Sannarlega var það frétt sem birtist fyrir skömmu þar sem sagði frá því að sóknarpresturinn á Seltjarnarnesi hefði ákveðið að innheimta ekki fyrir skírnir, hjónavígslur og útfarir sóknarbarna sinna á Seltjarnarnesi. Þetta tilkynnti presturinn á Feisbókarsíðunni Íbúar á Seltjarnarnesi. Síðan tók fjölmiðillinn visir.is fréttina upp.
Prestar hafa gjaldskrá yfir þau verk sem stundum hafa verið kölluð aukaverk. Aukaverkin svokölluðu eru skírn, ferming, hjónavígsla, útför og útgáfa vottorða. Prestafélag Íslands gefur þessa gjaldskrá út.
Greiðslur fyrir þessi verk hafa verið hluti af lögkjörum íslenskra presta. Oft hefur mikil umræða átt sér stað um þessi verk og sitt sýnst hverjum. Fyrir tveimur árum kom upp tillaga á kirkjuþingi (2020-2022) um að fella niður þessar greiðslur og ætlaði þá allt um koll að keyra í herbúðum kennilýðsins. Hér má lesa snarpar athugasemdir kjarafulltrúa Prestafélagsins þegar hrófla átti við aukaverkagreiðslum.
Nokkrar atrennur hafa verið gerðar á undanförnum áratugum að aukaverkunum með það að markmiði að fella greiðslur niður fyrir þær og koma því með einhverjum hætti inn í föst laun eða finna nýtt fyrirkomulag á þeim, til dæmis að aukaverkgreiðslur verði hluti sóknargjalda. Þarf ekki annað en að skoða málið á timarit.is og kemur þá fljótt í ljós að um fyrirkomulag aukaverkagreiðslna til presta hefur verið ályktað eitt og annað sem hefur litlu breytt.
Sr. Bjarni Þór Bjarnason hefur verið prestur á Seltjarnarnesi frá 2012. Áður starfaði hann meðal annars sem prestur á Englandi og þar tíðkast ekki að innheimta fyrir prestsverk af þessu tagi og segist hann hafa lengi íhugað að stíga þetta skref. Forvitnilegt verður að heyra síðar af því hvort safnaðarvitund Seltirninga muni styrkjast við þetta tilboð prestsins.
Fríkirkjusöfnuðir eins og Óháði söfnuðurinn og Fríkirkjan í Reykjavík innheimta ekki aukaverkagreiðslur eins og þjóðkirkjuprestar.
Sumir prestar hafa orðið eins og það er kallað vinsælir útfararprestar og hafa haft um hönd fjölda útfara og jafnvel þrjár til fjórar í viku hverri. Aðrir hafa getið sér orð sem vinsælir giftingaprestar og eru vel bókaðir yfir sumarið til þeirra athafna.
Alltaf eru einhverjir prestar sem taka ekki neitt fyrir að inna af hendi svo kölluð aukaverk og telja þau eiga að vera fólgin í þjónustu kirkjunnar. Ekki er tekið fyrir skírn fari hún fram í guðsþjónustu safnaðarins. Engar sögur fara um að prestar séu aðgangsharðir í innheimtu fyrir þessi aukastörf heldur þvert á móti felli þeir niður greiðslur þegar efnalítið fólk á í hlut.
Segja má að aukaverkafyrirkomulagið geti unnið gegn sóknarvitund í nútímanum og þær vangaveltur eru ekki neitt nýjar. Svo má alltaf spyrja hvort hin svo kallaða sóknarvitund sé til – söfnuðurinn er svo sem í orði félagsleg grunneining þjóðkirkjunnar. Vinsælir athafnaprestar – ef nota má það orð – valsa um á milli sókna, skíra, gifta og jarða, þvert á allar sóknir. Sumir eru jafnvel mjög svo bókaðir í þessum verkum að stundum hefur verið spurt hvort þeir hafi einhvern tíma yfir höfuð til að sinna safnaðarstörfum. Aukaverkin eru í raun vara á frjálsum markaði sem einstaklingurinn á og hann býður vöruna þeim sem honum líst best á og presturinn (verktakinn) telur ekkert hamla því. Það er því ekki að undra að komið hafa upp raddir um algert frelsi sóknarbarna um að velja sér sókn og að sóknargjald þeirra renni til hennar. Sóknarmörk séu enda orðin úrelt og prestarnir sjálfir sýni það með aukaverkaflandri sínu milli sókna.
En þessi frétt virðist hafa farið fram hjá kennilýð íslensku þjóðkirkjunnar eða þá að hann hafi ekki skoðun á henni. Enginn þar á bæ hefur vakið athygli á henni eftir því sem Kirkjublaðið.is veit best en er hún þó allrar athygli verð. Kannski vill enginn tjá sig um þetta þar sem um kjaramál er að ræða, sé litið á málið með formlegum hætti en ekki breytta og bætta þjónustu við sóknarbörnin eins og sr. Bjarni Þór telur. Það er náttúrlega afleitt ef enginn í boðandi, biðjandi og þjónandi, störfum kirkjunnar hefur ekkert um þetta að segja. Þó ekki væri nema að hrósa presti Seltirninga fyrir tiltækið. Því miður virðist það reyndar vera svo að kennistéttinni er ósýnt um að hrósa kollegum sínum – það er umhugsunarvert. Þögnin er hins vegar vandræðalega áberandi og í þessu tilviki leitast hún við að þegja um nýlundu prestsins og hans athyglisverða framtak. Kirkjan á ekki að þegja – hún á að tala og vera óhrædd við að skiptast á skoðunum.
Kirkjublaðið.is hefur reyndar furðað sig á þögn og áhugaleysi þjóna kirkjunnar um ýmis kirkjumál. Lengi vel voru prestar og djáknar hin skrifandi stétt en ekki bara talandi. Kirkjuritið var vettvangur prestanna en nú er það í fasta svefni eða hrokkið upp af standinum. Örfáir prestar halda uppi merkinu með skrifum sínum til dæmis á visir.is (og reyndar í Kirkjublaðið.is) en flestir þegja.
Á fæstum heimasíðum safnaðanna er hægt að lesa eitthvað sem frá prestunum kemur – prédikanir eru sjaldan ef ekki birtar þar en þó er vefur Laugarneskirkju þar undantekning en hefur þó ekki nýrra efni en frá því í júní á síðasta ári. Innan við tugur presta birtir að jafnaði prédikanir sínar á heimasíðu þjóðkirkjunnar, kirkjan.is, en þó eru hátt á annað hundruð presta að störfum úti í söfnuðunum og prédika margir þeirra á hverjum sunnudegi. Karlprestarnir eru þar í miklum meirihluta en kvenprestarnir, sem þó eru nánast jafnmargar körlunum, eru þar í miklum minnihluta – hvers vegna? Kvennakirkjan er nokkuð dugleg við að birta prédikanir á vef sínum og er það til mikils sóma.
Kirkjublaðið.is þekkir til manns sem hugðist rannsaka prédikanir kvenna og var með ýmsar forvitnilegar rannsóknarspurningar í því sambandi. Prédikanir kvenpresta lágu hins vegar ekkert á lausu og var ekki að finna almennt á netinu. Rannsóknin bíður síns tíma. Því má skjóta að í lokin að tími er kominn til að gefa út veglegt prédikanasafn íslenskra kvenpresta – þó að það væri ekki nema í það eina skipti. Drjúgt er til af prédikunum karlprestanna. Prédikunarsöfn eru úrelt að áliti margra og vilji einhver birta prédikun sína þá er netið rétti staðurinn.
Kirkjan þarf að taka sér tak og ganga inn í nútímann og ræða við hann annars fjarar undan henni. Það er ekki gott. Eða hvað?
Það gæti líka styrkt safnaðarvitund.
Sannarlega var það frétt sem birtist fyrir skömmu þar sem sagði frá því að sóknarpresturinn á Seltjarnarnesi hefði ákveðið að innheimta ekki fyrir skírnir, hjónavígslur og útfarir sóknarbarna sinna á Seltjarnarnesi. Þetta tilkynnti presturinn á Feisbókarsíðunni Íbúar á Seltjarnarnesi. Síðan tók fjölmiðillinn visir.is fréttina upp.
Prestar hafa gjaldskrá yfir þau verk sem stundum hafa verið kölluð aukaverk. Aukaverkin svokölluðu eru skírn, ferming, hjónavígsla, útför og útgáfa vottorða. Prestafélag Íslands gefur þessa gjaldskrá út.
Greiðslur fyrir þessi verk hafa verið hluti af lögkjörum íslenskra presta. Oft hefur mikil umræða átt sér stað um þessi verk og sitt sýnst hverjum. Fyrir tveimur árum kom upp tillaga á kirkjuþingi (2020-2022) um að fella niður þessar greiðslur og ætlaði þá allt um koll að keyra í herbúðum kennilýðsins. Hér má lesa snarpar athugasemdir kjarafulltrúa Prestafélagsins þegar hrófla átti við aukaverkagreiðslum.
Nokkrar atrennur hafa verið gerðar á undanförnum áratugum að aukaverkunum með það að markmiði að fella greiðslur niður fyrir þær og koma því með einhverjum hætti inn í föst laun eða finna nýtt fyrirkomulag á þeim, til dæmis að aukaverkgreiðslur verði hluti sóknargjalda. Þarf ekki annað en að skoða málið á timarit.is og kemur þá fljótt í ljós að um fyrirkomulag aukaverkagreiðslna til presta hefur verið ályktað eitt og annað sem hefur litlu breytt.
Sr. Bjarni Þór Bjarnason hefur verið prestur á Seltjarnarnesi frá 2012. Áður starfaði hann meðal annars sem prestur á Englandi og þar tíðkast ekki að innheimta fyrir prestsverk af þessu tagi og segist hann hafa lengi íhugað að stíga þetta skref. Forvitnilegt verður að heyra síðar af því hvort safnaðarvitund Seltirninga muni styrkjast við þetta tilboð prestsins.
Fríkirkjusöfnuðir eins og Óháði söfnuðurinn og Fríkirkjan í Reykjavík innheimta ekki aukaverkagreiðslur eins og þjóðkirkjuprestar.
Sumir prestar hafa orðið eins og það er kallað vinsælir útfararprestar og hafa haft um hönd fjölda útfara og jafnvel þrjár til fjórar í viku hverri. Aðrir hafa getið sér orð sem vinsælir giftingaprestar og eru vel bókaðir yfir sumarið til þeirra athafna.
Alltaf eru einhverjir prestar sem taka ekki neitt fyrir að inna af hendi svo kölluð aukaverk og telja þau eiga að vera fólgin í þjónustu kirkjunnar. Ekki er tekið fyrir skírn fari hún fram í guðsþjónustu safnaðarins. Engar sögur fara um að prestar séu aðgangsharðir í innheimtu fyrir þessi aukastörf heldur þvert á móti felli þeir niður greiðslur þegar efnalítið fólk á í hlut.
Segja má að aukaverkafyrirkomulagið geti unnið gegn sóknarvitund í nútímanum og þær vangaveltur eru ekki neitt nýjar. Svo má alltaf spyrja hvort hin svo kallaða sóknarvitund sé til – söfnuðurinn er svo sem í orði félagsleg grunneining þjóðkirkjunnar. Vinsælir athafnaprestar – ef nota má það orð – valsa um á milli sókna, skíra, gifta og jarða, þvert á allar sóknir. Sumir eru jafnvel mjög svo bókaðir í þessum verkum að stundum hefur verið spurt hvort þeir hafi einhvern tíma yfir höfuð til að sinna safnaðarstörfum. Aukaverkin eru í raun vara á frjálsum markaði sem einstaklingurinn á og hann býður vöruna þeim sem honum líst best á og presturinn (verktakinn) telur ekkert hamla því. Það er því ekki að undra að komið hafa upp raddir um algert frelsi sóknarbarna um að velja sér sókn og að sóknargjald þeirra renni til hennar. Sóknarmörk séu enda orðin úrelt og prestarnir sjálfir sýni það með aukaverkaflandri sínu milli sókna.
En þessi frétt virðist hafa farið fram hjá kennilýð íslensku þjóðkirkjunnar eða þá að hann hafi ekki skoðun á henni. Enginn þar á bæ hefur vakið athygli á henni eftir því sem Kirkjublaðið.is veit best en er hún þó allrar athygli verð. Kannski vill enginn tjá sig um þetta þar sem um kjaramál er að ræða, sé litið á málið með formlegum hætti en ekki breytta og bætta þjónustu við sóknarbörnin eins og sr. Bjarni Þór telur. Það er náttúrlega afleitt ef enginn í boðandi, biðjandi og þjónandi, störfum kirkjunnar hefur ekkert um þetta að segja. Þó ekki væri nema að hrósa presti Seltirninga fyrir tiltækið. Því miður virðist það reyndar vera svo að kennistéttinni er ósýnt um að hrósa kollegum sínum – það er umhugsunarvert. Þögnin er hins vegar vandræðalega áberandi og í þessu tilviki leitast hún við að þegja um nýlundu prestsins og hans athyglisverða framtak. Kirkjan á ekki að þegja – hún á að tala og vera óhrædd við að skiptast á skoðunum.
Kirkjublaðið.is hefur reyndar furðað sig á þögn og áhugaleysi þjóna kirkjunnar um ýmis kirkjumál. Lengi vel voru prestar og djáknar hin skrifandi stétt en ekki bara talandi. Kirkjuritið var vettvangur prestanna en nú er það í fasta svefni eða hrokkið upp af standinum. Örfáir prestar halda uppi merkinu með skrifum sínum til dæmis á visir.is (og reyndar í Kirkjublaðið.is) en flestir þegja.
Á fæstum heimasíðum safnaðanna er hægt að lesa eitthvað sem frá prestunum kemur – prédikanir eru sjaldan ef ekki birtar þar en þó er vefur Laugarneskirkju þar undantekning en hefur þó ekki nýrra efni en frá því í júní á síðasta ári. Innan við tugur presta birtir að jafnaði prédikanir sínar á heimasíðu þjóðkirkjunnar, kirkjan.is, en þó eru hátt á annað hundruð presta að störfum úti í söfnuðunum og prédika margir þeirra á hverjum sunnudegi. Karlprestarnir eru þar í miklum meirihluta en kvenprestarnir, sem þó eru nánast jafnmargar körlunum, eru þar í miklum minnihluta – hvers vegna? Kvennakirkjan er nokkuð dugleg við að birta prédikanir á vef sínum og er það til mikils sóma.
Kirkjublaðið.is þekkir til manns sem hugðist rannsaka prédikanir kvenna og var með ýmsar forvitnilegar rannsóknarspurningar í því sambandi. Prédikanir kvenpresta lágu hins vegar ekkert á lausu og var ekki að finna almennt á netinu. Rannsóknin bíður síns tíma. Því má skjóta að í lokin að tími er kominn til að gefa út veglegt prédikanasafn íslenskra kvenpresta – þó að það væri ekki nema í það eina skipti. Drjúgt er til af prédikunum karlprestanna. Prédikunarsöfn eru úrelt að áliti margra og vilji einhver birta prédikun sína þá er netið rétti staðurinn.
Kirkjan þarf að taka sér tak og ganga inn í nútímann og ræða við hann annars fjarar undan henni. Það er ekki gott. Eða hvað?
Það gæti líka styrkt safnaðarvitund.