta og klungur tilverunnar, málsins, hugsunarinnar og þess sem torvelt er að orða en þó reynt. Höfundur bregður sér lesanda til skemmtunar í allra kvikinda líki. Það má segja að Þórunn sé galdrakona, súrrealisti og dadaisti, íhaldsdama og róttæk í senn, viðkvæm kona, nagli, dularfull og yndislega undarleg á köflum svo lífið verður enn fjörlegra fyrir vikið. Orðasmiður og orðaprjónakona en umfram allt listakona sem hressir upp á votviðrasama sumardaga í hinu ofvaxna fiskiþorpi við alla Faxaflóa landsins.

Ljóðskáldið fer um ýmsa stigu mannlegrar tilveru eins og skálda er háttur í ljóðum. Það eru slóðir ástarinnar, vináttunnar, hversdagsins, söknuðar, sorgar, efa, lífsgleðinnar og glannaskapar. Svo má kenna óm af fornum trúarbrögðum og nýjum. Brugðið er á leik við  samhengislausa tilveruna svo úr verður góð uppskrift að öðruvísi degi í lífi lesandans. Hver lesandi verður að stinga sér ofan í bókina. Kaupa hana eða skrifa sig á biðlista hjá bókasöfnunum.

Þar sem þessi pistill um ljóðabókina er skrifaður á vettvangi hins snotra Kirkjublaðs.is sem er minnsta málgagn hvíta Krists norðan Alpafjalla þá er skylda að staldra við þau ljóð þar sem æðri máttarvöld úr kristnum sumarbúðum stíga inn á ljóðasviðið. Hver og einn verður að túlka fyrir sig.

Guð er sennilega ljóðrænn og farvegur ljóðsins er því eins og klæðskerasaumaður fyrir allt sem honum tengist. Ljóðið segir nefnilega meira en sýnist í fyrstu. Ljóðið getur verið dulardjúp andans og skautasvell hins yfirskilvitlega.

Fyrst er það þetta ljóð sem heitir Frelsarinn og er að finna á blaðsíðu 29:

sonur Guðs skal drottna
þótt viðkvæmur sé

lagði undir sig heiminn

viðnám veikari karla
gegn yfirgangi öskurapa

eftir tvö þúsund ár
og trilljón sár
kom loks að konunum

Einvera heitir ljóðið á blaðsíðu 32 og þar kemur fram flokkur Maríu meyja.

Ég er einvera…

opna hálslón
ótalaðra orða.

Einveran járnbindur
viðkvæmnina.

Hnoðar bolta
í stað þeirra sem týndust.

Við erum allar María mey.

Þá skal nefnt ljóðið Á hvítasunnu, er á blaðsíðu 44:

ég veit að allt er laust og aldrei tryggt
en algjör nauðsyn lífs að lafa í draumi
úr grasi lamba og grjóti margt er byggt
sem grátflóð hart svo rífur burt í flaumi

best dafnar sá sem veit hvað draumur er
og engi á sem yfir skilvit sér

elskan mín það orðar sjálfur Guð
að líf vort allt það skuli vera puð
en núna er sólin skjannahvíta skín
ég trúa skal þú komir heim til mín.

Niðurstaða: Fagurboðar eftir Þórunni Valdimarsdóttur er eldfim ljóðabók, full af ljóðrænum sprengikrafti og hversdagslegum fagurboðum sem eiga sér ýmsar rætur bæði á himni og jörðu og ókunnum vetrarbrautum sálar og alheims. Skáldið er frjálst og lesandinn smakkar á ljóðrænu og taumlausu frelsi við lestur Fagurboðanna.

Fagurboðar, eftir Þórunni Valdimarsdóttur. Útgefandi er JPV, 2024, og er bókin 52 bls. Höfundur gerði kápumynd.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Fréttir af ljóðabókum berast með ýmsum hætti. Áhugafólk um ljóð lætur gjarnan vita af nýjum bókum sem eru nýsis virði. Samfélagsmiðlar dreifa líka stundum fréttum af nýkomnum ljóðabókum.

Þegar leið liggur í bókabúðir er staldrað við borð þar sem prjónaskilti standa upp úr bókastöflunum og á þeim má lesa að þar megi finna nýjar bækur. Innan um verksmiðjuglæpasögurnar leynast stundum ljóðabækur bæði eftir þekkta höfunda og nýja.

Ljóðabækur eru öðruvísi en verksmiðjubókmenntirnar að þær má lesa aftur og aftur. Stundum finnur augað stól í bókabúðinni og þangað er rölt með ljóðabók í höndum og sest niður. Sýniseintakið er lesið á staðnum. Oft er bara byrjað inni í miðri bók eða jafnvel aftast. Síðan er lesið fram og aftur. Þetta er fyrsti lestur í boði verslunarinnar eða höfundarins og forlagsins.

Lesandi sýpur stundum hveljur yfir verði ljóðabóka og eitt andartak finnst honum hvert orð bókarinnar vera býsna dýrt miðað við einnota orðaflaum verksmiðjubókmenntanna. Þá er sagt í undirmeðvitundinni að auðvitað séu orð ljóðabókarinnar dýrari vegna þess að hún geymir dýpri hugsun. Ljóðabókin er líka margnota. Sum ljóð eru lesin aftur og aftur. Þau geyma eitthvert eðalefni sem lesandinn sér og finnur.

Kirkjublaðið.is rak augun í ljóðabókina Fagurboðar í bókaverslun. Nafnið er sérstaklega skemmtilegt og hlaðið fegurð sem springur út í þúsund hugsunum í höfði þess sem sér það. Myndin á kápu bókarinnar er líka full af upplyftingu.

Þegar farið var inn á leitir.is til að athuga hvaða bókasafn hefði Fagurboðana til láns kom bara í ljós að hún var í útláni á öllum söfnum á höfuðborgarsvæðinu. Segið svo að borgarbúar séu bara fastir í íþróttaáhorfi og verksmiðjuglæpasögum. Þarna kemur bara í ljós leyndur hópur ljóðaunnenda, eins og ljóðaáhugafólk er kallað. Aldrei heyrist sagt að einhver sé unnandi glæpasagna – miklu fremur er viðkomandi sólginn í þær. Og hvílíkur munur að vera unnandi einhvers eða sólginn í eitthvað. Með þessu er náttúrlega verið að segja að ljóðaunnendur séu hágæðabókmenntafólk – bara svo það komist til skila.

En eftir útsmognum leiðum fékkst eintak af Fagurboðum Þórunnar Valdimarsdóttur sem segja má að sé meira en rithöfundur og sagnfræðingur. Hún er fjölhöfundur. Fjölskemmtisagnahöfundur – það má örugglega flokka ljóð líka sem sögur – eða hvað er annars saga? Eða ljóð? Stafahvirfilbylur hugans sem fellur sem andleg gróðrarskúr á pappírinn, lesist skjáinn, eða elding úr efri byggðum sem lýsir upp andlegt myrkur.

Þar sem sláttumaður lyklaborðs er ekki bókmenntafræðingur heldur ljóðaunnandi les hann kannski ljóðin með öðrum hætti. Það veitir frelsi.

Lestur ljóðanna í Fagurboðum er hressandi skemmtiferð um kletta og klungur tilverunnar, málsins, hugsunarinnar og þess sem torvelt er að orða en þó reynt. Höfundur bregður sér lesanda til skemmtunar í allra kvikinda líki. Það má segja að Þórunn sé galdrakona, súrrealisti og dadaisti, íhaldsdama og róttæk í senn, viðkvæm kona, nagli, dularfull og yndislega undarleg á köflum svo lífið verður enn fjörlegra fyrir vikið. Orðasmiður og orðaprjónakona en umfram allt listakona sem hressir upp á votviðrasama sumardaga í hinu ofvaxna fiskiþorpi við alla Faxaflóa landsins.

Ljóðskáldið fer um ýmsa stigu mannlegrar tilveru eins og skálda er háttur í ljóðum. Það eru slóðir ástarinnar, vináttunnar, hversdagsins, söknuðar, sorgar, efa, lífsgleðinnar og glannaskapar. Svo má kenna óm af fornum trúarbrögðum og nýjum. Brugðið er á leik við  samhengislausa tilveruna svo úr verður góð uppskrift að öðruvísi degi í lífi lesandans. Hver lesandi verður að stinga sér ofan í bókina. Kaupa hana eða skrifa sig á biðlista hjá bókasöfnunum.

Þar sem þessi pistill um ljóðabókina er skrifaður á vettvangi hins snotra Kirkjublaðs.is sem er minnsta málgagn hvíta Krists norðan Alpafjalla þá er skylda að staldra við þau ljóð þar sem æðri máttarvöld úr kristnum sumarbúðum stíga inn á ljóðasviðið. Hver og einn verður að túlka fyrir sig.

Guð er sennilega ljóðrænn og farvegur ljóðsins er því eins og klæðskerasaumaður fyrir allt sem honum tengist. Ljóðið segir nefnilega meira en sýnist í fyrstu. Ljóðið getur verið dulardjúp andans og skautasvell hins yfirskilvitlega.

Fyrst er það þetta ljóð sem heitir Frelsarinn og er að finna á blaðsíðu 29:

sonur Guðs skal drottna
þótt viðkvæmur sé

lagði undir sig heiminn

viðnám veikari karla
gegn yfirgangi öskurapa

eftir tvö þúsund ár
og trilljón sár
kom loks að konunum

Einvera heitir ljóðið á blaðsíðu 32 og þar kemur fram flokkur Maríu meyja.

Ég er einvera…

opna hálslón
ótalaðra orða.

Einveran járnbindur
viðkvæmnina.

Hnoðar bolta
í stað þeirra sem týndust.

Við erum allar María mey.

Þá skal nefnt ljóðið Á hvítasunnu, er á blaðsíðu 44:

ég veit að allt er laust og aldrei tryggt
en algjör nauðsyn lífs að lafa í draumi
úr grasi lamba og grjóti margt er byggt
sem grátflóð hart svo rífur burt í flaumi

best dafnar sá sem veit hvað draumur er
og engi á sem yfir skilvit sér

elskan mín það orðar sjálfur Guð
að líf vort allt það skuli vera puð
en núna er sólin skjannahvíta skín
ég trúa skal þú komir heim til mín.

Niðurstaða: Fagurboðar eftir Þórunni Valdimarsdóttur er eldfim ljóðabók, full af ljóðrænum sprengikrafti og hversdagslegum fagurboðum sem eiga sér ýmsar rætur bæði á himni og jörðu og ókunnum vetrarbrautum sálar og alheims. Skáldið er frjálst og lesandinn smakkar á ljóðrænu og taumlausu frelsi við lestur Fagurboðanna.

Fagurboðar, eftir Þórunni Valdimarsdóttur. Útgefandi er JPV, 2024, og er bókin 52 bls. Höfundur gerði kápumynd.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir