Samfélagið er mótað af lýðræði og jafnrétti. Fólk gegnir ýmsum störfum í samfélaginu og ber margvíslega starfstitla. Þetta eru að sjálfsögðu allt mikilvæg störf og virðingarverð. Það hefur verið bent á að sjúkrahús væru ekki starfhæf ef ekki væri hreingerningarfólk að störfum alla daga sem ýtir á undan sér þungum þrifavögnum með vatni og hreingerningarefnum.

Samfélagið er sett saman úr einstaklingum og það er flókið mynstur.

Að notast við titla á borð við „herra“ og „frú“ um einstaka embættismenn tilheyrir stéttskiptu samfélagi sem enginn vill sjá. Virðingu er hægt að sýna með öðrum hætti en að skeyta titlum fyrir framan nöfn í hvert sinn sem skrifað er um viðkomandi eða hann ávarpaður/hún ávörpuð.

Í tíð Guðna Th. Jóhannessonar var sjaldan notast við herra-titilinn og ekki sóttist hann eftir því. Það var til fyrirmyndar. Ekki þurfti neitt ávarpsþrep að honum enda hann maður fólksins og nýs tíma.

Segja má að titlatog af þessu tagi í nútímanum sé á vissan hátt súrrealískt og ekki ljóst hverju það eigi að sæta. Hvað er eiginlega verið að segja með þessum herra- og frúar-formála? Eiga þau sem heyra og sjá slíka formála að fá í hnjáliðina og hugsanlega að láta alla gagnrýna hugsun lönd og leið þar sem viðkomandi persóna er komin á einhvern ósnertanlegan virðingarstall? Áttarðu þig á því við hvern þú ert að tala? Þetta er frú. Þetta er herra. Gleymdu því ekki í ávarpi þínu og skrifum. Nei takk, segir 21. öldin. Einhver kann að segja: Hvað þá með frú forseti og herra forseti á Alþingi? Það ávarp er niðurnjörvað í reglur þingsins og ekki ætíð mikið mark tekið á því – er staðnað ræðuávarp á þingi og nær meiningarlaust.

Karlkyns biskupar hafa verið herraðir og sömuleiðis var síðasti biskup frúaður. Nýr forseti, Halla Tómasdóttir, ætlar blessunarlega að ýta frá sér frúartitlinum og vonandi tekur samfélagið undir það. Þarf ekki annað en að skoða heimasíðu forsetans til að sjá það. Vonandi mun nýr biskup, sr. Guðrún Karls Helgudóttir, ýta frá sér frúartitlinum enda þótt hann dúkki nú upp í tvígang á heimasíðu kirkjunnar, kirkjan.is, eins og nátttröll. Svona titlatog sæmir ekki kirkju 21. aldar þar sem glæsilegur nútímalegur biskup er nú í forystu.

Það er reyndar rannsóknarefni út af fyrir sig að skoða þróun í notkun á þessum ávarpstitlum í kirkjunni. Stundum var hér fyrrum talað um biskupinn sem hans herradóm, það er liðin tíð.

Hér er ekki vikið að séra-titlinum sem mörgum prestum er mjög svo umhugað um – ekki hafa djáknarnir sérstakan titil – en það verður kannski gert síðar. Minna má á að séra Jens á Setbergi ansaði ekki fólki ef það notaði séra-titilinn í ávarpi til hans – svo sagði séra Jón Prímus í Kristnihaldinu.

Upphafningarstarfstitlar stéttskipta embættismannasamfélagsins eiga ekki heima í nútímasamfélagi að mati Kirkjublaðsins.is. Titlatogið eru leifar af embættismannastétt frá því að kirkjan var í faðmi ríkisvaldsins – sú tíð er runnin á enda. Vilji þjóðkirkjan ganga inn í nútímasamfélagið er ráð að leggja þetta titlafargan af. Það væri stórt skref til móts við fólkið í kirkjunni og utan hennar. Ekki skortir ýmsar tilvísanir til hefða og siða innan kirkjunnar sem tengjast helgihaldi og við það er ekkert að athuga.

Hver maður stendur fyrir sínu án þess að setja varnargarð titils og gamallar upphefðar í fjölbreytilegu samfélagi nútímans.

Hættum að staglast á frú og herra!

Við erum fólk. Kirkjan er fólkið.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Samfélagið er mótað af lýðræði og jafnrétti. Fólk gegnir ýmsum störfum í samfélaginu og ber margvíslega starfstitla. Þetta eru að sjálfsögðu allt mikilvæg störf og virðingarverð. Það hefur verið bent á að sjúkrahús væru ekki starfhæf ef ekki væri hreingerningarfólk að störfum alla daga sem ýtir á undan sér þungum þrifavögnum með vatni og hreingerningarefnum.

Samfélagið er sett saman úr einstaklingum og það er flókið mynstur.

Að notast við titla á borð við „herra“ og „frú“ um einstaka embættismenn tilheyrir stéttskiptu samfélagi sem enginn vill sjá. Virðingu er hægt að sýna með öðrum hætti en að skeyta titlum fyrir framan nöfn í hvert sinn sem skrifað er um viðkomandi eða hann ávarpaður/hún ávörpuð.

Í tíð Guðna Th. Jóhannessonar var sjaldan notast við herra-titilinn og ekki sóttist hann eftir því. Það var til fyrirmyndar. Ekki þurfti neitt ávarpsþrep að honum enda hann maður fólksins og nýs tíma.

Segja má að titlatog af þessu tagi í nútímanum sé á vissan hátt súrrealískt og ekki ljóst hverju það eigi að sæta. Hvað er eiginlega verið að segja með þessum herra- og frúar-formála? Eiga þau sem heyra og sjá slíka formála að fá í hnjáliðina og hugsanlega að láta alla gagnrýna hugsun lönd og leið þar sem viðkomandi persóna er komin á einhvern ósnertanlegan virðingarstall? Áttarðu þig á því við hvern þú ert að tala? Þetta er frú. Þetta er herra. Gleymdu því ekki í ávarpi þínu og skrifum. Nei takk, segir 21. öldin. Einhver kann að segja: Hvað þá með frú forseti og herra forseti á Alþingi? Það ávarp er niðurnjörvað í reglur þingsins og ekki ætíð mikið mark tekið á því – er staðnað ræðuávarp á þingi og nær meiningarlaust.

Karlkyns biskupar hafa verið herraðir og sömuleiðis var síðasti biskup frúaður. Nýr forseti, Halla Tómasdóttir, ætlar blessunarlega að ýta frá sér frúartitlinum og vonandi tekur samfélagið undir það. Þarf ekki annað en að skoða heimasíðu forsetans til að sjá það. Vonandi mun nýr biskup, sr. Guðrún Karls Helgudóttir, ýta frá sér frúartitlinum enda þótt hann dúkki nú upp í tvígang á heimasíðu kirkjunnar, kirkjan.is, eins og nátttröll. Svona titlatog sæmir ekki kirkju 21. aldar þar sem glæsilegur nútímalegur biskup er nú í forystu.

Það er reyndar rannsóknarefni út af fyrir sig að skoða þróun í notkun á þessum ávarpstitlum í kirkjunni. Stundum var hér fyrrum talað um biskupinn sem hans herradóm, það er liðin tíð.

Hér er ekki vikið að séra-titlinum sem mörgum prestum er mjög svo umhugað um – ekki hafa djáknarnir sérstakan titil – en það verður kannski gert síðar. Minna má á að séra Jens á Setbergi ansaði ekki fólki ef það notaði séra-titilinn í ávarpi til hans – svo sagði séra Jón Prímus í Kristnihaldinu.

Upphafningarstarfstitlar stéttskipta embættismannasamfélagsins eiga ekki heima í nútímasamfélagi að mati Kirkjublaðsins.is. Titlatogið eru leifar af embættismannastétt frá því að kirkjan var í faðmi ríkisvaldsins – sú tíð er runnin á enda. Vilji þjóðkirkjan ganga inn í nútímasamfélagið er ráð að leggja þetta titlafargan af. Það væri stórt skref til móts við fólkið í kirkjunni og utan hennar. Ekki skortir ýmsar tilvísanir til hefða og siða innan kirkjunnar sem tengjast helgihaldi og við það er ekkert að athuga.

Hver maður stendur fyrir sínu án þess að setja varnargarð titils og gamallar upphefðar í fjölbreytilegu samfélagi nútímans.

Hættum að staglast á frú og herra!

Við erum fólk. Kirkjan er fólkið.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir