Seltjarnarneskirkju barst í gær stórhöfðingleg gjöf frá dr. Ágústi Einarssyni og eiginkonu hans, Kristínu S. Ingólfsdóttur. Gjöfin er stórt málverk eftir listmálarann Einar Hákonarson (f. 1945), og heitir Pálmasunnudagur og var málað 1982. Verkið er gefið til minningar um feðginin Selmu Kaldalóns (1919-1984) og Sigvalda Kaldalóns (1881-1946).
Formaður sóknarnefndar, dr. Svana Helen Björnsdóttir, tók við gjöfinni fyrir hönd safnaðarins. Málverkið var afhent formlega í lok guðsþjónustu í kirkjunni en áður flutti Rakel Pétursdóttir, safnafræðingur, athyglisvert erindi um Einar sem hún kallaði Formgerðir og litir í málverkum Einars Hákonarsonar og endurreisn svartlistar á Íslandi.
Sóknarpresturinn, sr. Bjarni Þór Bjarnason, þjónaði fyrir altari, en dr. Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor emeritus, prédikaði.
Einar Hákonarson hefur um margt sérstöðu meðal íslenskra listamanna. Hann hefur ætíð verið maður málverksins og grafíklistarinnar og ekki látið listastefnur líðandi stundar trufla sig. Einar hefur litið á sig sem sérstakan talsmann málverksins og fannst lengi vel að því sótt en barðist með oddi og egg fyrir lífi þess. Einn þáttur í þeirri baráttu var hið dirfskufulla verk hans að reisa sem einstaklingur listasafn í Hveragerði, Listaskála Einars Hákonarsonar, sem helgaður skyldi málverkinu. Þetta var menningarmiðstöð með áherslu á málverkið og eins gefur að skilja voru haldnar þar málverkasýningar svo tugum skipti. Auk þess var boðið upp á fjölbreytilega dagskrá tónlistar-, leiklistar- og bókmenntaviðburða. Nú er Listasafn Árnesinga rekið í skálanum en húsnæðið þykir einkar vel heppnað sýningarhús.
Einar er með okkar bestu listamönnum og fór fyrir endurreisn málverksins þegar nokkuð ljóst var að dagar strangflatarlistarinnar voru senn á enda. Endurreisn Einars var hins vegar ekki svo að hann sneri aftur til fyrri tíma heldur endurnýjaði hann málverkið eftir eigin höfði, ef svo má segja. Fígúratífar myndir sneru aftur með öðrum hætti en áður og nú var myndefnið manneskjan í nútímaumhverfi sínu, manneskjan á daglegum vettvangi sínum, manneskjan í angist sinni og leit að sjálfri sér í firrtum heimi. Þar var líka pólitík. Manneskjan stígur inn í málverk Einars sem dálítið óttaslegin andspænis nútímanum og drættir hennar mótast af því. Þessir oft óljósu drættir töluðu sterkt inn í samtímann því á umrótatímum kalda stríðsins upp úr 1970 var svo margt í vestrænni dægurmenningu fljótandi og ekki alltaf fast land undir fótum en um leið var frelsi einstaklingsins fagnað í blómabyltingu og listum.
Einar var og er öðrum snjallari í meðferð lita og forms sem hæfðu þessari nýju rödd í listinni. Ákveðin birta var yfir öllum verkum hans, bjartir litir og líflegir í anda popplistarinnar.
En á langri listamannsævi hefur Einar að sjálfsögðu fengist við ýmsar tegundir verka. Hann hefur löngum verið eftirsóttur portrettmálari og svo hefur hann málað myndir með trúarlegum stefjum. Segja má að hann sé öflugur kirkjulistamaður þegar horft er til þeirra málverka sem og steindra glugga sem hann hefur gert eins og í Seljakirkju í Reykjavík. Einar er með fróðlega vefsíðu sem hér má sjá.
Myndin sem Seltjarnarneskirkja fékk að gjöf í gær, Pálmasunnudagur, er á margan hátt mjög lýsandi fyrir listsköpun Einars. Það er mikil hreyfing í myndinni og glaðværir litir. Miðja myndarinnar er að sjálfsögðu Kristur með geislabaug umkringis höfuðið, innri hluti baugsins getur minnt á tannhjól. Hann er skarpleitur í eilítið bleikum kyrtli og hægri hönd hvílir á lend asnans. Kristur lítur til hliðar en í þessum hópi sem fagnar honum eru bæði karlar og konur í nútímalegum klæðum. Gömul frásögn er ekki slitin úr samhengi sínu þó að hún sé færð yfir til nútímans. Sérstaklega skemmtileg tilfærsla í tíma er maðurinn fremst hægra megin sem er með smarta hliðartösku sjónvarpsfréttamannsins og heldur á upptökuvél. Auðvitað var innreiðin í Jerúsalem stórfrétt – já, svo mikil frétt að enn er talað um hana.

Dr. Ágúst Einarsson flutti ávarp fyrir hönd gefenda listaverksins, Pálmasunnudagur

Dr. Gunnlaugur A. Jónsson, prédikaði

Þau stilltu sér upp við listaverkið enda með einum eða öðrum hætti tengd því. Frá vinstri: Ágúst Ólafur Ágústsson, Hákon Einarsson, Bjarni Þór Bjarnason, Gunnlaugur A. Jónsson, Kristrún Ágústsdóttir, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Svana Helen Björnsdóttir, Ágúst Einarsson, Elísabet Una Ágústsdóttir, María Guðrún Ágústsdóttir og Hjálmar Einarsson. – Eiginkona Ágústs Einarssonar, Kristínu S. Ingólfsdóttur, gat ekki verið viðstödd þar sem hún var á sjúkrahúsi. Sama er að segja um listamanninn, Einar Hákonarson, hann gat ekki heldur verið viðstaddur vegna þess að hann dvelst um þessar mundir á sjúkrahúsi.
——
Prédikun dr. Gunnlaugs A. Jónssonar í Seltjarnarneskirkju 13. apríl 2025í
PÁLMASUNNUDAGUR – TENGSL TRÚAR OG LISTAR Í SELTJARNARNESKIRKJU
Prúður á pálmadegi
pastor Kristur að reið
til Jórsala, sem hér segir,
sína beina svo leið.
Þannig hljóða fjórar upphafsljóðlínur í 6 erinda ljóði sem er að finna í Vísnabók Guðbrands Þorlákssonar biskups frá 1612, ort út af frásögninni af innreið Jesú í Jerúsalem eða Jórsali, eins og borgin var nefnd í fornum íslenskum ritum.
Pálmasunnudagur stendur fyrir þann sunnudag sem markar upphaf dymbilviku, öðru nafni kyrraviku í kristinni trú. Nafnið vísar til pálmagreina, sem fólk lagði á jörðina þegar Jesús reið inn í Jerúsalem á asna, samkvæmt frásögn Nýja testamentisins. Með því vildi það heiðra hann og hylla.
Í Vísnabók Guðbrands sem vitnað var til höfum við meira en fjögurra alda gamalt dæmi um að þessi mikilvægi atburður í ævi Jesú Krists hafi orðið tilefni til þess að snemma hafi verið ort um þann viðburð hér á landi, þar sem þó eru engar pálmagreinar. Það var um aldir mjög útbreidd iðja hér á landi að yrkja út af biblíulegu efni, nánast þjóðaríþrótt. Passíusálmarnir eru auðvitað besta dæmið um það – og ekkert lát er á vinsældum þeirra. Í útgáfu þeirra 1961 varð sú nýjung að listakonan Barbara Árnason hafði gert myndir við sálmana sem fylgdu útgáfunni. Um þær skrifaði Sigurbjörn Einarsson biskup í formála: „Þetta er fyrsta passía í myndum, sem vér höfum eignazt, en hitt er þó meira, að hún er gerð af frábærri list. Myndir frú Barböru munu jafnan taldar meðal merkustu tíðinda á ferli Passíusálmanna.“ Svo skrifaði Sigurbjörn Einarsson sá mikli kennimaður og vinsæli biskup árið 1961.
Þess skal getið í þessu samhengi að á föstudaginn langa næstkomandi verða Passíusálmarnir allir, 50 að tölu, lesnir hér í kirkjunni eins og mörg undanfarin ár. 25 manns úr sókninni skipta með sér lestrinum.
Innreið Jesú í Jerúsalem hefur strax í frumkristni þótt grundvallaratburður í sögu frelsarans. Til marks um það er að öll guðspjöllin fjögur, þ.e. Matteus, Markús, Lúkas og Jóhannes, greina frá innreiðinni. Sammála eru þau um meginatriði þess sem gerðist en segja nokkuð mismunandi frá öðru. Eins og eðlilegt er um vitnisburð fjögurra aðila.
Þessi atburður, þ.e. innreið Jesú, gegnir líka sérstaklega stóru hlutverki í kirkjuári okkar því hann er ekki bara texti Pálmasunnudags sem er inngangur páskanna heldur er hann líka texti upphafs aðventunnar, á jólaföstu.
Frásagnirnar af innreiðinni sýna, eins og víðar, Jesú á ferð meðal manna. Hann kemur upp að hlið þeirra sem standa höllum fæti, þjást og syrgja. Og það er grundvallaratriði í frásögnunum af innreið hans að þar birtist ekki stríðsherra á hesti heldur sá sem er lítillátur og hógvær. Hann valdi asna sem fararskjóta og birtist sem konungur friðar og náðar.
Þessi pálmasunnudagur hér í Seltjarnarneskirkju er sérstakur að því leyti við tökum við rausnarlegri gjöf velunnara kirkjunnar, glæsilegu málverki Einars Hákonarsonar af innreið Jesú í Jerúsalem, sem Einar nefnir einfaldlega Pálmasunnudagur. Málverkið var hluti af myndþrennu Einars sem varð til árið 1982 og vakti mikla athygli. Einar, minn góði vinur, hefur lagt á það áherslu, síðast í símtali við mig í gær, (en hann gat ekki verið hér í dag vegna erfiðra veikinda) að æskilegt sé að um myndirnar þrjár sé rætt saman þegar ein þeirra er til umfjöllunar. Í öllum tilfellum heimfærði Einar Krist til samtímans.
Í því málverki sem blasir við okkur í dag vekur sérstaka athygli einn maður meðal fólksins í þvögunni. Þessi maður reynist nefnilega með upptökuvél, er sýnilega að festa á filmu það sem fram fer. Klæðnaður Jesú minnir dálítið á uppreisnarleiðtoga., „Jú, ég var undir áhrifum frá 68 kynslóðinni,“ sagði Einar í símtali okkar í gær, en bætti við með áherslu: „En þetta er samt kristin mynd alveg í gegn.“ Aðspurður sagði Einar að sennilega væri að hann hefði líka verið fyrir áhrifum frá Jesus Christ Superstar-tónlistinni sem og kvikmyndinni samnefndu frá áttunda áratug síðustu aldar og birtir mjög mannlegan Krist.
En það er sólríkja yfir málverki Einars Pálmasunnudagur. Það er til þess fallið að vekja von og bjartsýni. Og það er mikið þakkarefni að fá slíkt verk hingað úr smiðju þess mikilhæfa málara sem Einar Hákonarson sannarlega er.
Hinar myndirnar tvær sem Einar málaði sem hluta af myndþrennu þarna um árið 1982 voru annars vegar af Jesú á bæn í Hljómskálagarðinum (í stað Getsemane) og loks myndin með titilinn Á Valhúsahæð þar sem sjö manneskjur sjást taka Krist varfærnislega niður af krossinum. Áhrifamikil málverk sem heyra til dymbilviku og páskum og bæði rækilega staðsett í íslensku umhverfi. En málverkið sem við höfum hér fyrir augum er ekki sérstaklega með einkenni íslensks umhverfis en það endurspeglar sama tíma og hin málverkin, þ.e. upp úr 1980. Það ber þó einkenni annarra verka Einars út af Ritningunni að efnið er heimfært til samtíðar listamannsins.
(Þá vil ég bæta því við hér sem smá innskoti af því að gjöfin á málverkinu góða er tengd Kaldalónsfeðginum, að Einar hefur málað tvær mjög áhugaverðar myndir sem tengjast Sigvalda Kaldalóns. Annars vegar er það málverkið „Harpa Davíðs í Kaldalóni“ (2013) og hins vegar myndin „Ég lít í anda liðna tíð“ sem sýnir skáldkonuna Höllu Eyjólfsdóttur í Laugabóli í garðinum sínum þar, þá konu sem samdi texta við svo mörg lög Sigvalda.)
Rík hefð er fyrir tengslum trúar og listar í kirkjunni okkar hér á Valhúsahæð. Reglulegar listahátíðir hafa verið haldnar hér í kirkjunni, eða á tveggja ára fresti. Sú fyrsta þegar 1992. Það var svo á listahátíðinni 2004 sem Einar Hákonarson var listmálari hátíðarinnar sem þá var haldin undir yfirskriftinni Jobsbók og þjáningin, efni sem honum var mjög hugleikið. Mjög áhrifarík og minnisstæð sýning. Það mun hafa verið þá sem Einar tjáði mér að hann hefði sem ungur myndlistarnemi í Svíþjóð farið í námsferð til Auschwitz, útrýmingarbúðanna illræmdu í Póllandi. Sú heimsókn hafi slík áhrif á hann að hún breytti honum úr abstrakt málara í fígúratífan. – Blessunarlega segi ég nú bara!
Snúum nú aftur að hinum biblíulega bakgrunni pálmasunnudagsins. Þessi atburður, innreið Jesú í Jerúsalem, átti sér stað áður en páskahátíð gyðinga hófst og markar upphaf síðustu viku Jesú á jörðu. Venjan var sú að pílagrímar kæmu fótgangandi til borgarinnar. En Jesús kom með öðrum hætti. Fólkið tók á móti honum með pálmagreinum og fötum sem lögð höfðu verið á götuna, hrópaði „Hósanna“(Hjálpa nú) og viðurkenndi hann sem konung. Þetta var í samræmi við spádóma í Gamla testamentinu, sérstaklega í Sakaría 9:9, þar sem spáð er að Messías muni koma ríðandi á asna. Það er sannarlega kynnt sem fagnaðarerindi: „Sjá konungur þinn kemur til þín. Réttlátur er hann og sigursæll, lítillátur og ríður asna, ungum ösnufola.“ Ástæða er til að taka eftir því að þessi texti á sér rætur í fyrra testamenti Ritningarinnar, Biblíu frumkristninnar.
Meginboðskapur frásögunnar af innreið Jesú í Jerúsalem fyrir samtíma okkar eru sígild atriði, sem eiga sannarlega brýnt erindi nú um stundir. Þegar Jesús reið inn í borgina á asna í stað hervagns eða hests, var það tákn um friðsælan konung sem kemur ekki sem sigurvegari í hernaði, heldur sem þjónn Guðs og fólksins. Í heimi þar sem átök og óeirðir eru algeng, minnir fordæmi Jesú okkur á að sönn leiðtogaeinkenni felast í auðmýkt og þjónustu við aðra. Já, innreið Jesú í Jerúsalem hefur verið einstaklega áhrifarík frásögn í listasögunni og hefur endurtekið verið túlkuð í fjölbreyttum listformum í gegnum aldirnar, auk myndlistar, m.a. í tónlist, skáldsögum, ljóðum og kvikmyndum. ´
Áhugavert íslenskt dæmi um birtingarmynd frásagnarinnar af innreiðinni er að finna í hinni kunnu skáldsögu Gunnars Gunnarssonar Aðventu sem hann samdi upphaflega á dönsku og hún kom fyrst kom út árið 1936 í Þýskalandi. Aðventa Gunnars er byggð á frásögum af frægum svaðilförum Fjalla-Bensa á Mýrdals-öræfum og einkum þó eftirleitarferð sem hann fór í desember 1925. Í búningi Gunnars verður þessi einfalda saga af Fjalla-Bensa að áhrifamikilli prédikun þar sem ákveðinn skyldleiki er við innreið Jesú í Jerúsalem, þ.e. guðspjall 1. sunnudags í aðventu, en á þeim degi lagði Bensi upp í árlega för sína upp á fjöll og firnindi til þess að leita uppi eftirlegukindur.
Gunnar greinir frá því að áður en Bensi lagði af stað í leit sína hafi hann tyllt sér og litið yfir texta dagsins úr Matt. 21 um innreið Jesú í Jerúsalem. Gunnar lætur Benedikt síðan íhuga guðspjallið og segir: „Greinar þær sem fólkið skar af trjánum og kastaði fyrir fætur asnanna voru líkastar frostrósum á rúðu, en Benedikt vissi að þær voru ekki hvítar, þær voru grænar….“ Og hógværð konungsins vekur athygli Benedikts: „Hógvær, vitanlega, Benedikt skildi það út í æsar. Hvernig gat guðssonur verið annað? Og ríðandi á folaldi áburðargrips …. . Og Benedikt finnst í sömu svipan að hann kannist við þennan litla asnafola og viti gerla hversu honum og hvernig guðssyni hafi verið innanbrjósts á þeirri heilögu stund.“ Þessa bók Aðventu les ég fyrir hver jól og veit ég um marga sem gera það sama. Benedikt var að leita sauða uppi í öræfum. Það var fórnfúst þjónustustarf hans. Hvað það varðar fetar hann í fótspor Jesú.
Ef við til gamans stöldrum við pálmagreinarnar og íhugum hlutverk þeirra þá er ljóst að þær eru hluti af lofgjörð mannfjöldans. Leið fólksins til að tjá trú sína, hluti af tilbeiðslu þeirra. En af því að athygli mín í dag beinist talsvert að tengslum listar og trúar dettur mér í hug hvort jafnvel megi líta svo á að sú athöfn að leggja pálmagreinar á veginn til að hylla Jesú feli um leið í sér eins konar listrænan gjörning fólksins. Þannig skoðað feli frásögnin sjálf í sér jákvæða afstöðu til listarinnar. Með því að leggja greinar á veginn sé fólkið ekki aðeins að hylla Jesú sem konung eða frelsara heldur sé það jafnframt að skapa gjörning sem sé á mörkum trúar, stjórnmála og listar. Með þessari hugdettu minni hefur frásagan af innreiðinni ekki bara þau tengsl við listina að lifa framhaldslífi innan ýmissa ólíkra listgreina svo sem myndlistar, kvikmyndar og tónlistar heldur sé beinlínis listrænn gjörningur þegar til staðar innan frásögunnar sjálfrar.
Þegar maður hefur fengist lengi við biblíufræði með alls kyns viðurkenndum fræðilegum aðferðum áratugum saman finnst mér sífellt mikilvægara að lesa sér fyrst og fremst til ánægju og uppbyggingar, njóta bókmenntanna, gjarnan þó á frummálinu hebresku, leyfa sér að láta hugann reika og vísa ekki frá hugdettum sem kunna að virðast langsóttar.
Að lokum: Frásagan af innreið Jesú í Jerúsalem gegnir afar stóru hlutverki í Nýja testamentinu. Allar gerðir hennar í guðspjöllunum fjórum, þrátt fyrir sérkenni, sýna að þar er enginn stríðsherra á ferð heldur boðberi friðar og kærleika. Auk hinnar hefðbundnu kirkjulegu boðunar hafa frásagnirnar iðulega gengið í endurnýjun lífdaga í menningu og listum. Fengið þar önnur sjónarhorn og gefið biblíulesendum tækifæri að sjá þær í nýju ljósi. Notkun Gunnars Gunnarssonar á innreiðarfrásögninni Aðventu er aðeins eitt af ótal dæmum. Í og með að Seltjarnarneskirkja eignast þetta stórbrotna listaverk úr smiðju Einars Hákonarsonar gefst safnaðarfólki hér færi á að íhuga boðskap mikilvægrar sögu Nýja testamentisins jafnframt myndrænt. Myndin er björt og flytur með sér ljós og liti og styrkir frásögn af boðbera friðar og kærleika og viðheldur von á erfiðum tímum. Ég vil að lokum tjá þakklæti mitt annars vegar sem sóknarnefndarmaður fyrir málverkagjöfina góðu til kirkjunnar og hins vegar sem Kaldalónsniðji (þar sem málverkið er gefið til minningar um feðginin, Selmu og Sigvalda Kaldalóns). Syni listmálarans sem hér eru staddir bið ég fyrir góðar kveðjur, blessunar- og bataóskir til föður síns og vonandi getum við átt von á sýningu á fleiri trúarlegum verkum hans hér í safnaðarheimilinu fyrr en síðar.
Megi góður Guð gefa ykkur öllum blessunarríka daga dymbilviku og páska.
Seltjarnarneskirkju barst í gær stórhöfðingleg gjöf frá dr. Ágústi Einarssyni og eiginkonu hans, Kristínu S. Ingólfsdóttur. Gjöfin er stórt málverk eftir listmálarann Einar Hákonarson (f. 1945), og heitir Pálmasunnudagur og var málað 1982. Verkið er gefið til minningar um feðginin Selmu Kaldalóns (1919-1984) og Sigvalda Kaldalóns (1881-1946).
Formaður sóknarnefndar, dr. Svana Helen Björnsdóttir, tók við gjöfinni fyrir hönd safnaðarins. Málverkið var afhent formlega í lok guðsþjónustu í kirkjunni en áður flutti Rakel Pétursdóttir, safnafræðingur, athyglisvert erindi um Einar sem hún kallaði Formgerðir og litir í málverkum Einars Hákonarsonar og endurreisn svartlistar á Íslandi.
Sóknarpresturinn, sr. Bjarni Þór Bjarnason, þjónaði fyrir altari, en dr. Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor emeritus, prédikaði.
Einar Hákonarson hefur um margt sérstöðu meðal íslenskra listamanna. Hann hefur ætíð verið maður málverksins og grafíklistarinnar og ekki látið listastefnur líðandi stundar trufla sig. Einar hefur litið á sig sem sérstakan talsmann málverksins og fannst lengi vel að því sótt en barðist með oddi og egg fyrir lífi þess. Einn þáttur í þeirri baráttu var hið dirfskufulla verk hans að reisa sem einstaklingur listasafn í Hveragerði, Listaskála Einars Hákonarsonar, sem helgaður skyldi málverkinu. Þetta var menningarmiðstöð með áherslu á málverkið og eins gefur að skilja voru haldnar þar málverkasýningar svo tugum skipti. Auk þess var boðið upp á fjölbreytilega dagskrá tónlistar-, leiklistar- og bókmenntaviðburða. Nú er Listasafn Árnesinga rekið í skálanum en húsnæðið þykir einkar vel heppnað sýningarhús.
Einar er með okkar bestu listamönnum og fór fyrir endurreisn málverksins þegar nokkuð ljóst var að dagar strangflatarlistarinnar voru senn á enda. Endurreisn Einars var hins vegar ekki svo að hann sneri aftur til fyrri tíma heldur endurnýjaði hann málverkið eftir eigin höfði, ef svo má segja. Fígúratífar myndir sneru aftur með öðrum hætti en áður og nú var myndefnið manneskjan í nútímaumhverfi sínu, manneskjan á daglegum vettvangi sínum, manneskjan í angist sinni og leit að sjálfri sér í firrtum heimi. Þar var líka pólitík. Manneskjan stígur inn í málverk Einars sem dálítið óttaslegin andspænis nútímanum og drættir hennar mótast af því. Þessir oft óljósu drættir töluðu sterkt inn í samtímann því á umrótatímum kalda stríðsins upp úr 1970 var svo margt í vestrænni dægurmenningu fljótandi og ekki alltaf fast land undir fótum en um leið var frelsi einstaklingsins fagnað í blómabyltingu og listum.
Einar var og er öðrum snjallari í meðferð lita og forms sem hæfðu þessari nýju rödd í listinni. Ákveðin birta var yfir öllum verkum hans, bjartir litir og líflegir í anda popplistarinnar.
En á langri listamannsævi hefur Einar að sjálfsögðu fengist við ýmsar tegundir verka. Hann hefur löngum verið eftirsóttur portrettmálari og svo hefur hann málað myndir með trúarlegum stefjum. Segja má að hann sé öflugur kirkjulistamaður þegar horft er til þeirra málverka sem og steindra glugga sem hann hefur gert eins og í Seljakirkju í Reykjavík. Einar er með fróðlega vefsíðu sem hér má sjá.
Myndin sem Seltjarnarneskirkja fékk að gjöf í gær, Pálmasunnudagur, er á margan hátt mjög lýsandi fyrir listsköpun Einars. Það er mikil hreyfing í myndinni og glaðværir litir. Miðja myndarinnar er að sjálfsögðu Kristur með geislabaug umkringis höfuðið, innri hluti baugsins getur minnt á tannhjól. Hann er skarpleitur í eilítið bleikum kyrtli og hægri hönd hvílir á lend asnans. Kristur lítur til hliðar en í þessum hópi sem fagnar honum eru bæði karlar og konur í nútímalegum klæðum. Gömul frásögn er ekki slitin úr samhengi sínu þó að hún sé færð yfir til nútímans. Sérstaklega skemmtileg tilfærsla í tíma er maðurinn fremst hægra megin sem er með smarta hliðartösku sjónvarpsfréttamannsins og heldur á upptökuvél. Auðvitað var innreiðin í Jerúsalem stórfrétt – já, svo mikil frétt að enn er talað um hana.

Dr. Ágúst Einarsson flutti ávarp fyrir hönd gefenda listaverksins, Pálmasunnudagur

Dr. Gunnlaugur A. Jónsson, prédikaði

Þau stilltu sér upp við listaverkið enda með einum eða öðrum hætti tengd því. Frá vinstri: Ágúst Ólafur Ágústsson, Hákon Einarsson, Bjarni Þór Bjarnason, Gunnlaugur A. Jónsson, Kristrún Ágústsdóttir, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Svana Helen Björnsdóttir, Ágúst Einarsson, Elísabet Una Ágústsdóttir, María Guðrún Ágústsdóttir og Hjálmar Einarsson. – Eiginkona Ágústs Einarssonar, Kristínu S. Ingólfsdóttur, gat ekki verið viðstödd þar sem hún var á sjúkrahúsi. Sama er að segja um listamanninn, Einar Hákonarson, hann gat ekki heldur verið viðstaddur vegna þess að hann dvelst um þessar mundir á sjúkrahúsi.
——
Prédikun dr. Gunnlaugs A. Jónssonar í Seltjarnarneskirkju 13. apríl 2025í
PÁLMASUNNUDAGUR – TENGSL TRÚAR OG LISTAR Í SELTJARNARNESKIRKJU
Prúður á pálmadegi
pastor Kristur að reið
til Jórsala, sem hér segir,
sína beina svo leið.
Þannig hljóða fjórar upphafsljóðlínur í 6 erinda ljóði sem er að finna í Vísnabók Guðbrands Þorlákssonar biskups frá 1612, ort út af frásögninni af innreið Jesú í Jerúsalem eða Jórsali, eins og borgin var nefnd í fornum íslenskum ritum.
Pálmasunnudagur stendur fyrir þann sunnudag sem markar upphaf dymbilviku, öðru nafni kyrraviku í kristinni trú. Nafnið vísar til pálmagreina, sem fólk lagði á jörðina þegar Jesús reið inn í Jerúsalem á asna, samkvæmt frásögn Nýja testamentisins. Með því vildi það heiðra hann og hylla.
Í Vísnabók Guðbrands sem vitnað var til höfum við meira en fjögurra alda gamalt dæmi um að þessi mikilvægi atburður í ævi Jesú Krists hafi orðið tilefni til þess að snemma hafi verið ort um þann viðburð hér á landi, þar sem þó eru engar pálmagreinar. Það var um aldir mjög útbreidd iðja hér á landi að yrkja út af biblíulegu efni, nánast þjóðaríþrótt. Passíusálmarnir eru auðvitað besta dæmið um það – og ekkert lát er á vinsældum þeirra. Í útgáfu þeirra 1961 varð sú nýjung að listakonan Barbara Árnason hafði gert myndir við sálmana sem fylgdu útgáfunni. Um þær skrifaði Sigurbjörn Einarsson biskup í formála: „Þetta er fyrsta passía í myndum, sem vér höfum eignazt, en hitt er þó meira, að hún er gerð af frábærri list. Myndir frú Barböru munu jafnan taldar meðal merkustu tíðinda á ferli Passíusálmanna.“ Svo skrifaði Sigurbjörn Einarsson sá mikli kennimaður og vinsæli biskup árið 1961.
Þess skal getið í þessu samhengi að á föstudaginn langa næstkomandi verða Passíusálmarnir allir, 50 að tölu, lesnir hér í kirkjunni eins og mörg undanfarin ár. 25 manns úr sókninni skipta með sér lestrinum.
Innreið Jesú í Jerúsalem hefur strax í frumkristni þótt grundvallaratburður í sögu frelsarans. Til marks um það er að öll guðspjöllin fjögur, þ.e. Matteus, Markús, Lúkas og Jóhannes, greina frá innreiðinni. Sammála eru þau um meginatriði þess sem gerðist en segja nokkuð mismunandi frá öðru. Eins og eðlilegt er um vitnisburð fjögurra aðila.
Þessi atburður, þ.e. innreið Jesú, gegnir líka sérstaklega stóru hlutverki í kirkjuári okkar því hann er ekki bara texti Pálmasunnudags sem er inngangur páskanna heldur er hann líka texti upphafs aðventunnar, á jólaföstu.
Frásagnirnar af innreiðinni sýna, eins og víðar, Jesú á ferð meðal manna. Hann kemur upp að hlið þeirra sem standa höllum fæti, þjást og syrgja. Og það er grundvallaratriði í frásögnunum af innreið hans að þar birtist ekki stríðsherra á hesti heldur sá sem er lítillátur og hógvær. Hann valdi asna sem fararskjóta og birtist sem konungur friðar og náðar.
Þessi pálmasunnudagur hér í Seltjarnarneskirkju er sérstakur að því leyti við tökum við rausnarlegri gjöf velunnara kirkjunnar, glæsilegu málverki Einars Hákonarsonar af innreið Jesú í Jerúsalem, sem Einar nefnir einfaldlega Pálmasunnudagur. Málverkið var hluti af myndþrennu Einars sem varð til árið 1982 og vakti mikla athygli. Einar, minn góði vinur, hefur lagt á það áherslu, síðast í símtali við mig í gær, (en hann gat ekki verið hér í dag vegna erfiðra veikinda) að æskilegt sé að um myndirnar þrjár sé rætt saman þegar ein þeirra er til umfjöllunar. Í öllum tilfellum heimfærði Einar Krist til samtímans.
Í því málverki sem blasir við okkur í dag vekur sérstaka athygli einn maður meðal fólksins í þvögunni. Þessi maður reynist nefnilega með upptökuvél, er sýnilega að festa á filmu það sem fram fer. Klæðnaður Jesú minnir dálítið á uppreisnarleiðtoga., „Jú, ég var undir áhrifum frá 68 kynslóðinni,“ sagði Einar í símtali okkar í gær, en bætti við með áherslu: „En þetta er samt kristin mynd alveg í gegn.“ Aðspurður sagði Einar að sennilega væri að hann hefði líka verið fyrir áhrifum frá Jesus Christ Superstar-tónlistinni sem og kvikmyndinni samnefndu frá áttunda áratug síðustu aldar og birtir mjög mannlegan Krist.
En það er sólríkja yfir málverki Einars Pálmasunnudagur. Það er til þess fallið að vekja von og bjartsýni. Og það er mikið þakkarefni að fá slíkt verk hingað úr smiðju þess mikilhæfa málara sem Einar Hákonarson sannarlega er.
Hinar myndirnar tvær sem Einar málaði sem hluta af myndþrennu þarna um árið 1982 voru annars vegar af Jesú á bæn í Hljómskálagarðinum (í stað Getsemane) og loks myndin með titilinn Á Valhúsahæð þar sem sjö manneskjur sjást taka Krist varfærnislega niður af krossinum. Áhrifamikil málverk sem heyra til dymbilviku og páskum og bæði rækilega staðsett í íslensku umhverfi. En málverkið sem við höfum hér fyrir augum er ekki sérstaklega með einkenni íslensks umhverfis en það endurspeglar sama tíma og hin málverkin, þ.e. upp úr 1980. Það ber þó einkenni annarra verka Einars út af Ritningunni að efnið er heimfært til samtíðar listamannsins.
(Þá vil ég bæta því við hér sem smá innskoti af því að gjöfin á málverkinu góða er tengd Kaldalónsfeðginum, að Einar hefur málað tvær mjög áhugaverðar myndir sem tengjast Sigvalda Kaldalóns. Annars vegar er það málverkið „Harpa Davíðs í Kaldalóni“ (2013) og hins vegar myndin „Ég lít í anda liðna tíð“ sem sýnir skáldkonuna Höllu Eyjólfsdóttur í Laugabóli í garðinum sínum þar, þá konu sem samdi texta við svo mörg lög Sigvalda.)
Rík hefð er fyrir tengslum trúar og listar í kirkjunni okkar hér á Valhúsahæð. Reglulegar listahátíðir hafa verið haldnar hér í kirkjunni, eða á tveggja ára fresti. Sú fyrsta þegar 1992. Það var svo á listahátíðinni 2004 sem Einar Hákonarson var listmálari hátíðarinnar sem þá var haldin undir yfirskriftinni Jobsbók og þjáningin, efni sem honum var mjög hugleikið. Mjög áhrifarík og minnisstæð sýning. Það mun hafa verið þá sem Einar tjáði mér að hann hefði sem ungur myndlistarnemi í Svíþjóð farið í námsferð til Auschwitz, útrýmingarbúðanna illræmdu í Póllandi. Sú heimsókn hafi slík áhrif á hann að hún breytti honum úr abstrakt málara í fígúratífan. – Blessunarlega segi ég nú bara!
Snúum nú aftur að hinum biblíulega bakgrunni pálmasunnudagsins. Þessi atburður, innreið Jesú í Jerúsalem, átti sér stað áður en páskahátíð gyðinga hófst og markar upphaf síðustu viku Jesú á jörðu. Venjan var sú að pílagrímar kæmu fótgangandi til borgarinnar. En Jesús kom með öðrum hætti. Fólkið tók á móti honum með pálmagreinum og fötum sem lögð höfðu verið á götuna, hrópaði „Hósanna“(Hjálpa nú) og viðurkenndi hann sem konung. Þetta var í samræmi við spádóma í Gamla testamentinu, sérstaklega í Sakaría 9:9, þar sem spáð er að Messías muni koma ríðandi á asna. Það er sannarlega kynnt sem fagnaðarerindi: „Sjá konungur þinn kemur til þín. Réttlátur er hann og sigursæll, lítillátur og ríður asna, ungum ösnufola.“ Ástæða er til að taka eftir því að þessi texti á sér rætur í fyrra testamenti Ritningarinnar, Biblíu frumkristninnar.
Meginboðskapur frásögunnar af innreið Jesú í Jerúsalem fyrir samtíma okkar eru sígild atriði, sem eiga sannarlega brýnt erindi nú um stundir. Þegar Jesús reið inn í borgina á asna í stað hervagns eða hests, var það tákn um friðsælan konung sem kemur ekki sem sigurvegari í hernaði, heldur sem þjónn Guðs og fólksins. Í heimi þar sem átök og óeirðir eru algeng, minnir fordæmi Jesú okkur á að sönn leiðtogaeinkenni felast í auðmýkt og þjónustu við aðra. Já, innreið Jesú í Jerúsalem hefur verið einstaklega áhrifarík frásögn í listasögunni og hefur endurtekið verið túlkuð í fjölbreyttum listformum í gegnum aldirnar, auk myndlistar, m.a. í tónlist, skáldsögum, ljóðum og kvikmyndum. ´
Áhugavert íslenskt dæmi um birtingarmynd frásagnarinnar af innreiðinni er að finna í hinni kunnu skáldsögu Gunnars Gunnarssonar Aðventu sem hann samdi upphaflega á dönsku og hún kom fyrst kom út árið 1936 í Þýskalandi. Aðventa Gunnars er byggð á frásögum af frægum svaðilförum Fjalla-Bensa á Mýrdals-öræfum og einkum þó eftirleitarferð sem hann fór í desember 1925. Í búningi Gunnars verður þessi einfalda saga af Fjalla-Bensa að áhrifamikilli prédikun þar sem ákveðinn skyldleiki er við innreið Jesú í Jerúsalem, þ.e. guðspjall 1. sunnudags í aðventu, en á þeim degi lagði Bensi upp í árlega för sína upp á fjöll og firnindi til þess að leita uppi eftirlegukindur.
Gunnar greinir frá því að áður en Bensi lagði af stað í leit sína hafi hann tyllt sér og litið yfir texta dagsins úr Matt. 21 um innreið Jesú í Jerúsalem. Gunnar lætur Benedikt síðan íhuga guðspjallið og segir: „Greinar þær sem fólkið skar af trjánum og kastaði fyrir fætur asnanna voru líkastar frostrósum á rúðu, en Benedikt vissi að þær voru ekki hvítar, þær voru grænar….“ Og hógværð konungsins vekur athygli Benedikts: „Hógvær, vitanlega, Benedikt skildi það út í æsar. Hvernig gat guðssonur verið annað? Og ríðandi á folaldi áburðargrips …. . Og Benedikt finnst í sömu svipan að hann kannist við þennan litla asnafola og viti gerla hversu honum og hvernig guðssyni hafi verið innanbrjósts á þeirri heilögu stund.“ Þessa bók Aðventu les ég fyrir hver jól og veit ég um marga sem gera það sama. Benedikt var að leita sauða uppi í öræfum. Það var fórnfúst þjónustustarf hans. Hvað það varðar fetar hann í fótspor Jesú.
Ef við til gamans stöldrum við pálmagreinarnar og íhugum hlutverk þeirra þá er ljóst að þær eru hluti af lofgjörð mannfjöldans. Leið fólksins til að tjá trú sína, hluti af tilbeiðslu þeirra. En af því að athygli mín í dag beinist talsvert að tengslum listar og trúar dettur mér í hug hvort jafnvel megi líta svo á að sú athöfn að leggja pálmagreinar á veginn til að hylla Jesú feli um leið í sér eins konar listrænan gjörning fólksins. Þannig skoðað feli frásögnin sjálf í sér jákvæða afstöðu til listarinnar. Með því að leggja greinar á veginn sé fólkið ekki aðeins að hylla Jesú sem konung eða frelsara heldur sé það jafnframt að skapa gjörning sem sé á mörkum trúar, stjórnmála og listar. Með þessari hugdettu minni hefur frásagan af innreiðinni ekki bara þau tengsl við listina að lifa framhaldslífi innan ýmissa ólíkra listgreina svo sem myndlistar, kvikmyndar og tónlistar heldur sé beinlínis listrænn gjörningur þegar til staðar innan frásögunnar sjálfrar.
Þegar maður hefur fengist lengi við biblíufræði með alls kyns viðurkenndum fræðilegum aðferðum áratugum saman finnst mér sífellt mikilvægara að lesa sér fyrst og fremst til ánægju og uppbyggingar, njóta bókmenntanna, gjarnan þó á frummálinu hebresku, leyfa sér að láta hugann reika og vísa ekki frá hugdettum sem kunna að virðast langsóttar.
Að lokum: Frásagan af innreið Jesú í Jerúsalem gegnir afar stóru hlutverki í Nýja testamentinu. Allar gerðir hennar í guðspjöllunum fjórum, þrátt fyrir sérkenni, sýna að þar er enginn stríðsherra á ferð heldur boðberi friðar og kærleika. Auk hinnar hefðbundnu kirkjulegu boðunar hafa frásagnirnar iðulega gengið í endurnýjun lífdaga í menningu og listum. Fengið þar önnur sjónarhorn og gefið biblíulesendum tækifæri að sjá þær í nýju ljósi. Notkun Gunnars Gunnarssonar á innreiðarfrásögninni Aðventu er aðeins eitt af ótal dæmum. Í og með að Seltjarnarneskirkja eignast þetta stórbrotna listaverk úr smiðju Einars Hákonarsonar gefst safnaðarfólki hér færi á að íhuga boðskap mikilvægrar sögu Nýja testamentisins jafnframt myndrænt. Myndin er björt og flytur með sér ljós og liti og styrkir frásögn af boðbera friðar og kærleika og viðheldur von á erfiðum tímum. Ég vil að lokum tjá þakklæti mitt annars vegar sem sóknarnefndarmaður fyrir málverkagjöfina góðu til kirkjunnar og hins vegar sem Kaldalónsniðji (þar sem málverkið er gefið til minningar um feðginin, Selmu og Sigvalda Kaldalóns). Syni listmálarans sem hér eru staddir bið ég fyrir góðar kveðjur, blessunar- og bataóskir til föður síns og vonandi getum við átt von á sýningu á fleiri trúarlegum verkum hans hér í safnaðarheimilinu fyrr en síðar.
Megi góður Guð gefa ykkur öllum blessunarríka daga dymbilviku og páska.