Neskirkja er í fararbroddi þeirra kirkna sem sinna menningunni af krafti og myndarskap samhliða öflugu kirkjustarfi. Þetta ættu allar kirkjur að taka sér til fyrirmyndar og opna dyr sínar í miklu ríkari mæli fyrir menningarlegri starfsemi sem tengja má með margvíslegum hætti við hina trúarlegu starfsemi sem fram fer í kirkjuhúsunum.

Síðastliðinn sunnudag var opnuð sýning á verkum listakonunnar Erlu S. Haraldsdóttur á Torginu í Neskirkju. Sýningaraðstaðan á Torginu er búin að festa sig vel í sessi og er eftirsótt af listamönnum.

Sóknarpresturinn dr. Skúli S. Ólafsson hefur þann snjalla hátt á að flétta efni einstakra listaverka á opnunardegi hverrar sýningar inn í prédikun sína. Það gerir hann með eftirtektarverðum hætti og oft nýstárlegum. Trú, list og samfélag vefjast þétt saman og orðsins list tekur svo að segja í hönd annarra listgreina sem hafa sest um stund að á Torginu.

Listakonan við nokkur verk sín á Torginu 

Erla S. Haraldsdóttir (f. 1967), listakona, sýnir verk sín á Torginu í Neskirkju. Hún stundaði nám við Konunglega Listaháskólann í Stokkhólmi, the San Francisco Arts Institute og útskrifaðist frá Listaháskólanum Valand í Gautaborg 1998.

Erla hefur haldið fjölmargar sýningar hér á landi og í útlöndum. Sérstaklega má nefna sýningar sem hún hefur haldið í Hallgrímskirkju og Dómkirkjunni í Lundi. Auk sýningarinnar á Torginu stendur yfir sýning á verkum hennar í Listasafni Árnesinga.

Erla býr og starfar í Berlín. Frá 2011 til 2015 var hún gestaprófessor við Listaakademíuna í Umeå, Svíþjóð.

Verkin sem Erla sýnir hafa trúar- og menningarlegar skírskotanir og þær eru ekki aðeins sóttar í kristna sögu heldur og til annarra trúarbragða og þjóðsagna. Listakonan lítur svo á að hún eigi samfund með þessum skírskotunum.

Trúarbrögð, þjóðsagnir og þjóðhættir, arfur sagna og menningar, geyma hugmyndir mannsins um anda og æðri máttarvöld. Ekkert er nýtt undir sólinni í þeim efnum.

Listakonan ígrundar ýmsa trúarlega þræði menningarinnar. Þar má fyrst nefna stærsta verkið á sýningunni sem er Boðun Maríu. Verkið er samsett; olía á striga og akrýl á vegg, stærð: 190 x 190cm. Annars vegar lítil vangamynd af Gabríel og út frá henni málar listakonan á vegginn engilinn í fullri stærð. Á sama hátt málar listakonan Maríu guðsmóður út frá vangamynd af henni. Þessi mynd grípur augað strax og komið er inn í sýningarsalinn. Áhorfandinn hugsar kannski með sér að þessi mynd ætti náttúrlega alltaf að vera þarna því svo virðist sem veggurinn hafi beðið eftir myndinni. En það er nú önnur saga! Engillinn er ögn alvarlegur á svip enda engin hversdagsleg mál á ferð og svo er að sjá sem Maríu hafi jafnvel brugðið í brún. Hún er mjög hugsi á svip og líkami hennar dálítið samankipraður eins og óttinn hafi ætt um hvern vöðva. Þó að María sé grænklædd þá er litur hennar, sá blái, ekki langt undan, í ferningi á bak við hana.

Boðunarmyndir Maríu eru alveg sérstakur flokkur trúarlegra mynda innan kristinnar listar. Myndefnið hefur að vonum verið eitt það vinsælasta og sett fram á öllum öldum. Fæstir hafa vikið frá hefðbundinni framsetningu á myndefninu og því öllum ljóst hvaða trúarlega atburð listamaðurinn er að fást við hverju sinni. Sjálfur atburðurinn, frásögnin, er einfaldur þó að atburðarásin hafi orðið býsna flókin svo ekki sé meira sagt, en listamaðurinn hefur það í höndum sínum hvernig hann setur fram andann, eða öllu heldur heilögu andartökin – þ.e.a.s. þegar orð engilsins heyrast, þegar María finnur návist hins heilaga og svo þegar hún heyrir skilaboðin – og þá þegar hún skilur þau. Eflaust eru fleiri tilfinningastig þarna á milli og þau hafa listamenn allra alda reynt að finna með misjöfnum árangri eins og gengur.

Erla sýnir á einum vegg myndasyrpu með átta myndum. Þar má meðal annars sjá engilsmynd, mjög svo hefðbundna undan allgleiðu horni, vertigo-kross, bænabeiðu og laublað af rifblöðku (monstera). Táknin sem myndirnar sýna standa fyrir mismunandi þætti ólíkra menninga en hafa þó einhvers konar andlega skírskotun sem dregur sterkt fram handanveruleika hins raunverulega. Skýringarlaust geta þessar myndir glatað merkingu sinni og áhorfandinn skynjar þær með öðrum hætti ef væru hnitmiðaðar skýringar á því efni sem hver mynd sýnir.

Myndin Ræturnar, er mjög áhrifamikil í einfaldri táknframsetningu sinni. Hún er frá árinu 2012 (allar hinar myndirnar eru frá 2024), 120 x 70 cm. Þar leika saman kunnugleg tákn, indversk sól (tákn sólar hjá Indverjum eru afar mörg), jurt með rætur sem ganga í gegnum stólpa með hvítum og dökkum rákum sem nemur við hvítfyssandi brún hafs eða vatns; getur verið foss eða lífskertið sem brennur niður og liðast niður í mislit jarðlög.

Á austurvegg Torgsins er ellefu myndir, blýantsmyndir, sumar með blaðgulli. Listakonan teflir þessum myndum fram sem samfundum við tilekin verk og listamenn, atburði eins og sólmyrkra á Manhattan í New York. Fyrsti samfundurinn er við eftirmynd af hinni frægu mynd ítalska endurreisnarmálarans Fra Angelico (1395-1455).

Sýningin ber heitið Tæri og heitið er útskýrt sérstaklega á vegg. Allir kannast við það að komast í tæri við eitthvað og í því samhengi má spyrja hver er tímalengdin á fyrirbærinu tæri. Listakonan leitar til orðsifjabókar og dregur þar fram orðin tengsl og félagsskapur – en samheitið er kynni. Allir vita að kynni geta ýmist verið stutt eða löng. Listamaðurinn hefur sjálfur augljóslega haft löng kynni af myndstefjum sínum sem sýnd eru en öðru máli kann að gegna um áhorfandann. Þetta gætu í sumum tilvikum verið hans fyrstu kynni við myndir af þessu tagi og því vakið upp fjölmargar spurningar sem ekki er svarað og ástæðan kann að vera ósköp hversdagsleg: Það reyndist ekki vera nægur tími.

Spennandi hefði verið að sjá listakonuna ganga lengra áfram með öll verk sín út frá kynnum sínum að þeim verkum sem hún fæst við. Henni tekst vel til með að draga fram þau áhrif sem boðunarmynd Fra Angelico hefur á hana sem og símtæki Andys Warhol (1928-1987) frá 1961 sem leiðir hana til snjallsímans og spurningarinnar um hvort hann sé tilbeiðslutæki.

Torgið býður upp á framúrskarandi góða sýningaraðstöðu hvað snertir rými og vettvang til umræðna og fræðslu.

Aðalkosturinn við listsýningarrýmið í Neskirkju er að það er bjart og hátt til lofts. Þess vegna njóta listaverk sín þar afar vel hvort sem þau eru mörg eða fá. Rýmið mætti stækka með einföldum hætti ef settur væri færanlegur veggur fyrir framan hinn mikla glugga á norðurhliðinni. Sá veggur getur verið mishár eftir því hvers konar sýningar yrðu settar upp. Þetta er nefnt hér til ábendingar því í sumum tilvikum getur glugginn stóri rofið heildarsvip sýningar með of mikilli birtu. Umferð og mannaferðir fyrir utan geta truflað sýn á verk. Minni glugginn sleppur sennilega allajafna hvað þetta snertir.

Símtæki Andys Warhol og snjallsíminn umkringdur sólu

Sýningarskráin er mjög upplýsandi og tengir gestinn við sýninguna. Spyrja mætti hvort ekki hefði verið heppilegra að hafa vel meitlaða veggtexta við verkin til að gestir séu ekki of bundnir því að lesa sýningarskrána. Flest verkanna eru þess eðlis að þau kalla á skýringar til að aðstoða sýningargesti við að átta sig á þeim og samhenginu.

Myndröð

Fra Angelico – frummynd – mynd: Wikipedia

Fra Angelico – teikning Erlu S. Haraldsdóttur

Verk Erlu út frá kynnum af Fra Angelico – stærð: 190 x 190cm

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Neskirkja er í fararbroddi þeirra kirkna sem sinna menningunni af krafti og myndarskap samhliða öflugu kirkjustarfi. Þetta ættu allar kirkjur að taka sér til fyrirmyndar og opna dyr sínar í miklu ríkari mæli fyrir menningarlegri starfsemi sem tengja má með margvíslegum hætti við hina trúarlegu starfsemi sem fram fer í kirkjuhúsunum.

Síðastliðinn sunnudag var opnuð sýning á verkum listakonunnar Erlu S. Haraldsdóttur á Torginu í Neskirkju. Sýningaraðstaðan á Torginu er búin að festa sig vel í sessi og er eftirsótt af listamönnum.

Sóknarpresturinn dr. Skúli S. Ólafsson hefur þann snjalla hátt á að flétta efni einstakra listaverka á opnunardegi hverrar sýningar inn í prédikun sína. Það gerir hann með eftirtektarverðum hætti og oft nýstárlegum. Trú, list og samfélag vefjast þétt saman og orðsins list tekur svo að segja í hönd annarra listgreina sem hafa sest um stund að á Torginu.

Listakonan við nokkur verk sín á Torginu 

Erla S. Haraldsdóttir (f. 1967), listakona, sýnir verk sín á Torginu í Neskirkju. Hún stundaði nám við Konunglega Listaháskólann í Stokkhólmi, the San Francisco Arts Institute og útskrifaðist frá Listaháskólanum Valand í Gautaborg 1998.

Erla hefur haldið fjölmargar sýningar hér á landi og í útlöndum. Sérstaklega má nefna sýningar sem hún hefur haldið í Hallgrímskirkju og Dómkirkjunni í Lundi. Auk sýningarinnar á Torginu stendur yfir sýning á verkum hennar í Listasafni Árnesinga.

Erla býr og starfar í Berlín. Frá 2011 til 2015 var hún gestaprófessor við Listaakademíuna í Umeå, Svíþjóð.

Verkin sem Erla sýnir hafa trúar- og menningarlegar skírskotanir og þær eru ekki aðeins sóttar í kristna sögu heldur og til annarra trúarbragða og þjóðsagna. Listakonan lítur svo á að hún eigi samfund með þessum skírskotunum.

Trúarbrögð, þjóðsagnir og þjóðhættir, arfur sagna og menningar, geyma hugmyndir mannsins um anda og æðri máttarvöld. Ekkert er nýtt undir sólinni í þeim efnum.

Listakonan ígrundar ýmsa trúarlega þræði menningarinnar. Þar má fyrst nefna stærsta verkið á sýningunni sem er Boðun Maríu. Verkið er samsett; olía á striga og akrýl á vegg, stærð: 190 x 190cm. Annars vegar lítil vangamynd af Gabríel og út frá henni málar listakonan á vegginn engilinn í fullri stærð. Á sama hátt málar listakonan Maríu guðsmóður út frá vangamynd af henni. Þessi mynd grípur augað strax og komið er inn í sýningarsalinn. Áhorfandinn hugsar kannski með sér að þessi mynd ætti náttúrlega alltaf að vera þarna því svo virðist sem veggurinn hafi beðið eftir myndinni. En það er nú önnur saga! Engillinn er ögn alvarlegur á svip enda engin hversdagsleg mál á ferð og svo er að sjá sem Maríu hafi jafnvel brugðið í brún. Hún er mjög hugsi á svip og líkami hennar dálítið samankipraður eins og óttinn hafi ætt um hvern vöðva. Þó að María sé grænklædd þá er litur hennar, sá blái, ekki langt undan, í ferningi á bak við hana.

Boðunarmyndir Maríu eru alveg sérstakur flokkur trúarlegra mynda innan kristinnar listar. Myndefnið hefur að vonum verið eitt það vinsælasta og sett fram á öllum öldum. Fæstir hafa vikið frá hefðbundinni framsetningu á myndefninu og því öllum ljóst hvaða trúarlega atburð listamaðurinn er að fást við hverju sinni. Sjálfur atburðurinn, frásögnin, er einfaldur þó að atburðarásin hafi orðið býsna flókin svo ekki sé meira sagt, en listamaðurinn hefur það í höndum sínum hvernig hann setur fram andann, eða öllu heldur heilögu andartökin – þ.e.a.s. þegar orð engilsins heyrast, þegar María finnur návist hins heilaga og svo þegar hún heyrir skilaboðin – og þá þegar hún skilur þau. Eflaust eru fleiri tilfinningastig þarna á milli og þau hafa listamenn allra alda reynt að finna með misjöfnum árangri eins og gengur.

Erla sýnir á einum vegg myndasyrpu með átta myndum. Þar má meðal annars sjá engilsmynd, mjög svo hefðbundna undan allgleiðu horni, vertigo-kross, bænabeiðu og laublað af rifblöðku (monstera). Táknin sem myndirnar sýna standa fyrir mismunandi þætti ólíkra menninga en hafa þó einhvers konar andlega skírskotun sem dregur sterkt fram handanveruleika hins raunverulega. Skýringarlaust geta þessar myndir glatað merkingu sinni og áhorfandinn skynjar þær með öðrum hætti ef væru hnitmiðaðar skýringar á því efni sem hver mynd sýnir.

Myndin Ræturnar, er mjög áhrifamikil í einfaldri táknframsetningu sinni. Hún er frá árinu 2012 (allar hinar myndirnar eru frá 2024), 120 x 70 cm. Þar leika saman kunnugleg tákn, indversk sól (tákn sólar hjá Indverjum eru afar mörg), jurt með rætur sem ganga í gegnum stólpa með hvítum og dökkum rákum sem nemur við hvítfyssandi brún hafs eða vatns; getur verið foss eða lífskertið sem brennur niður og liðast niður í mislit jarðlög.

Á austurvegg Torgsins er ellefu myndir, blýantsmyndir, sumar með blaðgulli. Listakonan teflir þessum myndum fram sem samfundum við tilekin verk og listamenn, atburði eins og sólmyrkra á Manhattan í New York. Fyrsti samfundurinn er við eftirmynd af hinni frægu mynd ítalska endurreisnarmálarans Fra Angelico (1395-1455).

Sýningin ber heitið Tæri og heitið er útskýrt sérstaklega á vegg. Allir kannast við það að komast í tæri við eitthvað og í því samhengi má spyrja hver er tímalengdin á fyrirbærinu tæri. Listakonan leitar til orðsifjabókar og dregur þar fram orðin tengsl og félagsskapur – en samheitið er kynni. Allir vita að kynni geta ýmist verið stutt eða löng. Listamaðurinn hefur sjálfur augljóslega haft löng kynni af myndstefjum sínum sem sýnd eru en öðru máli kann að gegna um áhorfandann. Þetta gætu í sumum tilvikum verið hans fyrstu kynni við myndir af þessu tagi og því vakið upp fjölmargar spurningar sem ekki er svarað og ástæðan kann að vera ósköp hversdagsleg: Það reyndist ekki vera nægur tími.

Spennandi hefði verið að sjá listakonuna ganga lengra áfram með öll verk sín út frá kynnum sínum að þeim verkum sem hún fæst við. Henni tekst vel til með að draga fram þau áhrif sem boðunarmynd Fra Angelico hefur á hana sem og símtæki Andys Warhol (1928-1987) frá 1961 sem leiðir hana til snjallsímans og spurningarinnar um hvort hann sé tilbeiðslutæki.

Torgið býður upp á framúrskarandi góða sýningaraðstöðu hvað snertir rými og vettvang til umræðna og fræðslu.

Aðalkosturinn við listsýningarrýmið í Neskirkju er að það er bjart og hátt til lofts. Þess vegna njóta listaverk sín þar afar vel hvort sem þau eru mörg eða fá. Rýmið mætti stækka með einföldum hætti ef settur væri færanlegur veggur fyrir framan hinn mikla glugga á norðurhliðinni. Sá veggur getur verið mishár eftir því hvers konar sýningar yrðu settar upp. Þetta er nefnt hér til ábendingar því í sumum tilvikum getur glugginn stóri rofið heildarsvip sýningar með of mikilli birtu. Umferð og mannaferðir fyrir utan geta truflað sýn á verk. Minni glugginn sleppur sennilega allajafna hvað þetta snertir.

Símtæki Andys Warhol og snjallsíminn umkringdur sólu

Sýningarskráin er mjög upplýsandi og tengir gestinn við sýninguna. Spyrja mætti hvort ekki hefði verið heppilegra að hafa vel meitlaða veggtexta við verkin til að gestir séu ekki of bundnir því að lesa sýningarskrána. Flest verkanna eru þess eðlis að þau kalla á skýringar til að aðstoða sýningargesti við að átta sig á þeim og samhenginu.

Myndröð

Fra Angelico – frummynd – mynd: Wikipedia

Fra Angelico – teikning Erlu S. Haraldsdóttur

Verk Erlu út frá kynnum af Fra Angelico – stærð: 190 x 190cm

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir