Þegar jólabókaflóðið er gengið yfir og lestri sumra bóka lokið er ágætt að skjóta nokkrum línum á blað um bækur sem eru umhugsunarverðar áður en þær hugsanlega gleymast. Það eru því miður – eða kannski er það ágætt? – örlög býsna margra bóka að hverfa í djúp gleymskunnar. Þær eru færri sem lifa af og svo hefur ætíð verið í bókmenntasögunni. Og fleiri höfundar eru gleymdir en mundir.
Bækur með vel heppnaða titla draga alltaf athygli til sín og sagt er að sumar seljist jafnvel út á snjallan titil burtséð frá hæfileikum höfundar til að skrifa sögu eða ljóð. Snjall titill á bók án innihalds dofnar fljótt eins og skiljanlegt er. Hver vill snilld án innihalds?
Himintungl yfir heimsins ystu brún er magnaður titill og eftirtektarverður. Kannski full hátimbraður að mati einhverra eða jafnvel of skáldlegur að áliti annarra. Í þessum titli kallast á himinn og heimur sem snýst á hala veraldar á 17. öld. Titill bókar og efnistök höfundar í bókinni falla saman með glæsibrag.
Jón Kalman Stefánsson (f. 1963) er rithöfundur sem hefur firna gott vald á íslensku máli, heldur vel utan um efnismikinn texta og nær sömuleiðis að vefa atburðarás sem gengur upp í lokin og leysir á sama tíma úr ýmsu sem lesandi hefur haft grun um að sé nú með þessum hætti eða öðrum. Reyndar hætti honum til að vera um of orðmargur og þyrfti kannski að hemja sig hvað það snertir. Orðamergðin slær svo sem ekki á rennsli textans í sjálfu sér en lesandi getur á köflum orðið ögn lúinn á því að sundríða þungar ár orða og lýsinga. En kannski er þetta bara partur af höfundareinkennum Jóns Kalmans sem margir aðdáendur hans hafa unun af að lesa.
Jón Kalman er einn öflugasti rithöfundur landsins og eftir hann liggur á annan tug skáldverka og verk hans hafa verið þýdd á fjölda tungumála. Hér er því enginn meðalmaður á ferð í íslenskum menningarheimi eins og bókin sem hér er til stuttrar athugunar ber með sér.
Sögusvið bókarinnar er sautjánda öld og þykir ýmsum höfundur vera býsna djarfur að leggja þá tíð í hendur nútímalesenda. Þó er ekki svo að skilja að manneskjurnar hafi verið eitthvað öðruvísi innréttaðar á þeim tíma en nú. Aldarfarið hafði fjölbreytni að sínum hætti sem líf fólks hærðist í á svipaða lund og nútímamaðurinn snýst í kringum sína fjölbreytni. Ástin kemur við sögu og hún fer eftir svipuðum slóðum frá einni öld til annarrar. Svo koma upp siðferðileg álitamál sem eru alla jafna afgreidd eftir mælistiku kristinnar trúar þar sem enginn er laus undan því sem kallast synd, brigð, svik og tvöfeldni, græðgi, lygi og svo má lengi telja. Enginn hristir fram úr erminni bók sem gerist á þessum tíma án þess að leggjast í rannsóknir á hvers konar mennt, þekking, siðir, trú og hættar móta menn og aldarfar. Það hefur höfundur augljóslega gert eins og fram kemur í textanum. Málfarið ber með sér andblæ aldarinnar og vissa ilmandi fyrnsku án þess þó að vera til trafala því höfundur fetar það einstigi mjúklega sem lesendur kunna vel að meta.
Það er séra Pétur sem heldur utan um frásögnina í bréfi sem hann er að skrifa og móttakandi þess er einhver elskuleg manneskja. Fljótlega kemur fram í bókinni ákveðið stef um mikilvægi þess að segja frá eða m.ö.o. gildi frásagnarinnar hvort sem ástæðan er nú flótti eða söknuður – og skrifin ákæruskjal (bls. 18) . Presturinn er einhvers konar sagnaritari: „Ef ekkert er skrifað niður virðist ekkert hafa gerst, tíminn farið án atvika yfir jörðina og síðan í gegnum líf okkar. Hvergi kossar, hvergi hlátrar, hvergi svik, hvergi dauði – og því engan lærdóm hægt að draga“ (bls. 149). Frásögn séra Péturs rekur hins vegar alls konar atvik, kossa, losta, svik, hlátra, lygi og dráp. Hið fagra og hið ófagra. Vafasamar gjörðir mannanna og hans sjálfs. Lífið.
Presturinn Pétur (ber náttúrlega nafn lærisveinsins sem frægastur er fyrir svik í trúarsögunni og sérann „bregst öllum“ (bls. 332)) er nýkominn á Brúnasand og býr á Meyjarhóli – trúmaður í samræmi við sína öld. Hann er hinn vænsti maður, vel að sér og sigldur, en brokkgengur syndaselur eins og kemur í ljós í lok bókar án þess að eitthvert uppistand verði í kringum það. Sýnir kannski ákveðið umburðarlyndi gagnvart háttsemi embættismanna og þá í þessu tilviki kennilýðsins. Ekki er eiginkona hans nefnd til sögu en hann rennir hýru auga til kvenna og þær til hans. Það er líka nútímabragur á sögunni þegar eiginmaður konu nokkurrar sem klerkur er í tygjum við reynist vera samkynhneigður og fellur meðal annars fyrir Spánverjanum Sebastian (ber nafn dýrlings samkynhneigðra) og er á sömu línu.
Séra Pétur er ekki einn á Meyjarhóli því þar er ráðskona, Dóróthea sem er svo sannarlega gjöf Guðs, kannski er hún gamall engill; hún er ólæs en hefur aðra kosti sem eru gott veganesti: hún man allt, er sálufélagi hans og á vissan hátt siðferðilegur áttaviti þegar trúnni sleppir eða honum skriðnar fótur á hálu svelli hins kristilega siðferðis. Kannski stendur ráðskonan fyrir allar hinar vitru og hégómalausu dugnaðarkonur landsins fyrr og síðar.
Spánverjavígin í byrjun sautjándu aldar koma áþreifanlega við sögu í bókinni án þess þó að skyggja um of á hina almennu frásögn af fólki og hversdagslegum sem óhversdagslegum viðburðum. Um þrjátíu spænskir hvalveiðimenn voru drepnir á Vestfjörðum undir forystu sýslumannsins í Ögri, Ara Magnússonar (1571-1652). Þeir voru réttdræpir samkvæmt konungsúrskurði enda höfðu þeir farið um með ránum. Skip hvalveiðimannanna sem Ari sótti að brotnuðu í spón. Þeir voru því allslausir þegar í land var komið en einhverjir drukknuðu. Segja má að Jón Kalman tefli þeim fram í sögunni af mikilli samúð enda voru þetta menn sem lent höfðu í hrakningum.
Í kringum herhvöt sýslumanns til bænda og búenda um að sækja gegn hinum spænsku vakna ýmsar siðferðilegar spurningar um réttmæti þess að drepa fólk. Nútíminn stundar manndráp í stórum stíl eins og fyrri tíðir en þó með öðrum hætti. Oftast er borið fyrir sig að verið sé að verja ýmist land, menningu og fólk, sem vissulega er rétt alla jafna eins og þegar litið er til svívirðilegs árásarstríðs Rússa á Úkraínu. Ari í Ögri, sýslumaðurinn sem stýrði herferðinni á hendur hinum spænsku skipbrotsmönnum, hefur ekki fengið góð eftirmæli í sögunni. Jón Kalman lætur það hins vegar nægja að sýna Ara sýslumann Magnússon sem sterkan valdsmann sem þjappar sínum mönnum í eina vítisvél er fer án miskunnar gegn hinum spænsku – gegn útlendingunum ófyrirleitnu. Það gera jú valdsmenn á öllum tímum, þjappa sínu fólki saman ýmist til góðra verka eða illra. Baskarnir, Spánverjarnir voru allir drepnir: „Allir. Svo herfilega drepnir“ (bls. 289).
Orðrómurinn var samfélagsmiðill þessa tíma og réttlætti morðin vegna þess að annars „hefði veturinn orðið hryllilegur og þeir unnið ósegjanlega vond verk. Þeir urðu líka að deyja vegna þess að konungur skipaði okkur að deyða þá“ (bls. 319). Og séra Pétur sem talaði máli þeirra var sagður tala gegn konungi og öllu því sem rétt væri. Var hann búinn að gleyma orðum postulans Páls um að hlýða yfirvaldinu, kónginum: „Því engin væru yfirvöld ef Guð gæfi þau ekki. Þau sem eru til hefur Guð skipað. Sá sem veitir yfirvöldum mótstöðu veitir skipan Guðs mótstöðu og hlýtur að fá sinn dóm“ (Rómverjabréfið 13.1-2).
Presturinn á Meyjarhóli hlóð ásamt öðrum grjóti í kringum líkama nokkurra Spánverja sem höfðu verið drepnir, það var „hörð gröf“ (bls. 267). Síðar greip hann til þess nútímalega siðar að lesa upp nöfn hinna látnu Spánverja í kirkjunni í minningarskyni og í þeim gamla anda að nafn er hluti persónunnar. Það var eitthvað sem brann inni í honum sem knúði hann til þessa lesturs: „Að þylja nöfn þeirra allra upphátt í kirkjunni, þannig að íbúar Brúnasands heyrðu. Í húsi Guðs þar sem við erum öll jöfn, og öll varnarlaus. Einungis þannig gætu þeir orðið hluti af húsi Drottins hér á Brúnasandi, hluti af lífi okkar allra, og þar með fundið sína ró í dauðanum“ (bls. 331 og 343). Með þessu stigu þeir allir „út úr ríki dauðans og voru með okkur í kirkjunni“ (bls. 332). Kannski mætti túlka þetta sem guðfræðilega áréttingu á upprisunni?
Í lok bókarinnar víkur höfundur að sannleikanum sem grafa þurfi djúpt eftir. Presturinn á Meyjarhóli kallar eftir því við móttakanda bréfsins, manneskjunnar elskulegu, að hún bregðist ekki þegar kross kemur í leitirnar sem á stendur: Hér hvílir sannleikurinn. (Bls. 353). Kannski er það lesandinn sem er hin elskulega manneskja – eða hvað?
Niðurstaða: Himintungl yfir heimsins ystu brún er kröftug bók og gerir líka réttmætar kröfur til lesandans sem hugsandi veru. Slíkar kröfur eru alveg sjálfsagðar í ljósi þess að efnistökin á því sem manneskjan glímir við á öllum öldum eru yfirveguð en þó hlaðin tilfinningum og vissri ástríðu fyrir því sem er gott og göfugt, rétt og fallegt. Bókin vekur lesendur til umhugsunar um mannlegt eðli, ástir, ábyrgð og réttlæti, grimmd, svik, sannleika og lygi, og hvort réttmætt sé að drepa fólk. Spyr hvernig taka skuli á móti þeim sem eru í vanda staddir sem flóttamenn og manneskjur.
Jón Kalman Stefánsson, Himintungl yfir heimsins ystu brún, Benedikt útgáfa, Reykjavík 2024, 358 blaðsíður.
Þegar jólabókaflóðið er gengið yfir og lestri sumra bóka lokið er ágætt að skjóta nokkrum línum á blað um bækur sem eru umhugsunarverðar áður en þær hugsanlega gleymast. Það eru því miður – eða kannski er það ágætt? – örlög býsna margra bóka að hverfa í djúp gleymskunnar. Þær eru færri sem lifa af og svo hefur ætíð verið í bókmenntasögunni. Og fleiri höfundar eru gleymdir en mundir.
Bækur með vel heppnaða titla draga alltaf athygli til sín og sagt er að sumar seljist jafnvel út á snjallan titil burtséð frá hæfileikum höfundar til að skrifa sögu eða ljóð. Snjall titill á bók án innihalds dofnar fljótt eins og skiljanlegt er. Hver vill snilld án innihalds?
Himintungl yfir heimsins ystu brún er magnaður titill og eftirtektarverður. Kannski full hátimbraður að mati einhverra eða jafnvel of skáldlegur að áliti annarra. Í þessum titli kallast á himinn og heimur sem snýst á hala veraldar á 17. öld. Titill bókar og efnistök höfundar í bókinni falla saman með glæsibrag.
Jón Kalman Stefánsson (f. 1963) er rithöfundur sem hefur firna gott vald á íslensku máli, heldur vel utan um efnismikinn texta og nær sömuleiðis að vefa atburðarás sem gengur upp í lokin og leysir á sama tíma úr ýmsu sem lesandi hefur haft grun um að sé nú með þessum hætti eða öðrum. Reyndar hætti honum til að vera um of orðmargur og þyrfti kannski að hemja sig hvað það snertir. Orðamergðin slær svo sem ekki á rennsli textans í sjálfu sér en lesandi getur á köflum orðið ögn lúinn á því að sundríða þungar ár orða og lýsinga. En kannski er þetta bara partur af höfundareinkennum Jóns Kalmans sem margir aðdáendur hans hafa unun af að lesa.
Jón Kalman er einn öflugasti rithöfundur landsins og eftir hann liggur á annan tug skáldverka og verk hans hafa verið þýdd á fjölda tungumála. Hér er því enginn meðalmaður á ferð í íslenskum menningarheimi eins og bókin sem hér er til stuttrar athugunar ber með sér.
Sögusvið bókarinnar er sautjánda öld og þykir ýmsum höfundur vera býsna djarfur að leggja þá tíð í hendur nútímalesenda. Þó er ekki svo að skilja að manneskjurnar hafi verið eitthvað öðruvísi innréttaðar á þeim tíma en nú. Aldarfarið hafði fjölbreytni að sínum hætti sem líf fólks hærðist í á svipaða lund og nútímamaðurinn snýst í kringum sína fjölbreytni. Ástin kemur við sögu og hún fer eftir svipuðum slóðum frá einni öld til annarrar. Svo koma upp siðferðileg álitamál sem eru alla jafna afgreidd eftir mælistiku kristinnar trúar þar sem enginn er laus undan því sem kallast synd, brigð, svik og tvöfeldni, græðgi, lygi og svo má lengi telja. Enginn hristir fram úr erminni bók sem gerist á þessum tíma án þess að leggjast í rannsóknir á hvers konar mennt, þekking, siðir, trú og hættar móta menn og aldarfar. Það hefur höfundur augljóslega gert eins og fram kemur í textanum. Málfarið ber með sér andblæ aldarinnar og vissa ilmandi fyrnsku án þess þó að vera til trafala því höfundur fetar það einstigi mjúklega sem lesendur kunna vel að meta.
Það er séra Pétur sem heldur utan um frásögnina í bréfi sem hann er að skrifa og móttakandi þess er einhver elskuleg manneskja. Fljótlega kemur fram í bókinni ákveðið stef um mikilvægi þess að segja frá eða m.ö.o. gildi frásagnarinnar hvort sem ástæðan er nú flótti eða söknuður – og skrifin ákæruskjal (bls. 18) . Presturinn er einhvers konar sagnaritari: „Ef ekkert er skrifað niður virðist ekkert hafa gerst, tíminn farið án atvika yfir jörðina og síðan í gegnum líf okkar. Hvergi kossar, hvergi hlátrar, hvergi svik, hvergi dauði – og því engan lærdóm hægt að draga“ (bls. 149). Frásögn séra Péturs rekur hins vegar alls konar atvik, kossa, losta, svik, hlátra, lygi og dráp. Hið fagra og hið ófagra. Vafasamar gjörðir mannanna og hans sjálfs. Lífið.
Presturinn Pétur (ber náttúrlega nafn lærisveinsins sem frægastur er fyrir svik í trúarsögunni og sérann „bregst öllum“ (bls. 332)) er nýkominn á Brúnasand og býr á Meyjarhóli – trúmaður í samræmi við sína öld. Hann er hinn vænsti maður, vel að sér og sigldur, en brokkgengur syndaselur eins og kemur í ljós í lok bókar án þess að eitthvert uppistand verði í kringum það. Sýnir kannski ákveðið umburðarlyndi gagnvart háttsemi embættismanna og þá í þessu tilviki kennilýðsins. Ekki er eiginkona hans nefnd til sögu en hann rennir hýru auga til kvenna og þær til hans. Það er líka nútímabragur á sögunni þegar eiginmaður konu nokkurrar sem klerkur er í tygjum við reynist vera samkynhneigður og fellur meðal annars fyrir Spánverjanum Sebastian (ber nafn dýrlings samkynhneigðra) og er á sömu línu.
Séra Pétur er ekki einn á Meyjarhóli því þar er ráðskona, Dóróthea sem er svo sannarlega gjöf Guðs, kannski er hún gamall engill; hún er ólæs en hefur aðra kosti sem eru gott veganesti: hún man allt, er sálufélagi hans og á vissan hátt siðferðilegur áttaviti þegar trúnni sleppir eða honum skriðnar fótur á hálu svelli hins kristilega siðferðis. Kannski stendur ráðskonan fyrir allar hinar vitru og hégómalausu dugnaðarkonur landsins fyrr og síðar.
Spánverjavígin í byrjun sautjándu aldar koma áþreifanlega við sögu í bókinni án þess þó að skyggja um of á hina almennu frásögn af fólki og hversdagslegum sem óhversdagslegum viðburðum. Um þrjátíu spænskir hvalveiðimenn voru drepnir á Vestfjörðum undir forystu sýslumannsins í Ögri, Ara Magnússonar (1571-1652). Þeir voru réttdræpir samkvæmt konungsúrskurði enda höfðu þeir farið um með ránum. Skip hvalveiðimannanna sem Ari sótti að brotnuðu í spón. Þeir voru því allslausir þegar í land var komið en einhverjir drukknuðu. Segja má að Jón Kalman tefli þeim fram í sögunni af mikilli samúð enda voru þetta menn sem lent höfðu í hrakningum.
Í kringum herhvöt sýslumanns til bænda og búenda um að sækja gegn hinum spænsku vakna ýmsar siðferðilegar spurningar um réttmæti þess að drepa fólk. Nútíminn stundar manndráp í stórum stíl eins og fyrri tíðir en þó með öðrum hætti. Oftast er borið fyrir sig að verið sé að verja ýmist land, menningu og fólk, sem vissulega er rétt alla jafna eins og þegar litið er til svívirðilegs árásarstríðs Rússa á Úkraínu. Ari í Ögri, sýslumaðurinn sem stýrði herferðinni á hendur hinum spænsku skipbrotsmönnum, hefur ekki fengið góð eftirmæli í sögunni. Jón Kalman lætur það hins vegar nægja að sýna Ara sýslumann Magnússon sem sterkan valdsmann sem þjappar sínum mönnum í eina vítisvél er fer án miskunnar gegn hinum spænsku – gegn útlendingunum ófyrirleitnu. Það gera jú valdsmenn á öllum tímum, þjappa sínu fólki saman ýmist til góðra verka eða illra. Baskarnir, Spánverjarnir voru allir drepnir: „Allir. Svo herfilega drepnir“ (bls. 289).
Orðrómurinn var samfélagsmiðill þessa tíma og réttlætti morðin vegna þess að annars „hefði veturinn orðið hryllilegur og þeir unnið ósegjanlega vond verk. Þeir urðu líka að deyja vegna þess að konungur skipaði okkur að deyða þá“ (bls. 319). Og séra Pétur sem talaði máli þeirra var sagður tala gegn konungi og öllu því sem rétt væri. Var hann búinn að gleyma orðum postulans Páls um að hlýða yfirvaldinu, kónginum: „Því engin væru yfirvöld ef Guð gæfi þau ekki. Þau sem eru til hefur Guð skipað. Sá sem veitir yfirvöldum mótstöðu veitir skipan Guðs mótstöðu og hlýtur að fá sinn dóm“ (Rómverjabréfið 13.1-2).
Presturinn á Meyjarhóli hlóð ásamt öðrum grjóti í kringum líkama nokkurra Spánverja sem höfðu verið drepnir, það var „hörð gröf“ (bls. 267). Síðar greip hann til þess nútímalega siðar að lesa upp nöfn hinna látnu Spánverja í kirkjunni í minningarskyni og í þeim gamla anda að nafn er hluti persónunnar. Það var eitthvað sem brann inni í honum sem knúði hann til þessa lesturs: „Að þylja nöfn þeirra allra upphátt í kirkjunni, þannig að íbúar Brúnasands heyrðu. Í húsi Guðs þar sem við erum öll jöfn, og öll varnarlaus. Einungis þannig gætu þeir orðið hluti af húsi Drottins hér á Brúnasandi, hluti af lífi okkar allra, og þar með fundið sína ró í dauðanum“ (bls. 331 og 343). Með þessu stigu þeir allir „út úr ríki dauðans og voru með okkur í kirkjunni“ (bls. 332). Kannski mætti túlka þetta sem guðfræðilega áréttingu á upprisunni?
Í lok bókarinnar víkur höfundur að sannleikanum sem grafa þurfi djúpt eftir. Presturinn á Meyjarhóli kallar eftir því við móttakanda bréfsins, manneskjunnar elskulegu, að hún bregðist ekki þegar kross kemur í leitirnar sem á stendur: Hér hvílir sannleikurinn. (Bls. 353). Kannski er það lesandinn sem er hin elskulega manneskja – eða hvað?
Niðurstaða: Himintungl yfir heimsins ystu brún er kröftug bók og gerir líka réttmætar kröfur til lesandans sem hugsandi veru. Slíkar kröfur eru alveg sjálfsagðar í ljósi þess að efnistökin á því sem manneskjan glímir við á öllum öldum eru yfirveguð en þó hlaðin tilfinningum og vissri ástríðu fyrir því sem er gott og göfugt, rétt og fallegt. Bókin vekur lesendur til umhugsunar um mannlegt eðli, ástir, ábyrgð og réttlæti, grimmd, svik, sannleika og lygi, og hvort réttmætt sé að drepa fólk. Spyr hvernig taka skuli á móti þeim sem eru í vanda staddir sem flóttamenn og manneskjur.
Jón Kalman Stefánsson, Himintungl yfir heimsins ystu brún, Benedikt útgáfa, Reykjavík 2024, 358 blaðsíður.