Engin opinber athöfn í íslensku samfélagi er jafn hátíðleg og skrautleg sem biskupsvígsla en hún fer yfirleitt fram með sama hætti þá hún er höfð um hönd sem er sjaldan. Þar er kallað til hið besta tónlistarfólk sem völ er á og húsakynni eru dómkirkjur landsins og Hallgrímskirkja. Höfðað er til allra tilfinninga og skynfæra manneskjunnar.

Já, það er hátíð í kirkjunni þegar nýr biskup er vígður. Hátíð fyrir augað og eyrað. Tilkomumikið er að sjá kennilýðinn, presta og djákna, ganga fylktu liði til kirkju. Þau yngstu ganga fremst til kirkju og þau elstu aftast úr kirkju en þó á eftir biskupum. Elstu prestarnir sem komu til vígslunnar í gær voru á tíræðisaldri. Þá tóku og þátt í fylkingunni fulltrúar guðfræði- og trúarbragðadeildar Háskóla Íslands.

Það voru á annað hundrað prestar og djáknar sem gengu frá Tækniskólanum og til Hallgrímskirkju í gær við biskupsvígslu sr. Guðrúnar Karls Helgudóttur. Þegar sá hópur hafði komið sér fyrir komu þau sem tóku virkan þátt í biskupsvígslunni, biskupar, vígsluvottar ásamt þeim sem þjónuðu í messunni, meðal annars Drífu Hjartardóttur, forseta kirkjuþings. Fremst var borinn göngukross svo sem venja er.

Útlendu biskuparnir komu frá Færeyjum, Svíþjóð, Noregi, Grænlandi, Finnlandi og Danmörku. Frá Wales, Skotlandi, Írlandi, Bretlandi, Jórdaníu og Landinu helga, og Eistlandi. Þátttaka erlendra biskupa við biskupsvígslu áréttar tengsl milli Íslands og þeirra landa þar sem þeir þjóna. Á sama hátt fara íslenskir biskupar sem vígsluvottar til systurkirkna í útlöndum þegar biskupar eru vígðir þar.

Tónlistin skipar veglegan sess. Sungnir eru sálmar sem eiga að endurspegla hvort tveggja bænir fólksins og hinn himneska lofsöng til heiðurs Guði og Kristi. Organleikur og kórstjórn var í höndum þeirra Björns Steinars Sólbergssonar, Guðmundar Sigurðssonar, Láru Bryndísar Eggertsdóttur, Steinars Loga Helgasonar og Hákonar Leifssonar. Margt fleira fólk kom að tónlistarflutningnum.

Kórkápur (í lútherskum sið kallaðar biskupskápur) biskupanna eru skrautlegar og sumar hverjar nokkuð íburðarmiklar. Nokkrir erlendu biskupanna báru mítur á höfði. En mítur er sérstakt höfuðfat sem margir biskupar bera – sem og sjálfur páfinn. Fáir íslenskir biskupar hafa notað slíkt fat og um það eru engar reglur til í lútherskum sið á Íslandi. Tveir fyrstu lúthersku biskuparnir í Skálholti hafa sennilega notað mítur. Á tuttugustu öld kom fyrir að mítur sást á höfðum íslenskra biskupa.

Kórkápa nýja biskupsins var einkar glæsileg. Blá sem himinn og haf – já og landið bláa sem Ísland er oft kallað. Í fréttum kom fram að þetta væri fyrsta biskupskápan sem saumuð væri á þessari öld og þá sérstaklega fyrir konu. Á sitt hvorum boðungnum les sig upp hrísla með grænum laufblöðum. Það eru íslenskar konur sem eiga heiðurinn af þessu listaverki, þær Steinunn Sigurðardóttir, hönnuður, Kristín Gunnlaugsdóttir, myndlistarmaður, og Þórdís Jónsdóttir, útsaumslistakona.

Biskupsvígsla fer fram samkvæmt hefð og stuðst er við handbók kirkjunnar. Nývígður biskup prédikar svo. Vígslan á sér biblíulegar rætur og hafa kristnir menn tekið sið handayfirlagningar við innsetningu í ýmis embætti frá Gyðingum.

Samkvæmt Innri samþykktum þjóðkirkjunnar á biskup Íslands að vígja biskupa.

Hvað er biskup?

Þegar biskup er vígður er aðeins verið að staðfesta prestsvígslu hans en að auki er með vígslunni þjónustuumboð hans orðið víðtækara en prests. Biskup er forystumaður í kirkjunni og á að standa vörð um einingu kirkjunnar. Einingarband kirkjunnar er meðal annars játningar kirkjunnar og Handbók íslensku kirkjunnar.

Í lögum um þjóðkirkjuna frá 2021 segir meðal annars svo í 10. gr. :.

Biskup Íslands fer með yfirstjórn þjóðkirkjunnar eftir því sem kirkjuþing mælir nánar fyrir um.

Biskup Íslands gætir einingar kirkjunnar og hefur tilsjón með kristnihaldi, kenningu kirkjunnar og þjónustu.

Áður mátti lesa nánar um hlutverk biskupa í erindisbréfi til þeirra frá 1746 en það var fellt úr gildi með nýjum þjóðkirkjulögum 2021. Kirkjuþing á sem sé eftir að ræða nánar um hlutverk biskupsins hvað snertir yfirstjórn þjóðkirkjunnar.

Biskupinn hefur tilsjón með kristnihaldi í landinu og um það segir svo í Innri samþykktum þjóðkirkjunnar:

Til að styrkja boðun, samfélag og einingu kirkjunnar er sérstök skipan á tilsjón, episkope, með sóknum, söfnuðum, vígðum þjónum og stofnunum kirkjunnar. Innan biskupsdæmis Íslands er tilsjónin iðkuð af biskupi Íslands, og vígslubiskupum og próföstum fyrir hans hönd. Vísitasíur eru mikilvægasti þáttur tilsjónarinnar. (Innri samþykktir þjóðkirkjunnar, XII. Tilsjón.)

Kirkjublaðið.is óskar sr. Guðrúnu Karls Helgudóttur blessunar í starfi sínu sem biskup Íslands.

Í lok vígslunnar var tekin hópmynd í kórtröppum Hallgrímskirkju

Prédikun sr. Guðrúnar sem hún flutti eftir að hafa verið vígð sem biskup Íslands:

Prédikun flutt í Hallgrímskirkju á vígsludegi 1. september 2024.

14. sunnudagur eftir þrenningarhátíð

Tengdamóðirin

 Guðs náð sé með þér og friður

 Tengdamóðirin

„Hann tók í hönd henni og reisti hana á fætur“

Hún skildi um leið hvað hafði gerst. Hún hélt sínu striki, sinnti sínu starfi. Hún sá til þess að fólkið fengi að borða og að einhver vaskaði upp. Hún gekk í verkin, þakklát fyrir að hafa öðlast nýtt líf.

Hefur einhver reist þig upp? Hefur þú verið reist/ur upp til þess að lifa með reisn, vera sú manneskja sem þér er ætlað að vera?

Sjáum þetta fyrir okkur: Jesús er nýbúinn að velja fyrstu lærisveinana og þeir eru allir nafngreindir. Hann er búinn að kenna í samkundunni og reka út illan anda og orðspor hans er farið að berast um alla Galíleu. Honum er þá boðið í mat heim til vina sinna, sem hann hafði útvalið til að gegna stöðu lærisveina. Þetta voru bræðurnir Símon og Andrés. Þegar þangað er komið er honum tjáð að tengdamóðir Símonar sé veik. Hún er með sótthita en sótthiti á þessum tíma gat þýtt að hún væri deyjandi. Jesús gengur þá til hennar tekur í hönd henni og reisir hana á fætur. Sótthitinn fer þá úr henni og hún gengur þeim fyrir beina.

Hér langar mig að staldra við. Það kann að þykja ankannalegt, séð með augum nútímafólks, að aumingja konan hafi ekki fengið að jafna sig aðeins áður en hún gekk í húsfreyjustörfin. Hvers vegna gátu Símon og Andrés ekki sjálfir séð til þess að fólkið fengi að borða auk þess sem fleira fólk var að öllum líkindum þarna til heimilis. Jafnvel harðasta tengdamóðir í bókum Guðrúnar frá Lundi hefði þegið góðan kaffibolla og svolitla hvíld áður en hún færi að taka til hendinni. Nei, hún fer beint að þjóna fólkinu til borðs.

Ég held, að það að tengdamóðirin fari beint að sinna húsfreyjustörfunum sýni okkur tvennt; Það sýnir okkur annars vegar að hún var sannarlega orðin heil heilsu (upprisin) og gat því sinnt skyldum sínum af fullum krafti. Hins vegar sýnir það okkur að hún skildi hvað hafði gerst. Hún skildi hvað það raunverulega þýddi að fylgja Jesú Kristi.

 Upprisa og kærleiksþjónusta

Þegar Jesús tekur í hönd hennar og reisir hana á fætur þá er því lýst með sama gríska hugtaki og Markús guðspjallamaður notar til þess að lýsa upprisu Krists, „egeiro“. Með því er lögð áhersla á að hún sé sannarlega upprisin. Hún er risin upp til þess að vera hún sjálf eins og henni er ætlað að vera. Hún er full af lífskrafti, getur annast sínar skyldur og lifað með reisn. Ég er alls ekki viss um að hún sé endilega laus við alla krankleika sem hafa einhverntíma tíma hrjáð hana. Ég ekki viss um að við þessa upprisu hafi sjónin á vinstra auganu lagast, giktin eða mígrenið. Nei, hún er ekki upprisin til að vera ofurmanneskja heldur til þess að vera sú sem hún er og lifa verðugu lífi.

Þegar hún finnur að hún er orðin hún sjálf á ný sýnir hún að hún skilur út á hvað þetta gengur og fer að sinna sínum skyldum, sínu hlutverki. Og hér er því lýst með sögninni, „diakoneo“. Hún fer beint að annast kærleiksþjónustu. Jesús notar sjálfur hugtakið kærleiksþjónusta til að lýsa sínu hlutverki hér á jörð. Kærleiksþjónusta er mikilvægasta hlutverk hverrar kristinnar manneskju, að þjóna náunganum (koma til móts við þarfir hans) og að þjóna Guði í kærleika.

Tengdamóðirin er konan sem gengur í það sem þarf að gera til þess að þjóna náunganum og Guði. Hún er fyrsti djákninn og hún er fyrsti sanni lærisveinninn. Hún er fyrirmynd hinnar kristnu manneskju. Hennar hlutverk var að sjá til þess að fólk fengi að borða, vera góður gestgjafi og þetta hlutverk annaðist hún af kærleika. Þessi kona hefði ekki hlaupið til Jesú í vandræðagangi þegar hann var að kenna 5000 manns á fjallinu forðum og fólkið hafði ekki nóg að borða. Nei, hún hefði gengið í málið útvegað fiska og brauð og séð til þess að fólkið fengi að borða. Þessi kona vissi það sem konur á öllum tímum hafa vitað:

Eftir allar veislur þarf einhver að vaska upp.

 Nafnlaus kona með stórt hlutverk

Þrátt fyrir allt sem fram er komið þá er þessi kona ekki nafngreind í Biblíunni. Hún er aðeins hluti af sögu sem er næstum því eins og innan sviga. Þessu er öfugt farið með tengdason hennar, Símon. Hann fær ekki einungis nafnið sitt nefnt í Biblíunni heldur fær hann tvö nöfn því Jesús gefur honum síðar nafnið Pétur, sem þýðir klettur. Og Símon Pétur er langt frá því að skilja hlutverk sitt á öllum stundum. Hann veit ekkert hvað hann á að gera þegar 5000 manns eru orðin svöng. Hann gerir mistök, er óöruggur í hlutverki sínu og gagnvart hinum lærisveinunum. Þegar Jesús er handtekinn afneitar hann honum þrisvar. Hann er með öðrum orðum, ósköp venjuleg manneskja eins og hver og ein okkar og skildi alls ekki alltaf út á hvað lærisveinahlutverkið gekk og þannig fólki treystir Jesús fyrir stórum hlutverkum.

Við getum þó gert ráð fyrir því að tengdamóðirin, sem aldrei er nafngreind hafi verið í hópi fylgjenda Jesú því við vitum að læsisveinahópurinn var mun stærri en þessir tólf sem eru sérstaklega valdir og nafngreindir og við vitum einnig að meðal lærisveinanna voru konur. Við vitum líka að þegar Jesús var krossfestur þá flúðu þessir nafngreindu á meðan konur úr hópnum hans stóðu álengdar og yfirgáfu hann ekki. Möguleg skýring er þó að karlmennirnir hafi verið í meiri hættu þarna en konurnar. Konur voru jú ekki pólitísk ógn við neinn, nafnlausar og réttindalausar sem þær voru. Og við vitum einnig að það voru konur sem fyrstar komu að gröfinni tómri og það voru konur sem Jesús sendi út til þess að boða upprisu hans frá dauðum.

Við skulum því ekki láta nafnleysi konunnar blekkja okkur.

Að rísa upp

„Hann tók í hönd henni og reisti hana á fætur“

Hefur þú verið reistur/reist á fætur?

Við þörfnumst öll upprisu frá einhverju. Það geta verið veikindi, ósiðir, fíkn, áföll eða hvað eina. Við sleppum ekki við einhvers konar sótthita sem hindrar okkur frá því að vera sú manneskja sem okkur er ætlað að vera. Og þegar við erum þjökuð af sótthitanum, hvort sem það eru áföllin okkar sem hafa orsakað hann eða eitthvað annað, þá getum við ekki sinnt þeirri kærleiksþjónustu að fullu sem við erum hvert og eitt kölluð til að annast á akri Guðs.

Það er ekki einungis við mannfólkið sem reglulega þörfnumst upprisu. Hið sama á við um samfélög og kirkjuna.

Saga innan sviga

Þegar ég nefndi að þessi saga væri næstum því sögð innan sviga átti ég við það að hún gerist innan veggja heimilis. Það voru ekki mörg vitni að þessari upprisu. En þrátt fyrir það breiddist sagan út og þegar kvölda tók kom allur bærinn saman við dyrnar og fjöldi fólks vildi fá lækningu.

Jesús var enginn „pr“ maður. Hann var ekki að hugsa um markaðssetningu, samskiptastefnu eða kynningarmál. Hann boðaði fagnaðarerindið og vann sín verk, oft í kyrrþey, uppi á fjöllum, inni í bæjum, í kirkjum (samkunduhúsum) og á heimilum. Hann bað fólk stundum að tala ekki um kraftaverkin en fagnaðarerindið mátti berast. Hann vissi hvað skipti máli; það var kærleiksboðskapurinn og ekkert annað. Hann vissi væntanlega einnig að það gat verið hættulegt fyrir hann að orðspor hans færi of víða því það ógnaði mörgum.

Með sama hætti á góð kristin manneskja að vinna verk sín í auðmýkt og kyrrþey og á sannarlega ekki að auglýsa góðverkin. Þau eiga að vera sjálfsögð og í nafni Guðs en ekki okkar eigin.

Við eigum að vera auðmjúk og tala ekki of mikið um það sem gengur vel eða segja frá því sem við erum að gera því annars erum við raupsöm og hreykjum okkur upp. Ekkjan gaf eyri sinn í kyrrþey á meðan ríki maðurinn barði sér á brjóst fyrir rausnarskap sinn.

Þennan boðskap hefur Þjóðkirkjan tekið alvarlega. Við höfum lagt okkur fram um að þjóna Guði og fólki vel en ekki verið að segja svo mikið frá því. Starfið í Þjóðkirkjunni er því eitt best geymda leyndarmálið á Íslandi. Við höfum ekki viljað vera að trana okkur fram heldur vinna verkin í hljóði. Og þegar við verðum fyrir aðkasti erum við áfram prúð og stillt, vinnum okkar verk og leiðréttum ekki misskilninginn.

Það er þó svo að þegar við segjum frá mikilvægu starfi kirkjunnar, kærleiksþjónustunni, sálgæslunni, þjónustunni við syrgjendur og frá öllum þeim fjölda sem sækir kirkju á gleði og sorgarstundum. Þegar við segjum frá helgihaldinu, tónlistarstarfinu og barnastarfinu þá eru við ekki að hreykja okkur sjálfum upp. Við erum ekki að berja okkur persónulega á brjóst og gera okkur breið. Við megum vera stolt af kirkjunni okkar og við eigum að vera stolt af verki Guðs. Því þá erum við stolt af því að fá að þjóna Guði í kærleika og leggja örlítið af mörkum til þess að gera heiminn betri. Þeim mun fleiri sem þekkja til kærleiksþjónustu kirkjunnar, þeim mun fleiri fá að njóta hennar og vera hluti af henni.

 Upprisa frá sótthita

„Hann tók í hönd henni og reisti hana á fætur“.

Kirkjan okkar þarfnast reglulegrar upprisu.

Samfélög heims þarfnast reglulegrar upprisu.

Við, hvert og eitt þurfum reglulega á upprisu að halda því ekkert okkar kemst undan einhvers konar sótthita.

Kirkjan þarf reglulega að taka í hönd Krists og leyfa honum að reisa sig við til þess að vera sú kirkja sem hann ætlar henni að vera.

Samfélög sem ala á ótta og ráðast á saklaust fólk þurfa á upprisu að halda. Samfélög sem markvist mismuna fólki á grundvelli kyns, kynhneigðar, kynþáttar, trúar eða nokkurs annars þurfa á upprisu að halda. Samfélög sem eru að reyna að gera sitt besta þurfa reglulega á upprisu að halda.

Kirkja og samfélög eru nefnilega byggð upp af Símonum Pétrum og tengdamæðrum, nafnlausu fólki sem kann að annast kærleiksþjónustu og fólki sem gerir mistök. Kirkja og samfélög samanstanda af allskonar fólki eins og þér og mér.

En hvernig á þessi upprisa sér stað? Hvernig tekur Kristur í höndina á þér svo að þú getir risið á fætur? Hvernig getur hann reist kirkju og samfélög upp?

Það krefst hugrekkis og trausts að þiggja upprisu. Það krefst hugrekkis og sjálfsþekkingar að viðurkenna takmarkanir okkar og breiskleika og opna okkur fyrir upprisu frá þeim.

Upprisan getur átt sér stað með ýmsum hætti því Guð, hinn æðsti og mesti kærleikur vinnur á svo margbreytilegan hátt.

Guð vinnur í gegnum fólkið kringum okkur. Þegar þú mætir manneskju sem sér þig og er tilbúin til þess að rétta þér höndina og reisa þig á fætur, þá er þar mögulega Guð á ferð.

Þegar bænum þínum er svarað, þá er þar Guð á ferð.

Þegar þú finnur að þú ert borin í gegnum sótthitann, þá er Guð þar að verki.

Þegar við leggjum okkur fram um að vinna að sannri kærleiksþjónustu og gera heiminn að friðsamari og betri stað þá erum við að leggja okkar að mörkum til að reisa fólk og samfélög upp. Þá erum við hendur Guðs í heiminum.

„Hann tók í hönd henni og reisti hana á fætur“. Það hefði ekki gerst ef hún hefði ekki rétt fram höndina og þegið upprisuna.

Hún var tilbúin.

Ert þú tilbúin/n/ð.

Hann mun taka í hönd þér og reisa þig á fætur, treystu því!

Dýrð sé Guði sem reisir okkur upp frá takmörkunum okkar og læknar okkur af sótthitanum.

Amen

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Engin opinber athöfn í íslensku samfélagi er jafn hátíðleg og skrautleg sem biskupsvígsla en hún fer yfirleitt fram með sama hætti þá hún er höfð um hönd sem er sjaldan. Þar er kallað til hið besta tónlistarfólk sem völ er á og húsakynni eru dómkirkjur landsins og Hallgrímskirkja. Höfðað er til allra tilfinninga og skynfæra manneskjunnar.

Já, það er hátíð í kirkjunni þegar nýr biskup er vígður. Hátíð fyrir augað og eyrað. Tilkomumikið er að sjá kennilýðinn, presta og djákna, ganga fylktu liði til kirkju. Þau yngstu ganga fremst til kirkju og þau elstu aftast úr kirkju en þó á eftir biskupum. Elstu prestarnir sem komu til vígslunnar í gær voru á tíræðisaldri. Þá tóku og þátt í fylkingunni fulltrúar guðfræði- og trúarbragðadeildar Háskóla Íslands.

Það voru á annað hundrað prestar og djáknar sem gengu frá Tækniskólanum og til Hallgrímskirkju í gær við biskupsvígslu sr. Guðrúnar Karls Helgudóttur. Þegar sá hópur hafði komið sér fyrir komu þau sem tóku virkan þátt í biskupsvígslunni, biskupar, vígsluvottar ásamt þeim sem þjónuðu í messunni, meðal annars Drífu Hjartardóttur, forseta kirkjuþings. Fremst var borinn göngukross svo sem venja er.

Útlendu biskuparnir komu frá Færeyjum, Svíþjóð, Noregi, Grænlandi, Finnlandi og Danmörku. Frá Wales, Skotlandi, Írlandi, Bretlandi, Jórdaníu og Landinu helga, og Eistlandi. Þátttaka erlendra biskupa við biskupsvígslu áréttar tengsl milli Íslands og þeirra landa þar sem þeir þjóna. Á sama hátt fara íslenskir biskupar sem vígsluvottar til systurkirkna í útlöndum þegar biskupar eru vígðir þar.

Tónlistin skipar veglegan sess. Sungnir eru sálmar sem eiga að endurspegla hvort tveggja bænir fólksins og hinn himneska lofsöng til heiðurs Guði og Kristi. Organleikur og kórstjórn var í höndum þeirra Björns Steinars Sólbergssonar, Guðmundar Sigurðssonar, Láru Bryndísar Eggertsdóttur, Steinars Loga Helgasonar og Hákonar Leifssonar. Margt fleira fólk kom að tónlistarflutningnum.

Kórkápur (í lútherskum sið kallaðar biskupskápur) biskupanna eru skrautlegar og sumar hverjar nokkuð íburðarmiklar. Nokkrir erlendu biskupanna báru mítur á höfði. En mítur er sérstakt höfuðfat sem margir biskupar bera – sem og sjálfur páfinn. Fáir íslenskir biskupar hafa notað slíkt fat og um það eru engar reglur til í lútherskum sið á Íslandi. Tveir fyrstu lúthersku biskuparnir í Skálholti hafa sennilega notað mítur. Á tuttugustu öld kom fyrir að mítur sást á höfðum íslenskra biskupa.

Kórkápa nýja biskupsins var einkar glæsileg. Blá sem himinn og haf – já og landið bláa sem Ísland er oft kallað. Í fréttum kom fram að þetta væri fyrsta biskupskápan sem saumuð væri á þessari öld og þá sérstaklega fyrir konu. Á sitt hvorum boðungnum les sig upp hrísla með grænum laufblöðum. Það eru íslenskar konur sem eiga heiðurinn af þessu listaverki, þær Steinunn Sigurðardóttir, hönnuður, Kristín Gunnlaugsdóttir, myndlistarmaður, og Þórdís Jónsdóttir, útsaumslistakona.

Biskupsvígsla fer fram samkvæmt hefð og stuðst er við handbók kirkjunnar. Nývígður biskup prédikar svo. Vígslan á sér biblíulegar rætur og hafa kristnir menn tekið sið handayfirlagningar við innsetningu í ýmis embætti frá Gyðingum.

Samkvæmt Innri samþykktum þjóðkirkjunnar á biskup Íslands að vígja biskupa.

Hvað er biskup?

Þegar biskup er vígður er aðeins verið að staðfesta prestsvígslu hans en að auki er með vígslunni þjónustuumboð hans orðið víðtækara en prests. Biskup er forystumaður í kirkjunni og á að standa vörð um einingu kirkjunnar. Einingarband kirkjunnar er meðal annars játningar kirkjunnar og Handbók íslensku kirkjunnar.

Í lögum um þjóðkirkjuna frá 2021 segir meðal annars svo í 10. gr. :.

Biskup Íslands fer með yfirstjórn þjóðkirkjunnar eftir því sem kirkjuþing mælir nánar fyrir um.

Biskup Íslands gætir einingar kirkjunnar og hefur tilsjón með kristnihaldi, kenningu kirkjunnar og þjónustu.

Áður mátti lesa nánar um hlutverk biskupa í erindisbréfi til þeirra frá 1746 en það var fellt úr gildi með nýjum þjóðkirkjulögum 2021. Kirkjuþing á sem sé eftir að ræða nánar um hlutverk biskupsins hvað snertir yfirstjórn þjóðkirkjunnar.

Biskupinn hefur tilsjón með kristnihaldi í landinu og um það segir svo í Innri samþykktum þjóðkirkjunnar:

Til að styrkja boðun, samfélag og einingu kirkjunnar er sérstök skipan á tilsjón, episkope, með sóknum, söfnuðum, vígðum þjónum og stofnunum kirkjunnar. Innan biskupsdæmis Íslands er tilsjónin iðkuð af biskupi Íslands, og vígslubiskupum og próföstum fyrir hans hönd. Vísitasíur eru mikilvægasti þáttur tilsjónarinnar. (Innri samþykktir þjóðkirkjunnar, XII. Tilsjón.)

Kirkjublaðið.is óskar sr. Guðrúnu Karls Helgudóttur blessunar í starfi sínu sem biskup Íslands.

Í lok vígslunnar var tekin hópmynd í kórtröppum Hallgrímskirkju

Prédikun sr. Guðrúnar sem hún flutti eftir að hafa verið vígð sem biskup Íslands:

Prédikun flutt í Hallgrímskirkju á vígsludegi 1. september 2024.

14. sunnudagur eftir þrenningarhátíð

Tengdamóðirin

 Guðs náð sé með þér og friður

 Tengdamóðirin

„Hann tók í hönd henni og reisti hana á fætur“

Hún skildi um leið hvað hafði gerst. Hún hélt sínu striki, sinnti sínu starfi. Hún sá til þess að fólkið fengi að borða og að einhver vaskaði upp. Hún gekk í verkin, þakklát fyrir að hafa öðlast nýtt líf.

Hefur einhver reist þig upp? Hefur þú verið reist/ur upp til þess að lifa með reisn, vera sú manneskja sem þér er ætlað að vera?

Sjáum þetta fyrir okkur: Jesús er nýbúinn að velja fyrstu lærisveinana og þeir eru allir nafngreindir. Hann er búinn að kenna í samkundunni og reka út illan anda og orðspor hans er farið að berast um alla Galíleu. Honum er þá boðið í mat heim til vina sinna, sem hann hafði útvalið til að gegna stöðu lærisveina. Þetta voru bræðurnir Símon og Andrés. Þegar þangað er komið er honum tjáð að tengdamóðir Símonar sé veik. Hún er með sótthita en sótthiti á þessum tíma gat þýtt að hún væri deyjandi. Jesús gengur þá til hennar tekur í hönd henni og reisir hana á fætur. Sótthitinn fer þá úr henni og hún gengur þeim fyrir beina.

Hér langar mig að staldra við. Það kann að þykja ankannalegt, séð með augum nútímafólks, að aumingja konan hafi ekki fengið að jafna sig aðeins áður en hún gekk í húsfreyjustörfin. Hvers vegna gátu Símon og Andrés ekki sjálfir séð til þess að fólkið fengi að borða auk þess sem fleira fólk var að öllum líkindum þarna til heimilis. Jafnvel harðasta tengdamóðir í bókum Guðrúnar frá Lundi hefði þegið góðan kaffibolla og svolitla hvíld áður en hún færi að taka til hendinni. Nei, hún fer beint að þjóna fólkinu til borðs.

Ég held, að það að tengdamóðirin fari beint að sinna húsfreyjustörfunum sýni okkur tvennt; Það sýnir okkur annars vegar að hún var sannarlega orðin heil heilsu (upprisin) og gat því sinnt skyldum sínum af fullum krafti. Hins vegar sýnir það okkur að hún skildi hvað hafði gerst. Hún skildi hvað það raunverulega þýddi að fylgja Jesú Kristi.

 Upprisa og kærleiksþjónusta

Þegar Jesús tekur í hönd hennar og reisir hana á fætur þá er því lýst með sama gríska hugtaki og Markús guðspjallamaður notar til þess að lýsa upprisu Krists, „egeiro“. Með því er lögð áhersla á að hún sé sannarlega upprisin. Hún er risin upp til þess að vera hún sjálf eins og henni er ætlað að vera. Hún er full af lífskrafti, getur annast sínar skyldur og lifað með reisn. Ég er alls ekki viss um að hún sé endilega laus við alla krankleika sem hafa einhverntíma tíma hrjáð hana. Ég ekki viss um að við þessa upprisu hafi sjónin á vinstra auganu lagast, giktin eða mígrenið. Nei, hún er ekki upprisin til að vera ofurmanneskja heldur til þess að vera sú sem hún er og lifa verðugu lífi.

Þegar hún finnur að hún er orðin hún sjálf á ný sýnir hún að hún skilur út á hvað þetta gengur og fer að sinna sínum skyldum, sínu hlutverki. Og hér er því lýst með sögninni, „diakoneo“. Hún fer beint að annast kærleiksþjónustu. Jesús notar sjálfur hugtakið kærleiksþjónusta til að lýsa sínu hlutverki hér á jörð. Kærleiksþjónusta er mikilvægasta hlutverk hverrar kristinnar manneskju, að þjóna náunganum (koma til móts við þarfir hans) og að þjóna Guði í kærleika.

Tengdamóðirin er konan sem gengur í það sem þarf að gera til þess að þjóna náunganum og Guði. Hún er fyrsti djákninn og hún er fyrsti sanni lærisveinninn. Hún er fyrirmynd hinnar kristnu manneskju. Hennar hlutverk var að sjá til þess að fólk fengi að borða, vera góður gestgjafi og þetta hlutverk annaðist hún af kærleika. Þessi kona hefði ekki hlaupið til Jesú í vandræðagangi þegar hann var að kenna 5000 manns á fjallinu forðum og fólkið hafði ekki nóg að borða. Nei, hún hefði gengið í málið útvegað fiska og brauð og séð til þess að fólkið fengi að borða. Þessi kona vissi það sem konur á öllum tímum hafa vitað:

Eftir allar veislur þarf einhver að vaska upp.

 Nafnlaus kona með stórt hlutverk

Þrátt fyrir allt sem fram er komið þá er þessi kona ekki nafngreind í Biblíunni. Hún er aðeins hluti af sögu sem er næstum því eins og innan sviga. Þessu er öfugt farið með tengdason hennar, Símon. Hann fær ekki einungis nafnið sitt nefnt í Biblíunni heldur fær hann tvö nöfn því Jesús gefur honum síðar nafnið Pétur, sem þýðir klettur. Og Símon Pétur er langt frá því að skilja hlutverk sitt á öllum stundum. Hann veit ekkert hvað hann á að gera þegar 5000 manns eru orðin svöng. Hann gerir mistök, er óöruggur í hlutverki sínu og gagnvart hinum lærisveinunum. Þegar Jesús er handtekinn afneitar hann honum þrisvar. Hann er með öðrum orðum, ósköp venjuleg manneskja eins og hver og ein okkar og skildi alls ekki alltaf út á hvað lærisveinahlutverkið gekk og þannig fólki treystir Jesús fyrir stórum hlutverkum.

Við getum þó gert ráð fyrir því að tengdamóðirin, sem aldrei er nafngreind hafi verið í hópi fylgjenda Jesú því við vitum að læsisveinahópurinn var mun stærri en þessir tólf sem eru sérstaklega valdir og nafngreindir og við vitum einnig að meðal lærisveinanna voru konur. Við vitum líka að þegar Jesús var krossfestur þá flúðu þessir nafngreindu á meðan konur úr hópnum hans stóðu álengdar og yfirgáfu hann ekki. Möguleg skýring er þó að karlmennirnir hafi verið í meiri hættu þarna en konurnar. Konur voru jú ekki pólitísk ógn við neinn, nafnlausar og réttindalausar sem þær voru. Og við vitum einnig að það voru konur sem fyrstar komu að gröfinni tómri og það voru konur sem Jesús sendi út til þess að boða upprisu hans frá dauðum.

Við skulum því ekki láta nafnleysi konunnar blekkja okkur.

Að rísa upp

„Hann tók í hönd henni og reisti hana á fætur“

Hefur þú verið reistur/reist á fætur?

Við þörfnumst öll upprisu frá einhverju. Það geta verið veikindi, ósiðir, fíkn, áföll eða hvað eina. Við sleppum ekki við einhvers konar sótthita sem hindrar okkur frá því að vera sú manneskja sem okkur er ætlað að vera. Og þegar við erum þjökuð af sótthitanum, hvort sem það eru áföllin okkar sem hafa orsakað hann eða eitthvað annað, þá getum við ekki sinnt þeirri kærleiksþjónustu að fullu sem við erum hvert og eitt kölluð til að annast á akri Guðs.

Það er ekki einungis við mannfólkið sem reglulega þörfnumst upprisu. Hið sama á við um samfélög og kirkjuna.

Saga innan sviga

Þegar ég nefndi að þessi saga væri næstum því sögð innan sviga átti ég við það að hún gerist innan veggja heimilis. Það voru ekki mörg vitni að þessari upprisu. En þrátt fyrir það breiddist sagan út og þegar kvölda tók kom allur bærinn saman við dyrnar og fjöldi fólks vildi fá lækningu.

Jesús var enginn „pr“ maður. Hann var ekki að hugsa um markaðssetningu, samskiptastefnu eða kynningarmál. Hann boðaði fagnaðarerindið og vann sín verk, oft í kyrrþey, uppi á fjöllum, inni í bæjum, í kirkjum (samkunduhúsum) og á heimilum. Hann bað fólk stundum að tala ekki um kraftaverkin en fagnaðarerindið mátti berast. Hann vissi hvað skipti máli; það var kærleiksboðskapurinn og ekkert annað. Hann vissi væntanlega einnig að það gat verið hættulegt fyrir hann að orðspor hans færi of víða því það ógnaði mörgum.

Með sama hætti á góð kristin manneskja að vinna verk sín í auðmýkt og kyrrþey og á sannarlega ekki að auglýsa góðverkin. Þau eiga að vera sjálfsögð og í nafni Guðs en ekki okkar eigin.

Við eigum að vera auðmjúk og tala ekki of mikið um það sem gengur vel eða segja frá því sem við erum að gera því annars erum við raupsöm og hreykjum okkur upp. Ekkjan gaf eyri sinn í kyrrþey á meðan ríki maðurinn barði sér á brjóst fyrir rausnarskap sinn.

Þennan boðskap hefur Þjóðkirkjan tekið alvarlega. Við höfum lagt okkur fram um að þjóna Guði og fólki vel en ekki verið að segja svo mikið frá því. Starfið í Þjóðkirkjunni er því eitt best geymda leyndarmálið á Íslandi. Við höfum ekki viljað vera að trana okkur fram heldur vinna verkin í hljóði. Og þegar við verðum fyrir aðkasti erum við áfram prúð og stillt, vinnum okkar verk og leiðréttum ekki misskilninginn.

Það er þó svo að þegar við segjum frá mikilvægu starfi kirkjunnar, kærleiksþjónustunni, sálgæslunni, þjónustunni við syrgjendur og frá öllum þeim fjölda sem sækir kirkju á gleði og sorgarstundum. Þegar við segjum frá helgihaldinu, tónlistarstarfinu og barnastarfinu þá eru við ekki að hreykja okkur sjálfum upp. Við erum ekki að berja okkur persónulega á brjóst og gera okkur breið. Við megum vera stolt af kirkjunni okkar og við eigum að vera stolt af verki Guðs. Því þá erum við stolt af því að fá að þjóna Guði í kærleika og leggja örlítið af mörkum til þess að gera heiminn betri. Þeim mun fleiri sem þekkja til kærleiksþjónustu kirkjunnar, þeim mun fleiri fá að njóta hennar og vera hluti af henni.

 Upprisa frá sótthita

„Hann tók í hönd henni og reisti hana á fætur“.

Kirkjan okkar þarfnast reglulegrar upprisu.

Samfélög heims þarfnast reglulegrar upprisu.

Við, hvert og eitt þurfum reglulega á upprisu að halda því ekkert okkar kemst undan einhvers konar sótthita.

Kirkjan þarf reglulega að taka í hönd Krists og leyfa honum að reisa sig við til þess að vera sú kirkja sem hann ætlar henni að vera.

Samfélög sem ala á ótta og ráðast á saklaust fólk þurfa á upprisu að halda. Samfélög sem markvist mismuna fólki á grundvelli kyns, kynhneigðar, kynþáttar, trúar eða nokkurs annars þurfa á upprisu að halda. Samfélög sem eru að reyna að gera sitt besta þurfa reglulega á upprisu að halda.

Kirkja og samfélög eru nefnilega byggð upp af Símonum Pétrum og tengdamæðrum, nafnlausu fólki sem kann að annast kærleiksþjónustu og fólki sem gerir mistök. Kirkja og samfélög samanstanda af allskonar fólki eins og þér og mér.

En hvernig á þessi upprisa sér stað? Hvernig tekur Kristur í höndina á þér svo að þú getir risið á fætur? Hvernig getur hann reist kirkju og samfélög upp?

Það krefst hugrekkis og trausts að þiggja upprisu. Það krefst hugrekkis og sjálfsþekkingar að viðurkenna takmarkanir okkar og breiskleika og opna okkur fyrir upprisu frá þeim.

Upprisan getur átt sér stað með ýmsum hætti því Guð, hinn æðsti og mesti kærleikur vinnur á svo margbreytilegan hátt.

Guð vinnur í gegnum fólkið kringum okkur. Þegar þú mætir manneskju sem sér þig og er tilbúin til þess að rétta þér höndina og reisa þig á fætur, þá er þar mögulega Guð á ferð.

Þegar bænum þínum er svarað, þá er þar Guð á ferð.

Þegar þú finnur að þú ert borin í gegnum sótthitann, þá er Guð þar að verki.

Þegar við leggjum okkur fram um að vinna að sannri kærleiksþjónustu og gera heiminn að friðsamari og betri stað þá erum við að leggja okkar að mörkum til að reisa fólk og samfélög upp. Þá erum við hendur Guðs í heiminum.

„Hann tók í hönd henni og reisti hana á fætur“. Það hefði ekki gerst ef hún hefði ekki rétt fram höndina og þegið upprisuna.

Hún var tilbúin.

Ert þú tilbúin/n/ð.

Hann mun taka í hönd þér og reisa þig á fætur, treystu því!

Dýrð sé Guði sem reisir okkur upp frá takmörkunum okkar og læknar okkur af sótthitanum.

Amen

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir