Jón Jónsson varðmaður úr Kjósinni botnaði ekkert í því hvaða óvænti heiður hafði hlotnast nafna hans Hreggviðssyni þegar sá síðarnefndi var kominn með hatt:
„Ekki skil ég hvurnin sona menn fá hatt. Aldrei hef ég feingið hatt.“[1]
Hatturinn vakti þó nokkra athygli meðal hinna snauðu og dæmdu sem sátu við kórónað tjald á Þingvöllum. Öllum hafði þeim verið gefnar upp sakir og Jón Jónsson varðmaður sagðist nú vera farinn að kannast aftur við sig í Kjósinni. En snærisþjófurinn með hatt! Það var aldeilis óvænt og þó nokkurt umræðuefni.
Á hverjum degi ber eitthvað óvænt við sem vekur athygli okkar. Stundum furðu. Eða beyg. Líka gleði og fögnuð. Það er alltaf eitthvað á seyði sem hægt er að tala um. Þó það séu ekki nema skýin sem dragast í flóka og leysast svo í dularfull fyrirbæri sem bera eitthvað óvænt með sér.
Kosningar eru skemmtilegar í augum flestra. Þær endurspegla lýðræði og rétt fólks til að velja. Niðurstaða valsins getur verið óvænt. Hún getur líka verið í samræmi við væntingar og margar skoðanakannanir. Úrslitin geta líka verið með allt öðrum hætti en búist var við. Kannanir verða eins og samkvæmisleikur og um þær er hægt að tala endalaust. Þær eru ekki úrslit heldur vísbending eða jafnvel ruglandi. Og viðbrögð geta birst með ýmsum móti.
Það óvænta gerist.
Þegar við lítum til baka sjáum við oft að óvæntir hlutir hafa stundum snúið lífi okkar við. Oftar til góðs en til hins verra. Hið óvænta er eins og krydd í tilverunni – krydd sem okkur líkar við eða fellur ekki að smekk okkar. Reyndar er það svo að við leitumst við að búa um okkur á sem öruggastan hátt í lífinu og viljum helst ekki að eitthvað óvænt komi upp á og trufli háttbundinn takt tilverunnar. Viljum ekki reka tungubroddinn í krydd sem okkur geðjast ekki að. Það virðist nefnilega liggja í eðli manneskjunnar að vilja útiloka hið óvænta sem raskar tilverunni. Kannski er það vegna þess að hún vill hafa alla þræði í hendi sinni. Hið óvænta ber fyrir öryggismyndavélar sálarinnar og hversdagslegt skipulag okkar titrar. Þess vegna hafa margir komið sér upp viðbragðsáætlunum – og þær eru misjafnar eins og mennirnir eru margir.
Enginn getur útrýmt hinu óvænta – það er hluti af lífinu sem við verðum að búa við.
Gott og slæmt.
Hið óvænta getur vakið með okkur gleði og hamingju.
Hið óvænta getur verið dálítið spennandi. Eitthvað sem er í aðsigi og er gott.
Hið óvænta getur líka vakið sorg og harm.
Manneskjan er ofin úr svo mörgum þáttum að hversu snjöll sem hún kann að vera þá getur hún aldrei hulið viðbrögð sín við því sem er óvænt. Viðbrögð eru nefnilega stór þáttur í lífi okkar – svo stór þáttur að við tökum sjaldnast eftir þeim. Þau birtast annað hvort í orði eða verki. Fyrstu viðbrögð geta verið ljúf og ástrík. Eða fljótfærnisleg og hvatvís. Þau geta líka verið yfirveguð og örugg á yfirborðinu. Köld og heit. Þessi viðbrögð eru sum hver lærð en önnur blunda í sálarlífi okkar og vakna við ýmsar aðstæður og þá sérstaklega þær óvæntu. Tilfinningar geta líka ruðst fram í viðbrögðum okkar þegar harmafregn berst eða ótrúleg gleðifrétt.
Þruma úr heiðskíru lofti.
Hver eru viðbrögð okkar við ósigri? Eða sigri?
Hver dagur líður oftast hljóðlega í öllum hversdagslegum atvikum sínum. Hið óvænta sem gerist í lífi okkar ýtir alls konar hugsunum af stað.
Viðbrögð okkar sýna nefnilega hver við erum. Þau geta sagt til um sjálfstraust okkar, snerpu, hyggindi, skilning á aðstæðum, styrkleika og veikleika, og þannig mætti lengi telja. Allt eru þetta þættir sem lífið með öllum atvikum sínum, fyrirsjáanlegum sem óvæntum, hleður inn í huga okkar. Við ráðum ekki því sem okkur er innrætt frá bernsku. Öll eigum við ekki lítið undir því hvað okkur er tamið frá blautu barnsbeini. Enginn fær andlegan styrk af sjálfum sér en hann er hægt að byggja upp með hjálp Guðs og góðra manna. Og við tökum hatt okkar ofan í þakklætisskyni því að við förum þá að kannast við okkur í Kjósinni.
Og Kjósin?
Hún er alls staðar.
Líka í sálinni.
Spyrjið bara Jón Jónsson, varðmann.
[1] Snæfríður Íslandssól – Leikrit í þrem þáttum, eftir Halldór Kiljan Laxness (1902-1998), útg. Helgafell, Reykjavík 1956, bls. 167. – Hlutverk Jóns Jónssonar varðmanns úr Kjósinni lék af mikilli snilld Valdemar Helgason (1903-1993), leikari. Leikritið var gefið út á hljómplötum 1957 af Fálkanum hf., undir heitinu Íslandsklukkan. Leikstjóri var Lárus Pálsson (1914-1968).
Jón Jónsson varðmaður úr Kjósinni botnaði ekkert í því hvaða óvænti heiður hafði hlotnast nafna hans Hreggviðssyni þegar sá síðarnefndi var kominn með hatt:
„Ekki skil ég hvurnin sona menn fá hatt. Aldrei hef ég feingið hatt.“[1]
Hatturinn vakti þó nokkra athygli meðal hinna snauðu og dæmdu sem sátu við kórónað tjald á Þingvöllum. Öllum hafði þeim verið gefnar upp sakir og Jón Jónsson varðmaður sagðist nú vera farinn að kannast aftur við sig í Kjósinni. En snærisþjófurinn með hatt! Það var aldeilis óvænt og þó nokkurt umræðuefni.
Á hverjum degi ber eitthvað óvænt við sem vekur athygli okkar. Stundum furðu. Eða beyg. Líka gleði og fögnuð. Það er alltaf eitthvað á seyði sem hægt er að tala um. Þó það séu ekki nema skýin sem dragast í flóka og leysast svo í dularfull fyrirbæri sem bera eitthvað óvænt með sér.
Kosningar eru skemmtilegar í augum flestra. Þær endurspegla lýðræði og rétt fólks til að velja. Niðurstaða valsins getur verið óvænt. Hún getur líka verið í samræmi við væntingar og margar skoðanakannanir. Úrslitin geta líka verið með allt öðrum hætti en búist var við. Kannanir verða eins og samkvæmisleikur og um þær er hægt að tala endalaust. Þær eru ekki úrslit heldur vísbending eða jafnvel ruglandi. Og viðbrögð geta birst með ýmsum móti.
Það óvænta gerist.
Þegar við lítum til baka sjáum við oft að óvæntir hlutir hafa stundum snúið lífi okkar við. Oftar til góðs en til hins verra. Hið óvænta er eins og krydd í tilverunni – krydd sem okkur líkar við eða fellur ekki að smekk okkar. Reyndar er það svo að við leitumst við að búa um okkur á sem öruggastan hátt í lífinu og viljum helst ekki að eitthvað óvænt komi upp á og trufli háttbundinn takt tilverunnar. Viljum ekki reka tungubroddinn í krydd sem okkur geðjast ekki að. Það virðist nefnilega liggja í eðli manneskjunnar að vilja útiloka hið óvænta sem raskar tilverunni. Kannski er það vegna þess að hún vill hafa alla þræði í hendi sinni. Hið óvænta ber fyrir öryggismyndavélar sálarinnar og hversdagslegt skipulag okkar titrar. Þess vegna hafa margir komið sér upp viðbragðsáætlunum – og þær eru misjafnar eins og mennirnir eru margir.
Enginn getur útrýmt hinu óvænta – það er hluti af lífinu sem við verðum að búa við.
Gott og slæmt.
Hið óvænta getur vakið með okkur gleði og hamingju.
Hið óvænta getur verið dálítið spennandi. Eitthvað sem er í aðsigi og er gott.
Hið óvænta getur líka vakið sorg og harm.
Manneskjan er ofin úr svo mörgum þáttum að hversu snjöll sem hún kann að vera þá getur hún aldrei hulið viðbrögð sín við því sem er óvænt. Viðbrögð eru nefnilega stór þáttur í lífi okkar – svo stór þáttur að við tökum sjaldnast eftir þeim. Þau birtast annað hvort í orði eða verki. Fyrstu viðbrögð geta verið ljúf og ástrík. Eða fljótfærnisleg og hvatvís. Þau geta líka verið yfirveguð og örugg á yfirborðinu. Köld og heit. Þessi viðbrögð eru sum hver lærð en önnur blunda í sálarlífi okkar og vakna við ýmsar aðstæður og þá sérstaklega þær óvæntu. Tilfinningar geta líka ruðst fram í viðbrögðum okkar þegar harmafregn berst eða ótrúleg gleðifrétt.
Þruma úr heiðskíru lofti.
Hver eru viðbrögð okkar við ósigri? Eða sigri?
Hver dagur líður oftast hljóðlega í öllum hversdagslegum atvikum sínum. Hið óvænta sem gerist í lífi okkar ýtir alls konar hugsunum af stað.
Viðbrögð okkar sýna nefnilega hver við erum. Þau geta sagt til um sjálfstraust okkar, snerpu, hyggindi, skilning á aðstæðum, styrkleika og veikleika, og þannig mætti lengi telja. Allt eru þetta þættir sem lífið með öllum atvikum sínum, fyrirsjáanlegum sem óvæntum, hleður inn í huga okkar. Við ráðum ekki því sem okkur er innrætt frá bernsku. Öll eigum við ekki lítið undir því hvað okkur er tamið frá blautu barnsbeini. Enginn fær andlegan styrk af sjálfum sér en hann er hægt að byggja upp með hjálp Guðs og góðra manna. Og við tökum hatt okkar ofan í þakklætisskyni því að við förum þá að kannast við okkur í Kjósinni.
Og Kjósin?
Hún er alls staðar.
Líka í sálinni.
Spyrjið bara Jón Jónsson, varðmann.
[1] Snæfríður Íslandssól – Leikrit í þrem þáttum, eftir Halldór Kiljan Laxness (1902-1998), útg. Helgafell, Reykjavík 1956, bls. 167. – Hlutverk Jóns Jónssonar varðmanns úr Kjósinni lék af mikilli snilld Valdemar Helgason (1903-1993), leikari. Leikritið var gefið út á hljómplötum 1957 af Fálkanum hf., undir heitinu Íslandsklukkan. Leikstjóri var Lárus Pálsson (1914-1968).