Það er full ástæða til að vekja athygli á kvikmyndinni Ljósbroti sem er sýnd um þessar mundir í Bíó-Paradís. Hún hefur þegar fengið alþjóðleg verðlaun á kvikmyndasýningum og á efalaust eftir að fá fleiri viðurkenningar.

Fallegar tilfinningar og djúpar streyma fram á tjaldinu. Þar koma við sögu ást, svik, sorg, afbrýðissemi og vinátta. Leiftur úr lífi ungs fólks sem er á leið út í lífið þar sem margt verður á vegi þess. Það tekur á að glíma við svo brothættar tilfinningar.

Frásögn kvikmyndarinnar er ljóðræn og hrífur áhorfandann og fyllir hann af samkennd með öllum persónum. Ungt ástfangið fólk er í önnum hversdagsins þegar dauðinn skerst í leik lífsins með skjótum hætti. Eftir stendur sár söknuður, engar ásakanir út í lífið né annað fólk. Aðeins tilfinningalegt hrap.

Myndin snýst um ást sem slokknar og ást sem vaknar. Kannski má kalla það framhjáhald sem leiðir til óvæntra og náinna samskipta þeirra sem elska sama manninn. Klara sem missti unnusta sinn og Una sem tók hann frá henni án þess að hún vissi fléttast saman með ljóðrænum og ljúfsárum hætti sem áhorfandi tekur þátt í vegna þess að hann veit leyndarmál Unu. Í lofti er aðeins sú spenna hvort Una segi frá því að unnustinn, Diddi, hafi verið á leið til Klöru til að segja henni upp. Dauðinn batt endi á þá ferð svo ástleysiskveðjan náði aldrei áfangastað.

Áhorfandinn tekur líka þátt í angist Unu sem fyllist afbrýðissemi út í Klöru vegna þess að samúðarkveðjur streyma til hennar enda var hún unnustan. Forboðin afbrýðissemi tekur hart á Unu en hún stenst álagið.

Þetta er ungt fólk. Það er engin væmni heldur einlægni, heiðarleiki og ástúð. Unga fólkið huggar hvert annað með faðmlögum og talar saman um þann voðaatburð sem hreif vin þeirra í dauðann ásamt fleirum. Það er ljóðræn fegurð í því hvernig tekist er á við sorgina með því að detta í það, dansa og fá útrás við það. Vera saman.

Í þessari mynd má segja að sýnd sé hversdagsleg sálusorgun ungs fólks. Vissulega er sett upp neyðarmóttökustöð í kjölfar slyssins sem myndin dregur efnisþráð sinn úr. Þar er Rauði krossinn í forsvari og einn klerk ber þar við augu. Klerkur sá sem sr. Sigurður Kr. Sigurðsson leikur er glæstur fulltrúi kirkjunnar, sem klettur í hafi. Hann er á staðnum. Er. Fólk leitar frétta af ástvinum á fjöldahjálparstöðinni og því er sinnt með kærleika og faðmlögum.

Faðmlag er mesta sálusorgun sem hægt er að hugsa sér. Ef þú kannt að faðma í þessum aðstæðum ertu góður sálusorgari.

Þau eru glæsileg myndskeiðin sem tekin eru í og við Hallgrímskirkju. Þau sýna hve mikið listaverk kirkjuhúsið er og hvernig hægt er að nýta það við sálusorgun í atriðinu þegar Klara, unnusta hins látna, flýgur svo að segja upp turninn, með listrænni aðferð Unu.

Lok myndarinnar kallast á við upphafið. Í upphafi sitja þau Una og Diddi í grýttri fjöru og horfa á sólarlagið. Hjá þeim er nýtt líf að hefjast. Í lok myndarinnar sitja þær Una og Klara í sömu fjöru. Syrgja ástvininn. Finnst sem hann, Diddi, sé í sólarlaginu að kveðja þær.

Rúnar Rúnarsson, leikstjóri myndarinnar, var valinn besti leikstjórinn á Evrópsku kvikmyndahátíðinni í Palic í Serbíu. Ljósbrot hlaut aðalverðlaun alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar Cinehill í Króatíu. Einnig verðlaun Alþjóðlegra samtaka kvikmyndagagnrýnenda. Hún hefur verið valin til sýningar í aðaldagskrá kvikmyndahátíðarinnar í Cannes 2024 og verður opnunarmynd í Un Certain Regard flokki hátíðarinnar.

Elín Hall, leikur Unu, Baldur Einarsson leikur Didda og Katla Njálsdóttir leikur Klöru. Fleiri efnilegir ungir leikarar koma við sögu. Margreyndur stórleikarinn Þorsteinn Bachmann kemur fyrir í stuttu en eftirminnilegu atriði.

 

 

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Það er full ástæða til að vekja athygli á kvikmyndinni Ljósbroti sem er sýnd um þessar mundir í Bíó-Paradís. Hún hefur þegar fengið alþjóðleg verðlaun á kvikmyndasýningum og á efalaust eftir að fá fleiri viðurkenningar.

Fallegar tilfinningar og djúpar streyma fram á tjaldinu. Þar koma við sögu ást, svik, sorg, afbrýðissemi og vinátta. Leiftur úr lífi ungs fólks sem er á leið út í lífið þar sem margt verður á vegi þess. Það tekur á að glíma við svo brothættar tilfinningar.

Frásögn kvikmyndarinnar er ljóðræn og hrífur áhorfandann og fyllir hann af samkennd með öllum persónum. Ungt ástfangið fólk er í önnum hversdagsins þegar dauðinn skerst í leik lífsins með skjótum hætti. Eftir stendur sár söknuður, engar ásakanir út í lífið né annað fólk. Aðeins tilfinningalegt hrap.

Myndin snýst um ást sem slokknar og ást sem vaknar. Kannski má kalla það framhjáhald sem leiðir til óvæntra og náinna samskipta þeirra sem elska sama manninn. Klara sem missti unnusta sinn og Una sem tók hann frá henni án þess að hún vissi fléttast saman með ljóðrænum og ljúfsárum hætti sem áhorfandi tekur þátt í vegna þess að hann veit leyndarmál Unu. Í lofti er aðeins sú spenna hvort Una segi frá því að unnustinn, Diddi, hafi verið á leið til Klöru til að segja henni upp. Dauðinn batt endi á þá ferð svo ástleysiskveðjan náði aldrei áfangastað.

Áhorfandinn tekur líka þátt í angist Unu sem fyllist afbrýðissemi út í Klöru vegna þess að samúðarkveðjur streyma til hennar enda var hún unnustan. Forboðin afbrýðissemi tekur hart á Unu en hún stenst álagið.

Þetta er ungt fólk. Það er engin væmni heldur einlægni, heiðarleiki og ástúð. Unga fólkið huggar hvert annað með faðmlögum og talar saman um þann voðaatburð sem hreif vin þeirra í dauðann ásamt fleirum. Það er ljóðræn fegurð í því hvernig tekist er á við sorgina með því að detta í það, dansa og fá útrás við það. Vera saman.

Í þessari mynd má segja að sýnd sé hversdagsleg sálusorgun ungs fólks. Vissulega er sett upp neyðarmóttökustöð í kjölfar slyssins sem myndin dregur efnisþráð sinn úr. Þar er Rauði krossinn í forsvari og einn klerk ber þar við augu. Klerkur sá sem sr. Sigurður Kr. Sigurðsson leikur er glæstur fulltrúi kirkjunnar, sem klettur í hafi. Hann er á staðnum. Er. Fólk leitar frétta af ástvinum á fjöldahjálparstöðinni og því er sinnt með kærleika og faðmlögum.

Faðmlag er mesta sálusorgun sem hægt er að hugsa sér. Ef þú kannt að faðma í þessum aðstæðum ertu góður sálusorgari.

Þau eru glæsileg myndskeiðin sem tekin eru í og við Hallgrímskirkju. Þau sýna hve mikið listaverk kirkjuhúsið er og hvernig hægt er að nýta það við sálusorgun í atriðinu þegar Klara, unnusta hins látna, flýgur svo að segja upp turninn, með listrænni aðferð Unu.

Lok myndarinnar kallast á við upphafið. Í upphafi sitja þau Una og Diddi í grýttri fjöru og horfa á sólarlagið. Hjá þeim er nýtt líf að hefjast. Í lok myndarinnar sitja þær Una og Klara í sömu fjöru. Syrgja ástvininn. Finnst sem hann, Diddi, sé í sólarlaginu að kveðja þær.

Rúnar Rúnarsson, leikstjóri myndarinnar, var valinn besti leikstjórinn á Evrópsku kvikmyndahátíðinni í Palic í Serbíu. Ljósbrot hlaut aðalverðlaun alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar Cinehill í Króatíu. Einnig verðlaun Alþjóðlegra samtaka kvikmyndagagnrýnenda. Hún hefur verið valin til sýningar í aðaldagskrá kvikmyndahátíðarinnar í Cannes 2024 og verður opnunarmynd í Un Certain Regard flokki hátíðarinnar.

Elín Hall, leikur Unu, Baldur Einarsson leikur Didda og Katla Njálsdóttir leikur Klöru. Fleiri efnilegir ungir leikarar koma við sögu. Margreyndur stórleikarinn Þorsteinn Bachmann kemur fyrir í stuttu en eftirminnilegu atriði.

 

 

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir