Það var 31. október árið 1517 sem Marteinn Lúther vatt sér inn á svið mannkynssögunnar.
Þessa dags er víða minnst í löndum mótmælenda þar sem skoðanir Lúthers á kirkju- og samfélagsmálum náðu að skjóta rótum.
Áhrif Marteins Lúthers í mannkynssögunni voru býsna mikil. Almenn menntun tók kipp vegna kröfu hans um að Biblían ætti að vera öllum opin bók og sjálfur tók hann sig til og þýddi hana á þýsku. Lestrarkunnátta tók stökk fram á við. Síðan var Biblían þýdd á hvert móðurmálið á fætur öðru. Nú skyldi hver maður lesa hana og fá leyfi til að túlka hana. Einstaklingurinn varð ábyrgari hvort tveggja gagnvart trú og samfélagi. Segja má að hann hafi ýtt úr vör einstaklingshyggju sem mótuð var af frelsi samviskunnar. Einstaklingurinn hafði og leyfi til að tjá sig.
Á margan má einnig segja að það samfélag sem nú blasir við okkur, veraldlegt og fjölbreytilegt, eigi sér rætur í uppreisn munksins Marteins Lúthers gegn heimsveldi rómversk-kaþólsku kirkjunnar.
Marteinn Lúther fæddist þann 10. nóvember 1483 í litlum þýskum bæ, Eisleben í Thüringen og þar lést hann líka að morgni dags, hinn 18. febrúar 1546. Foreldrar hans, þau Hans og Margrét Luder, ákváðu að hann skyldi ganga menntaveginn. Lúther var bráðvel gefinn nemandi og átján ára gamall var hann kominn í háskólann í Erfurt. Faðir hans vildi láta hann læra lögfræði því að hann taldi það tryggja stöðu sonarins í samfélaginu. En það fór á annan veg. Lúther ýtti laganáminu frá sér og gekk í klaustur. Vera hans í klaustrinu leiddi til þess að hann fékk allt aðra hugmynd um guð kristinna manna en hann hafði alist upp við. Það voru mikil tímamót og ekki aðeins fyrir Lúther sjálfan heldur og alla Evrópu allt til þessa dags.
Talið er að hann hafi fest upp plagg á kirkjuhurð Hallarkirkjunnar í Wittenberg þennan dag og þar mátti lesa 95 athugasemdir hans – kallaðar greinar – um sitthvað sem hann hafði að athuga við kirkjuna og vildi hefja umræðu um. Hann vildi siðbæta kirkjuna. Kirkjan var á villigötum að hans mati, valdagráðug, gírug í fé og eignir, stjórnsöm úr hófi fram og á kafi í pólitík.
Lúther ætlaði sér ekki að stofna nýja kirkju. Gagnrýni hans átti að umbreyta rómversk-kaþólsku kirkjunni og hreinsa hana af ýmsum ósiðum og spillingu sem hann taldi hana hafa fest sig í.
Ecclesia semper reformanda est, segjum við upp á latínu, kirkjan þarfnast sístæðrar siðbótar! Þetta er oft sagt á hátíðlegum stundum. Sannarlega hefur margt breyst í þjóðkirkjunni til batnaðar en allt kirkjufólk þarf að vera vakandi fyrir ýmsum ósiðum sem banka upp á og heilla um stund.
Á siðbótardegi er ágætt að hressa andann með því að lesa smástubb úr ritum Lúthers en af nógu er að taka í því efni en skrif hans fylla 121 bindi, samtals 80 þúsund blaðsíður eftir því sem hin fróða Wikipedia segir. Nokkur rita Lúthers hafa komið út á íslensku, meðal annars ritverk sem kom fyrst út árið 1520, Til hins kristna aðals. Þar segir svo á einum stað sem er holl lesning íslensku þjóðkirkjufólki þar sem kirkjan hneigist mjög til þess að vera prestakirkja sem hún á alls ekki að vera:
Það kemur í einn stað niður hvort menn eru kallaðir andlegrar stéttar. Prestar, biskupar eða páfar eru í engu frábrugðnir öðrum kristnum mönnum nema að því leyti að þeir sinna Guðs orði og sakramentunum, sem er þeirra verkefni. Á sama hátt hefur hið veraldlega yfirvald sverðið og vöndinn í sinni hendi til þess að straffa illræðismenn og vernda hina guðhræddu. Skósmiður, smiður, bóndi: Hver og einn hefur sitt verk að vinna og embættis að gæta og allir eru jafn mikils virði og vígðir prestar og biskupar. Hver og einn skal með vinnu sinni vera öðrum til gagns og þjónustu, því margs konar verk falla til í einum söfnuði. Þeir skulu sinna sál og líkama alveg eins og limir líkamans þjóna hver öðrum.
(Til hins kristna aðals þýskrar þjóðar, ísl. þýðing: Vilborg Auður Ísleifsdóttir, bls. 55, Reykjavík 2012)
Á siðbótardeginum má kaupa í flestum þýskum bakaríum á siðbótarslóðum svokallað siðbótarbrauð (þ. Reformationsbrötchen) sem líka mætti kalla siðbótarsmáköku. Það er líka bakað í heimahúsum, og er ekki ólíkt heimagerðu vínarbrauði. Smákakan minnir og á blóm, til dæmis Lúthersrósina. Hér er uppskriftin svo hægt sé að hafa siðbótarsmákökuna með síðdegiskaffinu:
Uppskriftin
500 g hveiti
40 g ger eða 1 bréf af þurrgeri
30 g sykur 250 ml mjólk (gott er að hafa mjólkina volga og jafnvel hita hana ögn svo gerið kippi fyrr við sér) 50 g smjör (mýkist við stofuhita)
100 g rúsínur
50 g sætar möndlur, muldar/ möndluflögur
Ögn af salti
200 g rauð/appelsínugul sulta/marmelaði
Eftir smekk má bæta við einni matskeið af sítrónusafa eða sítrónubörk af hálfri sítrónu.
Flórsykur
1. Setjið hveitið í skál og búið til holu í miðjunni þar sem þið setjið gerið, sykur og átta msk. mjólk. Blandið öllu saman og stráið meira hveiti yfir. Látið standa á heitum stað þar til deigið hefur lyft sér. Hafið gjarnan rakt viskustykki yfir.
2. Þegar deigið hefur lyft sér skal blanda smjörinu, rúsínum, möndlum, salti (og eftir atvikum sítrónusafanum/berkinum) saman við deigið. Hellið því sem eftir er af mjólkinni saman við og hnoðið saman. Gætið að hitastiginu.
3. Látið deigið lyfta sér í u.þ.b. tvöfalda stærð.
4. Hnoðið svo deigið áfram, fletjið það og skerið út ca. 12 x 12 sm stóra ferninga. Brettið upp á hornin inn að miðju eða útbúið stjörnulaga form með öðrum hætti. Athugið þó að í miðjunni þarf að vera hægt að koma sultunni/marmelaðinu fyrir.
5. Bakið við 200-220°C í um 20 mínútur eða þar til brauðið fer að dökkna.
6. Takið brauðið út úr ofninum. Þegar þær hafa kólnað má strjúka pensli yfir þær með vökva sem í er sítrónusafi, flórsykur og örlítið vatn.
Það var 31. október árið 1517 sem Marteinn Lúther vatt sér inn á svið mannkynssögunnar.
Þessa dags er víða minnst í löndum mótmælenda þar sem skoðanir Lúthers á kirkju- og samfélagsmálum náðu að skjóta rótum.
Áhrif Marteins Lúthers í mannkynssögunni voru býsna mikil. Almenn menntun tók kipp vegna kröfu hans um að Biblían ætti að vera öllum opin bók og sjálfur tók hann sig til og þýddi hana á þýsku. Lestrarkunnátta tók stökk fram á við. Síðan var Biblían þýdd á hvert móðurmálið á fætur öðru. Nú skyldi hver maður lesa hana og fá leyfi til að túlka hana. Einstaklingurinn varð ábyrgari hvort tveggja gagnvart trú og samfélagi. Segja má að hann hafi ýtt úr vör einstaklingshyggju sem mótuð var af frelsi samviskunnar. Einstaklingurinn hafði og leyfi til að tjá sig.
Á margan má einnig segja að það samfélag sem nú blasir við okkur, veraldlegt og fjölbreytilegt, eigi sér rætur í uppreisn munksins Marteins Lúthers gegn heimsveldi rómversk-kaþólsku kirkjunnar.
Marteinn Lúther fæddist þann 10. nóvember 1483 í litlum þýskum bæ, Eisleben í Thüringen og þar lést hann líka að morgni dags, hinn 18. febrúar 1546. Foreldrar hans, þau Hans og Margrét Luder, ákváðu að hann skyldi ganga menntaveginn. Lúther var bráðvel gefinn nemandi og átján ára gamall var hann kominn í háskólann í Erfurt. Faðir hans vildi láta hann læra lögfræði því að hann taldi það tryggja stöðu sonarins í samfélaginu. En það fór á annan veg. Lúther ýtti laganáminu frá sér og gekk í klaustur. Vera hans í klaustrinu leiddi til þess að hann fékk allt aðra hugmynd um guð kristinna manna en hann hafði alist upp við. Það voru mikil tímamót og ekki aðeins fyrir Lúther sjálfan heldur og alla Evrópu allt til þessa dags.
Talið er að hann hafi fest upp plagg á kirkjuhurð Hallarkirkjunnar í Wittenberg þennan dag og þar mátti lesa 95 athugasemdir hans – kallaðar greinar – um sitthvað sem hann hafði að athuga við kirkjuna og vildi hefja umræðu um. Hann vildi siðbæta kirkjuna. Kirkjan var á villigötum að hans mati, valdagráðug, gírug í fé og eignir, stjórnsöm úr hófi fram og á kafi í pólitík.
Lúther ætlaði sér ekki að stofna nýja kirkju. Gagnrýni hans átti að umbreyta rómversk-kaþólsku kirkjunni og hreinsa hana af ýmsum ósiðum og spillingu sem hann taldi hana hafa fest sig í.
Ecclesia semper reformanda est, segjum við upp á latínu, kirkjan þarfnast sístæðrar siðbótar! Þetta er oft sagt á hátíðlegum stundum. Sannarlega hefur margt breyst í þjóðkirkjunni til batnaðar en allt kirkjufólk þarf að vera vakandi fyrir ýmsum ósiðum sem banka upp á og heilla um stund.
Á siðbótardegi er ágætt að hressa andann með því að lesa smástubb úr ritum Lúthers en af nógu er að taka í því efni en skrif hans fylla 121 bindi, samtals 80 þúsund blaðsíður eftir því sem hin fróða Wikipedia segir. Nokkur rita Lúthers hafa komið út á íslensku, meðal annars ritverk sem kom fyrst út árið 1520, Til hins kristna aðals. Þar segir svo á einum stað sem er holl lesning íslensku þjóðkirkjufólki þar sem kirkjan hneigist mjög til þess að vera prestakirkja sem hún á alls ekki að vera:
Það kemur í einn stað niður hvort menn eru kallaðir andlegrar stéttar. Prestar, biskupar eða páfar eru í engu frábrugðnir öðrum kristnum mönnum nema að því leyti að þeir sinna Guðs orði og sakramentunum, sem er þeirra verkefni. Á sama hátt hefur hið veraldlega yfirvald sverðið og vöndinn í sinni hendi til þess að straffa illræðismenn og vernda hina guðhræddu. Skósmiður, smiður, bóndi: Hver og einn hefur sitt verk að vinna og embættis að gæta og allir eru jafn mikils virði og vígðir prestar og biskupar. Hver og einn skal með vinnu sinni vera öðrum til gagns og þjónustu, því margs konar verk falla til í einum söfnuði. Þeir skulu sinna sál og líkama alveg eins og limir líkamans þjóna hver öðrum.
(Til hins kristna aðals þýskrar þjóðar, ísl. þýðing: Vilborg Auður Ísleifsdóttir, bls. 55, Reykjavík 2012)
Á siðbótardeginum má kaupa í flestum þýskum bakaríum á siðbótarslóðum svokallað siðbótarbrauð (þ. Reformationsbrötchen) sem líka mætti kalla siðbótarsmáköku. Það er líka bakað í heimahúsum, og er ekki ólíkt heimagerðu vínarbrauði. Smákakan minnir og á blóm, til dæmis Lúthersrósina. Hér er uppskriftin svo hægt sé að hafa siðbótarsmákökuna með síðdegiskaffinu:
Uppskriftin
500 g hveiti
40 g ger eða 1 bréf af þurrgeri
30 g sykur 250 ml mjólk (gott er að hafa mjólkina volga og jafnvel hita hana ögn svo gerið kippi fyrr við sér) 50 g smjör (mýkist við stofuhita)
100 g rúsínur
50 g sætar möndlur, muldar/ möndluflögur
Ögn af salti
200 g rauð/appelsínugul sulta/marmelaði
Eftir smekk má bæta við einni matskeið af sítrónusafa eða sítrónubörk af hálfri sítrónu.
Flórsykur
1. Setjið hveitið í skál og búið til holu í miðjunni þar sem þið setjið gerið, sykur og átta msk. mjólk. Blandið öllu saman og stráið meira hveiti yfir. Látið standa á heitum stað þar til deigið hefur lyft sér. Hafið gjarnan rakt viskustykki yfir.
2. Þegar deigið hefur lyft sér skal blanda smjörinu, rúsínum, möndlum, salti (og eftir atvikum sítrónusafanum/berkinum) saman við deigið. Hellið því sem eftir er af mjólkinni saman við og hnoðið saman. Gætið að hitastiginu.
3. Látið deigið lyfta sér í u.þ.b. tvöfalda stærð.
4. Hnoðið svo deigið áfram, fletjið það og skerið út ca. 12 x 12 sm stóra ferninga. Brettið upp á hornin inn að miðju eða útbúið stjörnulaga form með öðrum hætti. Athugið þó að í miðjunni þarf að vera hægt að koma sultunni/marmelaðinu fyrir.
5. Bakið við 200-220°C í um 20 mínútur eða þar til brauðið fer að dökkna.
6. Takið brauðið út úr ofninum. Þegar þær hafa kólnað má strjúka pensli yfir þær með vökva sem í er sítrónusafi, flórsykur og örlítið vatn.