Lengi hafa alltaf sömu sögurnar fylgt jólum. Ein þeirra er eftir breska sagnameistarann, Charles Dickens (1812-1870). Það er sagan Jóladraumur (e. A Christmas Carol: A Ghost Story of Christmas) en í dag, 19. desember, eru nákvæmlega 180 ár frá því að hún kom fyrst út, hjá forlaginu Chapman & Hall í London, 1843. Sú saga sló rækilega í gegn og var uppseld á jóladag – sexþúsund einstök seldust á fáeinum dögum. Forlagið þeirra Chapmans og Halls starfar enn og er í miklum blóma. Vandað var til útgáfu á Jóladraumi, bókin innbundin og prýdd snjöllum myndum eftir John Leech (1817-1864) sem var góður vinur höfundarins.
Þessi saga hefur komið tvisvar út á íslensku. Fyrst 1942 og þá í þýðingu Karls Ísfelds (1906-1960) í bókinni Jólaævintýri en hann var kunnur þýðandi heimsbókmenntanna. Hann þýddi til dæmis finnska goðsagnakvæðið, Kalevala. Titill sögunnar hjá Karli var: Jóladraumur – og undirtitill: Saga um reimleika á jólunum. Sama þýðing sögunnar kom svo út aftur árið 2009. Árið 1986 kom sagan út í þýðingu hins rómaða ljóðskálds, Þorsteins frá Hamri (1938-2018), og bar sama heiti, Jólaævintýri með undirtitlinum: Reimleikasaga frá jólum. Báðar þessar útgáfur eru óstyttar en gjarnan var brugðið á það ráð að stytta sögur Dickens í þýðingum. Þá er og til tvímála þýðing (íslenska og enska) frá 2016 sem Jean-Rémi Chareyre (f. 1980), gerði: Jólaævintýri: reimleikasaga frá jólum.
Eins og allar góðar sögur hefur Jóladraumur Dickens ratað í kvikmyndir, leikhús, teiknimyndabækur og söngleiki.
En hvað er svo jólalegt við þessa sögu annað en það að hún gerist á jólum?
Er þetta ekki samfélagsleg ádrepa í anda Dickens sem þekkti kröpp kjör á eigin skinni? Hvers vegna að draga lesendur í för með höfundi um húsakynni fátækra, kúgaðra, þjófa og burgeisa?
Fégirndin er rót alls ills, segir einhvers staðar, giskið hvar, og Ebeneser Scrooge aðalpersóna sögunnar er hinn mesti nirfill. Hann er í raun fangi fégræðginnar og lifir innihaldslausu og aumu lífi. Aurasálin verður ekki frjáls maður fyrr en maurapúkaháttur hans er sigraður. Áður en sá sigur er í höfn þarf Scrooge að fara í gegnum fjórar martraðir sem eru kennslustundir í kristinni siðfræði.
Jólaboðskapur kristinnar trúar getur umbreytt fólki. Sagan segir einmitt frá því hvernig nánösin Scrooge breytist í hinn besta og kærleiksríka mann. Hvernig illskan er sigruð með hinu góða. Já, sagan er í raun og veru upprisusaga. Hann rís upp til lífs, til annars fólks með útrétta hönd í stað blákaldrar grútarloppu. Og boðskapur upprisunnar er kjarni kristinnar trúar.
Kannski þekkjast þessir persónuleikar enn í dag eins og peningapúkinn Scrooge? Hafa allt á hornum sér þegar komið er að því að fagna jólum. Sjá sóun í öllu sem er gert, draga fram allt það neikvæða og hneykslast á jólagjöfum og segja jólin ekki annað en ofát og iðjuleysi. Harðneskjulegir og fastir í smásálarskapnum. Forhertir. Eru sjaldnast glaðir. Eina jólabók þeirra er bankabókin í heimabankanum. Mörgum þeirra liggur illt orð til kirkju og guðskristni; eru í fjötrum efnishyggjunnar og tómhyggjunnar.
En hvers konar mynd er dregin upp af þessari grútarsál í sögu Dickens? Getur verið að slíkar sálir séu enn hugsanlega á sveimi þó að öldin sé önnur? Svari hver fyrir sig.
Ebeneser Scrooge hafði komið svo miklu nískuorði á sjálfan sig að enginn betlari leitaði á náðir hans og er þá mikið sagt. Mannhatur og félagsleg andúð næra sálu hans því hann naut þess:
„að ryðjast með olnbogaskotum gegnum mannþyrpingarnar á lífsleiðinni og varna allri mannlegri samúð að koma nálægt sér.“ (Bls. 10).
Hann fyrirlítur fátæka og skiptir ekki máli hvort þeir eru skyldir honum eða ekki en við frænda sinn segir hann:
„Hvaða ástæðu hefur þú til að vera glaður? Svona fátæklingsræfill eins og þú?“ (Bls. 13).
Og bætir því svo við að frændinn eigi að fara:
„norður og niður með þessi gleðilegu jól.“ (Bls. 14).
En frændi hans er ekki af baki dottinn og kynnir fyrir honum í raun og veru inntak mannúðar og kristilegs kærleika:
„Jólin eru eini tími ársins sem allir virðast vera samhuga um að opna harðlæst hjörtun upp á gátt og líta á meðbræður sína sem lægra eru settir sem förunauta á leið til grafarinnar en ekki eins og aðrar manntegundir í öðrum erindagjörðum.“ (Bls. 15).
En meira varð að koma til en þessi orð frændans til þess að breyta hugarfari gróðavargsins.
Nirfillinn Scrooge vísar á braut mönnum sem eru að safna fé til að styrkja fátæka og munaðarlausa með þeim orðum að hann styrki aðeins fangelsi og þrælkunarhús. Sjálfur er hann með allt á hreinu:
„Ég held jólin ekki hátíðleg sjálfur og hef ekki efni á að skemmta slæpingjum á minn kostnað.“ (Bls. 19).
Hann naut þess að hamra á þessari afstöðu sinni og leið vel eftir að hafa látið hana í ljós.
En nirfillinn Schrooge fær tækifæri til að snúa við frá nánasarhætti sínum. Vofa fyrrum samstarfsmanns hans sem var honum samstíga í öllu í lifanda lífi og reikar um í eilífðarfjötrum birtist og erindið var þetta:
„Ég er kominn hingað í kvöld til að aðvara þig og láta þig vita að þú hefur enn þá tækifæri og von um að geta komist hjá örlögum mínum. Þetta tækifæri og þessa von færi ég þér, Ebeneser Scrooge.“ (Bls. 38).
Verkferlið eins og sagt yrði í dag fólst í því að þrír andar voru sendir til grútarháleistsins Scrooge. Dickens greip þar til enskra þjóðfræða sem geyma margar sagnir um að á jólanótt væru vofur framliðinna á ferð og tækju lifandi fólk tali.
Fyrsti andinn leiddi hann á slóðir bernskujóla Scrooges sjálfs. Annar andinn sýnir honum yfirstandandi jól og sá þriðji jólin sem koma.
Það sem verður á vegi nirfilsins á þessum ferðalögum með öndunum skrælir í raun og veru af honum skráp nískunnar. En það var ekki auðvelt fyrir hann. Scrooge leið ekki vel enda þótt búið væri að vekja upp í honum samkennd með öðru fólki. Smám saman sér hann eftir því hvernig hann hefur komið fram við aðra. Hann biður fyrsta andann um að fara með sig heim því það sem hann sér valdi honum kvölum, já í raun og veru sálarkvölum. Og ferðalagið með öðrum andanum sem sýndi honum jól líðandi stundar hafði þessi áhrif á Scrooge þegar hann hlustaði á frænku sína leika fallegt jólalag á hörpu sína:
„Hann varð sífellt meyrari og meyrari í lund og hann hugsaði sem svo að ef hann hefði getað hlustað á þetta lag oftar á ævinni hefði hann geta orðið vingjarnlegri við þá sem hann umgekkst og átti einhver samskipti við.“ (Bls. 104).
Þriðji andinn kynnir jól framtíðarinnar fyrir Scrooge og hrellir hann svo um munar með því að sýna honum menn sem sækja jarðarför manns nokkurs eingöngu til að komast í gott erfi. Eigum hins látna er stolið og farið með þær til veðmangara. Scrooge er svo leiddur að „mosagrónum, vanhirtum“ legsteini með nafni sínu á. Hann hrópar upp yfir sig:
„Ég skal halda jólin í heiðri og ég mun ekki gleyma því sem þið hafið kennt mér…“ (Bls. 132).
Og margt annað sýndu þessir andar fépúkanum Scrooge sem ekki er rakið hér. En allt hafði það sín áhrif á hann.
Hvernig breyttist nirfillinn til hins betra?
Á jóladagsmorgni var hann umbreyttur maður:
„Ég er svo léttur á mér, hamingjusamur eins og engill og kátur eins og skólapiltur. …. Gleðileg jól, gott fólk? Gleðilegt nýtt ár, góðir menn!“ (Bls. 134).
Hann tók að sýna fólki umhyggju og elskusemi, gjafmildi og gæsku. Hann hafði breyst úr gróðasál í gullsál, kannski ekki rétt að segja gullsál í þessu sambandi, heldur kærleiksríka sál. Boðskapur jólanna náði til hans. Hann reis upp til lífs.
Nú má velta því fyrir sér þegar sagan er lesin hversu vel saga af þessu tagi nær til nútímalesenda – til dæmis ungs fólks.
Það er nú það. Lesendum verður eftirlátið að íhuga það.
Hvað sem því annars líður hefur þessi saga lifað í 180 ár og er það allnokkurt afrek.
———
Kirkjublaðið.is hafði undir höndum þýðingu Karls Ísfelds frá útgáfu Bókafélagsins Uglu frá 2009 og tilvitnanir miðast við hana. Sú útgáfa er með upprunalegum myndum, svart-hvítum, eftir John Leech, sem og litmyndum eftir C. E. Brock (1870-1938). Þýðing Þorsteins frá Hamri er einnig með fjölmörgum myndum eftir Roberto Innocenti (f. 1940), vegleg bók í stóru broti, Forlagið gaf út. Tvímála þýðing (íslenska og enska) Jean-Rémi Chareyre er höfundi ókunn sem og útgefandi.
Lengi hafa alltaf sömu sögurnar fylgt jólum. Ein þeirra er eftir breska sagnameistarann, Charles Dickens (1812-1870). Það er sagan Jóladraumur (e. A Christmas Carol: A Ghost Story of Christmas) en í dag, 19. desember, eru nákvæmlega 180 ár frá því að hún kom fyrst út, hjá forlaginu Chapman & Hall í London, 1843. Sú saga sló rækilega í gegn og var uppseld á jóladag – sexþúsund einstök seldust á fáeinum dögum. Forlagið þeirra Chapmans og Halls starfar enn og er í miklum blóma. Vandað var til útgáfu á Jóladraumi, bókin innbundin og prýdd snjöllum myndum eftir John Leech (1817-1864) sem var góður vinur höfundarins.
Þessi saga hefur komið tvisvar út á íslensku. Fyrst 1942 og þá í þýðingu Karls Ísfelds (1906-1960) í bókinni Jólaævintýri en hann var kunnur þýðandi heimsbókmenntanna. Hann þýddi til dæmis finnska goðsagnakvæðið, Kalevala. Titill sögunnar hjá Karli var: Jóladraumur – og undirtitill: Saga um reimleika á jólunum. Sama þýðing sögunnar kom svo út aftur árið 2009. Árið 1986 kom sagan út í þýðingu hins rómaða ljóðskálds, Þorsteins frá Hamri (1938-2018), og bar sama heiti, Jólaævintýri með undirtitlinum: Reimleikasaga frá jólum. Báðar þessar útgáfur eru óstyttar en gjarnan var brugðið á það ráð að stytta sögur Dickens í þýðingum. Þá er og til tvímála þýðing (íslenska og enska) frá 2016 sem Jean-Rémi Chareyre (f. 1980), gerði: Jólaævintýri: reimleikasaga frá jólum.
Eins og allar góðar sögur hefur Jóladraumur Dickens ratað í kvikmyndir, leikhús, teiknimyndabækur og söngleiki.
En hvað er svo jólalegt við þessa sögu annað en það að hún gerist á jólum?
Er þetta ekki samfélagsleg ádrepa í anda Dickens sem þekkti kröpp kjör á eigin skinni? Hvers vegna að draga lesendur í för með höfundi um húsakynni fátækra, kúgaðra, þjófa og burgeisa?
Fégirndin er rót alls ills, segir einhvers staðar, giskið hvar, og Ebeneser Scrooge aðalpersóna sögunnar er hinn mesti nirfill. Hann er í raun fangi fégræðginnar og lifir innihaldslausu og aumu lífi. Aurasálin verður ekki frjáls maður fyrr en maurapúkaháttur hans er sigraður. Áður en sá sigur er í höfn þarf Scrooge að fara í gegnum fjórar martraðir sem eru kennslustundir í kristinni siðfræði.
Jólaboðskapur kristinnar trúar getur umbreytt fólki. Sagan segir einmitt frá því hvernig nánösin Scrooge breytist í hinn besta og kærleiksríka mann. Hvernig illskan er sigruð með hinu góða. Já, sagan er í raun og veru upprisusaga. Hann rís upp til lífs, til annars fólks með útrétta hönd í stað blákaldrar grútarloppu. Og boðskapur upprisunnar er kjarni kristinnar trúar.
Kannski þekkjast þessir persónuleikar enn í dag eins og peningapúkinn Scrooge? Hafa allt á hornum sér þegar komið er að því að fagna jólum. Sjá sóun í öllu sem er gert, draga fram allt það neikvæða og hneykslast á jólagjöfum og segja jólin ekki annað en ofát og iðjuleysi. Harðneskjulegir og fastir í smásálarskapnum. Forhertir. Eru sjaldnast glaðir. Eina jólabók þeirra er bankabókin í heimabankanum. Mörgum þeirra liggur illt orð til kirkju og guðskristni; eru í fjötrum efnishyggjunnar og tómhyggjunnar.
En hvers konar mynd er dregin upp af þessari grútarsál í sögu Dickens? Getur verið að slíkar sálir séu enn hugsanlega á sveimi þó að öldin sé önnur? Svari hver fyrir sig.
Ebeneser Scrooge hafði komið svo miklu nískuorði á sjálfan sig að enginn betlari leitaði á náðir hans og er þá mikið sagt. Mannhatur og félagsleg andúð næra sálu hans því hann naut þess:
„að ryðjast með olnbogaskotum gegnum mannþyrpingarnar á lífsleiðinni og varna allri mannlegri samúð að koma nálægt sér.“ (Bls. 10).
Hann fyrirlítur fátæka og skiptir ekki máli hvort þeir eru skyldir honum eða ekki en við frænda sinn segir hann:
„Hvaða ástæðu hefur þú til að vera glaður? Svona fátæklingsræfill eins og þú?“ (Bls. 13).
Og bætir því svo við að frændinn eigi að fara:
„norður og niður með þessi gleðilegu jól.“ (Bls. 14).
En frændi hans er ekki af baki dottinn og kynnir fyrir honum í raun og veru inntak mannúðar og kristilegs kærleika:
„Jólin eru eini tími ársins sem allir virðast vera samhuga um að opna harðlæst hjörtun upp á gátt og líta á meðbræður sína sem lægra eru settir sem förunauta á leið til grafarinnar en ekki eins og aðrar manntegundir í öðrum erindagjörðum.“ (Bls. 15).
En meira varð að koma til en þessi orð frændans til þess að breyta hugarfari gróðavargsins.
Nirfillinn Scrooge vísar á braut mönnum sem eru að safna fé til að styrkja fátæka og munaðarlausa með þeim orðum að hann styrki aðeins fangelsi og þrælkunarhús. Sjálfur er hann með allt á hreinu:
„Ég held jólin ekki hátíðleg sjálfur og hef ekki efni á að skemmta slæpingjum á minn kostnað.“ (Bls. 19).
Hann naut þess að hamra á þessari afstöðu sinni og leið vel eftir að hafa látið hana í ljós.
En nirfillinn Schrooge fær tækifæri til að snúa við frá nánasarhætti sínum. Vofa fyrrum samstarfsmanns hans sem var honum samstíga í öllu í lifanda lífi og reikar um í eilífðarfjötrum birtist og erindið var þetta:
„Ég er kominn hingað í kvöld til að aðvara þig og láta þig vita að þú hefur enn þá tækifæri og von um að geta komist hjá örlögum mínum. Þetta tækifæri og þessa von færi ég þér, Ebeneser Scrooge.“ (Bls. 38).
Verkferlið eins og sagt yrði í dag fólst í því að þrír andar voru sendir til grútarháleistsins Scrooge. Dickens greip þar til enskra þjóðfræða sem geyma margar sagnir um að á jólanótt væru vofur framliðinna á ferð og tækju lifandi fólk tali.
Fyrsti andinn leiddi hann á slóðir bernskujóla Scrooges sjálfs. Annar andinn sýnir honum yfirstandandi jól og sá þriðji jólin sem koma.
Það sem verður á vegi nirfilsins á þessum ferðalögum með öndunum skrælir í raun og veru af honum skráp nískunnar. En það var ekki auðvelt fyrir hann. Scrooge leið ekki vel enda þótt búið væri að vekja upp í honum samkennd með öðru fólki. Smám saman sér hann eftir því hvernig hann hefur komið fram við aðra. Hann biður fyrsta andann um að fara með sig heim því það sem hann sér valdi honum kvölum, já í raun og veru sálarkvölum. Og ferðalagið með öðrum andanum sem sýndi honum jól líðandi stundar hafði þessi áhrif á Scrooge þegar hann hlustaði á frænku sína leika fallegt jólalag á hörpu sína:
„Hann varð sífellt meyrari og meyrari í lund og hann hugsaði sem svo að ef hann hefði getað hlustað á þetta lag oftar á ævinni hefði hann geta orðið vingjarnlegri við þá sem hann umgekkst og átti einhver samskipti við.“ (Bls. 104).
Þriðji andinn kynnir jól framtíðarinnar fyrir Scrooge og hrellir hann svo um munar með því að sýna honum menn sem sækja jarðarför manns nokkurs eingöngu til að komast í gott erfi. Eigum hins látna er stolið og farið með þær til veðmangara. Scrooge er svo leiddur að „mosagrónum, vanhirtum“ legsteini með nafni sínu á. Hann hrópar upp yfir sig:
„Ég skal halda jólin í heiðri og ég mun ekki gleyma því sem þið hafið kennt mér…“ (Bls. 132).
Og margt annað sýndu þessir andar fépúkanum Scrooge sem ekki er rakið hér. En allt hafði það sín áhrif á hann.
Hvernig breyttist nirfillinn til hins betra?
Á jóladagsmorgni var hann umbreyttur maður:
„Ég er svo léttur á mér, hamingjusamur eins og engill og kátur eins og skólapiltur. …. Gleðileg jól, gott fólk? Gleðilegt nýtt ár, góðir menn!“ (Bls. 134).
Hann tók að sýna fólki umhyggju og elskusemi, gjafmildi og gæsku. Hann hafði breyst úr gróðasál í gullsál, kannski ekki rétt að segja gullsál í þessu sambandi, heldur kærleiksríka sál. Boðskapur jólanna náði til hans. Hann reis upp til lífs.
Nú má velta því fyrir sér þegar sagan er lesin hversu vel saga af þessu tagi nær til nútímalesenda – til dæmis ungs fólks.
Það er nú það. Lesendum verður eftirlátið að íhuga það.
Hvað sem því annars líður hefur þessi saga lifað í 180 ár og er það allnokkurt afrek.
———
Kirkjublaðið.is hafði undir höndum þýðingu Karls Ísfelds frá útgáfu Bókafélagsins Uglu frá 2009 og tilvitnanir miðast við hana. Sú útgáfa er með upprunalegum myndum, svart-hvítum, eftir John Leech, sem og litmyndum eftir C. E. Brock (1870-1938). Þýðing Þorsteins frá Hamri er einnig með fjölmörgum myndum eftir Roberto Innocenti (f. 1940), vegleg bók í stóru broti, Forlagið gaf út. Tvímála þýðing (íslenska og enska) Jean-Rémi Chareyre er höfundi ókunn sem og útgefandi.