Dr. Hjalti Hugason, prófessor emeritus, sest við Gestagluggann  og ræðir málefni líðandi stundar af skarpskyggni og skynsemi.  Mynd: Kirkjublaðið.is

Einatt fellur í grýtta jörð þegar þjóðkirkjan og/eða þjónar hennar tjá sig um svokölluð pólitísk málefni. Málsvarar íhaldsins í landinu hafa ekki síst lagst gegn þessu.[1] Hér skal eigi að síður vikið að tveimur málaflokkum sem vonandi verða í brennidepli í aðdraganda komandi kosninga og eru þar af leiðandi hápólitískir. Hér er átt við aðsteðjandi loftslagsvá og málefni fólks á flótta, en hvort tveggja eru þetta viðfangsefni sem kristin kirkja getur ekki leitt hjá sér vilji hún vera trúverðug. Skiptir þá engu hvort um er að ræða íslensku þjóðkirkjuna eða hvaða annað kristið trúfélag sem er. Þessi málefni eru þess eðlis að þau eru ekki aðeins pólitísk heldur einnig guðfræði- og trúarleg.

Syndafall

Fyrir daga iðnbyltingarinnar og þeirra nútímalegu aðstæðna sem hún lagði grunn að lifði tegundin maður að mestu í sátt við náttúruna. Vissulega stundaði maðurinn rányrkju í það minnsta sums staðar og stundum. Á það ekki síst við á viðkvæmum svæðum nærri mörkum hins byggilega heims líkt og hér á landi. Tæknin sem maðurinn bjó yfir meðan handverkfæri voru næstum einráð setti honum þó skorður og hann náði ekki að setja mark sitt á umhverfið á neinn viðlíka hátt og gerðist eftir að vélvæðingin hófst. Þá tók við þróun sem ekki sér fyrir endann á og kemur skýrast í ljós í loftslagsvánni.

Hér kann einhverjum að virðast glitta í hugmyndina um glataða gullöld, sæluástand eða Paradís. Það er þó ekki sú glansmynd sem fyrir mér vakir enda á hún ekki við rök að styðjast. Hér er aðeins reynt að benda á skýr hvörf sem urðu í sögunni á mörkum hins gamla og nýja tíma. Hinn gamli tími einkenndist af meira jafnvægi milli manns og náttúru en ríkt hefur síðan nútíminn gekk í garð. Áður hafði maðurinn umgengist náttúruna líkt og garðyrkjumeistari en tók síðar að líta á sig sem herra hennar og braut hana undir vald sitt.

Hvörfin urðu þó ekki minni þegar athyglinni er beint frá samskiptum manns og náttúru og hugað er að samskiptum manna innbyrðis. Vissulega hefur ætíð verið munur á frjálsu og ófrjálsu fólki, hátt og lágt settu, ríku og snauðu. Í grundvallaratriðum var þó mannkynið undir sömu kjör selt. Frammi fyrir uppskerubresti, hungursneyðum, styrjöldum og sóttum voru öll jöfn þegar til kastanna kom. Svo er ekki lengur. Jörðina byggir nú ekki eitt mannkyn eins og áður var heldur tvö: flóttafólkið sem getur ekki séð sér farborða í heimkynnum sínum og við hin sem getum haldið kyrru fyrir við öruggar aðstæður. Núverandi andstæður má að verulegu leyti rekja til nýlendutímans og margháttaðs arðráns í hinum gömlu nýlendum sem og annars konar ranglætis milli norðurs og suðurs á jarðarkringlunni.

Þegar horft er til þeirrar þróunar sem staðið hefur frá upphafi nútímans virðist ekki langsótt að spyrja hvort ekki megi heimfæra upprunasögu Fyrstu Mósebókar og skilja hana sem syndafall þar sem misskipting og ójöfnuður tók yfirhöndina.

Syndajátning

Sé þetta sjónarhorn viðhaft er ljóst að kirkjur heims geta ekki horft þegjandi upp á ástandið. Það er þó ekki eina ástæða þess að alheimskirkjan hlýtur að láta loftslagsvána og flóttamannavandann til sín taka. Miklu frekar er það vegna þess að hún á mikla sök í þessu efni. Þegar á fyrstu öldum kristni gekk kirkjan bláeyg inn í þá tvíhyggju sem ráðandi var í hinum menntaða samtímaheimi. Samkvæmt henni var maðurinn staddur á stað þar sem lína lá á milli tveggja andstæðra póla: efnis og anda, náttúru og menningar, líkamlegs og hugræns, kvenlægs og karllægs. Í krafti tvíhyggjunnar sagði maðurinn sig svo úr lögum við náttúruna og hinn vestræni maður sneri baki við systkinum sínum í öðrum heimshlutum.

Kirkjan hlýtur því að játa að hún skaut nýjum stoðum undir forna heimsmynd og veitti henni framhaldslíf. Í því felst syndajátning hennar frammi fyrir áskorununum sem við okkur blasa.

Yfirbót

Játning synda er merkingarlaus ef hún leiðir ekki til yfirbótar. Í henni felst að leitað er eftir nýju upphafi, endurnýjun, endurheimt glataðs ástands. Kirkjan hlýtur að leitast við að verða öðrum fyrirmynd í þessu efni enda dreymir hana um nýjan himin og nýja jörð ekki aðeins einhvers staðar langt handan tíma og rúms heldur einnig hér og nú.

Óskandi er að loftslagsváin og aðgerðir gegn henni nái athygli bæði frambjóðenda og kjósenda í komandi kosningum. Í því sambandi er ekki ábyrgt að spyrja aðeins: hvernig getum við hámarkað tekjur okkar af auðlindum jarðar; hvernig getum við best haldið uppi sem mestum hagvexti og tryggt okkur áfram þá lífshætti sem við höfum tamið okkur? Spurningar í anda yfirbótar snúast þvert á móti um hvernig getum við endurreist jafnvægi manns og náttúru; hvernig við getum stundað sjálfbæra lífshætti og búið með því í haginn fyrir komandi kynslóðir.

Í komandi kosningum verður vonandi líka tekist á um stefnu í útlendingamálum (lesist: móttöku flóttafólks). Sú umræða má ekki einskorðast við spurningar eins og: Hve mörgu flóttafólki getum við tekið á móti; hve miklum fjármunum viljum við verja til þess og hvernig getum við varist ásókn fólks á flótta? Þetta eru spurningar byggðar á gamalli heimsmynd, heimsmynd andstæðna og síngirni. Í anda yfirbótar ber okkur frekar að spyrja: Hvernig leysum við vanda flóttafólks ef ekki með því að veita því hæli; hvernig deilum við kjörum á þessari jörð af sem mestu réttlæti og hvernig stuðlum við að því að mannkynið verði aftur eitt og heilt? Þetta eru spurningar byggðar á samstöðu og viðurkenningu á því að við erum öll jöfn þegar til kastanna kemur.

Út frá sjónarhorni trúarinnar ætti framtíðin að einkennast af því að eitt mannkyn búi á þessari jörð í sem mestu jafnvægi við náttúruna. — Er þegar orðið of áliðið til að það sé mögulegt?

Tilvísun:

[1] Sjá t.d. Hjalti Hugason, „Trú og pólitík“, Kirkjublaðið 21. október 2024, sótt 27. október 2024.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Dr. Hjalti Hugason, prófessor emeritus, sest við Gestagluggann  og ræðir málefni líðandi stundar af skarpskyggni og skynsemi.  Mynd: Kirkjublaðið.is

Einatt fellur í grýtta jörð þegar þjóðkirkjan og/eða þjónar hennar tjá sig um svokölluð pólitísk málefni. Málsvarar íhaldsins í landinu hafa ekki síst lagst gegn þessu.[1] Hér skal eigi að síður vikið að tveimur málaflokkum sem vonandi verða í brennidepli í aðdraganda komandi kosninga og eru þar af leiðandi hápólitískir. Hér er átt við aðsteðjandi loftslagsvá og málefni fólks á flótta, en hvort tveggja eru þetta viðfangsefni sem kristin kirkja getur ekki leitt hjá sér vilji hún vera trúverðug. Skiptir þá engu hvort um er að ræða íslensku þjóðkirkjuna eða hvaða annað kristið trúfélag sem er. Þessi málefni eru þess eðlis að þau eru ekki aðeins pólitísk heldur einnig guðfræði- og trúarleg.

Syndafall

Fyrir daga iðnbyltingarinnar og þeirra nútímalegu aðstæðna sem hún lagði grunn að lifði tegundin maður að mestu í sátt við náttúruna. Vissulega stundaði maðurinn rányrkju í það minnsta sums staðar og stundum. Á það ekki síst við á viðkvæmum svæðum nærri mörkum hins byggilega heims líkt og hér á landi. Tæknin sem maðurinn bjó yfir meðan handverkfæri voru næstum einráð setti honum þó skorður og hann náði ekki að setja mark sitt á umhverfið á neinn viðlíka hátt og gerðist eftir að vélvæðingin hófst. Þá tók við þróun sem ekki sér fyrir endann á og kemur skýrast í ljós í loftslagsvánni.

Hér kann einhverjum að virðast glitta í hugmyndina um glataða gullöld, sæluástand eða Paradís. Það er þó ekki sú glansmynd sem fyrir mér vakir enda á hún ekki við rök að styðjast. Hér er aðeins reynt að benda á skýr hvörf sem urðu í sögunni á mörkum hins gamla og nýja tíma. Hinn gamli tími einkenndist af meira jafnvægi milli manns og náttúru en ríkt hefur síðan nútíminn gekk í garð. Áður hafði maðurinn umgengist náttúruna líkt og garðyrkjumeistari en tók síðar að líta á sig sem herra hennar og braut hana undir vald sitt.

Hvörfin urðu þó ekki minni þegar athyglinni er beint frá samskiptum manns og náttúru og hugað er að samskiptum manna innbyrðis. Vissulega hefur ætíð verið munur á frjálsu og ófrjálsu fólki, hátt og lágt settu, ríku og snauðu. Í grundvallaratriðum var þó mannkynið undir sömu kjör selt. Frammi fyrir uppskerubresti, hungursneyðum, styrjöldum og sóttum voru öll jöfn þegar til kastanna kom. Svo er ekki lengur. Jörðina byggir nú ekki eitt mannkyn eins og áður var heldur tvö: flóttafólkið sem getur ekki séð sér farborða í heimkynnum sínum og við hin sem getum haldið kyrru fyrir við öruggar aðstæður. Núverandi andstæður má að verulegu leyti rekja til nýlendutímans og margháttaðs arðráns í hinum gömlu nýlendum sem og annars konar ranglætis milli norðurs og suðurs á jarðarkringlunni.

Þegar horft er til þeirrar þróunar sem staðið hefur frá upphafi nútímans virðist ekki langsótt að spyrja hvort ekki megi heimfæra upprunasögu Fyrstu Mósebókar og skilja hana sem syndafall þar sem misskipting og ójöfnuður tók yfirhöndina.

Syndajátning

Sé þetta sjónarhorn viðhaft er ljóst að kirkjur heims geta ekki horft þegjandi upp á ástandið. Það er þó ekki eina ástæða þess að alheimskirkjan hlýtur að láta loftslagsvána og flóttamannavandann til sín taka. Miklu frekar er það vegna þess að hún á mikla sök í þessu efni. Þegar á fyrstu öldum kristni gekk kirkjan bláeyg inn í þá tvíhyggju sem ráðandi var í hinum menntaða samtímaheimi. Samkvæmt henni var maðurinn staddur á stað þar sem lína lá á milli tveggja andstæðra póla: efnis og anda, náttúru og menningar, líkamlegs og hugræns, kvenlægs og karllægs. Í krafti tvíhyggjunnar sagði maðurinn sig svo úr lögum við náttúruna og hinn vestræni maður sneri baki við systkinum sínum í öðrum heimshlutum.

Kirkjan hlýtur því að játa að hún skaut nýjum stoðum undir forna heimsmynd og veitti henni framhaldslíf. Í því felst syndajátning hennar frammi fyrir áskorununum sem við okkur blasa.

Yfirbót

Játning synda er merkingarlaus ef hún leiðir ekki til yfirbótar. Í henni felst að leitað er eftir nýju upphafi, endurnýjun, endurheimt glataðs ástands. Kirkjan hlýtur að leitast við að verða öðrum fyrirmynd í þessu efni enda dreymir hana um nýjan himin og nýja jörð ekki aðeins einhvers staðar langt handan tíma og rúms heldur einnig hér og nú.

Óskandi er að loftslagsváin og aðgerðir gegn henni nái athygli bæði frambjóðenda og kjósenda í komandi kosningum. Í því sambandi er ekki ábyrgt að spyrja aðeins: hvernig getum við hámarkað tekjur okkar af auðlindum jarðar; hvernig getum við best haldið uppi sem mestum hagvexti og tryggt okkur áfram þá lífshætti sem við höfum tamið okkur? Spurningar í anda yfirbótar snúast þvert á móti um hvernig getum við endurreist jafnvægi manns og náttúru; hvernig við getum stundað sjálfbæra lífshætti og búið með því í haginn fyrir komandi kynslóðir.

Í komandi kosningum verður vonandi líka tekist á um stefnu í útlendingamálum (lesist: móttöku flóttafólks). Sú umræða má ekki einskorðast við spurningar eins og: Hve mörgu flóttafólki getum við tekið á móti; hve miklum fjármunum viljum við verja til þess og hvernig getum við varist ásókn fólks á flótta? Þetta eru spurningar byggðar á gamalli heimsmynd, heimsmynd andstæðna og síngirni. Í anda yfirbótar ber okkur frekar að spyrja: Hvernig leysum við vanda flóttafólks ef ekki með því að veita því hæli; hvernig deilum við kjörum á þessari jörð af sem mestu réttlæti og hvernig stuðlum við að því að mannkynið verði aftur eitt og heilt? Þetta eru spurningar byggðar á samstöðu og viðurkenningu á því að við erum öll jöfn þegar til kastanna kemur.

Út frá sjónarhorni trúarinnar ætti framtíðin að einkennast af því að eitt mannkyn búi á þessari jörð í sem mestu jafnvægi við náttúruna. — Er þegar orðið of áliðið til að það sé mögulegt?

Tilvísun:

[1] Sjá t.d. Hjalti Hugason, „Trú og pólitík“, Kirkjublaðið 21. október 2024, sótt 27. október 2024.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir