Með ljóðabók sinni, Skuggafall og leiðir til ljóssins, hefur listmálarinn Harpa Árnadóttir (f. 1965) gert sér lítið fyrir og komist í raðir okkar ágætustu ljóðskálda.

Harpa tekst á við það sem lífið færir henni af íhygli og kyrrð andans. Heimspekilegar vangaveltur eru í mörgum ljóða hennar og þar kennir líka einlægrar guðstrúar. Henni er umhugað um náttúruna og er athugul á birtingarmyndir hennar í hversdeginum. Ljóðabókin geymir 35 ljóð og þar af tvö prósaljóð.

Guð, heitir eitt ljóða hennar og þar segir hún:

Var í samtali
við vinkonu
um guð
og á meðan
birtist mátturinn
og dýrðin
fyrir augum mér
(bls. 20).

Margt er henni hulið og hún skyggnist undir hið hulda í veröldinni með verkfærum ljóðmálsins. Andspænis gátu lífsins, lífinu sjálfu og dauða, er hún spurul og svarar sjálfri sér iðulega með því að viðurkenna takmarkanir manneskjunnar í heiminum.

Vorið er bjartsýnin
holdi klædd.

Haustið er andvarp
hins liðna
(bls. 35).

Þessi manneskja er í heiminum, í náttúrunni og Harpa er náttúrubarn og talar við hana mitt í flaumi tímans:

Hver sekúnda sem telur tímann
– okkur í burt úr lífinu miðju er aðeins
nú og nú og aldrei meir,
ei meir
(bls 41).

Vettvangur margra ljóða hennar eru Vestfirðir í allri sinni fegurð og dulúð. Þessi landshluti er henni sem akkeri í lífinu enda hún fædd á Bíldudal. Hún er tengd þessum stað órjúfanlegum böndum:

Hjartslátturinn í
tilfinningatakti
við tilveruna
á litlum stað
við djúpan fjörð.

Hér á ég heima
(bls. 9).

Þar hyggst hún fá hinstu hvílu þá að því kemur:

Seinna mun
ég sjálf
orðin að ösku
hvíla í
kirkjugarðinum
fyrir vestan …
(bls. 7).

Ljóðabók Hörpu er tileinkuð föður hennar, séra Árna Bergi Sigurbjörnssyni (1941-2005). Hún minnist föður síns með fallegum hætti í ljóðinu, Faðir minn, og segir meðal annars:

Pabbi kenndi mér
mína stærstu lexíu:

Samband þitt við Guð
er þitt og innra með þér.

Ekkert þarf að heyrast eða sjást.
(bls. 10-11).

Hún er alin upp í Ólafsvík þar sem faðir hennar þjónaði sem prestur. Í fyrrnefndu ljóði um föður sinn bregður hún upp dásamlegum leiftrum úr kirkjunni:

Kirkjubekkurinn óþægilegur,
meðhjálparinn dottandi
fyrir framan mig
(bls. 10).

Og:

Jökullinn vakandi yfir
eins og eilífðin sjálf
(bls. 10).

En borginni bregður líka sannarlega fyrir í ljóðum hennar þó að Vestfirðirnir eigi hug hennar og hjarta.

Kirkjuturnar eins og
himbriminn eða lómurinn
teygjandi sig upp

til almættisins.

Ég mitt á milli
mín og þeirra
– ein á einmana bílastæði
(bls. 12).

Náttúrumyndir koma sterkt fram í mörgum ljóðum hennar:

Hugsa um haustið
það húmar að
og allt er
eins og í biðstöðu
á þröskuldi tilverunnar.

Þú horfir yfir haustlitina
hægeldað síðsumar
að baki og nýfallin
brestandi haustlaufin
undir fótum þér
(bls. 15).

Birtan og ljósið á eins og að líkum lætur hjá skáldi og myndlistarkonu veglegan sess í ljóðum hennar. Nafn bókarinnar nefnir enda leiðir til ljóssins … og ljósinu fylgja skuggar, skuggafall. Ljósið er afl sem manneskjan nærist af og fær í raun aldrei nóg af.

Bíð eftir birtunni,
bíð eilíft eftir birtunni.
Vil fæða birtuna fram,
faðma birtuna,
taka birtuna í fangið,
fá birtuna bleikhvítljósbláa
í fangið.
Inn um sjáöldur mín,
inn í mig alla.

Eftir að hafa dáðst að birtunni,
eftir að hafa setið með birtuna,
hlúð að henni og strokið
hennar síða, ljósa hár,
fundið hana hjúfra sig
upp að mér.
Birtan,
ljósið
mitt
(bls. 25).

Öll veröldin ilmar og skáldið finnur sig eiga heima í ljósinu og ilminum af því sem er og því sem var.

Listaverk hennar prýða bókina og falla vel að ljóðunum. Þau eru umvafin mýkt og hlýju. Listaverkin eru ljóðræn eða öllu heldur eru þau líka á vissan hátt ljóð fyrir augað og tilfinningarnar. Ljóðfylltar myndir hennar eru áhrifamiklar og njóta sín vel þar sem þær kallast á við ljóðatextann með snjöllum hætti.

Í lok bókarinnar er stutt æviágrip listakonunnar og þar má lesa um athyglisverðan og farsælan listferil hennar.

Kirkjublaðið.is hefur margoft hvatt forystufólk í söfnuðum landsins til að huga að ljóðum og ljóðalestri í safnaðarstarfi. Enn skal það gert og ítrekað þegar jafn kröftug bók kemur út eins og sú sem hér hefur verið vikið að í fám orðum.

Kirkjublaðið.is óskar Hörpu Árnadóttur til hamingju með framúrskarandi ljóðabók og hvetur hana til að halda ljóðaiðju sinni áfram sem og myndsköpun.

Skuggafall og leiðir til ljóssins, eftir Hörpu Árnadóttur, útg. er höfundur og Litlaprent prentar. Bókin er 56 blaðsíður.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Með ljóðabók sinni, Skuggafall og leiðir til ljóssins, hefur listmálarinn Harpa Árnadóttir (f. 1965) gert sér lítið fyrir og komist í raðir okkar ágætustu ljóðskálda.

Harpa tekst á við það sem lífið færir henni af íhygli og kyrrð andans. Heimspekilegar vangaveltur eru í mörgum ljóða hennar og þar kennir líka einlægrar guðstrúar. Henni er umhugað um náttúruna og er athugul á birtingarmyndir hennar í hversdeginum. Ljóðabókin geymir 35 ljóð og þar af tvö prósaljóð.

Guð, heitir eitt ljóða hennar og þar segir hún:

Var í samtali
við vinkonu
um guð
og á meðan
birtist mátturinn
og dýrðin
fyrir augum mér
(bls. 20).

Margt er henni hulið og hún skyggnist undir hið hulda í veröldinni með verkfærum ljóðmálsins. Andspænis gátu lífsins, lífinu sjálfu og dauða, er hún spurul og svarar sjálfri sér iðulega með því að viðurkenna takmarkanir manneskjunnar í heiminum.

Vorið er bjartsýnin
holdi klædd.

Haustið er andvarp
hins liðna
(bls. 35).

Þessi manneskja er í heiminum, í náttúrunni og Harpa er náttúrubarn og talar við hana mitt í flaumi tímans:

Hver sekúnda sem telur tímann
– okkur í burt úr lífinu miðju er aðeins
nú og nú og aldrei meir,
ei meir
(bls 41).

Vettvangur margra ljóða hennar eru Vestfirðir í allri sinni fegurð og dulúð. Þessi landshluti er henni sem akkeri í lífinu enda hún fædd á Bíldudal. Hún er tengd þessum stað órjúfanlegum böndum:

Hjartslátturinn í
tilfinningatakti
við tilveruna
á litlum stað
við djúpan fjörð.

Hér á ég heima
(bls. 9).

Þar hyggst hún fá hinstu hvílu þá að því kemur:

Seinna mun
ég sjálf
orðin að ösku
hvíla í
kirkjugarðinum
fyrir vestan …
(bls. 7).

Ljóðabók Hörpu er tileinkuð föður hennar, séra Árna Bergi Sigurbjörnssyni (1941-2005). Hún minnist föður síns með fallegum hætti í ljóðinu, Faðir minn, og segir meðal annars:

Pabbi kenndi mér
mína stærstu lexíu:

Samband þitt við Guð
er þitt og innra með þér.

Ekkert þarf að heyrast eða sjást.
(bls. 10-11).

Hún er alin upp í Ólafsvík þar sem faðir hennar þjónaði sem prestur. Í fyrrnefndu ljóði um föður sinn bregður hún upp dásamlegum leiftrum úr kirkjunni:

Kirkjubekkurinn óþægilegur,
meðhjálparinn dottandi
fyrir framan mig
(bls. 10).

Og:

Jökullinn vakandi yfir
eins og eilífðin sjálf
(bls. 10).

En borginni bregður líka sannarlega fyrir í ljóðum hennar þó að Vestfirðirnir eigi hug hennar og hjarta.

Kirkjuturnar eins og
himbriminn eða lómurinn
teygjandi sig upp

til almættisins.

Ég mitt á milli
mín og þeirra
– ein á einmana bílastæði
(bls. 12).

Náttúrumyndir koma sterkt fram í mörgum ljóðum hennar:

Hugsa um haustið
það húmar að
og allt er
eins og í biðstöðu
á þröskuldi tilverunnar.

Þú horfir yfir haustlitina
hægeldað síðsumar
að baki og nýfallin
brestandi haustlaufin
undir fótum þér
(bls. 15).

Birtan og ljósið á eins og að líkum lætur hjá skáldi og myndlistarkonu veglegan sess í ljóðum hennar. Nafn bókarinnar nefnir enda leiðir til ljóssins … og ljósinu fylgja skuggar, skuggafall. Ljósið er afl sem manneskjan nærist af og fær í raun aldrei nóg af.

Bíð eftir birtunni,
bíð eilíft eftir birtunni.
Vil fæða birtuna fram,
faðma birtuna,
taka birtuna í fangið,
fá birtuna bleikhvítljósbláa
í fangið.
Inn um sjáöldur mín,
inn í mig alla.

Eftir að hafa dáðst að birtunni,
eftir að hafa setið með birtuna,
hlúð að henni og strokið
hennar síða, ljósa hár,
fundið hana hjúfra sig
upp að mér.
Birtan,
ljósið
mitt
(bls. 25).

Öll veröldin ilmar og skáldið finnur sig eiga heima í ljósinu og ilminum af því sem er og því sem var.

Listaverk hennar prýða bókina og falla vel að ljóðunum. Þau eru umvafin mýkt og hlýju. Listaverkin eru ljóðræn eða öllu heldur eru þau líka á vissan hátt ljóð fyrir augað og tilfinningarnar. Ljóðfylltar myndir hennar eru áhrifamiklar og njóta sín vel þar sem þær kallast á við ljóðatextann með snjöllum hætti.

Í lok bókarinnar er stutt æviágrip listakonunnar og þar má lesa um athyglisverðan og farsælan listferil hennar.

Kirkjublaðið.is hefur margoft hvatt forystufólk í söfnuðum landsins til að huga að ljóðum og ljóðalestri í safnaðarstarfi. Enn skal það gert og ítrekað þegar jafn kröftug bók kemur út eins og sú sem hér hefur verið vikið að í fám orðum.

Kirkjublaðið.is óskar Hörpu Árnadóttur til hamingju með framúrskarandi ljóðabók og hvetur hana til að halda ljóðaiðju sinni áfram sem og myndsköpun.

Skuggafall og leiðir til ljóssins, eftir Hörpu Árnadóttur, útg. er höfundur og Litlaprent prentar. Bókin er 56 blaðsíður.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir