Nú er ljóst hver þau þrjú eru sem valið verður á milli í biskupskjöri í næsta mánuði. Þetta er valinkunnugt fólk, reynslumikið og mjög svo frambærilegt:
Sr. Guðrún Karls Helgudóttir, sóknarprestur í Grafarvogsprestakalli í Reykjavík
Sr. Guðmundur Karl Brynjarsson, sóknarprestur í Lindaprestakalli í Kópavogi
Sr. Elínborg Sturludóttir, dómkirkjuprestur
Þau sem velja milli þessara einstaklinga eru komin í þá stöðu að vega og meta. Samanburður getur verið sanngjarn og líka ósanngjarn. Spyrja má eftir hvaða upplýsingum hann fari. Tilfinningar koma líka til skjalanna og þær vega þungt, bæði meðvitaðar sem og ómeðvitaðar. Sumir komast jafnvel í þá úlfakreppu að geta ekki valið á milli því allir kostirnir séu mjög svo góðir. En það verður að velja – eða skila auðu.
En biskupsefnin þrjú munu líka kynna sig. Sú kynning er mjög mikilvæg og verður forvitnilegt að sjá hvernig hvert og eitt þeirra teflir sér fram opinberlega á fundum, mannamótum og á samfélagsmiðlum. Hvernig rökstyður viðkomandi að hann eða hún sé besti kosturinn til að vera í forystu þjóðkirkjunnar á framtíðarvegi?
Hver maður hefur ákveðna mynd af sjálfum sér og aðrir hafa mynd af honum. Þessar myndir geta verið mjög svo ólíkar en engu að síður mynd af sama einstaklingnum. Enginn er eintóna heldur eru litir og blæbrigði manneskjunnar ótal mörg. Sem betur fer.
Mynd sem einstaklingur geymir í huga sér og kynnir fylgir honum hvert sem hann fer. Þessa mynd hefur hann sjálfur gert að mestu leyti en í henni má þó finna línur og liti sem eru annarra verk en hans sjálfs. Uppeldi, ættingjar, vinir og samstarfsmenn leggja til þessa myndverks og oft er það vel þegið en stundum ekki. Sumar línur eru kannski svo skarpar að þær skera í augu en aðrar mjúkar og fagrar, skínandi og sterkar. En þó að aðrir hafi komið að gerð sjálfsmyndarinnar er hún engu að síður mynd viðkomandi einstaklings. Þessi mynd verður aldrei fullgerð – hún er alltaf í mótun. Allt hefur áhrif á hana: samfélag, umræða, listir og menning.
Enginn ber með sér hina fullkomnu mynd enda þótt hann sé skapaður í mynd Guðs. Það kemur fyrir að þú dragir línu í sjálfsmynd þína sem er hlykkjótt og ekki skýr. Það er skjálfandi hugsun sem dregur þá línu, hugsun mettuð öryggisleysi og jafnvel ráðleysi. Þú veist kannski ekki hvað þú ert að gera en gerir það þó. Næst þegar þú berð þessa línu augum málarðu yfir hana og reynir að gleyma henni. Aðrar línur dregur þú svo af öryggi og litirnir endurspegla sjálfstraust og snerpu. Framtíðin er mín, segja línur og litir.
Sjálfsmynd í biskupskjöri er öllum sýnd. Sýningarsalurinn er hver sá staður þar sem biskupsefnið er statt í það skiptið. Þar er biskupsefnið með myndina sína í fanginu. Hún sést í andliti, framkomu, orðum og viðbrögðum. Stuðningsfólk biskupsefnanna fagna sýningunni og telja að þeirra manneskja sé sú rétta til að leiða þjóðkirkjuna á komandi árum þar sem munu skiptast á skin og skúrir.
Stundum heyrist sagt að biskup sé andlit þjóðkirkjunnar. Það er sérstök fullyrðing – reyndar innantómur frasi. Aldrei heyrist sagt að forseti Íslands sé andlit þjóðarinnar. Sem betur fer er eitt andlit hvort heldur geislandi, vandræðalegt eða þögult, ekki andlit þjóðkirkjunnar. Andlit hennar eru nefnilega mörg og þau eru andlit þjóðkirkjufólksins í landinu.
Biskupskjör er barátta. Því fleiri sækjast eftir en fá. Þess vegna má einfaldlega spyrja:
Hvers vegna er biskupsefnið að sækjast eftir þessu ábyrgðarfulla starfi?
Nú verður náttúrlega hver að sækja sér atkvæði og vinna hylli kjörfólksins. Því fylgir barátta og mikil ábyrgð. Fyrsta spurningin sem biskupsefnin verða að svara er kannski þessi: Með hve miklum þunga á ég að afla mér atkvæða?
Mannlegar tilfinningar eins og metnaður og kappsemi verða að vera innan hóflegra marka. Enginn þolir kirkjurembing eða hroka.
Mynd segir frá. Sjálfsmynd segir frá því hver við erum og hvað við viljum.
Kannski er besta veganestið fyrir þau sem óska eftir stuðningi kjörmanna, einlæg trú, hógværð, heilbrigður myndugleiki og festa.
Kirkjublaðið.is óskar þeim til hamingju sem komust í hóp biskupsefnanna þriggja sem valið verður á milli í næsta mánuði og hvetur til opinskárrar og drengilegrar baráttu sem mótist af heiðarlegum metnaði og anda kærleikans.
Nú er ljóst hver þau þrjú eru sem valið verður á milli í biskupskjöri í næsta mánuði. Þetta er valinkunnugt fólk, reynslumikið og mjög svo frambærilegt:
Sr. Guðrún Karls Helgudóttir, sóknarprestur í Grafarvogsprestakalli í Reykjavík
Sr. Guðmundur Karl Brynjarsson, sóknarprestur í Lindaprestakalli í Kópavogi
Sr. Elínborg Sturludóttir, dómkirkjuprestur
Þau sem velja milli þessara einstaklinga eru komin í þá stöðu að vega og meta. Samanburður getur verið sanngjarn og líka ósanngjarn. Spyrja má eftir hvaða upplýsingum hann fari. Tilfinningar koma líka til skjalanna og þær vega þungt, bæði meðvitaðar sem og ómeðvitaðar. Sumir komast jafnvel í þá úlfakreppu að geta ekki valið á milli því allir kostirnir séu mjög svo góðir. En það verður að velja – eða skila auðu.
En biskupsefnin þrjú munu líka kynna sig. Sú kynning er mjög mikilvæg og verður forvitnilegt að sjá hvernig hvert og eitt þeirra teflir sér fram opinberlega á fundum, mannamótum og á samfélagsmiðlum. Hvernig rökstyður viðkomandi að hann eða hún sé besti kosturinn til að vera í forystu þjóðkirkjunnar á framtíðarvegi?
Hver maður hefur ákveðna mynd af sjálfum sér og aðrir hafa mynd af honum. Þessar myndir geta verið mjög svo ólíkar en engu að síður mynd af sama einstaklingnum. Enginn er eintóna heldur eru litir og blæbrigði manneskjunnar ótal mörg. Sem betur fer.
Mynd sem einstaklingur geymir í huga sér og kynnir fylgir honum hvert sem hann fer. Þessa mynd hefur hann sjálfur gert að mestu leyti en í henni má þó finna línur og liti sem eru annarra verk en hans sjálfs. Uppeldi, ættingjar, vinir og samstarfsmenn leggja til þessa myndverks og oft er það vel þegið en stundum ekki. Sumar línur eru kannski svo skarpar að þær skera í augu en aðrar mjúkar og fagrar, skínandi og sterkar. En þó að aðrir hafi komið að gerð sjálfsmyndarinnar er hún engu að síður mynd viðkomandi einstaklings. Þessi mynd verður aldrei fullgerð – hún er alltaf í mótun. Allt hefur áhrif á hana: samfélag, umræða, listir og menning.
Enginn ber með sér hina fullkomnu mynd enda þótt hann sé skapaður í mynd Guðs. Það kemur fyrir að þú dragir línu í sjálfsmynd þína sem er hlykkjótt og ekki skýr. Það er skjálfandi hugsun sem dregur þá línu, hugsun mettuð öryggisleysi og jafnvel ráðleysi. Þú veist kannski ekki hvað þú ert að gera en gerir það þó. Næst þegar þú berð þessa línu augum málarðu yfir hana og reynir að gleyma henni. Aðrar línur dregur þú svo af öryggi og litirnir endurspegla sjálfstraust og snerpu. Framtíðin er mín, segja línur og litir.
Sjálfsmynd í biskupskjöri er öllum sýnd. Sýningarsalurinn er hver sá staður þar sem biskupsefnið er statt í það skiptið. Þar er biskupsefnið með myndina sína í fanginu. Hún sést í andliti, framkomu, orðum og viðbrögðum. Stuðningsfólk biskupsefnanna fagna sýningunni og telja að þeirra manneskja sé sú rétta til að leiða þjóðkirkjuna á komandi árum þar sem munu skiptast á skin og skúrir.
Stundum heyrist sagt að biskup sé andlit þjóðkirkjunnar. Það er sérstök fullyrðing – reyndar innantómur frasi. Aldrei heyrist sagt að forseti Íslands sé andlit þjóðarinnar. Sem betur fer er eitt andlit hvort heldur geislandi, vandræðalegt eða þögult, ekki andlit þjóðkirkjunnar. Andlit hennar eru nefnilega mörg og þau eru andlit þjóðkirkjufólksins í landinu.
Biskupskjör er barátta. Því fleiri sækjast eftir en fá. Þess vegna má einfaldlega spyrja:
Hvers vegna er biskupsefnið að sækjast eftir þessu ábyrgðarfulla starfi?
Nú verður náttúrlega hver að sækja sér atkvæði og vinna hylli kjörfólksins. Því fylgir barátta og mikil ábyrgð. Fyrsta spurningin sem biskupsefnin verða að svara er kannski þessi: Með hve miklum þunga á ég að afla mér atkvæða?
Mannlegar tilfinningar eins og metnaður og kappsemi verða að vera innan hóflegra marka. Enginn þolir kirkjurembing eða hroka.
Mynd segir frá. Sjálfsmynd segir frá því hver við erum og hvað við viljum.
Kannski er besta veganestið fyrir þau sem óska eftir stuðningi kjörmanna, einlæg trú, hógværð, heilbrigður myndugleiki og festa.
Kirkjublaðið.is óskar þeim til hamingju sem komust í hóp biskupsefnanna þriggja sem valið verður á milli í næsta mánuði og hvetur til opinskárrar og drengilegrar baráttu sem mótist af heiðarlegum metnaði og anda kærleikans.