Lítil frétt í Morgunblaðinu fyrir skömmu vakti athygli Kirkjublaðsins.is og er tilefni þessarar stuttu umfjöllunar um horfna list.

Alþingismenn hafa greinilega hrokkið í kút þegar þeir áttuðu sig á því að kaupa þurfi listaverk í nýja Landspítalann fyrir á þriðja milljarð. Lög mæla svo um að kaupa skuli listaverk í opinberar nýbygginar sem nemi að minnsta kosti 1% af heildarbyggingarkostnaði – og Landspítalinn kostar sitt – (skjáskot úr Morgunblaðinu 21. október 2023)

Kapellur er gjarnan að finna á sjúkrahúsum. Það er gömul og rótgróin hefð. Í kapellum getur fólk átt næðisstundir með sjálfu sér og almættinu. Íhugað  og beðist fyrir. Kapellur á fæðingardeildum endurspegla djúpa hugsun því þar kemur lífið í heiminn sem er fagnað og þakkað fyrir. En þar getur líka lífið kvatt um leið og það kemur. Hvort tveggja gefur tilefni til að eiga stund í kapellu þótt harla ólík séu.

Það var mikill metnaður sem kom í ljós eftir að ákveðið var að komið skyldi upp kapellu við kvennadeild Landspítalans. „Mikils er um vert að hún verði veglega búin,“ sagði í tilkynningu frá nefnd sem hafði verið sett á laggirnar til að safna fyrir listaverkum í kapelluna. „Er áformað að fá þekktan listamann til þess að hanna skreytingu og frágang kapellunnar,“ sagði einnig í tilkynningunni.[1]

Hjúkrunarfræðingurinn Þórunn Þorsteinsdóttir (1911-1973) var aðal driffjöðurin í því að kapellu yrði komið upp við kvennadeildina.

Rausnarlegar gjafir bárust til kapellunnar víðs vegar að og tókst því að búa hana svo úr garði að eftir var tekið.

Listafólkið sem fengið var til verksins voru þau hjónin Leifur Breiðfjörð og Sigríður Jóhannsdóttir.[2] Leifur hannaði kapelluna og gerði steinda gluggann. Kirkjuvefnaðinn, dúka, hökul og stólur,  unnu þau Leifur og Sigríður saman. Þau völdu jafnframt liti á kapelluna sem voru ljósir og mildir. Áklæði á stólum var sérofið, blátt á lit.

Leifur er eftirsóttasti glerlistamaður sinnar tíðar hér á landi og afkastamikill í gerð listaverka fyrir kirkjur. Hann er líka fyrsti íslenski listamaðurinn sem helgar sig strax glerlistinni og setur á fót fyrsta glerlistaverkstæðið hér á landi.[3] Með því má segja að hann verði á vissan hátt áhrifamesti frumkvöðullinn í glerlistmenningunni. Leifur á fjölda verka í íslenskum kirkjum og opinberum byggingum. Einnig prýða verk hans fjölmargar byggingar víðs vegar um heiminn. Eitt kunnasta verk hans er hinn stóri steindi gluggi í St Giles-dómkirkjunni í Edinborg í Skotlandi.

Kapella kvennadeildar Landspítalans var vígð á skírdag 1982. Sr. Pétur Sigurgeirsson, biskup Íslands, sá um vígsluna.

Tímaritið Hugur og hönd sagði svo frá listaverkum þeirra hjóna 1982[4]:

Kapella kvennadeildar Landspítalans varð mjög vinsæl meðal fólks. Fjöldi barna var skírður í henni og þar fóru hjónavígslur fram. Hinir fögru listgripir áttu sinn þátt í þessum vinsældum sem og birtan og hlýjan í þessari litlu kapellu sem tók um 20 manns í sæti.

Þegar kapellunni var lokað fyrir nokkrum árum var munum hennar komið í geymslu Landspítalans. Mikil ábyrgð er lögð á herðar þeirra er halda utan um þau listaverk sem Landspítalinn á. Á bak við þau er saga, virðing og gjafmildi fjölda fólks. Gæta þarf ítrustu alúðar og virðingar við umgengi slíkra gjafa þegar nauðsyn krefst að húsnæði sé breytt og listmunir fluttir úr stað. Slíkir gripir mega ekki týnast í geymslu eða gleymast.

Nú má ekki halda að það sé einfalt mál að setja upp listaverk Leifs og Sigríðar í nýju rými. Allur búnaður kapellunnar var gerður fyrir það rými sem þá var fyrir hendi. Steindir gluggar eru til að mynda gerðir fyrir tiltekinn stað þar sem búið er að kanna allar aðstæður eins og birtuflæði á ýmsum tímum sólarhringsins. Ef til stendur að koma upp listaverkum þeirra hjóna í nýrri Landspítalabyggingu þá verður að gera það í samvinnu við þau. Annað væri fúsk.

Glerlistamaður vinnur ekki aðeins með gler heldur fyrst og síðast með ljós, með birtu. Þetta segir listamaðurinn um samskipti sín við birtuna í listsköpun sinni:

„Taka þarf tillit til fjögurra atriða varðandi birtu. Í fyrsta lagi þegar verk nýtur fullrar dagsbirtu séð innan frá. Í öðru lagi þegar sama verk er lýst upp að innan að kvöldi til og dagsbirtu nýtur ekki lengur við. Hér er það endurvarp lita í gleri og teikning blýlína sem eru miilvægustu atriðin. Í þriðja lagi verkið séð að utan að degi til. Þá er það spegilmynd verksins sem sést. Ávallt verður að taka mikið tillit til spegilmyndar hvers verks. Í fjórða lagi verkið séð að utan að kvöldi til, lýst upp innan frá. Þetta eru mjög þýðingarmikil atriði sem þarf að taka tillit til svo að steint gler getið notið sín á öllum tímum sólarhrings.“[5]

 Hér eru nokkrar myndir úr kapellunni sem Leifur Breiðfjörð tók

 

Dúkur á altari og kaleiksdúkur eftir Sigríði Jóhannsdóttur 

 

Altarisdúkur Sigríðar er fagur og með kristnum trúartáknum

Skírnarfontur kapellunnar hannaður af Leifi – sléttur marmari og ósléttur

Hökulinn óf Sigríður

Margir komu að þessu verki, kapellu Kvennadeildar Landspítlans – verk þeirra og framlag verður að virða með því að sjá til þess að gjafir og góðhugur nái fram að ganga með því að koma munum fyrir í nýrri kapellu

Listamennirnir Leifur Breiðfjörð og Sigríður Jóhannsdóttir – mynd: Kirkjublaðið.is

Tilvísanir:

[1] „Kapella Kvennadeildar Landspítalans,” í Hjúkrun, tímarit Hjúkrunarfélags Íslands, 57. árg., 2. tbl., 1. ágúst 1981, 21.

[2] „Kapella kvennadeildar Landspítalans,” Fréttabréf Biskupsstofu, 3. tbl. 5. árg. 15. mars 1982, 5.

[3] Aðalsteinn Ingólfsson, Leifur Breiðfjörð – steint gler (Reykjavík: Mál og menning, 1995), 9.

[4] „Kirkjuskreyting eftir sigríði jóhannsdóttur og leif breiðfjörð,” Hugur og hönd, 17. árg. 1. tbl., 1982, 24-25.

[5] Leifur Breiðfjörð, „Hugleiðing um steint gler í kirkjum,” í Arkitektúr og skipulag, 3. tbl. 1. september 1989, 35.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Lítil frétt í Morgunblaðinu fyrir skömmu vakti athygli Kirkjublaðsins.is og er tilefni þessarar stuttu umfjöllunar um horfna list.

Alþingismenn hafa greinilega hrokkið í kút þegar þeir áttuðu sig á því að kaupa þurfi listaverk í nýja Landspítalann fyrir á þriðja milljarð. Lög mæla svo um að kaupa skuli listaverk í opinberar nýbygginar sem nemi að minnsta kosti 1% af heildarbyggingarkostnaði – og Landspítalinn kostar sitt – (skjáskot úr Morgunblaðinu 21. október 2023)

Kapellur er gjarnan að finna á sjúkrahúsum. Það er gömul og rótgróin hefð. Í kapellum getur fólk átt næðisstundir með sjálfu sér og almættinu. Íhugað  og beðist fyrir. Kapellur á fæðingardeildum endurspegla djúpa hugsun því þar kemur lífið í heiminn sem er fagnað og þakkað fyrir. En þar getur líka lífið kvatt um leið og það kemur. Hvort tveggja gefur tilefni til að eiga stund í kapellu þótt harla ólík séu.

Það var mikill metnaður sem kom í ljós eftir að ákveðið var að komið skyldi upp kapellu við kvennadeild Landspítalans. „Mikils er um vert að hún verði veglega búin,“ sagði í tilkynningu frá nefnd sem hafði verið sett á laggirnar til að safna fyrir listaverkum í kapelluna. „Er áformað að fá þekktan listamann til þess að hanna skreytingu og frágang kapellunnar,“ sagði einnig í tilkynningunni.[1]

Hjúkrunarfræðingurinn Þórunn Þorsteinsdóttir (1911-1973) var aðal driffjöðurin í því að kapellu yrði komið upp við kvennadeildina.

Rausnarlegar gjafir bárust til kapellunnar víðs vegar að og tókst því að búa hana svo úr garði að eftir var tekið.

Listafólkið sem fengið var til verksins voru þau hjónin Leifur Breiðfjörð og Sigríður Jóhannsdóttir.[2] Leifur hannaði kapelluna og gerði steinda gluggann. Kirkjuvefnaðinn, dúka, hökul og stólur,  unnu þau Leifur og Sigríður saman. Þau völdu jafnframt liti á kapelluna sem voru ljósir og mildir. Áklæði á stólum var sérofið, blátt á lit.

Leifur er eftirsóttasti glerlistamaður sinnar tíðar hér á landi og afkastamikill í gerð listaverka fyrir kirkjur. Hann er líka fyrsti íslenski listamaðurinn sem helgar sig strax glerlistinni og setur á fót fyrsta glerlistaverkstæðið hér á landi.[3] Með því má segja að hann verði á vissan hátt áhrifamesti frumkvöðullinn í glerlistmenningunni. Leifur á fjölda verka í íslenskum kirkjum og opinberum byggingum. Einnig prýða verk hans fjölmargar byggingar víðs vegar um heiminn. Eitt kunnasta verk hans er hinn stóri steindi gluggi í St Giles-dómkirkjunni í Edinborg í Skotlandi.

Kapella kvennadeildar Landspítalans var vígð á skírdag 1982. Sr. Pétur Sigurgeirsson, biskup Íslands, sá um vígsluna.

Tímaritið Hugur og hönd sagði svo frá listaverkum þeirra hjóna 1982[4]:

Kapella kvennadeildar Landspítalans varð mjög vinsæl meðal fólks. Fjöldi barna var skírður í henni og þar fóru hjónavígslur fram. Hinir fögru listgripir áttu sinn þátt í þessum vinsældum sem og birtan og hlýjan í þessari litlu kapellu sem tók um 20 manns í sæti.

Þegar kapellunni var lokað fyrir nokkrum árum var munum hennar komið í geymslu Landspítalans. Mikil ábyrgð er lögð á herðar þeirra er halda utan um þau listaverk sem Landspítalinn á. Á bak við þau er saga, virðing og gjafmildi fjölda fólks. Gæta þarf ítrustu alúðar og virðingar við umgengi slíkra gjafa þegar nauðsyn krefst að húsnæði sé breytt og listmunir fluttir úr stað. Slíkir gripir mega ekki týnast í geymslu eða gleymast.

Nú má ekki halda að það sé einfalt mál að setja upp listaverk Leifs og Sigríðar í nýju rými. Allur búnaður kapellunnar var gerður fyrir það rými sem þá var fyrir hendi. Steindir gluggar eru til að mynda gerðir fyrir tiltekinn stað þar sem búið er að kanna allar aðstæður eins og birtuflæði á ýmsum tímum sólarhringsins. Ef til stendur að koma upp listaverkum þeirra hjóna í nýrri Landspítalabyggingu þá verður að gera það í samvinnu við þau. Annað væri fúsk.

Glerlistamaður vinnur ekki aðeins með gler heldur fyrst og síðast með ljós, með birtu. Þetta segir listamaðurinn um samskipti sín við birtuna í listsköpun sinni:

„Taka þarf tillit til fjögurra atriða varðandi birtu. Í fyrsta lagi þegar verk nýtur fullrar dagsbirtu séð innan frá. Í öðru lagi þegar sama verk er lýst upp að innan að kvöldi til og dagsbirtu nýtur ekki lengur við. Hér er það endurvarp lita í gleri og teikning blýlína sem eru miilvægustu atriðin. Í þriðja lagi verkið séð að utan að degi til. Þá er það spegilmynd verksins sem sést. Ávallt verður að taka mikið tillit til spegilmyndar hvers verks. Í fjórða lagi verkið séð að utan að kvöldi til, lýst upp innan frá. Þetta eru mjög þýðingarmikil atriði sem þarf að taka tillit til svo að steint gler getið notið sín á öllum tímum sólarhrings.“[5]

 Hér eru nokkrar myndir úr kapellunni sem Leifur Breiðfjörð tók

 

Dúkur á altari og kaleiksdúkur eftir Sigríði Jóhannsdóttur 

 

Altarisdúkur Sigríðar er fagur og með kristnum trúartáknum

Skírnarfontur kapellunnar hannaður af Leifi – sléttur marmari og ósléttur

Hökulinn óf Sigríður

Margir komu að þessu verki, kapellu Kvennadeildar Landspítlans – verk þeirra og framlag verður að virða með því að sjá til þess að gjafir og góðhugur nái fram að ganga með því að koma munum fyrir í nýrri kapellu

Listamennirnir Leifur Breiðfjörð og Sigríður Jóhannsdóttir – mynd: Kirkjublaðið.is

Tilvísanir:

[1] „Kapella Kvennadeildar Landspítalans,” í Hjúkrun, tímarit Hjúkrunarfélags Íslands, 57. árg., 2. tbl., 1. ágúst 1981, 21.

[2] „Kapella kvennadeildar Landspítalans,” Fréttabréf Biskupsstofu, 3. tbl. 5. árg. 15. mars 1982, 5.

[3] Aðalsteinn Ingólfsson, Leifur Breiðfjörð – steint gler (Reykjavík: Mál og menning, 1995), 9.

[4] „Kirkjuskreyting eftir sigríði jóhannsdóttur og leif breiðfjörð,” Hugur og hönd, 17. árg. 1. tbl., 1982, 24-25.

[5] Leifur Breiðfjörð, „Hugleiðing um steint gler í kirkjum,” í Arkitektúr og skipulag, 3. tbl. 1. september 1989, 35.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir